Tag Archive for: Oddagerði

Árbær

Í Byggðakönnun Borgarsögusafns Reykjavíkur 2017 er fjallað um „Borgarhluta 7 – Árbæ„. Þar segir m.a.:

Staðhættir og örnefni

Árbær
Svæðið sem hér er til umfjöllunar einkennist af holtum og ásum, árhólmum og ísaldaráreyrum. Á milli Árbæjar- og Breiðholts er Elliðaárdalur og um hann falla Elliðaárnar. Þær eiga upptök sín í Elliðavatni og falla til sjávar í Elliðaárvogi, en þessi örnefni eru dregin af nafni skips Ketilbjörns gamla landnámsmanns, sem kallað var Elliði samkvæmt Landnámabók.

Árbær
Vestast á svæðinu og sunnan við Ártún renna austur- og vesturkvíslir Elliðaánna og á milli þeirra eru Árhólmar, en áður fyrr hlupu árnar um hólmana í mörgum farvegum. Yfir Árhólmana lá gamla þjóðleiðin á milli Bústaða og Ártúns um Árúnsvað. Sunnar við árnar eru Blesugróf og Blesaþúfa. Austan við Elliðaárnar er bæjarstæði Ártúns á háum hól og þar norðan og austan við er Ártúnsbrekka og Ártúnsholt sem áður hét Árbæjarholt. Ártúnsbrekkan hefur lengi verið vinsæl skíðabrekka. Frá Ártúni lá gamla leiðin um Reiðskarð að Árbæ. Frá Árbæ lá leiðin síðan til austurs þar sem í dag er Rofabær. Þar voru Breiðumóar. Norðan við Bæjarháls voru Stekkjarmóar og Stekkjarurð. Sunnar voru Eggjar ytri, Eggjar innri og Pálsbyrgi, sem talið er að hafi verið býli einsetumanns.
Árbær
Milli Elliðaárkvíslanna, austan Árbæjarstíflu og að Þrengslum, er Blásteinshólmi. Talið er að nafnið sé dregið af dökkum steini í hólmanum, en önnur skýring er að hann hafi upphaflega heitið Blasíushólmi og sé þá kenndur við dýrling kirkjunnar (bænhússins) í Breiðholti sem var helgað heilögum Blasíusi. Við siðaskiptin hefur nafninu síðan verði breytt.

Árbæjarsel

Árbæjarsel í vestanverðum Selási, eitt af tveimur. Hitt var í Nónhæð ofan við Gröf.

Austar er Selás og þar suðaustan við er Sauðadalur. Talið er að sel hafi verið þar fyrr á tímum, en engar heimildir eru um það og engar seljarústir þekktar. Selið hefur þó líklega tilheyrt Árbæ. Sunnan við Sauðadal er lítill ás sem heitir Sauðaskyggnir. Syðst í Selásnum er Brekknaás.

Árbær
Efsti hluti Elliðaánna rann áður fram í tveimur farvegum að Þrengslum. Þeir voru annars vegar Bugða, sem rann að austan með Norðlingaholti, Brekknaási og Selási að Þrengslunum, og hins vegar Dimma, sem rann úr Elliðavatni að vestan. Á milli þessara áa var stór hólmi, Árbæjarhólmi, en syðst var hann nefndur Vatnsendahólmi. Við byggingu eldri Elliðavatnsstíflu á árunum 1924-1928 stækkað Elliðavatnið um tvo þriðju hluta og Elliðavatnsengjar og farvegur Bugðu fóru undir vatn. Því vatni sem eftir rann fram um eystri flóðgáttina um gamla farveg Bugðu var þá veitt í Dimmu um Skyggnislæk og Árbæjarhólmi varð þá ekki hólmi lengur. Það svæði kallast nú Víðivellir. Þar eru reiðvellir hestamannafélagsins Fáks og Víðidalur, þar sem austasta hesthúsahverfið er undir Brekknaási.
Árbær
Breiðholtsbraut liggur síðan eftir Markargrófinni en þar var áður fjölfarin gömul leið. Austan Breiðholtsbrautar eru síðan Klapparholtsmóar og Klapparholt en þar er í dag hverfið Norðlingaholt. Norðlingaholtið sjálft er mun sunnar eða þar sem Bugða rennur í dag í Elliðavatn. Baldurshagi var nálægt því þar sem bensínstöð Olís (Norðlingabraut 7) er nú.

