Tag Archive for: Róselsvötn

Rósel

Í Víkurfréttum 2018 er fjallað um „Þrjátíu ára skógrækt við Rósaselstjarnir“ ofan Keflavíkur. Auk þess sem „Rósaselstjarnir“ eru ranglega stafsettar, eiga að vera „Róselstjarnir„, er skógræktinni hrósað í hástert, þrátt fyrir eyðilegginguna á fornminjunum sem þar eru, og hvergi er minnst á, hvorki hina fornu „Hvalsnesgötu“ né á „Róselin“ tvö við vötnin. Selin frá Hólmi við þau nefndust Rósel.

Hvalsnesleið

Hvalsnesleið fyrir skógrækt.

„Í ár eru liðin þrjátíu ár síðan hafin var skógrækt við Rósaselstjarnir. Það er svæði sem er ofan byggðarinnar í Keflavík. Svæðið var innan sveitarfélagsmarka Sveitarfélagsins Garðs og tilheyrir nú sameinuðu sveitarfélagi Garðs og Sandgerðis. Svæðið hefur hins vegar í áratugi verið vinsælt útivistarsvæði hjá Keflvíkingum og verið leynd perla sem lengi var innan flugvallargirðingar. Fólk læddist yfir eða undir girðinguna til að fara á skauta á frosnum tjörnunum.

Árið 1988 hóf Rotaryklúbbur Keflavíkur að gróðursetja við Rósaselstjarnir. Þá var svæðið enn innan girðingar og vaktað af Varnarliðinu og því þurfti leyfi frá Varnarliðinu til að fara á svæðið til gróðursetningar.

Konráð Lúðvíksson

Konráð Lúðvíksson.

Konráð Lúðvíksson læknir hefur tekið þátt í gróðursetningunni í öll þessi ár, enda með græna fingur og áhugasamur um uppgræðslu á svæðinu. Í samtali við Víkurfréttir sagði Konráð að fyrsta verkið fyrir 30 árum hafi verið að fara með vörubíl í Heiðmörk ofan Reykjavíkur og sækja þangað lúpínu sem hafi verð sett niður við Rósaselstjarnir. Hún hafi verið grunnurinn að því sem þarna er í dag og myndað bæði jarðveg og skjól.
Rotarymenn úr Keflavík hafa árlega gróðursett 300 trjáplöntur á svæðinu og því hafa verið sett niður 9000 tré af klúbbnum þessa þrjá áratugi.
Fleiri hafa komið að gróðursetningu á svæðinu. Þannig hefur Oddfellowreglan komið að gróðursetningu við tjarnirnar, einnig Vímulaus æska og Lionessur. Þá er Fjölbrautaskóli Suðurnesja með svæði við tjarnirnar í fóstri og Vigdís Finnbogadóttir, þáverandi forseti, setti niður plöntur við Rósaselstjarnir og þar er lundur í hennar nafni.

Hvalsnesleiðin forna

Hvalsnesleiðin forna – með tilkomu skógræktarinnar.

Eftir að malbikaður göngu- og hjólreiðastígur var lagður frá Eyjabyggðinni í Keflavík og að Flugstöð Leifs Eiríkssonar er útivistarsvæðið við Rósaselstjarnir orðið mun aðgengilegra. Áður hafi þarna bara verið hálfgerður jeppaslóði en nú sé auðveldara að koma aðföngum að svæðinu og hugmyndir eru uppi um frekari uppbyggingu við tjarnirnar. Áhugi sé fyrir því að leggja stíg kringum tjarnirnar.
Eins og áður segir er svæðið innan sveitarfélagsmarka nýs sameinaðs sveitarfélags Garðs og Sandgerðis þó svo það liggi aðeins nokkuð hundruð metra frá efstu byggð í Keflavík.

Rósel

Rósel vestara við Róselstjarnir.

Konráð rifjar upp að þegar menn sýndu svæðinu fyrst áhuga til skógræktar fyrir 30 árum, þá hafi heyrst áhyggjuraddir utan úr Garði að þarna væru Keflvíkingar hugsanlega að sölsa undir sig þetta svæði. Konráð segir af og frá að Rósaselstjarnir séu einkamál Keflvíkinga, þetta sé áhugavert útivistarsvæði og náttúruperla fyrir alla. Rotaryfélagar hafi aðeins gert svæðið verðmætara sem útivistarsvæði með gróðursetningu síðustu þrjá áratugi.
Konráð segir að gróðursetningin á svæðinu hafi tekist vel. Þar eru hæstu tré í dag á sjötta metra og svæðið hafi tekið miklum framförum á síðustu árum með breyttu veðurfari og betri vaxtarskilyrðum. Fyrstu trjáplönturnar á svæðinu hafi verið Tröllavíðir en nú sé meiri fjölbreytni.

Rósel

Rósel 2020 – umlukið trjárækt.

