Tag Archive for: nýting

Bessastaðir

Sú hugmynd hefur komið fram að nýta megi fornleifar í þágu þjóðarinnar – á þann hátt, sem flestir gætu verið sammála um. Hugmyndin gengur út á það að peningar fáist fyrir verðmæti, sem þegar eru til eða verða til með tímanum.
FornleifarÞar sem svo lítill áhugi er yfirleitt á gildi fornleifanna meðal almennings, og jafnvel ráðamanna, væri ekki úr vegi að reyna að gera verðmæti úr því sem þó er til, a.m.k. þessa stundina, og gera þannig tilraun til að efla áhuga þeirra sömu á efninu og samræma um leið tvennt; annars vegar varðveislu og nýtingu og hins vegar eyðingu gegn gjaldi. Flestir ættu að geta samþykkt það – a.m.k. miðað við núverandi stöðu. Reynslan hefur jú sýnt að peningar eru það sem málið snýst um – þegar upp er staðið. Mikið af fornleifum hafa farið forgörðum í gegnum tíðina, án þess að nokkur hafi sagt nokkurn skapaðan hlut – eða gjald komið fyrir.
Stjórnmálamenn reikna gildi hlutanna út frá hagnaði, eða kostnaði, eftir hvernig á það er litið. Áhuginn vex í réttu hlutfalli við mögulegan arð, eða minni kostnað. Ef gerð yrði gangskör í því að koma núverandi fornleifum í verð myndi skapast svigrúm til að leita að öðrum – til að selja. Þannig myndi vinnast a.m.k. tvennt; annars vegar peningar, sem hingað til hefur vantað, og hins vegar myndu „nýjar“ og áður óþekktar fornleifar finnast, en hingað til hefur ólaunað áhugafólk fundið flestar „óhefðbundnar“ fornleifar, sem merkilegar geta talist hér á landi.
Fornleifar Þetta fyrirkomulag kallar á nýja hugsun – nýja nálgun á viðfangsefninu – ódýrari nálgun en áður hefur þekkst. Núverandi stofnanir yrðu með því óþarfar. Það myndi spara umtalsverða opinbera fjármuni. Auk þess myndi verkið verða boðið út og meginsöluandvirði minjanna renna i ríkissjóð. Sem sagt; ekki bara útgjaldasparnaður heldur og tekjumyndun. Hvaða þingmaður gæti mælt gegn slíkum rökum?
Verktakar, sem fengju úthlutað einstökum framkvæmdum, s.s. vegagerð, virkjunum eða byggingu annarra mannvirkja, ættu kost á að kaupa fornleifar á framkvæmdarsvæðunum og ráðstafa þeim að vild (eins og reyndar er gert er í dag), en andvirðið myndi renna í ríkissjóð. Þannig myndi vinnast a.m.k. tvennt; annars vegar getur ekkert komið í veg fyrir framgang framkvæmda og hins vegar gætu fornleifar á svæðinu orðið til þess að verktakinn þyrfti sjálfur að taka þátt í kostnaði við framkvæmdina. Einungis það myndi auk alls þess, sem að framan greinir, draga úr útgjöldum ríkissjóðs og fela í sér aukin sparnað. Hvaða alþingismaður gæti mælt gegn slíku?
Hvers virði eru þá, ef tekið er mið af öllu framangreindu, hinir huglægu þættir fornleifanna – áþreifanlegu tengsl Fornleifarnútímamannsins við fortíðina, í aurum talið? Svar stjórnmálmannsins ætti ekki að þurfa að verða erfitt: „EINSKIS VIRÐI“.

Að vísu hefur allnokkrum óarðbærum fjármunum verið sóað í að grafa upp minjar, sem vitað er hverjar eru. Hvers vegna ekki að nýta frekar féð í að finna „nýjar“ minjar, sem hægt er að gera úr einhver verðmæti? Og hvers vegna ætti að varðveita þekktar fornminjar með miklum opinberu tilkostnaði? Og það á tímum hraðþróun alþjóðavæðingar þegar fæstir innfæddir og engir aðfluttir hafa áhuga á hinum gleymdu leifum eða gömlum minjum hvors sem er! Og hverjir eru þá eftir? Örfáir meðvirkir og einstaka fræðimaður – og nokkrir ferðamenn, sem vantar myndefni. Þessir fáu ættu þó varla að koma í veg fyrir að framangreind hugmynd næði fram að ganga. Myndefnið verður til staðar eftir sem áður – í eigu einkaðila.
Örfáir menn – og konur – hafa lagt mikla áherslu á mikilvægt gildi fornleifanna, einkum vegna þess að þær sýna við hvaða ólýsanlegu aðstæður forfeður og -mæður vorar þurftu fyrrum að takast á við til að koma okkur, nútímafólkinu, til manns. Hugsjónin er eitt (og einskis virði) – verðmætamatið annað (og enn norkkurs virði). Nú er því rétti tíminn til að selja „hlutabréfin“ í fornleifunum.
Að sjálfsögðu er hér um að ræða frumlega framsetningu, en öllu gamni fylgir jú einhver alvara – einkum ef tekið er mið af núverandi stöðu þessara mála.

