Færslur

Stapaþúfa

Gengið var að Ólafsgjá þar sem Ólafur Þorleifsson frá Hlöðuneshverfi féll niður í þann 21. desember árið 1900 og fannst ekki fyrr en um 30 árum síðar (sjá nánar Frásagnir). Við gjána er myndarleg varða. Nefnd gjá er spölkorn ofan við Stóru-Aragjá, um 2.5 km austan núverandi Reykjanesbrautar. Neðar er Litla-Aragjá. Skammt vestan hennar eru gatnamót, annars vegar götu upp í heiðina frá Vogum og hins vegar stígs upp í Brunnastaðasel. Auðveldast er að finna Ólafsgjá með því að taka er mið af stærstu vörðunni á barmi Hrafnagjár og halda í beina stefnu á Kastið í Fagradalsfjalli. Um miðja vegu birtist Ólafsvarðan á gjárbarminum og vísar leiðina á staðinn.

Ólafsvarða við Ólafsgjá

Ólafsvarða við Ólafsgjá.

Frá Ólafsvörðu var haldið að Stapaþúfu og greni skoðuð í Stóru-Aragjá beint neðan þúfunnar. Haldið var til norðurs í Gjásel, 7 keðjuhúsa sel, eitt hið fallegasta á Reykjanesi. Það hvílir undir gjárveggnum. Vestan við það eru tveir hlaðnir stekkir. Tekin var krókur til suðausturs að hinu gamla Hlöðunesseli, en það kúrir í brekku ofan við mikið landrof. Gengið var til suðurs frá því að Brunnastaðaseli. Í því eru tóttir stórra húsa á þremur stöðum. Fallega hlaðin kví er í gjánni aftan við selið. Talsvert ofan við selið er hinn sögufrægi Hemphóll. Á honum er varða.

Þráinsskjöldur

Þráinsskjöldur – einn gíganna.

Lagt var upp frá henni á Þráinsskjöld og ekki staðnæmst fyrr en í grasivöxnum aðalgígnum. Um er að ræða fallega lægð efst á hraunbungunni. Ekki er auðvelt að finna hann, en staðkunnugur heimamaður úr Vogunum var með í för og gerði það leitina auðveldari. Þráinsskjöldur er geysistór hraundyngja, sennilega um 16 þúsund ára gömul, og frá henni hefur komið geysilegt hraunflæmi. Frá miðju hans er langt til allra átta. Frá gígnum blasir Keilir við í norðaustri, Litli-Keilir, Trölladyngja, Núpshlíðarháls. Litli-Hrútur, Hraunsels-Vatnsfell – Stóri-Hrútur, Fagradalsfjall, Mælifell og loks Fagradals-Vatnsfell í norðvestri. Í fjarska sést Snæfellsjökull vel. Aðrar megindyngjur á Reykjanesi eru Sandfellshæðin og Hrútargjádyngja.

Breiðagerðisslakki

Brak á Slysstað ofan Breiðagerðisslakka.

Þegar haldið var niður dyngjuna var gengið yfir greinilega götu er virtist liggja áfram vestan við Keili. Líklega sameinast hún götunni yfir hraunið norðan Driffells er síðan kemur inn á Selsvallastíginn norðan vallanna. Skoðuð voru greni vestast í Eldborgum, auk þriggja refabyrgja, sem þar hafa verið hlaðin. Þá var haldið í Knarrarnessel, en í því eru tóttir þriggja selja. Knarrarnessel er frábrugðið öðrum seljum á Reykjanesi að því leiti að það er ekki í skjóli við gjá eða hæð heldur stendur það á hól. Við það eru bæði hlaðnar kvíar og stekkir. Loks var flak þýskrar njósnaflugvélar skoðað í Breiðagerðisslakka, en hún var skotin niður af bandamönnum í seinni heimstyrjöldinni. Áhafnameðlimurinn var fyrsti fanginn sem Bandaríkjamenn handtóku í stríðinu (sjá meira undir Fróðleikur og Lýsingar).
Gangan tók 5 klst og 3 mín. Veður var stórfínt, sól og gola.

