Tag Archive for: Ratleikur Hafnarfjarðar 2025

Ratleikur Hafnarfjarðar

Ratleikur Hafnarfjarðar er nú, árið 2025, haldinn í 29. sinn.

Leikurinn er, líkt og jafnan, bæði fjölbreyttur og skemmtilegur. Þemað að þessu sinni er Hnúkar, hamrar, höfðar, holt, hlíðar, hæðir og hólar í og ofan Hafnarfjarðar.

Guðni Gíslason

Guðni Gíslason.

Ómar Smári

Ómar Smári Ármannsson.

Guðni Gíslason, ritstjóri Fjarðarfrétta og forstjóri Hönnunarhússins, lagði út leikinn og hefur borið hita og þunga af tilurð hans. Ómar Smári Ármannsson, svæðisleiðsögumaður og fornleifafræðingur, tók saman lítillátlega fróðleiksmola um einstaka staði leiksins.
Lykillinn að leiknum, Ratleikskortin, liggja frammi, án endurgjalds, á eftirtöldum stöðum: Fjarðarkaupum, Bókasafni Hafnarfjarðar, Ráðhúsinu, Bensínstöðvum N1, Suðurbæjarlaug, Ásvallalaug, Sundhöll Hafnarfjarðar og víðar. Guðni lofar góðum verðlaunum þeim er verðskulda.

Ratleikur 2025

Ratleikjakortið 2025.

Ef einhver vill hins vegar koma einhverjum athugasemdum á framfæri er rétt að sá/sú snúi sér til Valdimars Víðissonar bæjarstjóra í Hafnarfirði. Hann þekkir væntanlega hverja þúfu í umdæminu!

Öllum bæjar- og varabæjarfulltrúunum, sem og öllu starfsfólki bæjarins hefur verið boðið sérstaklega að taka þátt í ratleiknum í ár. Virk þátttaka þeirra er vissulega gott fordæmi fyrir aðra bæjarbúa er búa í bæ er gefur sig út fyrir markvissa lýðheilsu og hollustu.

Þess má geta að veglegir verðlaunamöguleikarnir eru í boði fyrir alla/öll er skila inn réttum lausum fyrir lok leiksins um og eftir miðjan septembermánuð.

Ferðist og fræðist með Ratleiknum og njótið um leið fjölbreytilegra dásemda bæjarlandsins.

Hér má lesa fróðleik Ratleiksins að þessu sinni:

1.    Hæðin / Ljósaklif

Í Örnefnalýsingu Guðlaugs Rúnars Guðmundssonar fyrir Hafnarfjarðarland segir:

Ljósaklif

Ljósaklif.

„Ljósaklif er klettaklif í suðausturenda hæðarinnar (Hæðarinnar með klifinu) ofan samnefnds húss, neðan Garðavegar, vestan Herjólfsgötu sem ofan Garðavegar nefnist Herjólfsbraut. Þröngt skarð milli kletta, vel manngengt þó, grasi vaxið í botni. Er í suðaustasta klettinum á Hæðinni. Upp á Hæðinni vestanverðri eru leifar skotgrafa (lagfærðar hraunsprungur) og vígi frá hernámsárunum. Þar sást ljós er skyggja tók. Þetta er haft eftir Þórði Eyjólfssyni á Brúsastöðum er sagði Benedikt í Ljósaklifi þegar hann var að byggja nefnt  hús sitt.“
Milli Brúsastaða og Hrafnistu liggur lokaður vegstubbur að sökkli Dalbæjar. Húsið var um stund í eigu Árna Gunnlaugssonar. Í því bjó m.a. Jökull Jakobsson, rithöfundur, uns hann lést af slysförum.

2.    Hádegishóll

Hádegishóll

Hádegishóll.

Klofhóll var vestan til við Fjarðargötu (norðvestan Fjarðarkaupa). Af hraunbrúninni úr Fjarðargötu lá Hraunsholtsselsstígur fram á hraunið.

Stöðulgjóta lá á hægri hönd eða vestan við Fjarðargötu. Langalaut aftur á móti austan við og lá inn eftir hrauninu. Flatahraun lá suður af Löngulaut, sem einnig nefndist Sléttahraun. Kolla var laut rétt við Bruna suður af Flatahrauni. Þá  var Stekkurinn í Stekkjarlautinni vestur af Fjarðargötu og Húfugjóta þar suður af. Þar suður af var svo Hádegishóll. Eyktarmark frá Hraunsholti og hornmark landa milli Hraunsholts, Garðahrepps og Hafnarfjarðar. Stórhóll lá suðaustur frá Hádegishól. Selstígurinn lá suður með Hádegishól í Hraunsholtssel (sem var fyrrum suðaustan við hólinn). Um hólinn liggja girðingarmörk jarðarinnar.

3.    Miðdegishóll / Miðaftanshóll

Miðdegishóll

Miðdegishóll.

Þegar leið á fyrri heimsstyrjöldina fór að gæta atvinnuleysis víða á landinu. Fiskveiðar og fiskverkun drógust saman þar sem erfiðleikum var bundið að koma aflanum í verð. Kuldar voru miklir en aldrei hafði annað eins frost komið og frostaveturinn mikla árið 1917-18. Nauðþurftir voru af skornum skammti og yfir vetrarmánuðina þegar kaldast var gengu fullhraustir karlmenn um göturnar í von um að geta snapað vinnu stund og stund.

