Gengið var til vesturs yfir Lambafellshraun af Þrengslavegi frá svonefndum Hrafnakletti á móts við Litla-Meitil í stefnu á Fjallið eina. Á milli þess og Heiðinnar há liggur Ólafsskarðsvegur norður með hlíðinni. Honum var fylgt spölkorn til suðurs með Kerlingahnúk, en síðan beygt af honum til suðvesturs og gengið inn í svonefnda Hrossahryggi.
Frá þjóðveginum inn í hryggina er um klukkustundar gangur. Þar vestan af er jaðar Heiðinnar há. Frá jaðrinum að Hrossagjá í suðsuðvestri er u.þ.b. hálftíma gangur. Norðan og ofan þeirrar gjáar á að vera niðurfall, um fjórir metrar í ummál og um tveggja metra djúpt. Í niðurfallinu eiga að vera hraunrásir. Þær verða skoðaðar síðar. Frá Hrossahryggjum var stefnan tekin í austur að Rauðhól og frá honum í Hrafnaklett, upphafsstaðinn. Gangan tók u.þ.b. tvær klukkustundir.
Lambafellshraunið er tiltölulega gróið helluhraun. Nokkur mosi er á hrauninu, en góðir gróðurblettir í lægðum. Fjölmörg vatnsstæði eru á því svæði, sem gengið var, sem og rúmgóð fjárskjól í opnum hraunbólum. Gengið var fram á nokkur greni, sum hver með eigin vatnsstæði svo til beint framan við munnana.
Á leiðinni var kíkt inn í nokkrar bólur, sem eru á tiltölulega afmörkuðu svæði miðsvæðis í hrauninu, auk skúta og opa. Þarna virðast einungis vera um að gasbólur og stuttar hraunrásir að ræða. Einnig lágar rásir undir þykkum hraunhellum. Þó var þarna lögulegt gat uppi í háum hraunhól, en við nánari skoðun reyndist botn vera á rás, sem einhvern tímann hefur legið þar niður.
Ólafsskarðsvegurinn, sú gamla þjóðleið á milli Ölfuss og Svínahrauns, er varðaður á kafla, en sést að öðru leyti ógreinilega. Helst er að sjá hann þar sem hann hefur mikið til legið um grónar lænur. Fagurt útsýni er suður af heiðinni um allt til sjávar. Vörðuð leið er einnig um hraunið skáhallt á Ólafskarsðveginn, til suðausturs með stefnu milli Votabergs og Eldborgarinnar syðri. Virðist vera leið upp frá Hrauni, með Löngubrekkum, og áleiðis upp á Ólafskarðsveg þar sem hann mætir Kristnitökuhrauni neðan við Eldborgina.
Þrjár rjúpur sáust á stangli (fótaflugi).
Veður var frábært – logn og hlýtt. Komið var til baka kl. 19:30, en u.þ.b. 10 mínútnum síðar var orðið nær myrkvað.