Gjásel

Gjásel – uppdráttur ÓSÁ.

 

 

Ólafsvarða

Eftirfarandi brot úr frásögn birtist í Menningarblaði Lesbókar Morgunblaðsins laugardaginn 3. febrúar 2001. Höfundurinn, Hanna María Kristjánsdóttir, var nemi í þjóð- og fjölmiðlafræði við HÍ.
Rafn Símonarson með líkamsleifar Ólafs Þorleifssonar 1931Hinn 21. desember árið 1900, eða fyrir rétt rúmum 100 árum, fór Ólafur Þorleifsson, bóndi í Miðhúsum á Vatnsleysuströnd að leita að kindum uppi á Strandarheiðinni. Hann kom aldrei til baka. Árið 1931 fann Rafn Símonarson, bóndi í Austurkoti, líkamsleifar Ólafs ofan í djúpri og dimmri gjá. Gjáin er örskammt ofan við brún Stóru-Aragjár, um 2.5 km ofan við núverandi Reykjanesbraut.
“Vatnsleysuströndin er ekki þekktust fyrir landbúnað fyrr á árum heldur hina geysimiklu útgerð sem þaðan var stunduð. En á flestum bæjum, þar sem grasnytjar voru, stunduðu ábúendur nokkurn búskap með útgerðinni. Flestir áttu sauðfé og voru sumarhagar þess á Strandarheiði en þar þóttu nokkuð góðir bithagar. Eftir heiðinni endilangri liggja sprungubelti sem einkennast af opnum sprungum og gjám og oftast er grunnur sigdalur á milli. Þessar gjár eru margar mjög tilkomumiklar þar sem annar gjárveggurinn er miklu hærri heldur en hinn svo munar mörgum metrum. Því er heiðin torfarin og víða hættuleg eftir að snjó festir á jörðu… Daginn sem Ólafur fór frá konu sinni, Valgerði Björnsdóttur fæddri 3. júní 1857, og tveimur dætrum sínum, þeim Jórunni 11 ára og Þóreyju 6 ára, var mikill snjór en veðrið annars ágætt. Þegar leið á daginn tók hins vegar að þykkna upp og með kvöldinu gerði svartasta byl sem stóð þó ekki mjög lengi. Þennan sama dag voru Vogamenn að leita kinda á heiðinni og sáu þeir Ólafsgjámann nálægt Dalselsenda skömmu áður en bylurinn skall á. Töldu þeir síðar víst að maðurinn hafi verið Ólafur. Miðað við fótspor sem fundust og talin voru vera Ólafs hefur hann verið á réttri leið þegar veðrið skall á en vegna blindhríðar og myrkurs fallið ofan í eina af hinum mörgu sprungum sem leynast á þessari leið á Strandarheiðinni. Daginn eftir var leitað að Ólafi og einnig á aðfangadag en án árangurs. Leitinni var hætt í bili en hélt svo áfram um áramótin. Þá var snjórinn farinn sem hulið hafði jörðina og gert leitarmönnum erfitt fyrir. Leitað var í marga daga, bæði í gjám og sprungum en allt kom fyrir ekki. Ólafur var horfinn og fannst ekki hvernig sem leitað var. Í langan tíma eftir slysið höfðu menn, sem gengu þarna um, það fyrir vana að svipast um í gjánum um leið og þeir gengu yfir þær en aldrei sást neitt sem bent gat til hvar maðurinn væri niðurkominn.
Næsta vor var maður að nafni Kristján Jónsson úr Grindavík á ferð um heiðina. Hann gekk frá Vatnsleysu og yfir til Grindavíkur. Á leiðinni þóttist hann hafa séð staf og fataræfla liggjandi á stalli í gjá einni. Hann gaf þessu ekki nánar gætur en hafði þó orð á því þegar hann kom heim. Þetta fréttist fljótlega niður á Vatnsleysuströnd og fóru þá Teitur Þorleifsson, bróðir Ólafs, sem bjó á Hlöðversnesi, og Benedikt Pétursson, bóndi á Suðurkoti í Vogum, til fundar við Kristján. Hann hafði hins vegar ekki lagt staðinn á minnið og treysti sér ekki til að finna hann aftur. Það var því ekki hægt að leita af neinu viti eftir þessum vísbendingum og allri leit hætt upp frá því.

