Færslur

Krýsuvík

Einungis ein heimild virðist vera til um eyðibýlið Nös í Krýsuvík. Líklegt má því telja að í kotinu hafi einungis verið búið stuttan  tíma, svo stuttan að ekki hafi verið talin ástæða til að geta þess í jarðabókum, manntölum eða sóknarlýsingum.
Nos-1Heimildin um Nös er að finna á uppkasti af dönsku herforingjaráðs-kortunum, sem síðan voru gefin út á fyrsta áratug 20. aldar. Kortin eru að jafnaði nokkuð nákvæm þótt vissulega megi finna í þeim villur eða misvísanir. Ekki er getið heimildarmanns eða -manna, en ólíklegt er að nafnið hafi verið ritað á uppkastið án tilefnis. Það er þó ekki að sjá í prentuðu útgáfunni. Það er þó ekki einsdæmi því á það vantar fjölmargt, sem skráð var á uppkastið. Uppkastið var þannig að inn á uppdráttinn voru skrifuð númer með rauðu bleki. Út á spássíuna voru síðan númerin skráð og aftan við þau viðkomandi heiti, örnefni eða tegund. Þar stendur: 52: “NÖS” (eyðibær). Talan 52 er skráð við hlið 48, sem stendur fyrir “Lækur” (eyðibær). Auk framangreindra númera og bæja má sjá á uppkastinu tölurnar 43: Arnarfell (eyðibær), 45: Krýsuvík, 47: Suðurkot (eyðibær), 49: Norðurkot (eyðibær), 53: Stóri-Nýjabær, 50: Snorrakot (eyðibær), 55: Gestsstaðir (eyðibær) og 54: Litli-Nýjabær (eyðibær).
nos-2Þegar svæðið austan Vestari-lækjar í Krýsuvík er skoðað; neðan og austan við Krýsuvíkurkirkju, má sjá þar greinilegar tóftir Lækjar, sem byggt var þar á 19. öld; bæjarhús, útihús og garða. Bærinn og tengdar minjar hafa greinilega verið byggðar í og utan um mun eldri minjar, hugsanlega eldra kotbýli eða jafnvel útihús frá Krýsuvík. Þar má greinilega sjá eldri túngarð og jarðlægari minjar. Ekki er ólíklegt, reyndar vel mögulegt, að þar kunni að leynast leifar Nasar, en þó er einn hængur þar á.
“Það var sú tíðin, að Krýsuvík var stórbýli, og framfleytti fjölda fólks. Var eigi aðeins stórbú á höfuðbólinu, heldur voru þar einnig margar hjáleigur, svo sem Arnarfell, Lækur, Suðurkot, Norðurkot, Snorrakot, Hnaus, Litli-Nýibær og Stóri-Nýibær. Enn fremur er getið um Gestsstaði, en langt mun síðan að þeir fóru í eyði. Við manntalið 1. nóvember 1903 voru 42 sálir í Krýsuvíkur kirkjusókn, 11 í Krýsuvík, 10 í Suðurkoti, 9 í Stóra-Nýabæ, 4 í Litla-Nýjabæ og 8 á Vígdísarvöllum, sem eru vestan Sveifluháls.”

Krýsuvík

Hnaus(ar) í Krýsuvík.

