Tag Archive for: Reykjanesbær

Camp Hopkins

Skammt norðan Nesvegar millum Reykjaness og Reykjanesbæjar hefur tveimur tilbúnum vörðum fyrir komið; nokkurs konar minnismerkjum.  Á sitthvorri vörðunni er skilti þar sem á má lesa eftirfarandi texta:

Varða við Nesveg

Vestari varðan, minnismerki um Camp Hopkins.

Á þeirri vestari; „Bandaríski herinn á Íslandi

Vorið 1941 kom Churchill forsætisráðherra Breta fram með þá tillögu við Fanklin Roosevelt forseta Bandaríkjanna, að bandarískur her leysti sveitir Breta af. Roosevelt var tregur til að senda hermenn án þess að ósk um slíkt kæmi frá íslenskum stjórnvöldum. Engu að síður þá var snemma í júní tekið til við að udnirbúa för bandarísks herliðs til Íslands. Bandarískar könnunarsveitir voru sendar til landsins til að skoða hugsanlega staði fyrir eftirlitsflugvelli og safna gögnum um húsnæði og lífskjör; loftvarnir, varnir við ströndina og við hafnir; og ástand hernaðarmannvirkja.
Bandaríkjamenn fengu formlegt boð frá Hermanni Jónassyni, forsætisráðherra Íslands, í júlí 1941. Þann sama dag tilkynnti bandaríkjaforseti þinginu um ráðstöfun sveita úr loft-, land- og sjóher til Íslands.

Bandarískir sjóliðar fyrstir á staðinn

Camp Hopkins

Ljósmynd á vestari vörðunni.

Fyrsta stórfylki sjóhersins, undir stjórn John Marston, hershöfðingja, var fyrsta bandaríska herliðið sem kom til Íslands. Það lenti við Reykjavíkurhöfn 7. júlí og fékk brátt liðsauka frá flugher, flota og landher.
Sjóliðarnir bjuggu upphaflega til bráðabirgða í Nissenskálum sem bresku hersveitirnar höfðu reist og hófust brátt handa við að byggja nýjar herbúðir. Victoria Park og Camp MacArthur, tvær samliggjandi herbúðir í Mosfellssveit norðaustur af Reykjavík, voru teknar í notkun af fyrsta herfylki. Annað herfylki kom sér fyrir í Camp Baldurshagi. Þriðja herfylki tók yfir breskar búðir, Camp Brautarholt, sem voru staðsettar á klettanesi nálægt innsiglingunni í Hvalfjörð. Þetta voru litlar ókláraðar búðir án rafmagns eða pípulagna. Hlöðu hafði verið breytt í matsal yfirmanna. Fimmta varnarherfylki, loftvarnasveit, var dreift í nokkrar búðir nálægt höfninni og fyrir austan borgina. Stórskotaliðið sá um að manna byggingarflokka sem reistu marga Nissenskála og önnur herbúðarmannvirki og byssustæði.

Camp Hopskins

Ljósmynd á vestari vörðunni.

Sjötta sjóliðasveit sem var hreyfanleg sveit, fékk það verkefni að byggja nýjar herbúðir til að hýsa sveitir landhersins. Litlar búðir með Nissenskálum höfðu áður verið reistar af Bretum, en pípu- og raflagnir og aðra aðstöðu átti enn eftir að útbúa. Sjóliðarnir reistu þess bráðabirgðaskála með hraði sem svefnskála, spítala, kirkjur, matsali, bíósali, vöruhús og skrifstofur. Í janúar 1942 fékk Sjóherinn skipun um að láta Landhernum eftir herbúðir sínar og snúa aftur til Bandaríkjanna þar sem þeim yrði fengin önnur verkefni. Í mars höfðu stórar sveitir bandaríska flotans. landhersins og flugsveita landhersins (AAF) komið sér fyrir á Íslandi.“

Á þeirri austari; „Bandaríkjaher tekur við stjórninni

Varða norðan Nesvegar

Austari minnisvarðinn um Camp Hopkins norðan Nesvegar…

Í apríl 1942 var skiptingunni frá bresku herliði yfir í bandaríkst herlið að mestu lokið. 22. apríl tók Bandaríkjaher við yfirstjórn herliðsins á Íslandi, undir stjórn Charles H. Bonesteel majórs. Boonesteel setti upp aðalstöðvar í Camp Tadcaster (sem var endurskírður Camp Pershing) við Elliðaár í Reykjavík, og var þá 3 km fyrir utan borgina og 1.5 km fyrir austan fyrrum höfuðstöðvar breska hersins í Camp Alabaster.
Hersveitirnar voru dreifðar um fjöldan allan af herbúðum innanbæjar, fyrir austan borgina, í Hafnarfirði í suðri og í Mosfellsbæ í norðaustri. Aðalstöðvar bandaríska flotans voru staðsettar í Camp Knox í norðvesturhluta Reykjavíkur og flugstöðvar flotans tóku yfir tvær stórar herbúðir við norðurströnd Fossvogs nálægt flugvellinum sem Bretar höfðu byggt. Flestar þessara búða hafa nú horfið vegna stækkunar borgarinnar. Þær fáu byggingaleifar sem enn standa eru vel varðveittar steinhleðslur, skorsteinar, vegir, stígar og stöku virki.

Herbúðabyggingar og herbúðalíf

Camp Norflok

Uppbygging braggabyrgðar

Liðsafli verkfræðisveita sem áttu að sjá um byggingu herbúða var lítill og var oft aukinn með mönnum frá öðrum sveitum auk innlendra verkamanna. Verkið sóttist seint vegna óblíðs veðurfars og upp komu alvarleg tæknileg vandamál. Aðflutningar byggingarefnis voru mikið vandamál þar sem Ísland var langt frá birgðastöðvum hersins.
Stórskotalið sem áttu að byggja fleiri herbúðir sendu vinnuflokka á valda staði til að reisa Nissenskála undir verkstjórn fárra manna úr sveit konunglegra verkfræðinga. Ekki var óalgengt að mennirnir ynnu 16 stundir á sólarhring og fjöldinn allur af herbúðum var reistur á nokkrum vikum. Hópur sex eða fleiri manna gat reist skála á nokkrum klukkustundum. Hóparnir luku 16 skálum á dag.

Camp hopkins

Camp Hopkins.

Nissenskálarnir var einfaldur í smíði. Endar hvers skála voru gerðir úr þremur viðareiningum sem mhægt var að setja saman á nokkrum mínútum. Klæðningin að innanverðu var gerð úr viðarplötum á 4×2 stálgrind. Bogadregnir veggirnir og þakið voru klæddir bárujánsplötum. Tvö lög að málmplötum voru sett neðst í hliðarnar en þakið var með einfaldri klæðningu. Byggingunni var haldið uppi af sveigðum burðarbitum (T-bitum) úr stáli. Hverjum skála fylgdi fullkomið sett af verkfærum og tækjum. Það eina sem þurfti að gera á staðnum var að útbúa grunn úr steinsteypu eða hraunkubbum.“

Fyrrnefndir braggar voru nefndir eftir hönnuðinum, Bjorn Farlein Nissen, en hann fæddist í Gjorvik nálægt Osló 1863, fluttist til Ameríku og starfaði þar við hönnun.

