Tag Archive for: Prestastígur

Prestastígur

Ólafur Sigurgeirsson skrifaði á mbl.is. árið 1999 stutta grein; „Gengið um gömlu þjóðleiðina milli Hafna og Grindavíkur„.

Ketill Ketilsson

Ketill Ketilsson í Höfnum.

„Gengið verður um gömlu þjóðleiðina milli Hafna og Grindavíkur. Hafnir voru fyrr á öldum, segir Ólafur Sigurgeirsson, blómlegur útgerðarstaður. FÍ efnir á sunnudaginn, 18. apríl, til gönguferðar um gömlu þjóðleiðina milli Hafna og Grindavíkur. Þegar leiðin er farin úr Höfnum liggur hún frá Kalmanstjörn um Hafnarsand fyrir norðan Presthól og um Kinn þar sem farið er ofan í sigdalinn upp af Stóru- Sandvík, þaðan hjá Haugum og yfir Haugsvörðugjá og síðan með rótum Sandfellshæðar og fylgir gatan þar hraunjaðri Eldvarpahraunsins. Þar verður á vegi okkar nýlegur vegarslóði sem er tilkominn vegna lagningar ljósleiðarans mikla. Þegar kemur á móts við Rauðhól er farið yfir hraunhaft að hólnum og síðan hjá Eldvörpum og yfir Hrafnagjá að Húsatóftum í Staðarhverfi. Öll þessi leið er vel vörðuð og ber þess merki að þar hefur verið fjölfarið um aldir, víða sést hvar umferðin hefir markað alldjúpar götur í hraunið og lausagrjót hefir verið tínt úr götunni og lagt til hliðar. Þetta var aðalleið vermanna af Suðurlandi sem sóttu sjó frá Höfnum og af Rosmhvalanesi, þar hafa skreiðarlestir verið á ferð.

Prestastígur

Prestastígur.

Eins hafa Grindvíkingar lagt leið sína þar um á þeim tíma sem þeir þurftu að sækja verslun til Básenda, þótt þeir hafi einnig farið sjóleiðina, en á sautjándu og átjándu öld urðu þeir að sæta því í nokkra áratugi að sækja verslun þangað, sökum þess að kaupmenn treystu sér ekki til að sigla til Grindavíkur vegna skipsskaða sem urðu þar á fyrri hluta sautjándu aldar. Þá hefur Sigvaldi Sæmundsson póstur verið þarna á ferð, á leið sinni milli Básenda og Grindavíkur, en hann var fyrsti póstur sem ráðinn var með skriflegum samningi til póstferða árið 1785. Hafnir voru fyrr á öldum blómlegur útgerðarstaður og var þar stundaður umfangsmikill búskapur bæði til lands og sjávar. Vermenn fjölmenntu þangað á vertíðum og eru sagnir til um stórfellda útgerð Ketils Ketilssonar í Kotvogi, en hann gerði út þrjú skip, á árunum 1870­1880, og voru þá um 50 sjómenn á hans vegum auk 22 annarra heimilismanna.

Hvalsneskirkja

Hvalsneskirkja.

Ketill var meðal auðugustu manna landsins á sínum tíma, hann byggði steinkirkju þá á Hvalsnesi sem enn stendur, en Ketill átti meðal annars alla Hvalsnestorfuna og Járngerðarstaði í Grindavík. Landkostum hefur á síðari öldum hrakað mjög í Höfnum vegna sandágangs og margir bæir farið í eyði af þeim sökum, þar á meðal Haugsendar sem snemma fóru í eyði, en Haugsendar voru á milli Kirkjuvogs og Merkiness, voru tún þar mikil, vegleg húsaskipan og myndarlega búið. Sagnir um mannlíf þar lifa í gömlum húsgangi: Á Haugsendum er húsavist sem höldar lofa. Þar hefur margur glaður gist, og gleymt að sofa. Ég hefi stundum heyrt þessa fornu þjóðleið nefnda Prestastíg en hvergi hefi ég fundið það nafn í þeim bókum sem ég hefi séð. Þó má geta þess að með prestakallalögum frá 1907 var Kirkjuvogssókn í Höfnum lögð til Staðarprestakalls í Grindavík og hefur því Staðarprestur oft átt erindi um þessa fornu leið þar til Staðarprestsetur var lagt af 1928 og Kirkjuvogskirkja lögð til Grindavíkurprests. Geir Bachmann lýsir þeim þjóðleiðum sem frá Grindavík liggja í sóknarlýsingu frá 1840. Hann nefnir með nafni fyrstu þrjá aðalvegi yfir hraunin en segir svo: „Sá fjórði og síðasti vegur sem úr sókninni liggur og alþjóðarvegur má kallast liggur upp frá Húsatóttum í útnorður ofan í Hafnirnar og er hann sá eini sem héðan farinn verður þangað.“ Þetta er eini vegurinn frá Grindavík sem Geir nefnir ekki með nafni.“

Heimild:
-Mbl.is, 17. apríl 1999.

Prestastígur

Gengið um Prestastíg.

Árnastígur

 Gengið var upp Árnastíg frá Húsatóftum og beygt inna á Brauðstíg skammt sunnan Sundvörðuhrauns. Stígnum var fylgt framhjá “Tyrkjabyrgjunum” svonefndu undir hraunkantinum, og yfir hraunið að Eldvörpum þar til komið var að helli í Eldvörpum. Þar er jafnvel talið að Grindvíkingar hafi bakað sitt braut fyrr á öldum. Mannvistarleifar eru í hellinum.

