Færslur

Gjár

Ratleikur Hafnarfjarðar er nú haldinn í 12. sinn. Fróðleiksmolunum er ætlað að auðvelda leitina og veita nánari upplýsingar um viðkomandi staði, þátttakendum til ánægju og yndisauka. Leitarstaðirnir eru nú, líkt og fyrrum, 27 talsins, og skiptast þeir jafnt niður á þrjá misþunga lausnarmöguleika.

Spjald við fyrsta tré sem plantað var í Gráhelluhraunsskógi1.  Skógrækt hófst í Gráhelluhrauni 27. maí 1947 en þar hafði verið girt af 7 ha spilda. Ingvar Gunnarsson þáverandi formaður Skógræktarfélags Hafnarfjarðar plantaði fyrstu plöntunni og stendur sú björk ennþá og hefur þar verið settur upp minningarskjöldur. Á spjaldi við hið háa tré stendur: “Fyrsta róðursetning Skógræktarfélags Hafnarfjarðar 27. maí 1947″. Spjaldið stendur undir grenitrénu, sem þá var plantað. Umleikis eru tvíburabræður þess og -systur. Skammt austar er húslaga steinn norðan við göngustíg. Á steininum er koparskjöldur að austanverðu. Á honum stendur: Guðmundarlundur – Guðmundur Þórarinsson kennari gróðursetti furulundinn”, en Guðmundur var einn ötulasti skógræktarmaður þess tíma og ber lundurinn honum fagurt vitni. Lausnarskiltið er örstutt frá.

Stóri-Skógarhvammur

Stóri-Skógarhvammur.

2.  Á 50 ára afmæli Skógræktarfélags Hafnarfjarðar var vígður nýr trjásýnislundur. Þessi lundur hefur stækkað til muna og geymir nú ýmsar fágætar trjáplöntur sem jafnvel finnast ekki annars staðar á landinu. Sumar hafa verið gefnar og aðrar hafa verið ræktaðar upp af fræjum fengnum á fræðsluferðum erlendis. Þar má m.a. finna baunatré.

3.  Efst á Beitarhúsahálsi, á svæði Skógræktarfélagsins eru leifar af kví (stekk) sem síðast var notuð frá bænum Ási en líklega áður frá Ófriðarstöðum (Jófríðarstöðum).
Kví (stekkur) í HúshöfðaÍ kvíum voru fráfæruær mjaltaðar fram á miðja 19. öld er slíku var að mestu hætt á Reykjanes[skaganum]. Kvíin er fremur lítil, en hleðslurnar sjást vel frá göngustíg um skógræktarsvæðið. Skammt austar undir Húshöfða eru einnig tóftir beitarhúss frá sama búsetutímabili. Austanvert við Hvaleyrarvatn eru svo leifar af selstöðum frá Ási (norðar) og Hvaleyri. Sunnan við vatnið er stekkur og uppi á Selhöfða eru leifar fjárborgar. Fleiri minjar má sjá á þessu svæði – ef að er gáð. (Þegar komið er inn á svæði áhugavert “á annað borð” er ástæðulaust að flýta sér á brott).

Bláberjahryggur

Lóuhreiður á Bláberjahrygg.

4.  Norðan Vatnshlíðar og suðaustan Ásfjalls er misgengi sem nefnist Bláberjahryggur og sagt er að hryggurinn hafi verið blár af berjum á haustin. Byggðin teygir sig nú nálægt hryggnum og lúpína hylur stóran hluta hans. Væntanlegur Ofanbyggðavegur mun liggja á þessum slóðum og þar eru nú tvær háspennulínur.

5.  Vatnshlíð er ofan Hvaleyrarvatns, að miklu leyti vaxin lúpínu og kjarri. Þar er útsýni fagurt og verðugt að virða fyrir sér framkvæmdir í og austan við Dalinn vestan hlíðarinnar. Fyrstu lúpínunum í landi Hafnarfjarðar var plantað í hlíðum Vatnshlíðar, norðan Hvaleyrarvatns, um 1960 og þar uxu upp bláar blómabreiður sem nú má sjá svo víða í bæjarlandinu.

Trönur

Trönur – fiskþurrkun.

