Færslur

Árnakrókur

Gengið var um svæði Elliðakots í vestri og Lyklafells í austri. Getgátur hafa verið um selstóftir. Ætlunin var að gaumgæfa svæðið. Farið var upp frá Fossvöllum í Lækjarbotnum með stefnuna til norðurs niður og inn með Lönguhlíðum (Elliðakotsbrekkum) milli Selfjalls og Selvatns. Kíkja átti á (Reykja)Víkurselið norðaustan við vatnið sem og

Lækjarbotnar

Árnakróksrétt og halda síðan til baka um Leirdal, Lækjarbotna og Fossvelli, yfir gömlu Hellisheiðargötuna.
Tilgangur ferðarinnar var ekki síst sá að athuga hvort hægt væri að koma auga á leifar tveggja selja, sem áttu að hafa verið á þessu svæði, þ.e. auk Örfiriseyjarsels undir Selfjalli. Bæði Viðey og Lambastaðir munu hafa haft selstöður þarna efra þótt staðsetning þeirra hafi ekki legið ljós fyrir. Jafnan hefur verið gengið út frá því sem vísu að öll selin væru í Örfiriseyjarselsstað.
Í Jarðabókinni 1703 segir að Erfersey hafi haft selstöðu undir Selfjalli þar sem heitir Erferseyjarsel. Tóftir við skátaskálann sem þar er syðst í Botnunum munu að öllum líkindum vera leifar þess, sem og seinni tíma búskapar (beitarhús).
Í örnefnaskrá fyrir Lækjarbotna eftir Guðlaugur R. Guðmundsson kemur m.a. fram að “býlið [Lækjarbotnar] stóð á hólnum, Bæjarhólnum, sem er til hægri, þegar þjóðvegurinn er ekinn þá í austurátt. Hóllinn reyndist það hár, þegar bílöld gekk í garð, að erfiðleikum var háð fyrir bóndann að aka upp á hólinn og leggja veg að bænum. Þar af leiðandi færði bóndinn býlið, 1907, yfir hinum megin, þar sem land var lægra, og reisti þar nýjan bæ. Hann nefndi húsið Lögberg. Þar bjó Guðmundur til dauðadags 1957.
Lækjarbotnar Bóndinn treysti því og, að vatnsból gott væri rétt hjá Lögbergi, en vatnsmagn er þar mjög breytilegt í Fossvallaá og Fossvallaklifið oft þurrt. Karl segir, að aðeins árin 1921 og 1976 hafi runnið allt sumarið í ánni.
Undir Selfjalli eru Selhólar. Þar fyrir framan er Gráhóll og Pálspyttur við hann, þar sem Páll hefur líklegast farið undir ís.
Sel frá Viðey var inn með Gömlubotnum.” Í athugasemdir og viðbætur við Lækjarbotnaörnefnalýsinguna skráði Sigríður Jóhannsdóttir eftir Jóni I. Bjarnasyni að “Fossvallaklifið [hafi] oftast [verið] þurrt; þar rennur aldrei vatn; klifið er, þar sem gamli vegurinn var, og hraðbrautin liggur núna um klifið upp á Fossvogsvellina. Þar hefur aldrei runnið nein á. Lækurinn og pytturinn nú orðnir þurrir, síðan nýi vegurinn var lagður.
Jörðin Örfirisey var landlítil; átti selstöðu undir Selfjalli, ekki Viðey. Af því dregur fjallið nafn. Þar sem selið var, heita Selhólar; sjást rústir ennþá, nú reyndar mjög sokknar.”
LækjarbotnarUm selstöðu Reykjavíkurbæjarins segir að jörðinni hafi verið eignuð slík “þar sem heitir Víkursel undir Undirhlíðum; sumir kalla það gamla Víkursel; þar hefur jörðin brúkað hrís til eldiviðar fyrir selsins nauðsyn.” Og þar sem Langahlíð var í sunnanverðri Öskjuhlíð var jafnvel talið að Víkursel hafi verið þar sem nú má sjá leifar. Skammt frá eru merki eftir sel frá Hlíðarhúsum.
Í Sögu Reykjavíkur eftir Klemens Jónsson segir: “Að búskapur hefur verið mikill, má meðal annars sjá af því, að jörðin átti sel, Víkursel, er var notað með vissu ennþá um 1600, en hvar það sel hafi verið, er óljóst.”
Um selstöðu Lambastaða segi

