“Herdísarvíkurhraun eru mikil og ná ofan frá fjalli allt niður að sjó, og er rétt að deila þeim nokkuð. Herdísarvíkurhraunið eldra er klapparhraun og er fornt mjög. Herdísarvíkurhraunið yngra er það hraun, sem runnið hefur fram vestan Lyngskjaldar, og Herdísarvíkurbruni, sem liggur austan bæjarins og hefur runnið ofan um Mosaskarð í sjó fram.”
Framangreint kemur fram í örnefnalýsingu sem hér verður stuðst við.
Gengið var niður með vestanverðum bæjarleifum Herdísarvíkur og áfram til suðurs vestan Brunna. Ætlunin var að ganga niður að Hádegisvörðu, um Alnboga og Háaberg að Herdísarvíkurseli.
Í örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar um Herdísarvík segir m.a. um svæðið suður og vestur af bænum:
“Haldið er nú vestur ofan túngarða, þar er Kátsgjóta, út frá Jöfurshliði. Upp frá Bæjarhliðinu var Kúavegur fram hjá Kúavörðu og lá allt upp undir fjallið.
Upp frá vesturtúngarði er í hrauninu Hvolpatjörnin. Sjávarkampurinn forni er þarna í hrauninu, því vestur frá túninu má sjá mikið af lábörðum steinum, eins og í Urðinni, og áfram liggur kampur þessi austur um Gerðin. Vestan túngarðins var Nýigarður, maturtagarður. En úr Skarðinu lá Brunnastígur, og þar suður af eru tjarnir, sem nefnast Brunnar. Milli tjarnanna voru stiklur nefndar Steinbogi. Þar vestur af er hrauntangi kallaður Langitangi.
Sunnan við Brunna voru á hrauninu tvær fjárborgir, sem nefndust Borgin efri og Borgin neðri. Matjurtagarðar voru í báðum Borgunum, kallaðir Borgararðar. Þarna á klöppunum er Sundvarða vestari, sem einnig er kölluð Hádegisvarða. Nú taka við gjögur mikil og klappir, en ofan við eru Flatirnar allt út á Alboga, þar um liggja fjárgötur. Á Alboga beygir ströndin til Háabergs.
Ofanvert við það er djúp gjóta, Háabergsgjóta. Eftir berginu eru Háabergsflatir allt vestur í Seljabót. Á Seljabót eru landa- og sýslumörk. Landamörk milli Herdísarvíkur og Krýsuvíkur og sýslumörk milli Gullbringusýslu og Árnessýslu. Seljabótarnef er staður þessi nefndur. Þarna má sjá selrústir gamlar, og þarna rétt hjá er hellir, Seljabótarhellir. Þá er þess að geta, að í máldaga Strandarkirkju má finna nafnið Selstaður, og hygg ég þar sé átt við þennan stað.
Norðvestur og upp frá Alboga eru Langhólar; Langhóll fremri og Langhóll efri. Þá er Hvíthóll upp af Háabergi. Gamlivegur er götuslóði, er liggur upp frá Seljabót, upp undir austurhorn Geitahlíðar. Milli Kolhrauns og Seljabótarbruna, en yfir suðurenda þess, liggur landamerkjalínan.
Selvegur er slóði, sem liggur út af Gamlavegi upp undir Löngubrekkum, sem eru nokkrir hraunhryggir uppi í hrauninu. Austur með Selvegi er Selhóll og Selhólsbruni. Þá eru Ingimundarhæðir ofanvert við Selhól og þá Hrísbrekkur þar enn ofar og skiptast í Litlu-Hrísbrekku og Stóru-Hrísbrekku.
Alfaravegurinn gamli liggur þarna um hraunið um Klifhæð, sem einnig ber eftirtalin nöfn: Klifið, Háaklif, Illaklif og Vondaklif. Nú hefur mikil og stæðileg varða verið hlaðin í Klifið, Klifsvarða, og ofan hennar er svo Sýslusteinn, og liggur (svo) þar um landa- og sýslumörk. Austur af Klifhæð er lítill hellisskúti, nefndur Sængurkonuhellir. Þar var eitt sinn förukona á ferð, dró sig inn í skútann og eignaðist barn.”
Varða er við fyrrnefnda Háabergsgjótu. Einnig voru fleiri vörður á leiðinni ofan við Háabergið, einkum um Gjögrin. Í fyrstu mátti ætla, vegna stopulleika, að þarna væru hlaðin kennileiti fyrir rekastaði eða jafnvel greni/refagildrur, en svarið felst í annarri örnefnalýsingu þar sem m.a. er getið um selstíg á þessum slóðum: “Áður er frá því skýrt, að leiðin til selja lá eftir Gjögrunum og um Háaberg. En einnig lá Seljavegur beint frá Seljabót í Brunna.”