Camp Hopkins

Camp Hopkins -uppdráttur.

Keflavík

Dr. Fríða Sigurðsson skrifaði árið 1972 í Sunnudagsblað Tímans um upphaf þéttbýlis, „Tvær aldir í Keflavík„:
Keflavik -221„Í Keflavík hafði öldum saman aðeins verið bóndabær. Víkin hafði reyndar verið notuð sem höfn, ef ekki fyrr, þá að minnsta kosti með vissu síðan í byrjun 16. aldar, en enginn kaupmaður hafði þar fast aðsetur á undan Holger Jacobæus. Því hefur reyndar verið haldið fram, að Christen Adolph, sonur Holgers, hafi fæðzt í Keflavík, og hefði það þá verið árið 1766 eða 1767, en ekki hef ég getað fundið sannanir fyrir byggð í Keflavík á timabilinu á undan 1772. Heldur ekki í manntali frá 1816 finnst nokkurt fólk, sem sagt er fætt í Keflavík á þessu tímabili, og hefði manneskja, fædd 1766, þá þó ekki verið eldri en um fimmtugt!

Keflavík

Keflavík 1877.

Því þykir mér rétt að álíta árið 1772 fæðingarár Keflavíkurbyggðar, og var stundin sú, þegar Holger Jacobaeus ásamt fjölskyldu sinni og fylgdarliði steig í land í Keflavík, sennilega einn góðan vordag í júni 1772.
Í byrjun 16. aldar vitum við um Englending, Robert Legge frá Ipswich, sem árið 1540 kvaðst hafa stundað Íslandssiglingar í 26 eða 27 ár og lent þar meðal annars í Keblewyckey. (Björn Þorsteinsson: Enskar heimildir um sögu Íslands á 15. og 16. öld, bls. 94). Og það muna allir, að Hallgrímur Pétursson kom út 1637 á Keflavíkurskipi. En byggð var þar ekki nema eitt lítið kotbýli. Þó að Hallgrímur hafi ef til vill verið púlsmaður í sjálfri Keflavíkinni, þá bjó hann á Bolafæti i Njarðvíkurlandi! Og enn var aðeins einn bóndabær í Keflavík 125 árum seinna, þegar manntal var tekið 1762.

Keflavík

Frá Keflavík.

Þéttbýlið og mannfjöldinn voru í Leirunni, í Garðinum, á Rosmhvalanesi og í Kirkjuvogi, en fjölsetnasta hverfið var Stafnes með hjáleigum sínum. Þar hafði konungsútgerðin bækistöð sína, þar sat fyrsti íslenski landfógetinn, Guðni Sigurðsson. Og þegar Skúli Magnússon hafði tekið við þessu embætti, var Stafnes sýslumannssetur í tvö ár. Jafnvel Hólabiskupsstóllinn lét róa frá Stafnesi. Og í nánustu nánd við útvegsstaðinn Stafnes voru verzlunarstaðirnir, Þórshöfn, á 18. öld ekki lengur notuð, og Bátsandar, eins og þessi staður var skrifaður þá, síðan 1640 hin löggilta höfn danska konungsins á Suðurnesjum.
Þetta gerbreyttist, þegar konungsútgerðin var tekin af. Eftir því sem útgerðin á Stafnesi og með henni verzlunin á Bátsöndum minnkaði færðist byggðin til og Keflavík reis úr ómerkilegu kotbýli, þangað til hún varð höfuðstaður Suðurnesja.

Stafnes

Á Stafnesi.

Konungsútgerðin hafði lengi barizt í bökkum, og margt heilræði hafði verið reynt, en þegar rentukammer reiknaði loksins út, að kostnaðurinn við kost, föt og laun þeirra manna, sem stöðugt varð að hafa við útgerðina (ráðsmann, smið, fjóra vinnumenn, tvær stúlkur, einn dreng), nam nærri 250 ríkisdölum meira en hvað allt fiskiríið með innstæðubátum fimmtán færði inn, þá fékkst konungurinn til að afnema konungsútgerðina með lögum þann 12. desember 1769. Bátarnir fimmtán og sjóbúðirnar þrjár voru seldar og fasta starfsfólkið sent heim. Varð það endirinn á hinu illræmda mannsláni og að upphafi Keflavikurbyggðarinnar!

Keflavík

Keflavík 1901.

Eftir að hætt var að gera út frá Stafnesi, lögðust fyrst hjáleigurnar, hinir svokölluðu Refshalabæir, í eyði. Á Stafnesi sjálfu hélt bóndinn, Magnús Jónsson, áfram að búa, og eftir hans andlát 1784 ekkja hans, Helga Eyvindsdóttir, þá orðin 73 ára gömul. 1786 eru aðeins þrir menn búsettir á þessum áður svo fjölmenna stað,1790 jafnvel bara tveir, hjón ein. Þau tolldu þar fram undir aldamót og ólu á þessum árum nokkur börn, en þegar þau fóru burtu, lagðist Stafnes í eyði. Tók þessi þróun ekki nema þrjátíu ár. Með útveginum á Stafnesi hnignaði einnig verzlunin á Bátsöndum. Frá því að konungsútgerðin var afnumin 1769, sat enginn kaupmaður á Bátsöndum þangað til Dýnus Jespersen kom 1777.

Básendar

Básendar – gamli bærinn.

1778 var enn einu sinni nítján manns búsett þar. 1789 tekur Hinrik Hansen við af Jespersen, síðasti kaupmaðurinn á Bátsöndum. Þegar flóðið fræga braut húsin varð hann að yfirgefa staðinn. Hann fékk fyrst húsaskjól á Loddu, en hreiðraði þá um sig „á eyðibýlinu Stafnesi“. Þar dvelst kaupmannsfólkið enn, þegar manntal er tekið árið 1800, en 1801 flyzt það, eins og kunnugt er til Keflavíkur. Simon Hansen hlýtur að hafa áttað sig á því að ekki var hægt að snúa vísi tímaklukkunnar til baka. Hann hlýtur að hafa gert sér ljóst, að verzlunarstaðurinn hafði verið á niðurleið síðustu þrjátíu árin, og átti sér ekki viðreisnar von. Að flóðið setti bara punktinn yfir i-ið, sem skrifað hafði verið 1769. Þess vegna settist hann að í Keflavík, þó að þar væri annar kaupmaður fyrir. Því einnig í Keflavík höfðu tímarnir breytzt. Þar sem 1762 höfðu aðeins búið nokkrar sálir, var tíu árum seinna risinn vísir að byggð.