Ríkisstjórnin ákvað haustið 1917 að veita sveitastjórnum dýrtíðarlán úr landsjóði til að ráðast í framkvæmdir svo að hægt væri að ráða atvinnulausa fjölskyldumenn í vinnu. Leggja átti t.d. nýjan veg frá Suðurlandsbraut við Sogamýri í Reykjavík að Lækjargötu í Hafnarfirði. Vegurinn átti að vera 7 metra breiður þannig að hægt væri að leggja járnbrautarteina á eystri hluta hans en vestari hlutinn var ætlaður almennri umferð ökutækja og reiðmanna.

Járnbrautarvegurinn

Upplýsingaskilti um Járnbrautarveginn.

Verkið hófst 1. febrúar 1918 og var skipt í tvennt. Hófust verkamenn handa í Sogamýri þennan dag en þeir áttu að leggja veginn suður að Nónhæð, en Hafnfirðingar sem byrjuðu saman dag áttu að leggja veginn frá landamerkjum Fífuhvamms og Arnarness við Nónskarð að Lækjargötu í Hafnarfirði.

Vinna hafnfirsku verkamannanna hófst við Miðaftanshól í Vífilsstaðahrauni, sem þá var aldrei kallað annað en Svínahraun.

Grjótið í vörðunni á Miðdegishól er fest saman með steinsteypu, líkt og í öðrum á fyrrum landamerkjum Hafnarfjarðar og Garðabæjar. Á henni stendur ártalið 1969. Björn Árnason, bæjarverkfræðingur í Hafnarfirði, lét þá styrkja landmerkjavörður bæjarins með steinsteypu.

4.    Hamarinn

Hafnarfjörður

Hamarinn (Hamarskotshamar).

Hamarinn, öðru nafni Hamarskotshamar (Austurhamar), í Hafnarfirði er ekki einungis náttúruvætti – í tvennum skilningi – heldur og stöndug fótfesta bæjarsamfélags við ofannefndan fjörð. Líkt gildir um uppverðaðan bróður hans; Setbergshamar (Þórsbergshamar).

Á þeim báðum eru eru jökulminjar, einkum þó á hinum fyrrnefnda, sem ætlunin er að lýsa hér á eftir, enda setur hann hvað mestan svip á miðbæ Hafnarfjarðar og nýtur vinsælda sem útivistarsvæði. Litlibróðir nefnist Vesturhamar, milli Strandgötu og Suðurgötu.

Hafnarfjörður

Hamarinn – jökulsorfnar klappir.

Fjölmargar álfasögur tengjast Hamarskotshamri, einu helsta kennileiti Hafnarfjarðarbæjar. Þar er sögð stærsta álfabyggðin í bænum og innan í Hamrinum á að vera álfahöll með glæstum sölum. Af þeirri ástæðu, sem og vegna eigin reisnar og ummerkja eftir síðasta ísaldarjökul, var talin þörf á að friðlýsa hann árið 1984. Af Hamrinum er hið ákjósanlegasta útsýni yfir miðhluta bæjarins sem og Hamarskotslækinn. Hamarinn dregur nafn sitt af Hamarskoti, sem var þarna á túninu milllum hans og núverandi Flensborgarskóla.

5.    Holtið

Holtið

Holtið.

Hamarinn skiptist fyrrum í Austurhamar og Vesturhamar. Sá fyrrnefndi er nú jafnan nefndur „Hamarinn í Hafnarfirði“ og sá síðarnefndi hefur einnig verið nefndur „Litlihamar“. Vélsmiðja Hafnarfjarðar var byggð undir Litlahamri. Sjórinn náði fyrrum upp að hamrinum svo illfært var fyrir umferð þar neðanvert, eða þangað til uppfylling var lögð undir veg. Áður fór nánast öll umferð um Illubrekku (Bröttubrekku) á Suðurgötu millum hamranna. Suður og ofan af Litlahamri er Jófríðarstaðaholt. Það náði allt að sunnanverðum Austurhamri.

Holtsgatan dregur nafn sitt af holtinu. Enn má sjá leifar þess á auðu svæði milli Holtsgötu, Hlíðarbrautar og Hringbrautar. Í holtinu má sjá jökulsorfin hvalbök. Í því er og umtalsverð álfabyggð.

Hafnarfjörður

Holtið – óröskuð álfabyggð.

Hnúkar, hamrar, höfðar, holt, hlíðar, hæðir og hólar í og ofan Hafnarfjarðar eru mótuð af ísaldarjöklinum, sem og hinum hefðbundnu roföflum. Ísöldinni lauk fyrir um 10.000 árum. Ekki var hún þó einn fimbulvetur, heldur skiptust á kuldaskeið og hlýskeið — hér á landi eru merki um einar 24 slíkar lotur, þar sem kuldaskeiðin kunna að hafa varað um 100.000 ár en hlýskeiðin mun skemur.

Auðvelt er að komast að Holtinu frá Hlíðarbraut um göngustíg við hús nr. 5.

6.    Ófriðarstaðaholt (Jófríðarstaðaholt)

Jófríðastaðir

Jófríðarstaðaholt.

Bærinn Jófríðarstaðir suður á Hamrinum hét áður Ófriðarstaðir, nefndur í heimildum frá 1595 sem sérstakur bær og var þá konungsjörð. Er talið að nafnið Ófriðarstaðir hafi komið til eftir bardaga milli enskra kaupmanna og Hansakaupmanna um yfirráð mikilvægrar verslunar í Hafnarfirði.

Árið 1816 er þetta land, allt sunnan frá Bruna (Hafnarfjarðarmegin við Straum) og allt vestur að Fiskakletti í Hafnarfirði komið í eigu Bjarna riddara Sívertsens, en Bjarni keypti jörðina árið 1804.

