Gengið var til suðurs frá ofan[vestan]verðum Dyradal og inn með vestanverðum Henglafjöllum [Hengilsfjöllum] þar sem þau mæta Mosfellsheiði. Þar sást vel hvar Dyravegurinn liðaðist niður heiðina áleiðis að Lyklafelli.
Margar þjóðleiðir lágu milli byggða um Hengilssvæðið fram eftir öldum. Hellisskarðsleið liggur frá Kolviðarhóli austur yfir Hellisheiði og niður hjá Reykjum í Ölfusi. Vegur milli hrauns og hlíðar, frá Kolviðarhóli, um Hellisskarð og síðan austur með Stóra-Skarðsmýrarfjalli yfir Bitru, um Þverárdal og niður hjá Króki eða Hagavík. Dyravegur, frá Elliðakoti við Nátthagavatn, austur yfir Mosfellsheiði norðan Lyklafells, um Dyradal og Rauðuflög og niður hjá Nesjavöllum.
Í Mbl. í júli 1981 má lesa eftirfarandi lýsingu um Dyraveginn: „Allt til þessa dags hefur þeim leiðum, sem forfeður okkar, mann fram af manni, fetuðu eftir í aldaraðir, verið lítill sómi sýndur. Við leggjum mikla áherslu á söfnun gamalla muna og varðveislu fornra bygginga og er það vel, en er það nokkur fjarstæða að viðhalda á sama hátt þessum gömlu götum, sem nú víða eru horfnar með öllu, en bera á sinn hátt þögult vitni um þá hörðu baráttu, sem þjóðin háði fyrir tilveru sinni? Í þeim flokki er Dyravegur. Frá fornu fari lá leiðin frá Þingvöllum suður með vatninu að vestan til Nesjavalla.
Þeir sem bjuggu austan við Sogið komu einnig að Nesjavöllum, eftir að hafa sundlagt hestana og farið á ferju yfir fljótið fyrir neðan Dráttarhlíð, þar sem Steingrímsstöð er nú. Þessa leið fóru Skálholtsmenn fyrrum, þegar þeir fluttu vistir að og frá biskupsstólnum, en sá staður þurfti mikils við, þegar umsvifin þar voru sem mest. Enda hlaut þessi leið nafnið Skálholtsmannavegur. Þegar þessar tvær leiðir höfðu sameinast á Nesjavöllum, lá hún vestur yfir Dyrafjöllin, þvert yfir Sporhelludal og Dyradal. Við Húsmúla greindist leiðin aftur. Þeir sem ætluðu til Reykjavíkur og Hafnarfjarðar tóku stefnuna á Lyklafellið, en þeir sem ætluðu í Selvog eða á sunnanvert Reykjanes héldu suður með Húsmúlanum og stefndu á Lágaskarð austan við Stórameitil. Í þessari ferð skulum við kynnast Dyraveginum nokkru nánar. Við yfirgefum bílinn sunnan undir Húsmúlanum og göngum eftir Bolavöllum, sem eru að vestan við hann.
