Tag Archive for: roðskór

Roðskór
Roðskór voru þeir skór kallaðir, er búnir voru til úr Steinbítsroði. Bezt þótti roð af stórum Steinbít til skógerðar. Gerður var greinamunur á Steinbít, eftir stærð og útliti, t.d. Dílasteinbítur, Hárasteinbítur, Úlfasteinbítur, Messudagsteinbítur, svo nokkur nöfn séu nefnd á steinbít, er voru daglega á vörum vermannanna og húsmæðra.
RoðskórÚlfsteinbítur gaf skæði í tvenna skó. Bezt þótti roð af Úlfsteinbít, en svo kallast mjög stór steinbítur. Þessi steinbítur var eftirsóttur af vermönnum, og mun þar mezt um hafa ráðið, að af þessum steinbít fékkst skæði í tvenna skó. Fremri hlutinn í fullstóra skó, aftari hlutinn í minni ská, þá venjulegu á krakka og unglinga. Þessir skór voru kallaðir Dilluskór, vegna þess að afturhlutinn á roðinu var kölluð dilla. Venjulega fékkst skæði í tvenna skó af meðal stórum steinbít, afgangurinn var notaður í bætur á roðskó.
Þegar steinbítur var hertur, varð að hafa það í huga, að ekki mátti skemma roðið, t.d. mátti ekki gogga í roðið, er steinbítur var innbyrtur í bátinn. Var hann þveginn upp úr vatni, og var nú tilbúinn til verkunar á steinbítsgörðum, en svo voru kallaðir sérstakir grjótgarðar er hlaðnir höfðu verið í verstöðvum til þess að herða á steinbít. Garðar þessir voru úr einfaldri grjóthleðslu um 80 cm. á hæð. Víða má sjá þessa grjótgarða í gömlu verstöðvum, og skipta þar oftast tugum jafnvel hundruðum.
Er steinbíturinn var orðinn það harður að hann lautaði ekki undir fingri með þéttu átaki, var hann tekinn af steinbítsgörðunum og látin í aðra garða, er hlaðnir voru úr grjóti. Þessir garðar voru frábrugðnir steinbítsgörðum að því leiti, að þeir voru breiðari að neðan. Tvöföld steinhleðsla fyrstu tvö steinlögin í garðinum, síðan mjókkaði garðurinn í eina steinröð efst, heldur lægri en steinbítsgarðarnir. Þessir garðar voru kallaðir hrýjugarðar. Á þessa garða var steinbíturin látinn, var þetta kallað að hrýja steinbít. Úr hrýjunum var hann svo tekinn, fullverkaður sem skreið.
Farnar voru skreiðarferðir langa vegu. Til voru sérstök skreiðaskip, er aðallega voru notuð til skreiðarfluttninga að vori og sumarlagi, en sem hárkarlaskip að vetri. Farnar voru lestarferðir langavegu til að sækja skreið, jafnvel úr fjarlægum landshlutum.

Roðskór

Roðskór.

Það var verk húsmæðrana að sjá um að hafa roð í skó tiltækt, er þess þurfti. Venjulega voru það vinnukonurnar, er sniðu og saumuðu roðskóna. Það tók ekki langan tíma að gera hverja roðskóna, hjá þeim konum sem voru vanar að gera roðskó. Ástæðan var sú, að roðskór entust illa, þurfti því að búa til mörg pör af roðskóm, daglega, á sumum heimilum, sérstaklega á þeim heimilium er höfðu lítið annað efni í skó en roð.
Það mun hafa þótt nauðsynlegt að vita, hvað roðskór entust vissar vegalengdir, því skólaus maður er vegalaus, þetta mun hafa verið ástæðan fyrir því, að vegalengdir voru mældar í roðskóaleiðum, talað var um tveggja, þriggja, fjögra, fimm og sex roðskóleiðir, var þá átt við þá leið er farin var fram og til baka. Látraheiði V.-Barð. er sex roðskóaleið, það er fjallvegurinn frá Hvallátrum bakatil við Látrabjarg að Keflavík. Alltaf voru hafðar með roðbætur til að leggja inn í skóna, ef þurfti.
Heyrst hefur að þegar roðskórnir voru orðnir gatslittnir, ónýtir sem skór, voru þeir kallaðir umvörp. Umvörp voru lögð í bleyti, síðan voru þau þvegin og skafin upp úr mörgum vötnum og svo soðin upp úr soði af hangikjöti og borðuð með hangifloti. Þannig var það, er harðæri og hungur steðja að okkur elskulega landi elds og ísa. Ekki voru aðrar tegundir af skóm hafðar til matar.

Heimildir:

-Frásagnir gamals fólks, er tók þátt í þeirri lífsbaráttu, sem að nokkur er horfin í móðu liðins tíma.

Heimildarmenn:
-Ólafía Egilsdóttir, Hnjóti,
-Ólafur Magnússon, Hnjóti,
-Daníel Ó Eggertsson, Hvallátrum,
-Guðmunda Ólafsdóttir, Hvallátrum

Roðskór

Roðskór.