Brauðstígur

Brauðstígur.

Elstu heimildir um brauðgerð á Norðurlöndum komu í ljós við fornleifauppgröft á Austur-Gautlandi árið 1908. Brauðgerð og neysla virðist hafa verið fremur lítil á Íslandi langt fram á 18.öld ef treysta má heimildum eða réttara sagt heimildarskorti því að lítið er getið um slíkt. Korninnflutningur eða kornrækt virðist ekki hafa verið mikil, en það korn sem fékkst var notað til grautargerðar, ölgerðar og brauðgerðar að vissu marki. Það er líklegt að verkþekking og áhöld, sem snéru að meðferð korns til brauðgerðar, ölgerðar og grautargerðar, hafi flust með norskum landnámsmönnum til Íslands. í Noregi var hefð fyrir brauðgerð á landnámstíð og því ekki óvarlegt að ætla að slík hefð hefði skapast hér á landi þótt litlar heimildir séu til um slíkt. Brauðtegundir er ekkert vitað um en í Noregi voru bakaðar linar kökur og brauðhleifar sem voru með þykkar rendum og hvilft í miðju.

Eldvörp

Í Brauðhelli.

Brauðgerð er ein elsta iðja sem til er. Til eru heimildir um brauðgerð fyrir um 5000 árum síðan, bæði í hinni gömlu Babylon og einnig í Kína. Trúlega hefur þó brauðgerð hafist miklu fyrr eða tiltölulega skömmu eftir að menn fóru að nota korn fyrir fæðu, en það mun hafa gerst á mismunandi tíma á ýmsum stöðum á jörðinni.

Á átjándu öld mun fyrst hafa verið farið að gera lyft brauð hér á landi. Þau voru kölluð pottbrauð. Ekki voru til bakaraofnar á Íslandi eins og fyrr sagði en þess í stað notaðir járnpottar sem hvolft var yfir brauðið. Eins og við flatbrauðsgerð, var heit glóðin að lokinni eldamennsku sléttuð vel að ofan, járnplata lögð á og þar ofan á brauðið. Ofan á allt saman var svo hvolft stórum potti. Síðan var skarað að glóð upp með og ofan á pottinn og breidd yfir aska, moð eða afrak. Brauðið var látið seyðast í sex til tólf tíma. Einnig var pottbrauð bakað þannig að pottur var smurður innan með góðri feiti og deiginu þjappað þar í, hlemmur settur á eða öðrum potti hvolft yfir. Potturinn var grafinn ofan í glóðina, glóð sett upp með og yfir og byrgt vel með ösku.

Hveragerði

Rúslahver / Önnuhver í Hveragerði.

Víkingar munu hafa bakað þrennskonar brauð, þ.e. grófir brauðhleifar bakaðir í ösku, þunnar byggmjölskökur bakaðar á grjóthellu og höfðingjabrauð-hveitikökur bakaðar á skaftpönnu. Á Íslandi á 18. og 19. öld voru engir ofnar til að baka brauð í og því var hverahitinn kærkominn búbót. Hverabrauð eru þekkt hér á landi um allnokkrun tíma. Í stað þess að láta brauðið bakast í potti umvafinn hlóðarösku var hverahitinn notaður til bakstursins.
Brauðstígurinn er vel greinilegur og hefur greinilega verið mikið genginn. Hann liggur út frá Árnastíg skammt sunnan við suðvesturhorn Sundvörðuhrauns. Stígamótin eru merkt með vörðu og frá henni sést Brauðstígurinn liggja inn í hraunið til vesturs. Honum var fylgt framhjá þyrpingu lítilla byrgja í kvos undir hraunkantinum, en ekki er með fullu ljóst hvaða hlutverki þeim var ætlað.

Tyrkjabyrgi

„Tyrkjabyrgi“.

Menn hafa furðað sig á því hversu lítil þau eru, hvert fyrir sig. Sumir segja að þau hafi átt að notast ef Tyrkirnir létu sjá sig á ný við Grindavík, aðrir að þar gætu útilegumenn hafa búið. Enn ein kenningin er sú að þarna gætu Grindvíkingar hafa bakað sín brauð fyrrum, enda yfirborðsjarðhitinn þá verið mun virkari en nú er. Ljóst er að hann hefur farið dvínandi í Eldvörpum og því skyldi hann ekki hafa gert það annars staðar á svæðinu?

Brauðstígur

Gengið um Brauðstíg í Eldvörpum.

Brauðstígnum var fylgt áfram inn á Sundvörðuhraunið og yfir að Eldvörpum. Þar var farið í helli, sem fyrir eru hleðslur í. Enn er nokkur hiti í hellinum, en þó ólíkt því sem var fyrir einungis nokkrum árum síðan. Þá sást varla handaskil fyrir gufu, en nú fer lítið fyrir henni. Ekki er ólíklegt að ætla að þarna hafi Grindvíkingar (Staðhverfingar) bakað sín brauð fyrrum.
Til baka var gengið út á Prestastíg og honum fylgt niður að Húsatóftum.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.

Heimild m.a.:
-http://www.akmus.is/frodleiksmolar.htm

Árnastígur

Mót Árnastígs og Skipsstígs.

Tag Archive for: Prestastígur