Þar komum við fljótlega á grasivaxna götutroðninga, sýnileg merki þeirrar umferðar sem hér var fyrr á tímum. Troðningarnir eru skýrir og auðvelt að fylgja þeim, sem við gerum að sjálfsögðu. Brátt komum við inn í Engidal. Eftir honum fellur Engidalsáin, sem myndast úr smá lænum og uppsprettum er koma úr vesturhlíðum Hengilsins. Lengsta kvísl hennar kemur frá Marardal. Þangað liggur götuslóði, en annars er gamla gatan vestan við Marardalinn, en við tökum á okkur krók og heimsækjum dalinn. Það er þess virði. Marardalur er sigdæld, neðanundir Skeggja, en svo nefnist hæsti tindur Hengilsins. Brattar hlíðar liggja að honum á alla vegu, botn hans er rennisléttur og um grundirnar liðast fagurtær lækur. Smá skarð í dalsbrúnina er í suðvesturhlið hans. Um það rennur lækurinn. Skarðið er svo mjótt, að menn verða að ganga þar inn í einfaldri röð. Merki um grjótgarðshleðslu er þar, því áður fyrr voru naut og önnur geldneyti höfð þar að sumarlagi og lokuð þar inni með þessum grjótgarði. Við höldum inn eftir dalnum og fikrum okkur svo upp bratta brekkuna og upp á norðurbrún hans. Þar blasir við allbreitt vik eða dalskvompa sem gengur inn í fjallið. Þar komum við aftur á gömlu götuna og henni fylgjum við eftir það. Úr þessu hækkar gatan og liggur upp brekkurnar til austurs og upp á vesturbrún Dyradalsins. Hann er ekki ósvipaður Marardal, hlíðabrattur og rennsléttur í botninn. Hér er gatan skýr og glögg, sem einkum skal þakka sauðkindinni, sem ræður hér ríkjum í sumarhögunum. Gatan liggur þvert yfir dalinn og stefnir í skarð, milli tveggja kletta, í austurhlið hans. Þar komum við að hinum nafnkenndu dyrum, sem þessi leið er kennd við. Smálækur fellur um um Dyrnar, sem eru ekki nema ca. 2 m á breidd. Líklega á hann einhvern þátt í myndun Dyranna, en annars eru öll fjöll hér um slóðir mynduð úr móbergi, sem vatn og vindar vinna á jafnt og þétt. Tafsamt hefur verið að koma hestalestunum í gegn um dyrnar. Menn hafa orðið að taka klyfjarnar ofan, teyma hestana síðan í gegn um skarðið og láta svo aftur upp. En um það var ekki að fást, þetta var hluti af striti dagsins. Austan við Dyrnar eru einir þrír smádalir með bröttum hálsum á milli. Yfir þá liggur leiðin og hefur margur klyfjahesturinn trúlega svitnað ærlega á þeirri leið. En er þeir eru að baki opnast skyndilega nýtt útsýni. Þar blasa Nesjavellir við augum, Þingvallavatn og fjallahringurinn í norðri og austri. En sunnar bera hverareykir Hengilssvæðisins við loft.“
Þegar komið var inn í Engidal var byrjað á því að skoða tvö útilegumannaskjól þar í vestanverðum dalnum. Utan við munnana mátti sjá vordropa á móbergsstandi.
Ólafur Briem fjallar um útilegumenn á Reykjanesskaganum í bók sinni “Útilegumenn og óðar tóttir”. Bókin var gefin út árið 1959, en var síðan endurskoðuð og endurbætt í nýrri útgáfu 1983. Í eftirfarandi umfjöllun er stuðst við síðari útgáfuna.
“Fyrstu útilegumenn, sem um getur á Reykjanesfjallgarði, eru Eyvindur Jónsson úr Ölfusi – sem kalla mætti hinn eldra til aðgreiningar frá Fjalla-Eyvindi – og fylgikona hans: Margrét Símonardóttir.” Þessum hjúum er lýst annars staðar á vefsíðunni. Í alþingisbók 1768 er þess getið að manneskjur þessarar “urðu svo höndlaðar í einum hellir suður undan Erfiriseyjarseli (svo) í Kjalarnesþingi og teknar þann 20. oktobris [árið 1677] með fóla af nautakjöti og öðrum hlutum. Voru þá ofanskrifuðum Eyvindi og Margrétu dæmdar þrjár refsingar hvoru um sig á nefndnum Bakkárholtsþingstað fyrir þeirra hórdómsbrot og burthlaup úr héraðinu…” Þetta ár tóku Eyvindur og Margrét út líkamlega refsingu í Kópavogi þann 3. desember fyrir útileguna og “hnígandi þjófnaðar atburði” og voru síðan afleyst af biskupnum í Skálholti.
Ekki leið á löngu þangað til að “þessar vandræða persónur tóku sig aftur til útileguvista og fundust báðar í einni rekkju og einu hreysi undir bjargskúta í Ölvesvatnslandeign af Þorsteini Jónssyni og öðrum átta mönnum. Voru svo teknar og síðan í fangelsi forvaraðar á valdmannsins heimili Stórólfshvoli og nú hingað til Öxarárþings í járnum færðar með fimm fiskum og tveim mathnífum, sem í hreysinu fundust.” Síðan voru þau bæði dæmd til dauða, og fór aftan fram 3. júlí 1678.