Jófríðarstaðir eru á Jófríðarstaðaholti. Á árunum 1921 og 1922 keypti Kaþólska trúboðið á Íslandi jörðina Jófríðarstaði. Jófríðarstaðir voru ein af þeim fjórum bújörðum sem Hafnarfjarðarkaupstaður stóð á.  Örnefnaskráning Hafnarfjarðar fyrrum var grundvölluð á jörðinni. Hinar voru Akurgerði, Hamarskot og Hvaleyri.

Jófríðarstaðir

Jófríðarstaðaholt.

St. Jósefsskirkja, sem vígð var 3. júlí 1993, stendur rétt við efsta hluta Jófríðarstaða en töluvert graslendi er í kringum kirkjuna. Hugmyndir voru uppi fyrir all nokkrum árum að byggja á túninu en mikil andmæli íbúa urðu til þess að svo varð ekki – að sinni.

Á Ófriðarstaðahól efst á holtinu var mikil huldufólkstrú, og klettum og klöppum í kringum hann. Brekkan suður og niður frá hólnum nefndist Kinn, allt niður að Suðurtröðum, sem enn sér merki  niður með traðagörðunum.

Víðsýnt er yfir Hafnarfjörð frá Jófríðarstaðaholtinu. Margar yfirlitsmyndir af bænum fyrrum voru teknar af holtinu.

7.    Hvaleyrarholt

Hvaleyri

Hvaleyri – Heiðarbrunnur.

Í suður frá Hvaleyri sunnan túngarðs, ofurlítið uppi í holtinu, er lind, sem heitir Heiðarbrunnur. Upp á háholtinu voru nefndir Hjallar. Þangað var fiskurinn borinn til þurrkunar. Innar á holtinu var Fuglastapaþúfa nyrðri, landamerki Hvaleyrarlands í fjörunni við Hvaleyrarlón. Hún lenti í uppfyllingu Olíufélagsins. Hærra í holtinu var, og er,  Fuglstapaþúfa syðri. Umleikis hana má sjá jökulssorfnar grágrýtisklappir. Þar rétt sunnar, handan vegar og Þorgeirsstaða, eru Leirdalir.  Um þúfuna syðri lágu hornmörk Hvaleyrar, Áss, Jófriðarstaða, Óseyrar og Ásbúðar.

Heiðarbrunnur var gott vatnsstæði en þraut bæði í frostum á vetrum og þurrkum á sumrum. Úr brunni þessum var um 1930 lögð vatnsveita heim í Hjörtskot og þraut þá aldrei vatn (G.S.).

Hvaleyri

Skotgrafir ofan Hvaleyrar.

Neðan undir Heiðarbrunni í Hvaleyrarholti var Sædýrasafn Hafnarfjarðar, nú golfvallaflatir. Ofan við brunninn er Flókavarða. Íbúar í Sveio í Noregi  reistu vörðuna til minningar um Flóka og komu hans í Hafnarfjörð og færðu Hafnfirðingum að gjöf. Varðan er nákvæm eftirmynd af samskonar minnismerki sem þeir hafa áður reist í Ryvarden í Noregi, staðnum þar sem Flóki lagði af stað í landnámsleiðangur sinn. Þótt sá leiðangur mistækist varð hann þó til að gefa Íslandi það nafn sem það hefur borðið síðan. Vestan við Heiðarbrunn eru leifar af skotkröf bandamanna, en þeir reistu braggabyggð sína á Hvaleyrartanganum á stríðsárunum.

8. Setbergshamrar / Þórsbergshamar

Setbergshamar

Setbergshamar.

Setbergshamrar, norðan við Setbergsbæinn eru nefndir tveir hamrar í örnefnalýsingu eftir Gísla Sigurðsson, Setbergshamarinn eystri og Setbergshamarinn litli. Þar segir: „Setbergshamrar skiptast í Setbergshamar nyrðri og Setbergshamar syðri (Setbergshamar stóri og Setbergshamar minni). Þá eru þeir einnig nefndir Setbergshamar efri og Setbergshamar neðri, og er þá átt við klettana, sem Þórsberg stendur á og Ásberg stendur neðan undir.“

Á hömrunum eru stríðsminjar; þrjú skotbyrgi o.fl. auk steypts landamerkjastöpuls með koparskildi (sem stolið var af óánægðum landeiganda með landaskiptin millum Hafnfirðinga og Garðbæinga).

9. Setbergsholt / Setbergshlíð /Fjárhúsholt

Setbergsholt

Setbergsholt.

Setbergsholt er allt holtið kallað vestan frá hömrunum og austur eða suður um að Þverhlíð.

Upp frá fjárhúsinu (nú horfið) var Fjárhúsholt og þar efst á holtinu Nónklettar, en þeir voru eyktamark frá Urriðakoti. Ekkert annað nafn var á sunnanverðu Setbergsholti.

Selvogsgatan liggur áfram suður frá Svínholti að Setbergshlíð sunnan Setbergsholts, ýmist við hlíðina eða út á hrauninu,  þar til kemur að Háanefi innst á hlíðinni, og héðan liggur gatan í selin. Þessi staður, Setbergssel,  er  reyndar einnig kallaður Kethellir, Kjöthellir og Selhellir.

Fjárhúsholt

Fjárhúsholt.

Landamerkjalínan liggur í Markavörðu á Selhellinum, því undir vörðunni er nefndur hellir. Honum mun hafa verið skipt milli Setbergs og Hamarskots. Kethellirinn liggur  örlítið hærra. Hér er líka að finna seljarústir; gerði og stekk. Meira er hér um rústir.

Kershellir  er jarðfall, átta metrar að ummáli, nær hringlaga. Hann er stór og rúmgóður, hátt undir loft. Austur og upp úr honum er afhellir, nefnist hann Hvatshellir.