r Jarðabókin að “selstöðu þykjast nokkrir heyrt hafa jörðinni eignaða þar sem heitir undir Selfjalli og kallað er Lambastaðasel.”
Í lýsingu Viðeyjar segir “selstaða er á fastalandi þar sem heitir Viðeyjarsel, og hefur það verið brúkað frá Bessastöðum.”
Örlygur Hálfdánarson, sem manna gerst þekkir til siða og venja Viðeyinga sagðist aðspurður ekki hafa heyrt hvar Viðeyjarsel hafi verið, en fé og jafnvel kýr hafi fyrrum verið flutt úr eyjunni og í haga uppi á fastalandinu að sumarlagi. Skepnum hafi verið skipað í land í viki sunnan við Fjósaklettana utan við Gufunes. Þar hafi verið stór hellir, sem skepnunum var haldið í. Austan við vikið er höfði sem nefndur var Akurinn. Sunnan við það er ný bryggjan í Gufunesi. Ekki vissi Örlygur hvort hellir þessi væri enn til þarna, en tenging hans við flutningana og klettana væri athyglisverð.
LækjarbotnarÍ lýsingu fyirr Bessastaði er ekki minnst á selstöðu í Jarðabókinni 1703.
Guðjón Jensson, margfróður Mosfellingur, hefur talið einn möguleikann á að Viðeyjarsel hafi verið þar sem Kambsréttin í Seljadal er núna. “Þarna í Dalnum var sel frá Viðeyjarklaustri og ég hef verið mikið að velta fyrir mér gegnum tíðina hvar það hafi verið. Klaustrið var rænt skömmu fyrir miðja 16. öld. Síðasti kaþólski biskupinn í Skálholti, Ögmundur Pálsson, endurreisti klaustrið og lagði lykkju á leið sína á flóttanum þaðan er hann frétti að kóngsmenn hyggðust ná honum. Ögmundur kom við í Viðeyjarseli. Hann var handsamaður nokkru síðar af Hjalla í Ölfusi sem kunnugt er. Viðey nánast hverfur úr sögunni næstu tvær aldirnar. Ég hef leyft mér að draga eftirfarandi ályktun:  Undir Viðeyjarklaustur voru 132 jarðir sem kóngsmenn sölsuðu undir sig við siðskipti. Allar þessar jarðir voru leigðar út og var mikið kapp á að fá sem hæsta leigu út úr bændum, leiguafgjöld auk þess sem lagt var á karlana ýmsar óbærilegar kvaðir í þágu Bessastaðamanna. Nú varð ekki lengur jafn mikil þörf hjá leiguliðanum og kotungaanum í Viðey að koma lítilfjörlegum búsmala sínum frá sér og allar götur upp í Seljadal. Þar haslaði hins vegar bóndinn í Nesi, sbr. Nessel og í Örnefnalýsingu Þormóðsdals er sagt að þar í Dalnum hafi verið selför frá Gufunesi.
LækjarbotnarEftir að starfsemin í Viðey leggst af er þörfin á hinum miklu umsvifum klaustursins um vestanverða Mosfellsheiðina engin. Kóngsmenn hafa látið afskiptalaust þó bændur, leiguliðarnir byggðu sér fjárrétt úr grjótinu og einhver þægindi þarna í Dalnum, enda hefði það aftur betri möguleika að standa
í skilum með afgjald jarðanna.
Mér finnst líklegt að Viðeyjarsel hafi fyrrum verið þar sem nú eru rústirnar af Kambsréttinni. Þar er t.d. mjög stutt í rennandi vatn en seljabúskapur byggðist á greiðum aðgangi að góðu vatni til að tryggja gæði afurðanna.”
Haldið var inn með Lækjarbotnum norðanverðum. Þegar ganga á inn með hlíðunum þarf að ákveða strax hvorum megin við ána, sem verður til undir þeim miðsvæðis, ætlunin er að ganga. Annars er hætta á að lenda í sjálfheldu.
Fossvallaá rennur þarna niður, þ.e.a.s. þegar eitthvert vatn er efra, en farvegi hennar hefur verið breytt oftar en einu sinni. Varnargarður hefur verið gerður syðst á Fossvallabrúnum til að beina vatnsflaumi frá Lækjarbotnum. Mikið gil er í hlíðinni þar sem áin rann áður. Á því sést vel hversu mikill vatnsflaumurinn getur orðið. Nú er þarna fallegt náttúrufyrirbæri – á þurru.  Einhvern tíma hefur verið fallegur foss efst í gilinu Fossvallafoss). Foss þessi, sem og öll Fossvallaáin efra, hefur ákvarðað núverandi mörk Kópavogsbæjar annars vegar og Mosfellsbæjar hins vegar.