Ólafsvarða

Árið 1930, rétt um 30 árum síðar, voru menn úr hreppnum að leita kinda uppi á heiðinni. Mikill snjór var sem gerði mönnunum erfitt fyrir. Þeir urðu oft að stoppa til að hreinsa snjó úr ull kindanna sem gerði þeim erfitt um gang og svo urðu þeir að fara varlega því snjórinn huldi margar hættur. Rekstrarmenn sáu að kindur féllu ofan í gjá eina og engin leið að bjarga þeim nema að síga niður, bæði vegna myrkurs og fátt sem hægt var að festa hendur eða fætur á. Þegar mennirnir komu til byggða báðu þeir Rafn Símonarson um að síga niður í gjána. Rafn hafði alltaf verið hræddur við þessar sprungur en í þetta sinn fannst honum hann verða að síga niður af einhverri ástæðu. Snemma næsta morgun var lagt af stað og þeir fóru fimm saman útbúnir nauðsynlegustu áhöldum. Þegar að gjánni kom voru fest bönd utan um Rafn og hann látinn síga niður eftir hlið gjárinnar. Hann seig niður í djúp svartnættis, myrkurs og kulda og fannst það ekki mjög aðlaðandi. Þó fannst honum svolítið ævintýralegt að vera kominn tólf til fjórtán metra ofan í jörðina, lifandi og í fullu fjöri. Þegar hann var kominn ofan í gjána þar sem kindurnar voru verður honum litið upp fyrir sig og sér þá, sér til mikillar undrunar, staf sem stungið hafði verið í bergið. Honum brá í fyrstu við þessa sýn og hann hugsaði um alla þá menn sem gengið höfðu um heiði þessa og aldrei komið til baka. Þegar hann ætlaði að skoða stafinn betur fannst honum sem hvíslað væri að þetta væri stafur Ólafs Þorleifssonar sem mikið var leitað en aldrei fannst og hér hlytu því leifar hans að liggja.

Kvöldsetur í Vogaheiði

Rafn kallaði til félaga sinna að hann hefði fundið göngustaf sem hann héldi að væri stafur Ólafs. Þeir svöruðu að það gæti tæplega verið því það væri svo langt síðan það slys átti sér stað. Rafn hugsaði með sér að þeir hefðu sjálfsagt svarað honum svona til að honum myndi ekki bregða og missa jafnvægið og traðka þá kannski á beinunum sem leynst gætu þarna niðri. Rafn bjargaði kindunum eins og hann átti að gera en aðgætti um leið hvort hann fyndi einhverjar vísbendingar en það var töluverður snjór þarna niðri og því ekkert að sjá. Rafn og félagar hans tóku stafinn með sér heim og ákváðu að fara aftur á þennan stað og rannsaka hann betur um leið og snjórinn færi.
OlafsgjaUm vorið, hinn 21. júní 1931, fóru þeir svo af stað. Þegar þeir komu að gjánni leist þeim betur á þetta því allur snjór var horfinn og mun auðveldara að leita. Vorsólin skein og lýsti upp dimmar og drungalegar sprungur heiðarinnar. Þar sem áður var nístingskuldi og myrkur var nú kominn vorylur og birta. Þeir hófust handa, bönd voru fest á Rafn og hann látinn síga niður í gjána til að leita Ólafs sem fór að heiman frá konu og dætrum glaður og heill heilsu en kom aldrei til baka. Þegar Rafn var kominn um það bil tíu metra ofan í gjána leit hann niður fyrir sig og sá þá hvar beinin lágu á litlum stalli sem stóð út úr berginu. Stallurinn var svo lítill ummáls að ekki var hægt að standa á honum á meðan verið var að tína beinin upp. Hann þurfti því að hanga í böndunum á meðan hann gerði það. Þegar Rafn hafði tekið allt sem á stallinum var sá hann að fótleggi og fótabein vantaði. Þau höfðu dottið fram af stallinum og lágu á jörðinni nokkru neðar. Rafn gaf því félögum sínum merki um að láta sig síga neðar. Rafn sagði að pallurinn þar sem beinagrindin var hafi verið svo lítill að ekki hafi verið unnt að sitja þar nema að láta fæturna hanga fram af. Lærleggirnir lágu líka þannig að endar þeirra stóðu út af pallbrúninni. Annar lærleggurinn var brotinn en lá þó þannig að brotin féllu saman og sennilega hefur Ólafur lærbrotnað um leið og hann féll ofan í gjána. Að öðru leyti voru beinin mjög lítið fúin, næstum allar tennurnar voru til dæmis fastar í kjálkunum.