Auðveldast er að nálgast merkið frá bílastæði við enda Klukkubergs.

10. Ásholt

Ás

Lambhúshóll.

Neðan við Ás voru Börð og Ásmelar, nú gróin tún. Þau lágu austan og ofan frá Ásholti (þar sem nú er leikskólinn Stekkjarás), en ofar og norðar voru fyrrum garðlönd Hafnfirðinga (nú Áslandshverfi). Ásvegur lá frá Norðurtröðum Áss norður um Ásleiti og yfir á Háaleiti, síðan áfram norður að Ófriðarstaðatúngarði.

Suðurtraðir lágu um Suðurtraðarhlið áleiðis að Hádegisskarði. Við þær var lambúsið undir Lambhúshól, jökulsorfnu bergstáli.

Ás

Ás – plógur neðan við gamla bæjarstæðið.

Vestur á melunum var hringlaga gerði nefnt Kringla. Vestar var svo býli, þurrabúð, nefndist það Stekkurinn, Ásstekkur, Vindás og Vindásstekkur.  Honum fylgdi Stekkstúnið umgirt Stekkstúngörðum, vesturtúngarður, suðurtúngarður, austurtúngarður og norðurtúngarður. Þar sem saman komu norður- og vesturtúngarður, var norðurhlið. Þaðan lá Stekksgata niður að Brandsbæ og áfram niður til Fjarðar. Suðurhlið var neðarlega á mótum vestur- og suðurtúngarðs. Lindargatan lá heiman frá Stekksbæ austur um austurgarðshlið  austur að Lindinni. Brunngatan var löng frá Stekk og austur.

11. Grísanesháls

Grísanes

Grísanes.

Ásflatir voru þar sem nú er byggðin í Hamranesi sunnan Skarðshlíðahverfis. Flatirnar voru einnig nefndar Hellisdalur og Dalurinn. Í honum var Grísanesfjárskjól, sem nú hefur verið eyðilagt sökum kæruleysis. Fram í hann rennur Grófarlækur ofan úr Grófunum. Þær liggja norðan við Bláberjahrygg, millum Ásfjalls og Vatnshlíðar. Stígur liggur um Ásflatir (Dalinn) vestur á Grísanesháls, en þar er Hrauntungustígur, sem þarna er að byrja. Landamerkjalínan liggur norður af Grísaneshálsi norður yfir Ástjörn, upp fyrir vestan Stekk í Fuglstapaþúfu syðri. Grísanesstígur liggur niður af hálsinum heim að suðurtraðarhliði Áss. Þaðan liggur hann á móti Skarðsstígurinn upp í svonefnt Skarð á Ásfjallsöxlinni vestari. Skarðsvarðan var þarna, sem einnig nefndist Hádegisvarða og Hádegisskarð, Skarðið. Vestan undir Grísanesi er tóftir fjárhúss frá Hvaleyri og rétt norðan hans er gömul rétt frá Ási. Á hálsinum eru einnig stríðsminjar, s.s. fjögur hlaðin skotbyrgi.

12. Bleiksteinsháls / Vatnshlíðarhnúkur

Bleiksteinsháls

Bleiksteinsháls.

Í örnefnalýsingunni (AG) fyrir Ás segir: “Svo er hár hnúkur syðst á fjalli, sem heitir Vatnshlíðarhnúkur. Vestur af honum hallar fjallinu niður og myndar þar háls, sem nær niður á Hamranesið fyrrnefnda og heitir Bliksteinsháls eða Bleiksteinaháls. Á honum er landamerkjavarða við tvo steina ljósa að lit, sem heita Bliksteinar (Bleiksteinar). Þeir eru í hálsinum norðanverðum og eru á merkjum móti Hvaleyri.” Nefnd markavarða hefur nýlega verið eyðilögð vegna framkvæmda.

Bleiksteinsháls

Bleiksteinsháls.

Ef hins vegar er skoðuð örnefnalýsing fyrir Hvaleyri segir um þetta: “”Línan móti Ási er á þessa leið: Úr Fuglstapaþúfum beina línu rétt fyrir sunnan Ásstekk í þúfu fyrir vestan skarð, sem er austast á Grísanesi, þaðan í Bleiksstein (svo) á Bleikisteinshálsi norðanverðum, þaðan um Hvaleyrarselshöfða (Selhöfða), svo um Þormóðshöfða og Fremstahöfða upp í Steinhús norðvestan Kaldársels. Þetta er norðausturhlið landsins, sú sem veit að Ási.”

13. Vatnshlíð / Hákon Bjarnason

Vatnshlíð - Rat

Vatnshlíð – Ratleikur.

Vorið 1956 fékk Hákon Bjarnason skógræktarstjóri nokkuð stóra landspildu afhenta í Vatnshlíð. Hann hófst von bráðar handa við að brjóta landið undir ræktun ásamt fjölskyldu sinni og vinum. Nokkrum árum seinna reisti hann sumarhús fyrir fjölskylduna á þessum reit og stendur það hús enn.

Hákon var merkur frumkvöðull og þegar hann hafði undirbúið ræktun í Vatnshlíð töldu félagar í Skógræktarfélaginu að rétt væri að hefjast handa við samskonar landbótarvinnu suðvestur af Beitarhúsahálsi. Sumarið 1957 var 32 hektara landspilda girt og hófst gróðursetning vorið 1958 í nánast örfoka hlíðinni. Rofabarðstorfur voru stungnar niður, áburður borinn á börðin og grasfræi sáð þar sem þurfa þótti. Með mikilli elju, þrautsegju og óbilandi trú á að hægt væri að græða landið tókst að breyta leirkenndum moldarflögum í gróskumikið gróðurlendi á löngum tíma.