Landsvæðið sem núverandi borgarland Reykjavíkur nær yfir skiptist á öldum áður upp í jarðir lögbýla og svæðið sem hér er til umfjöllunar, borgarhluti 7, tilheyrði að mestu fjórum jörðum, Bústöðum, Ártúni, Árbæ og Gröf, en lítill hluti Breiðholti. Allt voru þetta frekar smáar jarðir, nema Gröf. Jarðirnar voru lagðar til Viðeyjarklaustur en það var stofnað árið 1226. Klaustrið hafði mikil stjórnsýsluleg völd á þeim tíma. Við siðaskiptin 1550 urðu allar eignir klaustursins eignir Danakonungs. Konungur seldi síðan jarðirnar árið 1838 og komust þær þá í einkaeigu.

Bústaðir
Bústaðir
Vestasti hluti svæðisins tilheyrði að mestu jörðinni Bústöðum. Bústaðir hafa snemma verið byggðir. Jarðarinnar getur fyrst í Þorláks sögu, þar sem greint frá jarteinum sem áttu sér stað á bænum árið 1325 og tengdust kirkjunni í Breiðholti. Jón Bergþórsson var eigandi Bústaða árið 1535 en það ár kærði Alexíus ábóti í Viðey hann fyrir „að hann hafði farið í Elliðaá og haft klaustursins net og eignað Bústöðum fors í ánni eðr streing“.
Á Bústöðum fæddist um aldamótin 1500 Núpur nokkur Jónsson sem ásamt mörgum öðrum stóð að vígi Diðriks af Mynden. Frá þessu segir hann sjálfur í víglýsingarvitnisburði frá 10. nóvember 1539.
Árbær
Það landsvæði Bústaða eru Árhólmarnir, en hólmanir koma fyrir í heimildum frá seinni hluta 17. aldar þegar þar var aftökustaður. Um miðja 18. öld var vatnið úr Elliðaánum nýtt til að snúa hjólum þófaramyllu Innréttinganna, en þar á bakkanum voru einnig litunar- og sútunarhús sem tilheyrðu starfsemi Innréttinganna.
Reykjavíkurbær keypti Bústaði árið 1898 og árið 1923 var Bústaðaland lagt undir lögsagnarumdæmi Reykjavíkur. Búskapur var stundaður að Bústöðum allt fram undir 1970.

Ártún

Artún

Ártún.

Austan við syðri Elliðaárkvíslina var jörðin Ártún en um kvíslina lágu sveitafélagsmörk til ársins 1929.
30 Einungis syðri hluti jarðarinnar er innan borgarhlutans en þar er hluti Ártúnsholts í dag. Bæjarstæði Ártúns er á háum hól vestan undir Ártúnsbrekkunni, en þar eru friðaðar fornleifar.
Jarðarinnar Ártúns er ekki getið í Íslensku fornbréfasafni en menn hafa getið sér þess til að jörðin Árland neðra, sem getið er um í Vilchinsbók frá 1379, þá eign kirkjunnar í Nesi, og í Gíslamáldaga frá 16. öld, sé umrædd jörð.
Árbær
Ártún var lengi vel í alfaraleið og þar var stunduð greiðasala og gistiþjónusta á seinni hluta 19. aldar.
Árið 1906 keypti bæjarstjórn Reykjavíkur jarðirnar Ártún, Árbæ og Breiðholt ásamt hluta úr Gröf, vegna fyrirhugaðra vatnsveituframkvæmda, því fyrstu hugmyndir voru að taka neysluvatn úr Elliðaánum fyrir þéttbýli í Reykjavík. Á árunum 1920-1921 voru Elliðaárnar virkjaðar og mannvirki Elliðaárvirkjunar reist við Ártún.
Árið 1929 voru jarðirnar Ártún og Árbær lagðar undir lögsagnarumdæmi Reykjavíkur.

