Í Sögu Hafnarfjarðar má lesa um tilraunir til rafmagnsframleiðslu í Krýsuvík sem og virkjun jarðvarma til húshitunar á miðri síðustu öld, eða stuttu eftir að bærinn fékk hluta Krýsuvíkurlands eftir að íslenska ríkið tók það eignarnámi 1941.
„Bæjaryfirvöld í Hafnarfirði hófust handa um að láta kanna, hvort unnt yrði að nýta gufuna í Krýsuvík til rafmagnsframleiðslu og ráða þannig bót á þeim annmörkum, sem voru í rafmagnsmálum Hafnfirðinga. Ef vel tækist til, stóðu vonir til þess, að unnt reyndist að ná þeim markmiðum, að sjá Hafnfirðingum fyrir nægri raforku án truflana og spennufalls og einnig rafmagni til stóriðnaðar, og síðast en ekki sízt, að koma upp rafmagnsveitu í bænum.
Haustin 1941 og 1942 voru boraðar þrjár holur í Krýsuvík, 90 m, 145 m og 132 m djúpar við suðurenda Kleifarvatns, og annaðist Rannsóknarráð ríkisins verkið að beiðni Hafnarfjarðarbæjar. Úr holum þessum fékkst hvorki heitt vatn né gufa, en hins vegar mældist töluverður hiti. Hlé var á borunum 1943 og 1944, en vorið 1944 ályktaði bæjarráð að fara þess á leit við ríkisstjórnina, að hún notaði heimild þá, er fólst í þingsályktunartillögu um rannsókn á jarðhitasvæðinu í Krýsuvík.
Haustið 1945 samþykkti bæjarstjórn hafnarfjarðar að hefja jarðboranir á ný í Krýsuvík á grundvelli áætlunar, sem Rafmagnseftirlit ríkisins hafði gert. Tilgangur jarðborananna var að rannsaka möguleika á virkjun jarðvarmans í Krýsuvík til raforkuframleiðslu og einnig að fá hita fyrir gróðurhús og íbúðarhús á staðnum. Í upphafi var notazt við lítinn tilraunabor, sem Jarðborunardeild ríksins átti, en með honum var einungis hægt að bora litlar holur. Árið 1946 festi Hafnarfjarðarbær kaup á stærri bor. Með þeim borunum var ljóst, að unnt var að fá geysimikla gufu í Krýsuvík.
Fyrstu árin gengu boranir erfiðlega vegna lítillar reynslu og hins sérstæða jarðvegs, sem bora þurfti. Sumarið 1949 fól bæjarstjórn rafveitustjóra að gera áætlun um kostnað við virkjun á gufu úr borholunum í Seltúni í Krýsuvík til að framleiða raforku, er fullnægði rafmagnsþörf Hafnarfjarðar og nágrennis. Í árslok 1951 var borunum í Krýsuvík svo langt komið, að í holunum voru um 60 tonn af gufu á klukkustund, sem samsvaraði um 7-8000 kw, ef alt væri virkjað. Áætlun var lögð fram um gufuaflsstöð. Bæjarráð samþykkti að óska þess við þingmann Hafnarfjarðar, að hann bæri fram á Alþingi frumvarp til laga um virkjun gufunnar í Krýsuvík. Tveimur dögum síðar, 5. des. 1951, flutti Emil Jónsson á Alþingi frumvarp til laga um virkjun jarðgufu í Krýsuvík. Frumvarpið dagaði upp, ekki síst vegna þess a á sama tíma var unnið að öðrum áfanga Sogsvirkjunar. Þar við bættist, að virkjun á borð við þá, sem fyrirhuguð var í Krýsuvík, var alger nýjung hér á landi og því vart við því að búast, að málið fengi brautargengi þegar í upphafi. Þar með lauk jarðborunum þeim, sem hófust að ráði í Krýsuvík 1945.
