Söguleg hraun á höfuðborgarsvæðinu
“Byrjað verður á hraununum á vatnasviði Vallahverfisins. Aldur hvers hrauns er í sviga á eftir nafni þeirra í titli ásamt eldstöðvakerfinu sem það kom frá.
Kapelluhraun (861 ár; Krýsuvíkurkerfið)
Kapelluhraun er úfið apalhraun sem rann úr gígum hjá Vatnsskarði. Hefur það runnið til sjávar í Straumsvík eftir dæld milli Eldra Hellnahrauns og Hrútagjárdyngju (Haukur Jóhannesson & Sigmundur Einarsson, 1998). Hraunið rann á sögulegum tíma og benda örnefnin „Nýjahraun“, „Nýibruni“ og „Bruninn“ til þess að menn hafi horft upp á hraunið renna. Samtímis eldgosinu áttu sér einnig stað miklir jarðskjálftar sem er getið í Flateyjarbók (Sigmundur Einarsson, Árný Erla Sveinbjörnsdóttir & Haukur Jóhannesson, 1991). Ljóst er því að mikið hefur gengið á þegar Kapelluhraun rann og eldgosið því ekki farið fram hjá mörgum á svæðinu.
Kapelluhraun er um 10 kílómetra langt þar sem það er lengst en alls þekur það 13,7 km2. Ef reiknað er með 5 metra meðalþykkt er rúmmál þess um 0,07 km3 (Sigmundur Einarsson o.fl., 1991). Hraunið er því um það bil af svipaðri stærð og meðalbasalthraun á Íslandi (Páll Imsland, 1998).
Krýsuvíkureldar brunnu, að talið er, í nokkra áratugi á 12. öld (Haukur Jóhannesson & Sigmundur Einarsson, 1998). Kapelluhraun er hluti þessarar goshrinu en gossprungan, sé hún talin sem ein heild, nær frá austurhlíð Núpshlíðarháls í suðvestri til austanverðs hluta Undirhlíða í norðaustri. Vegalengdin endanna á milli er um 25 kílómetrar en 8 kílómetra löng eyða er á gossprungunni. Syðri hluti gossprungunnar er um 10,5 kílómetrar að lengd en nyrðri hlutinn, þaðan sem Kapelluhraun rann, er um 6,5 kílómetrar að lengd. Flatarmál hraunanna úr þessum eldum er 36,5 km2 og áætlað rúmmál þess mun vera 0,22 km3. Runnu þá einnig Ögmundarhraun í suðri við Krýsuvík og Mávahlíðarhraun norðaustur af Trölladyngju (Sigmundur Einarsson o.fl., 1991).
Mestur hluti Kapelluhrauns rann frá gígum við Vatnsskarð, rétt neðan vesturhluta Undirhlíða, og til sjávar í Straumsvík. Því miður eru þessir gígar nú horfnir að mestu sökum gjallvinnslu (Haukur Jóhannesson & Sigmundur Einarsson, 1998). Ná þessir gígar yfir tvo syðstu kílómetra gossprungunnar í Undirhlíðum en mest gaus úr syðsta og vestasta gígnum. Næst þessum gíg hefur hraunið runnið eftir hrauntröð og þaðan stefnt í norðvesturátt til sjávar. Þess ber að geta að hraunin í Krýsuvíkureldunum hafa yfirleitt verið þunnfljótandi og gasrík og því hafa myndast þunn helluhraun næst gígunum í þessum eldum. Þegar hraunin hafa farið nokkur hundruð metra hefur gasið að miklu leyti horfið úr þeim, þau orðið seigari og smám saman breyst í apalhraun. Er þetta ástæðan fyrir því að apalhraunin úr eldunum eru yfirleitt úfnara eftir því sem fjær dregur upptökunum enda er Kapelluhraunið mjög úfið næst Straumsvík en sléttara nær upptökum (Sigmundur Einarsson o.fl., 1991).