Árbær
Árbær
Austur af Ártúni var jörðin Árbær, en bæjarhúsin eru nú innan safnsvæðis Árbæjarsafns. Hluti núverandi byggðar í Ártúnsholti og neðrihluti Árbæjarhverfis eru byggðir í landi Árbæjar, en jörðin lá upp með Elliðaánum og tilheyrðu Blásteinshólmi og Árbæjarhólmi henni.
Elsta heimild um Árbæ er í skjali frá 31. júlí 1464. Þar votta Steinmóður ábóti í Viðey og Jón Narfason að Ólöf ríka Loptsdóttir hafi látið Gerrek gullsmið í Hafnarfirði fá silfur sem greiðslu fyrir jarðir Guðmundar Arasonar, sem hún og hennar maður Björn Þorleifsson höfðu keypt af konungi en Gerrekur átti að koma silfrinu til konungs fyrir þeirra hönd.

Árbær
Saga Árbæjar er hins vegar mun eldri en þekktar heimildir gefa til kynna því árið 2016 leiddu fornleifarannsóknir á bæjarstæðinu í ljós að þar var búið á 11. öld og jafnvel þeirri tíundu. Leiða má að því líkur að það sama eigi við um búsetu á öðrum þeim jörðum sem hér eru til umfjöllunar.
Sá atburður sem eftirminnilegastur hefur þótt í sögu Árbæjar er sakamál sem átti sér stað árið 1704, en þá var tvíbýli í Árbæ og annar bóndinn varð hinum bóndanum að bana við Skötufoss í Elliðaánum.
Árbær
Síðustu ábúendur í Árbæ voru hjónin Margrét Pétursdóttir og Eyleifur Einarsson sem bjuggu þar frá 1881 og dóttir þeirra Kristjana, sem tók við búinu árið 1935 og bjó þar til 1948, en þá fór bærinn í eyði. Í tíð Margrétar og Eyleifs var fjölsótt greiðasala í Árbæ, með svipuðu móti og verið hafði í Ártúni.
Saga Árbæjar eins og Ártúns er einnig samofin nýtingu Elliðaánna. Eins og áður segir keypti bæjarstjórn Reykjavíkur jörðina ásamt Ártúni og fleiri jörðum árið 1906 vegna fyrirhugaðra vatnsveituframkvæmda og árið 1929 voru jarðirnar Ártún og Árbær báðar lagðar undir lögsagnarumdæmi Reykjavíkur.

Gröf

Gröf

Gröf – bæjarstæðið.

Austur af Árbæ var jörðin Gröf. Austurhluti Árbæjarhverfis, Selásinn og allt Norðlingaholtið er í landi Grafar. Svæði þetta hefur verið beitiland að mestu á öldum áður. Austast, þar sem Norðlingaholt er í dag, voru áður nefndir Klapparholtsmóar en þar var býlið Klapparholt.
Norðlingaholtið sjálft er mun sunnar eða við Elliðavatn, en þar er talið að hafi verið þingbúðir Norðlendinga og tengist það sögu þingsins í Þingnesi við Elliðavatn.

Elstu skriflegu heimildir um jörðina Gröf eru í máldaga Maríukirkju á Bessastöðum sem tímasettur er til ársins 1352. Þá átti kirkjan „…gelldfiar rekstur j grafarlannd j lambatungur“
en ekki er tekið fram hver hefur verið eigandi jarðarinnar. Gröf var komin í eigu Viðeyjarklausturs árið 1395. Þá var gerð skrá um kvikfé og leigumála á jörðum klaustursins.
Gröf virðist þó hafa verið komin í einkaeigu í byrjun 16. aldar, því þann 5. september 1503 seldu Guðmundur Þórarinsson og Ingibjörg Jónsdóttir Árna ábóta jörðina fyrir fjórtán hundruð í lausafé og kvittuðu fyrir andvirðinu.

