Tag Archive for: Patterson

Patterson

Í „Húsakönnun Patterson“ árið 1019, skráða af Helga Biering, þjóðfræðingi, kemur eftirfarandi fram um hernaðarmannvirkið Pattersonflugvöllinn ofan Fitja í Njarðvíkum:

Patterson

Patterson 1942.

„Þann 11. júní 1941 komu átta yfirmenn Bandaríska hersins til Íslands og viku síðar, eða þann 18. júní, greindu þeir frá því að frá sjónarhóli verkfræðinganna hefði Ísland lítið upp á að bjóða. „Án trjáa var engan innlendan við að hafa og í raun þyrfti að flytja allt inn sem á þarf að halda. Hafnir eru litlar og ráða ekki við skip sem eru stærri en 470 fet og rista ekki dýpra en 21 fet. Veðurfarið biði upp á vetrarhita sem væri að meðaltali -1°C (30°F) og sumarhita með meðalhita um 11°C (52°F), rigningu með um 127 Sentímetra meðal ársúrkomu og vetrarvinda sem vætu um 36m/sek. Einungis hraungrjót, möl og sandur væri nóg af á hinni hráslagalegu eyju“.

Patterson

Flugbraut lögð „Bretajárni“ (Marston-mats).

Einnig sögðu þeir að hér væru tveir nothæfir flugvellir sem byggðir höfðu verið af Bretum en þeir þyrftu breytinga við til að fullnægja stöðlum og til að bera aukna umferð þyngri flugvéla. Fyrir utan flugvöllinn í Reykjavík og á Kaldaðarnesi við Selfoss voru nokkrar lélegar flugbrautir, svo sem á Garðskaga, og nýttu eingöngu til nauðlendinga.
Flugbrautirnar á Melgerðismelum utan við Akureyri og Höfn í Hornafirði voru of langt frá til að falla að hugmyndum bandarískra hernaðaryfirvalda.

Patterson

Patterson 1958.

Í upphafi veru Bandaríkjahers var ætlunin með flugvelli við Keflavík og Njarðvík að hafa einungis einn flugvöll. Hann skyldi staðsettur á svokölluðum Sviðningum ofan við Njarðvíkurfitjar. Skyldi sá flugvöllur klæddur svokölluðum „Marston-mats“. En mottur þær voru gataðar járnplötur sem kræktust saman og mynduðu þannig heilu flugvellina og gátu borið uppi flugvélar á jarðvegi sem annars hefði ekki verið hægt að lenda á. Þessi járn gengu undir nafninu „Bretajárn“ hjá Íslendingum sem fundu mikil og fjölbreytt not fyrir þau eftir stríðið.
Sviðningarnir urðu fyrir valinu eftir að flugherinn hafði kannað nokkra staði svo sem Garðskaga og Sandskeið.

Patterson

Patterson-flugvöllur.

Það kom svo í hlut byggingarsveitar flughersins að byggja flugvöllinn og skyldi hafist handa með hraði. Skyldi flugvöllurinn vera með tvær 1600 metra langar flugbrautir og skálahverfi fyrir flugsveitina. Eins átti byggingarsveit flughersins ráða til verksins íslenska verkamenn. Fyrstu liðsmenn 21. Byggingarsveitar hersins komu til landsins haustið 1941 en framkvæmdir við flugvallargerðina hófust 1942. Þegar verkfræðideildin kom til landsins fóru að berast sérhæfð verkfæri til flugvallagerðar ásamt öðrum búnaði.

Varnarsvæði

Varnarsvæðið á Miðnesheiði – herforingjaráðskort. Pattersonflugvöllur neðst t.h.

Til að byrja með fékk fjöldi Íslendinga vinnu við flugvallargerðina á Reykjanesi. Nokkur fjöldi Íslendinga fékk vinnu við flugvallagerðina. Fengu sumir þeirra þjálfun í meðferð þungavinnuvéla sem áttu enga sína líka hér á landi, má þar nefna jarðýtur, krana, grjótmulningsvélar og malbikunarvélar. En með setningu öryggisreglna á svæðinu sumarið 1942 var öllum Íslendingunum sagt upp störfum og eftir það luku um 4500 Bandaríkjamenn verkinu. Hér var í raun um að ræða tvo samtengda flugvelli með sex löngum steinsteyptum og malbikuðum flugbrautum; annars vegar aðalflugvöllurinn á Háaleiti, Meeks-flugvöllur sem síðar varð Keflavíkurflugvöllur, og hins vegar Pattersonflugvöllur á Njarðvíkurheiði en hann var ekki notaður eftir stríð.