Þegar Kapelluhraun rann voru gígarnir við Vatnsskarð ekki einu upptökin. Enduðu hraunin þar að auki ekki öll sem úfin apalhraun fjær upptökum þeirra. Úr öðrum hlutum 6,5 kílómetra langrar gossprungunnar runnu að mestu leyti þunnfljótandi helluhraun en þau náðu þó ekki jafn mikilli útbreiðslu og meginstraumurinn sem rann niður í Straumsvík. Sem dæmi má nefna hraunin sem runnu til vesturs og norðurs úr Kerunum norðan við Bláfjallaveg en hraunið norðan við þessa litlu gíga eru mjög slétt (Sigmundur Einarsson o.fl., 1991). Slétt helluhraun hefur einnig runnið frá Gvendarselsgígum austan í Gvendarselshæð í norðurenda Undirhlíða. Hraun þetta þekur allt svæðið milli Gvendarselshæðarinnar, Valahnúka og Helgafells en það hefur einnig runnið niður í norðausturhluta Kaldárbotna í nokkuð mjórri totu. Einnig hefur örmjór hraunstraumur runnið niður Kýrskarð og myndað lítinn hraunfláka ofan á Óbrinnishólahrauni og undir Gvendarselshæðinni. Þykkt þessara sléttu helluhrauna sem talin hafa verið upp hér að ofan, og teljast sem hluti af Kapelluhrauni, er frekar lítil en víðast virðist hún vera um 1 metri eða minni (Jón Jónsson, 1983; Sigmundur Einarsson o.fl., 1991).
Tvíbollahraun (1.112 ár; Brennisteinsfjallakerfi)
Hraunið sem er í daglegu tali nefnt Hellnahraun er í raun tvö hraun sem hér eftir verða kölluð Tvíbollahraun (Yngra Hellnahraun) og Skúlatúnshraun (Eldra Hellnahraun). Tvíbollahraun er dæmigert helluhraun með sprungnum og ávölum hraunkollum (Sigmundur Einarsson o.fl., 1991). Það hefur runnið sunnan úr Tvíbollum sem eru tveir gígar, um það bil 20 og 60 metra háir, við Grindaskörð en í þessum skörðum hefur verið mikil eldvirkni á nútíma. Hefur hraunflæðið verið að mestu um undirgöng (Jón Jónsson, 1983). Sé hraunið rakið alla leið til byggðar hefur það runnið frá fyrrnefndum Tvíbollum, austur með Helgafelli og suður fyrir það, norðaustur með Gvendarselshæð, vestur með Kaldárseli, meðfram Stórhöfða og Hamranesi, undir núverandi íbúabyggð í Vallahverfinu og loks hefur það stöðvast hjá Hvaleyrarholti (Kristján Sæmundsson o.fl., 2010) um 300 metrum frá sjó.
Hefur Tvíbollahraun runnið nánast sömu leið og Skúlatúnshraun rann (Haukur Jóhannesson & Sigmundur Einarsson, 1998) um 900 árum fyrr. Tvíbollahraun er þó mun minna um sig á þessum slóðum en Skúlatúnshraunið en fjallað verður um það síðarnefnda á næstu síðum.
Tvíbollahraun og Skúlatúnshraun eru einsdæmi á Reykjanesinu. Hafa bæði hraunin runnið frá Brennisteinsfjallakerfinu, þvert yfir Krýsuvíkurkerfið og endað í nokkurra kílómetra fjarlægð frá austustu sprungunum í Reykjaneskerfinu. Þau hafa því runnið úr einu kerfi, þverað það næsta og endað skömmu frá því þriðja (Sigmundur Einarsson o.fl., 1991).
Lýsingar á öðrum nútíma Lýsingar á öðrum nútímahraunum á höfuðborgarsvæðinu. Aldur hraunanna er í sviga á eftir nafni þeirra í titli ásamt eldstöðvakerfinu sem það kom frá.
Óbrinnishólabruni ( 2.203 ár; Krýsuvíkurkerfið)
Fyrir um 2100 árum (Kristján Sæmundsson o.fl., 2010) gaus í Krýsuvíkurreininni. Nyrstu gosstöðvarnar voru á svipuðum slóðum og gosstöðvarnar sem mynduðu Kapelluhraunið eða nánar tiltekið í Óbrinnishólum við Bláfjallaveg. Frá þessum gígum rann Óbrinnishólabruni. Því miður eru gígar þessir að mestu horfnir í dag en þeir hafa verið grafnir út í grjótnámi. (Haukur Jóhannesson & Sigmundur Einarsson, 1998). Nafn hólanna er talið þýða að á þeim hafi ekki brunnið þegar Kapelluhraun rann yfir Óbrinnishólabrunann (Jón Jónsson, 1974).
Í austanverðum Óbrinnishólunum er um 900 metra löng gígaröð en hún er nú ekki svipur hjá sjón. Hæsti gígurinn þar náði um 44 metra hæð yfir nánasta umhverfi.