Grafarkot

Grafarkot 2022.

Þann 10. desember sama ár (1503) var í Viðey gert skiptabréf Árna ábóta annars vegar og Halldórs Brynjólfssonar hins vegar, á jörðunum Strönd í Hvolhreppi og Gröf í Mosfellssveit. Þar með var Gröf aftur komin í einkaeigu. Ekki eru heimildir fyrir því hvenær Halldór seldi jörðina, en hann var nefndur hinn auðgi og hafði mikið umleikis. Svo mikið er víst að jörðin hefur aftur orðið klausturjörð einhvern tíma fyrir 1545 og hélst svo þar til klausturjarðir runnu til konungs um siðaskipti. Á árunum 1547–1552 er jarðarinnar svo getið í fógetareikningum Bessastaðamanna.
Árið 1907 var bærinn Gröf fluttur að Vesturlandsvegi og ný bæjarhús reist og nefnd Grafarholt.
Um aldamótin 1900 bjó þar Björn Bjarnason hreppstjóri og alþingismaður. Jörðin Grafarholt var ekki lögð undir lögsagnarumdæmi Reykjavíkur fyrr en árið 1943, en meginhluti hennar var síðan tekinn eignarnámi 1944. Allt landsvæði austan Elliðaáa tilheyrði áður Mosfellssveit.

Norðlingaholt og Oddagerði
Árbær
Við Elliðavatn er landsvæði sem kallast Norðlingaholt og liggur það mun sunnar en núverandi íbúðahverfi með sama nafni. Þetta landsvæði tilheyrði jörðinni Gröf. Um uppruna örnefnisins Norðlingaholts eru nokkrar kenningar. Ein kenning er sú að vermenn sem komu af Norðurlandi (Norðlingar) og hugðust fara til róðra eða skreiðarkaupa á Suðurnesjum hafi áð við holtið og þar hafi einnig oft skilið leiðir þeirra á milli eftir því hvert á Suðurnesin átti að halda. Að sama skapi hafi þeir komið saman við holtið þegar haldið var heim norður. Hin kenningin, sem blaðamaðurinn Árni Óla hélt á lofti, er sú að holtið sé kennt við fornar þingbúðir Norðlinga sem sóttu hið forna Kjalnesingaþing við Þingnes og að Norðlingar hafi verið þeir sem komu frá Borgarfirði og jafnvel Hvalfirði.

Árbær
Búðirnar eru merktar inn á kort frá árinu 1880 sem talið er gert af Benedikt Gröndal. Árið 1897 sýndi Benedikt Sveinson alþingismaður fræðimanninum Daniel Bruun búðir í Norðlingaholti og taldi að búðirnar væru frá því áður en Alþingi var stofnað.
Fornleifafræðingarnir Guðmundur Ólafsson og Bjarni F. Einsson hafa skráð eina búð á svæðinu í Fornleifaskrá Reykjavíkur. Hvort um þingbúð er að ræða eða ekki er ekki vitað, þar sem engin eiginleg fornleifarannsókn hefur farið fram á þessum stað, en slík rannsókn væri nauðsynleg til að komast að aldri rústarinnar. Hins vegar er öruggt að þing var við Elliðavatn í Þingnesi og hugsanlega tengjast þessir staðir.
Á þessum slóðum var býlið Oddagerði eða Oddagerðisnes en nokkurs ruglings virðist gæta um nákvæma staðsetningu þess. Líklega hefur kort Benedikts Gröndal frá 1880 aflvegaleitt marga sem skrifað hafa um svæðið, en Benedikt merkir örnefnið Oddagerðisnes (Oddgeirsnes) inn á næsta tanga fyrir vestan Norðlingaholt. Oddagerði er nefnt í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns sem eyðibýli og þar sagt hafa farið í eyði fyrir löngu en nýtt af ábúendum Grafar og Árbæjar.54 Í örnefnaskrá sinni frá um 1900 lýsir Björn Bjarnason, hreppstjóri og ábúandi í Gröf, þar rústum og görðum og telur þessar minjar mjög gamlar. Björn staðsetur Oddagerði sunnan við Skyggni (Oddaskyggni). Það svæði fór undir vatn við gerð Elliðaárstíflu á árunum 1924-1928, en á loftmynd frá árinu 1954, sem hefur verið tekin þegar mjög lágt var í vatninu, má greina þar rústir og garða.