6.  Fiskþurrkun á trönum er enn stunduð í hraununum snemmsumars. Margar af eldri trönunum eru nú óðum að verða fúa að bráð, en einnig má sjá aðrar nýlega upp settar. Nú er mest þurrkað af hausum og beinagörðum fiska sem hafa verið flakaðir en í þeim leynast enn mikil næringarefni. Í Hafnarfirði var fiskur áður þurrkaður á fiskreitum, þá að jafnaði útflattur. Á fisktrönum var fiskurinn hengdur upp og búin til skreið sem var eftirsótt, sérstaklega í ýmsum Afríkuríkjum.

Gjár7.  Árið 1980 var fyrstu landnemaspildunum úthlutað til skógræktarfólks, fyrst til skólanna og ýmissa hópa en síðan til einstaklinga. Margar ára vinna fór í súginn í norðanverðu Langholti nærri Selhöfða er kveikt var í sinu í vor sem breiddist hratt út. Víða er að vaxa upp fallegur skógur og eftir ákveðinn tíma láta landnemarnir spildurnar af hendi og fagna góðu verki sem komandi kynslóðir njóta góðs af.

Gjár

Kaldárhraun og Gjár – friðlýsing.

8. Gjárnar nefnist sérstætt svæði vestan Kaldársels með fjölbreytilegu hraunlandslagi sem er friðað náttúruverndarsvæði. Uppruni hraunsins er í Búrfellsgíg sem er í 1-2 km fjarlægð en það er talið vera í kringum 7200 ára gamalt. Frá gígnum rann mikil hraunbreiða niður í Hafnarfjörð og Skerjafjörð og er heildarflatarmálið u.þ.b. 18 ferkílómetrar. Í einum krika Gjánna var sumarbústaður, sem nú sjást einungis leifarnar af. Hleðslur eru við enda krikans. Inni í honum er eldri stekkur undir klettavegg.

9.  Í eldgosi, sem líklega varð á tólftu öld, rann hraunspýja með Kaldárbotnum og nam staðar neðan Kaldársels.
Hraunið sem var þunnfljótandi fyllti í allar lægðir á leið sinni og storkanði án þess að í því myndaðist kólnunarsprungur og gjótur.
KaldáÞegar grunnvatnsborð í Kaldárbotnum lækkar niður fyrir efri brún hraunsins hverfur Kaldá. Þegar mest er í ánni rennur hún að hraunbrúninni skammt vestan Kaldársels þar sem hún fer hindrunarlaust undir það á tveimur stöðum – og kemur aftur undan því við Straumsvík.

10. Milli Syðra- og Nyrðra Klifholts eru nokkrar landnemaspildur í umsjá félagahópa, þ.m.t. Rótatýklúbbs Hafnarfjarðar þar sem félagar klúbbsins ásamt Innerwheel konum hafa plantað árlega í rúma tvo áratugi. Þar eru borð og bekkir til áningar og unnið er að gerð göngustíga. Nýlega var settur upp minningarsteinn í skógarlundi um látna félaga.

Kerið

Kerið – gígur.

11. Kerin eru falleg náttúrufyrirbæri, hluti af gígaröð. Hægt er að ganga niður í nyrðri gíginn og um gat upp í þann syðri. Hann er kjörinn áningarstaður, enda skjólgóður með afbrigðum. Ofan við barma hans vex ein stærsta villta birkihrísla á Reykjanesskaganum, um 5-6 m há. Hið ágætasta útsýni er frá Kerunum suðvestur að Keili og Grænudyngju með Fjallið eina í forgrunni.

Stórhöfðastígur

12. Stórhöfðastígur liggur frá suðurhorni Stórhöfða, með norðanverðum hraunkanti Óbrinnishólabruna og til suðurs í gegnum Selhraun og áleiðis upp í Almenning austan við Brundtorfur. Þaðan virðist stígurinn óljós en með gaumgæfni má lesa sig eftir honum að Hraunhól norðan Fjallsins eina – og áfram upp með augljósu misgengi. Stígurinn liggur yfir það og síðan áfram upp með austanverðu fjallinu, upp á brúnir vestan Sandfells, milli Hrúfells og Hrútagjárdyngju og að gatnamótum Undirhlíðarvegar ofan Sandklofa. Stígurinn hefur nú verið stikaður svo auðvelt er að fylgja honum alla leiðina.

