Færslur

Reiðhjól

Á vefsíðu Fjallahjólaklúbbsins má lesa eftirfarandi grein Óskars Dýrmundar Ólafssonar um fyrsta reiðhjólið á Íslandi.

Fyrsta reiðhjólið
HjólreiðarFyrstu fregnir af reiðhjólum sem vitað er til að hafi birst hérlendis á prenti eru þegar orðið hjólhestur er notað í grein um “Atgervi kvenna” árið 1887 í Fjallkonunni. Í greininni eru rök færð fyrir því að þrátt fyrir allt þá geti konan nú ýmislegt og jafnvel í sumum tilvikum skarað fram úr karlmönnum. “Ein kona hefir nú á dögum náð að skara svo fram úr í stærðfræði, að enginn karlmaður er henni fremri. Önnur hefir á einum degi ferðazt 160 enskar mílur á hjólhesti (Bicycle).” Hér er verið að vitna til kvenna erlendis en víða voru hjólreiðar orðnar að tískuæði þar. En þrátt fyrir afrek kvenna þá var bent á að “ekki geta konur í síðum kjólum klifrað, hlaupið kapphlaup, riðið hjólhesti”, en í þá daga þá var það ekki talið sæma konum að vera öðru vísi klæddar en í síðum kjólum, líka þegar þær hjóluðu eins og sagt var frá í kaflanum alþjóðlegt baksvið.

Fyrstu reiðhjólin sem vitað er um að hafi verið flutt til Íslands sáust í Reykjavík árið 1890. Þau voru tvö og voru í eign Guðbrands Finnbogasonar verslunarstjóra hjá Fischer versluninni og Guðmundar Sveinbjörnssonar. Guðbrandur sem bjó í Reykjavík hýsti ungan mann er byrjaði að sækja nám við Latínuskólann veturinn 1889. Var þetta Knud Zimsen sem síðar varð verkfræðingur bæjarins og svo borgarstjóri Reykjavíkur. Í frístundum sínum gerði hann margt sér til dægrastyttingar en þó var var það ein sem hann undi sér “löngum við, enda fágæt í Reykjavík í þann tíma, en það var að fara á reiðhjóli.” Lýsing hans á fyrsta reiðhjólinu hérlendis sem enn er varðveitt á þjóðminjasafninu er svohljóðandi:

ReiðhjólHjólgrindin var úr járni, en hjólin úr tré með járngjörðum. Ekkert drif var á því, og var aðeins hægt að stíga framhjólið. Það var því ekki auðvelt að fara hratt á því, og ókleift mátti heita að hjóla á því upp nokkurn verulegan bratta. Ég gerði heldur ekki víðreist á því, hjólaði aftur og fram um Aðalstræti og renndi mér á því niður Fischersund.

Reiðhjólið sem Knud lýsir hér var, eins og hefur verið vikið að í bakgrunnskafla, af Velocipede gerð, eða “benskakare” eins og það var kallað í Svíþjóð, sem vinsælt var á sjöunda og áttunda áratug aldarinnar hjá nágrönum okkar og víðar í Evrópu.

Annað reiðhjól sem átti eftir að vekja feiknarathygli var í eigu Elías Olsen, bókhaldara hjá Fischer versluninni. Það kom á árinu 1892 ásamt reiðhjóli Teits Ingimundarsonar úrsmiðs og var með risastórt framhjól og lítið afturhjól.
ReiðhjólKnud Zimsen segir í endurminningum sínum að hjól Olsens hafi tekið “hinum mjög fram, enda safnaðist fólk saman til að horfa á hann aka á því kringum Austurvöll, sem hann gerði ekki ósjaldan.” Má ætla að hér hafi verið á ferðinni reiðhjól sem hét “Ordinary” og varð feiknarvinsælt á níunda og áttunda áratug 19. aldar í Evrópu. Þessi nýjung sem reiðhjólið var þá hérlendis, var fyrst í eigu mjög fárra manna og hlýtur að hafa þótt nýstarleg mitt í allri hestaumferðinni. Enda fór það svo að reiðhjólið sem í fyrstunni var kallað Velocipede af sumum notendum, fékk það nafn sem því hafði verið gefið í Fjallkonunni 1887, nefnilega hjólhesturinn. Óskar Clausen sem var staddur á Þjóðhátíð í Reykjavík laust fyrir aldamótin minnist þess að hafa séð til hjólreiðamanna sem voru að sýna listir sínar.

