- Markraki er óbrennihólmi í Stóra-Bolla- og Tvíbollahrauni.
Norðaustast á honum er hornlandamarkavarða á mörkum Hafnarfjarðar og Garðabæjar.Þaðan liggur markalínan til norðurs um vörðu efst á Húsfelli.
- Markrakagil er gil í Undirhlíðum norðaustan Vatnsskarðs. Um það liggja landamerki Hafnarfjarðar og Krýsuvíkur. Áður höfðu mörkin legið um Vatnsskarð frá vörðu efst á Fjallinu eina. Markarki er eitt margra heita á ref.
- Húsfell er hæst 287 m.y.s. Um það liggja mörk Hafnarfjarðar og Garðabæjar. Frá því liggur línan áfram til norðurs um vörðu á Kolhól og áfram til norðurs um vörðu skammt ofan við Arnabæli á Hjöllum.
- Á Þormóðshöfða er varða; landamerki Hvaleyrar og Áss. Höfðarnir ofan Hvaleyrarvatns heita auk Húshöfða, Selhöfði, Stórhöfði, Þormóðshöfði (Langholt), Miðhöfði og Efstihöfði sem var allt eins nefndur Fremstihöfði.
- Landamerki Hvaleyrar voru um Fuglastapaþúfu[r]: úr hinum stóra steini í Hvaleyrartjörn, sunnanvert við Skiphól uppí Fuglastapaþúfur; uppeptir þaðan í Bleikistein, sem er í norðanverðum Bleikisteinshálsi, þaðan um Hvaleyrarselshöfða, Þormóðshöfða og Fremstahöfða upp í Steinhús.
Að ofanverðu (austanverðu): úr Steinhúsi suður í Melrakkagil (sem sumir nefna Markrakagil).
- Á Bleikisteini er markavarða Hvaleyrar og Áss. Ofar, á Bleikisteinshálsi, er markavarða í línu að Þormóðshöfða. Þessi varða er nokkrum metrum ofan við endimörk mikils jarðrasks utan í hálsinum.
- Á Fremstahöfða er varða, mark á landamerkjum Straums og Garðakirkjulands. Landamerkjabréf fyrir Hvaleyri var undirritað 7. júní 1890 og þinglýst tveimur dögum síðar. Samkvæmt því eru landamerkin svohljóðandi: Að norðanverðu: úr hinum stóra steini í Hvaleyrartjörn, sunnanvert við Skiphól upp í Fuglastapaþúfur; þær bera hvor í aðra; þaðan beina stefnu rjett fyrir sunnan Ásstekk; uppeptir þaðan í Bleikistein, sem er í norðanverðum Bleikisteinshálsi, þaðan um Hvaleyrarselshöfða, Þormóðshöfða og Fremstahöfða upp í Steinhús.
- Efst á Fjallinu eina er gömul markavarða milli Garðalands og Krýsuvíkur. Síðar var línunni breytt og færð svolítið norðar; dregin frá Markhelluhól í Markrakagil, þannig að fjallið féll þá innan marka Krýsuvíkur.
- Hádegishóll er eyktarmark frá Hraunsholti. Hann er nú á mörkum Hafnarfjarðar og Garðabæjar.
Þann 30. ágúst 1913 seldi landssjóður Hafnarfjarðarkaupstað eign Garðakirkju á kaupstaðasvæðinu og nokkurn hluta af öðru landi hennar; bein lína úr Balaklöpp við vesturnda Skerseyrar í veginn frá Hafnarfirði til Reykjavíkur (Engidal), um Hádegishól frá Hraunsholti. Sunnan undir hólnum var selstaða frá bænum.
- Miðaftanshóll er gamalt eyktarmark frá Vífilsstöðum, einnig nefndur Hagakotshóll.
Á hólnum er varða, núverandi landamerki Hafnarfjarðar og Garðabæjar. Sunnan undir Miðaftanshól eru hleðslur undir fyrirhugaða járnbraut, sem unnar voru í atvinnubótavinnu og til stóð að leggja frá Hafnarfirði og yfir hraunið árið 1918. Brautin er svo til bein í gegnum hraunið, rétt áður en komið er yfir austurbrún þess.
- Um Markahól liggur markalínan milli Straums og Óttarsstaða skv. landamerkjabréfi fyrir Straum, sem var undirritað 31. maí 1890 og þinglýst 9. júní sama ár.
Samkvæmt því eru landamerkin svohljóðandi: Landamerki milli Straums og Óttarstaða, byrja við sjó á Vatnaskersklöpp, yfir miðjan Markhól og þaðan beint í Stóra – Nónhól; frá Nónhól, í Gvendarbrunn;….
- Stóri-Nónhóll er eyktarmark frá Straumi (kl. 15:00). Hann er jafnframt á landamerkum Straums og Óttarsstaða.
- Klofaklettur er á mörkum Straums og Óttarsstaða. Skv. Gömlum heimildum átti að vera klappað á hólinn stafirnir „Ótta.“, „Str.“ og „varða hlaðin hjá. Ekki er hægt að greina þessa áletrun lengur, en varðan sést enn skammt frá klettinum.
- Markhelluhóll (einnig nefndur Markhóll í heimildum) er á mörkum Straums, Krýsuvíkur og Óttarsstaða. Á helluna eru klappaðir stafirnir „ÓTTA“, „STR“, „KRYSU“.
- Steinhús (einning nefnt Steinhes) er náttúrulegt „hús“ á landamerkjum Hvaleyrar og Garða.