Gjásel13. Gjásel er við svonefndar Gjár. Stekkur er norðan undir hraunhól sem selið stendur á og vatnsstæðið er í grónum hólnum vetsan við seltóftirnar. Líklega er þetta fornt sel frá Þorbjarnarstöðum. Um er að ræða dæmigerða selstöðu á Reykjanesskaganum, sem eru um 250 talsins; baðstofa og búr með utanáliggjandi eldhúsi. Við selin eru jafnan stekkur, vatnsból og nátthagi auk fjárskjóls. Gránuskúti er svolítið vestan við selið, með fallegum niðurhleðslum við ganginn.

Rauðamelsrétt

Rauðamelsrétt.

14. Skammt vestan við Rauðamelskletta er víð hraunsprunga, gróin í botninn. Í henni er heilleg há fyrirhleðsla. Þarna hefur annað hvort verið nátthagi eð gerði. Skammt suðaustan sprungunnar er fallegt, nokkuð stórt skjól með op mót norðvestri. Skammt suður þaðan í Brunabrúninni var Þorbjarnarstaðarétt eða Vorréttin, einnig nefnd Rauðamelsrétt, þótt hún væri drúgan spöl frá melnum. Í réttinni eru tveir dilkar auk almennings.

Gvendarbrunnur15.  Gvendarbrunnur er á mörkum landa Straums og Óttarsstaða við Alfaraleið, hina gömlu þjóðleið milli Innnesja og Útnesja. Líklega hefur brunnurinn verið klappaður í slétta hraunhelluna vegna þess að þar er ekkert annað vatn að hafa í hraununum. Vatnið úr Gvendarbrunnum var talið sérstaklega heilsusamlegt.

16. Óttarsstaðafjárborgin er heilleg. Hún hefur einnig verið nefn Kristrúnarborg eftir samnefndri konu sem var Sveinsdóttir og bjó á Óttarsstöðum á seinni hluta 19. aldar. Kristrún mun hafa haft forgöngu um að láta hlaða fjárborgina um 1870 eftir að fé var skorið niður víða um land. Önnur heilleg fjárborg, Borgin (Þorbjarnarstaðaborgin) er ekki mjög langt frá. Fjárborgir voru algeng skjól fyrr á öldum. Enn má sjá leifar af a.m.k. 70 slíkum á Reykjanesskaganum.

Lónakot

Lónakot.

17. Í Örnefnalýsingu fyrir Lónakot segir: “Eins og segir í landamerkjalýsingu Lónakost og Óttarsstaða, liggur landamerkjalínan úr Sjónarhól í Vörðu eða Klett austan til við Lónakotssel. Þar höfðu í seli auk Lónakotsbónda hjáleigumenn frá Óttarsstöðum. Enda eru þarna þrjár seljatættur. Selið liggur rétt austan við Skorás, sem af þessum ástæðum er nefndur Lónakotsselshæð.” Tætturnar eru reyndar fjórar. Við selið má finna dæmigerð mannvirki selstöðunnar allt frá landnámi til vorra fyrrum upphafsára; stekki, fjárskjól, brunn og nátthaga.

Langeyri

Leifar lifrabræðslu vestan Gönguhóls.

18. Malir er samnefni malarkampanna sem voru víða milli hraunkletta við norðanverðan Hafnarfjörð. Krosseyri var við gamla hafnargarðinn en utar sjást Langeyrarmalir og Litlu-Langeyrarmalir undan Brúsastöðum. Skerseyrarmalir liggja milli Brúsastaða og Balaklappar en Skerseyri var hjáleiga og tilheyrði kirkjustaðnum Görðum sem átti þar eldiviðarítak. Landamerkjavarða er ofan Skerseyrar, nú að mestu fallin. Merkið er stutt frá vörðunni.

Stifnishólar

19. Stifnishólar. Gamli Brúastaðabærinn nefndist upphaflega Litla-Langeyri og ofar í landinu stendur nýbýlið Brúsastaðir 2. Búið er að endurbyggja og stækka gamla bæinn við Litlu-Langeyrarmalir, en neðan hans ganga hraundrangar í sjó fram, sem sjórinn hefur brotið á síðsutu áratugum. Nefnast þeir Stifnishólar og segir sagan að þar hafi verið kveðinn niður draugur um 1800.

20. Þvottaklettar eru í fjörunni utan við golfvöllinn í Hvaleyrarhrauni. Undan klettunum rennur tært vatn sem notað var til þvotta á meðan búið var á Hvaleyri. Meðfram fjörunni er göngustígur og þarna má sjá brimskafla berja klettana, sennilega eitt fallegasta brimsvæði á Stór-Hafnarfjarðarsvæðinu.