Fornar leiðir og greiðasala
Árbær
Elsta þjóðleiðin til og frá Reykjavík lá frá Skólavörðuholti um Öskjuhlíð og áfram austur Bústaðaholt á þeim slóðum þar sem Bústaðavegur er nú. Frá Bústöðum lá leiðin austur yfir vaðið á vestari kvísl Elliðaánna, um Árhólmann sunnan við Drekkjarhyl og rústirnar af húsum Innréttinganna og yfir eystri kvísl Elliðaánna á Ártúnsvaði, rétt austan við þar sem Toppstöðin er í dag og framundan bæjarhól Ártúns. Á meðan Ártún var í þjóðleið var rekin þar greiðasala. Þaðan lá leiðin að Árbæ um Reiðskarð en þar var skarð í gömlu ísaldaráreyrina og því greiðast að fara þar upp.
Leið þessi var aðalvegurinn austur úr bænum þar til byggðar voru tvær brýr yfir Elliðaárnar árið 1883 og nýr vegur var lagður í framhaldi af Laugavegi norður fyrir Grensás og í gegnum Sogamýri, sem ýmist var nefndur Suðurlandsvegur eða Suðurlandsbraut (núverandi Suðurlandsbraut). Fyrir austan brýrnar færðist vegstæðið norðar og eftir það var Ártún ekki í sömu alfaraleið og áður og greiðasala lagðist af þar. Um svipað leyti hófu ábúendur í Árbæ rekstur greiðasölu, eins og áður er nefnt, sem var rekin þar fram undir 1940.

Árbær
Um 1900 var búið að gera vagnveg frá Elliðaárbrúm að Árbæ og áfram austur. Þessi vegur (gamli Suðurlandsvegur) er þar sem gatan Rofabær er nú. Vegurinn hélt síðan áfram til austurs framhjá Rauðavatni og að Geithálsi.
Áður lá vegurinn hjá Rauðavatni aðeins sunnar, samanber kort sem til er af svæðinu frá 1902, en þar eru merktir nokkrir gamlir slóðar. „Gamli vegurinn“ er sennilega elsti slóðinn sem lá á milli Árbæjar og Hólms yfir Klapparholtsmóa og er líklega elsti forveri Suðurlandsvegar (merktur rauður á kortinu). Enginn örugg merki eru sjáanleg eftir hann nema hugsanlega nyrst við núverandi Norðlingabraut. Annar slóði lá suðvestur frá Rauðavatni inn Margrófina og inn að Norðlingaholti (merktur grænn á kortinu). Þessi vegur var forveri Breiðholtsbrautar og er nyrsti hluti hans nú notaður sem reiðvegur. Þá lá slóði yfir Klapparholtsmóa og Klapparholtsvað vestan við býlið Klapparholt yfir að Elliðavatni, merktur blár á kortinu). Inn á kortið er einnig teiknaður vagnavegurinn meðfram Rauðavatni eða fyrsti Suðurlandsvegurinn, merktur svartur á kortinu).