Í eiginhandarbréfi séra Árna Helgasonar í Görðum til sýslumanns, dags. í Görðum 1848, segir m.a. um mörkin: „Á sydri hraunbrúnina hjá Nordurhellrum og so sudur eptir Smillubúdar hraunsjadri og I midjan Kjötshellir og so hraunid allt fram ad Steinhusinu, og so beint ur steinhusinu og upp sydri Kaldárbotna; þadan, og allt Helgafell, I Markraka, úr Markraka og í Daudadali úr Daudadölum og í Strandartorfu, úr Strandartorfu rettsýnis í Húsfell, so úr Husfelli og I Hnífhól úr Hnífhól og heim í Arnarbæli“.
- Um Moldarkrika liggja gömul hornmörk Hvaleyrar og Jófríðastaðar (Ófriðarstaðar) og Hamarskots (Garðakirkjulands). Hamarskot nýtti sér um tíma hrístöku í Gráhelluhrauni í óþökk Garðaprests, auk selstöðu efst í hrauninu.
- Varða (Markavarða) á Balaklöpp er landamerki Hafnarfjarðar og Garða frá árinu 1913 er landssjóður seldi Hafnarfjarðarkaupstað hluta kirkjujarðarinnar.
Úr vörðunni er sjónhending í vörðu aftan (suðvestan) við Hrafnistu. Björn Árnason, bæjarverkfræðingur, fékk verkamenn til að ganga á allar markavörðurnar utan og ofan Hafnarfjarðar árið 1960 og steypa á milli steinanna svo þær varðveittust betur. Þetta var fyrir tíma GPS-tækninnar.
- Selshellir er tvískiptur; annars vegar er Setbergsfjárhellir og hins vegar Hamarskotsfjárhellir. Landamerkin liggja um miðjan hellinn, eins og sjá má á landamerkjavörðunni ofan og skammt austan hans. Fyrirhleðsla í miðjum hellinum aðskilur selstöðurnar. Stekkur Hamarkotssels er rétt sunnan við hrauntröðina, sem hellirinn er í, og stekkur Setbergssels er norðan við hana. Hér er greinilega um dæmigerðar heimaselstöður að ræða, þ.e. þær eru tiltölulega skammt frá bæjunum.
- Einn krosstapanna ofan við Lónakotssel er í heimildum nefndur Hraunkrosstapi. Um hann liggja landamerki Lónakots og Óttarsstaða; þ.e. l andamerki að sunnan, talið frá Óttarsstöðum; úr Markaviki að fyrir innan Grunnfót, þaðan beina línu um stein og upp í Krossstapa þaðan að Krýsuvíkurlandi um Mark[hellu]hól.
- Hádegishóll er eyktarmark frá Vífilsstöðum. Í örnefnaskrá fyrir Urriðakot er hann nefndur Dyngjuhóll. Urriðakotsfjárhellar (Maríuhellar) og Vífilsstaðafjárhellir eru skammt norðan við hólinn.
- Stórikrókur er neðan við Stórakrókshól (hraunhóll).
Hóllinn var landamerki milli Setbergs og Urriðakots. Um krókinn lá Stórakróksstígur [-gata]. Um hann fór Urriðakotsfólkið um Hafnarfjarðarhraun að Garðakirkju.
- Um Miðkrosstapa liggja mörk Óttarsstaða og Hvassahrauns. Þangað náðu einnig norðausturmörk Lónakots. Krossstaparnir eru tilkomumikil náttúrusmíð.
- Sjónarhóll (Stóri Grænhóll) eru á mörkum Lónakots og Hvassahrauns. Landamerki milli Óttarstaða og Lónakots – Landamerkjabréf fyrir Lónakot var undirritað 7. júní 1890 og því þinglýst 9. júní sama ár. Samkvæmt því eru landamerkin svohljóðandi: Að vestanverðu, milli Lónakots og Hvassahrauns eru landamerki sem hjer segir:
Landamerki þau byrja við sjó í svonefndum Markakletti, austanvert við Hraunsnes, úr honum í Skógarhól, úr Skógarhól í Stóra – Grænhól, úr Stóra – Grænhól í Hólbrunnsvörðu; úr Hólbrunnsvörðu í Skorásvörðu; úr Skorásvörðu í mið – Krossstapa, sem er hornmark á Lónakotslandi.
- Á Hádegisholti, einnig nefnt Flóðahjalli og Flóðaháls, er varða, Hádegisvarða; eyktarmark frá Urriðakoti.
- Markasteinn (Markaklettur, Merkjasteinn) er neðarlega í suðaustast í Syðsta-Tjarnholti. Hann er stór klettur með grasþúfu upp á.
Steinninn er á mörkum Urriðakots, Garðakirkjulands og Setbergs.Í Markasteini átti að búa huldufólk.
- Miðmundarvarða er á Miðmundarhæð. Hún á skv. örnefnalýsingu að vera eyktarmark frá Þorbjarnarstöðum. Um vörðuna liggja mörk Straums og Þorbjarnarstaða fyrrum. Líklegra er þó að varðan hafi verið eyktarmark frá Straumi, ef örnefnið á að vera rétt. Af stefnunni að dæma frá Þorbjarnarstöðum væri réttnefni á henni „Miðdagsvarða“ og hæðin ætti þá að heita „Miðdagshæð“...
- Sílingarhella hefur einnig verið nefnd Silungahella.
Hún er á vesturmörkum Urriðakots gagnvart Setbergslandi. Ofan hennar er hár stakur hraunstandur. Skammt austan við mörkin er gömul rétt frá Urriðakoti, enda tanginn oft nefndur Réttartangi og einnig Mjöltangi.Þema Ratleiks Hafnarfjarðar að þessu sinni eru landamerki og eyktarmörk.