Færslur

Laugarás

Laugarás var friðlýstur sem náttúruvætti með auglýsingu nr. 41/1982 í Stjórnartíðindum B samkvæmt heimild í 22. gr. laga um náttúruvernd nr. 47/1971. Stærð: Friðlýsta svæðið er 1,5 hektarar.

Laugarás

Laugarás – friðlýsing 1982.

Samkvæmt lögum um náttúruvernd nr. 44/1999 hefur Umhverfisstofnun umsjón með svæðinu, en Reykjavíkurborg var falin dagleg umsjón þess og rekstur svæðisins með umsjónarsamningi árið 2015.

Verndargildi Laugaráss felst fyrst og fremst í verndun jarðminja á svæðinu, en þar er að finna grágrýtisklappir sem eru í senn jökulsorfnar og bera ummerki um hæstu sjávarstöðu við lok ísaldar í Reykjavík.

Náttúruvættið Laugarás er 1,5 hektarar að stærð. Það er staðsett efst á Laugarásholti í Langholtshverfi í Reykjavík.
Jarðminjar í Laugarási eru afmarkaðar við hæsta punkt. Þar er að finna grágrýtisstórgrýti, ávalar klappir og hnullunga sem talin eru vera um 200 þúsund ára og eru hluti af Reykjavíkurgrágrýtismynduninni. Jöklar ísaldar mótuðu grágrýtið og má sjá jökulrákir á stærri hnullungunum. Við lok ísaldar hækkaði sjávarborð og var Laugarás einn af fáum stöðum sem var ekki neðansjávar þegar sjávarstaðan var sem hæst og má sjá ummerki um það á svæðinu.

Laugarás

Laugarás – friðlýsingarmörk.

Jarðminjar svæðisins veita mikilvæga sýn í jarðsögu Reykjavíkur og upplýsingar um loftslags- og landháttabreytingar. Jarðminjarnar eru víða þaktar mosa og hrúðurfléttum. Áður fyrr var holtagróður ríkjandi á svæðinu, en hann á nú undir högg að sækja vegna lúpínu og trjágróðurs. Lúpínan myndar stórar og þéttar breiður og sem stundum skyggja á eða hylja jarðmyndanirnar. Heildarþekja lúpínu á svæðinu er um 50-60%. Birki er algengasta trjátegundin, en einnig er mikið um selju.
Aðrar trjátegundir sem finnast eru reynir, viðja, alaskavíðir, loðvíðir, stafafura og elri. Ýmsir fuglar halda til á svæðinu, s.s. stari, svartþröstur og auðnutittlingur. Flugur og fiðrildi eru mest áberandi af skordýrum, einkum hunangsflugur, geitungar, birki- og víðifetar og ýmsar tvívængjur. Innan um gróðurinn er nokkuð um hattsveppi.

Laugarás

Laugarás.

Í náttúruvættinu hefur verið lagður göngustígur frá bílastæði við Vesturbrún upp að hæsta punkti svæðisins. Við göngustíginn stendur fræðsluskilti. Töluvert margir aðrir stígar, misgreinilegir, hafa myndast í gegnum svæðið, en um er að ræða troðninga en ekki eiginlega stíga. Flestir þeirra liggja að hæsta punkti svæðisins, en þar er steypustöpull sem skilgreinir mælingapunkt frá Landmælingum Íslands.
Bílastæði eru við jaðar svæðisins að sunnanverðu í Vesturbrún sem ætluð eru gestum Áskirkju en nýtast vel þeim sem vilja heimsækja Laugarás. Við göngustíg rétt utan friðlýsta svæðisins að norðaustanverðu er nýlegur bekkur og ruslafata. Þá er bekkur við Vesturbrún við suðurenda svæðisins og annar hinu megin við götuna hjá Áskirkju.

Laugarás

Laugarás (MWL).

Laugarás hefur mikið gildi sem útivistarsvæði. Svæðið liggur hátt og er útsýni gott til allra átta, yfir borgarlandið, sundin og til fjalla. Svæðið er í miðri íbúabyggð og er nálægt öðrum mikilvægum útivistar- og náttúrusvæðum, Laugardal og Laugarnesi.

Laugarás hefur mikið fræðslu- og menntunargildi, t.d. fyrir nálæga leik- og grunnskóla, sem og almenning. Jarðminjarnar veita tækifæri til fræðslu á sviði jarðfræði, jarðsögu og landafræði. Gróðurfar svæðisins veitir tækifæri til fræðslu í grasafræði, vistfræði og annarri náttúrufræði. Þá halda spörfuglar sig á svæðinu og ýmis smádýr.
Staðsetning svæðisins í miðju þéttbýli gefur tækifæri til fræðslu í umhverfisfræði um tengsl manns og náttúru, áhrif garðyrkju á náttúruleg gróðurlendi, sorp, aðra mengun og fleira.
Útsýnið yfir Reykjavík veitir tækifæri til fræðslu í landafræði Reykjavíkur, byggingar- og skipulagssögu, arkitektúr og fleira.

