Tag Archive for: Ófriðarstaðir

Ófriðarstaðastígur

Gísli Sigurðsson skráði örnefni fyrir Ófriðarstaði við Hafnarfjörð.

Ófriðarstaðir

Ófriðarstaðir á fyrri hluta 20. aldar.

Bærinn Jófríðarstaðir suður á Hamrinum hét áður Ófriðarstaðir, nefndur í heimildum frá 1595 sem sérstakur bær og var þá konungsjörð. Er talið að nafnið Ófriðarstaðir hafi komið til eftir bardaga milli enskra kaupmanna og Hansakaupmanna um yfirráð mikilvægrar verslunar í Hafnarfirði.

Árið 1816 er þetta land, allt sunnan frá Bruna (Hafnarfjarðarmegin við Straum) og allt vestur að Fiskakletti í Hafnarfirði komið í eigu Bjarna riddara Sívertsens.

Ófriðarstaðir

Ófriðastaðir um miðja 20. öld.

Ófriðarstaðir var konungsjörð fram til 1804 er Bjarni riddari Sívertsen eignaðist jörðina með það í huga að reisa þar skipasmíðastöð. Bjarni átti jörðina meðan hann lifði en það voru danskir kaupmenn sem keyptu hana þá á uppboði eftir andlát Bjarna og seldu þeir svo jörðina í tvennu lagi. Til aðskilnaðar þá hélt sá hluti jarðarinnar er Árni J. Mathiesen keypti nafninu Ófriðarstaðir/Jófríðarstaðir en hinn hlutinn fékk þá nafnið „Hamar“ii. Eftir það gengu þessir jarðarhlutar kaupum og sölum þar til Hafnarfjaðrarbær eignaðist stóran hlut úr Hamri og Maríuprestaregla heilags Louis Grignion de Montfort, sem þá þjónaði kaþólsku kirkjunni á Íslandi, keypti Jófríðarstaði á árunum 1921 og 1922.

Jósepsspítali

Jósepsspítali.

Regla St. Jósefssystra studdi jarðakaupin strax með því að kaupa tveggja hektara spildu af Montfort-reglunni undir spítala og aðra starfsemi.

Jófríðarstaðir voru ein af þeim fjórum bújörðum sem Hafnarfjarðarkaupstaður stóð á. Örnefnaskráning Hafnarfjarðar fyrrum var grundvölluð á jörðinni. Hinar voru Akurgerði, Hamarskot og Hvaleyri.

Ófriðarstaðir, jörð í Garðahreppi, fyrrum í Álftaneshreppi. 1885 var nafninu breytt í Jófríðarstaðir, en eldra nafninu er haldið hér. Ófriðarstaðabær stóð í svolitlum slakka austur af Ófriðarstaðahól. Vestan bæjarins stóð Ófriðarstaðahúsið, eftir að þar var reist, og tvíbýli varð á jörðinni 1885.

Ófriðarstaðir

Ófriðarstaðir um 1855 – tilgáta. Suðurtraðir.

Ófriðarstaðatún var allstórt, umgirt Ófriðarstaðatúngörðum. Austurtúngarður lá suðaustan og austan að túninu, norðurtúngarður bak við bæinn og vestur fyrir hól, en vesturtúngarður ofan frá hól niður að Ófriðarstaðalæk, sem rann með öllu Suðurtúninu. Á Ófriðarstaðahól var mikil huldufólkstrú, og klettum og klöppum kringum hann. Brekkan suður og niður frá hólnum nefndist Kinn, allt niður að Suðurtröðum, sem enn sér merki, því traðargarðana sér enn. Meðfram læknum var Harðhaus. Þá mun þarna í Suðurtúninu hafa verið Þinggerðið.

Ófriðarstaðir

Ófriðarstaðir – landamerki.