Reiðhjól

Hjólað um miðborg Reykjavíkur.

Á einni þjóðhátíðinni fyrir aldamótin voru sýndar hjólreiðar á Melunum, og voru þeir tveir, sem sýndu sig á hjólunum. Þótti þetta merkilegt. Annar var Jes Zimsen konsúll, þá ungur maður. Hann fór vel á hjóli, svo að dáðst var að, þó að hann reyndar skylli flatur áður en hann næði marki. Óheppni þessi var því að kenna, að annað hjólið sprakk, en öllum þótti það bezt, að Jes meiddi sig ekkert og stóð upp skellihlæjandi.

Óskar greinir ekki nánar frá því í þessarri lýsingu sinni hvaða þjóðhátíð þetta hafi verið en líklegt er að þetta hafi verið á árunum 1895-1898.

HjólreiðarSá sem fyrst fór svo að nýta sér reiðhjólið í atvinnuskyni var Guðmundur Björnsson héraðslæknir, síðar landlæknir og þingmaður, en hjólaði í sjúkravitjanir um allan bæ og hjólaði hann m.a. alla leiðina til Hafnarfjarðar til að sinna sjúklingum. Hjólreiðar Guðmundar bárust meira segja inn í umræður Alþingis um rýmkun atkvæðisréttar sem Guðmundur studdi. Var hann sakaður um að nýta sér kosti hjólhestsins til atkvæðasmölunar fyrir kosningar í umræðum á Alþingi 1907. Eða eins og Dalvíkur þingmaðurinn Björn Bjarnason komst að orði: “Mér þætti gaman að sjá landlæknirinn okkar fara hjólandi um meðal allra vinnukvenna bæjarins til þess að “agitera” fyrir einhverju borgarstjóraefni er hann vildi koma að.”

Í Reykjavík fór að bera á að konur hjóluðu líka uppúr aldamótum. Í frétt Ísafold frá 1904 kemur fram að allskonar fólk hjólar í bænum. “Ungir og gamlir, karlar og konur, fara hér á hjólum nú orðið, alveg eins og í stórborgum erlendis. Færra kvenfólk þó að tiltölu en þar gerist að svo komnu.” Í greininni kemur einnig fram að um sex konur eigi hjólhesta í Reykjavík og fleiri konur muni kunni á þá. Blaðið talar um þetta séu “allt ungar stúlkur, heldri stúlkur sem kallað er. Meira er ekki um að vera þar. Þetta er mjög svo nýlega tilkomið. Það er nú fyrst að verða tíska hér að kvenfólk fari á hjólum.”

Í dag eru reiðhjól í sérstöku uppáhaldi hjá yngri kynslóðinni, enda er þetta eina farartækið sem þeir sem eru yngri en 17 ára eiga kost á. Fyrstu sögurnar sem berast af því að unglingar fari að eignast reiðhjól eru úr Reykjavík upp úr aldamótum. Fyrstu kynni okkar af reiðhjólum eru ógleymanleg og sígild upplifun eins og lýsing Ómars Ragnarssonar minnir okkur á þegar vinir hans voru að kenna honum að hjóla

Ýta þeir mér af stað og sleppa síðan. Ég þeytist áfram á fleygiferð niður götuna og skelfing læsist um mig. Guð minn almáttugur, ég ræð ekki við neitt! Hjólið byrjar að hallast og sveigja sitt á hvað og ég bruna í beygjum niður eftir götunni. Þetta hlýtur að enda með ósköpum!

