Tag Archive for: Pétur Guðjónsson

Þórkötlustaðanes

Þórkötlustaðanesið í Grindavík er áhugaverður staður. Minjarnar, sem þar eru ofan við Nesvörina, eiga sér merka sögu mannlífs, atvinnuhátta; útgerðar og búskapar. Þar eru m.a. gamlir þurrkgarðar, þurrkbyrgi, fjárskjól, gerði og tóttir frá fyrri tíð, auk fiskhúsa, ískofa, lifrabræðslu, saltþróa, varar, bryggju, grunna og veggi íbúðarhúsa, beitningaskúra og innsiglingamerkja frá fyrri hluta síðustu aldar.

Þórkötlustaðanes

Þórkötlustaðanes – uppdráttur ÓSÁ.

Fróðlegt og friðsælt er að ganga um svæðið á góðum degi, anda að sér sjávaranganinni og skoða og rifja upp söguna.
Á Þórkötlustaðanesinu voru auk Hafnar, húsin Arnarhvol og Þórshamar. Í Arnarhvoli, sem var vestan við Höfn, bjuggu Engelbert Jónsson og Jóhanna Einarsdóttir. Hafliði Jónsson og Gíslína Guðmundsdóttir bjuggu í Þórshamri, en húsið stendur að hluta til enn sunnan við Flæðitjörnina. Vatninu var safnað af húsþökum, en í þurrkatíð var dæmi þess að vatn væri sótt alla leið upp í Seltjörn. Kom þó sjaldan fyrir, sem betur fer. Hvergi var vatn að fá í hrauninu, en á veturnar og þegar mikið rigndi var vatn stundum sótt í polla handa fénu.
Útgerðaruppgangurinn byrjaði á árunum 1927-28. Byggð voru fiskhús ofan við vörina. Að staðaldri voru gerðir út 12-14 bátar þegar mest var. Þeir voru m.a. Hrauni, Þórkötlustöðum, Klöpp, Buðlungu, Einlandi og öðrum Þórkötlustaðahverfisbæjum.

Þórkötlustaðanes

Ískofi á Þórkötlustaðanesi.

Aðalútgerðin stóð yfir frá miðjum febrúar og mars og síðan var vorvertíðin í maí. Sumir réru líka héðan svo til allt árið, s.s. frá Hrauni, og þá á færi. Á sumrum var venjulega róið á minni bátum. Aflinn var bæði þurrkaður og saltaður. Stundum var seldur slægður og jafnvel óhausaður fiskur til Reykjavíkur. Það fór bara eftir aðstæðum á hverjum tíma. Sími var í Höfn, en símstöðin í Sólbakka uppi í hverfi. Öll verslunin fór í gegnum símann, einkum eftir að vörubílar fóru að fara á milli staða.
Fólk kom víða að á vertíð, jafnvel frá Vestjörðum. Þetta fólk bjó á viðkomandi bæjum. Í Höfn var t.a.m.um 25 manns þegar mest var.

Þórkötlustaðanes

Örnefni ofan bryggjunnar í Þórkötlustaðanesi – uppdráttur ÓSÁ.

Áður lentu bátanir í Nessvörinni og var fiskurinn þá áður seilaður út á Bótinni, aflinn síðan dreginn í land og honum síðan skipt á skiptivellinum ofan við vörina. Hver varð síðan að bera sinn afla upp að skúrunum. Fyrsti skúrinn var byggður um 1928, sennilega af fólki frá Einaldi. Mörg handtökin voru við fiskinn eftir að honum hafði verið komið í land. Á meðan ég átti heima í Nesi var mest um að fiskurinn væri saltaður, enda bera saltþrærnar þess glögg merki. Allur þorskur og ufsi var t.d. flattur og saltaður. Einnig var eitthvað um að fiskur væri þurrkaður þegar vel veiddist. Miklir þurrkgarðar voru sem dæmi beint upp af bryggjunni, svonefndir Hraunsgarðar.

Þórkötlustaðanes

Minjar í Þórkötlustaðanesi – uppdráttur ÓSÁ.