Utan austurtúngarðs var ræktun, nefndist Nýjatún. Sagnir voru uppi um, að þar hafi verið kofi, sem Skáld-Rósa átti að hafa búið í, nefndist Rósukofi. Frá bæ norður lágu Norðurtraðir í norðurtraðarhlið. Ásgatan lá frá traðarhliðinu suður með austurgarði að Ási, en frá hliðinu lá Ófriðarstaðastígur niður í kaupstaðinn.
Kvíholt var í norðaustur frá bænum. Þar stendur nú Karmelítaklaustur. Neðan undir því rann Kvíholtslækur. Á fyrstu árum aldarinnar voru nokkrir bæir byggðir rétt við stíginn. Má þar nefna Ívarshús með Ívarsbæjarlóð, Klapparholt með Klapparholtslóð. Bær þessi stendur enn og var venjulega aðeins kallaður Holt.
Á Vesturhamar liggur landamerkjalínan; nefnist hann einnig Sjávarhamar, Skiphamar og Flensborgarhamar.

Steinsstaðir

Steinsstaðir.

Hamar var stór og reisulegur bær á Hamrinum. Í Hamri var bær snemma byggður, og undir aldamótin var bær byggður þar, er nefndist Miðengi. Um Hamarinn, rétt neðan við bæi þessa, lá alfaraleiðin, síðan niður af Hamrinum og eftir fjörunni suður yfir Ásbúðarlæk og áfram. Sunnan við Miðengi var bærinn Hella. Þar suður af var sjóbúðin, sem seinna nefndist Steinsstaðir, og þar sunnar Mýrarhús. Allir þessir bæir áttu sínar lóðir: Hamarslóð, sem einnig nefndist Bjarnabæjarlóð og Bjarnabær bærinn, Miðengislóð, Hamarslóð 2, Hellulóð, Sjóbúðarlóð og síðar Steinsstaðalóð, þá Mýrarhúsalóð.

Kaldadý

Kaldadý (Kaldalind) – loftmynd 1954.

Suður af Mýrarhúsum var Kaldalind [Kaldadý]. Þaðan var fyrst vatni veitt til neyzlu í Firðinum 1905. Einnig var 1891 veitt vatni úr þessari lind að gosdrykkjaverksmiðjunni Kaldá, sem Jón Þórarinsson skólastjóri setti á stofn. Frá Kaldá rann Kaldárlækur. Einnig lá Kaldárstígur frá verksmiðjunni niður að sjó.
Niður undan Hamrinum tók við Ófriðarstaðamöl og Ófriðarstaðafjara. Rétt við Hamarinn var svo Ófriðarstaðavör, og þar hjá Ófriðarstaðasjóbúð. Síðar fékk staður þessi eftirtalin nöfn: Hellumöl, Hellufjara og Hellusjóbúð og fjárhús Hellukofi. Hér í fjörunni stofnaði Júlíus V. J. Nýborg skipasmíðastöð. Hér stendur nú skipasmíðastöðin Dröfn.

Ófriðarstaðir

Hafnarfjörður á árum fyrri heimstyrjaldarinnar, á árunum 1914 til 1918. Myndin er tekin ofan af Ófriðarstöðum, hæst á Ölduslóð. Séð er yfir svæði sem kallaðist Austur- og Vesturhamar en er nú Hlíðarbraut, Suðurgata og Hamarsbraut og Hringbraut. Fjörðurinn og vesturbærinn fyrir miðri mynd.