14. Húshöfði / Værðarlundur

Húshöfði

Húshöfði – Værðarlundur.

Lionsklúbburinn Ásbjörn í Hafnarfirði lét útbúa reitinn og var verkið fjármagnað af Minningarsjóði Gísla S. Geirssonar, sem var félagi í klúbbnum og lést langt um aldur fram. Klúbburinn kostaði gerð bílastæðis, lagningu göngustígs upp á Húshöfðann, gerð áningarstaðar á höfðanum, kaup á bekkjum og fleira. Værðar-bílastæðið er við Kaldárselsveg ögn lengra til suðurs en aðkeyrslan  að gróðrastöðinni Þöll.

15. Selhöfði / Seldalur

Selhöfði

Selhöfði – stekkur.

Seldalur er suðvestur af Hvaleyrarvatni og umlukinn hálsum og höfðum. Selhöfði er norðan við dalinn og Stórhöfði suðvestan hans. Þar á milli er annarsvegar Seldalsháls og hins vegar ónefndur háls sem tengir saman Stórhöfða og Langholt.

Dalurinn var mjög illa farinn þegar Skógræktarfélagið tók hann til ræktunar árið 1990. Uppgræðsla dalsins var hluti af átaki Landgræðsluskóga sem hleypt var af stokkunum í tilefni af 60 ára afmæli Skógræktarfélags Íslands þetta sama ár. Seldalur leit ekkert sérstaklega vel út þegar ræktunarstarfið hófst.

Seldalur

Seldalur – stekkur.

Á vetrum safnaðist vatn í dalbotninn og leirkenndur jarðvegurinn var mjög rokgjarn á sumrin í mestu þurrkum. Meðlimir Skotveiðifélags Hafnarfjarðar höfðu verið með aðstöðu til skotæfinga í dalnum um frá 1968 til 1988 og þar var mikið magn af brotnum leirdúfum, höglum og örðu sem minnti á veru félagsmanna þar. Nú hefur dalbotninn verið græddur upp. Sunnan í Selhöfða eru leifar af stekk á grónum bala, sem bendir til að Seldalurinn hafi verið nýttur fyrr á árum.

16. Höfðarnir

Miðhöfði

Miðhöfðavarða.

Höfðarnir ofan Hvaleyrarvatns heita auk Húshöfða, Selhöfði, Stórhöfði, Miðhöfði og Efstihöfði sem var allt eins nefndur Fremstihöfði. Einn höfði til viðbótar var tilgreindur í gömlum skjölum og nefndur Þormóðshöfði. Hann heitir í dag einu nafni Langholt enda frekar um holt eða ás að ræða en eiginlegan höfða.

Nokkrir vegslóðar voru lagðir um Höfðana, landið reitað niður og deilt út til einstaklinga, fjölskyldna, félaga og fyrirtækja sem tóku land í fóstur árið 1980. Víða hafa vaxið upp fallegir trjálundir og gróðurinn sækir sífellt í sig veðrið þó sums staðar sé trjávöxturinn frekar stutt á veg kominn.

Miðhöfði

Miðhöfði og Kjóadalur.

Landsvæðin sem tekin voru í fóstur hafa notið landbótanna í ríkum mæli og hafa holtin skrýðst hægt en örugglega margvíslegum gróðri. Þar sem áður voru moldarflög og viðvarandi uppblástur er nánast órofin gróðurþekja.

Stikaður, þjappaður, göngustígur liggur að vörðunni á Miðhöfða, bæði frá Fremstahöfða og Skátalundarvegi.

17. Sléttuhlíð

Sléttuhlíð

Sléttuhlíð.

Í Hamri 1951 segir: „Byggðin í Sléttuhlíð 25 ára“: „Í upphafi fóru tveir bjartsýnir ungir menn upp í svokallaða Sléttuhlíð, sem er um klukkutíma gang frá Hafnarfirði. Þessir ungu menn voru Jón Gestur Vigfússon, verzlunarmaður og Magnús Böðvarsson, bakari. Vildu þeir leita til fjallanna með fjölskyldur sínar til þess að geta látið þær njóta útivistar og hressandi fjallalofts. Þeir fengu leyfi þáverandi forráðamanna bæjarins, til að byggja sumarskála í Sléttuhlíð, en þó með því skilyrði að ekki mætti girða, eða gera neitt fyrir þann blett sem þeim var úthlutaður.

Sléttuhlíð

Sléttuhlíð.

Fjáreigendur risu nú heldur betur upp á móti þessu og fannst víst þeirra kostir þrengdir til muna. En 12. júlí 1926, fluttu þeir Jón og Magnús þó með fjölskyldur sínar í nýjan skála, sem þeir höfðu byggt sér og nefndu hann Sléttuhlíð.

Undu þessar fjölskyldur kyrrðinni og fjallafegurðinni vel, þó margir væru örðugleikarnir í fyrstu, slæmur vegur, þar sem vegur var, en sums staðar fjárslóðir eingöngu. Vatnið þurfti að sækja að rennustokksendanum, sem var löng og erfið leið.

Sléttuhlíð

Sléttuhlíð – varða.