Hér að framan er getið um bæinn “Hnaus”. Þess bæjar (eyðibæjar) er ekki getið á uppkasti dönsku herforingjanna. Á seinni tíma kortum hefur bærinn sá af einhverjum ástæðum verið staðsettur upp við norðausturhorn Krýsuvíkurkirkju. Þar má nú sjá leifar útihúsa Krýsuvíkurbæjarins. Mjög líklegt má telja að Danirnir hafi þarna verið að kortleggja bæinn “Hnaus”, en orðið er nokkuð samhljóma orðinu “Nös”. Þeir skrá t.d. ekki orðrétt “Snorrakot” á uppkastið, heldur “Snúrrakot”.
“Sé Stóri-Nýibær talinn tvíbýlisjörð, eins og oftast mun verið hafa fram undir síðastliðin aldamót, og því ennfremur trúaö að einhvern tíma hafi verið byggð á Kaldrana, verða hjáleigur Krýsuvíkur 14 að tölu, þær sem menn vita nú um að byggðar hafi verið. Heita þær svo: Stóri-Nýibær (austurbærinn), Stóri-Nýibær (vesturbærinn), Litli-Nýibær, Norðurkot, Suðurkot, Lækur, Snorrakot, Hnaus, Arnarfell, Fitjar, Gestsstaðir, Vigdísarstaðir, Hali og Kaldrani.”
nos-3Hér er bærinn “Hnaus” nefndur sem og bærinn Hali. Tóftir hans má sjá í gróinni kvos ofan (norðan) við eystri Auga.
“Óvíst er og jafnvel ekki líklegt að hjáleigur þessar hafi á nokkrum tíma verið allar í byggð samtímis. Þeir Árni Magnússon og Páll lögmaður Vídalín nefna Norðurhjáleigu og Suðurhjáleigu og má telja vafalítíð að það séu sömu hjáleigurnar og nú kallast Norðurkot og Suðurkot. Einnig nefna þeir Austurhús og Vesturhús og er hugsanlegt að Austurhús hafi verið þar sem nú er Lækur, en engum getum skal að því leitt hér hvar Vesturhús hafi verið.
Í Jarðabók sinni, telja þeir Árni Magnússon og Páll Vídalín, að árið 1703 hafi 7 af hjáleigunum verið byggðar og er þá tvíbýli í Stóra-Nýjabæ. Þá geta þeir og þess, að Krýsuvíkin sé eign dómkirkjunnar í Skálholti og að kirkjan í Krýsuvík sé annexía frá Selvogsþingum; telja þeir, að 41 sála sé í söfnuðinum; en þess má geta hér, að um miðbik 19, aldar voru um 70 manns í Krýsuvíkursókn. Ef treysta má því að þeim Páli og Árna hafi verið rétt skýrt frá sauðfjáreign þeirra sem hér eru fyrst taldar, hafa átt rétt til fuglatekju í bjarginu, og þó aðeins í þeim hluta þess, sem kallaður er Kotaberg. Er það miðhluti bjargsins; austan heimabergsins en vestan Strandarbergs. Þó leyfðist hverri hjáleigu ekki, að taka fleiri egg en 150 og ekki að veiða meir en 300 fugla(svartfugl, álku og lunda). Ekki fylgdu heldur neinar engjar öðrum hjáleigum en þessum sex og hafði hver þeirra nokkrar skákir, ýmist á Vesturengjum eða Austurengjum.
nos-4Á flestum þessara 6 býla mátti fóðra tvær kýr, hesta eftir þörfum og um sauðfjáreign, munu engin ákvæði hafa verið, né þótt þurfa. Þegar Nýjalöndin (hið innra og fremra) lágu ekki undir vatni, úr Kleifarvatni, áttu og þessar sex hjáleigur (en ekki aðrar) tilkall til heyskapar þar. Átti þar höfuðbólið helming, en  hver hjáleiga einn tólfta hluta. í góðu grasári, gat hver hjáleiga fengið í sinn hlut, af hvoru Nýjalandi, um 50 hestburði, af nautgæfu heyi.
Vigdísarvellir og Bali höfðu sínar eigin engjar og nærtækar, er og um nokkuð langan veg og einkar torsóttan að sækja, þaðan á Krýsuvíkurengjar. Langt mun nú síðan Geststaðir voru byggðir, en vel má það vera, að ábúandinn þar hafi átt útslægjur, bæði í Rauðhólsmýri og Hveradölum. Árni Magnússon getur þessarar hjáleigu í handriti þeirra Páls lögmanns, en lauslega nokkuð.
Snorrakot og Hnaus hafa verið smábýli ein, eða næstum því tómthús. Hið svokallaða Snorrakotstún, er aðeins horn af Norðurkotstúni og skilur túnin smálækur einn. Getur horn þetta vart gefið meira af sér en 3 til 4 töðukapla, þegar bezt lætur. Í Arnarfelli mun hafa verið búið fram um, eða fram yfír 1870, en túnið þar, var jafnan slegið, frá höfuðbólinu, fram undir 1890 og þá er túnið í rækt, var talið að það gæfí af sér eitt kýrfóður. Má og vel vera að ábúandi Arnarfells hafí fengið leyfi til að nos-5heyja eitthvað á mýrum þeim, sem kringum fellið eru (Stekkjarmýri, Bleiksmýri og Kúabletti).
Á Fitum voru nokkuð stæðilegar bæjartóptir fam yfir síðastliðin aldamót, þar var og safngryfja, sem óvíða sáust merki til, annars staðar í hverfinu. Túnstæði er nokkuð vítt á Fitjum og útslægjur hefði mátt hafa þaðan: Á Efri Fitum, á Lundatorfu, eða Selbrekkum; eigi var og heldur heybandsvegur þaðan á Trygghólamýrina. Utan þessa svæðis, sem hér er nefnt, má telja til gróðurlendis hin svonefhdu Klofninga í Krýsuvíkurhrauni; þar er sauðfjárbeit góð. Þá er Fjárskjólshraun sunnan í Geitahlíð, austarlega, og hólmarnir tveir í Ögmundarhrauni, þeir Húshólmi og Óbrennishólmi. Er á öllum þessum stöðum lynggróður mikill og dálítið kjarr, sprottið upp úr gömlum hraunum. Þá eru hjáleigurnar tvær, austan við Núphlíðarháls, Vigdísarvellir og Bali, með túnstæðum sínum og mýrarskikum í nágrenninu, og svo að lokum, „Dalirnir” og  valllendisflatirnar fyrir Kleyfarvatn, ásamt grasbrekkum nokkrum, sem ganga þar upp í hlíðarnar.”
Af framangreindu óbirtu uppkasti dönsku herforingjaráðsins, einu heimildinni um staðsetningu eyðibæjarins “Nös” í Krýsuvíkurtorfunni og niðurstöðu vettvangsskoðunar má telja líklegt að bæði hafi verið um að ræða sama bæjarnafnið og “Hnaus” (spurningin er bara um hvort nafnið hafið verið að ræða) og að nýbýlið Lækur hafi verið byggður upp úr fyrrum landi “Nasar”/”Hnauss”.

Heimildir m.a.:
-Herforingjakort nr. 27, 1908, uppkast.
-Lesbók Morgunblaðsins 21. júlí 1940, bls. 231.
-Dagblaðið Vísir 31. júlí 1989, bls. 18.
-Lesbók Morgunblaðsins 7. mars 1987, bls. 5.

Krýsuvík

Bærinn “Hnaus” í Krýsuvík.