Lambagjá21. Lambagjáin, sem reyndar er hrauntröð, er bæði löng og breið. Til marks um mikilfengleik hennar má geta þess að hún er nú friðlýst sem náttúruvætti. Áberandi mannvirki liggur þvert á Lambagjá vestarlega og er allnokkuð hátt. Þetta eru leifar af undirhleðslu fyrsta vatnsstokksins sem var lagður úr Kaldárbotnum um 1918. Vatninu var fleytt í opnum tréstokk að suðurenda Sléttuhlíðar þar sem það rann fram af brúninni og hripaði ofan í hraunið en kom upp í Lækjarbotnum.

Valaból

Valaból.

22. Í Valabóli hafa Farfuglar helgað sér stað. Þar hafa þeir hlúð að gróðri, sáð grasfræi og gróðursett tré. Innan girðingarinnar er Músarhellir, gamall næturstaður gangamanna, rjúpnaskyttna og ferðamanna fyrr á tímum. Á seinni árum hafa skátar nýtt sér athvarfið. Farfuglarnir höfðu sett hurð fyrir hellinn og lagfært margt þar inni, enda hafa þeir oft gist þar í hópferðum sínum. Nú er hurðin horfin, en hellirinn er enn sem fyrr ferðalöngum gott skjól. Merkið er innan girðingar.

Valahnúkur23. Valahnúkar eru móbergshryggir norðan Helgafells sem líklega mynduðust við gos í sjó fyrir um 120 þúsund árum. Víða er þar úfið og efst á þeim eru drangar miklir sem sumir telja vera tröll sem þar hafi steinrunnið við sólarupprás, en aðrir segja að séu valirnir sem hnúkarnir beri nafn sitt af.

24. Riddari nefnist klettur ofarlega suðaustan í Helgarfelli en norðaustan hans má sjá gatklett hátt upp í hlíðinni.

Helgafell

Riddarinn á Helgafelli.

Riddari átti sér tvo bræður, hraunkletta við Stóra-Lambhaga sem voru mið af sjó, á austanverðri Brunabrúninni skammt ofan við Straumsvík en þeir hafa verið eyðilagðir. Merkið er hins vegar austan við Helgafelli, ofan við nokkra stóra móbergssteina.

Slysadalur

Slysadalur.

25. Slysadalir. Útlendur ferðamaður var að koma frá Krýsuvík á 19. öldinni, hafði farið um Hvammahraun og Fagradal að vetrarlagi. Hin leiðin var um Helluna þarna vestan af, í austanverðum hlíðum Sveifluhálsins ofan við Kleifarvatn, en það mun hafa verið óvegur og ekki fyrir hesta. Vilpur voru í dalnum og voru þær ísi lagðar. Fór svo að maðurinn missti tvo hesta sinna niður um ísinn, en mannskaði varð enginn.

Gvendarselshæð

26. Gvendarsel. Gömul gata liggur frá Kaldárseli um Kúadal og Kýrskarð, upp með norðanverðri Gvendarselshæð og áfram til suðurs með henni austanverðri, um Slysadal, Leirdal og Fagradal. Selið er vestan í hæðinni, undir háum Klettavegg þar sem hann er hæstur. Klettur slútir þar fram og myndar þar á eina tóftina. Önnur tóft er skammt ofar undir veggnum. Á bak við og inn á milli er skarð í klettana og er hleðsla í enda þess. Vestan við selið er hlaðinn stekkur að hluta.

Stakur

27. Óbrinnishólahraun (-bruni) er með yngstu hraunum í Hafnarfirði og er að miklum hluta útfið kargahraun með samfelldri ráðandi mosaþembu. Óbrinnishólabruni á að hafa runnið 190 f.Kr. Í hrauninu er Stakur, blásinn malarhóll sem er vaxinn kjarri í hlíðum og allgróinn. Smalakofi frá Hvaleyrarbændum var á Stak og má sjá móta fyrir tóft hans enn í dag. [Í Lausnarblaði ratleiksins kemur fram að spjaldið sé “NA við hæðina”, en merkið er sýnt SA við hana, sem mun vera rétt staðsetning.]

GÓÐA FERÐ (munið að lausnin er yfirleitt nær en fjær).

Óttarsstaðaborg

Óttarsstaðaborg í Hraunum.