Jón Gestur og fjölskylda hans gerðu lóð sína að einhverjum fallegasta bletti í nágrenni Hafnarfjarðar, með ötulli árvekni og framúrskarandi áhuga á ræktun hlíðarinnar. Hefur hann hlynnt vel að þeim gróðri, sem fyrir var og plantað út ógrynni af plöntum af margs konar tegundum og er yndislegt að vera þarna uppfrá á fögrum sumardegi. En Jón hefur ekki verið einn í þessu starfi, hann á ágætis konu, frú Sesselju Magnúsdóttur, sem er ein af hinum kunnu Skuldarsystkinum hér í bæ. Hafa þau hjón lagt sinn stóra skerf, þjóðinni til handa í ýmsu fleiru en skógræktinni.“

Nú eru í Sléttuhlíðinni fjöldi bústaða þar sem fólk unir hag sínum vel – líkt og frumkvölarnir.

18. Klifsholt

Klifsholt

Varða á Klifsholti.

Sléttuhlíð og hluti Gráhelluhrauns tilheyrðu áður fyrr upplandi Hamarskots, sem var ein af hjáleigum kirkjustaðarins í Görðum. Sumarið 1945 fékk Jón Magnússon í Skuld úthlutað land við syðsta Klifsholt. Hann reisti þar bústað sinn sem hann nefndi Smalaskála og hóf mikið ræktunarstarf. Landið sem Jón fékk til afnota var nánast örfoka hvammur sem stendur nokkru sunnar og ofar í landinu en bústaðirnir í Sléttuhlíð. Í auglýsingu um Reykjanesfólkvang segir m.a. um mörkin: „Lína dregin.. á mörkum Garðahrepps og Hafnarfjarðar við Kershelli. Þaðan eftir þeim mörkum inn fyrir sumarbústaðahverfi í Sléttuhlíð á hæð er Klifsholt heitir…“.

Smalaskáli

Listaverk við Smalaskála undir Klifsholti.

Í MBL 1986 segir að „skilyrði til skógræktar væru óvíða erfíðari en í nágrenni Hafnarfjarðar og Garðabæjar þar sem skiptust á blásnir melar og hrjóstug hraun. Mikið starf biði því ræktunarmannanna en til marks um það hvað hægt væri að gera væri Smalaskáli Jóns í holtinu fyrir ofan Sléttuhlíð. Upp af örfoka landi væri þar risinn gróskumikill skógur, sem sýndi hvaða framtíð gæti beðið holtanna í kring. Jón minntist á áníðsluna, sem landið hefði  af illri nauðsyn verið beitt um aldaraðir, hvernig skógurinn hefði verið höggvinn til kolagerðar og beittur miskunnarlaust uns svo var komið, að bældar kjarrleifar voru einar eftir á stöku stað. Sjálfur hafi honum hefði ávallt fundist sem honum bæri skylda til að reyna að skila landinu betra í hendur komandi kynslóða.

Auðvelt er að ganga upp að Klifholtsvörðunni eftir stikuðum stíg frá Rotary-lundinum vestan holtsins.

19. Undirhlíðar /Sandfell

Undirhlíðar

Undirhlíðar – varða á Sandfelli. Kaldársel fjær.

Undirhlíðar eru bólstrabergshæðir sem liggja frá Kaldárbotnum í norðaustri að Vatnsskarði í suðvestri og spanna um 7 km. Beggja vegna eru hraun frá sögulegum tíma, ásamt eldri hraunum. Undirhlíðaleið lá með norðanverðum hlíðarfætinu en sunnan við Undirhlíðar var Dalaleið. Hvorutveggja voru fornar þjóðleiðir milli Hafnarfjarðar og Krýsuvíkur.

Undirhlíðar tilheyrðu Garðakirkju á Álftanesi frá alda öðli, en Hafnarfjarðarbær keypti hluta kirkjulandsins 1912.

Undirhlíðar

Í Undirhlíðum.

Undirhlíðar voru vaxnar kjarri og kröftugum fóðurgrösum og töldust helstu bithagar búpenings Garðaklerka og leiguliða þeirra. Selfarir lögðust af í Kaldárseli nyrst norðan hlíðanna um 1866 þegar Þorsteinn Þorsteinsson reyndi þar fasta búsetu, sem lánaðist illa. Landgæðum hrakaði í kjölfar langvarandi harðinda á seinni hluta 19. aldar sem stóðu fram undir annan áratug 20. aldar með tilheyrandi landrofi, uppblæstri og gróðureyðingu. Við þetta ástand bættist ríkjandi eldiviðarskortur Hafnfirðinga þegar kol bárust ekki til landsins vegna stríðsátakanna í Evrópu 1914-18.

Austan Kaldárbotna eru Kaldárhnúkar og austan þeirra Sandfell, austasta hæðin á Undirhlíðum.

20. Undirhlíðar / Skólalundur

Undirhlíðar

Undirhlíðar ofan Kýrsgils.

Árið 1930 hóf Ingvar Gunnarsson kennari við Barnaskóla Hafnarfjarðar gróðursetningu í Undirhlíðum en Litli-Skógarhvammur var girtur í ársbyrjun 1934. Sama vor hófu nemendur Barnaskóla Hafnarfjarðar ræktun Skólalundar undir stjórn Ingvars. Næstu árin plöntuðu börnin út mörg þúsund trjáplöntum, en starfinu lauk þegar fullplantað var í girðinguna fáum árum seinna. Skógrækargirðingin fékk lítið sem ekkert viðhald en 1942 gerði bæjarstjórnin samning við Fjáreigendafélag Hafnarfjarðar um sumarbeit innan bæjargirðingarinnar.

Ingvarslundur

Minnisvarði í Ingvarslundi.