Dómhringur

Dómhringur.

Náttúra

Þegar skoðaðar eru eldri umfjöllun um náttúruvernd og hún borin saman við raunveruleika líðandi stundar kemur margt forvitnilegt í ljós – en ekki allt jafn uppbyggilegt.

Ef t.d. spurt er; hver er staða okkar mannanna gagnvart náttúrunni? er ljóst að við höfum verið að greina okkur frá henni í æ ríkari mæli. Hér er hins vegar um talsverðan misskilning að ræða því við erum hluti náttúrunnar. Sá er nefnilega sannleikurinn að „þekking leiðir af sér virðingu og að virðing leiðir af sér verðmæti“.
Í dag er helsta auðlind ferðaþjónustunnar náttúra landsins! Íslendingar setja jafnan náttúrufegurð ofarlega þegar þeir svara spurningum um hvað hafi dregið þá á ákveðna staði. Háspennilínur virðast hins vegar ekki höfða til þeirra sérstaklega. Ótal kannanir hafa einnig sýnt að ósnert náttúra landsins er eitt helsta aðdráttarafl erlendra gesta. Þeir eru ekki að leita sérstaklega eftir því að fá að berja háspennumöstur augum. Ekki síst í ljósi þessa er mikilvægt að hlúa vel að þessari auðlind – mun betur en gert hefur verið.
Sem einfalt og auðskiljanlegt dæmi um hversu hugtakið náttúra er margþætt má nefna tölur frá Reykjanesi er sýna að um þriðjungur ferðamanna skoðar fugla á ferðum sínum. Engin sérstök þjónusta er þó í tengslum við fuglaskoðun, önnur en hjá Fræðasetrinu í Sandgerði. En það er ekki bara nóg að segja ferðamönnum að hér séu fuglar heldur þarf líka að benda þeim á þá.
Auk þess þarf að fræða þá um atriði varðandi líffræði fuglanna, viðveru, komu og brottför. Það er ekki svo ósjaldan sem FERLIRsfólk hefur á göngum sínum rekist á ráðvillt fuglaskoðunarfólk að reyna að sinna áhugamálum sínum. Svo er og um marga aðra þætti þessara viðfangsefna.
Samfylkingin setti fram rammaáætlun um náttúruvernd fyrir síðustu alþingiskosningar (þegar flokkurinn var í minnihluta), svonefnt „Fagra Ísland„. Um var að ræða tillögur til að styrkja stöðu náttúru- og umhverfisverndar á Íslandi. Á grundvelli þessarar stefnu lagði Samfylkingin jafnframt fram frumvarp til laga á Alþingi í byrjun þings 2006.
Orðrétt segir í stefnuplagginu: „Samfylkingin vill styrkja stöðu náttúru- og umhverfisverndar á Íslandi. Því leggur flokkurinn til markvissar aðgerðir sem byggjast á forsendum sjálfbærrar þróunar og skýrri framtíðarsýn. Samfylkingin telur að nú sé sérstaklega mikilvægt að rétta hlut náttúruverndar á Íslandi gagnvart hagsmunum stóriðju, sem hefur notið algers forgangs í atvinnustefnu ríkisstjórnarinnar undanfarinn áratug. Íslensk náttúra hefur farið halloka í þeim leik – nú þarf að skapa nýjar leikreglur í samræmi við verðmæti náttúrunnar og tilfinningar þjóðarinnar til landsins.
Jafnaðarmenn telja að náttúra Íslands sé sameign þjóðarinnar sem hverri kynslóð hafi verið fengin til skynsamlegrar nýtingar. Okkur, sem nú lifum, er skylt að afhenda næstu kynslóðum náttúru landsins jafnverðmæta og við fengum hana í hendur.
Frá ÖlkelduhálsiNáttúra Íslands er ekki aðeins rík af auðlindum í hefðbundnum skilningi heldur eru öræfi landsins, fljót, fossar, jöklar, hverir og dalir í óendanlegum litbrigðum sínum og fjölbreytileika verðmæt auðlind í sjálfu sér. Verndun náttúrunnar er ein tegund nýtingar og oft sú sem á endanum skilar mestum verðmætum. Náttúra Íslands er einn meginþátturinn í ímynd landsins. Það skiptir miklu að sú ímynd bíði ekki hnekki. Hitt er þó enn mikilvægara: Tengsl okkar við landið og náttúru þess.