Keflavík

Í tveimur greinum í Faxa, blaði Suðurnesjamanna, hef ég skýrt frá því, að þegar árið 1772 hljóti fleiri menn að hafa búið í Keflavík en bóndinn og hans fjölskylda. Í jólablaðinu 1969 hef ég sagt frá því, að snemma árs 1773, áður en vorskipin komu út, hafi einhver borgarafrú Brickers dáið í Keflavík, augsýnilega erlend kona, sem ekki tilheyrði Keflavíkurkotinu, og barn eitt fæðzt, Gottfrede Elisabeth, dóttir kaupmannshjónanna Jacobæus, og hljóta hjónin að hafa dvalizt í Keflavik árið áður. En guðfeðginin við skírnina voru þrír Danir. Ályktaði ég af þessu, að allt þetta fólk hafi búið i Keflavík þegar árið 1772, rúmum tveimur árum eftir að konungsútgerðin hafði verið tekin af með lögum þann 12 desember 1769. Eftir var þá að leysa fyrirtækið upp. Salan gekk treglega, og getur vel hafa dregizt fram á árið 1771, og var það sennilega þar af leiðandi, að kaupmaður settist að í Keflavík. Í maíblaði 1970 hef ég þá fært sönnur fyrir þessari tilgátu minni um byggð í Keflavík árið 1771 með því að benda á „Suðurnesjabókina gömlu“, eins og ég nefndi hana, skattabók Rosmhvalaneshrepps fyrir árin 1772 til 1778. En sá hreppur náði á þeim tima alla leið frá Bátsöndum um Miðnes, Garðinn og Leiruna til Keflavíkur. Hefur bók þessi verið í öruggri geymslu að Útskálum þangað til 1901. Þegar hún komst á þjóðskjalasafnið var gert við hana, og er hún nú í öruggu bandi og tættu blaðkantarnir festir á pergament. Hún er fallega skrifuð og auðlæsileg. Þessi gamla hreppsbók byrjar nú einmitt á þessu sama ári, 1772, og staðfestir hún, að 1772 hafi verið tveir „kaupstaðir“ í hreppnum, Bátsandar og Keflavík, og í Keflavík hefur þá setið kaupmaður, undirkaupmaður, „annað þeirra þjónustulið“ og „búlausir menn“. Var signor kaupmaður Jacobæus skatthæsti einstaklingurinn í hreppnum, en „Keflvíkingar“ hafa á þessu ári 1772 borið nærri því helminginn opinberra gjalda!

Keflavík

Kaupmannssetrið á Bátsöndum hélzt enn um 25 ára skeið við hliðina á hinu nýja kaupmannssetri í Keflavík, en um aldamótin lagðist það niður eins og kunnugt er, og einnig byggðin á Stafnesi fór þá i eyði, en báðir þessir staðir höfðu verið i mestum blóma meðan konungsútgerðin var og hafði aðsetur sitt á Stafnesi og höfn á Bátsöndum.
Ekkert hef ég fundið, sem bendir til þess, að byggð hafi risið í Keflavík fyrr en 1772, svo við megum víst líta á þetta ár sem fæðingarár Keflavíkurkaupstaðar. Ekki vitum við, á hvaða degi vorskipin komu út árið 1772 með Holger Jacobæus ásamt fjölskyldu og fylgdarliði hans innanborðs, en þegar hann einhvern góðan veðurdag, sennilega í júní, steig í land í Keflavík með barn og buru, þá fæddist Keflavík, og mega Keflvíkingar því í vor halda upp á tvö hundruð ára afmæli byggðar sinnar!“

Keflavíkurbærinn

Keflavíkurbærinn.

Heimild:
-Tíminn Sunnudagsblað 23. apríl 1972, bls. 331-332.

Hafnaberg

Við bílastæði á Nesvegi ofan við Hafnaberg eru tvö skilti. Annað felur í sér upplýsingar um bjargið og íbúa þess og hitt eru nánari skil á hinum síðarnefndu. Reyndar er textinn orðinn allmáður, en með því að rýna í hann af gaumgæfni má lesa eftirfarandi á textaskiltinu:

Hafnaberg

Hafnaberg – skilti.

„Bjargið er myndað úr basalt hraunlögum sem mynda syllur. Sökum þess hve vogskorið það er býður það upp á gott aðgengi til fuglaskoðunar og í því má sjá flestar tegundir íslenskra bjargfugla.

Efst með brúnum verpa fýlar á breiðum hraunsyllum og í litlum skútum. Flestir taka þó eftir ritunni, bæði er mest af henni og að auki er hún hávær fugl. Bjargið ómar af hástemmdum klið frá ritum, blönduðum lágstemmdari röddum svartfuglanna. Rituhreiðrin eru dreifð um allt bjargið og á mjóum syllum byggir ritan upp hreiður úr sinu og gróðri, sem límd eru saman með driti. Langvían er næst ritunni að fjölda. Langvían er frekar hnappdreifð og býr í þéttu sambýli á tiltölulega breiðum syllum og skútum.

Hafnaberg

Hafnaberg – skilti.

Í bjarginu eru hellar með þéttri langvíubyggð. Stuttnefjan verpir á þrengri syllum en langvían og ekki í eins miklu þéttbýli. Stuttnefjum hefur fækkað mikið í Hafnabergi undanfarna áratugi. Eggjum langvíu og stuttnefju er verp beint á grjótsylluna og skurn eggjanna er frekar þykk. Litamynstur þeirra er fjölbreytt og talið að foreldrarnir þekki egg sitt á því. Lögum eggjanna er þannig að þau velta ekki beint undan halla, heldur í hring.

Meðal annarra fugla sem verpa í bjarginu er álkan, en erfitt getur verið að koma auga á hreiður hennar þar sem það er oftast inni í urðum og skútum.

Hafnaberg

Hafnaberg – textinn.

Lundinn verpir einnig í bjarginu í sprungum og holum, en pörin eru nokkuð fá. Sama er að segja um teistur sem verpa í urðum neðst í bjarginu.

Varp hefst í bjarginu seinni hluta maí og liggja svartfuglar á eggjum í rúma 30 daga. Ungar svartfuglanna hoppa svo ófleygir úr bjarginu um 20 daga gamlir og halda með foreldrunum á haf út. þegar ungarnir hoppa heyrast mikil hljóð í foreldrunum þegar þau hvetja ungana til dáða og tíst í unganum á móti. Þetta gerist helst um lágnættið þegar farið er að skyggja svo skúmar og aðrir ræningjar komi síður auga á ungana þegar þeir taka fyrstu skrefin.“

Hafnaberg

Hafnaberg – hreiður.