Hraunflæðið hefur að mestu komið úr syðsta gígnum en þaðan hefur runnið fyrst í austurátt til Undirhlíða en svo hefur hraunflæðið beygt í norður, runnið langleiðina að Kaldárseli og svo í vestur í átt til sjávar þar sem það hefur líklega náð út í sjó. Er hraunið apalhraun að mestu leyti (Jón Jónsson, 1974). Hraunið er þó ekki á yfirborði við ströndina enda runnu Skúlatúnshraun og Kapelluhraun þar yfir um það bil 200 og 1340 árum síðar (Kristján Sæmundsson o.fl., 2010).
Fáar greinar eru tiltækar um Óbrinnishólabruna og styðjast þær sem til eru oftast við grein Jóns Jónssonar frá 1974, Óbrinnishóla.
Jón telur að tvö hraun hafi runnið frá Óbrinnishólum og að fyrra hraunið hafi þá runnið frá næst syðsta gígnum. Við könnun á hraunlögum undir og við hlið yngri Óbrinnishólabruna (hafi gosið tvisvar) fannst hraunlag sem er svo líkt Búrfellshrauni að varla má greina á milli þeirra. Telur Jón því að fyrra gosið í Óbrinnishólum hafi jafnvel orðið á sama tíma og gosið í Búrfelli (Jón Jónsson, 1974). Líkt og kemur fram í umfjöllun um Búrfellshraun hér á eftir er talið að hraun þetta sé jafnvel komið alla leið frá Búrfelli. Getur því verið að hraunið undir Óbrinnishólabruna því ekki bara líkt Búrfellshrauni heldur sé einfaldlega um sama hraun að ræða (Sigurður Steinþórsson, 2012).
Skúlatúnshraun (u.þ.b. 2.000 ár; Brennisteinsfjallakerfið)
Skúlatúnshraun (Eldra Hellnahraun) og Tvíbollahraun (Yngra Hellnahraun) eru mjög lík í ásýndum og lengi hefur þótt erfitt að greina þau að. Líkt og áður hefur komið fram er Skúlatúnshraunið, líkt og Tvíbollahraunið, komið úr Brennisteinsfjallakerfinu og hefur það runnið svipaða leið til sjávar (Sigmundur Einarsson o.fl., 1991). Er hraunið komið suðaustan úr Stórabolla sem er, líkt og Tvíbollar, í Grindaskörðum. Breiddi hraunið mjög úr sér sunnan og austan við Helgafell og rann svo sömu leið og Tvíbollahraunið suður fyrir Helgafell, í norðvesturátt með Gvendarselshæð, vestur með Kaldárseli (falið undir neðra vinstra horni myndarinnar af byggðinni) og til sjávar í Hraunavík. Er hraunið nú undir nýrri hraunum að miklu leyti en kemur fram á nokkrum stöðum, til dæmis við Hvaleyrarvatn, Ástjörn og við sjóinn vestan Hvaleyrarholts (Haukur Jóhannesson & Sigmundur Einarsson, 1998; Kristján Sæmundsson o.fl., 2010).
Skúlatúnshraun hefur verið þunnfljótandi helluhraun og myndaði það ströndina milli Hvaleyrarhöfða og Álversins í Straumsvík en þar tók Kapelluhraunið við strandmynduninni síðar meir. Hefur Skúlatúnshraunið einnig runnið fyrir mynni kvosarinnar milli Vatnshlíðar og Selhöfða og myndað þannig Hvaleyrarvatn og einnig runnið fyrir mynni kvosarinnar milli Grísaness og Hvaleyrarholts og myndað þannig Ástjörn (Árni Hjartarson, 2010; Landmælingar Íslands, 2011; Haukur Jóhannesson & Sigmundur Einarsson, 1998). Nær Skúlatúnshraunið því yfir stærra svæði nærri byggð en Tvíbollahraunið.
Nokkrir gervígígar í Skúlatúnshrauni sýna hvar ströndin hefur legið þegar fyrri hraun runnu út í sjó. Þessir gervigígar eru taldir myndaðir eftir ísöld og eldri en hraunin í kring, þar með talin Skúlatúnshraun og Tvíbollahraun (Haukur Jóhannesson & Sigmundur Einarsson, 1998).
