Tag Archive for: Reykdalsstíflan

Jóhannes Reykdal

Við Reykdalsstífluna neðan Lækjarkinnar er upplýsingaskilti Byggðasafns Hafnarfjarðar um Hörðuvallastöðina og fyrstu almenningsrafveituna á Íslandi. Á því má lesa eftirfarandi texta og sjá meðfylgjandi myndir:

Hörðuvallastöðin

Hörðuvallastöðin – skilti.

„Fyrsta almenningsrafveita á Íslandi tók til starfa í Hafnarfirði árið 1904. Rafstöðin var við Austurgötu og í eigu Jóhannesar Reykdal. Vegna mikillar eftirspurnar eftir raforku í bænum árið eftir var ákveðið að reisa nýja og mun stærri rafstöð við Hörðuvelli. Jóhannes leigði landið af staðarhaldara á Görðum en auk stíflunnar lét hann reisa langan vatnsstokk og stöðvarhús með íbúð fyrir stöðvarstjórann og fjölskyldu hans. Hörðuvallahúsið er fyrsta rafstöðvarhús sem reist var á Íslandi.

Jóhannes Reykdal

Jóhannes Reykdal – minningarskjöldur við fótstall styttu af Jóhannesi á Reykdalsstíflunni ofan Hörðuvallarstöðvarinnar.

Þessi nýja virkjun var tekin í notkun haustið 1906 og var gerð fyrir 37 kW en vegna vatnsleysis gat hún aldrei framleitt meira en 22 kW. Árið 1909 keypti Hafnarfjarðarbær báðar rafstöðvarnar af Jóhannesi og í kjölfarið var stofnuð rafljósanefnd. Rafmagnssölunni var þannig háttað á þessum árum að einungis var hægt að fá rafmagn á svokölluðum ljósatíma en hann var frá því að skyggja tók og fram til miðnættis á tímabilinu 15. ágúst til 15. maí. Á öðrum tímum var ekkert rafmagn að fá.

Jóhannes Reykdal

Tréstokkurinn milli Reykdalsstíflunnar og Hörðuvallastöðvarinnar.

Árið 1914 var vatnsstokkurinn frá stíflunni og niður að stöðvarhúsi orðinn svo lélegur að ákveðið var að stytta hann og rafljósastöðin færð frá íbúðarhúsinu í nýtt hús er stóð mun nær stíflunni.

Jóhannes Reykdal

Stytta af Jóhannesi Reykdal á Reykdalsstíflunni.

Fljótlega var ljóst að þessar tvær rafstöðvar nægðu ekki til að veita þá raforku sem Hafnarfjarðarbær þurfti á að halda. Margar leiðir voru skoðaðar en að lokum var brugðið á það ráð að reisa dísilrafstöð við Strandgötu og var það fyrirtækið Nathan & Olsen sem átti og starfrækti þá stöð.

Reykdalsstífla

Reykdalsstífla.

Það var árið 1922 sem sú stöð tók til starfa og sá hún bænum vestan lækjar fyrir rafmagni en eldri stöðvarnar sáu um þann hluta bæjarins sem var sunnan lækjar. Þetta fyrirkomulag stóð stutt því að árið 1923 var neðri rafstöðin lögð niður og þremur árum síðar var svo komið að Hörðuvallastöðin gat ekki lengur séð íbúum sunnan lækjar fyrir nægilegu rafmagni. Var hún þá einnig lögð niður og eftir það sá stöð Nathan Olsen öllum bænum fyrir raforku.

Stöðvarstjórar við Hörðuvallastöðina voru Jón Þórðarson (1906-1908), Þórður Einarsson (1908-1914) og Árni Sigurðsson (1914-1926).“

Jóhannes Reykdal

Endurgerður tréstokkurinn milli fyrrum Hörðuallarafstöðvarinnar og Reykdalsstíflu.