Ólafsvarða-3

Á stallinum voru einnig leifar af fötum. Þetta sýnir vel hvað hlutir geta varðveist ótrúlega vel niðri í jörðinni þar sem hæfilegur kuldi og loft fær að leika um þá, en víða niðri í þessum gjám er snjór stóran hluta ársins.
Á meðan Rafn var að tína upp beinin velti hann því mikið fyrir sér hvað Ólafur hefur þurft að ganga í gegnum áður en hann lést. Hann hefur fallið ofan í gjána og líklega lærbrotnað við það að lenda á syllunni. Þegar stafurinn hans fannst stóð hluti hans út úr berginu. Ólafur hefur sennilega stungið honum í glufu í berginu og reynt að hífa sig upp en stafurinn brotnað við það. Þá hefur ekkert annað verið að gera en að bíða, bíða eftir því að deyja… Kvalirnar sem Ólafur þurfti að þola af meiðslum sínum voru eflaust litlar miðað við þær hugsanir sem kvöldu sálu hans. Það má þó ætla að Ólafur hafi látist fljótlega eftir að hann féll í gjána þar sem hann svaraði ekki köllum leitarmanna daginn eftir
Ólafur Þorleifsson var fæddur í Austurkoti hinn 10. júlí 1861 og var því aðeins 39 ára gamall þegar hann lést í desember árið 1900. Leifar hans voru bornar að Austurkoti í Brunnastaðahverfi og síðan fluttar að Kálfatjörn þar sem Ólafur var jarðaður að viðstöddu fjölmenni hinn 30. júní 1931… Gjáin, sem Ólafur féll í og týndi lífi sínu, er nokkuð fyrir austan Arahnjúk og kallast nú Ólafsgjá og þar hjá er einnig Ólafsvarða…”
Heimildir:
Guðmundur B. Jónsson (1987). Mannlíf og mannvirki í Vatnsleysustrandarhreppi. Vogar: Guðmundur B. Jónsson.
Kirkjubók, Kálfatjörn 1894-1920.
Kristján Hannesson (munnleg heimild, 21. janúar 2001, handrit í fórum höfundar). Keflavík.
Rafn Símonarson (1936, 16. febrúar). Þrjátíu ár í gjáarsprungu. Vitinn, tímarit Ungmennafélagsins Þróttar, Vatnsleysustrandarhreppi.
Höfundurinn [Hanna María Kristjánsdóttir] er nemi í þjóðfræði og fjölmiðlafræði við Háskóla Íslands.
Vogaheiðin í síðdegisvetrarsólinni

