Ætlunin var að skoða og staðsetja fjárborg sunnan við Rauðavatn sem og tóft af sauðahúsi þar skammt austar. Einnig var og ætlunin að skoða minjar Örfiriseyjarsels í Lækjarbotnum undir Selfjalli.
Lækjarbotnar voru efsta byggða ból vestan Hellisheiðar og þar lá þjóðleiðin um áður. Útilegumenn bjuggu í helli í gili skammt ofan við Botnana. Guðmundur H. Sigurðsson, bóndi í Lækjarbotnum, færði bæ sinn á árunum 1904-1910 að Suðurlandsvegi og nefndi Lögberg. Þá var gamli bærinn nefndur Gömlubotnar. Sjá má leifar af gamla túninu á Lögbergi sunnan þjóðvegarins, en bæjarstæðið hvarf undir veginn. Tröllakatlarnir neðan Lögbergsbrekku eru fallegir gervigígar líkt og hraunkatlarnir á Strokkamelum við Hvassahraun og stóru hraunkatlarnir í Hnúkunum.
Í Rauðavatnsskógi eru bæði góðir göngustígar og nægt rými. Umhverfið er hið fallegasta. Umfeðmingur, blágresi og smjörgras ásamt fleir blómategunum vaxa þar utan barr- og birkitrjáa.
Skógræktarfélag Reykjavíkur var stofnað var 1946, en undanfari þess var Skógræktarfélag Íslands, stofnað 1930, sem þá breyttist í landssamtök skógræktarfélaga. Fyrsta skógræktarfélagið var raunar stofnað upp úr aldamótum en starfsemi þess lognaðist út af nokkrum árum síðar, þótt brautryðjendastarf frumherjanna gleðji nú gest og gangandi við Rauðavatn.
Rauðberjalyng (Vaccinium vitis-idaea) er mjög sjaldgæft á Íslandi, þótt það sé með algengasta berjalynginu í Noregi og Svíþjóð (Sæ: tyttebær). Það líkist nokkuð sortulyngi, en blöðin eru ofurlítið tennt, þynnri en á sortulyngi og með niðurorpnum röndum. Berin eru rauð og safarík. Heimkynni rauðberjalyngsins á Íslandi eru á Austfjörðum, en einnig vex það á þrem stöðum í Öxarfirði. Á síðari árum hefur það einnig fundizt í Þrastarskógi og í furulundinum við Rauðavatn, og gæti það á báðum þeim stöðum verið aðflutt með skógrækt.
Leitað var að sauðakofatóftinni. Leitarþjálfun undanfarinna ára kom nú í góðar þarfir.
Gengið var upp á hæsta móholtið sunnan Rauðavatns og línan síðan tekin til vesturs. Þá var gengið svo til beint á tóftina, sem er vestan undir hæðinni, svo til alveg í skógarmörkunum. Tóftin er með hlöðu í endann. Vel sést móta fyrir henni í hlíðinni. Neðan hennar, inni í skóginum eru greinilegir hlaðnir garðar er mynda ferköntuð gerði.
Í framhaldi af samþykkt bæjarstjórnar Reykjavíkur þann 26. september 1918 bentu verkfræðingarnir Jón Þorláksson og Guðmundur Hlíðdal á tvær virkjunarleiðir í Reykjavík, annars vegar að virkja nýtanlega fallhæð í ánum í tveimur rafstöðum sem byggðar yrðu við árnar, hin neðri við Ártún og hin efri ofan við Árbæ, og hins vegar að nota alla fallhæðina í einni stöð sem staðsett yrði í Grafarvogi.
Bæjarstjórn ákvað að stöðin yrði sett við Grafarvog, svo framarlega sem engir óvæntir erfiðleikar kæmu í ljós við fullnaðarrannsókn á virkjunaraðstæðum. Ætlunin var að stífla Elliðaárnar við hólinn Skyggni, neðan við Elliðavatnsengjar, veita ánum þar úr farvegi sínum í Rauðavatn eftir Margróf og nýta alla fallhæðina þaðan til sjávar um 74 metra fall, í einni stöð við Grafarvog.
Niðurstaðan úr rannsóknum sem fram fóru sumarið 19191 leiddu til þess að horfið var frá þessari tilhögun á virkjun ánna og ákvað bæjarstjórn hinn 6. desember 1919 að byggja 1000 hestafla rafstöð við Ártún.
