Tag Archive for: Óseyrarnes

Drepstokkur

Gengið var um ósasvæði Ölfusár vestanvert, um endimörk FERLIRssvæðisins í suðri austanmegin. Ætlunin var einnig að feta fætur lítt lengra til austurs og skoða hvort þar mætti enn sjá ummerki eftir bæina Drepstokk og Óseyranes. Eyrarbakki hefur jafnan viljað tengja sig Drepstokk (Refstokk) og Bjarna Herjólfssyni enda bæði Óseyrarnes og Drepstokkur austan árinnar. Óseyrartangi er hins vegar vestan ósa.

Eyrarbakki

Eyrarbakki.

Í Grænlendingasögu segir að “Herjúlfur var Bárðarson Herjúlfssonar. Hann var frændi Ingólfs landnámamanns. Þeim Herjúlfi gaf Ingólfur land á milli Vogs og Reykjaness. Herjúlfur bjó fyrst á Drepstokki. Þorgerður hét kona hans en Bjarni son þeirra og var hinn efnilegsti maður. Hann fýstist utan þegar á unga aldri. Varð honum gott bæði til fjár og mannvirðingar og var sinn vetur hvort, utan lands eða með föður sínum. Brátt átti Bjarni skip í förum. Og hinn síðasta vetur er hann var í Noregi þá brá Herjúlfur til Grænlandsferðar með Eiríki og brá búi sínu.” Líklegt er að með Vogi sé átt við Selvog, en ekki Kvíguvoga eins og sumir ætla.

Hafnarskeið

Hafnarskeið.

Hafnarskeið við vestanverða Ölfusárósa hét áður Vikrarskeið. Hraunskeið er utar og þá Stóraskarð næst ósnum. Utan við Hafnarskeið voru bæirnir Drepstokkur og Óseyranes. Þeir stóðu þar sem nú er ósasvæði árinnar. Þorlákshöfn er hins vegar vestan árinnar og það allnokkuð. Hún var fyrrum bær og síðan kauptún á Hafnarnesi.
Laxdælasaga segir frá komu Auðar djúpúðgu til landsins, þegar skip hennar brotnaði á Vikrarskeiði og fé og menn björguðust. Þar er nú Hafnarskeið og Hraunskeið vestan Ölfusárósa. Ströndin þar var styttri vegna þess, að Ölfusá féll vestar til sjávar og þar stóðu bæirnir Óseyarnes og Drepstokkur. Sagnir herma, að þar hafi staðið bærinn Elliðahöfn og bóndinn þar hafi eitt sinn heitið á Þorlák biskup að breyta nafni jarðarinnar, þegar hann og áhöfn hans lentu í sjávarháska. Eftir undraverða björgun breytti hann hafninu í Þorlákshöfn. Kirkja heilags Þorláks stóð þar í katólskum sið og þar var öldum saman kunn verstöð.

Þorlákshöfn

Þorlákshöfn – Skötubót.

Þorlákshafnar er ekki getið í Íslendinga sögum. Hins er getið að Auður djúpúðga kom „skipi sínu fyrir sunnan land á Vikrarskeið; þar brjóta þau skipið í spón; menn allir héldust og fé“, sem fyrr sagði.
Siglingar íslenskra sæfara til Norður-Ameríku um árið 1000 eru Íslendingum vel kunnar. Flestir hafa heyrt um Leif heppna en nafn Bjarna Herjólfssonar er síður þekkt. Ljóst er að leiðangurs Kristófers Kólumbusar árið 1492 var líklega farinn meðal annars vegna áhrifa frá siglingum Íslendinga.
Um allan heim er því trúað að Kristófer Kólumbus hafi fundið Ameríku árið 1492.

Bjarni Herjólfsson

Ferðir Íslendinga til Vesturheims.

Íslendingar telja sig vita betur, og vísa til tveggja fornsagna, Grænlendinga sögu og Eiríks sögu rauða. Þar er sagt frá sæförum af íslensku bergi brotnu, sem sigldu austur fyrir Grænland og fundu Helluland, Markland og Vínland hið góða.
Fornleifafundur á L’Anse aux Meadows á Nýfundnalandi í Kanada hefur leitt í ljós þyrpingu húsa sem byggð voru af norrænum mönnum. Aldursgreining gefur ártalið um 1000, sem skýtur styrkum stoðum undir frásagnir íslenskra fornsagna.
En hver fann Ameríku? Meðal okkar Íslendinga hefur nafni Leifs heppna, Leifs Eiríkssonar, verið haldið mjög á lofti. Bjarni Herjólfsson hefur hingað til staðið fremur í skugganum. Það jafnvel svo, að margir sem spurðir eru muna ekki hvað hann gerði merkilegt, eða kannast ekki við að hafa heyrt á hann minnst. Eins er margt annað áhugavert sem gerðist á næstu öldum eftir fund Vínlands, sem mætti gjarnan njóta athygli ekki síður en sagan af Leifi Eiríkssyni.

Drepstokkur

Upplýsingaskilti við Drepstokk.