Ofan við mölina er Sjávarmýrin og efst í henni Briemstún. Gunnlaugur E. Briem ræktaði þarna tún, þegar hann var verzlunarstjóri fyrir Knudtzon. Vestar tók svo við Íshúsfjara og Íshúsmöl eftir að Aug. Flygenring reisti hér íshús.
Í holtinu upp frá Melnum var Miðaftansvarða, eyktamark frá Ófriðarstöðum. Héðan nefndist lækurinn Ófriðarstaðalækur. Vestan hans, upp við traðarhlið, var lambhúsið.
Sunnan lækjarins voru nokkuð börð, þar á meðal Gálga-torfur. Veit þó enginn deili á þeirri nafngift. Þegar kemur upp fyrir túnið, nefnist lækurinn Grænugrófarlækur, enda rennur hann hér ofar um Grænugróf. Þegar sleppir Brandsbæjarholti, tekur við Háaleiti eða Ófriðarstaðaleiti.“

Heimild:
-Örnefnaskrá fyrir Ófriðarstaði – Gísli Sigurðsson.

Ófriðarstaðir

Ófriðarstaðir – loftmynd frá 1937 sett yfir loftmynd frá 2024 – ÓSÁ.

Hafnarfjörður

Björn Þorsteinsson, sagnfræðingur, skrifaði í Alþýðublað Hafnarfjarðar (jólablað) árið 1965 um Hafnarfjörð fyrri tíma undir yfirskriftinni „Skyggnst um nágrennið„:

Flatahraun.
Árni MagnússonÚr Engidal liggur steypt bílabraut austur Flatahraun áleiðis til Keflavíkur. Hér hófst síðasta skeið íslenskrar vegagerðar, þegar byrjað var að steypa Keflavíkurveginn 1962.
Fram undan rís Setbergsholt, Mosahlíð og Ásfjall. Á hrauninu liggur vegurinn ýmist í Hafnarfirði eða Garðahreppi, því að mörkin milli þessara lögsagnarumdæma eru óregluleg hér um slóðir.
Kaplakriki nefnist fyrsta byggðin við veginn. Um einn km þaðan inni í hrauninu liggur algjörlega sjálfstæður vegur, tengir ekkert við ekkert. Hann er 7 m breiður, um 2 km á lengd, en hæð er ómæld. Vegur þessi átti að verða upphaf að hinni miklu ókomnu braut, sem tengja skal Reykjavík og Hafnarfjörð um aldir. Hann var lagður í atvinnubótavinnu árið 1918 og ætlaður jafnt járnbrautum sem bifreiðum. Menn voru stórhuga í þann tíð. Hér lágu fornar lestamannagötur til Hafnarfjarðar um Hörðuvelli neðan við Sólvang, en úr Kaplakrika um Vífilsstaði og á áningarstað á Kjóavöllum vestan Elliðavatns. Þetta var höfuðleið til Fjarðarins önnur en Gömlufjarðargötur.
Setbergshamar heita vestasti hluti Setbergsholts. Undir þeim er talsverð nýbyggð, og enda nöfn allra húsanna á -berg: Þórsberg,  Ásberg o.s.frv.

Setberg – Upphaf rafvæðingar á Íslandi.

Jóhannes reykdal

Jóhannes Reykdal.

Bærinn Setberg stendur nokkru innar á holtinu í miklum túnum.
Það er forn jörð. Kirkju- og konungsvald náði aldrei tangarhaldi á Setbergi, og er það merkilegt um fasteignir hér í sveit. Þar gerðu þeir Gísli Þorkelsson og Jóhannes Reykdal garðinn einkum frægan, en auk þeirra hafa sýslumenn og galdraprestur setið þar með sóma auk allra annarra. Þorsteinn prestur Björnsson sat á eignarjörð sinni Setbergi síðustu æviár sín (1661—’75). Hann var lærður vel á sinni tíð. Eftir hann liggur m. a. mikill kvæðabálkur á latínu: Noctes Setbergenses eða Setbergskar nætur — um undur náttúrunnar. Sonarsonur hans var Gísli Þorkelsson, sem ritaði Setbergsannál. — Jóhannes Jóhannesson Reykdal bjó á Setbergi 1909—31 og síðar til æviloka á Þórsbergi (d. 1946).