Lækjarbotnar

Í örnefnalýsingu fyrir Elliðakot eftir Tryggva Einarsson frá Miðdal segir að þarna hafi Fossvallaá runnið. “Dregur [hún] nafn af fallegum fossi, þar sem áin rennur niður í Nátthaga. Svo áfram niður í vesturenda Nátthagavatns. Úr Nátthagavatni ræður Hólmsá mörkum, þar til Dugguós og Hólmsá mætast.”
Hús er í Lækjarbotnum í Suðurbrekku, forskallað og að falli komið. Skammt frá því eru miklar vatnsuppsprettur. Segja má að líkt sé að hlíðin öll leki á kafla. Nýlegar vilpur er nálægt húsinu, en þarna má einnig sjá eldri mannvirki – hlaðið umhverfis lænur og myndanir á vatnsstæðum og brunni.
Ef svæðið er skoðað vel og vandlega er ljóst að þarna hefur verið kjörin selsstaða; ágætt skjól fyrir austanáttinni, nóg vatn, ágæt beit, auðvelt aðhald og stutt í meginþjóðleið því gamla gatan austur fyrir fjall lá þarna skammt suðaustar.

Lítill trjálundur með hávöxnum grenitrjám er þarna skammt frá. Hið kynlega við lundinn er sá að honum hefur verið plantað þvert fyrir gróna skeifulaga kvos í hlíðinni. Trén skyggja á miðdegissólina í þessu annars ágæta skjóli. Þegar stofnar trjánna voru skoðaðir betur mátti sjá móta fyrir líkt og veggjum og rýmum. Lundurinn er nægilega stór til að geta hulið seltóftir. Trén virðast vera um um 60-80 ára og því væntanlega eldri en húsið, sem þarna “stendur”. Ekki kæmi á óvart að þarna kunni að leynast Viðeyjarselið. Ef svo er virðist eðlilegt að Ögmundur Pálsson, biskup, hafi komið við í Viðeyjarseli á leið hans að Hjalla í Ölfusi á 16. öld.
Lækjarbotnar Í örnefnaskrá fyrir Elliðakot eru hlíðarnar nefndar Elliðakotsbrúnir, sem verður að teljast eðlilegt frá bænum séð. Þær mynda sýnileg nýtingarmörk jarðarinnar í austri. Þær eru þó greindar í nafnkenndar brekkur, eins og á eftir verður lýst. Nátthagavatn er suðaustan við Elliðakot. Náthaginn er/var vestan við norðanvert vatnið. Þar er nú sumarhús. Skammt austan við vatnið mótar fyrir gömlum vegi. Hlaðið hefur verið þvert ána til að auðvelda akstur yfir hana. Norðan við vaðið eru tvö gömul bílhræ, annað sennilega frá stríðsárunum, en þarna var víða aðstaða hernámsliðsins. Vaðið hefur því ekki verið auðveldara en svo a.m.k. tvö ökutæki hafa gefið þar upp öndina.
