Tag Archive for: Pínir

Rebbi

Gengið frá námusvæði norðaustan Herdísarvíkur, við gömlu sauðfjárveikigirðinguna neðan Herdísarvíkrfjalls, upp eftir hrauninu, upp Mosaskarð með viðkomu í nýlega fundnum helli niður í gasuppstreymsirás þar sem lítil fuglsbeinagrind sagði ævisögu hans síðustu dagana fyrir alllöngu síðan, upp skarðið og um hellasvæðið ofan Stakkavíkurfjalls, áfram yfir djúpt mosahraun ofan Nátthagaskarðs, sem runnið hefur úr Draugahlíðagígnum, og yfir í Stakkavíkursel. Stakkavíkurselsstígur og Selstígur voru gengnir til baka niður af fjallsbrúnunum með viðkomu í Svelti og Píni.

Mosaskarðshellir

Í Mosaskarðshelli.

Fyrir ofan bæinn er Herdísarvíkurfjall (329 m y.s.), hömrum girt á kafla, en annars staðar hafa hraunfossar fallið fram af því og alla leið til sjávar. Sagt er að hraunið neðan skarðsins, austan Herdísarvíkur, geymi m.a. Breiðabáshelli, sem ná á úr Breiðabás og alla leið upp í mitt Mosaskarð, ca. 1-2 km.
Þegar FERLIR hafði verið að leita að opi Breiðabáshellis í Mosaskarði uppgötvaðist gat í gasrás í miðju skarðinu. Var jafnvel um tíma talið að þar væri nú opið loksins komið. Ekki er vitað um marga hraunhella á Íslandi sem myndast í miklum halla, en einn slíkur er þessi í Mosaskarðinu.

Mosaskarðshellir

Í Mosaskarðshelli fyrsta sinni.

Það þætti ekki gott til frásagnar í dag, en FERLIRsfélaginn, sem að þessu sinni fetaði sig niður í hraunrásaropið og las jarðveginn að þarna kynni að leynast rás í lítilli hvylft. Tók hann flata steinhellu og byrjaði að grafa. Í ljós komu nægilega rúm göng er gætu leyft óljósa inngöngu. Skreið félaginn á maganum niður á við stutta stund, en síðan opnuðust göngin framundan. Eftir að hafa skriðið upp úr þrengslunum komu í ljós fagurlituð bogadregin göng er enduðu eftir skamman veg. Þótti honum athyglisvert að inni í þessum lokuðu göngum leyndist beinagrind af fugli.
Þegar út var komið rann upp fyrir félaganum sú staðreynd að hann hefði aldrei átt að fara niður og inn í göngin án aðstoðar; hvað  hefði t.d. gerst ef hann hefði lokast þarna inni??!!

Stakkavíkuselsstígur

Stakkavíkurselsstígur.

Hellirinn sjálfur er stuttur, nokkrir tugir metra, en hraunrásin sjálf er mjög falleg og lögun hennar einstök. Hægt er að klifra ofan í hann, en best er að taka með stiga eða klifurlínu. Fyrst þegar farið var niður virtist þetta einungis vera rúmgóð rás, en þegar grafið var í holu syðst í henni og gjallhaug mokað frá með hraunhellu kom í ljós framhald á rásinni. Skriðið var inn og í ljós kom þessi fallega bogadregna hraunrás. Veggirnir eru nokkuð sléttir, fjólubláir að lit, og gólfið slétt. Þarna hafði enginn maður áður stigið fæti. Hins vegar hafði lítill fugl komist þangað inn, en ekki komist út aftur. Beinagrindin sagði sína sögu.

Ofan við skarið er Brúnahellir og síðan tekur hver hellirnn við af öðrum austan við skarðið.

Rebbi

Beinagrind af rebba innan við op Rebba.

Má þar nefna Rebba, Stakkavíkurhelli – Annar í aðventu og Nátthaga.
Kíkt var inn í Rebba, en til þess að skoða þann helli að einhverju ráði þarf góðan tíma. Nátthagi er langur og rúmgóður með fallegum hraunmyndunum, en einnig þarf að gefa honum góðan tíma ef skoða á hann allan.
Mikið mosahraun er ofan og austan við Nátthaga. Það er mjög erfitt yfirferðar, en með smá útsjónarsemi og tiltekin stefnumið er gefa til kynna stystu leið yfir það getur gangan tekið u.þ.b. 40 mínútur.

Stakkavíkursel

Í Stakkavíkurseli.

Þá er komið inn á Stakkavíkurselstíg. Honum var fylgt spölkorn til norðurs, en síðan vikið út af honum neðan við Stakkavíkursel. Það var skoðað og síðan haldið áfram og beygt austan hraunrandar áleiðis niður að Stakkavíkurfjalli. Þar neðst í hrauninu eru hellarnir Sveltir og Pínir. Um er að ræða jarðföll í hrauninu, sem nefnd voru svo þar sem kindur vildu rata þangað niður, en urðu til þar því þær komust ekki upp aftur.

Mosaskarð

Mosaskarð ofan Herdísarvíkur.

Gengið var vestur ofan við brún fjallsins. Í örnefnalýsingu fyrir Stakkavík segir að „Selstígur heitir upp á fjallinu; liggur hann í Stakkavíkursel, sem er þar norðar á fjallinu”. Gengið var yfir á Selstíginn og honum fylgt niður á þjóðveginn.
Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 4 mín.

Stakkavíkursel

Stakkavíkursel.