Innflutningur eykst
HjólreiðarSamkvæmt innflutningsskýrslum þá voru flutt inn 427 reiðhjól á tímabilinu 1903-1910 og flest þeirra fóru til Reykjavíkur. Fyrir þann tíma virðist innflutningur reiðhjóla ekki hafa verið skráður sérstaklega þó að hér hafi verið talsvert um hjólreiðar fyrir aldamótin. Þessi fjölgun á reiðhjólum hlýtur því að hafa breytt talsverðu í samgöngum, a.m.k. í þéttbýli.

Á sama tíma og reiðhjólið verður hluti af bæjarlífinu í Reykjavík, þá fara fregnir að berast af því víðs vegar um landið. Í aldamótalýsingu sinni á Seyðisfirði gefur skáldið Þorsteinn Erlingsson okkur eftir farandi lýsingu á hjólhestareið nokkurra bæjarbúa. “Hjólhestar sjást hér á götunum og ríður Stefán Th. Jónsson mest, en Eyjólfur bróðir hans og Friðrik Gíslason ríða mikið og vel.” Fyrir norðan eru til heimildir frá reiðhjólanotkun Jóhannesar Norðfjarðar úrsmiðs frá síðustu aldamótum sem flutti til Sauðárkróks með reiðhjól í farteskinu. “Hann kom fyrstur manna með nýtízkulegt farartæki til Sauðárkróks, reiðhjól, sem hann hafði keypt erlendis. Þótti það merkisgripur. Á Ísafirði fregnast um hjólreiðakeppni á Þjóðminningahátíðinni 1905. Samkvæmt innflutningsskýrslum voru 10 reiðhjól flutt til Ísafjarðar árið 1905 og 1 árið eftir sem getur passað því á hátíðinni 1906 kepptu 9 hjólreiðamenn.

Ef litið er til þess hvort algengt hafi verið að hjólað væri utan þéttbýlis þá eru margar vísbendingar til þess að fram undir fjórða áratuginn hafi það tíðkast talsvert. T.d. kemur fram í talningu sem framkvæmd var á allri umferð frá Austur og Vestu-Skaftafellssýslum, Rangárvallasýslu og Árnessýslu til Reykjavíkur árið 1913 að talsverður fjöldi manna hafi farið þessa leið fyrir eigin afli. Talið var í nákvæmlega eitt ár við Þingvallaveginn og Hellisheiðarveginn hve margir voru ríðandi, akandi og svo hjólandi og gangandi. 15008 voru á hestum, 4052 voru akandi og 2691 voru ýmist gangandi eða hjólandi, nánari útlistun vantar á milli hjólandi og gangandi umferðar í skýrslunni.

Íslenskar konur hjóla líka
Hjólreiðar
Þegar komið er fram á annan áratuginn verður sífellt algengara að konur hjóli í laugarnar og voru dæmi um að konur hjóluðu óléttar þrátt fyrir allar kreddur.

Reiðhjólið í daglegu lífi

Reiðhjól

Austurstræti og Bankastræti á árunum 1935-40. Ljósmyndari ókunnur.

Á millistríðsárunum fór innflutningur á reiðhjólum hratt vaxandi. Þetta er samhliða aukinni velmegun að öðru leyti í samfélaginu. Framleiðsla í landbúnaði og fiskiveiðar höfðu stóraukist þegar hér var komið við sögu og neysluvörur tóku að berast í síauknum mæli til landsins þrátt fyrir að ríkið hefði veitt sér rétt til að takmarka eða banna alveg innflutning ýmiss varnings og voru reiðhjól þar á meðal.

En hvernig var staðan í samgöngumálum á þriðja og fjórða áratugnum? Það var álit Thorvalds Krabbe fyrrum landverkfræðings að bíllinn hefði fengið sérstöðu í samgöngumálum á Íslandi. En hann greindi líka fleiri þætti sem væru hluti af samgöngum hér á landi. Þar á meðal væru tvíhjóla samgöngutæki sem hann er þó hissa á að skuli blómstra jafnvel og þau gera við erfiðar aðstæður:

Fyrir utan bílana hafa tvíhjólin -bæði reiðhjólin og mótorhjólin- orðið mjög þýðingarmikil nýjung á Íslandi, aðallega í bæjunum, og einnig út á landi, og kemur á óvart hve notkun er mikil. Bæði valda vegir og lega landslagsins víða erfiðleikum, og svo óþægilegt veður, en það virðist ekki hræða menn frá!