Patterson

Patterson 12. maí 1944 – Douglasvél í ferjuflugi.

Pattersonflugvöllur var minni og einungis notaður fyrir orrustuflugvélar til varnar flugvöllunum báðum. Flugvellirnir voru teknir í notkun árin 1942 og 1943 og þar með gátu Bandaríkjamenn flutt sig frá Reykjavíkurflugvelli með meginhluta starfsemi sinnar. Fyrir utan flugvallagerð á Sviðningunum og Miðnesheiði stóð herinn fyrir vegabótum frá Reykjavík og hafnarbótum í Keflavík vegna aðflutninga.

Patterson

Patterson; geymsla og varðskýli.

Reiknað hefur verið út að heildarkostnaður við gerð flugvallanna tveggja og aðrar tilheyrandi framkvæmdir hafi jafngilt 9% vergrar landsframleiðslu Íslendinga árið 1943.
Pattersonflugvöllur var gerður af Bandaríkjaher í síðari heimsstyrjöld og var tekinn í notkunn 1942. Hann var mikilvægur áningarstaður herflugvéla á leið yfir Norður-Atlantshaf í styrjöldinni og var færður Íslendingum til eignar árið 1946 ásamt Meeks flugvelli. Vorið 1951 gerðu Ísland og Bandaríkin með sér varnarsamning og hafði bandaríska varnarliðið flugbækistöð á Keflavíkurflugvelli til ársins 2006.

Patterson

Húsakönnun.

Við hernám Íslands vorið 1940 var enga flugvelli að finna í landinu. Breska hernámsliðinu lá á að koma á fót eftirliti úr lofti til varnar hugsanlegri innrás Þjóðverja og sendi breski flotinn strax sveit lítilla sjóflugvéla til landsins sem starfaði þar um sumarið. Sléttir og harðir bakkar Ölfusár í Kaldaðarnesi buðu upp á nánast eina hentuga flugvöllinn af náttúrunnar hendi í nágrenni Reykjavíkur en flestir herflugvellir til þess tíma voru grasi vaxnar grundir líkt og í Kaldaðarnesi. Sá hængur var þó á að flugvallarstæðið lá austan árinnar sem á það til að flæða þegar klakastíflur myndast í ánni á vetrum. Bretum var þetta vel ljóst en lá á og gerðu reyndar í fyrstu alls ekki ráð fyrir að stunda neitt flug á Íslandi yfir vetrarmánuðina.

Patterson

Bandaríkjamenn byggðu árið 1942 og var lokað þremur árum síðar. Hann var aðallega notaður til að sinna orrustuflugvélum hersins sem sinntu loftvörnum á suðvesturlandinu.

Flugstarfsemi hófst í Kaldaðarnesi um haustið en jafnframt var hafist handa við flugvallargerð í Reykjavík.
Síðari hluta ársins 1940 varð ljóst að þýski kafbátaflotinn léti ekki sitja við árásir á skip undan Bretlandsströndum og myndi færa athafnasvæði sitt vestar á Atlantshaf eftir því sem varnirnar styrktust. Flugvélar höfðu þegar sannað gildi sitt við varnir gegn kafbátum og því brýnt að koma upp aðstöðu fyrir stærri og öflugri eftirlitsflugvélar sem víðast svo veita mætti skipalestum vernd lengra frá landi.
Reykjavíkurflugvöllur var tilbúinn til notkunar sumarið 1941 um það bil er þýskir kafbátar fóru að herja á skipalestir suður af landinu. Þá var hafist handa við að stækka flugvöllinn í Kaldaðarnesi. Báðir flugvellirnir voru þó einungis búnir einni flugbraut í fyrstu og voru því sléttaðir lendingarstaðir á nokkrum stöðum sem nota mátti í neyð. Einn slíkur neyðarflugvöllur var gerður á Garðskaga og voru það fyrstu flugvallarframkvæmdir á Suðurnesjum.

