Þegar FERLIR var á göngu um Reykjanesið, þ.e. frá Sandvík um Mölvík, Háleyjar, Krossavíkurberg, Krossavík, Rafnkelsstaðaberg og Reykjanestá áleiðis að Valbjargargjá og Valahnúkamöl var tækifærið notað til að rekja forna rekagötu um svæðið.
Engar heimildir eru til um götuna, en hún hefur af augljósum ástæðum legið frá Stað í Staðarhverfi ofan misgengisins að endimörkum landsins á Valahnúksmöl. Frá henni eru hliðargötur niður í fyrrnefndar víkur austan Háleyja. Gatan hefur síðar verið löguð fyrir mjóa vagna til að flytja rekann, unninn og óunninn. Tilvist hennar styrkir þá trú manna að landamerki Staðar og Hafnabæjanna hafi fyrrum verið a.m.k. um miðja Valahnúkamöl.
Rekagatan er greinileg á köflum, bæði austan við Gunnuhver, ofan við Mölvík, Litlu-Sandvík og milli Staðarhverfis og Járngerðastaðahverfis, og síðan norðan við Reykjanesvita og ofan við ströndina að Stóru-Sandvík. Þá sést hún vel ofan við Gömlu-Hafnir og áfram áleiðis að Höfnum. Ofan við Háleyjar og í hrauninu ofan við Staðarberg.
Gatan hefur verið unnin á köflum, væntanlega sem vagnvegur, og sést þá eldri hluti hennar til hliðar við úrbæturnar. Milli Vatnsfells og Stóru-Sandvíkur er gatan vörðuð og hefur augljóslega verið unnin sem vagnvegur.