Eldey

Við Valahnúk á Reykjanesi er skilti skammt frá bronsstyttu af geirfugli. Á skiltinu er eftirfarandi texti:

Reykjanes

Reykjanes – stytta af geirfugli.

„Reykjanesbær er þátttakandi í alþjóðlegu lisverkefni „The Lost Bird Project“. Listamaðurinn Todd McGrain hefur í nokkur ár unnið að gerð skúlptúra af útdauðum fuglum m.a. geirfuglinum og vill þannig vekja athygli samtímans á umhverfisvernd og ást á náttúrunni.

Hann vinnur fuglana í brons og er hverjum fugli ætlaður staður víðs vegar um heiminn, allt eftir því hvar þeirra upprunulegu heimkynni voru. Verkið er gjöf listamannsins til Reykjanesbæjar.

Í tilefni þess að talið er að síðasti geirfuglinn hafi verið drepinn í Eldey 3. júní 1844 hefur verið ákveðið að styttan afgeirfuglinum verði sett upp neðan við Valahnúk á Reykjanesi og mun fuglinn horfa til Eldeyjar og minna okkur um leið á sameiginlega ábyrgð allra þjóða á náttúru og umhverfisvernd.“

Reykjanes

Reykjanes – skilti.

Brú milli heimsálfa

Við „Brú milli heimsálfa“ á vestanverðum Reykjanesskaganum, skammt ofan við Stóru-Sandvík eru tvö skilti, sitt hvoru megin við brúna.

Á vestari skiltinu stendur eftirfarandi:

Brú milli heimsálfa

Brú milli heimsálfa. Vestara skiltið.

„Þú getur ímyndað þér að þú standir nú á Norður-Ameríkuflekanum, sjötta stærsta jarðskorpufleka jarðarinnar. Fyrir um 200 milljónum ára var hann samfastur Evrasíu-, Afríku, og Suður-Ameríkuflekanum eða allt þar til risa meginlandið Pangea tók að klofna í sundur. Atlantshafið tók að myndast í suðri milli Afríku og Suður-Ameríku fyrir um 135 milljónum ára, en aðskilnaður Ameríku og Evrasíu flekana hófst hins vegar fyrir um 65 milljónum ára.

Brú milli heimsálfa

Brú milli heimsálfa – Ameríkuflekinn.

Í vestanverðri Norður-Ameríku má finna tiltölulega ung fjöll þar sem flekinn lendir í átökum við Kyrrahafsflekann. í austanverðri norður-Ameríku er að finna Appalaciafjöllin sem urðu til fyrir meira en 250 milljónum ára er risameginlandið Pangea var að myndast.

Mikill fjöldi fólks á Norður-Ameríkuflekanum býr í stórborgum. Þar er sömuleiðis að finna mikið landflæmi sem eru óbyggðir að kalla, t.d. á Kanadaskyldinum sem er gífurlega stór forngrýtisskjöldur sem var til fyrir um þremur milljörðum ára.

Brú milli heimsálfa

Brúin milli heimsálfa.

New York er fjölmennasta borgin á Norður-Ameríkuflekanum (19.6 milljónir íbúa árið 2012). Hæsti tindurinn er McKinleyfjall í Bandaríkjunum (6.149 metra yfir sjávarmáli) en mesta dýpið er í Púertó Ríkó rennunni (6.648 metrar undir sjávarmáli).“

Á austara skiltinu stendur:

Brú milli heimsálfa

Brú milli heimsálfa. Austara skiltið.

„Þú getur ímyndað þér að þú standir nú á Evrasíuflekanum, stærsta jarðskorpufleka jarðarinnar. þar er að finna sumar elstu bergmyndanir jarðskorpunnar,nánar tiltekið í Austur-Síberíu á víðáttumestum sléttum jarðar.

Norður-Ameríkuflekinn fjarlægist Evrasíuflekann í vestri og Atlantshafið víkkar um leið. Í austri streyma Kyrrahafs- og Filippseyjaflekarnir inn undir Evrasíuflekann og mynda eldfjallaeyjaboga, s.s. Japan og Filippseyjar.

Brú milli heimsálfa

Brú milli heimsálfa – Evrasíuflekinn.

Í suðri reka Indlands- og Ástralíuflekana í norður. Við árekstur þessara fleka verður til hæsti fjallgarður í heimi, Himalajafjöll.

Um 75% mannkyns búa á Evrasíuflekanum en dreifing íbúanna er ákaflega mosjöfn. Flestir búa í Evrópu, Indlandi, Kína og í Suðaustur-Asíu. þessi svæði eru jafnframt þéttbýlustu svæði jarðar.

Tokyo er fjölmennasta borgin á Evrasíuflekanum (35.7 milljónir íbúa árið 2011). Hæsti tindurinn er Everestfjall í Nepal (8.850 metrar yfir sjávarmáli) en mesta dýpið í Galatheudjúpinu (10.540 metrar undir sjávarmáli).“

Brú milli heimsálfa

Brú milli heimsálfa – austurveggur gjárinnar.

Reykjanes

Við Valahnúk á Reykjanesi eru þrjú upplýsingaskilti. Tvö þeirra eru um vitana, annars vegar á Valahnúk og hins vegar á Vatnsfelli. Um fyrrnefnda vitann segir:

Reykjanesviti

Vitinn á Valahnúk.

„Fyrsti ljósvitinn á Íslandi var reistur á Valahnúk árið 1878. Hann var tekinn í notkun 1. desember sama ár. Vitinn var áttstrendur, 4.5 metrar í þvermál og 8.2 metrar á hæð. Hann var hlaðinn úr tilhöggnum íslenskum grásteini. Þykkt veggjanna hefur verið um 1 metri. ljóskerið á vitanum var áttstrent eins og vitinn með koparhvelfingu yfir. Neðan ljóskersins voru vistarverur fyrir tvo vitaverði sem gættu ljóssins á meðan logaðu á honum, frá 1. ágúst til 15. maí ár hvert. Vitinn eyddi að meðaltali 16 tunnum af olíu á ári.

Vitinn fór illa í jarðskjálfta 28. október 1887. Þá hrundi mikið úr Valahnúk og allir lampar og speglar í vitanum fóru í gólfið. Næstu nætt var ómögulegt að kveikja á vitanum. Árið 1905 höfðu jarðskjálftar og brim brotið það mikið úr hnúknum að hætta þótti á að vitinn myndi hrynja í sjóinn.

Reykjanesviti

Flóraður stígur milli hús vitavarðar að vitanum á Valahnúk.

Vitavörðurinn var einnig hræddur við að vera á vakt enda ekki nema 10 metrar frá vitanum fram á brún. Því var ákveðið að reisa nýjan vita á Vatnsfelli og stendur hann enn. Gamli vitinn var hins vegar felldur með sprengingu 16. apríl 1908.

Reykjanesviti

Reykjanesviti – grjótið úr gamla vitanum á Valahnúk.