Í Setbergsannál segir að þau Eyvindur og Margrét hafi fundist “í helli á Mosfellsheiði fyrir ofan Mosfellsveit og lifðu á kvikfjárstuld.” Í Fitjaannál segir, að þau hafi í síðara skiptið lagst út í Henglafjöllum. Hellirinn í Mosfellsheiði er að öllum líkindum hellirinn ofan við Lækjabotna er fyrr var nefndur, enda var það hluti af Mosfellslandi fyrrum. Hann gæti einnig verið annar tveggja í Henglinum. Í honum eru skútar á tveimur stöðum, hvor skammt frá öðrum. Á öllum stöðunum sjást enn hleðslur.
Leitt hefur verið að því getum að hellir í hraunbólu sunnan við Þríhnúka gæti hafa verið bæli Eyvindar og Margrétar um tíma, en telja verður það ósennilegt. Umbúnaður á helli þessum var síðar “betrumbættur” og sett hurð á dyraopið. Náttúrulegur bálkur er inni og steinker í gólfi. Hins vegar er með þessa hranbólu líkt og aðrar; þær halda ekki vatni og væri því viðvarandi vist þarna verri en engin. Líklegt má telja að skjólið hafi um tíma verið notað af refaskyttum, sem lágum löngum við hlíðarnar, líkt og sjá má á tóftum undir þeim.
“Í höfða þeim í landi Villingavatns eru tveir hellar. Um þessa hella er til þjóðsaga, sem prentuð er í “Íslenskum sagnaþáttum” Guðna Jónssonar (VII, bls. 84-86) eftir handriti Magnúsar Magnússonar á Villingavatni. Í sögunni eru hellarnir nefndir Skinnhúfuhellir og Símonarhellir. Skinnhúfuhellir er norðaustan í Dráttarhlíð um 200-300 metra fyrir vestan stífluna, þar sem Sogið féll úr Þingvallavatni, miðja vega frá vatninu upp í klettabrún. Hellirinn er fjögurra til fimm metra langur, tveggja metra breiður og manngengur að meira en hálfu leyti. Í áttina að Þingvallavatni eru manngengar dyr um það bil í hnéhæð frá hellisgólfi. Annað op er til hægri handar, þegar inn er gengið. Það hefur verið byrgt með grjótvegg, sem er hruninn að ofanverðu. Gólfið í Skinnhúfuhelli virðist hafa verið sléttað og mýkt með mosa. Samkvæmt sögunni er hellirinn kenndur við förukonu, sem kölluð var Elín skinnhúfa og lá þar úti skamma hríð um 1770. Um 100 metrum vestar er hellisgímald, sem nefnt er Símonarhellir, í sama berginu og sömu hæð. Mestan hluta leiðarinnar milli hellanna er mjótt þrep í brekkunni, en næst Símonarhelli er einstigi. Þjóðsagan kennir þennan helli við Símon nokkurn, smalamann á Villingavatni, sem var lagsmaður Elínar skinnhúfu.” Hér að framan er getið um að Eyvindur og Margrét hafi hafst við í hreysi undir bjargskúta í Ölvesvatnslandeign. Hér gætu þau hafa dvalið um sinn enda má berja þarna mannvistarleifar augum.
Í sögu Jóns Grunnvíkings er fjallað um Völustakk, útilegumann í Hengli. Þórður Sigurðsson á Tannastöðum sagði frá því í Lesbók Morgunblaðsins 1939 að hann hafi heyrt sem unglingur að útilegumenn, 6-7 saman, hefðu verið í Henglinum. “Þeir hefðu haldið til í stórum helli og engin leið hefði verið að komast að þeim. Sagt var, að þeir hefðu komið sunnan úr Höfnum og væru þar skipshöfn, sem hefði gert níðingsverk, en aldrei heyrði ég, hver þau hefðu átt að vera.” Menn úr Ölvesi og Grafningi, 50 – 60, tóku sig til og héldu með liðsafnað á hendur útilegumönnunum. Hellismenn tóku að flúja, hver sem best mátti, en sveitamenn eltu þá af mesta ákafa og mest þeir er fótfráastir voru. Allir komust hellismenn nokkuð langt undan, en vestan í Henglinum urðu mestar eltingar. Við Þjófahlaupin voru allir hellismenn drepnir.”
