Tag Archive for: náttúruvætti

Litluborgir

Í skýrslu Umhverfisstofnunar; „Litluborgir – Hafnarfjarðarbær, Stjórnunar- og verndaráætlun“ frá árinu 1022 er fjallað um Litluborgir í Þríhnúkahrauni ofan Helgafells. Þar segir m.a.: „Leiðarljós fyrir stjórnun náttúruvættisins Litluborga er að standa vörð um sérstæðar jarðmyndanir sem hafa mikið fræðslugildi.

Hið friðlýsta svæði

Litluborgir

Litluborgir – friðlýsingarkort.

Litluborgir voru friðlýstar sem náttúruvætti árið 2009 með auglýsingu nr. 395/2009. Mörk náttúruvættisins eru sýnd á korti í viðauka ll og afmarkast af þeim hnitum sem gefin eru upp í ISN93 hnitakerfi. Stærð svæðisins er 10,6 ha.
Litluborgir eru hraunborgir og gervigígar sem myndast hafa við það að hraun hefur runnið yfir stöðuvatn. Hellar og skútar eru í hrauninu og eru þeir viðkvæmir fyrir ágangi.
Markmiðið með friðlýsingu Litluborga er að vernda sérstæðar jarðmyndanir í landi Hafnarfjarðar. Jafnframt er það markmið með friðlýsingunni að varðveita jarðmyndanir svæðisins vegna mikils fræðslugildis.

Tengsl við áhrifasvæði og aðkomuleiðir

Litluborgir

Litluborgir.

Litluborgir eru innan Reykjanesfólkvangs. Svæðið er í næsta nágrenni við vinsælt útivistarsvæði við rætur Helgafells. Erfitt er fyrir ókunnuga að finna svæðið þar sem það lætur lítið fyrir sér fara í hrauninu og auðvelt að ganga fram hjá því. Hægt er að komast að því gangandi með því að fylgja línuvegi sem liggur við jaðar svæðisins. Við jaðar svæðisins er Búrfellslína 3b. Línan er innan afmarkaðs beltis fyrir háspennulínur í aðalskipulagi Hafnarfjarðar.

Stjórnunar- og verndaráætlun

Litluborgir

Litluborgir.

Vinna við gerð stjórnunar- og verndaráætlunar Litluborga hófst í nóvember 2020. Áætlunin er unnin af samstarfshópi sem skipaður var vegna gerðar hennar og er hún sett í samræmi við 81. gr. laga um náttúruvernd nr. 60/2013. Stjórnunar- og verndaráætluninni er ætlað að vera stefnumótandi skjal sem lýsir framtíðarsýn og þeim grundvallarsjónarmiðum sem höfð eru til hliðsjónar um hvernig viðhalda og auka eigi verndargildi svæðisins. Áætlunin er unnin í samstarfi við Hafnarfjarðarbæ.

Eignarhald og umsjón

Litluborgir

Litluborgir – loftmynd 2023.

Litluborgir eru í upplandi Hafnarfjarðarbæjar og er sveitarfélagið landeigandi. Umsjón og rekstur náttúruvættisins er í höndum sveitarfélagsins Hafnarfjarðar samkvæmt samningi á milli sveitarfélagsins og Umhverfisstofnunar sem staðfestur var af umhverfis- og auðlindaráðherra árið 2015 og gildir til tíu ára, sjá samningur. Umsjón og rekstur felst m.a. í því að sveitarfélagið sér um að svæðið líti vel út, fjarlægir rusl, hefur eftirlit með því að verndargildi svæðisins rýrni ekki, bregst við raski o.s.frv. Málefnum sem upp kunna að koma og kalla á sérstakar ráðstafanir eða stjórnvaldsákvarðanir ber að vísa til Umhverfisstofnunar.

Lagalegur og stjórnsýslulegur rammi

Reykjanesfólkvangur

Reykjanesfólkvangur.

Náttúruvættið Litluborgir er innan Reykjanesfólkvangs sem var friðlýstur árið 1975 með auglýsingu nr. 520/1975. Starfsmaður Umhverfisstofnunar er áheyrnarfulltrúi í stjórn fólkvangsins og upplýsir stjórnina um umsjón og rekstur náttúruvætta innan
Reykjanesfólkvangs.
Hluti svæðisins er grannsvæði vatnsverndarsvæðis höfuðborgarsvæðisins. Allar framkvæmdir og starfsemi sem geta ógnað öryggi vatnsöflunar eru bannaðar á grannsvæðinu sjá vatnsverndarsvæði og reglugerð nr. 1999/796 um varnir gegn mengun vatns og kort af vatnsverndarsvæði höfuðborgarsvæðisins.