Vogavík

Eftirfarandi frásögn Pálma Hannessonar um hvarf Ólafs Þorleifssonar frá Miðhúsum á Vatnsleysuströnd árið 1900 birtist í Faxa árið 1968:
olafsvarda-501“Á Vatnsleysuströnd ganga hraun út í sjó, sem kunnugt er, og liggur byggðin fast með sjónum fram. Áður fyrr, meðan sjór var sóttur á opnum bátum, var þar fjölbýlt mjög og útróður mikill. Nú er þar færra um, en þó allþéttbýlt, og standa bæirnir í hverfum, samtýnis. Suður frá byggðinni heitir Strandarheiði, flatlendi mikið, er hallar hægt til norðurs, frá Fagradalsfjalli að sjó. Öll er hún hraunum hulin, en hraunin forn og víða grasi gróin eða lyngi. Fyrrum óx þar einir til mikilla muna, en hrísrif var stundað frá flestum bæjum á Ströndinni, því að lítið féll þar til af eldiviði, og eyddist þá einirinn. Vestan við Strandarheiði heitir Vogaheiði eftir Vogum (Kvíguvogum). Gjár og hraunsprungur eru víða á heiðinni. Snúa þær allar frá suðvestri til norðausturs, og hefur landið sigið um sumar þeirra. Hrafnagjá heitir sú, er næst verður byggðinni, og er hún mest. Sunnan við hana er Huldugjá, þá Klyfgjá, sú er hér hefur fengið nafn sitt, en kunnugir telja þó, að það muni stafa frá hrísflutningum þeim, er áður getur.

olafsvarda-502

Sauðland er gott á Strandarheiði, og gengur fé þar úti framan af vetri, þegar tíð er góð, en vitja verður þess öðru hverju, einkum ef áfelli gerir, og er þá oft smalað til heimalanda eða húsa.
Árið 1900 bjó sá maður að Miðhúsum í Hlöðuneshverfi, er Ólafur hét Þorleifsson. Kona hans hét Valgerður Bjarnadóttir, og áttu þau tvö börn ung. Ólafur var nær fertugu, er hér var komið, fæddur 10. júlí 1861 að Austurkoti í Brunnastaðahverfi og alinn þar upp hjá móður sinni, Valgerði Guðnadóttur, er talin var merkiskona, en föður sinn missti hann árið 1896.
Laugardaginn 22. des. þetta ár bjóst Ólafur til heimanferðar til þess að leita kinda, er hann átti uppi í heiði, Vogaheiði eða Strandarheiði, og bjóst hann við að þurfa að fara allt upp að Fagradalsfjalli, en þangað er talinn þriggja stunda gangur. Lagði Ólafur af stað um dagmálabil. Var þá útsynningsstormur og éljagangur, en snjór talsverður á jörðu.