Vilborgarkot var þar sem nú er sumarbústaður norðvestan við Nátthagavatn. Nátthaginn sjálfur var og er suðaustan við vatnið. Í honum miðjum er Grindarhóll. Þessar uppplýsingar komu frá Guðlaugi R. Guðmundssyni. Hann sagði miklar upplýsingar liggja fyrir í Skjalasafni Reykjavíkur um þetta svæði frá tímum þrætumála um eign á landinu um 1891, m.a. nákvæmir uppdrættir og aðrar upplýsingar.
Skammt norðaustar er hlaðin ferhyrnd rétt (4x12m) eða gerði. Í fyrstu gæti verið um húsgrunn að ræða, svo vandlegar eru hleðslur, en réttin er hlaðin utan í hæðina og hleðslur vantar norðaustast í henni. Grjótið hefur væntanlega verið sótt í grjótnámuna við Elliðakot, sem þarna er í sjónfæri til vesturs. Bærinn sjálfur var hlaðinn úr grjóti úr námunni, auk fleiri mannvirkja. Líklegt má telja að þarna geti verið um að ræða hestarétt við gömlu þjóðleiðirnar um Hellisheiði og til Þingvalla. Guðlaugur taldi þetta vera svonefnda Fossklúku, aðhald fyrir fé. Op er til vesturs og vísar að þjóðleiðinni. Hæðin ofan við réttina heitir Dyngja. Skarð er í henni skammt norðvestar. Ofan við það eru leiðir varðaðar áfram upp á Mosfellsheiði, áleiðis að Þingvöllum annars vegar, og áleiðis að Hellisskarði hins vegar. Vörðurnar standa enn, stórar og stæðilegar, enda varla eldri en frá því á fyrstu áratugum 20. aldar.
Ofar er Miðdalsheiði. Frá brúnunum er ágætt útsýni yfir Nátthagavatn, Lækjarbotna og brekkurnar í Elliðakotsbrúnum (Lönguhlíðum).
Lækjarbotnar Í örnefnalýsingunni segir að “frá Fossvallafossi og norður að Dugguósi eru samfelldar heiðarbrúnir. Heiðin upp af brúnunum heitir Elliðakotsheiði. [Hér er Elliðakotsheitið komið á a.m.k. hluta Miðdalsheiðarinnar]. Þar er allstór hvilft suðvestur í heiðinni, sem Leirdalur heitir. Áðurnefndar heiðarbrúnir heita Elliðakotsbrúnir. [Hér eru Fossvallabrúnir nefndar Elliðakotsbrúnir]. Vestan undir brúnunum eru grasigrónar brekkur, þær heita, frá Fossvallafossi, Suðurbrekkur, Miðbrekkur og Norðurbrekkur. Vestan undir Suðurbrekkum eru miklar vatnsuppsprettur (veit ekki, hvort þær bera nafn). Mynda þær árspotta með alldjúpum hyljum niður í Nátthagavatn.”