Sitkagrenitrén í Skólalundi eru þau hæstu í Undirhlíðum, en meðal annarra tegunda sem dafna ágætlega má nefna sitkabastarð, rauðgreni, blágreni, stafafuru, fjallafuru, bergfuru og fjallaþin, auk birki- og víðikjarrs. Árið 1961 bættist Kúadalur við ræktunarsvæðið. Drengir í Vinnuskólanum í Krýsuvík voru einnig duglegir að planta trjám í Undirhlíðum á fyrstu árum sjöunda áratugs síðustu aldar.

Þann 25. júní 2005 fór fram táknræn athöfn í Undirhlíðaskógi þegar 75 trjáplöntur voru gróðursettar í Skólalundi til að minnast 75 ára afmælis Skógæktarfélags Íslands og að 75 ár voru liðin frá því að Ingvar Gunnarsson gróðursetti þar fyrstu trén.“

Hafa ber í huga að gönguleiðin um „Kúadal“ er ranglega merkt á kortum. Dalurinn gengur inn í og upp úr næstu kvos fyrir sunnan. Merkið er þar norðan við efst á holti þegar upp er komið.

21. Leirdalshöfði

Leirdalshöfði

Leirdalshöfði.

Ofan Undirhlíða er Breiðdalur og Breiðdalshnúkur, Kjóadalirnir vestari og eystri og Slysadalir (Leirdalir) milli Undirhlíða og Leirdalshöfða. Handan höfðans myndast tjarnir á veturnar sem nefnast Leirdalshöfðatjarnir. Þegar horft er til austurs af hnúknum sjást Bollarnir eða Grindaskarðahnúkar ásamt Þríhnúkum og Kristjánsdalahorni, og í fjarska bera Vífilsfell og Hengill við himinn og í góðu skyggni sjást Skálafell, Botnsúlur og fleiri fjöll.

Leirdalshöfði

Leirdalshöfði.

Á láglendi er þarna fjöldi hrauna frá ýmsum tímum, t.d. Tvíbollahraun, Skúlatúnshraun, Þríbollahraun, Rjúpnadyngjuhraun og Húsfellsbruni.

Í suðri er Fagradalur. Í dalnum er óskráðar seltóftir, væntanlega frá Krýsuvíkurbæjunum. Dalirnir norðan höfðans nefnast Leirdalur (Slysadalur) og Breiðdalur vestast.

22. Undirhlíðar / Móskarðshnúkar

Háuhnúkar

Móskarðshnúkar (Háuhnúkar).

Móskarðshnúkar (Háuhnúkar) nefnast móbergshæðir á Undirhlíðum ofan við Stóra-Skógarhvamm með fallega mótaðri skál sem snýr opi mót norðri. Það er vel þess virði að ganga upp að hnúkunum, t.d. á hlíðunum frá Bláfjallavegi ofan Óbrinnishóla, og skoða þessa náttúrusmíð sem lítur út eins tröll hafi útbúið þar hásæti sitt. Þegar horft er af hæstu hnúkum blasa Undirhlíðar við til beggja handa. Í norðurátt má greina Kaldársel, Gjárnar, Klifsholt, Vífilsstaðahlíð, Móskarðshnúka, Esjuna, Skarðsheiði, Akrafjall og fleiri fjöll.

Um er að ræða mótun landsins, allt frá því um a.m.k. ellefu þúsund árum, þegar eldgos voru tíð undir jökli á síðasta ísaldarskeiði.

23. Hafurbjarnarholt / Fornuselshæð

Hafurbjarnarholt heitir hæð milli Straumssels og Fornasels í Almenningi. Í örnefnalýsingu svæðisins segir m.a.:

Hafurbjarnarholt

Hafurbjarnarh0lt framundan.

„Fyrir neðan og norðan Stórastein (kennileiti við Hrauntungustíg) eru Fornasel og Gjásel, þar er líka Kolbeinshæð. Hjá Gjáseli er Gjáselsskyggni, í norður frá honum er Hafurbjarnarholt, þá Markhóll, Norðastihöfði, Miðhöfði og Fremstihöfði. Fyrir sunnan þessa hóla er mikið af nafnlausum hraunstrýtum, sem ná upp að mörkum milli Hraunabæja og Krýsuvíkur. Litlaholt liggur á milli Straumssels og Hafurbjarnarholts. Á holtiu er steyptur landmælingastólpi. Neðan hans er landamerkjavarða Straums og Þorbjarnastaða, Hafurbjarnarholtsvarða.  Þaðan lá línan um Nyrztahöfða og um Norðurhöfðaslakka, á Mjóhöfða og um Miðhöfðaslakka, þaðan í Fremsthöfða í Þrívörður.

Hafurbjarnarholt

Hafurbjarnarholt – landamerkjavarða.

Suður og upp frá lautinni, sem fyrr var nefnd, er Fornasel [Gjásel], sel frá Þorbjarnarstöðum. Má enn sjá, að þrjár hafa verið þarna vistarverur. Selið stendur á Fornaselshæð. Rétt við Selið er vatnsstæði, nokkuð niðurgrafið. Norðan undir hæðinni eru rústir eftir kvíar. Suður og upp frá selinu var Gránuskúti eða Gránuhellir.“

Gísli Sigurðsson segir, að Fornuselshæðir  hafi verið nefndar Lýritti. Hafur-Björn hefur jafnan verið kenndur við Grindavík, einn sona Molda-Gnúps, landnámsmanns. Telja verður hæpið að nefndur Björn hafi verið heimakominn í holtinu því at’arna. Líklegra verður að telja að holtið hafi dregið nafn sitt af Þorbirni á Þorbjarnarstöðum, hafi heitið „Þorbjarnarholt“, en örnefnið breyst einhverra hluta vegna. A.m.k. er landamerkjavarða Þorbjarnastaða þarna enn efst á holtinu, undir nefndum steinteyptum landmælingastöpli.