Tímabært er að Íslendingar skipti um gír, tryggi jafnræði atvinnugreina og byggi skipulega upp atvinnulíf framtíðarinnar þar sem náttúrugæði landsins eru nýtt með sjálfbærum hætti. Samfylkingin leggur til að við núverandi aðstæður verði frekari stóriðjuáformum slegið á frest. Nú þarf áhersla á hátækni- og þekkingariðnað að haldast í hendur við nýsköpun í ferðaþjónustu og hefðbundnu atvinnugreinunum, sjávarútvegi og landbúnaði.
Samfylkingin vill: 1. Tryggja rétt náttúruverndar í skipulagi og við landnýtingu. Gera „Rammaáætlun um náttúruvernd“ sem nái til allra náttúrusvæða landsins. Þar komi fram tillögur um skipan verndarsvæða og áætlun um það hvernig verndun þeirra skuli háttað. Tryggðar verði fjárveitingar til helstu grunnrannsókna á náttúrufari landsins á næstu misserum þannig að áætlunin geti legið fyrir á komandi kjörtímabili. Að ákvörðunum um frekari stóriðjuframkvæmdir verði frestað þangað til fyrir liggur nauðsynleg heildarsýn yfir verðmæt náttúrusvæði Íslands og verndun þeirra hefur verið tryggð. Að heimild til að veita rannsóknar- og nýtingarleyfi vegna virkjunaráforma verði færð úr höndum iðnaðarráðherra til Alþingis á meðan unnið er að gerð áætlunarinnar. 2. Tryggja nú þegar verndun ákveðinna svæða. Stækka Vatnajökulsþjóðgarð þannig að hann feli í sér Langasjó og allt vatnasvið Jökulsár á Fjöllum.
Stækka friðlandið í Þjórsárverum í samræmi við tillögu umhverfisstofnunar og í samráði við heimamenn. Tryggja friðun Skjálfandafljóts, ReynisréttJökulánna í Skagafirði, Torfajökulssvæðisins, Kerlingarfjalla, Brennisteinsfjalla og Grændals. 3. Gera langtímaáætlun um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda. 4. Auka áhrif almennings og réttarstöðu í umfjöllun um umhverfismál. Að félagasamtök á umhverfissviði njóti sérstakra framlaga frá ríki og sveitarstjórnum til að afla sérfræðiaðstoðar við athugasemdir og umsagnir um skipulags- og umhverfismál. Að taka upp ráðgefandi eða bindandi atkvæðagreiðslur, á lands-, héraðs- eða sveitarvísu, um ýmsa kosti í umhverfismálum og náttúruvernd, og tryggja viðunandi jafnræði milli fylgismanna kostanna.“
Öllu framangreindu fylgdi síðan sérstök greinargerð: „1. Tryggja rétt náttúruverndar í skipulagi og við landnýtingu. Náttúra Íslands á í vök að verjast. Lagastoð náttúruverndar er veikburða, mikilvægum rannsóknum á verðmætum náttúrusvæðum er ábótavant, umsjón með rannsóknum er að verulegu leyti í höndum orkuyfirvalda og -fyrirtækja, og heildarsýn skortir. Við þessar aðstæður er hætta á því að þjóðin glati um alla framtíð verðmætum náttúruperlum sem ekki eru einasta mikilvægar í sjálfu sér heldur einnig fyrir menninguna, sjálfsmynd þjóðarinnar og ímynd landsins.
Arnarvatn Íslendingar nútímans eru jafnt og þétt að vakna til vitundar um þann arf sem felst í náttúrugæðum landsins, ekki síst hinum lítt snortnu en viðkvæmu öræfum. Hver kynslóð ber ábyrgð á því að skila þessum arfi til hinnar næstu en láta ekki stundarhagsmuni bera sig af leið. Nýting náttúrugæða verður að vera sjálfbær, og rétt er að líta á ýmis stig verndar sem eina tegund nýtingar. Það er mikilvægt hlutverk stjórnvalda og almennings á hverjum tíma að varðveita fágæt náttúrusvæði Íslands en einblína ekki á þau not sem hafa má af náttúrunni í þágu orkufreks iðnaðar.