Patterson

Ein af mörgum sprengigeymslunum við Pattersonflugvöll.

Bandaríkin hófu að styrkja herlið Breta hér á landi sumarið 1941 samkvæmt samningi við íslensk stjórnvöld með það fyrir augum að leysa breska herinn af hólmi. Bandaríkin voru ekki orðin þátttakendur í styrjöldinni en skyldu m.a. annast loftvarnir með orrustuflugvélum á Reykjavíkurflugvelli. Bandaríska herráðið ráðgerði að byggja stóran flugvöll fyrir sprengju- og eftirlitsflugvélar á suðvesturhorni landsins. Og þar sem allt of þröngt var um orrustuflugsveitna á Reykjavíkurflugvelli með öðrum flugsveitum sem þar voru var einnig byggður annar minni fyrir hana á Njarðvíkurheiði.

Patterson

Húsaköunnin.

Bandaríkjamenn sáu strax að Suðurnesin væru vel til þess fallin að byggja slíka flugvelli, enda Bretar þegar með vísi að flugvelli á Garðskaga og utanverður Reykjanesskaginn nánast hindrunarlaus til flugs.
Árás Japana á herstöðvar Bandaríkjanna á Hawaiieyjum 6. desember 1941 breytti gangi styrjaldarinnar og áætlunum Bandaríkjamanna. Stóru sprengju- og eftirlitsflugvélarnar sem áætlað var að senda til Íslands voru sendar til bækistöðva við Kyrrahaf. Þörfin á stórum flugvelli af þessu tagi var þó enn fyrir hendi þótt á annan veg væri. Ljóst var að flytja þyrfti mikinn fjölda flugvéla frá Bandaríkjunum til Bretlands til þátttöku í styrjöldinni í Evrópu en Bretar höfðu fest kaup á fjölda flugvéla í Bandaríkjunum og Kanada og flogið mörgum þeirra yfir hafið með viðkomu á Reykjavíkurflugvelli.

Patterson

Patterson – sprengigeymslur.

Flugvöllum Bandaríkjahers var valinn staður upp af Njarðvíkurfitjum og á Háaleiti ofan Keflavíkur. Bretar höfðu gert drög að stækkun varaflugvallarins á Garðskaga en þær mæltust ekki vel fyrir sökum skorts á landrými fyrir það risa mannvirki sem Bandaríkjaher hafði á teikniborðinu. Úrslitum um staðarvalið réð jökulgarðurinn á Háaleiti sem hafði að geyma heppileg jarðefni til fyllingar undir flugbrautirnar og ekki þótti hagkvæmt að flytja langan veg. Samdist svo um að íslenska ríkið útvegaði landrými fyrir flugvelli og tengda starfsemi sem skilað yrði aftur með öllum mannvirkjum til íslensku þjóðarinnar til eignar að styrjöldinni lokinni.

Patterson

Patterson – sprengigeymslur.

Framkvæmdir hófust við lagningu flugvallarins upp af Fitjum í febrúar 1942 og var verkið unnið af byggingarsveit flughersins ásamt u.þ.b. 100 íslenskum verkamönnum og vörubílstjórum.
Íslensku starfsmennirnir hurfu á braut í júníbyrjun þegar nýjar reglur um hernaðaröryggi tóku gildi og bönnuðu alla umferð annarra en hermanna innan flugvallarsvæðisins. Skömmu áður hóf bandarískt verktakafyrirtæki framkvæmdir fyrir Bandaríkjaher hér á landi og tóku starfsmenn þess við af heimamönnum sem fengin voru verkefni á vegum hersins annars staðar.