Verndargildi og verndarflokkur

Litluborgir

Í Litluborgum.

Verndargildi Litluborga felst fyrst og fremst í sérstæðum jarðmyndunum. Til að stuðla að vernd jarðfræðilegrar fjölbreytni landsins og fjölbreytni landslags, skal, skv. b-lið 3. gr. náttúruverndarlaga nr. 60/2013,stefnt að því að vernda jarðmyndanir sem eru sérstakar eða einstakar á lands- eða heimsvísu. Eldhraun, gervigígar og hraunhellar njóta sérstakrar verndar sbr. 61. gr. sömu laga. Þá eru dropsteinar í hellum landsins friðlýstir sérstaklega sbr. auglýsingu um friðlýsingu dropsteina nr. 120/1974. Verndun Litluborga stuðlar auk þess að verndarmarkmiðum fyrir vistgerðir, vistkerfi og tegundir sbr. 2. gr. laga um náttúruvernd.

Litluborgir

Í Litluborgum.

Litluborgir flokkast sem náttúruvætti skv. 48. gr. náttúruverndarlaga nr. 60/2013 þar sem segir að friðlýsa megi einstakar  náttúrumyndanir sem ástæða þykir til að varðveita sökum fræðilegs gildis, fegurðar eða sérkenna. Þetta geta t.d. verið fossar, eldstöðvar, hellar og drangar, svo og fundarstaðir steingervinga, sjaldgæfra steinda, bergtegunda og berggerða, eða lífræn fyrirbæri sem eru einstök og skera sig úr umhverfinu. Friðlýsingin skal jafnframt ná til svæðis kringum náttúrumyndanirnar svo sem nauðsynlegt er til þess að þær fái notið sín.

Náttúruminjar; jarðminjar og lífríki

Litluborgir

Í Litluborgum.

Litluborgir eru hraunborgir og gervigígar í Þríhnúkahrauni sem myndast hafa við það að hraun hefur runnið yfir stöðuvatn. Í Litluborgum er að finna hella og skúta með viðkvæmum hraunmyndunum.
Megin vistgerð svæðisins er mosahraunavist og er mosategundin hraungambri ríkjandi en vistgerðin er fátæk af æðplöntum. Þeir fuglar sem algengt er að sjá í þeirri vistgerð eru heiðlóa, spói, þúfutittlingur, steindepill og rjúpa. Svæðið er mjög viðkvæmt fyrir ágangi.

Menningarminjar
Engar skráðar menningarminjar eru innan friðlýsta svæðisins.

Ferðaþjónusta, útivist og fræðsla

Litluborgir

Litluborgir – sérstök gróðurmyndun.

Þar sem Litluborgir eru ekki mjög áberandi í hrauninu þá hafa fáir heimsótt þær í gegnum tíðina en það er að breytast með aukinni umferð útivistarfólks. Svæðið er hins vegar mjög viðkvæmt utan stíga.

Helstu ógnir
Svæðið hefur ekki verið mjög fjölfarið í gegnum tíðina enda lítið og úr alfaraleið. Engar skilgreindar gönguleiðir liggja um svæðið og því var ekki unnt að stýra umferð fólks frá viðkvæmum svæðum. Umhverfisstofnun getur takmarkað umferð á viðkvæmum svæðum, þar sem hætta er á raski á náttúruminjum eða vegna erfiðra gönguaðstæðna, og beina gestum svæðisins um aðrar leiðir. Vísbendingar eru um að efni frá möstrum geti haft neikvæð áhrif á gróður en þess sér merki í mosa á svæði í námunda við náttúruvættið.

Sérstakar reglur um umferð og dvöl

Litluborgir

Litluborgir – göngustígur frá Helgafelli 2020.