Skammt norðvestan við réttina er gróin ílöng þríhólfa tóft neðst í grónum bala. Ofar í balanum hefur verið reistur sumarbústaður, sem nú er horfinn.
Rústin hefur öll einkenni selstöðu. Rýmin eru þrú, þar af tvö með sameiginlegum inngangi. Þar sem einungis vantar eitt af seljunum, Lambastaðasel, má ætla að þarna hafi það verið – þótt ekkert sé öruggt í þeim efnum. A.m.k. er þarna um að ræða tóftir, nánlast jarðlægar, sem hvergi hefur verið getið um, hvorki í örnefnalýsingum né fornleifaskráningu af svæðinu. Erfitt er að koma auga á tóftirnar. Í fyrsta þarf að hafa þjálfað auga til að greina þær – og auk þess þarf að nálgast þær úr austri.
Tóftirnar sem og landssvæðið allt tilheyrði fyrrum Seltjarnarnesi hinu forna.
Byggð á Seltjarnarnesi er vafalaust frá þjóðveldisöld, en athafna manna í Seltjarnarneshreppi hinum forna er fyrst getið árið 1581. Þann 15. nóvember það ár var gerð svokölluð Seltjerningasamþykkt. Hún fjallaði um tillag húsmanna og hjáleigumanna til hreppsþarfa. Segir í henni, að hreppstjórarnir í Seltjarnarneshreppi hafi komið saman í Reykjavík og rætt nauðsynjamál hreppsins. Samþykktin er merkileg fyrir tvennt. Að vera fyrsta heimild um Seltjarnarnes hinn forna og fyrir að vera gerð í Reykjavík, sem var þá einstök jörð í hreppnum. Kópavogur kemur svo til sögunnar við staðfestingu Seltjerningasamþykktar, en þar var þingstaður Seltjarnarness langt fram eftir 18. öld.
Lækjarbotnar Seltjarnarneshreppur hinn forni náði yfir allt Nesið, sem liggur á milli Kollafjarðar og Skerjafjarðar og allt til fjalla. Austasta jörðin var Kópavogur, en austan Kópavogslækjar tók við Arnarnes í Álftaneshreppi. Elliðaárnar mörkuðu skil við Mosfellssveit. Í upphreppnum voru jarðirnar Hólmur, Elliðavatn, Vatnsendi, Breiðholt, Hvammkot, Digranes, Bústaðir og Kópavogur. Margar þessara jarða voru svo smám saman teknar undan hreppnum og fyrsta jörðin var Reykjavík, ásamt Arnarhól og Örfirisey. Það var Rentukamerið í Kaupmannahöfn, sem fól Vigfúsi Þórarinssyni sýslumanni árið 1786 að láta mæla út svæði fyrir kaupstaðinn nýja. Reykjavík varð þó ekki sérstakt lögsagnarumdæmi fyrr en 1803.
Landamörk og lögsaga Reykjavíkur fór þannig ekki saman á árunum 1786 til 1803. Fyrstu sveitarstjórnarlög á Íslandi voru sett 1872, en fyrsta hreppsnefnd Seltjarnarneshrepps var þó ekki valin fyrr en á hreppaskilaþingi í júní 1875. Þann 20. júní 1923 voru samþykkt lög á Alþingi um stækkun lögsagnarumdæmis Reykjavíkur, sem skyldi nú ná yfir jarðirnar Bústaði, Breiðholt og Eiði, en lög frá árinu 1894 tóku Laugarnes og Klepp af Seltirningum. Skildinganes var svo tekið 1932.
Eftir þennan aðskilnað var Seltjarnarnes enn að mestu sveitarhreppur og fjallskil og umstang með búfénað voru meðal verkefna hreppsnefndar. Árið 1943 voru jarðirnar Elliðavatn og Hólmur og spilda úr Vatnsendalandi teknar undir Reykjavík.
Við hreppsnefndarkosningu 7. júlí 1946 fékk listi Framfarafélagsins Kópavogur hreinan meirihluta.. Eftir það voru flestir fundir á þessu Kópavogstímabili haldnir á heimili oddvita að Kópavogsbraut 19. Það dró að sambandslitum milli Kópavogs og Seltjarnarness, því sumarið 1947 gengu undirskriftarlistar um Nesið, þar sem farið var fram á skiptingu hreppsins. Mál þetta fór í þann farveg, sem meirihlutinn vildi, þ.e. skiptingu. Kom sér illa fyrir Seltirninga að vera í minnihluta, því Kópavogsbúar vildu fá allan Upphreppinn, en Seltirningar vildu halda a.m.k. Lækjarbotnum, Gunnarshólma og Vatnsenda, auk afréttarlanda.