PattersonIlla gekk þó að fá hæfa bandaríska verkamenn til starfa á Íslandi og var gripið til þess ráðs að senda nýstofnaða byggingarsveit flotans til landsins sem tók við mannvirkjagerðinni ásamt byggingarsveitum hersins. Flugvöllurinn sem hlaut nafnið Patterson Field var tilbúinn Flugvellir Bandaríkjahers við Keflavík við verklok síðla árs 1943. Stærri völlurinn Meeks Field síðar Keflavíkurflugvöllur þjónaði millilandaflugi og þar gat fjöldi flugvéla haft viðdvöl í einu. Flugvöllurinn hefur verið stækkaður verulega. Minni flugvöllurinn, Patterson Field var aðsetur orrustuflugvéla sem önnuðust loftvarnir.

Varnarsvæði

Varnarsvæðið á Miðnesheiði – einstök hverfi (campar).

Á flugvallarsvæðinu risu alls 43 herskálahverfi sem hýst gátu 10.000 manns auk flugskýla, eldsneytistanka og annarra mannvirkja sem tengdust starfseminni. Alls störfuðu um 3.000 manns við gerð þessara tveggja flugvalla þegar mest var og lauk verkinu árið eftir en vinna við Patterson lá niðri um veturinn. Bandaríkjamenn nefndu flugvöllinn á Háaleiti Meeks-Field eftir ungum bandarískum orrustuflugmanni sem fórst í flugslysi á Reykjavíkurflugvelli 19. ágúst 1941 skömmu eftir komuna til landsins. Patterson-flugvöllur var að sama skapi nefndur eftir öðrum ungum flugmanni sem einnig lét lífið hér á landi nokkru síðar.
Meeks-flugvöllur sem nú nefnist Keflavíkurflugvöllur var tekinn í notkun í apríl 1943 en smíði beggja flugvallanna og tilheyrandi mannvirkja var lokið þá um haustið. Alls risu 49 herskálahverfi á víð og dreif um flugvallarsvæðið og annars staðar á Suðurnesjum í tengslum við flugvellina og varnarviðbúnað sem fylgdi starfseminni.

KeflavíkurflugvöllurFlugumferð var að mestu aðskilin á flugvöllunum við Keflavík. Um Meeks-flugvöll fóru eingöngu ferju- og áætlunarvélar en auk þess fengu kafbátaleitarflugvélar breska flughersins af gerðinni B-24 Liberator sem aðsetur höfðu á Reykjavíkurflugvelli þar aðstöðu. Starfrækslu Patterson-flugvallar var hætt í stríðslok en almennt millilandaflug hófst þá um Meeks-flugvöll.

PattersonRíkisstjórnir Íslands og Bandaríkjanna undirrituðu samning haustið 1946 sem kvað á um um brottför Bandaríkjahers, sem þá taldi einungis um 1.000 menn sem störfuðu við rekstur Keflavíkurflugvallar. Samningurinn sem jafnan er nefndur Keflavíkursamningurinn veitti Bandaríkjastjórn heimild til þess að nota flugvöllinn til millilendingar herflugvéla á leiðinni til og frá Evrópu í tengslum við hersetuna í Þýskalandi. Flugvellirnir og önnur mannvirki urðu eign Íslendinga eins og til stóð en Bandaríkjastjórn stóð áfram straum af rekstrarkostnaði flugvallarins sem hlaut nafnið Keflavíkurflugvöllur.
Síðustu bandarísku hermennirnir héldu af landi brott 8. apríl 1947 og tók flugfélagið American Overseas Airlines við flugvallarrekstrinum og réð bandaríska og íslenska starfsmenn til verksins. Starfsemin var að flestu leyti sambærileg við það sem verið hafði á stríðsárunum, nema að nú var umferðin að miklu leyti evrópskar og bandarískar farþegaflugvélar sem millilentu ásamt bandarískum herflugvélum.

Varnarsvæði

Varnarsvæði Keflavíkurflugvallar – fylgir Tilkynningu frá ríkisstjórninni 21. maí 1942.