Þessi leið milli bæjar og sels hefur verið mjög greiðfær, auk þess sem ferðin hefur þá gjarnan verið notuð til að athuga með nýlegan reka, sem gnægð er af á köflum. Hér eftir, til aðgreiningar frá efri selstígnum, verður þessi leið nefnd Neðri-Selstígur. Ætlunin er að ganga hinar Herdísarvíkurgöturnar fljótlega, þ.e. Herdísarvíkurgötu frá Geitahlíð svo og efri-selstíginn að selinu og Seljaveginn um Gamlaveg til baka að upphafsstað.
Í annarri örnefnalýsingu GS um þetta svæði segir:
“Rétt sunnan við Brunna eru fjárborgirnar tvær, nefnast Borgin efri og Borgin neðri. Kartöflugarðar voru í Borgunum og nefndust Borgagarðar. Á klöppum rétt utar var svo varða, eyktamark, Hádegisvarða, einnig nefnd Sundvarða. Þá var rétt tekin stefna í Vörina, þegar skutur skips sneri í vörðu þessa, en stafn í Sundvörðuna á kampinum upp af Vörinni.
Við Herdísarvík voru berar klappir allt innan frá Brunnrásinni út á Alboga. Gjögur var strandlengjan kölluð. Út af Alboga var klettur í fjörunni, er nefndist Svartbaksklettur. Ofan Gjögranna var nafnlaust sandflæmi allt út á Alboga, en ofan við sandinn tóku við Flatirnar, og eftir þeim lágu fjárgöturnar, sem líka voru Selsgötur til Herdísarvíkursels í Seljabót. Frá Alboga beygir ströndin til vesturs, og nefnist þar Háaberg. Spölkorn vestan Alboga er Háabergsgjóta, mikið gjögur, þar sem sjórinn spýtist upp í stórbrimi, líkt og gos úr hver. Háaberg er eggslétt hraunklöpp, en uppi á klöppinni liggja víða gríðarstórir steinar, sem brimið hefur brotið úr berginu og velt upp á klappirnar. Í norðvestur og upp frá Alboga eru Langhólar, Langhóll fremri og Langhóll efri.
Upp frá Háabergi eru Háabergsflatir. Hér ofar á hrauninu er Hvíthóll. Áður er frá því skýrt, að leiðin til selja lá eftir Gjögrunum og um Háaberg. En einnig lá Seljavegur beint frá Seljabót í Brunna. Þegar austur var haldið úr Seljabót, var á vinstri hönd Selhóll, en hrauntunga lá niður undir hann og nefnist Selhólsbruni. Á brunanum voru svo Ingimundarhæðir og þar upp af Hrísbrekkur, Litla-Hrísbrekka og Stóra-Hrísbrekka. Litlu vestar en Sýslusteinn lá alfaraleiðin gamla um Klifið, sem eiginlega var vestan landamarka. Það nefndist ýmsum nöfnum, svo sem Háaklif, Illaklif og Vondaklif.
Nú hefur verið hlaðin varða í Illaklifi, nefnist Klifsvarða. Sunnan yngra hraunsins er hellisskúti, nefnist Sængurkonuhellir. Þar leitaði kona einu sinni skjóls og fæddi þar barn. Niður frá Geitafellsendanum eystri lá stígur milli Krísuvíkurhrauns eða Krísuvíkurbruna og Herdísarvíkurbruna, neðan brunans austur í Brunna. Þótti hann betri en að fara um Háaklif. Neðrileið var hún nefnd.”
Fyrrnefndar fjárborgir eru nú uppgrónar þótt enn megi sjá móta fyrir svonefndum Borgargörðum.
Á leiðinni bar fjölmargt fyrir augu, s.s. margslungnar hnyðjur, sæbarin björgin og ýmsar grjótmyndanir. Mávager setti svip sinn á bjargsýnina og refur reyndi að komast undan á flótta ofan við Seljabót. Þegar staðið var á bjargbrúninni austan víkurinnar neðan Seljabótar mátti vera augljóst að hún heitir því nafni, enda bótanefnan jafnan notað fyrir víkur og smávoga.
Frábært veður. Gangan, sem var 9.3 km, tók 3 klst og 3 mín.
Heimildir m.a.:
-Örnefnalýsing I GS fyrir Herdísarvík.
-Örnefnalýsing II GS fyrir Herdísarvík