Í Sjómannadagsblaði Grindavíkur 1993 skrifar Ólafur Rúnar Þorvarðarson frásögn Árna Guðmundssonar frá Teigi um komu hans í franska fiskiskútu á þriðja áratug síðustu aldar utan við Þórkötlustaðahverfi undir fyrirsögninni “Um borð hjá Frönsurum”.
Árni hafði frá mörgu að segja eftir áratuga langa sjómennsku og fer frásögn hans hér á eftir.
“Það mun hafa verið nálægt sumarmálum, að við héldum út á Fasæli síðla dags að leggja línu. Línan var venjulega látin liggja yfir nóttina og dregin næsta dag, ef veður leyfði. Við vorum fjórir á bátnum, sem var opinn vélbátur. Veður var gott, og er við höfðum lagt, héldum við áleiðis til lands. Engir bátar eða skip voru á miðunum í nánd við okkur utan ein skúta sem var á færum og hélt sig nærri þeims lóðum, er við höfðum byrjað að leggja línuna.
Nálguðumst við nú skútuna og sáum að þar var mannskapur uppi. Voru uppi getgátur háseta minna um það hverrar þjóðar þeir menn kynnu að vera, uns við veittum því athygli að frakkaklæddur maður með hatt á höfði byrjaði að veifa og kalla til okkar. Ég hafði á orði að líklega vildi hann okkur eitthvað þessi og rétt væri að athuga það nánar. Ekki leist mínum mönnum meira en svo á það tiltæki, en ég bað þá að bíða rólega á meðan ég færi um borð og lögðum við svo að skútunni.
Sá frakkaklæddi tók á móti mér þegar ég kom upp á þiðjur, tók undir hönd mér og leiddi mig niður í káetu. Þóttist ég vitað að það færi skipstjórinn. Býður hann mér að setjast, og hellir í tvö staup. Gerum við vegunum góð skil og af málfari hans og bendingum ræð ég að þeir séu franskir sjómenn. Ekki var frönskukunnáttu minni mikið fyrir að fara en eftir eitt eða tvö staup til viðbótar vorum við þó farnir að skilja hvor annan nóg til þess að ég þóttir vita erindi hans. Var það í því fólgið að biðja mig um að koma fyrir sig skeyti til franska konsúlatsins á Íslandi. Sem við sitjum í káetunni, kemur þar niður hávaxinn maður, sem ég áleit vera stýrimann skútunnar. Taka þeir skipstjóri tal saman og fer sá fyrrnefndi upp að því loknu. Settist skipstjóri nú við skriftir. Fékk hann mér síðan bréf í hendur og héldum við svo upp á þilfar.
Skúta þessi var frekar lítil en tvímastra. Heldur fannst mér aðbúnaður bágborinn um borð. Ég tók eftir því að hásetarnir voru berhentir við færin. Höfðu þeir aðeins skinnpjötlur í lófunum og voru hendur þeirra bólgnar og kaunum hlaðanar eftir langa útivist. En þeir höfðu aldeilis ekki setið auðum höndum á meðan ég var niðri í káetu hjá skipstjóranum. Kom nú í ljós hvert erindi stýrimaður hafði átt niður því þegar ég var að stíga af skipsfjöl, sá ég að búið var að koma um borð í bátinn okkar tveim pokum af kartöflum ásamt talsverðu af kexi og rauðvíni.
Mér þótti nú leitt að geta ekki launað þeim þetta með einhverjum hætti og eftir að hafa rætt málið við drengina mína var ákveðið að gefa þeim sjóvettlingana sem við höfðum meðferðis. Voru það fimm pör, sem þeir þáðu með þökkum. Ég vildi nú bæta þeim þetta upp enn frekar og varð því að samkomulagi með okkur að hittast aftur á svipuðum slóðum næsta dag. Yfirgáfum við síðan skútumenn og héldum til lands. Hafði ég í huga að færa þeim fleiri pör af vettlingum eða einhvern annan ullarfatanð. Færði ég þetta í tal við konu mína þegar heim kom og var það auðsótt mál.
Með birtingu morguninn eftir vaknaði ég við það, að farið var að hvessa af austri. Beið ég þá ekki boðanna, en kallaði á hásetana mína saman í hvelli. Þegar við komum út á miðin fórum við strax að darga. Vindur fór vaxandi og við höfðum ekki verið lengi við línudráttinn er við sáum skútuna koma siglandi austan að fyrir fullum seglum. Stefndi hún í átt til okkar, en sveigði af leið er nokkrar bátslengdir voru á milli og hélt til hafs. Veifuðu þeir frönsku í kveðjuskyni enda ekki tiltök að komast um borð vegna veðursins. Skildi þar með okkur og höfðum við ekki meira af þeim að segja. En skeytinu komum við áleiðis og vonandi hefur það ratað rétta boðleið.
Lýkur hér frásögn Árna Guðmundssonar.
Frösnku skúturnar, er stunduðu víðar á Íslandsmiðum fra á þessa öld, voru einkum frá bæjunum Paimpol og Dunkerque. Þyngst var sókn þeirra hingað á ofanverðri 19. öld og fram að árum fyrri heimstyrjaldar. Voru á því tímabili oftast 150-350 skútur árlega á Íslandsmiðum. Eftir það fór þeim ört fækkandi og samkvæmt heimildum er síðast getið franskrar fiskiskútu að veiðum hér á landi árið 1938.” – ÓRÞ
Heimild:
-Sjómannadagsblað Grindavíkur 1993, Um borð hjá Frönsurum, Ólafur Rúnar Þorvarðarson, bls. 32-33.