Bryggjan, um 70 metra löng og 10 metra breið steinbryggja, var síðan byggð um 1933 enda vélar þá komnar í flesta báta. Fiskinum var eftir það kastað upp á bryggjuna og af henni upp á bíla. Gamall Fordbíll var til í Höfn um tíma, en hann grotnaði síðar niður undir húsgaflinum. Þá var keyptur bíll í félagi útgerðarmannanna, nefndur “félagsbíllinn”. Á honum var fiskinum ekið upp í fiskhúsin.
Þegar snjóaði á vetrum hlupu menn út og veltu snjóboltum og rúlluðu inn í ískofana. Snjórinn var notaður í kæligeymslurnar, en þær voru tvöfaldir hólfaðir kassar. Hólfin, sem voru ca. 20 cm breið, voru fyllt af snjó og salti stráð í. Með því var hægt að halda bjóðum og beitu frosinni. Bætt var á snjó og salti eftir því sem bráðnaði.

Þórkötlustaðanes

Bryggjan í Nesi.

Áður en bryggjan var byggð voru bátanir drengir á land upp á kambinn norðan hennar. Síðan, þegar stokkarnir voru byggðir um 1938-1939, skömmu áður en bryggjan var lengd, voru bátanir dregnir upp á þeim og raðað á kambinn ofan við þá. Spilið, sem enn sést, sá um það. Það var bensinvélarknúið með Ford-vél. Vélarhúsið við það er horfið. Járnkengir framan við spilið voru til að stýra uppsetninguni. Þá var blökk hengd í hvern kenginn á eftir öðrum og bátanir dregnir upp eftir því sem þeir komu að landi.
Þegar bryggjan var lengd voru ker forsteypt uppi á kambinum og þeim rennt niður stokkana og síðan sökkt ofan á sandpokahleðslur, sem búið var að raða undir þau af kaförum.

Þórkötlustaðanes

Bátarnir í Nesi.

En eftir að grafið hafði verið inn í Hópið úti í hverfi árið 1939 og alvöru hafnargerð hófst þar innan við eftir 1944, voru flestir hættir að gera út hérna. Segja má að útgerðin hafi verið aflögð árið 1946. Höfn var flutt út í Járngerðarstaðahverfi árið eftir. Arnarhvol var svo flutt þangað árið eftir, en húsið hafði verið byggt í Nesinu um 1930. Það stendur nú að Arnarhrauni 2.

Þórkötlustaðanes

Þórshamar.

Jóhann vitavörður Péturssson bjó um tíma í Þórshamri, en húsið var byggt laust eftir 1930. Eftir að flutt var úr hinum húsunum í Nesinu var Jóhann eitthvað að breyta veggjum hjá sér. Varð það til þess að einn þeirra féll á hann og slasaði hann talsvert.
Fiskbyrgin og garðarnir fjölmörgu í Strýthólahrauni voru notaðir löngu áður en ég fæddist. Ekkert var þurrkað þar í minni tíð í Nesinu. Strýthólaranir eru syðst í hrauninu, en Leiftrunarhóll austast, suðaustan við Þórshamar.
Helsti hlífðarfantaður sjómanna voru stakkar, sjóhattar og klofstígvél. Ullavettlingar voru á höndum. Alltaf þurfti að eiga slatta af þeim því þeir þófnuðu og urðu fljótt of litlir, auk þess þeir áttu það til að harðna. Konurnar sátu við og prjónuðu á karlana. Sums staðar þurftu húsbændurnir að skaffa sjómönnunum vettlinga og jafnvel annan fatnað sem og kost. Útgerðarmennir uppi í hverfi og á Hrauni komu gangandi suður í Nes snemma á morgana þegar gaf og fóru síðan fótgangandi heim aftur.

Þórkötlustaðanes

Lifrabræðslan.

Flestar minjar í Nesinu eru gömlu hlöðnu ískofarnir, fiskhúsin, lifrabræðslan og grunnar beitningaskúranna. Lifrabræðslan var að mig minnir byggð um 1934-35. Öll lifrin var brædd. Guðmann Guðmundsson í lifrabræðslunni keypti alla gotu.

Þórkötlustaðanes

Fiskbyrgi í Strýthólahrauni.

