Neðan Stekkjargils vestan Helgafells í Mosfellsbæ eru tvö upplýsingaskilti. Annað fjallar um plöntur og hitt um búskaparhætti.
Á fyrra skiltinu; „Stekkjargil„, segir m.a.: „Í Stekkjargili eru margar tegundir platna. Hér fyrir neðan eru myndir og lýsingar á nokkrum plöntutegundum sem finna má í gilinu. Gáðu hvort þú finnur þesssa fulltrúa íslenskrar náttúru, sem saman mynda eina heild, á göngu þinni og leggðu útlit jurtarinnar, ilm og viðkomu á minnið. Þá hefur þú örugglega gaman af að finna tegundina aftur og þekkja í næstu gönguferð um náttúru landsins“.
Á skiltinu eru síðan myndir og fróðleikur um Gulmöðru, Holurt, Maríustakk, Ljónslappa, Blóðberg, Friggjargras, Holtasóley, Kornsúru, Mjaðjurt, Tungljurt, Fjalldalafífil og Krossmöðru.
Á síðara skiltinu: „Stekkur„, má lesa eftirfarandi fróðleik: „Við erum stödd neðan við Stekkjargil í austanverðu Helgafelli og grjóthóllinn, sem blasir við okkur heitir Stórhóll. Gilið dregur nafn sitt af fjárstekk frá bænum Helgafelli og má sjá rústir hans hér undir brekkunni. Stekkur er lítil fjárrétt, notaður til að mjalta ær og var þessi stekkur sennilega nýttur fram yfir aldamótin 1900 en var þá stækkaður og breytt í fjárhús eða beitarhús.
Í Stekkjargili eru ágætir bithagar en gróðufar í Mosfellssveit mótast af landslagi og hæð yfir sjávarmáli. Efst eru fellin gróðursnauð en gróðurþekja þéttist þegar neðar dregur, líkt og hér í Stekkjargili.
Jarðvegurinn í Mosfellsbæ er víða frjór og lífrænn og reyndist hentugur til mótekju en mór er jurtaleifar sem var áður fyrr notaður til húshitunar og eldamennsku. Mógrafir voru allvíða í sveitarfélaginu, meðal annars í Stekkjarmýri sunnan við Stekkjargil.
Víða í mýrum sveitarfélagsins má finna leifar af birkilurkum og þeir eru vitnisburður um tvö löng birkitímabil sem runnu upp eftir að ísöld lauk fyrir um 10.000 árum. Eftir landnám hófst mikil landeyðing af ýmsum orsökum og í upphafi 20. aldar var allur skógur horfinn úr Mosfellssveit. Með friðun og skipulagðri skógrækt hefur sveitarfélagið tekið miklum stakkaskiptum síðustu áratugina.
Á fyrri tíð voru ær frá Helgafelli hafðar á beit hér í Stekkjargili en reknar á hverjum degi hingað í stekkinn þar sem þær voru mjólkaðar. Samkvæmt íslenskri þjóðtrú stundaði óboðinn gestur þá iðju að sjúga mjólk úr lambám í stekkjum og fjárhúsum. Það var jólasveinninn Stekkjastaur sem Jóhannes úr Kötlum orti um á þessa leið:
Stekkjastaur kom fyrstur,
stinnur eins og tré.
Hann laumaðist í fjárhúsin
og lék við bóndans fé.
Hann vildi sjúgja ærnar,
-þá varð þeim ekki um sel,
því greyið hafði staurfætur,
-það gekk nú ekki vel.„