Tag Archive for: Réttartangar

Fuglaþúfa
Gengið var um Flekkuvíkurheiði um Miðmundarhóla, Arnarvörðu, Tvívörðuhól og áfram niður og norðvestur heiðina áleiðis að Réttartöngum vestan Keilisness. Gróðureyðingin er nokkur á heiðinni, en þó má víða sjá geldingarhnapp, blóðberg og lambagras vera að festa rætur í moldardældum á vindsorfnum melum. Það sem vekur mesta athygli á þessu svæði eru reglulegar fuglaþúfur, háar og stæðilegar. Þær gefa til kynna að þarna hafi verið kjörlendi mófugla um allnokkurt skeið. Þúfurnar hafa löngum verið yfirlitsstaðir spóa, kjóa, stelks, tjalds og smærri fugla, en auk þess hefur mávurinn nýtt sér aðstöðuna í heiðinni. Stundum hafa þúfur þessar verið nefndar hundaþúfur af einhverri ástæðu.

Keilisnes

Keilisnes – fornleifayfirlit.

Hundaþúfur voru vel kunnar víða. Sennilega er nafnið til komið vegna merkingaráráttu hunda, en fuglaþúfur eru oft hæstu og jafnvel einu kennileitin í móum og á heiðum.
Miðmundarhólar eru skammt ofan við afleggjarann að Flekkuvík. Þetta er rismikil og falleg hólaþyrping er ber við himinn. Hólarnir eru líklega eyktarmark frá Flekkuvíkurbæjum og ofan þeirra eru Miðmundarlágar. Í þeim er Mundastekkur. Á háheiðinni norðvestur af Miðmundarhólum, nær Strandarveginum, er Arnarvarða, eða hluti hennar, á hól, en við hólinn norðanverðan liggur gamli Almenningsvegurinn. Arnarvarða er á mörkum Flekkuvíkur og Kálftjarnar.

Fuglaþúfa

Fuglaþúfa.

Tvívörðuhóll heitir hóllinn rétt niður og vestur af Arnarvörðu, fast við Strandarveginn. Vestan undir honum er Mundastekkur, sem líklega er frá Flekkuvík. Á hól fast upp af og við Tvívörðuhól er braggagrunnur af einni varðstöð stríðsáranna og að henni liggur greinilegur vegarslóði. Tvívörðuhæð er hæðin þarna kölluð, en Tvívörður voru neðan Strandarvegar. Skammt vestan Tvívörðuhóls eru fallnar hleðslur á tveimur stöðum á lágum klapparhól. Þar sem hæðin er hæst skammt vestar er kallað Hæðin. Á henni er Stefánsvarða, neðan vegar. Í línu til norðurs austan í Hæðinni eru þrjár lágar hæðir. Á hverri þeirra eru fallegar fuglaþúfur. Í línu við þær er hrunin varða á lágri klapparhæð. Hún er í línu við aðra vörðu á hæð ofan Strandarvegar með stefnu í Flekkuvíkurvörina. Keilisnesið er ysta nesið til norðurs, en Réttartangar eru vestar, skammt austan við tóftir Borgarkots.

Fuglaþúfa

Fuglaþúfa.

Í skýrslu, sem Jóhann Óli Hilmarsson vann fyrir Hönnun h.f. í mars 2001, „Fuglalíf við Reykjanesbrautina“, segir m.a. að „geta má eins náttúrufyrirbæris, sem tengist fuglum og er alláberandi víða á vegarstæðinu. Þetta eru fuglaþúfur (sbr. Guðrún Á. Jónsdóttir 2001). Fuglaþúfur einkenna íslenskt landslag og þekkjast hvergi annars staðar svo nokkru nemi. Ekki hefur
verið gerð nein sérstök úttekt á þeim við Reykjanesbraut, dreifingu né öðru, en þær eru sérstaklega áberandi nærri Vogaafleggjara, þar sem ein umferðarbrúin mun rísa.“
Skýrslan fjallar m.a. um fuglalíf á svæðinu, fugla í útrýmingarhættu og fjölda fugla á ákveðnum stöðum. Þá er ljóst að ástæða hefur verið til að tiltaka fuglaþúfur sérstaklega, sem aftur bendir til sérstöðu, eða öllu heldur ásýnd þeirra á heildarmynd umhverfisins á þessu svæði.

Keilisnes

Keilisnes – fuglaþúfa.

Til fróðleiks er þess getið að færuskrúfur vex oft í skjóli fuglnaþúfna. Hann er útbreiddur um allt land, þó algengari á Norðurlandi en á Suðurlandi. Hæruskrúfurinn vex gjarnan á jarðvegsþöktum klettum eða steinum, oft við vörður eða fuglaþúfur. Héluvorblóm vex þar einnig. Það er smávaxin jurt með hélugrá stofnblöð, vegna stjörnuhára sem þekja yfirborð blaðanna. Það vex mjög strjált um landið og vex gjarnan uppi á hæðum, hólkollum eða fjöllum, oft við vörður eða fuglaþúfur.
Í nefndri skýrslu kemur fram að „á válista eru skráðir þeir varpfuglar, sem eru í hættu af ýmsum ástæðum
(Náttúrufræðistofnun 2000). Ernir urpu fyrrum í Arnarkletti í Vatnsleysuvík og Afstapahraun mun hafa heitið Arnstapahraun fram eftir 18. öld, þegar nafn þess breyttist. Ekki er nákvæmlega vitað hvar Arnstapinn var og hvort hann stendur enn (Haukur Jóhannesson og Kristinn Haukur Skarphéðinsson, munnl. uppl.). Ernir hafa smátt og smátt verið að nema land á gömlum varpstöðum og hafa sést á allra síðustu árum, m.a. í
Kúagerði, en sennilega er óróleiki of mikill á þessum slóðum fyrir hina styggu fugla.

Borgarkot

Borgarkot – rétt.

Hrafnar verpa á nokkrum stöðum nærri Reykjanesbraut. Sá staður sem næstur er brautinni er Virkishólar. Tvö hrafnasetur eru í Hrafnagjá og tvö í Vogastapa. (Kristinn H. Skarphéðinsson o.fl. 1990).
Aðrar válistategundir, sem nefndar hafa verið hér á undan á hugsanlegu áhrifasvæði Reykjanesbrautar eru himbrimi, grágæs, fálki, fjöruspói og svartbakur. Ekki þykir ástæða til að hafa sérstakar áhyggjur af þessum fuglum.“

Borgarkot

Borgarkot – refagildra.

Ljóst er að vargurinn hefur tekið sér örugga bólfestu í heiðinni ofan við Borgarkot. Leifar af tveimur hlöðnum refagildrum gefa tilefni til að íhuga hvort ekki væri ástæða til að gefa skolla gamla á nýjan leik tímabundinn séns á svæðinu.
Heiðin ofan við Keilisnes virðist hrá og líflaus, en sá sem gengur um hana að kvöldlagi í sól og stillu verður annarrar skoðunar.
Við Borgarkot eru fjölmargar minjar og sumar hverjar einstakar.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 11 mín.

Heimild m.a.:
-http://216.239.59.104/search?
-Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi – Sesselja G. Guðmundsdóttir – 1995.
-http://www.natmus.is/thjodminjar/

Borgarkot

Borgarkot – uppdráttur ÓSÁ.