Á móhól skammt sunnan við Rauðavatn er fjárborgin. Vel sést móta fyrir henni á hólnum. Hún hefur verið gerð úr nokkuð stórum steinum neðst, en síðan hefur hún verið tyrfð. Borgin er á fallegum stað, en líklega vita fáir, sem þarna eiga leið um, hvaða mannvirki þetta gæti hafa verið.
Þá var haldið upp í Lækjarbotna með viðkomu í hraunkötlunum, klepragígum í Leitarhrauni undir Lögbergsbrekku, Tröllabörnum. Þrír katlanna eru stærstir. Hægt er að fara ofan í tvo þeirra, en þeir hafa myndast vegna gasuppstreymis úr hrauninu á sínum tíma. Fallegt náttúrufyrirbæri við fjölfarna leið, sem óhætt væri að gera hærra undir höfði en nú er. Tröllabörn (Tröllabolar) eru friðlýst náttúruvætti síðan 1983. Þau eru tíu talsins, um 4.500 ára gömul.
Í Lækjarbotnum, nálægt skátaskála Væringja, eru tóftir Örfiriseyjasels, auk tófta frá Lækjarbotnum.
Árið 1868 var gefið út nýbýlaleyfi fyrir landinu Lækjarbotnum undir Selfjalli. Fjallið dregur nafn sitt af seli jarðarinnar Örfiriseyjar á Seltjarnarnesi. Örfirisey átti selstöðu þar og hafði í seli og hefur svo verið vegna landleysis jarðarinnar. Selið var líklega aflagt árið 1799, þegar byggð í Örfirisey fór í eyði eftir Básendaflóðið. Lækjarbotnar var efsta byggða ból vestan Hellisheiðar og í þjóðbraut, því þarna inn við Selfjallið lá gamla leiðin um Lækjarbotna. Þetta nýbýli var því vinsæll áningarstaður bænda úr austursveitum á kaupstaðarferð til Reykjavíkur og ekki síður á austurleið.
Guðmundur H. Sigurðsson bóndi í Lækjarbotnum (1876-1957) flutti húsið á árunum 1904-1910 að þjóðveginum sem lá um Fossvallaklif og rak þar greiðasölu. Í manntalinu 1910 er býlið nefnt Lögberg Lækjarbotnar og er líklegt að þá hafi verið farið að nefna eldra bæjarstæðið Gömlubotna. Guðmundur gaf Skátasambandi Reykjavíkur land í Gömlubotnum og reistu þeir þar árið 1929 fyrsta útivistarskálann á Íslandi. Hann var nefndur Væringjaskálinn og var fluttur á Árbæjarsafn árið 1962 og endurbyggður þar. Fimm fornminjar eru skráðar í Gömlubotnum: Fjárhús, rétt, sel, fjárból og rúst.
Á Lögbergi hafði Guðmundur greiðasölu og gistingu ásamt bústýru sinni, Guðfinnu Karlsdóttur, og nefndi býlið Lögberg. Húsið var rifið þegar Suðurlandsvegurinn var lagður á sjöunda áratug 20. aldar. Á ás sunnan vegarins er gamla túnið á Lögbergi, Túnhóllinn. Þar eru bæjarstæði og fleiri rústir ásamt grafreit, en þar hvílir Guðmundur bóndi og veitingamaður, Svavar Guðmundsson. Norðan við grafreitin má sjá leifar útihúss með hlöðu í suðurenda.
Upphaf byggðar í Kópavogi var í landi jarðanna Kópavogs og Digraness sem voru í eigu ríkisins en búskap á þeim var hætt skömmu eftir 1930. Í sveitarstjórnarkosningum sumarið 1946 náðu íbúar Kópavogs meirihluta í hreppsnefnd Seltjarnarneshrepps og öll stjórnsýsla fluttist til Kópavogs.
Íbúar Seltjarnarness knúðu á að eigum Seltjarnarneshrepps yrði skipt upp. Skipting sveitarfélagsins fór fram um áramótin 1947-48 og efnt var til kosninga í hinum nýja Kópavogshreppi í janúar 1948. Sama ár var reytum Seltjarnarneshrepps skipt. Jarðirnar Kópavogur, Digranes, Hvammkot (Fífuhvammur), Vatnsendi, Geirland, Gunnarshólmi og Lögberg (Lækjarbotnar) voru lagðar undir Kópavogshrepp.
Í gili ofan við Lækjarbotna er hellir og skjól þeirra Eyvindar og Margrétar Símonardóttur úr Ölfusi.
Frábært veður – stilla og hiti. Ferðin tók 1 klst og 1 mín.