Tag Archive for: Reynir Sveinsson

Reynir Sveinsson

Reynir Sveinsson var borinn til grafar frá Sandgerðiskirkju 1. febrúar 2024. Hann lést á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja 21, janúar, 75 ára að aldri.

Reynir Sveinsson

Reynir Sveinsson.

Reynir var rafvirki og mikill Sandgerðingur enda bjó hann allt sitt líf í Sandgerði. Hann lét mikið að sér kveða alla tíð í þágu samfélagsins í Sandgerði og kom víða við. Hann átti sæti í sveitarstjórn í 20 ár og starfaði í hafnarráði Sandgerðishafnar í 16 ár. Hann starfaði í sóknarnefnd Hvalsneskirkju í 35 ár, þar af sem formaður sóknarnefndar í 30 ár.

Reynir rak fyrirtæki sitt Rafverk hf í um 30 ár en starfaði eftir það í Fræðasetrinu í Sandgerði sem síðar varð Þekkingarsetur Suðurnesja þar til hann lauk sínum starfsferli um 70 ára aldur. Auk allra þessara starfa í þágu samfélagsins var Reynir annálaður leiðsögumaður, enda þekkti hann hvern krók og kima ásamt alls kyns sögur sem tengjast svæðinu.

Reynir Sveinsson

Reynir (á miðri mynd) á ferð um Árnastíg með Svæðaleiðsögumönnum Reykjanesskaga.

Hann var mikill ljósmyndari og hann skilur eftir sig gríðarlegt magn ljósmynda sem fanga sögu Sandgerðis og nágrennis og er hluti af menningararfi sveitarfélagsins. Auk alls þessa var hann fréttaritari Morgunblaðsins um langt skeið, þar sem hann kom á framfæri fréttum af mannlífi í Sandgerði og nágrenni.

Reynir fæddist 2. júní 1948. Hann var fjórði í röðinni í hópi sjö systkina, lærði rafvirkjun hjá föður sínum og hóf síðar störf hjá Sandgerðisbæ sem forstöðumaður Fræðasetrinu. Þar starfaði Reynir lengi, aðallega við móttöku gesta og leiðsögn enda vel staðkunnugur á Reykjanesskaganum. Vann einnig með ýmsu móti að eflingu ferðaþjónustu í nærsamfélagi sínu.

Reynir Sveinsson

Reynir Sveinsson.

Reynir starfaði mikið og lengi að félagsmálum á Suðurnesjum, sat t.d. í bæjarstjórn Sandgerðis og í hafnarráði sveitarfélagsins. Gegndi jafnframt ýmsum trúnaðarstörfum öðrum á sameiginlegum vettvangi sveitarfélaga á Suðurnesjum.

Reynir var mjög virkur í björgunarsveitinni Sigurvon ásamt hörðum kjarna sem byggði björgunarmiðstöðina í Sandgerði. Þá var Reynir í Slökkviliði Sandgerðis í 40 ár og slökkviliðsstjóri í níu ár.

Reynir Sveinsson

Reynir Sveinsson í Hvalsneskirkju.

Á vefsíðu Þjóðkirkunnar, kirkjan.is, má lesa um áhuga Reynis Sveinssonar, formanns sóknarnefndar Hvalsnesóknar og fyrrum FERLIRsfélaga undir fyrirsögninni „Fólkið í kirkjunni„:

„Reynir Sveinsson, formaður sóknarnefndar Hvalsnessóknar í Útskálaprestakalli, er einn af þeim mönnum sem verða máttarstólpar í sínu samfélagi. Hann hefur komið víða við. Rak rafmagnsverkstæði í áratugi, tekið þátt í stjórnmálum fyrir Sjálfstæðisflokkinn, setið í bæjarstjórninni, verið virkur í björgunarsveitinni Sigurvon sem er elsta sveitin í Slysavarnafélagi Íslands, stofnuð eftir strand togarans Jóns forseta árið 1928 við Stafnes. Verið slökkviliðsstjóri, flinkur ljósmyndari allt frá fermingu, fréttaritari Morgunblaðsins, forstöðumaður Fræðaseturs í Sandgerði, leiðsögumaður … og svo mætti lengi telja. Maður sem hefur látið samfélagsmál sig varða og ekki talið neitt eftir sér.

Reynir Sveinsson

Reynir í hópi Svæðaleiðsögunema Reykjanesskagans.

Reynir er hógvær maður og viðræðugóður. Margfróður um sögu síns samfélags og er kirkjunnar maður.