Sérstakar reglur um umferð manna og dvöl í náttúruvættinu Litluborgum sem settar eru í samræmi við ákvæði 2. mgr. 81. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd eru eftirfarandi:
1. Kvikmyndataka, ljósmyndun og viðburðir skulu ekki raska jarðminjum, gróðri eða dýralífi innan náttúruvættisins og truflun við aðra gesti skal vera í lágmarki. Kvikmyndataka og viðburðir eru háðir leyfi Umhverfisstofnunar og Hafnarfjarðarbæjar. Heimilt er að setja skilyrði um t.d. fjölda þeirra sem kom að viðburðinum, umgengni og aðstöðu þegar slík leyfi eru veitt.
2. Heimilt er að hjóla á skilgreindum hjólreiðastígum séu þeir til staðar.
3. Umhverfisstofnun getur takmarkað umferð á viðkvæmum svæðum, þar sem hætta er á raski á náttúruminjum eða vegna erfiðra gönguaðstæðna, og beina gestum svæðisins um aðrar leiðir.“

Litluborgir

Í Litluborgum 2010.

Ýmislegt í framangreindri skýrslu er annað hvort ekki rétt eða ranglega með farið. Ekkert er t.d. minnst á verksummerki akstursslóða girðingar- og rjúpnaveiðimanna við borgirnar, afmarkaða og nauðsynlega stígagerð áhugafólks að borgunum vegna áhugaleysis Umhverfisstofnunar og stjórnenda Hafnarfjarðarbæjar á upplandi bæjarins. Í skýrslunni kemur fram að ágangur á svæðið hafi aukist 2022 með tilheyrandi mosaskemmdum. Það er rangt, líkt og svo margt annað, sem ekki verður farið nánar út í hér. Svo virðist að fæst það fólk er kom að skýrslugerðinni hafi haft hið minnsta vit á viðfangsefninu! Verður það að þykja miður…

Heimild:
-Litluborgir, Hafnarfjarðarbær – Stjórnunar- og verndaráætlun, desember 2022, Umhverfisstofnun.

Litluborgir

Gengið að Litluborgum 2010.

Litluborgir

Ofan Helgafells, skammt ofan línuvegarins nálægt einu háspennulínustaurnum, er skilti. Á því má lesa eftirfarandi:

Litluborgir

Litluborgir – skilti.

„Litluborgir voru friðlýstar sem náttúruvætti árið 2009. Stærð náttúrvættsins er 10,6 ha.
Markmiðið með friðlýsngu Litluborga er að vernda sérstæðar jarðmyndanir sem hafa mikið fræðslugildi.

Litluborgir eru smágerðar hraunborgir og gervigígar sem myndast hafa þegar hraun frá Tvíbollum rann yfir stöðuvatn fyrir um þúsund árum. Aðrar merkar og áhugaverðar myndanir á svæðinu eru dropsteinar og kísilgúr.

Litluborgir

Litluborgir.

Litluborgir er undraheimur fíngerðra hraunmyndana. Líkja má þeim við minnkaða útgáfu af Dimmuborgum í Mývatnssveit. Svæðið lætur ekki mikið yfir sér úr fjaska, en þegar inn í það er komið og við skoðum nærumhverfið blasa við okkur heillandi hraunskútar, steinbogar og alls kyns form sem hraunið hefur tekið á sig þegar það flæddi hér yfir um, var undir því sauð og af urðu gufusprengingar sem tættu yfirborðið og mótuðu alls kyns kynjamyndir.“

Litluborgir

Litluborgir – friðlýsingarkort.

Náttúruminjasvæði

Í Víkurfréttum árið 1988 má lesa eftirfarandi um „Suðurnes – Ellefu staðir á náttúruminjaskrá„. Hafa ber þó í huga að í raun nær hugtakið „Suðurnes“ einungis yfir svæðið frá Hvassahrauni yfir byggðirnar austan og vestan Stapa á norðanverðum Reykjaneskaganum vestast. Grindavíkursvæðið er, og hefur verið, þar undanskilið.

Náttúruminjaskrá 1988

Forsíða Náttúruminjarskrár 1988.

„Út er komin á vegum Náttúruverndarráðs náttúruminjaskrá 1988. Bókin er með öðru sniði en fyrri útgáfur og fylgir litprentað kort af Íslandi, þar sem merktir eru staðir sem eru á náttúruminjaskrá eða eru friðlýstir.
Ellefu staðir hér á Suðurnesjum heyra undir náttúruminjaskrána en þeir eru:
(Skýringar við texta: Þar sem talan (1) stendur framan við texta er átt við hvar mörk svæðis eru skilgreind en þar sem talan (2) stendur er talað um náttúruverndargildi, t.d. sérkenni eða sérstöðu svæðis og gildi þess almennt og fræðilega séð.)