Laugarás

Laugarás – steinstöpull fyrrum.

Vernda skal jarðminjar náttúruvættisins Laugaráss og gæta þess að framkvæmdir og ágangur manna rýri ekki ásýnd þeirra eða breyti landslagi svæðisins. Uppbyggingu innviða skal vera þannig háttað að þeir falli vel að landslaginu og rýri ekki ásýnd svæðisins. Tryggja skal að ástand og sýnileiki jarðmyndana verði eins og best verður á kosið. Við skipulag og framkvæmdir innan svæðisins skal verndun jarðminja höfð að leiðarljósi.

Jarðminjarnar á svæðinu eru afmarkaðar við hæsta punkt svæðisins. Um er að ræða grágrýtisstórgrýti, ávalar klappir og hnullunga sem tilheyra stóru Reykjavíkurgrágrýtismynduninni.

Laugarás

Laugarás.

Aldur grágrýtisins í Laugarási er líklega um 200 þúsund ára þegar upphleðsla Reykjavíkurgrágrýtisins var sem viðamest. Jöklar ísaldar mótuðu grágrýtið í Laugarási eins og víða annars staðar í Reykjavík og má sjá jökulrákir á stærri hnullungunum. Við lok ísaldar hækkaði sjávarborð til muna þegar jöklar bráðnuðu og var Laugarás einn af fáum stöðum á núverandi landsvæði Reykjavíkur sem var ekki að fullu neðansjávar þegar sjávarstaðan var sem hæst en þá var hún um 45 metrum hærri en hún er í dag. Aðeins efsti hluti Laugaráss stóð upp úr þannig að hann var lítið meira en sker. Ummerki um þetta má sjá á stórgrýti nálægt efsta punkti sem er lábarið af öldugangi. Ummerkin eru svipuð og sjá má í Öskjuhlíð þó í minna mæli séu.

Laugarás

Laugarás – fræðsluskilti.

Umhverfis- og skipulagssvið Reykjavíkur hefur látið hanna, smíða og setja upp fræðsluskilti um þrjú friðlýst náttúruvætti í landi Reykjavíkur, Fossvogsbakka, Háubakka og Laugarás. Náttúruvætti er einn flokkur friðlýstra náttúruminja og eru skilgreind sem einstök náttúrufyrirbæri, jarðmyndanir eða lífræn fyrirbæri, sem skera sig úr umhverfinu og er ástæða til að varðveita vegna fegurðar, fágætis, stöðu í landslagi, vísindalegs gildis eða öðrum sambærilegum ástæðum.

Laugarás í Langholtshverfi var friðlýstur sem náttúruvætti árið 1982 vegna áhugaverðra jarðminja, einkum jökulsorfins grágrýtis og ummerkja um forna sjávarstöðu.

Laugarás

Laugarás – frá undirskrift Verndar- og stjórnunaráætlunar um Laugarás 2015.

Við lok ísaldar hækkaði sjávarborð til muna þegar jöklar bráðnuðu og var Laugarás einn af fáum stöðum á núverandi landsvæði Reykjavíkur sem var ekki að fullu neðansjávar þegar sjávarstaðan var sem hæst en þá var hún um 45 metrum hærri en hún er í dag. Aðeins efsti hluti Laugaráss stóð upp úr þannig að hann var lítið meira en sker. Ummerki um þetta má sjá á stórgrýti nálægt efsta punkti sem er lábarið af öldugangi.

Meginmarkmið með gerð verndar- og stjórnunaráætlunar fyrir svæðið er að leggja fram stefnu um verndun náttúruvættisins og hvernig viðhalda skuli verndargildi svæðisins.
Verndar- og stjórnunaráætlunin var unnin af starfsfólki umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkurborgar og Umhverfisstofnunar árið 2015 og er sett í samræmi við lög nr. 44/1999 um náttúruvernd.

Heimildir:
-http://www.umhverfisstofnun.is
-https://reykjavik.is/laugaras
-https://reykjavik.is/frettir/samid-um-thrju-fridlyst-svaedi-i-reykjavik
-https://reykjavik.is/frettir/ny-fraedsluskilti-um-fridlystar-jardminjar
-Auglýsing um Friðlýsingu Laugaráss í Reykjavík (1982). Stjórnartíðindi, B-deild, nr. 41.
-Árni Hjartarson (1980): Síðkvarteri jarðlagastaflinn í Reykjavík of nágrenni, Náttúrufræðingurinn, 50:108-117.

Laugarás

Laugarás – jökulssorfið hvalbak.