Gervigígarnir eru til marks um að fyrir tíma Skúlatúnshrauns og Tvíbollahrauns hafa hraun runnið sömu leið til sjávar en líkt og sjá má í umfjöllun um gervigíga fyrr í ritgerðinni þeytast meðal annars upp hraun og setlög þegar þeir myndast. Er þetta ástæðan fyrir því að í fyrrnefndum gervigígum í Skúlatúnshrauni megi meðal annars finna skeljar í bland við klepra og gjall en skeljarnar hafa verið undan ströndinni sem hraunið rann yfir (Haukur Jóhannesson & Sigmundur Einarsson, 1998; Jón Jónsson, 1971).
Búrfellshraun ( 8.151 ár; Krýsuvíkurkerfið)
Búrfellshraun heita þau hraun sem runnið hafa niður í mið- og norðurhluta Hafnarfjarðar og suður af Garðarbæ fyrir rúmum 8.000 árum síðan (Kristján Sæmundsson o.fl., 2010). Nafnið er samheiti yfir nokkur hraun og má til dæmis nefna Hafnarfjarðarhraun, Garðahraun, Gálgahraun, Lækjarbotnahraun, Smyrlabúðarhraun, Gráhelluhraun og Urriðakotshraun en það síðastnefnda stíflar upp Urriðakotsvatn. Hraunin breiða úr sér alla leið norðvestur til sjávar í Hafnarfirði og Skerjafirði (Ingibjörg Kaldal, 2001) og þekja þau stór svæði sem nú eru undir byggð (Kristján Sæmundsson o.fl., 2010). Þess ber að geta að þegar hraunin runnu var sjávarstaðan mun lægri og því hafa hraunin að einhverju leyti myndað þá strandlínu sem nú afmarkar firðina. Hafa firðirnir tveir því væntanlega náð talsvert lengra inn í landið en þekkist nú (Guðmundur Kjartansson, 1973).
Búrfellshraun er talið hafa runnið úr einu og sama gosinu úr Búrfelli sem er um 7,5 kílómetrum suðaustur af miðbæ Hafnarfjarðar.
Búrfell er kambur sem er samsettur úr hraunkleprum og gjalli utan um eldgíginn Búrfellsgíg en hann er um 140 metrar að þvermáli og um 26 til 58 metra djúpur. Þessi gígur er um margt frábrugðinn þeim gígum og gossprungum sem finna má á öðrum stöðum á Reykjanesi en hann virðist hafa verið eina virka eldvarpið á tiltölulega stóru svæði en oftast hafa gos byrjað á sprungum á skaganum og gígarnir raðað sér þéttar saman. Einnig liggur hann ekki í stefnu annarra sprungna á nesinu heldur er hann næstum því kringlóttur. Því liggur fyrir að Búrfell hefur einungis gosið einu sinni (Guðmundur Kjartansson, 1973).
Fræðimenn greinir á um hvort Búrfell hafi verið eitt að verki í þessari goshrinu því fram hafa komið kenningar um að á sama tíma hafi hraun runnið úr Hraunhól allt norður til sjávar í Straumsvík eftir dældinni austan Hrútagjárdyngju (Haukur Jóhannesson & Sigmundur Einarsson, 1998). Hraunhóll er við suðvesturjaðar Kapelluhrauns (Kristján Sæmundsson o.fl., 2010) og því er stóran hluta hraunsins, sé þetta rétt, að finna undir Kapelluhrauni sem rann eftir sömu dæld.
Búrfellshraun er í stærra lagi sé miðað við nýlegri gos úr Krýsuvíkurkerfinu en rúmmál þess er um 0,36 km3 sé miðað við áætlaða 20 metra áætlaða meðalþykkt og það 18 km2 svæði sem hraunið þekur (Ingibjörg Kaldal, 2001). Hraunið rann að mestu leyti í tveimur meginkvíslum í norðvesturátt frá gígnum og rann önnur vestur af Kaldárseli en hin hjá Gjáarrétt. Vegna landslagsins norðaustan og austan gígsins rann hraunið nánast ekkert í þær áttir og komst það einnig skammt í suður- og suðausturátt en þó að rótum Húsafells, Valahnúka og Kaldárhnúka. Er suðurhraunið frekar lítið miðað við hin hraunin. Í vestri hverfur Búrfellshraun undir nýrri hraunlög um 1 til 2 kílómetrum frá upptökum í Búrfelli (Guðmundur Kjartansson, 1973).