Grjótið hér til hægri eru leifar vitans.

Reykjanesviti

Reykjanesviti – leifar af geymsluskúrnum undir Valahnúk.

Hleðslan til vinstri eru leifar geymsluhússins sem þjónaði vitanum.“

Reykjanesviti

Reykjanesviti á Valahnúk – skilti.

Reykjanesviti

Við Valahnúk á Reykjanesi eru þrjú upplýsingaskilti. Á einu þeirra eru upplýsingar um Reykjanesvita. Þar stendur eftirfarandi:

Reykjanesviti

Reykjanesviti.

„Reykjanesviti er elsti vitinn sem nú stendur við Íslandsstrendur, tekinn í notkun 20. mars 1908. Vitinn var fyrsta stórframkvæmdin sem ráðist var í eftir að Íslendingar fengu heimastjórn frá Dönum 1. desember 1904.

Vitinn er sívalur turn, 9 metrar í þvermál neðst en 5 metrar efst. Hæð hans er 20 metrar og stendur hann á breiðri 2.2 metra hárri undirstöðu. Ljóshúsið er 4.5 metrar á hæð og er heildarhæð vitans 26.7 metrar. veggirnir eru tvískiptir. Ytra byrðið er úr tilhöggnu grjóti en innra byrði úr steinsteypu. Þykkt þeirra við sökkul er 3.2 metrar en efst er veggþykktin 1.2 metrar.

Upphaflegur ljósgjafi vitans var steinolíulampi og var ljós hans magnað með 500 millimetra snúningslinsu. þetta snúningstæki, knúið af lóðum sem vitavörðurinn dró upp með reglulegu millibili. Gastæki var sett í vitann árið 1929 og var þá gasþrýstingurinn látinn snúa linsunni. Vitinn var rafvæddur árið 1957.

Reykjanesviti

Reykjanesviti á Vatnsfelli.

Vitavörður var búsettur á Reykjanesi frá upphafi vitareksturs árið 1878 fram til ársins 1999. Íbúðarhúsið sem nú stendur við vitann var byggt árið 1947. Vitaverðirnir stunduðu búskap samhliða starfi sínu og má víða sjá ummerki um búsetu þeirra m.a. tóftir eldri húsa og hlaðna garða.“

Reykjanesviti

Reykjanesviti – skilti.

Stampar

Neðan gígs á Stampagígaröðinni vestast á Reykjanesskaganum er skilti með eftirfarandi texta:

Stampar

Stampar.

„Tvær gossprungur liggja frá sjó inn í land á vestanverðu Reykjanesi og mynda gígaraðir. Þessar gígaraðir hafa verið kenndar við Stampa. Gígaraðirnar eru frá tveimur tímaskeiðum og fylgja stefnunni SV-NA sem er algengasta sprungustefna á Reykjanesi.

Sú eldri myndaðist í gosi á tæplega 4 kílómetra langri sprungu fyrir 1.800-2000 árum.

Stampar

Gígur á Stampagígaröðinni.

Yngri-Stampagígaröðin myndaðist í Reykjaneseldum á árunum 1210-1240. Gígaröðin er um 4 kílómetrar að lengd og er flatarmál þess hrauns sem þá rann um 4.6 km2. Þeir tveir gígar sem næst eru veginum, nefndir Stampar, eru við norðurenda gígaraðarinnar. Sunnar á gígaröðinni má sjá stæðilega gíga s.s. Miðahól. Eldborg dýpri og Eldborg grynnri sem allir voru notaðir sem mið við fiskveiðar fyrr á tímum. Flestir gígarnir eru þó klepragígar og lítt áberandi.

Þess má geta að í Reykjaneseldum 1210-1240 runnu fjögur hraun í Reykjanes- og Svartsengiskerfunum auk þess sem neðarsjávargos urðu í sjó undan Reykjanesi.

Stampar

Gígar á eldri gígaröðinni.

Hundrað gíga leiðin, merkt gönguleið, liggur að hluta um Stampahraunið. Leiðin hefst við Valahnúk á Reykjanesi og er 13 kílómetra löng. leiðin liggur m.a. um háhitasvæðið á Reykjanesi, fram hjá gjall- og klepragígum og móbergsfjallinu Sýrfelli að Stampagígunum. Þaðan er gengið um úfið helluhraun og sandskafla og þræðir leiðin sig frá vesturhlið gígsins sem er næst veginum, áfram eftir gígaröðinni, sjávarmegin við Reykjanesvirkjun. Gígarnir sem gengið er með fram eru fjölmargir og viðkvæmir.

Leyfilegt er að ganga á gíginn sem er nær veginum. Mikilvægt er þó að hafa í huga að raska ekki viðkvæmum jarðminjum.“

Stampar

Stampar – skilti.

Kirkjuvogssel

Lagt var af stað í hríðarbyl og snjókomu frá höfuðborgarsvæðinu. Á Vatnsleysuströnd birti til. Þegar komið var að Ósabotnum var komið sólskin.

Kirkjuvogssel

Kirkjuvogssel.

Gengið var að Kirkjuvogsseli suðaustan Hafnarvegar. Selið er undir hól innan varnarsvæðisins og hefur fengið að vera óhreyft um langan tíma. Tóttir eru á tveimur stöðum í skjóli fyrir suðaustanáttinni. Neðan þeirra er stekkur og enn neðar og norðar er reglulegur hringur, sem gæti hafa verið kví eða lítil rétt. Selstígurinn sést vel þar sem hann liggur frá selinu í átt að Ósabotnum. Hópurinn gekk frá selinu til norðurs og inn fyrir aðalvarnarsvæðið með leyfi yfirvalda.

Kirkjuvogssel

Kirkjuvogssel.

Ætlunin var að leita að tóttum Stafnessels, sem þar átti að vera, skv. korti, ofarlega í heiðinni þar sem hallar til vesturs. Mikið landrof hefur átt sér stað á svæðinu, auk þess sem framkvæmt hefur verið alveg að brekkunum. Þó má sjá talsvert gras efst undir brekkunum og einnig er ekki ólíklegt að selið hafi verið þar undir eða ofan við klettana.

Stafnessel

Stafnessel – uppdráttur ÓSÁ.

Leið er vörðuð að klettunum og eru vörðurnar, sem greinilega eru mjög gamlar, flestar hrundar. Þó er ein stærst og stendur enn nokkuð neðan við brekkurnar. Hún hefur líklega verið sundvarða inn að Ósabotnum því hún ber frá skerjunum í Keili. Þá var gengið niður að Djúpavogi og þaðan til norðvesturs eftir gömlu Kaupstaðaleiðinni. Skammt ofan við voginn er
200-300 m langur beinn mjög fallegur kafli á leiðinni, sem greinilega hefur verið ruddur og flóraður á kafla. Þegar hópurinn kom að enda kaflans skein sólin á svæðið svo hún sást mjög vel þar sem hún liggur upp holtið. Skv. öðru korti átti Stafnessel að vera þarna skammt sunnar. Það reyndist vera rétt.