Þá var haldið yfir í Marardal eftir móbergsöxlinni. Syðst í dalnum eru hleðslur svo og skammt norðaustar. Þar skammt frá er skilti. Á því stendur: „Nautaréttir í Marardal – Marardalur er ákjósanlegt aðhald frá náttúrunnar hendi, enda aðeins ein leið greiðfær inn í hann. Hér voru nautaréttir fram undir 1860. Í þá daga voru nautgripir aðrir en mjólkandi kýr reknir á afrétt á Mosfellsheiði og hellisheiði á sumrin, einkum úr Ölfusi og Grafningi. Einnig var eitthvað umað naut kæmu lengra að og voru þau flest rekin úr Viðey. Réttardagur var 3. okóber, eða því sem næst, og voru það fáir en vaskir menn sem sáu um smölun og réttarstörf. Alls munu nautin hafa verið hátt í 200 að tölu þegar mest var. Þegar þau höfðu verið rekin inn í dalinn og þau skilin í hópa og aflaust hefur verið reynt meira á þolinmæði og líkamsburði en sundurdráttur í fjárréttum. Þá var hver hópur rekinn til síns heima. Nautin voru yfirleitt mörkuð á eyrum.“
Auk þess stendur: „Enn sjást glöggar hleðslur víða í sköðrum í hömrunum sem girða dalinn af. Skýrustu hleðslunar eru í suðurenda dalsins og í miðri austurhlið þar sem göngustígurinn liggur um. Þær áttu að varna því að nautin eða aðrar skepnur sem í haldi voour, slyppu. Getgátur eru um að mannýg naut hafi verið geymd í dalnum sumarlangt en samkvæmt lögum var bannað að reka slíkar skaðræðisskepnur á afrétt.
Nokkrir litlir hellar eru í berginu umhverfis Marardalinn. Að minnsta kosti einn þeirra var notaður sem skýli fyrir réttarmenn. Þessi hellir er skammt austan við götuna inn í dalinn, um þrjá metra uppi í hlíðinni. enn má sjá hlöggar hleðslur fyrir hellismunnanum en þar hafa menn getað hvílt lúin bein í friði fyrir nautunum. Í fleiri hellum sjást mannaverk, til dæmis hleðsluleifar og áletranir eins og ártöl og fangamörk á veggjum.
Eftir að nautaréttir í Marardal voru aflagðar, héldu Ölfusungar áfra, að reka naut sín á afrétt en því var hætt um aldamótin 1900. Síðustu árin héldu nautin sig mest í Hengladölum en komu stunum niður í byggð og þóttu ekki beinlínis góðir gestir. Þau gátu gert usla í túnum og á engjum, veltu heysátum um koll og hentu heyinu í háaloft. Tímaferkt var að reka nautin til fjalls á ný og þurfti til þess fullgilda menn sem voru kunnugir leiðum um fjallið.“
Framangreint skjól var skoðað, en það er í austanverðum dalnum miðjum. Gróið er framan við hellisskúta, en innan við gróningana hefur verið ágætt skjól. Sandur og mold hafa safnast saman innan við grónar hleðslur. Staðnæmst var um stund í miðjum dalnum og hlustað á vorkomuna. Vorbrestirnir í ísskáninni á tjörn í sunnanverðum dalnum bergmáluðu milli veggjanna. Sumarið var óumdeilanlega framundan. Marardalslækurinn var í vexti, ef vöxt skyldi kalla.
Þegar komið var upp úr Marardal norðanverðum er fagurt útsýni yfir dalinn og utanvert umhverfið. Nú var Reykjaveginum fylgt um fjallsaxlirnar, um Skeggjadal og niður í Dyradal. Ægifagurt útsýni er til allra átta, auk þess sem Skeggi gnæfir tilkomumikill yfir dýrðinni í suðri.
Komið var niður á öxlina þar sem Dyravegurinn liggur yfir frá framangreindum stað og áleiðis niður í dalinn. Dyrnar í Dyradal eru í austanverðum dalnum. Innar er Sporhella, móbergsklöpp þar sem markað er fyrir fótum, hófum og klaufum liðinna alda er leið áttu um skarðið.
Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 4 mín.
Heimildir m.a.:
-Ólafur Briem – Úilegumenn og auðar tóttir, 1983, bls. 142-169.
-Mbl 25. júlí 1981.