Keflavíkursamningurinn kvað á um að Íslendingar skyldu þjálfaðir í sem flestum störfum við flugvallarreksturinn og var fljótlega ráðið í störf verka- og iðnaðarmanna og þjónustustörf af ýmsu tagi. Það var þó ekki fyrr en seint á árinu 1949 að Íslendingar hófu að vinna sérhæfð tæknistörf, t.d. við flugumferðarstjórn.
Við stofnun varnarliðsins vorið 1951 tók flutningadeild bandaríska flughersins við rekstri Keflavíkurflugvallar og hótelsins, en Flugmálastjórn Keflavíkurflugvallar annaðist afgreiðslu farþegaflugvéla sem leið áttu um flugvöllinn og aðra almenna flugþjónustu. En Patterson flugvöllur fékk það hlutverk að vera geymslusvæði fyrir tækjabúnað og sprengiefni þar til að herinn fór aftur árið 2006.

 Allt frá fyrstu dögum veru Bandaríkjahers á Suðurnesjum var þörf á að reisa húsnæði fyrir starfsemina. Ýmist geymslubragga, flugskýli og hvað eina sem þurfti til að veita skjól þarfnaðist skjóls fyrir veðri og vindum.

Braggar

Braggi á stríðsárunum.

Braggar og önnur fljótt byggð bráðabirgðahúsnæði voru í upphafi það sem reist var. Síðar komu svo hús sem voru ætluð til að standa allt að 25 ár ásamt byggingum sem reistar voru til langs tíma.

Í upphafi var nánast eingöngu reist bráðabirgðahúsnæði og síðar einnig töluvert mikið af stálgrindarhúsum. Eftir að herinn kom aftur hóf hann að reisa sprengjugeymslur sem enn standa víðs vegar um flugvallasvæði Patterson svæðisins.
Þau mannvirki sem eftir standa eru þöglir minnisvarðar liðinna áratuga, ára seinni heimstyrjaldarinnar og kalda stríðsins á Íslandi. Hönnuðir þeirra húsa sem Húsakönnunin nær yfir er verkfræðideild Bandaríska hersins.

Flugslys

Patterson

Vogshóll 27. des. 1942 – Catalina flugbátur.

Eitthvað var um flugslys á og í kringum Patterson flugvöllinn og ætla ég að minnast á þau sem þar urðu. Hugsanlegt er að eitthvað sé af hlutum á Vogshól þar sem tvær af þessum flugvélum komu niður á nánast sama blettinn.

27. desember 1942 fórst Catalina flugbátur á Vogshól sem er við austurenda Patterson, vélin var á leiðinni í kafbátaleit þegar hún lenti í hvössum éljabakka og fórst um fimmtán mínútum eftir að hún fór á loft. Allir níu áhafnarmeðlimirnir fórust Njarðvíkurheiði.
11. janúar 1943 magalenti P-40 Warhawk á Patterson flugvellinum. Flugmaðurinn slapp og flugvélin skemmdist minniháttar og var löguð.

Patterson25. janúar 1944 brotlenti UC-45E Expeditor stuttu eftir flugtak frá Patterson. Brotlendingarstaðurinn er ekki staðfestur. Flugmaður og farþegar lifðu slysið af.
22. apríl 1944 brotlenti Stinson Vigilant á Patterson. Flugvélin skemmdist mikið og var afskrifuð. Flugmaðurinn lifði af slysið.
12. maí 1944 hlekktist tveggja hreyfla Douglas Boston á Patterson flugvelli. Eldur kom upp í henni og hún eyðilagðist í eldinum.

Patterson

Vogshóll 11. júní 1944 – P-47 Thunderbolt.

Allir þrír áhafnarmeðlimirnir komust ómeiddir frá þessu.
11. júní 1944 magalenti P-47 Thunderbolt á Patterson vegna tæknilegra vandamála. Vélin skemmdist töluvert en flugmaðurinn slapp ómeiddur.

8. júlí 1944 hrapaði svo P-47 Thunderbolt í Vogshól skömmu eftir flugtak en flugmaðurinn slapp út í fallhlíf. Sami flugmaður var í sömu stöðu rétt um mánuði fyrr þegar önnur P-47 hrapaði við Húsatóftir hjá Grindavík.“

Heimildir:
-Húsakönnun Patterson, Helgi Biering þjóðfræðingur, 2019.
-Morgunblaðið 8. des. 1996, Samgöngubylting á Háaleiti, bls. 26-27.

Patterson

Sprengigeymsla við Pattersonflugvöll.