Hjólreiðar
Reyndin var sú að sala reiðhjóla stórjókst á þriðja áratugnum þrátt fyrir að bíllinn hefði “numið land”. Reiðhjólið hafði áunnið sér sess sem hagnýtt farartæki, þó sérstaklega í þéttbýli. Rétt eins og Guðmundur Björnsson læknir hafði farið sinna erinda á fyrsta áratug 20 aldar þá notaði Ólafur Þorsteinsson læknir hjólið sitt í sjúkravitjanir um allan bæ fram til 1930 en eftir það tók bíllinn við hlutverki reiðhjólsins. Talsvert var um það á þessum árum annars að læknar notfærðu sér hjól til sjúkravitjana. Má því segja að þeir ásamt sendisveinunum og svo rukkurum síðar meir, hafi verið þeir einu sem beinlínis notuðu hjól í atvinnuskyni. Sama ár og læknirinn fékk sér bíl þá fékk ungur verkamaður að nafni Ragnar Jónsson sér nýtt reiðhjól sem hann notaði m.a. til að komast sinna leiðar í daglegu lífi. Hann notaði t.d. hjólið til að leita sér að atvinnu um veturinn 1935-36 og ef dæma má af þeim myndum sem til eru frá þessu tímabili virðast reiðhjól vera mjög algengur fararmáti a.m.k. innan Reykjavíkur.

Hjólabyltingin
HjólreiðarFrá því að seinni heimsstyrjöldin var farin að fjarlægjast virðist sem að áhuginn á hjólreiðum hafi dvínað að sama skapi. Heimildamönnum virðist bera saman um að sjötti áratugurinn hafi verið fremur dauflegur og ekkert hafi farið að gerast í raun fyrr en uppúr 1965. Þá virðist fólk vera farið að líta aftur hægt og rólega til reiðhjólsins eftir að bílaeign landsmanna hafði margfaldast og öll samgöngutækni hafði tekið risastökk fram á við. Greina má merki um að hjólreiðar séu að færast aftur inní sviðsljósið um 1970 þó að nýstárlegar þættu ef marka má viðtal sem tekið var þá við Ómar Ragnarsson íþróttafréttamann. Í viðtali við Íþróttablaðið var hann spurður; “Þú ert gamall íþróttamaður Ómar?”

Reiðhjól

Mynd frá hinni árlegu skrúðreið Tweed Ride Reykjavik um borgina – Mynd: Páll Guðjónsson.

Öllu má nú nafn gefa! Ég get ekki neitað því, að ég hef spriklað talsvert um ævina og hef alla tíð haft áhuga á íþróttum…Sannleikurinn er sá að mér líður illa, ef ég hreyfi mig ekki eitthvað. Nú eru íþróttaæfingar mínar aðallega fólgnar í því að hjóla í og úr vinnunni. Ég á lítið reiðhjól, sem má brjóta saman. Það er mjög þægilegt að hafa það meðferðis á ferðalögum. Það er hægt að geyma það í bílnum eða flugvélinni. Ekki fer hjá því, að hjólreiðamaður veki eftirtekt. Ég man, að Austfirðingar ráku upp stór augu, þegar ég kom hjólandi, er ég átti að fara að skemmta á Hallormsstað, var ekki laust við, að þeim fyndist maðurinn skrítin. Annars er það mín skoðun að fátt sé eins hressandi og hjólreiðar. Með reiðhjól, úlpu og stígvél eru þér flestar leiðir færar.

Reykjavík

Hjólað um Sæbraut í Reykjavík.

Ekki verður vart mikilla hræringa á áttunda áratugnum þó að innflutningstölur gefa til kynna aukinn áhuga.

Ef það má tala um einhverskonar vakningu á notkun reiðhjólsins á milli 1890-1910 þá hefur tíminn frá 1980 verið byltingakenndur hvað varðar reiðhjólaeign. Meira hefur verið flutt inn til Íslands af reiðhjólum á milli 1980 og 1990 en samanlagt á milli 1890-1980. T.d. voru árið 1980 18 aðilar sem fluttu reiðhjól til landsins.