Þar suðvesturundir stórum klapparhól kúrði selið – nokkrar tóttir.

Kirkjuvogssel

Kirkjuvogssel – stekkur.

Gengið var niður á Ósaleiðina og henni fylgt að Gamla Kirkjuvogi þar sem tóttirnar af gamla bænum og kirkjugarðurinn voru skoðaðar, auk garðanna og brunnsins. Þar sem greinilega var að verða mjög lágsjávað var ákveðið að halda áfram framhjá Skotbakka og Þórshöfn yfir að Básendum. Þegar þangað var komið var gengt út í öll sker.
Farið var fetið út í stærsta skerið vestan Básendalægis. Þar í klöpp á því norðanverðu er festahringur í keng, nokkuð ryðbrunninn.

Básendar

Básendar – festarhringur.

Í hring þennan var festi hér á öldum áður og í hana voru kaupskipin, er þarna lágu, fest. Klöppin var öll upp úr sjó, sem ekki er algengt þarna. Eftir að hafa dáðst að litbrigðunum (rautt, brún, grænt og gult) umhverfis hringinn var haldið í rólegheitum  suður með skerinu. Þar var að sjá annan keng, en í hann vantaði hringinn. Eftir að hafa áð við Draughól var haldið með steingarðinum, sem umlykur Básenda, að Stafnesi þar sem ferðin endaði.
Í því er hópurinn gekk í hlað á Stafnesi um kl. 12:00 byrjaði að snjóa.
Gangan tók 3 klst og 3 mín.

Kirkjuvogssel

Kirkjuvogssel – uppdráttur ÓSÁ.

Sogin

„Reykjanesfólkvangur“ hefur verið með kennitöluna 581280-0419 og póstfang að Borgartúni 12-14, 105 Reykjavík í tæplega hálfa öld. Fulltrúar Reykjavíkur áttu á sínum tíma frumkvæði að stofnun fólkvangsins. Nú virðist ætla að verða breyting þar á.

Reykjanesfólkvangur

Reykjanesfólkvangur.

Þann 19. apríl 2024 birtist frétt í Fjarðarfréttum undir fyrirsögninni; „Sveitarfélög á leið út úr samstarfi um Reykjanesfólkvang„.
Þar segir m.a. að „Stjórn Reykjanesfólkvangs fjallaði á síðasta fundi sínum um stöðuna sem er komin upp við úrsögn Reykjavíkurborgar úr fólkvanginum. Á fundinum kom fram að einnig Reykjanesbær teldi það ekki þjóna tilgangi né hag sveitarfélagsins að vera inni og muni því segja sig úr fólkvanginum. Bæjarráð Voga hefur lagt til við bæjarstjórn að Sveitarfélagið Vogar fari að fordæmi Reykjavíkurborgar og segi sig frá þátttöku í Reykjanesfólkvangi. Þá kom fram að Seltjarnarnes hefði ekki tekið formlega ákvörðun en líklega yrði úrsögn niðurstaðan.

Reykjanesfólkvangur

Reykjanesfólkvangur – kort.

Fram kom að Reykjavík stefni á að ganga út 30. júní 2024 og greiða þá hálft gjald fyrir 2024 sem lokagreiðslu. Miðað við núverandi inneign í sjóði, og að Garðabær, Hafnarfjörður og Grindavík haldi áfram og að hin sveitarfélögin greiði að minnsta kosti hálft gjald þá kemur fram að mögulegt væri reka fólkvanginn út árið 2024 með sama hætti og fram að þessu. Einnig að svigrúm gæfist til að ákveða framtíðarfyrirkomulag.
Fyrir liggur að verkefni í Seltúni hafa vaxið mikið og tekið æ meiri tíma landvarðar og þarf að mati stjórnarinnar að taka það upp við Hafnarfjarðarbæ hvernig bregðast ætti við því. Einnig var nefnt að lista þyrfti upp verkefni landvarðar ef til þess kæmi að fela þyrfti nýjum aðila landvörsluna.“

Bláfjalla- og Reykjanesfólkvangur

Bláfjalla- og Reykjanesfólkvangur.

Eins og margir íbúar Reykjanesskagans vita er „Reykjanesfólkvangur ekki á Reykjanesi.
Fólkvangurinn er á sunnanverðum Reykjanesskaga og nær milli Vesturháls í vestri og að sýslumörkum Árnessýslu í austri og niður að sjó. Norðan megin liggja mörk hans meðfram Heiðmörk og Bláfjallafólkvangi. Að honum standa 8 sveitarfélög; Reykjavík, Seltjarnarnes, Kópavogur, Garðabær, Hafnarfjörður, Grindavík, Vogar og Reykjanesbær. Fólkvangurinn er um 300 km2 að stærð, langstærsta friðlýsta svæðið sinnar tegundar. Þar er meiri gróður en víðast hvar annars staðar á Reykjanesskaga og er landið kjörið til útivistar og náttúruskoðunar.

Krýsuvík

Krýsuvík seinni tíma – uppdráttur ÓSÁ.

Innan fólkvangsins eru þessir helstu staðir Krýsuvík, Seltún, Kleifarvatn, Grænavatn, Krýsuvíkurberg, Vesturháls (Núpshlíðarháls) og Austurháls (Sveifluháls), Búrfell og Búrfellsgjá, Stóra-Eldborg og Brennisteinsfjöll. Upp á hálsunum eru nokkur smá vötn, Grænavatn, Gestsstaðavatn, Arnarvatn og Spákonuvatn. Í Djúpavatni er silungsveiði eins og í Kleifarvatni. Möguleikar til gönguferða í fólkvanginum eru nánast ótakmarkaðar.

Stærð fólkvangsins er 29.262,7 ha., þ.e. er um 300 km2 að stærð, langstærsta friðlýsta svæðið sinnar tegundar hér á landi.

Reykjanesfólkvangur var stofnaður sem fólkvangur með auglýsingu í Stj.tíð. B, nr. 520/1975 sbr. „Auglýsingu um fólkvang á Reykjanesi„:
Að tillögu borgarstjórnar Reykjavíkur, bæjarstjórna Kópavogs, Seltjarnarness, Hafnarfjarðar, Keflavíkur og Grindavíkur, hreppsnefnda Garðahrepps, Njarðvíkurhrepps og Selvogshrepps hefur [Umhverfisstofnun] ákveðið að stofna fólkvang á Reykjanesskaga skv. 26. gr. laga nr. 47/1971.

Reykjanesfólkvangur

Reykjanesfólkvangur – friðlýsing.