24. Laufhöfði / Straumselshöfðar

Laufhöfðavarða

Laufhöfðavarða.

Í örnefnalýsingu fyrir Þorbjarnastaði segir: „Austan við Katlana var Laufhöfðahraun með  Laufhöfðavatnsstæði, sunnan undir Laufhöfða. Í brúninni á hrauni þessu var Kápuhellir. Landamerkjalínan liggur um Katlana í Jónshöfða austast í Straumsselshöfðum ofan Kápuhellis (Gísli Guðjónsson). Verður þá Straumsselsstígurinn innan merkjanna. Héðan frá Jónshöfða liggur Fornaselsstígur suður og upp í Laufhöfðahraun suður í selið. Frá Jónshöfða liggur Straumsselsstígurinn niður um Neðri-Flár eða Flárnar.“

Laufhöfðavarða

Laufhöfðavarða.

Efst á Laufhöfða er Laufhöfðavarða. Hún er skammt norðan við Fornaselsstíg er lá upp í Gjásel og fyrrum alla leið upp í Fornasel. Varðan sú arna virðist fyrst og fremst vísa á Gránuskúta (Gránuhelli) í Litlaholt skammt sunnar.

25. Sölvhóll

Frá Þorbjarnarstaðabænum lá Réttarstígur til norðurs út í Réttarhliðið. Vestan við Réttarhliðið er klettur, nefndur Sölvhóll. Þar voru söl þurrkuð.

Þorbjarnastaðir

Sölvhóll – Þorbjarnarstaðarétt.

Sölvhóll er háhóllinn, sem réttin stendur norðan undir. Þegar búist var við halastjörnunni 1910, vildi Þorkell Árnason bóndi á Þorbjarnarstöðum safna öllum Hraunamönnum upp á þennan hól, áður en jörðin færist, og láta þá mæta þar örlögum sínum. Sunnan í þessum hól voru Sölvhólsklettar. Þá kom lægð, sem nefnd var Sölvhólsstykki. Innst inni á stykkinu er lítill skúti. Vestar kom Háaklöpp, vestan við sprunguna, sem þarna er í klettunum. Þar sunnar komu Vonduhólar, klappir margsprungnar, sem lágu að nokkru inn í túnið.

26. Smalaskálahæðir

Smalaskáli

Smalaskálahæð – smalaskáli.

Í örnefnalýsingu fyrir Óttarsstaði segir m.a.: „Ofan við Jakobsvörðu, upp undir Keflavíkurvegi (gamla), neðan Smalaskála, er Smalaskálahellir. Þar austar, rétt neðan vegar, er Nónhólakerið, sem er skammt frá Rauðamel. Niður af Goltrarhól er Sigurðarhóll, og austur af honum er svo hóll, sem heitir Spói.

Ofan við gamla [Suðurnesja]veginn er hátt hraunholt, sem heitir Smalaskáli. Á því, á gjárbarmi, eru leifar eftir smalahús. Í þennan hól austanverðan er ker, Smalaskálaker. Í því var listaverkið „Slunkaríki“. Smalaskálahæðir heita hæðirnar umleikis.“

Smalaskáli

Smalaskáli við Smalaskálahæð.

Í annarri örnefnalýsingu fyrir Óttarsstaði segir að Smalaskálaskjól sé við Fjárborgargötuna, neðan við þjóðveginn. Hér er átt við gamla malarþjóðveginn, sem notaður var allt fram á sjöunda áratug síðustu aldar. Fjárborgargatan frá Óttarsstöðum lá til suðausturs upp að Fjárborginni (Óttarsstaðafjárborg/Kristrúnarborg) vestan við Smalaskálahæðir.

Smalaskálinn fyrrnefndi er skammt ofar, skammt ofan við gamla veginn. Annar grjóthlaðinn aflangur smalaskáli er utan í hraunhól skammt vestar. Hann sést vel frá veginum.

27. Sigurðarhæð

Sigurðarhellir

Sigurðarhellir.

Vestur götunnar að Óttarsstöðum á vinstri hönd er Glaumbær, sumarbústaður og seinna barnaheimili (brann fyrir mörgum árum). Rétt þar fyrir norðan var jarðfall slétt í botn og réttarveggir hlaðnir á brúnunum. Rétt þessi var venjulega notuð á haustin, en hún hefur nú verið rifin niður. Talsvert suður af þessu er klapparhæð, er nefnist Sigurðarhæð. Í henni er hellisskúti með fyrirhleðslum, sem Sigurðarhellir heitir. Talið er að einhver Sigurður  hafi haldið þarna til um stund í gamla daga, enda var alvanalegt, að flökkukarlar hefðust við í hellum og skútum um tíma.

Sigurðarvarða

Sigurðarvarða.

Við hellinn eru leifar af hlöðnu gerði. Suðvestar er mikill áfastur klapparrani, hár og aflangur. Á honum er há varða, Sigurðarvarða, við Óttarsstaðaselstíginn. Suðaustan í honum er feikna mikið jarðfall. Í því eru hleðslur miklar, sem nefnast Kúarétt. Þarna mun hafa verið nátthagi  Straumskúnna  –  þrátt fyrir að hvylftin sé vestan við landamerkin milli Straums og Óttarsstaða, þ.e. Óttarsstaðamegin. Ekki var óvanalegt að nágrannar skiptust á nytjum í skiptum t.d. skógarítak, útræði, kolagerð, fjárskjól o.s.frv.

Sjá meira um Ratleik Hafnarfjarðar HÉR.

Sölvhóll

Sölvhóll – merki.