olafsvarda-503

Þegar leið á daginn, harðnaði veðrið, og var þó ratljóst talið til kvölds. Uggðu menn því eigi um Ólaf, enda var hann gagnkunnugur á heiðunum og talinn mikill dugnaðarmaður. Leið svo dagurinn. En um kvöldið, er bóndi var eigi kominn, þótti sýnt, að honum hefði hlekkzt á með einhverjum hætti. Var þá sent til Teits, bónda á Hlöðunesi, bróður Ólafs, og Jóns Jónssonar Breiðfjörð, hreppstjóra á Brunnastöðum. Teitur brá við skjótt, sendi í liðsbón um alla sveitina og varð vel til manna. Næsta morgun í dögun var hafin leit með 30—40 manns, er þeir Teitur og Jón hreppstjóri stjórnuðu. Daginn áður höfðu Vogamenn verið í samalamennsku uppi á Vogaheiði. Kom það nú upp, að þeir hefðu séð til Ólafs um hádegisbil hjá Kálffelli, en svo nefndist hóll sunnanvert á heiðinni skammt frá Fagradalsfjalli. Héldu nú sumir leitarmanna þangað, en hinum var skipað í flokka, og leituðu þeir heiðarnar báðar frá bæjum suður að Fagradalsfjalli. Hjá Kálffelli fundust för Ólafs. Hafði hann setzt þar niður og skotið undir sig staf sínum til þess að blotna ekki. Síðan var slóðin rakin um sinn, en með því að Vogamenn höfðu lagt þarna leið sína sama dag, reyndist eigi unnt að halda henni til lengdar, hversu mjög sem reynt var, og höfðu þeir bræður Ólafs, Teitur og Kristinn, lagt sig mjög í líma um það. Veður var gott þenna dag, og þótti leitast vel, en allt kom það fyrir ekki. Næsta dag, sem var aðfangadagur jóla, var leitað að nýju og enn milli jóla og nýárs tvo daga í röð hið minnsta, en ekki urðu menn neins vísari að heldur um afdrif Ólafs. Hitt var af líkum ráðið, að hann hefði villzt og orðið úti, þótt undarlegt þætti. Eitthvað mun hafa verið leitað meira, einkum næsta vor, er snjóa leysti, en allt var það unnið fyrir gýg sem fyrr. Leið svo tími fram, og fyrntist smátt og smátt yfir atburði þessa, eins og gengur. Hvarf Ólafs Þorleifssonar virtist mundu verða eitt þeirra leyndarmála hins óbyggða auðnageims, sem aldrei verður uppvíst um, en hverfa óráðin í fjarska tímans.
Þannig liðu þrír áratugir. Aldamótakynslóðin týndi tölunni, og miklar breytingar urðu á högum manna, ekki sízt á Vatnsleysuströnd, þar sem hinn forni bátaútvegur lagðist niður að mestu. Þá var svo til einhvern dag á öndverðri jólaföstu árið 1930, að fé var smalað um Stkalffell-501randarheiði.
Að áliðnum degi voru þar þrír menn á ferð með kindahóp, er þeir ráku heim á leið. En er þeir voru komnir að Klyfgjá, vildi svo til, að þrjár kindur hrukku ofan í hraunsprungu, sem verður skammt frá aðalgjánni. Sprunga þessi er um 50 metra löng og á að gizka alin á breidd, þar sem kindurnar fóru niður, en barmar þverbrattir og ókleifir með öllu. Dagur var liðinn að kvöldi, og gátu þeir félagar ekkert að gert til þess að ná fénu að sinni. Var það því ráð þeirra, að hlaða vörðu við sprunguna. Síðan héldu þeir heim.
Daginn eftir fóru þeir félagar aftur upp að gjánni og höfðu með sér vænan kaðal og annað, er með þurfti. Einn þeirra, Rafn Símonarson frá Austurkoti, seig í sprunguna, og reyndist hún 30 metra djúp, þar sem kindurnar höfðu fallið í hana. Hafði ein þeirra rotazt, en hinar voru lifandi og náðust upp jafngóðar. En nokkrir vafningar urðu þó við þetta allt, svo að Rafni vannst tóm til að kanna sprunguna. Kemur hann þá auga á stafbrot, er stóð upp úr rifu ofarlega í sprungunni, og þykir honum augljóst, að það hljóti að vera þangað komið af mannavöldum.