Takmörk svæðisins eru sem hér segir:
Lína dregin frá punkti í Heiðmerkurgirðingu undir Vífilsstaðahlíð (X-hnit 689007.0 m.) í punkt á mörkum Garðahrepps og Hafnarfjarðar við Kershelli. Þaðan eftir þeim mörkun inn fyrir sumarbústaðahverfi í Sléttuhlíð á hæð er Klifsholt heitir, þaðan beint í Steinshús sem er glöggt og gamalt eyktarmark. Frá Steinshúsi liggur línan beint í norðurhorn Skógræktargirðingarinnar undir Undirhlíðum. Síðan eftir norðvesturhlið girðingarinnar að suðurhorni hennar. Þaðan beint í punkt á mörkum Hafnarfjarðar- og Grindavíkurbæjar undir Markargili með X-hnit 692297.0 m. Síðan eftir mörkum í Markhelluhól.

Markhella

Markhella.

Frá Markhelluhól stefna mörkin til suðurs eftir mörkum Vatnsleysustrandarhrepps eins og þau eru sýnd á korti gefnu út af U.S. Army Corps of Engineers og Landmælingum Íslands (mælikv. 1:50000), í punkt á þeim mörkum sem er suður af Höskuldarvöllum og austur af Oddafelli, X-hnit 701782.0 m og Y-hnit 388243.0 m. Þaðan beina línu undir Núpshlíðarháls í punkt vestan við Núpshlíð, X-hnit 707653.0m, Y-hnit 379312.0m. Frá þeim punkti beint í Dágon sem er klettur á Seltöngum við sjó fram vestan við Krýsuvíkurberg. Að austanverðu fylgja mörkin sýslumörkum úr Seljabót um Sýslustein og þangað norður sem markalína fólkvangsins í Bláfjöllum sker sýslumörk, þaðan norðvestur eftir mörkum þess fólkvangs í horn Heiðmerkurgirðingar við Kolhól og síðan réttsælis eftir Heiðmerkurgirðingunni að upphafspunkti lýsingar þessarar.

Hraunhóll

Hraunhóll – varða á mörkum Reykjanesfólksvangs.

Um fólkvanginn gilda eftirtaldar reglur:
1. Fótgangandi fólki er heimil för um allt svæðið og má ekki hindra slíka för með girðingu nema stigar til yfirferðar séu með hæfilegu millibili. Reiðgötum má ekki loka með girðingum. Þessi ákvæði eiga þó ekki við girðingar um vatnsból og ræktað land enda er umferð óheimil innan slíkra girðinga. Á skógræktargirðingu skulu einungis vera stigar.

Seltún

Seltún – orkuvinnsla.

2. Allt jarðrask er bannað innan fólkvangsins nema leyfi [Umhverfisstofnunar] komi til. Undanskilin er hagnýting jarðhita, t.d. í Krýsuvík, og mannvirkjagerð í því sambandi, sbr. þó 29. gr. laga nr. 47/1971. Jafnframt verði ekki haggað þar eðlilegri nýtingu til búrekstrar, réttur til beitar er ekki skertur innan fólkvangsins og áskilinn er í Krýsuvík réttur til starfsemi í almannaþágu (svo sem heilsuhæli, skólar, gistihús o.þ.u.l.).
Skipulegur námurekstur, sem rekinn er innan fólkvangsins þegar auglýsing þessi verður birt í Stjórnartíðindum, má þó haldast, enda sé umgengni í samræmi við 18. gr. laga nr. 47/197.
Tekið er fram af hálfu sveitarfélaganna allra að með stofnun fólkvangsins telja þau ekki á neinn hátt raskað eignarrétti að landi því sem fólkvangurinn tekur til.
Vafi er talinn leika á hver séu mörk Grindavíkurkaupstaðar og Vatnsleysustrandarhrepps. Þegar úr þessum vafa hefur verið skorið með samkomulagi eða dómi verða mörk fólkvangsins færð til í samræmi við það.

Trölladyngja

Trölladyngja á Reykjanesskaga.

Samvinnunefnd sveitarfélaganna allra fer með stjórn fólkvangsins og er hún skipuð einum fullrúa frá hverjum aðila.
Ráðuneytið er samþykkt stofnun fólkvangsins og tekur stofnun hans gildi við birtingu þessarar auglýsingar í Stjórnartíðindum. – Menntamálaráðuneytið, 1. desember 1975 – Vilhjálmur Hjálmarsson.

Árið 2011 var auglýst breyting á framangreindri auglýsingu:

Búrfell

Búrfell í Garðabæ.

Á eftir 1. mgr. auglýsingarinnar kemur ný málsgrein sem orðist svo: „Umhverfisráðherra hefur ennfremur að tillögu borgarstjórnar Reykjavíkur, bæjarstjórna Kópavogs, Hafnarfjarðar, Garðabæjar, Seltjarnarness, Reykjanesbæjar og Grindavíkur ákveðið að Sveitarfélagið Vogar verði einnig aðili að stofnun og rekstri fólkvangs á Reykjanesi með þeim skuldbindingum sem í því felast, þ. á m. hafi fulltrúa í samvinnunefnd sveitarfélaganna um stjórn fólkvangsins“. – Umhverfisráðuneytinu, 6. desember 2011 – Svandís Svavarsdóttir.

Sog

Í Sogum.

Reykjanesfólkvangur er:
• Fólkvangur sem samkvæmt samkvæmt náttúruverndarlögum er friðlýst sem útivistarsvæði í samvinnu við hlutaðeigandi sveitarfélög. Fólkvangar eru stofnaðir að frumkvæði sveitarfélaga og sjá þau einnig um reksturinn. Tilgangurinn með fólkvöngum er að tryggja almenningi aðgang að svæðum til þess að njóta útivistar.“
• Var stofnaður 1975 – Með undanþágu vegna jarðvarmanýtingar.

Spákonuvatn

Spákonuvatn – Keilir fjær.

• Fólkvangur í lögsögu Garðabæjar Grindavíkur og Hafnarfjarðar. Stærsti hluti fólkvangsins er í umdæmi Grindavíkur.
• Samstarf sveitarfélaga, sem nú standa að rekstri hans, eru Reykjavík, Seltjarnarnes, Kópavogur, Garðabær, Hafnarfjörður, Grindavík, Vogar og Reykjanesbær.

Arnarvatn

Arnarvatn á Sveifluhálsi.

Í fundargerð stjórnar Reykjanesfólksvangs þann 3. feb. 2021 segir:
Fundurinn var fjarfundur kl. 16.00
Mættir: Líf Magneudóttir, formaður, Andri Steinn Hilmarsson, Þorvaldur Örn Árnason, Þórður Ingi Bjarnason, Jóna Sæmundsdóttir, Sigurgestur Guðlaugsson, Guðmundur Grétar Karlsson og
Steinunn Árnadóttir.
Einnig sátu fundinn Óskar Sævarsson, René Biazone og Þórólfur Jónsson sem ritaði fundargerð.