Hann bjó í bræðslunni, í skúr nyrst í bræðslunni, kölluð kompan. Þar svaf karlinn á einum bedda. Seldi malt og appelsín.
Grútartjörnin eða Grútarskotti var norðan við lifrabræðsluna. Hún þornaði á sumrum þegar ekkert var verið að vinna þar. Þá kom fyrir að grúturinn væri skorinn upp og hann notaður í eldinn. Hann var reyndar ekki notaður af fólkinu í Nesinu, en fólk kom utan úr hverfi og sótti grút í eldinn. Ég man sérstaklega eftir einum karli, sem það gerði.
Vegurinn náði að húsunum, en hestvagnsvegur var þá út að vita og síðan út að vörðunni Siggu á vestanverðu Hópsnesi. Vitinn hafði verið byggður á fyrstu árum aldarinnar. Ruddur slóði var út að honum, en hann var síðar lagaður. Nú er kominn hringvegur um Nesið.

Þórkötlustaðanes

Sundvörður á Þórkötlustaðanesi.

Innsiglingavörðurnar (sundvörðurnar) voru fyrir framan við Buðlungu, þar sem steypti veggurinn er nú, og önnur upp í heiðinni. Eftir þeim var siglt inn í djúpsundið. Síðan var vent til vesturs þegar komið var á móts við innsiglingavörðurnar ofan við Nesbryggjuna. Á þeirri siglingu braut yfirleitt á hlið á bátnunum, sem gat stundum verið slæmt. Að jafnaði var ekki mikið um brim inni á Bótinni. Hins vegar braut oft talsvert sitt hvoru megin, einkum ef eittvað var að veðri. Auðvitað komu hér líka mjög slæm veður. Ég man þó ekki eftir að bátur hafi brotnað á siglingu inn, en í miklum veðrum gekk sjórinn upp á og inn yfir kambinn. Og það kom fyrir að skip, sem þar stóðu, brotnuðu. Ég man eftir því er sjórinn braut hliðar í skúrum næst sjónum í afar vondu veðri.

Hópsnesviti

Hópsnesviti/Þórkötlustaðanesviti.

Mikil hleðsla var ofan við uppsátrið. Hún var hirt upp á vörubíl, líkt og aðrar hleðslur og garðar í og við Grindavík þegar þegar verið var að gera bryggjuna í Hópinu. Við vegginn var hlaðinn djúpur brunnur, sem sjór var sóttur í fyrir fiskþvott. Við hann var dæla, sem notuð var til að dæla sjónum upp upp úr. Nú er búið að sturta yfir brunninn.
Allir urðu að hafa eitthvað fyrir stafni. Erfitt gat verið að sækja sjóinn, en þau voru líka mörg handtökin í landi. Þegar grafið hafði verið inn í Hópið breyttist allt. Þá lagðist allt af í Þórkötlustaðanesinu og atvinnulífið færðist út í Járngerðarstaðahverfið.

Sjóslysaskilti

Sjóslysaskilti á Þórkötlustaðanesi.

Þegar gengið er um Þórkötlustaðanesið og út á Hópsnesið má víða sjá upplýsingarskilti um strönd og skipsskaða og jafnvel brak úr bátum.
Þurrkgarðar eru frá fyrr tíð ofar á Nesinu sem og gömul þurrkbyrgi í Strýthólahrauni, skammt vestan við Þórshamar.
Nú standa minjarnar hér eftir sem tákn hins liðna – en eftirminnilega.

ÓSÁ skráði eftir Pétri Guðjónssyni.

Grindavík

Grindavík – Hópsnes- og Þórkötlustaðanes.

Þórkötlustaðanes

Gengið var um Þórkötlustaðanes undir leiðsögn Péturs Guðjónssonar, en hann er fæddur í einum af þremur bæjum, Höfn, sem voru í Nesinu. Hinir tveir voru Arnarhvol og Þórshamar. Þórshamar stendur að hluta vestan við Flæðitjörnina. Útveggir eru heilir.

Strýthólahraun

Fiskbyrgi í Strýthólahrauni.

Gengið var frá Höfn, sem var sunnan við veginn. Húsið var flutt vestur í hverfi um miðjan fimmta áratug 20. aldar.
Blómatími útgerðar á Þórkötlustaðanesi var á öðrum, þriðja og fjórða áratug aldarinnar. Margir árabátar og síðar vélbátar voru gerðir þaðan út. Sjá má minjar íshúsanna og fiskhúsanna, lifrarbræðslu og salthúss, ráa og reiða.

Þórkötlustaðanes

Bryggjan í Þórkötlustaðanesi.