Á Sveifluhálsi

Við gerð „Rammaáætlunar um náttúruvernd“ verður nauðsynlegra grunngagna aflað til að hægt sé að leggja mat á verndargildi náttúrusvæða á landinu öllu. Í áætluninni verður náttúrusvæðum landsins skipt í þrjá meginflokka eftir verndargildi. Í fyrsta lagi eru svæði þar sem talið er að vernd sé nauðsynlegur nýtingarkostur. Slík svæði þarf að friða með lögum. Þennan flokk má kalla virka vernd en slík svæði verður kappkostað að nýta sem þjóðgarða og verndarsvæði eftir því sem við verður komið. Annar flokkur náttúrusvæða nýtur sérstakrar verndar, sem kalla mætti biðvernd. Það eru svæði sem þarf að rannsaka betur og/eða talið er að komi til greina til annarrar nýtingar, að heild eða hluta. Þriðji flokkurinn nýtur lágmarksverndar núverandi lagaramma en þau svæði verða „opin“ fyrir ýmissi annarri nýtingu en verndarnotum. Tilhögunin sem hér er lýst er ekki ólík vatnsfallalögum Norðmanna.
„Rammaáætlun um náttúruvernd“ byggist að grunni til á sömu aðferðafræði og Náttúruverndaráætlun og Rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma, nema að ósnortin víðerni þurfa að fá aukið vægi þar sem nokkuð hefur skort á að sú sérstaða íslenskrar náttúru hafi notið sín þegar mat hefur verið lagt á verndargildi.
Framkvæmdir í náttúru landsins eru oft og tíðum óafturkræfar. Það er verndun hins vegar ekki og því er „Rammaáætlun um náttúruvernd“ ætlað að vera stefnumótandi grundvallarskjal við gerð hugsanlegs landsskipulags og aðalskipulags á sveitastjórnarstigi. Markmið hennar er að ná sátt um þau svæði sem njóta skulu verndar en um leið skýrast línur um möguleg framkvæmdasvæði. „Rammaáætlun um náttúruvernd“ mætti að mestu ljúka á fáeinum árum.
Gömul þjóðleið - SkógfellavegurRammaáætlun um náttúruvernd verður mikilvægt framlag til þjóðarsáttar um verndun og nýtingu íslenskrar náttúru. Því er nauðsynlegt að þangað til niðurstöður áætlunarinnar liggja fyrir verði leyfi til virkjanarannsókna og -nýtingar háð samþykki Alþingis.
Engar efnahagslegar aðstæður kalla á stóriðju á næstu árum. Þvert á móti mæla óháðir sérfræðingar (sbr. nýlega skýrslu OECD) með því að dregið verði úr þensluhvetjandi framkvæmdum á næstunni til þess að stuðla að jafnvægi í íslensku efnahagslífi og tryggja stöðugleika til hagsbóta fyrir almenning. Því leggur Samfylkingin til að öllum ákvörðunum um frekari stóriðjuframkvæmdir verði frestað þar til fyrir liggur nauðsynleg heildarsýn yfir verðmæt náttúrusvæði Íslands og verndun þeirra hefur verið tryggð. Nú þarf áhersla á hátækni- og þekkingariðnað að haldast í hendur við nýsköpun í ferðaþjónustu og hefðbundnu atvinnugreinunum, sjávarútvegi og landbúnaði.
2. Tryggja nú þegar verndun ákveðinna svæða. Vegna samkeppni á raforkumarkaði sækist fjöldi aðila nú eftir rannsókna- og nýtingarleyfum. Á borði iðnaðarráðherra liggja umsóknir um rannsóknarleyfi á 13 svæðum, sem mörg hver eru afar verðmæt frá náttúruverndarsjónarmiði og mörg hver lítt rannsökuð með tilliti til verndargildis. Þetta á til að mynda við um ýmis fegurstu háhitasvæði landsins, þar á meðal Brennisteinsfjöll, Torfajökulssvæðið og Kerlingarfjöll.
Samið og sent út frá Hallveigarstíg 1, 101 Reykjavík, sími: 414-2200, fax: 414-2201,
samfylking@samfylking.is
Svo mörg voru þau vonglæsilegu orð fyrir síðustu kosningar – áður en Samfylkingin myndaði meirihluta með öðrum af fyrrum léttnáttúruvænu meirihlutaflokkunum.
Fortíðin skiptir máli!