Hvalsneskirkja er honum kær.

„Ég var alinn upp á trúræknu heimili,“ segir Reynir Sveinsson, formaður sóknarnefndar Hvalsnessóknar í Útskálaprestakalli, „móðir mín söng alla sálmana með útvarpsmessunum á sunnudögum og virtist kunna þá alla“. Hún hét Guðbjörg Hulda Guðmundsdóttir, húsfreyja, og faðir hans Sveinn Aðalsteinn Gíslason, rafveitustjóri.

Kirkjan er 135 ára á árinu

Hvalsneskirkja

Núverandi Hvalsneskirkja var vígð á jóladag 1887. Hún er staðsett á vestanverðu Reykjanesi, kirkja Sandgerðinga. Ketill Ketilsson stórbóndi í Kotvogi, þáverandi eigandi Hvalsnestorfunnar kostaði kirkjubygginguna. Hvalsneskirkja er byggð úr tillhöggnum steini og var grjótið sótt í klappir í nágrenninu. Um steinsmíði sá Magnús Magnússon og Stefán Egilsson, um tréverk sá Magnús Ólafsson. Allur stórviður hússins var fenginn úr fjörunum í nágrenninu, m.a. súlurnar. Viðamiklar viðgerðir fóru fram árið 1945 undir umsjón Húsameistara ríkisins. Kirkjan er enn starfandi í dag og rúmar 100 manns. Kirkjan er friðuð. Altaristaflan er eftirgerð af Dómkirkjutöflunni máluð af Sigurði Guðmundssyni árið 1886 og sýnir hún upprisuna. Einn merkasti gripur kirkjunnar er legsteinn yfir Steinunni Hallgrímsdóttur sem dó á fjórða ári (1649). Hún var dóttir Hallgríms Péturssonar (1614-1674) mesta sálmaskálds Íslendinga sem þjónaði þá sem prestur í Hvalsnessókn, hans kona var Guðríður Símonardóttir. Hallgrímur Pétursson þjónaði á Hvalsnesi fyrstu prestskaparár sín 1644-1651. Hella þessi var lengi týnd en fannst 1964 þar sem hún hafði verið notuð í stéttina framan við kirkjuna. Kirkja hefur liklega verið á Hvalsnesi lengi, hennar er fyrst gerið í kirknaskrá Páls biskups frá 1200.Hvalsnes var fyrrum prestssetur og útkirkjur í Kirkjuvogi og Innri-Njarðvík. Hvalsnesprestakall var lagt niður 1811 og Hvalsnes- og Kirkjuvogskirkjur lagðar til Útskála. Íbúarnir voru mjög ósáttir við það og var ný kirkja byggð 1820 og var hún timburkirkja. Núverandi kirkja er fyrsta kirkjan sem stendur utan kirkjugarðs. Í kaþólsku tengdust margir dýrlingar kirkjunni, María guðsmóðir, Ólafur helgi, heilög Katrín, Kristur, allir heilagir og hinn helgi kross.

Reynir er búinn að vera sóknarnefndarformaður í rúm þrjátíu ár. „Var kosinn formaður að mér fjarverandi,“ segir hann með bros á vör. „Og er enn að, 74 ára.“

Þegar tíðindamann kirkjunnar.is bar að garði voru menn að vinna í turninum. „Þessi fallegi turn er einstakur,“ segir Reynir, „hann var orðinn fúinn að hluta til og skreytingar á honum höfðu fokið út í veður og vind.“

„Kirkjan er friðuð,“ segir hann, „Minjastofnun hefur verið mjög hliðholl öllum framkvæmdum við kirkjuna.“

Hvalsneskirkja var vígð á jóladag árið 1887 og verður því 135 ára á næstu jólum. Kirkjan var svo tekin í gegn 1945 en síðan hefur margt verið unnið henni til góða.

„Fyrsta sem ég gerði eftir að ég varð formaður var að hafa forystu um að hlaðnir yrðu grjótgarðar í kringum kirkjugarðinn,“ segir hann og bendir á fallega hleðslu. „Það var Sveinn Einarsson frá Hnjóti á Egilsstöðum sem hlóð þá – hann var 83ja ára – og blés ekki úr nös!“

Kirkjan og hafið
Reynir þekkir sögu kirkjunnar í þaula og rekur hana vel og áreynslulaust. Enda hefur hann þurft að segja hana býsna oft því að alls konar hópar sækja kirkjuna heim og óska eftir því að fá að heyra sögu hennar.