1. Keilir – Höskuldarvellir – Eldborg við Trölladyngju, Grindavík, Vatnsleysustrandarhr., Gull.

Keilir

Keilir.

(1) Mörk svæðisins eru um Keili að vestan, Markhelluhól að norðan, fylgja síðan vesturmörkum Reykjanesfólksvangs á móts við Hverinn eina, þaðan um Driffei! í Keili. (2) Mikið gígasvæði vestan í Vesturhálsi, liggur frá Höskuldarvöllum suður á milli Oddafells og Trölladyngju til Selsvalla, en úr gígaröðinni þar hefur Afstapahraun runnið. Gígasvæðið er að hluta innan Reykjanesfólksvangs. Norðan undir Trölladyngju er einstakur gígur, Eldborg, myndaður á sögulegum tíma. Á vesturmörkum svæðisins gnæfir móbergsfjallið Keilir.

Katlahraun

Katlahraun.

2. Katlahraun við Selatanga, Grindavík.
(1) Austurmörk fylgja mörkum Reykjanesfólksvangs að þjóðvegi, eftir honum að hlíðum Höfða, þaðan suður í Mölvík. (2) Stórbrotið landslag, hrauntjarnir og hellar. Friðaðar söguminjar við Selatanga.

Festisfjall

Festisfjall.

3. Hraunsvík og Festarfjall, Grindavík.
(1) Fjaran í Hraunsvík frá Hrauni að Lambastapa, ásamt kríuvarpi á Hraunssandi vestan Hrólfsvíkur. Suðurhluti Festarfjalls. (2) Snotrir sjávarhamrar og brimrofin eldstöð, Festarfjall. Fjölbreytt sjávarlíf. Fjölsóttur náttúruskoðunarstaður.

Sundhnúkagígaröðin

Sundhnúkagígaröðin.

4. Sundhnúksröðin – Fagridalur, Grindavík.
(1) Sundhnúksgígaröðin öll, frá Melhól, um Hagafell, Sundhnúk, hluta StóraSkógfells, 3,5 km norðaustur í átt að Kálffelli, ásamt 400 m breiðu svæði beggja vegna gígaraðarinnar og Fagradal sem gengur austur af enda gígaraðarinnar. (2) Tæplega 9 km löng gígaröð sem kennd er við Sundhnúk. Snotrar hrauntraðir í suðvesturhlíð Hagafells. Grindavíkurbær stendur á hrauni úr gígaröðinni. Fagridalur er grösugt dalverpi við norðvesturhorn Fagradalsfjalls. Söguminjar.

Grindavík

Grindavík – Gerðavellir fremst.

5. Strandsvæði vestan Grindavíkur, Grindavík.
(1) Strandlengjan frá Litlubót, ásamt Gerðavallabrunnum, vestur að Vörðunesi. (2) Fjölbreyttur strandgróður, fjölskrúðugt fuglalíf. Djúpar vatnsfylltar gjár, snotur hraunkantur með sjávartjörnum.

Eldvörp

Eldvörp.

6. Eldvörp – Reykjanes – Hafnaberg, Grindavík, Hafnahr., Gull.
(1) Mörk liggja úr Mölvík, nokkru austan Vatnsstæðis, 500 m austan Eldvarpagígaraðarinnar, norðaustur fyrirgíginn Lat, að borholu Hitaveitu Suðurnesja, HSK-10 við Lágar, í Þórðarfell, þaðan bein lína í veg fyrir botni Stóru-Sandvíkur, norðvestur með honum niður að Lendingamel, eftir Hafnabergi að eyðibýlinu Eyrarbæ. (2) Reykjanesið er framhald Reykjaneshryggjarins á landi,sem er gliðnunarbelt á mótum tveggja platna. Stórbrotin jarðfræði, m.a. gígaraðirnar Eldvörp og Stampar, dyngjurnar Skálafell, Háleyjabunga og Sandfellshæð, ásamt fjölda gjáa, sprungna og hrauntjarna.
Allmikið hverasvæði, fjölskrúðugur jarðhitagróður, sérstæð volg sjávartjörn.
Hafnarberg er lágt fuglabjarg með fjölmörgum tegundum bjargfugla. Aðgengilegur staður til fuglaskoðunar.