Að mati Árna Hjartarsonar hefur Búrfellshraun einnig runnið til sjávar í Straumsvík en hann telur að það hafi gerst á fyrstu stigum gossins og séu þau hraun nú grafin undir yngri hraunum. Aðeins er eftir smá hluti þess sem nefnist nú Selhraun. Næst hafi hraunið runnið til sjávar í Hafnarfirði yfir það svæði þar sem nú er Gráhelluhraun. Þar næst hafi hraunið runnið til sjávar í Skerjafirði, milli Álftaness og Arnarness, yfir það svæði þar sem nú eru meðal annars Urriðakotshraun, Vífilsstaðahraun og Gálgahraun. Að lokum hafi hraunið svo runnið til suðurs (Sigurður Steinþórsson, 2012). Er talið að hraunið hafi byrjað að renna til suðurs vegna þess að gat brast neðarlega á suðurvegg gígsins. Hrauntjörnin, sem fyllti áður gíginn, leitaði því út um þetta gat enda var það tugum metrum neðar en útfall hraunsins niður í hrauntröðina til norðvesturs. Vegna lækkunarinnar í tjörninni gat hraunið ekki runnið aftur í norðvesturátt (Guðmundur Kjartansson, 1973).
Þegar hraunið rann allt til Skerjafjarðar myndaðist hrauntröðin sem nefnd var að ofan og liggur í norðvesturátt. Er þessi hrauntröð betur þekkt sem Búrfellsgjá og er hún um 3,5 kílómetrar að lengd. Er hrauntröðin nokkuð kröpp og U-laga næst upptökum í Búrfelli en þegar neðar dregur er hún grynnri og fyllt hrauni. Hrauntröðin hefur varðveist á svo stórum kafla vegna þess að hraunið hefur skyndilega hætt að renna um hana. Hefur hún þá tæmst nokkuð snögglega efst en neðar hefur hraunið setið eftir og storknað. Önnur hrauntröð myndaðist einnig fyrr í gosinu en hún stefnir í vesturátt frá Búrfelli og liggur nálægt Kaldárseli. Hefur hún fyllst af hrauni síðar í gosinu og því er lítið eftir af henni (Guðmundur Kjartansson, 1973).
Leitahraun (5.3165.316 ár; Brennisteinsfjallakerfið)
Leitahraunið er upprunnið í dyngjugígnum Leiti sem er í miðjum austanverðum Bláfjallahryggnum og skammt vestan Syðri-Eldborgar (Kristján Sæmundsson o.fl., 2010; Jón Jónsson, 1971). Nær hraunið allt suður til Þorlákshafnar og norður til Elliðaárvogs í norðri (Kristján Sæmundsson, o.fl., 2010).
Lega Leitahraunsins í Elliðaárvogi merkir að það hafi runnið þangað um 28 kílómetra langa leið frá gígnum í Leitum. Hraunið er dæmigert helluhraun og hefur það verið mjög heitt, þunnfljótandi og runnið nánast eins og vatn. Dæmi sem styðja þá fullyrðingu má sjá á nokkrum stöðum en þar hefur hraunið fyllt hverja glufu í klettum sem það hefur runnið utan í. Má einnig sjá merki þess hversu þunnfljótandi hraunið hefur verið í því hversu þunnt það er sums staðar en á vissum stöðum getur þykktin verið einungis 0,6 til 0,75 metrar (Jón Jónsson, 1971).
Fulllangt yrði að fjalla ítarlega um alla þá leið sem Leitahraun hefur runnið til norðvesturs í átt að Reykjavík en í grófum dráttum hefur hraunið breitt úr sér á flatlendum svæðum, runnið í þröngum fossum og er sums staðar einungis nokkurra metra breitt þar sem hallinn er hvað mestur. Norðurjaðar hraunsins er skýr enda engin nýrri hraun sem runnið hafa að honum að norðan. Suðurjaðar hraunsins er aftur á móti óskýrari en ýmis nýrri hraun hafa runnið að honum að sunnan, til dæmis nokkur Hólmshraun. Gervígígaþyrpingar hafa myndast þar sem Leitahraunið rann yfir votlendi og af þeim má til dæmis nefna Tröllabörn vestan við Lækjarbotna og Rauðhóla austan við Elliðavatn (Jón Jónsson, 1971).”
Heimild:
-Daníel Páll Jónasson, 2012 -Hraunflæði á höfuðborgarsvæðinu: Saga hraunflæðis á svæðinu á nútíma og kortlagning mögulegra farvega til byggða – lokaritgerð í HÍ.
-http://hdl.handle.net/1946/11887