Nábýli við hafið gefur og tekur. Margur hefur farist á Suðurnesjunum. Eitt kunnasta strandið er þegar togarinn Jón forseti strandaði á rifi við Stafnes í febrúar 1928. Tíu mönnum var bjargað en fimmtán drukknuðu.

En það var seglskipið Jamestown sem gaf mikið timbur af sér. Árið 1881 rak það mannlaust að landi Hvalsness gegnt Kotvogi. Skipið var fullt af timbri. Reynir segir að efnaðir bændur hafi keypt timbur úr skipinu. Ketill í Kotvogi keypti aðra síðuna, hún var dregin yfir ósinn í Hafnir og var það margra mánaða vinna að taka hana í sundur. Allt hafi verið neglt með koparnöglum.

Hvalsneskirkja

Í Hvalsneskirkju.

„Kirkjugólfið er allt úr Jamestown,“ segir Reynir, „og prédikunarstóllinn – úr amerískum rauðviði.“ Hann segir prédikunarstólinn vera þungan og hafi gólfið sigið undan honum um 6 sm. Það var lagfært og gólfplankarnir hvíla á grjóti en eru ekki festir út í kirkjuveggi. Jónískar súlur til sitt hvorrar handar eru einnig úr plönkum úr skipinu.

Kirkjubóndinn Ketill Ketilsson í Kotvogi lét reisa Hvalsneskirkju. Þar hefur kirkja staðið frá allt frá 1200. Ketill frétt að verið væri að reisa hlaðna kirkju í Njarðvík. Snaraðist þangað og samdi við steinsmiðina um að koma á Hvalsnes þegar verkinu væri lokið og hefja þar hleðslu. Grjótið var tekið úr klöppinni fyrir utan túnið og því ekki langt að fara.
„Hvalsneskirkja er af svipaðri stærð og Njarðvíkurkirkja,“ segir Reynir, „tveimur steinaröðum hærri, þakið brattara, – hún tekur um 100 manns í sæti.“

Einstakar minjar og góðir gipir

Hvalsneskirkja

Skírnarfonturinn smíðaður 1835-1837.

Hvalsneskirkja geymir legstein Steinunnar Hallgrímsdóttur sem sr. Hallgrímur Pétursson meitlaði en hún dó á barnsaldri. Steinninn er í kór kirkjunnar. Sr. Hallgrímur var vígður á sínum tíma til Hvalsnesssóknar og var þar prestur í sjö ár, 1644-1651.

„Skírnarfonturinn er frá því um 1835,“ segir Reynir, „og það er skemmtileg saga í kringum hann: Bóndinn í Stafnesi lá í fimmtán ár og var með öllu ógöngufær. Meðan svo stóð þá dundaði hann við að smíða þennan skírnarfont sem hann gaf síðan kirkjunni. Þegar búið var blessa skírnarfontinn þá gerist það undir að hann fær mátt í fæturna og gat gengið um.“

Fylgst vel með öllu
Reynir segir að ástand kirkjunnar og innanstokksmuna sé gott. Þó eigi eftir að laga altaristöfluna sem er eftir Sigurð málara Guðmundsson.

Hvalsneskirkja

Altaristaflan er eftir Sigurð Guðmundsson, málara, frá 1867 – eftirmynd af töflu Dómkirkjunnar.

„Þegar maður horfir vel á hana sést að hún er ögn gisin á köflum,“ segir hann. Altaristaflan er upprisumynd í sama stíl og tafla Dómkirkjunnar, „Já, og í Kirkjuvogskirkju og á Ingjaldssandi – íslenskur sérfræðingur sem starfar í Hollandi sagði mér að þær væru tíu svona á landinu.“ Farið var yfir allt grjótið í kirkjunni og fúgur lagaðar þar sem með þurfti. Lofthvelfingin var yfirfarin og þiljunar slegnar saman og fellt í rifur. Þá var þakið klætt kopar og kirkjuhurðir endursmíðaðar og gluggar settir í með tvöföldu gleri.

„Allar þessar framkvæmdir kosta sitt en við fáum styrki úr ýmsum sjóðum kirkjunnar,“ segir Reynir. „Gjaldendur í sókninni eru um 1000 og Hvalsnessókn er að Garðskaga og þá tekur Útskálasókn við, erum í Útskálaprestakalli.“

Ánægjuleg umsjón
Reynir segir að starfið í kringum kirkjuna sé allumsvifamikið og veiti það honum mikla ánægju.