LækjarbotnarSvo fór þó ekki og hafði Kópavogur sín mál fram. Einn hreppsnefndarmaður vildi að afrétturinn allur yrði áfram í eigu Seltjarnarneshrepps hins nýja, en Kópavogsbúar skyldu fá afnotarétt. Niðurstaðan varð óljós sameiginlegur afnotaréttur. Í ársbyrjun 1948 er hinn nýi Seltjarnarneshreppur orðinn til. Þann 8. júní 1973 var haldinn sérstakur hátíðarfundur á Seltjarnarnesi og lá fyrir sú tillaga að óska eftir kaupstaðarréttindum.
Kópavogur fékk svo kaupstaðaréttindi með lögum nr. 30 frá 11. maí 1955. Í 1. gr. laganna segir: “Kópavogskaupstaður nær yfir allan Kópavogshrepp.”
Á árinu 1989 barst Kópavogskaupstað bréf frá Félagsmálaráðuneytinu, þar sem spurt var um afrétt Kópavogs. Sigurður Björnsson, bæjarverkfræðingur svaraði spurningum ráðuneytisins með bréfi dags. 28/3 1989. Hann segir að meðan búskapur hafi verið stundaður í Kópavogi hafi bændur átt upprekstararrétt í þann afrétt, sem áður var afréttur Seltjarnarneshrepps. Bent er á að í samningi um skipti sveitarfélaganna 1948 hafi sagt, “að fjallskil og refaeyðing á afrétti skuli vera sameiginleg, þar til hreppsnefndir ákveða annað með samþykki sýslunefndar Kjósarsýslu. Bent er á það að það sé stefna sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu að leggja af allan fjárbúskap og friða afréttinn og þar með banna allan upprekstur. Spurningunni um hvort sveitarfélögin hafi komið sér saman um til hvors þeirra afrétturinn skuli teljast svarar Sigurður á þá lund, að bæjaryfirvöld í Kópavogi hafi talið að við skiptin 1948 hafi afrétturinn átt að falla til Kópavogs.
Þótt Kópavogsbær byggir kröfur sínar á því að Lækjarbotnar sé fullkomið eignarland Kópavogsbæjar samkvæmt þinglýstum eignarheimildum. Í þinglýstum heimildum er “jörðin Lækjarbotnar nýbýli og var Þorsteini Þorsteinssyni veittur nýbýlisréttur fyrir jörðinni þann 11. febrúar 1868. Nýbýlaleyfið var gefið út af Hilmari Steindór Finsen stiftamtmanni yfir Íslandi og amtmanni yfir suðuramti, með vísan til nýbýlatilskipunar frá 15. apríl 1776. Í nýbýlabréfinu kemur fram að þann 22. júlí 1865 hafi Þorsteini Þorsteinssyni verið útnefnt landi því, er hann kallar að Lækjarbotnum og útnefningin hafi verið staðfest með úrskurði héraðsréttar Gullbringu- og Kjósarsýslu 4. des. 1866. Mörk Lækjarbotnalandsins er lýst með eftirfarandi hætti í nýbýlisbréfinu:
Lækjarbotnar “Að norðaustanverðu syðsta kvíslin af Fossvallaós frá Lækjarmóti sem rennur frá honum, upp að þúfu sem stendur í Holtstanga fyrir neðan Neðri-vötn þaðan til úrsuðurs í mógrýtisklett með rauf í, er snýr í suður, svo sömu stefnu eptir langri brekku alla leið að Sandfellshnúk, sem það nær langt til norðurs. Þaðan til norðvesturs í suðvesturhorn á Selfjalli. Þaðan suður-austurhlið brunahraunsins fyrir norðan Selfjallið niður fyrir bæ að læknum og eptir honum norður í á, hvert land hefur verið álitið 6H að dýrleika.”
Bréfið var lesið á manntalsþingi á Mýrarhúsum 3. júní 1882 og innfært í afsals- og veðmálabók Kjósar- og Gullbringusýslu.