kalffell-502

Litast hann nú betur um og finnur þá annað stafbrot neðar. Rafn hafði heyrt um hvarf Ólafs Þorleifssonar og kemur nú í hug, að hér muni vera stafur hans í tvennu lagi og muni þá eigi langt að leita hinzta náttstaðar sjálfs hans. En snjór var fallinn í sprunguna, og þótti Rafni því örvænt um, fleira fyndist þar um sinn. Hirti hann því stafbrotin, og héldu þeir félagar heim við svo búið.
Í þennan tíma bjó Agúst Guðmundsson að Halakoti, fróður maður og langminnugur. Kom Rafn að máli við hann um kvöldið og spurði, hvort hann myndi eftir stafnum, sem Ólafur í Miðkoti hafði átt og haft með sér, þegar hann varð úti. Ágúst lýsti stafnum þegar, og bar lýsingunni saman við brotin, sem Rafn hafði fundið. Þótti þá sýnt, að Ólafur hefði fallið í sprunguna um kvöldið í útsynningsbylnum, verið á réttri leið og kominn miðja vegu heim frá Fagradalsfjalli. Var nú ekki meira að gert um sinn. En um vorið, þegar leyst hafði snjó úr gjám, var þar til tekið, sem fyrr var frá horfið. Fóru þá fjórir menn af Vatnsleysuströnd suður að Klyfgjá, og var Rafn Símonarson einn þeirra.
Seig hann í hraunsprunguna sem fyrr og fann þar á snös eða olafsvarda-504stalli skammt niður frá brún bein Ólafs Þorleifssonar og fötin, sem hann hafði verið í. Annar lærleggurinn var brotinn en fætur og fótleggir höfðu fallið lengra niður í sprunguna. Rafn tíndi nú saman beinin og lét þau í kassa, en þeir félagar fluttu þau síðan heim að Austurkoti. Þannig komust leifar Ólafs Þorleifssonar heim á æskuheimili hans eftir 30 ára töf. Var nú gerð lítil kista að beinunum, en að því búnu voru þau jarðsett að Kálfatjarnarkirkju. Margt var um þetta talað, eins og vænta má. Enginn veit þó með vissu, hvernig endadægur Ólafs Þorleifssonar hafi að höndum borið, nema hvað augljóst er, að hann hefur fallið í sprunguna hjá Klyfgjá. Hitt var helzt af líkum ráðið, að hann hefði ekki hrapað til botns, heldur stöðvazt á stallinum, þar sem beinin fundust, reynt síðan að vega sig upp á stafnum með því að skorða hann um sprunguna þvera, en stafurinn þá stokkið í tvennt, enda var hann ekki sterkur. Þá, fremur en í fyrri byltunni, virðist hann hafa lærbrotnað, þótt hvort tveggja sé að vísu til. En úr því að svo var komið, voru sundin lokuð, Ætla má, að Ólafur hafi þá setzt á stallinn og beðið þess, er verða vildi. Löng og dapurleg hefur sú vist að vísu orðið slösuðum manni, unz óminni dauðans kom yfir hann.
Það var haft eftir manni einum, sem var í leitinni að Ólafi árið 1900, að þeir félagar nokkrir hefðu farið fast við endann á sprungunni, en engin missmíð séð þar og ekkert heyrt, er vakti athygli þeirra. Kallað hefðu þeir þó öðru hverju. Saga þessi er skráð að mestu eftir heimildum frá Ágústi Guðmundssyni í Halakoti á Vatnsleysuströnd.” Pálmi Hannesson rektor.

Heimild:
-Faxi, 28. árg. 1968, bls. 219-221.

Ólafsvarða

Ólafsvarða.

Ólafsvarða
Nokkurn veg norðvestur frá Arahnúk er Ólafsgjá og Ólafsvarða. Gjáin er í raun sprunga út úr vestasta hluta Klifgjár, millum hennar og Stóru-Aragjár, en Ólafsgjá er mjög þröng og báðir veggir eru jafnháir landinu í kring, ólík hinum. Hún sést ekki fyrr en komi er að henni ef ekki væri varðan við hana.
Ólafsvarða

Ólafsvarða.

Um aldamótin 1900 (21. desember) hrapaði Ólafur Þorleifsson, bóndi úr Hlöðuneshverfi, þegar hann var að huga að fé rétt fyrir jól. Mikil leit var gerð að honum, en allt kom fyrir ekki. Árið 1931, eða um 30 árum seinna, fundust svo bein hans í gjánni þegar verið var að sækja kind, sem fallið hafði niður í sprunguna á nákvæmlega sama stað og Ólafur. Um atburðinn er ritað í bókinni Hrakningar og heiðarvegir, 3. bindi, eftir Pálma Hannesson og Jón Eyþórsson. Einnig var fjallað ítarlega um atburðinn og eftirmálann í Lesbók Morgunblaðsins fyrir nokkrum árum.
Í rauninni ætti óvant göngufólk ekki að fara eitt um Vogaheiðina – allra síst að vetrarlagi er snjór þekur jörð – því víða leynast sprungur og djúpar gjár opinberast oft skyndilega framundan, án minnsta fyrirvara. Það er a.m.k. mikilvægt að vera vel vakandi á göngum á þessu svæði. Þarna, sem og svo víða annars staðar, eru augun mikilvægasta skilningavitið. (Sjá meira undir Frásagnir).

Heimild:
-Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi – SG (1995).

Ólafsgjá

Ólafsgjá.