Hitaveita frá Krýsuvík komst aftur á dagskrá vorið 1955, en þá var stefnt að samstarfi Hafnarfjarðar og Reykjavíkurborgar um auknar jarðboranir og hagnýtingu gufuorku í Krýsuvík í því skyni fyrst og fremst, að þaðan yrði lögð hitaveita til Hafnarfjarðar og Reykjavíkur.
Síðla árs 1955 hófust viðræðu að frumkvæði Reykjavíkur um fyrirhugaða hitaveitu frá Krýsuvík. Viðræðum var haldið áfram á árinu 1956. Drög að samningi lá fyrir, en ákvörðun var frestar. Í maí 1957 gerði Reykjavíkurborg Hafnarfjarðarbæ tilboð um sameignafélag um virkjun jarðhitans í Krýsuvík. Skortur á nægilega stórvirkum jarðborum hamlaði afgreiðslu málsins.
Meðan á þessum viðræðum við Reykjavíkurborg stóð um heitaveitu í Krýsuvík, voru einnig kannaðir aðrir möguleikar á því að hagnýta jarðhitann þar. Árið 1955 voru gerðar athuganir á því í Krýsuvík á vegum saltvinnslunefndar, hvort unnt væri að nota gufuna þar til að framleiða salt.
Það var ekki fyrr en 1960, að hinn stórvirki jarðbor ríkisins og Reykjavíkurborgar hóf boranir í Krýsuvík. Árið 1963 var gerð grein fyrir þeim árangri, sem náðst hafði við boranir í Krýsuvík, og rannsóknum, sem var verið að gera í nágrenni Hafnarfjarðar í sambandi við jarðhita.
Árið 1964 varð sú stefnubreyting að horfið var frá því að halda áfram borunum í Krýsuvík, enda var ljóst, að hita veita frá krýsuvík krafðist víðtækra undirbúningsrannsókna.
Haustið 1969 gerði Hafnarfjarðarbær samning við Virkni h.f. um, að félagið gerði samanburðarkönnun á hitaveitu fyrir Hafnarfjörð, annars vegar með heitu vatni og hins vegar með rafmagni, frá jarðhitasvæðinu í Krýsuvík eða nágrenni hennar. Niðurstaðan varð sú að hraða skyldi viðræðum um hugsanlega samvinnu við reykjavíkurborg um nýtingu hins mikla jarðhitavatns á Reykjasvæðinu í Mosfellssveit og kaupum á heitu vatni frá Hitaveitu Reykjavíkur. Í nóvember 1971 hófust formelgar viðræður milli Hafnarfjarðarbæjar og Reykjavíkurborgar um hugsanleg kaup á heitu vatni frá Hitaveitu Reykjavíkur til að hita upp hús í Hafnarfirði. Það var samþykkt á fundi bæjarstjórnar 18. okt. 1972.“
Á ferð FERLIRs um fyrrum sögusvið jarðborana til raforku- og hitaveituöflunar í Krýsuvík kom í ljós að ein borholan, sem steypt hafði verið yfir, hafði látið á sér kræla; sprengt af sér byrðinginn og af óhljóðum að dæma undir niðri, virtist til alls líkleg. Skammt frá var önnur borhola þangað til fyrir áratug síðan, en þá sprakk hún í loft upp með tilheyrandi afleiðingum. Líklegt má telja að hinar borholurnar sex láti einnig að sér kveða í náinni framtíð, verði ekkert að gert.
Þess má geta að fyrrum borholusvæðið í Krýsuvík er nú eitt vinsælasta ferðamannaaðdráttarafl hér á landi.
Þrjár ástæður eru fyrir að ekki er enn búið að virkja í Krýsuvík; andvararleysi bæjarfulltrúa, takmörkuð tæknikunnátta fyrrum og frumkvæði annarra á virkjun jarðvarmans utan Krýsuvíkur.
Heimild:
-Ásgeir Guðmundsson, Saga Hafnarfjarðar 1908-1983, II. bindi, Skuggsjá 1983, bls. 31-43.