Með afsali dagsettu 8. október 1947 afsalaði Guðmundur Sigurðsson bóndi, Lækjarbotnum, eignarjörð sinni Lækjarbotnum til Seltjarnarneshrepps með öllum gögnum og gæðum. Í afsali er vísað til kaupsamnings sem gerður var á milli Guðmundar Sigurðssonar og Benedikts Elfars, kaupmanns um sömu jörð. Seltjarnarneshreppur neytti forkaupsréttar sem leiddi síðar til málaferla. Úr varð að Seltjarnarneshreppi var afsalað Lækjarbotnalandinu sbr. fyrrnefnt afsal.
Með bréfi félagsmálaráðuneytisins dagsettu 10. desember 1949 var Seltjarnarneshrepp skipt í tvö hreppsfélög, Seltjarnarneshrepp og Kópavogshrepp. Í lið 8 í bréfi ráðuneytisins kemur fram að jörðin Lækjarbotnar skuli vera eign Kópavogshrepps. Jafnframt er kveðið svo á um að Lækjabotnalandið skuli vera innan lögsögu hreppsins. Ákvæði þessi um eignarétt Kópavogshrepps yfir Lækjarbotnum voru færð inn í veðmálabók Kjósarsýslu þann 6. apríl 1949. Með vísan til þessara heimilda er augljóst að Kópavogsbær er eigandi Lækjarbotnalandsins, eins og það er afmarkað fyrr í kröfugerð þessari.
Dyngjan, ásinn austan Elliðakots, var yfirgefin og haldið yfir að Selvatni. Ásarnir bera jökulskriði glöggt vitni. Jökulrispaðar klappir (hvalbök) eru víða og má sjá hvar jökullinn hefur skriðið fast og ákveðið fram frá austri til vesturs.
Lækjabotnar Tvö sel eru jafnan sýnd á landakortum við austanvert Selvatn, Litlasel og Stórasel. Litlasel var þar sem nú er bústaður fyrrum eiganda Gunnarshólma. Hann upplýsti FERLIR á sýnum tíma að þar hafi verið vegghleðslur áður en hann ruddi svæðið fyrir bústaðinn. Stóraselsnafnið, skammt norðar, er sennilega sama nafnið og Víkurselsnafnið, bara ranglega merkt inn á landakort.
Víkurselið er norðan við Selbúð, nánast jarðlægt orðið. Það er á milli Sellækjar og Urðarlágarlækjar. Varla er hægt að greina rýmisskipan í dag, en þó má sjá á gróðri í tóftinni að hann er annar en umhverfis.
Skammt vestan við tóftina er önnur, minni, fast vestan við Sellæk. Líklega er þarna um að ræða hluta af mannvirkjum selsins, en ekki er hægt í dag að glöggva sig á hvað þarna er undir. Nýlegir bústaðir eru allt í kring og svo virðist, af nýlegum vegi að dæma, að byggja eigi hús þar sem Víkurselið er nú – eða var.
Efstu, stöðugu upptök Elliðaánna eru við Selvatn og í Lækjarbotnum við Nátthagavatn.
Haldið var austur fyrir Selvatn, upp í Árnakrók. Í honum er Árnakróksréttin, ein friðlýstra minja Mosfellssveitar.
Í örnefnalýsingu Elliðakots segir m.a. að “nokkru ofar við vatnið er Árnakrókslækur. Austan við Sellækjarupptök er allstór klettahóll, sem Árnakrókshóll heitir. Austur af Árnakrókshól er allstór valllendiskriki, sem Árnakrókur heitir. Á klapparsvæði norður af Árnakrók er Árnakróksrétt (að mestu uppi standandi), var skilarétt Mosfellinga. Var flutt að Hafravatni um síðustu aldamót. Heitir nú Hafravatnsrétt. Árnakróksrétt var annáluð fyrir brennivínsþamb og hæfileg slagsmál. Sótti þar að fjölmenni úr Reykjavík og nágrenni og var vakað alla réttanóttina.”

Selvatn

Árnakrókur – Selvatn ofar.

Árnakróksréttin var hlaðin um 1850 eftir að Kambsrétt í Seljadal var lögð af. Réttin var brúkuð fram til aldamóta 1900 er ný rétt var hlaðin við Hafravatn.
Haldið var áfram til suðurs yfir heiðina með viðkomu í Leirdal. Grunur var um að þar kynnu að leynast í honum suðaustanverðum tóftir, en ekki gafst tími til að skoða svæðið að nákvæmni að þessu sinni. Það verður gert síðar.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mínútur.

Heimildir m.a.:
-http://www.obyggd.stjr.is/svland/57.pdf
-http://www.obyggd.stjr.is/sv2.pdf
-http://www.kopavogur.is/upload/files/skyrsla(1).pdf
-Örnefnalýsing fyrir Elliðakot – Tryggvi Einarsson.
-Örnefnalýsing fyrir Lækjarbotn.
-Saga Reykjavíkur – Klemens Jónsson.
-Guðlaugur R. Guðmundsson (68 ára).

Skófir

Nátthagavatn

Í Skátablaðiðinu í febrúar 1939 er fjallað um húsbyggingarmál skáta, m.a. byggingu skátaskála við Nátthagavatn ofan Reykjavíkur.

Arnarból

Arnarból – loftmynd.