Reykdalsvirkjunin

Reykdalsvikjunin,

Árið 1903 reisti hann trésmíðaverksmiðjuna Dverg í Hafnarfirði, en það var fyrsta verksmiðjan, sem gekk fyrir vatnsafli hér á landi.
Árið 1904 virkjaði hann Hamarskotslæk, setti upp litla rafmagnsstöð til ljósa og aðra stærri 1907.
Það voru fyrstu rafmagnsstöðvarnar hér á landi. Þaðan fengu Hafnfirðingar „köldu ljósin“ — fyrstir Íslendinga. Sólvangur, elli- og hjúkrunarheimili Hafnfirðinga, stendur nokkru fyrir neðan veginn undan Setbergi. Sjávarhraun nefnist hraunið þar suður af milli Hörðuvalla, íþróttasvæðis Hafnfirðinga, og Setbergstjarna. Hér þrýtur steypta veginn á kafla, af því að hér eiga að koma tvílyftar krossgötur.
Trésmíðaverksmiðja og timburverslun Reykdals stendur neðan vegar við Hamarskotslækinn, sem kemur úr dalnum milli Setbergsholts og Mosahlíðar. Hann nefnist Þverlækur niður að vegi, en breytir þar um nafn.

Lækurinn

Lækurinn.

Dregur hann þar eftir heiti af Hamarskoti, sem stóð á Hamrinum, þar sem nú er Flensborgarskólinn. Hin forna virkjunarstífla Reykdals sést fyrir neðan verksmiðjuna.
Lækurinn er eitt merkasta vatnsfall í atvinnusögu Íslendinga, Atkeldur.

Úfið gróðursælt hraun, Stekkjarhraun, liggur suður dalinn, en undir því standa hús í skjólsælum hvömmum. Vestast í því  skammt frá vegi eru tveir litlir mýrarslakkar, Atkeldur. Þar var tekið at í gamla daga til litunar, en það er eðja, sem gefur svartan lit. Af þeim starfa er dregið orðtakið að vera ataður, óhreinn.

Kirkjugarður á Hvíldarbörðum, nunnur á Kvíholti og Ófriðarstaðir.

Jófríðarstaðir

Jófríðarstaðir fyrrum – tilgáta.

Frá brúnni á Hamarskotslæk liggur vegurinn upp brekku á svokallaðar Öldur. Þar er kirkjugarður Hafnfirðinga undir Mosahlíðinni, og hét þar áður Hvíldarbörð.
Hér verða krossgötur. Öldugata liggur ofan í Hafnarfjörð, en suður með kirkjugarðinum liggur Elliðavatnsvegur og af honum braut í sumarbústaðaland Hafnfirðinga, í Sléttuhlíð, og suður í Kaldárbotna og að Helgafelli.

Karmelklaustur

Klaustrið 1973.

Skammt fyrir sunnan kirkjugarðinn beygir Elliðavatnsvegur austur yfir Setbergsdalinn. Í Mosahlíðinni eru mikil alifugla- og svínabú.
Á Öldunum er aftur komið á steinsteyptan veg. Norðan hans er Kvíholt. Þar hafa hollenskar nunnur af Karmelitareglu verið kvíaðar inni, og er það eina klaustrið hér á landi, eins og kunnugt er.
Fyrsta evangelíska kirkjan á Íslandi var reist í Hafnarfirði 1536, og fyrsta kaþólska klaustrið eftir siðaskipti var reist hér og tekið formlega í notkun 1946.
Grænagróf og Grænugrófarlækur eru fyrir vestan Kvíholt. Lækurinn kemur úr Ásfjalli og fellur niður hjá Ásbúð syðst í fjörðinn og nefnist þá Ásbúðarlækur.
Hafnarfjörður 1770Jófríðarstaðir eru býli á Jófríðarstaðahæð næst fyrir utan Kvíholt. Jörðin hét að fornu Ófriðarstaðir (nafninu breytt 1875), og mun það nafn eiga rætur að rekja til einhvers ófriðar, sem hér geisaði fyrr á öldum, en hér var róstusamt á 15. og 16. öld.