Kleifarvatn

Kleifarvatn.

„Þetta gerðist:
1. Starfið í fólkvanginum 2020
Rætt um það helsta í starfsemi fólkvangsins á síðasta ári (ÓS). Mikið af Íslendingum á ferðinni. Mikið álag í vor sem var ekki gott fyrir svæðið. Rúturnar vantaði en mikil umferð bílaleigubíla í sumar. Nýtt salernishús sett upp í vor. Vinnuhópur kom í 2 vikur á vegum Umhverfisstofnunar. Unnið var við Eldborg í samvinnu við skipulagssvið Grindavíkur, loka slóða og afmarka bílastæði.

Krýsuvíkurberg

Krýsuvíkurberg – Eystri-Lækur fellur fram af berginu, nafnlaus.

Sinna þurfti kvikmyndaverkefni. Í jarðskjálftanum í okt. urðu skemmdir á Djúpavatnsleið. Einnig hrundi fylla úr Krýsuvíkurbjargi og komu sprungur. Sett var bráðabirgðalokun. Bláfjallavegi verið lokað en samt hægt að komast fram hjá. Þarf að klára frágang á bílastæði. Dreift var moltuefni í fólkvanginum sem var plastmengað á vegum Terra í samvinnu við Gróður fyrir fólk. Fara þarf betur yfir.
Skýrsla landvarðar verður lokið fyrir næsta fund.
Fundi slitið 17:20.“

Valahnúkar

Valahnúkar og Helgafell.

Í fundargerð stjórnarinnar 24. apríl 2023 segir:
Mættir: Kristinn Jón Ólafsson, Stella Stefánsdóttir, Ásrún Kristinsdóttir (fyrir Sigurveigu M. Önundardóttur), Sverrir B. Magnússon, Ingimar Ingimarsson.
Einnig sátu fundinn René Biasone UST, Óskar Sævarsson landvörður og Þórólfur Jónsson sem ritaði fundargerð.

Sveifluháls

Sveifluháls.

„Þetta gerðist:
1. Yfirferð um landvörslu
• Óskar Sævarsson kom á fundinn og kynnti helstu verkefni landvarðar.
• Samningur hefur verið um landvörslu frá 15. apríl til 1. nóv. ár hvert.
• Mikil aukning varð á fjölda ferðamanna 2019 og er ekkert lát á því. Það sést skýrt í talningum Ferðamálastofu sem er með teljara í Seltúni.

Helgadalur

Helgadalur – Rauðshellir.

• Undanfarin ár hefur landvörður þurft að sinna mörgum verkefnum utan hefðbundins tímabils, t.d. kvikmyndaverkefni, viðvarandi ferðamannastraumur, eldgos o.fl., og því hefur verið greidd viðbótargreiðsla.

Seltún

Seltún.

• Landvörður er tilbúinn til að sinna verkefnum áfram á þessu ári.
• Stjórnin samþykkti að gera samning við landvörð á sömu nótum og verið hefur að teknu tilliti til verðlagshækkunar.

2. Aðkoma Umhverfisstofnunar (UST)
• René Biasone fór yfir lagalega umgjörð Reykjanesfólkvangs, aðkomu UST sem m.a. gerir ástandsskoðun á friðlýstum svæðum og tekur saman í skýrslu árlega. Þar kemur m.a. fram slæmt ástand á Djúpavatnsleið.

Stóra-Eldborg

Stóra-Eldborg og Geitahlíð.

• Samkvæmt náttúruverndarlögum gerir UST stjórnunar- og verndaráætlanir fyrir friðlýst svæði, en ekki hefur farið af stað vinna fyrir Reykjanesfólkvang. Stjórnin hefur áður skorað á UST að hefja slíka vinnu og var samþykkt að senda fyrirspurn til UST um
hvenær hægt verði að hefja vinnu við og ljúka stjórnunar- og verndaráætlun fyrir fólkvanginn.

3. Áform Reykjavíkur
• Kjörnir fulltrúar Reykjavíkur hafa tekið ákvörðun um að skoða grundvöll þess að Reykjavík dragi sig út úr rekstri Reykjanesfólkvangs frá árinu 2024.

Vetrarblóm

Vetrarblóm við Kleifarvatn.

• Rætt var um hvort að fólkvangurinn eða hlutar hans ættu að falla í annan friðlýsingarflokk, jafnvel að verða þjóðgarður eða eitthvað annað fyrirkomulag. Rifjað var upp samtal við Reykjanes Geopark sem laut að því að skoða samstarf á sínum tíma.
• Ákveðið var að stjórnarmenn opnuðu samtal hver í sínu sveitarfélagi um ofangreint og kalla eftir kynningu á Reykjanes Geopark.

Fundi slitið 17:30. Stefnt á að næsti fundur yrði í Grindavík seinni hluta maí.“

Í „Lögum um náttúruvernd“ segir m.a. um landverði: „Á náttúruverndarsvæðum starfa landverðir og aðrir starfsmenn. Hlutverk landvarða er m.a. að sjá um eftirlit og fræðslu.
Umhverfisráðherra setur í reglugerð, að fengnum tillögum Náttúruverndar ríkisins, nánari ákvæði um menntun og starfsskyldur þeirra sem starfa á náttúruverndarsvæðum.“

Selatangar

Gengið um Selatanga á afmælishátíð Grindavíkur 2009.

Um Samvinnunefnd um rekstur fólkvangs segir í sömu lögum: „Sveitarfélög, sem standa að rekstri fólkvangs, skulu stofna með sér samvinnunefnd sem starfar í samráði við Náttúruvernd ríkisins. Í samvinnusamningi skal kveðið á um fjölda nefndarmanna og starfshætti nefndarinnar. Ef ekki er öðruvísi ákveðið ræður afl atkvæða. Þegar um er að ræða atriði sem hafa sérstakan kostnað í för með sér fer þó um atkvæðisrétt eftir greiðsluhlutföllum aðila, sbr. 56. gr.“

Húshólmi

Húshólmi – skáli.

Líklega færi vel á því að þau sveitarfélög, sem eftir verða, þ.e. Garðabær, Hafnarfjörður og Grindavík er munu annast rekstur „Reykjanesskagafólkvangs“ skipi nýja samvinnunefnd, skipaða einum fulltrúa frá hverju sveitarfélagi, nefndarmenn verði ólaunaðir en hafi bæði áhuga og sérþekkingu á fólkvanginum sem slíkum. Fjárveitingum og styrkjum verði varið til landvörslu, einstakra uppbyggjandi verkefna og kynningar á gildi svæðisins.

Sjá meira um Reykjanesfólkvang HÉR, HÉR, HÉR og HÉR.

Kringlóttagjá

Kringlóttagjá.