Eins og allar almennilegar byltingar þá eiga þær sér allar einhverjar orsakir. Ein þeirra var að felldir voru niður tollar af reiðhjólum sem flutt voru til landsins eftir 1 júlí 1979. Einnig bárust erlendir straumar frá Danmörku meðal annars þar sem megininntakið var aukin áhersla á heilsuna og svo rétt hjólandi fólks í umferðinni. Ofan á bættist olíuskortur og hækkandi olíuverð á heimsmarkaðnum.

HjólreiðarSérstakir hjólreiðadagar fóru að verða árlegt fyrirbæri en þeir hófu göngu sína árið 1980. Árið 1983 var þetta orðið svo vinsælt að milli 5-6 þúsund hjólreiðamenn hittust á Lækjartorgi þann 29 maí. Reiðhjólið fór að verða vinsælt til ýmiskonar söfnunarátaka. Ungmannafélag Íslands efndi til hjólreiðaferðar ysta hringinn í kringum landið undir kjörorðunum “Eflum íslenskt”. Var lagt af stað 25 júní 1982 og var svo aftur komið 16 dögum síðar aftur til Reykjavíkur. Hjóluðu 3200 manns á þremur hjólum þessa 3181 km sem voru farnir svona rétt til að sýna hvað hægt væri þegar margir fætur sameinuðust um góðan málstað, eins og að efla innlendan iðnað.

Reiðhjól

Horace Dall á hálendinu árið 1933. „Nokkru eftir að ég fór yfir vatnaskilin sá ég gríðarstóran eldgíg Öskju í austri. Það hljómar ótrúlega fyrir þá sem þekkja ekki kristaltært loftið á Íslandi að gígurinn var 65 kílómetra í burtu.“

Það sem einkennir þessa fersku vinda sem léku um hjólreiðamenningu hérlendis var fyrst og fremst sú alþjóðlega áhersla sem lögð var á heilsurækt og má rekja til skokkbylgjunnar (“The jogging boom”) sem skolaði á fjörur vestrænnar velmegunar.

En hvers vegna kom þessi mikla lægð í hjólreiðar sem sjá má af innflutningi hjóla á árunum 1983 og 1984? Sverrir Agnarsson heldur því fram að hér hafi vantað alla fræðslu og þekkingu á meðal almennings þannig að skilning hafi vantað á meðferð reiðhjólanna. Einnig hafi verðmætamatið ekki réttlætt þessi dýru hjól sem gáfu svo mun betri endingu á móti. Margir hjólreiðamenn hafa einnig þá skýringu að sumarið 1983 hafi verið kalt og mjög rigningasamt og því ekki fýsilegt hjólasumar.

Ný vakning
HjólreiðarHin síðari ár hefur aftur verið að lifna yfir hjólreiðamönnum. Jafnframt hefur innflutningur hjóla aukist og nokkuð stöðugur innflutningur gefur til kynna að viðhorf til reiðhjóla séu aftur að taka við sér. Ástæður þess eru eins og 1980 misjafnar. Helstu atriði sem eru áberandi má greina frá stóraukinni áherslu á umhverfismál og hafa umhverfissinnar lagt mikla áherslu á notkun reiðhjólsins í baráttunni gegn hinum mengandi og sóandi einkabíl. Einnig hefur heilsubylgjan sem skolaði á fjörur Íslendinga fest sig í sessi og orðið að einhverskonar lífsstíl og svo hefur tilkoma fjallahjólsins gert notkun auðveldari og mögulegri allan ársins hring hér á landi. – Óskar Dýrmundur Ólafsson.

Heimild:
-https://fjallahjolaklubburinn.is/pistlar-og-greinar/saga-reidhjolsins-a-islandi/iii-reidhjolid-a-islandi
-https://lemurinn.is/2014/03/24/hjolin-voru-ur-tre-saga-reidhjolsins-a-islandi-i-ljosmyndum/
Hjólreiðar