Herskálahverfi og aðrar herminjar
Árbær
Á stríðsárunum reistu hernámsliðin nokkur lítil braggahverfi austan Elliðaáa. Í landi Ártúns voru fimm herkampar reistir og stóðu þrír þeirra á því svæði sem borgarhlutinn Árbær nær til. Sunnan bæjarhóls Ártúns var Camp Alabaster sem var um tíma aðalbækistöð breska setuliðsins. Síðar tóku Bandaríkjamenn yfir herskálahverfið og nefndu það Camp Pershing. Í Ártúnsbrekku, norðan við bæjarhólinn, var Camp Battle og þar norðan við var Camp Hickam. Einu ummerkin sem eftir eru um hernaðarmannvirki á svæðinu eru í Ártúnsbrekkunni, þar sem er dæld eftir sandpokavígi á einum stað og neðanjarðarbyrgi sem búið er að byrgja fyrir á öðrum stað. Þar er einnig að finna jarðhýsi sem reist voru sem kartöflugeymslur árið 1946 en við byggingu þeirra var nýtt efni úr geymslum sem setuliðið hafði látið reisa á Íslandi.

Hernám

Ofarlega í Elliðaárdal, þar sem nú er skeiðvöllur Hestamannafélagsins Fáks, var nokkuð stórt braggahverfi, Camp Baldurshagi. Nafnið á kampinum er villandi vegna þess að hann er á allt öðrum stað en hinn upprunalegi Baldurshagi sem var við Suðurlandsveg (sjá að ofan). Í Camp Baldurshaga voru fyrst breskir hermenn en síðar landgönguliðar bandaríska sjóhersins. Þar má enn sjá braggagrunna upp með ánni. Eitt húsanna sem reist voru fyrir yfirmenn setuliðsins var síðar flutt í Seláshverfi og mun standa þar enn samkvæmt munnlegum heimildum, en líkt og víðar í borgarlandinu eru annars fá ummerki um mannvirki frá hernámsárunum á þessu svæði.

Austan við Baldurshaga við Suðurlandsbraut (austan við núverandi bensínstöð Olís í Norðlingaholti) var braggahverfið Camp Columbus Dump, sem var birgðageymsla. Þar voru lengi sjáanlegir braggagrunnar.
Á austurjaðri borgarhlutans, við Sandvík norðvestan Rauðavatns, er einnig að finna minjar frá hertíma en þar var Camp Buller, höfuðstöðvar strandvarna eða loftvarnastórskotaliðs.
Á staðnum eru steyptar undirstöður bragga auk bryggju, en Rauðavatn var töluvert stærra á hernámsárunum en nú. Sunnar, við lítinn tanga austan við Rauðavatn, er að finna hringlaga tóft, hugsanlega stríðsminjar.

Árbæjarsel II

Árbæjarsel

Árbæjarsel í vestanverðum Selási, eitt af tveimur. Hitt var í Nónhæð ofan við Gröf.

Tvær heimildir er að finna í örnefnalýsingum um sel frá Árbæ. Í annarri þeirra segir: „Sel hefur verið suðaustan undir ásnum. Það er í Árbæjarlandi“. [Hér er áttvið sel í Nónhæð fyrir ofan Gröf. Þar eru minjarsels, húsatóftir og stekkur.]
Í hinni segir: „Vestur af Markgróf er Sauðadalur. Þar byggði Jens Eyjólfsson (árið 1933). Þar vestur af er Selás, sem dregur nafn af því, að í Sauðadal vestan til var sel, líklega frá Árbæ.“ Hugsanleg staðsetning sels er þá norðan við gamla húsið Selásdal út frá þessum lýsingum, eða á því svæði þar sem í dag er Suðurás 16-24. Ef loftmyndir frá árinu 1956 eru skoðaðar má sjá rústarsvæði nær gamla farvegi Bugðu sem gæti hafa verið sel. Það eina sem styður þá staðsetningu frekar, er að sel eru oftast nálægt ám eða lækjum. Nú eru þarna hesthús Fáks.
[Vestur í Selási eru enn tóftir, bæði húsa og hlaðinn stekkur].

Heimild:
-Byggðakönnun, Borgarhluti 7 – Árbær, Borgarsögusafn Reykjavíkur 2017.
Árbær