“Flest skátafélög á landinu, sem nokkrum aldri og þroska hafa náð, hafa ráðist í húsbyggingar af einhverri gerð. Sum hafa byggt sumarskála, önnur funda og samkomuhús o. s. frv. Öllum hefir verið það ljóst, að með einhverjum samastað, hefir skapast festa í félögunum, og framtak og starfsþrek einstaklinga þeirra notið sín við byggingarnar, og fjáröflun til þeirra. Nægir að geta um í þessu sambandi byggingar skátafél. Væringja og Arna við Lækjarbotna og Elliðakot, skátafél Einherja á Ísafirði, skátafél. Fálkar á Akureyri og samskonarfundarhús skátafél. Væringjar á Akranesi, sem að mínum dómi hefir bezt náð tilgangi sínum, enda þótt jeg viðurkenni fyllilega þörf sumar- og skíðaskála.

Arnarból

Arnarból.

Hér í Reykjavík er nú vaknaður meðal skáta mikill áhugi fyrir húsbyggingu til afnota fyrir skátafélögin, enda mjög mikilsvert fyrir allan félagsskap skáta að ráða yfir heppilegu húsnæði til æfinga og fundarhalda. Allir eldri skátar finna mjög til þess, hve ábótavant er í þessum efnum hér í bænum, og munu nú einhuga um að hrinda í framkvæmd hið allra fyrsta húsbyggingu, er orðið getur samastaður skáta og félagsskapar þeirra, auk þess ættu félagar utan af landi að geta átt þar örugt athvarf er þeir koma til Reykjavíkur.
Þegar velja á stað undir slíka hyggingu verður að taka tillit til tvenns, að staðurinn sé sem næst því í miðbænum, vegna fundarsókna og æfinga, og liggi vel við umferð, t.d. vegna verzlunar. Verði þessa gætt við ákvörðun staðar undir væntanlega húsbyggingu, er vel fyrir öllu séð, því ýmsar ráðagerðir eru uppi í sambandi við bygginguna og ákornast þá mjög sennilega í framkvæmd skátahreyfingunni til eflingar og þroska.

Arnarból

Arnarból.

Þann 10. nóv. síðastl. samþykkti stjórn B. í. S. að skipa bygginganefnd í samráði við skátafélögin í Reykjavík. Tók nefndin strax til starfa, við undirbúning fjáröflunar til lóðarkaupa, sem hraða ber, vegna þess að lóðunum fækkar óðum, sem nothæfar eru.
Byggingarnefndin hefir nú fengið leyfi dómsmálaráðuneytisins til þess að hafa happdrætti um sumarbústað „Arna“ við Nátthagavatn, sem að fasteignamati er, með stórri eignarlóð, metin á kr. 9500.00.
Er sumarbústaðurinn byggður á svo skemmtilegum stað og sjálfur svo eigulegur, að nefndin vonar að auðvelt verði að selja happdrættismiðana, þegar um svo stóran og glæsilegan vinning er að ræða og í annan stað stuðningur við félagsskap skáta, sem á almennum vinsældum að fagna.
Í Reykjavík eru nú starfandi um 8—900 skátar, að kvenskátunum meðtöldum. Ef allur sá hópur sameinar sig um, að koma sem fyrst upp veglegri húsbyggingu hér í bænuin, er vissa fengin um góðan árangur. Skátar, piltar og slúlkur, hugleiðið það, að væntanleg skátabygging á að vera ykkar annað heimkynni, æfingar og samkomustaður,  kynningastaður við skáta utan af landi, sem og aðsetur stjórnar skátamálanna og félaganna í bænum. Um þetta mál mætti margt segja fleira, en svo treysti ég á dómgreind og framtakssemi allra skáta, og er þess fullviss, að byggingarnefndin á í hverjum einstakling vissan stuðningsmann, enda er þá helzt von um fljótan og góðan árangur.
Byggingarnefndarmaður.”

Í dag má skálinn sá muna fífil sinn fegurri. Og svo virðist sem eignarlóðin verðmæta á svo frábærum stað ofan Nátthagavatns nýtist í dag skátastarfi reykvískra skáta í engu.

Heimild:
-Skátablaðið V. árgangur 1. tölublað febrúar 1939, – Húsbyggingarmál skáta, bls. 1.

Skátablaðið

Skátablaðið.