Ósabotnar

Ósabotnar – kort; ÓSÁ.

7. Ósar, Hafnahr., Miðneshr., Gull.
(1) Vogurinn með strandlengju, fjörum og grunnsævi austan línu sem dregin er á milli Hafna og Þórshafnar. (2) Mikið og sérstætt botndýralíf, fjölbreyttar fjórur, vetrarstöðvar ýmissa fuglategunda.

8. Fjörur og tjarnir á Rosmhvalanesi, Miðneshr., Gerðahr., Gull.
(1) Fjörur og sjávarfitjar frá Stafnesi að Rafnkelsstaðabergi, m.a. Sandgerðistjörn, Gerðasíki, Miðhúsasíki og Útskálasíki. (2) Fjölbreyttur strandgróður og ýmsar fjórugerðir. Lífauðugar sjávartjarnir og mikið fuglalíf.

Snorrastaðatjarnir

Við Snorrastaðatjarnir.

9. Seltjörn, Snorrastaðatjarnir og hluti Hrafnagjár, Njarðvík, Vatnsleysustrandarhr., Gull., Grindavík.
(1) Svæði frá Seltjörn til Snorrastaðatjarna, ásamt skógarreitum. Einnig syðsti hluti Hrafnagjár. (2) Gróskumikill gróður í Snorrastaðatjörnum. Gróðursælir skógarreitir undir Háabjalla og í Sólbrekkum. Mikilvægur áningarstaður farfugla vor og haust. Kjörið útivistarsvæði. Hrafnagjá er misgengissprunga með fjölbreyttum gróðri.

Ásláksstaðir

Ásláksstaðatjörn – Ásláksstaðir og Sjónarhóll.

10. Tjarnir á Vatnsleysuströnd, Vatnsleysustrandarhr., Gull.
(1) Síkistjórn, Vogatjörn, Mýrarhústjörn, Gráhella, tjarnir við Hlöðunes, Ásláksstaðatjörn, Sjónarhólstjörn, Knarrarnestjörn, Landakotstjörn, Kálfatjarnartjörn og Bakkatjörn, ásamt nánasta umhverfi. (2) Lífríkar tjarnir með fjölbreyttu fuglalífi.

Fagravík

Fagravík.

11. Látrar við Hvassahraun, Vatnsleysustrandarhr., Gull.
(1) Fjaran ogstrandlengjan frá Fögruvík að Stekkjarnesi suðuraðþjóðvegi ásamt ísöltum tjörnum og Hvassahraunskötlum sunnan vegar. (2) Sérstætt umhverfi með miklu og óvenju fjölskrúðugu fjörulífi og gróðri. Sjávartjarnir með mismikilli seltu. Katlarnir eru regluIegar hraunkúpur, e.k. gervigígar, á sléttri klöpp í Hvassahrauni. Útivistarsvæði með mikið rannsókna- og fræðslugildi í nánd við þéttbýli.

Stóra-Eldborg

Stóra-Eldborg.

Þá er einn staður hér á Suðurnesjum, Eldborgir undir Geitahlíð við Grindavík, sem lýstur hefur verið náttúruvætti. Þá er Eldey friðlýst með lögum 1940, en friðlýst land 1960.“

Jónsbúð

Jónsbúð á Krýsuvíkurheiði. Jónsbúð í umdæmi Gindavíkur, gæti seint verið talin til Suðurnesja.

Eins og kom fram í upphafi lýsingarinnar er í umfjölluninni all frjálslega farið með hugtakið „Suðurnes„. Vestanverður Reykjanesskaginn nefndist jafnan Útnes og Romshvalanes utan þess, þ.e. Garður og Sandgerði. Saman hafa svæðin á stundum verið nefnd „Suðurnes“. Grindavík hefur hins vegar aldrei í fyrri tíma heimildum verið talin til „Suðurnesja“. Ruglingurinn virðist því fyrst og fremst vera hugarbrengsl ritstjóra Víkurfrétta í viðleytni hans til að útvíkka markaðshugtakið.

Heimild:
-Víkurfréttir, Suðurnes – Ellefu staðir á náttúruminjaskrá, fimtudaginn 29. september 1988, bls. 15.

Eldey

Eldey.