Akrafjall og umhverfi þess er sannkölluð paradís fyrir útivistarfólk. Gönguferð á fjallið er tiltölulega auðveld og útsýnið ægifagurt.
Fjallið gnæfir eins og útvörður byggðarinnar á Skipaskaga. Það er sporöskjulöguð og formfögur fjallabunga sem stendur á nesinu á milli Hvalfjarðar og Leirárvogs. Talið er að fjallið sé gömul eldstöð, en jökull hafi gengið yfir það og sorfið af því allar hvassar brúnir landmegin, en síðan steypst fram dal sem klýfur það vestanmegin og nefnist Berjadalur. Þrátt fyrir „möguleikann“ má víða sjá jökulrispur og jafnvel afrúnaða steina er jökullinn hefur notað sem leikföng um langa tíð. Bungan sunnan í hlíðum dalsins heitir Jókubunga. Eftir dalnum rennur Berjadalsá.
Norðan árinnar kallast fjallið Norðurfjall og sunnan hennar Suðurfjall. Sitt hvoru megin dalsins rísa tveir tindar. Heitir sá nyrðri og hærri Geirmundartindur (643m) en hinn syðri Háihnúkur (555m). Guðfinnuþúfa er drangur neðan Geirmundartinds. Meginefnið í fjallinu er basalt, en víða eru rauðleit móbergslög milli blágrýtislaga. Greinilegar sjávarmyndanir finnast umhverfis fjallið og í því, þær hæstu ofan við bæinn Kúludalsá í 70 m hæð. Hvalbein hafa fundist í 80 m hæð við bæinn Fellsenda.
En Akrafjallið neðanvert er ekki síður áhugavert til útivistar. Undir því má finna fjölda minja frá fyrri tíð. Norðanvert í fjallinu, fyrir neðan Geirmundartind, eru hólar sem heita Pyttar og utan við þessa hóla er graslendi sem heitir Slaga. Upp og inn af Slögunni eru hólar sem heita Sandhólar.
Skógræktarfélag Akraness hefur á undanförnum árum unnið að gróðursetningu trjáa á þessum svæði.
Rétt fyrir innan og neðan Guðfinnuþúfu varð flugslys 22. nóvember 1955, er Dakótavél frá varnarliðinu flaug á hamravegginn um það bil 50 metrum frá fjallsbrúninni. Allir um borð fórust.
Gönguferðir á Háahnúk eru vinsælar. Þar er gestabók sem Skagamaðurinn Jón Pétursson kom þar fyrir 4. janúar 1997. Í góðu skyggni er fagurt útsýni af tindum fjallsins. Botnssúlur og Esjan blasa við. Í norðri blasir Skarðsheiðin við og fjöllin á Mýrunum og Snæfellsnesi. Hinn tignarlegi Snæfellsjökull lokar þessum fagra fjallahring.
Margar sögur og sagnir tengjast fjallinu. Bærinn Reynir (Rein) stendur við rætur þess að sunnanverðu undir hlíðum Háahnúks. Þar bjó um tíma, í upphafi 18. aldar, snærisþjófurinn frægi úr Íslandsklukku Halldórs Laxness, Jón Hreggviðsson. Vestast í túnfætinum á Reyni er uppspretta sem Guðmundur góði átti að hafa vígt. Skammt fyrir neðan og innan við Reynisskipið, sem er klettamyndun í fjallinu, er Reynisrétt sem nýlega hefur verið endurbyggð og er öll hin vandaðasta.
Um 1750 var Arnes Pálsson útilegumaður í felum í Akrafjalli, nánar tiltekið í hellisskúta undir Háahnúk. Fræg er sagan af því þegar bændur gerðu út leiðangur til að handsama Arnes. Þegar hann sá þá nálgast og að undankoma yrði erfið, tók hann það ráð að dulbúast sem leitarmaður, blanda sér í hópinn, en komast síðan burt meðan leitin var sem áköfust. (Sjá meira HÉR og HÉR.)
Ingi Steinar Gunnlaugsson skólastjóri á Akranesi hefur ort kvæði um göngur á Akrafjall. Síðasta hendingin er eftirfarandi; „Útsýn af tindum er erfiðis borgun – upp skaltu paufast í dag eða á morgun“.
Áður en lagt var af stað inn með innannverðu Akrafjalli var hús tekið á Lilju Guðrúnu og Haraldi Benediktssyni á Vestra-Reyni. Þau benti FERLIR á lindina góðu skammt vestan við bæinn; sögðu að vatn væri nú tekið úr henni fyrir fólk á bæjum neðar í sveitinni enda vildi það ekkert annað en vígt vatn til drykkjar þar neðra.