Hvaleyri

Hvaleyri – gamli bærinn á mynd frá 2020.

Þá liggur bílabrautin sunnan undir Hvaleyrarholti, en þangað hefur kaupstaðurinn teygt byggð sína á síðustu árum. Sunnan vegar er Ásfjall með mælingavörðu á kolli. Undir því stendur bærinn Ás ofan við Ástjörn. Brautin liggur um tún Þorgeirsstaða sunnan við Hvaleyrarholt.

Þorgeirsstaðir

Þorgeirsstaðir.

Bærinn hét áður Þorláksstaðir, og fylgir því nafni sú sögn, að þar á holtinu hafi að fornu staðið kapella helguð heilögum Þorláki.

Þá liggur brautin yfir syðsta tagl Hvaleyrarholts, en þaðan blasir Reykjanesskaginn við.
„Flókastein“ nefnir Jónas Hallgrímsson bjarg nokkurt á túninu norður af Hvaleyrarbænum. Það er alsett áletrunum misjafnlega gömlum og þar á meðal rúnaletri, bandrúnum. Um rúnirnar segir Jónas, að hann viti ekki betur en þær séu nöfn á þeirri skipshöfn, sem víkingurinn Flóki hafði með sér, þegar hann heimsótti Ísland. Verið getur, að Herjólfur hafi ríslað sér við að rista þessar rúnir á steininn, meðan hann beið eftir skipinu,, sem hann sleit frá á skipsbátnum.

Engidalur — Hafnarfjörður.

Hamarskot

Hamarskot fyrrum – tilgáta.

Hafnarfjörður var fjölsóttasta verslunarhöfn hér á landi frá því um 1400 og fram á 18. öld. Lögsagnarumdæmi kaupstaðarins hefst á hraunbrúninni við Engidal. Þar sem borgin stendur voru áður bæirnir Akurgerði, Hamarskot, Ófriðarstaðir (Jófríðarstaðir) og Hvaleyri.

Jófríðarstaðir

Jófríðarstaðir fyrrum – tilgáta ÓSÁ.

Enn er grasnyt á Jófríðarstöðum og dálítill búskapur rekinn á Hvaleyrartorfunni, en borgin sækir fast inn á lönd hinna fornu jarða.
Þótt Hafnarfjörður væri fjölsóttur verslunarstaður og kaupmenn af ýmsum þjóðlöndum þreyttu þangað kappsiglingu á útmánuðum fyrr á öldum, þá lágu engir vegir til staðarins, aðeins koppagötur úr ýmsum áttum yfir hraunin, og þar reis ekki þorp fyrr en á 19. öld.

Árnasafn

Endurheimtar bækur Árna Magnússonar frá Danmörku.

Gömlufjarðargötur lágu frá Hraunsholti að Sjónarhóli, Reykjavíkurvegi 22. Það var fjölfarnasta lestamannaleiðin til fjarðarins.

Árnasafn flutt til skips.

Vorið 1720 silast lest suður hraunið til Hafnarfjarðar, 30 klyfjahestar með þung koffort þræddu Gömlufjarðargötuna frá Hraunsholti, álútir, varkárir, og fótvissir.

Hvaleyri

Hvaleyri 1772 – Joseph Banks.

Þröngir troðningar voru markaðir í hraunklöppina af óteljandi lestum, sem höfðu lötrað þennan stíg um aldir og flutt alls kyns varning. Að þessu sinni var flutningurinn mesta dýrmæti, sem lyft hafði verið til klakks á Norðurlöndum.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður 1834.