Bryggjan var byggð um 1930. Gamla vörin er skammt austan hennar. Ofan við vörina má enn sjá járnkengi, stýrislykkju og spil þar ofar. Þegar bátarnir voru dregnir upp var tógið þrætt í kengina, eftir því hvar bátarnir áttu að raðast ofan við kampinn. Áður voru bátarnir drengir á land á kampinn skammt austar, sunnan við lifrabræðsluna, sem síðar varð.
Vestan við Höfn eru allmörg íshús. Margar tóttanna eru mjög heillegar. Á veturna sáust vermenn oft þjóta út eftir að byrjaði að snjóa, rúlluðu upp snóboltum og renndu þeim niður í íshúsin. Þar voru milliþiljuð ker. Í lögin var settur saltblandaður snjór, sem gaf hið besta frost. Í kerjunum var beitan fryst.

Grindavík

Þórkötlustaðanesviti.

Vestan við Flæðitjörnina er húsið Þórshamar. Í kringum húsið er margt minja, s.s. gerði og fjárhús. Sunnan þess, skammt ofan við kampinn, er gömul fjárborg, eldri en aðrar minjar. Borgin gæti þess vegna verið frá tímum Hafur-Björns. Í kringum hana er gerði, Hraunsgerði, og lítil tótt sunnan við hana.

Þórhamar

Þórshamar í Þórkötlustaðanesi.

Vestan við Þórshamar er skrúðgarður, framfararspor þess tíma. Í húsinu bjó vitavörðurinn síðastur manna. Þótti hann furðulegur í háttum – stóð jafnvel nakinn niður á kampi þegar sunnan- og suðvestanáttin var hvað verst og lét hana leika um útlimi. Arinn, sem enn má sjá í húsinu, gerði hann er bæta átti um betur. Milliveggir voru rifnir niður til að auka rýmið, en við það fékk vitavörðurinn steypustykki ofan á sig. Lá hann um stund, en fannst og gert var að sárum hans.

Þórkötlustaðanes

Þórkötlustaðanes – loftmynd.

Enn vestar er Strýtuhraun eða Strýtuhólahraun, nefnt eftir Strýtuhól vestari og Strýtuhól eystri, sem sjá má þarna inn í hrauninu. Í hrauninu eru fjölmörg hlaðin fiskbyrgi og þurrkgarðar. Ná þau svo til frá veginum niður að Leiftrunarhól, sem stendur á sjávarkambinum. Þessi byrgi eru fáum kunn, enda falla þau mjög vel inn í hraunið. Þegar hins vegar er staðið við byrgin sjást þau hvert sem litið er. Norðan vegarins eru hlaðnir þurrkgarðar. Á þessu svæði má auk þess sjá standa undir vindmyllur, heimtraðir, veglegar sundvörður o.fl. o. fl. Þá má sjá, ef grannt er skoðað, mjög gamlar minjar sunnan og vestan við Flæðitjörnina.

Grindavík

Sjóslysaskilti í Þórkötlustaðnesi.

Þórkötlustaðanesið er einstaklega áhugavert til útivistar og ekki síður út frá sögulegum forsendum.
Pétur fylgdi hópnum áfram vestur um Nesið. Vestan við vitan er dalur og í fjörunni undan honum er Markasteinn. Hann skiptir löndum Hóps og Þórkötlustaða. Á steininn er klappað L.M. Benti hann og á sundurlamda skipsskrokka og lýsti ströndum.

Þórkötlustaðanes

Sögu- og minjaskilti í Þórkötlustaðanesi.

Á leiðinni var ekið fram hjá Siggu, vörðu á hól, sem notuð var sem loka vendimið áður en vent var inn í Hópið. Grjótið úr vörðunni var tekið að mestu þegar verið var að tína það undir bryggjurnar. Nauðsynlegt er að endurgera vörðuna á meðan enn er vitað hvar hún var. Norðar eru gamlar sjóbúðir, sem nefndar voru Nesið. Þær verða skoðaðar í annarri ferð sem og þurrkgarðar og þurrkbyrgi, sem sjá má ofar á Hópsnesinu.
Sjá meira um Þórkötlustaðanes undir Lýsingar.

Þórkötlustaðanes

Minjar í Þórkötlustaðanesi – uppdráttur ÓSÁ.