Reynir Sveinsson

Reynir Sveinsson – lósmyndarinn.

Kirkjan sé vinsæl fyrir ýmsar kirkjulegar athafnir eins og brúðkaup. Hljómburður er afar góður í kirkjunni og hafi dregið tónlistarfólk að henni eins og Sumartóna á Suðurnesjum. Þá hafi kirkjan sjálf og umhverfi hennar heillað kvikmyndagerðarmenn sem hafa nýtt sér hana og nefnir hann mynd Friðriks Þórs, Á köldum klaka, og mynd Baltasars Kormáks, Mýrina, sem dæmi. Hann hlær glettnislega þegar hann segir frá tuttugu manna erlendu tökuliði sem kom til að taka upp og var þar í einn dag. „Það voru miklar tilfæringar og stúss,“ segir hann og síðar sýndi einn honum atriðið sem tekið hafði verið upp. „Það var þá sex sekúndur,“ hlær Reynir.

Reynir Sveinsson

Reynir á ferð með Svæðaleiðsögumönnum Reykjanesskagans.

Snoturt aðstöðuhús er skammt frá kirkjunni og breytti það öllu til hins betra segir Reynir. „Það er þrefalt torflag á þaki þess og dugði ekki minna.“

Þá getur Reynir þess í lokin að í Sandgerði sé Safnaðarheimili, Sandgerðiskirkja, og þar fari fram fjölmennar athafnir.

Hvalsneskirkja er svo sannarlega í góðum höndum undir forystu Reynis.

Reynir Sveinsson, sóknarnefndarformaður Hvalsnessóknar, er einn af þeim fjölmörgu sem stendur við bakið á kirkjunni sinni. Kirkjan er söfnuðurinn; fólkið.“ -hsh

Sandgerði

Reynir í Sandgerði á knattspyrnuvellinum að kveldi til.

FERLIRsfélagar minnast Reynis sem góðs og glaðværs manns. Börnin sín sagðist hann eiga íþróttafélaginu, Reyni í Sandgerði, að þakka. Það hafi heitið eftir honum. Þegar leikir fóru fram á íþróttaleikvanginum að kvöldi til hafi ómuð hávær hvatningaköllin; „Reynir, áfram Reynir“, hvatt hann verulega til dáða þá og þar sem eiginkonan var annars vegar.
Þegar Reynir var við nám í Svæðaleiðsögn á Reykjanesskaganum var ein áskorunin m.a. fólgin í „rútuleiðsögn“ um Skagann.

Reynir Sveinsson

Reynis Sveinsson.

Sérhver nemandi átti að lýsa fyrir öðrum nemendum í tíu mínútur tilteknum hluta leiðarinnar. Það kom í hlut Reynis að lýsa leiðinni frá Þórkötlustaðahverfi, framhjá Hrauni og upp Siglubergsháls að Ísólfsskála. Í minningunni var þessi kafli leiðsagnarinnar hin eftirminnilegasti í ferðinni. Reynir settist í stól leiðsögumannsins fremst í rútunni, horfði um stund á hljóðnemann, fletti þegjandi um stund blöðum í möppu og leit rólega í kringum sig, en sagði ekki orð alla leiðina. Þegar hann var spurður að ferð lokinni hvað hefði gerst svaraði hann: „Blöðin í möppunni voru bara ekki á réttum stað“. Málið var að Reynir gerþekkti umhverfi Sandgerðis og nágrennis, eins og gerist jafnan um heimalinga, en þegar út fyrir það var komið reyndist róðurinn þyngri, eins og sagt er á sjóaravísu.
Reynir Sveinsson var alltaf reiðubúinn að aðstoða eða upplýsa FERLIR um staði í og við Sandgerði, verkefni Fræðasetursins eða einstaka viðburði, s.s. á sviði Lionsfélagsskaparins, líkt og sjá má annars staðar á vefsíðunni. Blessuð er minning hans.

Heimildir:
-https://www.mbl.is/frettir/innlent/2024/01/23/andlat_reynir_sveinsson/
-https://www.sudurnesjabaer.is/is/moya/news/reynir-sveinsson-minning
-https://kirkjan.is/frettir/frett/2022/07/09/Folkid-i-kirkjunni-Enn-ad/?fbclid=IwAR139S9dMYMygJt6XNv19tpViZ79LoAPNqarhoIUjSd6Iu1Y4VbInwWJGlA

Hvalsneskirkja

Hvalsneskirkja 1. febr. 2024.