Í Grænlendinga sögu segir af Bjarna Herjólfssyni frá bænum Drepstokki. Talið er að Drepstokkur hafi staðið austan ósa Ölfusár, um tvo kílómetra vestan við Eyrarbakka. Það svæði hét áður Eyrar. Jörðina hafði Herjóflur, langafi Bjarna, fengið að gjöf skömmu eftir landnám frá Ingólfi Arnarsyni landnámsmanni, en þeir voru frændur. Bjarni var farmaður, eða kaupmaður, og átti skip í förum milli Íslands og Noregs. Eitt sinn er hann kom frá Noregi á Eyrar fregnaði hann að faðir hans hefði það sama sumar siglt með Eiríki rauða til Grænlands. Talið er að þetta hafi verið kringum árið 985.

Drepstokkur

Drepstokkur.

Þótti Bjarna brottför föður síns mikil tíðindi og vildi fylgja honum eftir. Voru hásetar hans einnig viljugir að sigla. Mælti þá Bjarni: „Óviturlig mun þykkja vár ferð, þar sem engi vár hefir komit í Grænlandshaf“. Engu að síður sigldu þeir frá Eyrum. Eftir þrjá daga hrepptu þeir þoku og hafvillur, og sigldu dögum saman án þess að vita hvert leið lá. Loks kom að því að þeir litu Ameríku augum. Bjarni ákvað hins vegar að venda norður með austruströndinni og stefna til Grænlands.
Smám saman urðu þessar fregnir heyrinkunnar og viðurkenndar á æðstu stöðum. Með tilskipun Paschals II páfa árið 1112 varð Eiríkur Gnúpsson upsi biskup yfir “Grænlandi og Vínlandi in partibus infidelium”.

Bjarni Herjólfsson

Ferð Bjarna Herjólfssonar til Vesturheims.

Á öðrum stað í heimildum er talað um biskup yfir Grænlandi og svæðum í nágrenni, á latínu “Episcopus Groenlandiae regionumque finitarium”. Hér getur ekki verið um að ræða rugling við nafn Íslands, enda var Gissur Ísleifsson þar biskup fyrir. Þetta eru í raun mjög merkilegar upplýsingar. Að senda prest á staðinn er eitt, en allt annað að sjálfur páfinn samþykki nýja stöðu biskups sem er mjög há staða innan kirkjunnar, á svæði sem tilheyrir meginlandi Ameríku. Þetta er rækileg sönnun fyrir því að vissan um landafundi Íslendinga var traust í Evrópu þegar í byrjun 12. aldar. Hins vegar virðist sem að þeir hafi að miklu leiti gleymst á þeim öldum sem í hönd fóru.

Víkarskeið

Víkarskeið – gleymt örnefni við Ölfusárósa.

Þjóðsagan um bauk séra Eiríks prests á Vogsósum gerist á Hafnarskeiði. Í henni segir að „einhvern tíma reið séra Eiríkur að heiman og piltur með honum. Þegar þeir voru komnir nokkuð áleiðis sagði prestur að hann hefði gleymt bauk sínum undir höfðalagi sínu og beiddi piltinn að ríða eftir honum ug flýta sér, en varaði hann við að taka tappann úr honum.
Pilturinn reið heim og fann baukinn þar sem honum var til vísað. En þegar hann reið eftir presti kom að honum forvitni mikil að vita hvað í bauknum var, svo hann tók tappann úr. Sá hann þá ekki í heiðan himininn fyrir mýflugum og heyrði þessa suðu fyrir eyrum sér:
„Hvað á að gjöra, hvað á að gjöra?“
Piltur varð ekki ráðalaus og sagði: „Flétta reipi úr sandinum.“

Bjarni Herjólfsson

Skip þess tíma.

Að lítilli stundu liðinni kom mýflugnahópurinn aftur og sögðu: „Búið er það; hvað á að gjöra?“
„Fara í baukinn aftur,“ sagði pilturinn.
Gjörðu mýflugurnar svo, en hann lét tappann í hið fljótasta.
Skömmu síðar náði hann presti. Spurði hann þá piltinn hvort hann hefði gjört eins og fyrir hann var lagt, en pilturinn gekkst hreinlega við öllu og sagði hvað sér hefði orðið að ráði. Prestur sagði honum hefði farið vel úr því sem komið var, og kvað hann þess maklegan að honum væri sagt til stafs.
Þar er nú Hafnarskeið er árarnir rótuðu sandinum.“
Þótt ekki hafi fengist óyggjandi staðfesta á hvar Drepstokkur var nákvæmlega var gangan, sem tók 1 klst og 11 mín, stórkostleg, enda frábært veður þarna niður við ströndina.

Heimildir m.a.:
-http://www.skolavefurinn.is/_opid/islenska/bokmenntir/
-http://www.bokasafn.is/ferdavefur/torlakshofn.htm
-http://www.sssig.com/landafundir-grein-mbl.htm
-http://www.snerpa.is/net/thjod/baukur.htm

Drepstokkur

Drepstokkur.