Lestin kom frá Skálholti, höfuðmenntasetri hins forna Íslands, og í koffortunum voru bækur, gulnað og velkt bókfell, elju- og snilldarverk íslenskra þúsunda. Þær eru safn Árna Magnússonar, og það á að flytjast til Kaupmannahafnar.
Í 8 aldir hafði verið unnið að þessum bókum um dreifðar byggðir Íslands, og nú áttu þær að auka og treysta frægð hins danska konungsveldis í höfuðborg ríkisins.
Þessi koffort eru eins og táknmynd um niðurlægingu Íslands þar sem hún silast áfram með bækur þess úr hinum forna menningarhöfuðstað til hins danska skips í Hafnarfirði„, segir Jón Helgason í Handritaspjalli.

Hafnarháskóli

Hafnarháskóli.

Lestin hefur þrætt stíginn ofan við Háaklif, sem nú nefnist Reykjavíkurvegur, þokast suður Malirnar og út á grandann hjá Óseyri. Þar skilaði hún auðæfunum á skipsfjöl.
Bækurnar voru afreksverk íslenskrar hámenningar, sem átti sér fótfima fararskjóta að forsendu.
Hesturinn hafði sigrast á öllum torfærum og firnindum Íslands og gert það að einni samfélags- og menningarheild. Hann hafði borið forna stjórnskipan um landið, á fótum hans hvíldi þinghaldið á Þingvelli við Öxará og forn sagnritun.

Hekla

Franski landfræðingurinn Alain Manesson Mallet skrifaði heimslýsingu sem kom út 1683, sama ár og Árni Magnússon fór til náms við háskólann í Kaupmannahöfn. Íslandi bregður fyrir á 14 kortum í bókinni. Hér er mynd úr heimslýsingunni, á henni sést Hekla gjósa.

Nú hafði hann flutt bækur Íslands yfir öll torleiði til strandar. Þær höfðu verið tíndar saman í rústum hins forna íslenska samfélags, og voru fluttar á nýjan áfangastað, en þar beið þeirra það hlutskipti að hefja sokkna þjóð úr niðurlægingu.
Árnasafn var og er sérstæð stofnun við Hafnarháskóla. Safnið var í raun og veru fyrsti háskóli Íslendinga. Þeir voru ómissandi fylgjunautar bóka sinna, og þær opnuðu þeim leið til nokkurra mannvirðinga og áhrifa hjá einvaldsstjórninni í hinum nýju heimkynnum og jafnvel aðgang að bakdyrum konungshallarinnar. Kringum hinar fornu bækur varð til nýlenda íslenskra menntamanna, og þaðan komu Íslendingum, sem heima sátu, talsmenn og leiðtogar.
Árnasafn varð höfuðstöð íslenskrar þjóðfrelsisbaráttu, þegar stundir liðu. Margir af helstu forystumönnum Íslands á 18. og 19. öld voru starfsmenn safnsins lengur eða skemur: Bjarni Pálsson, Eggert Ólafsson, Hannes Finnsson, Finnur Magnússon, Konráð Gíslason og Jón Sigurðsson. Jón var styrkþegi og starfsmaður Árnasafns frá 1835 til dauðadags 1879. Hvort sem hin framsækna sveit Íslendinga var kennd við Fjölni eða Félagsrit, þá var kjarni hennar tengdur stofnun Arna Magnússonar.
Þjóðfélagsbarátta okkar við Dani er til lykta leidd. Árnasafn hefur skilað miklu hlutverki bæði sem vísindastofnun og virki þjóðfrelsismanna. Leitun mun vera á stofnun, sem hefur verið jafnsamgróin þjóð sinni og þetta safn velktra skinnbóka og snjáðra pappírsblaða.

Árnasafn

Úr Árnasafni í Kaupmannahöfn.

Engin þjóð mun eiga neinni stofnun jafnmikið að þakka og við Íslendingar safninu hans Árna Magnússonar.“

Heimild:
-Alþýðublað Hafnarfjarðar.  Jólablað 1965 (24.12.1965), bls. 16-18.

Handrit

Endurheimt handritin útlistuð..