Haraldur sagði Arneshelli vera í Háahnúk, ca. á þriðja stalli undir bábungunni. Þetta væri í rauninni ekki hellir heldur sylla eða skjól. Það sæist vel í kíki neðan frá þjóðveginum. Gamlir menn í sveitinni hafa sagt að syllan hafi fyrrum verið stærri, en brotnað hafi úr henni.
Reynisrétt er fallegt mannvirki innan við Reyni. Réttin var hlaðin að nýju fyrir nokkrum árum af Sigurði Brynjólfssyni frá Gerði og fleirum. Ofar er Reynisskipið fyrrnefnda. Haraldur sagði „skipið“ vera „hanka“ út úr fjallinu ofan við Reynisbæinn. Tröll hafði þrætt reipi í hann skv. sögusögnum. Það hafi síðan ætlað að draga Akrafjall á haf út í heilu lagi frá stað sem nú er Eiðisvatn, en sólin hefði komið upp áður en því tókst ætlunarverk sitt – og því fór sem fór.
Annars er þjóðsagan eitthvað á þessa leið: „Einu sinni stóð Akrafjall fyrir sunnan Hvalfjörð. Tröllskessu nokkurri, Jóka að nafni, sem átti heima vestur á Snæfellsnesi þótti það að
svo fallegt og varð hún svo hrifin af því að hún ákvað að flytja það heim til sín. Lagði hún því land undir fót eitt kvöld þegar sól var sezt og hélt suður til þess að sækja fjallið. En á heimleiðinni var skessan seinna á ferðinni en hún hafði ætlað sér því að ekki var hún komin lengra en yfir Hvalfjörð, þegar fyrstu sólargeislarnir komu í ljós og varð hún þá strax að steini. En síðan hefur Akrafjall staðið það sem það stendur enn þann dag í dag.“
Á kortum er skrifað „Garðasel“, selstaða frá Görðum. Hún er undir lágum hamravegg mitt á millum Akrafjalls og Garða. Í rauninni er um að ræða stórmerkilegar búsetuminjar allt frá landnámi, sem allt of lítill gaumur hefur verið gefinn. Áhugasömu fólki er hvorki leiðbeint að þeim né eru þar upplýsingar um merkilegheitin. Þegar FERLIR skoðaði vettvanginn mátti glögglega sjá tóftir kots sem og tilheyrandi minjar (sennilega „Grjótárkots“? Selstaðan ætti að vera mitt á milli þjóðvegarins að Akranesi frá Hvalfjarðargöngunum og vegaslóðans að gönguleiðinni upp á Akrafjall.
Tóftir Fosskots er undir fossi í Berjadalsá (skammt neðan og utan við vatnsból Akurnesinga), austan Berjadalsár. Vegur hefur verið lagður í gegnum minjasvæðið. Ofan þess er örnefnið Selbrekka, sem gefur til kynna að kotið hafi vaxið upp úr seli frá neðanverðum bæjum (FERLIR hefur ekki kynnt sér örnefnalýsingar og fornleifaskráningar á svæðinu, en mun gera það mjög fljótlega).
Í Selbrekku er beitarhúsatóft (fjárhús og heykuml), sennilega frá Fosskoti. Vestan við Berjadalsá eru tóftir, miklu mun eldri. Þar gæti verið um þá fornu selstöðu að ræða er kotið byggðist upp úr.
Flugvélaflakið er vel greinilegt undir norðvestanverðri Guðfinnuþúfu. Tilefnið fyrir leit FERLIRs að þvi var eftirfarandi skilaboð frá Skagamanninum Árna Þór Sigmundssyni: „Ég átti leið í Akrafjallið fyrir nokkrum dögum og þar gekk ég fram á flugvélaflak í fjallinu ofan við bæinn Ós, tók myndskeið á símann minn og sendi ykkur. Ég sagði frá því á sínum tíma frá þessu flaki, sem er af Dakotavél er fórst þar 22. nóvember 1955.“ Á myndskeiðinu mátti sjá ýmsa gripi úr flugvélaflakinu. Áhugavert væri að heyra frá fróðleiksfólki er veit meira um þetta efni.
Flugvélabrakið er dreift um neðanverða hlíðina; hjólagaffall, álþynnur, rör, leiðslur og ýmislegt það er getur talist áhugavert. Augljóst var að flugvélinni hafði verið flogið á klettavegginn ofanverðan, en brakið síðan runnið niður skriðurnar fyrir neðan. Sumt af því hefur þegar grafist undir grjóti, en annað léttara fokið til í hlíðinni (sjá meira um flugslysið HÉR).
Á bakaleiðinni var gengið fram á skeifulega rétt undir hamrinum neðan við vatnsbólið fyrrnefnda. Réttin (eða gerðið) virtist vera frá síðari tímum þrátt fyrir steinhlaðninginn.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.
Heimild m.a.:
-akranes.is
-Haraldur Benediktsson og Lilja Guðrún frá Vestri-Reyni.