Eins og kemur fram hér að framan þá eru Rotaryklúbbur Keflavíkur og Fjölbrautaskóli Suðurnesja einu aðilarnir sem séu að setja niður trjáplöntur við Rósaselstjarnir. Konráð hvetur fleiri aðila til að koma að verkefninu og taka svæði við tjarnirnar í fóstur ef svo má segja. Það sé skemmtileg dagstund að taka þátt í gróðursetningu og gera sér svo glaðan dag á eftir. Þannig hafi Rotaryfólk gefið sér góðan klukkutíma í að gróðursetja og svo var slegið upp grillveislu og fólk gerði sér glaðan dag.“

Þegar FERLIRsfélagar voru á göngu um Hvalsnesgötu ofan Keflavíkur árið 2015, austan Róselsvatna, vakti athygli þeirra fólk, sem var að planta trjám í þá fornu götu. Þegar það var spurt hverju gengdi svaraði það að þarna í gróningum væri svo gott skjól fyrir plönturnar.
Þegar því var bent á að „gróningarnir“ væru forn gata á milli Keflavíkur og Hvalsness og þar með taldir til fornleifa, virtist það koma af fjöllum – sem þó eru engin á Suðurnesjum.

Heimild:
-Víkurfréttir, 24. tbl. 14.06.2018, Þrjátíu ára skógrækt við Rósaselstjarnir – hæsta tré á sjötta metra, bls. 12.

Rósel

Róselsvötn.

Rósel

Við leit að Rósaseli (Róseli) utan Rósaselsvatna (-tjarna) ofan Keflavíkur var eftirfarandi lýsing m.a. höfð að leiðarljósi:
Rósel II„Róselsvötn heita einu nafni tjarnir tvær skammt ofan við Keflavíkurkaupstað, annað vatnið er innan flugvallargirðingar-innar. Þangað er nú byggðin sem óðast að teygjast. „Vötnin“ eru tjarnir kallaðar í daglegu tali manna á milli í bænum, og börn og unglingar greina á milli „Stóru-Vatna“ og „Litlu-Vatna“. Hin síðari tjörn er utan við flugvallargirðinguna og þornar hún upp í þurrkum á sumrin. Fyrri tjörnin er aftur á móti alltaf með vatni í. Nokkuð gras er á bökkum „Stóru-Vatna“ og eins vex einhvers konar vatnagróður í sjálfu vatninu. (Það skal tekið fram að þó tjarnir þessar séu aðeins tvær eru þær nefndar í fleirtölu þó ekki sé átt við nema aðra þeirra). Áður fyrr var tekinn þarna mór og hann fluttur niður í Keflavík, jafnt af konum sem körlum.
Eftir því sem ég veit bezt var þar Rosel Isíðast grafinn mór í kolaskortinum í stríðinu 1914-18. Um nafngift vatnanna er það helzt að segja að hún (Róselsvötn) felur í sér að þar hafi verið sel. Segir frá því í hinum óprentaða hluta Suðurnesjaannáls Sigurðar Sívertsens að Stóri-Hólmur í Leiru hafi haft þar í seli til forna líklega á 18. öld og fyrr. Mér vitanlega eru engar rústir sjáanlegar af kofum á staðnum en vera má að það leynist innan um þúfur og steina sem þar eru á víð og dreif. Róselsvötn eru vestur af Keflavík.“
Við skoðun á svæðinu norðvestan vatnanna komu rústir tveggja selstaða í ljós; Rósel I og Rósel II. Leifar fyrrnefndu selstöðunnar eru suðvestan við „Stóru-Vötn“. Þær virðast mun eldri, en þó má enn sjá móta fyrir hleðslum og rýmum þrátt fyrir gras og mosagróður. Síðarnefnda elstaðan er norðvestan við Vötnin.
Þar eru Rosel Itóftirnar mjög vel greinilegar og má sjá bæði búr og baðstofu sem og hliðsett eldhús. Stekkurinn er skammt norðar (útnorður).
Skógræktarmaður er dundaði við að planta trjám í gömlu Hvalsnesleiðina virtist undrandi er honum var bent á tóftirnar. Hann hafði verið að dunda á svæðinu meira og minna í 30 ár, en aldrei rekið augun í þær (enda kannski upptekinn við annað).
Norðaustan Róselsvatna má sjá hluta Hvalsnesleiðarinnar gömlu. Einkum athyglisvert er að sjá tvíþætt hlutverk hennar á kafla; annars vegar gömlu göngu- og reiðgötuna og hins vegar vagnveg. Á síðarnefnda kaflanum, sem ekki er ýkja langur, má sjá leifar tveggja hlaðinna brúa yfir mýrardrög. Í gömlu reiðgötuna hefur verið plantað trjám líkt og í selstöðuna suðvestan við Vötnin.

Heimild:
-Örnefni við Keflavík á Rosmhvalanesi (Suðurnesjum), [vélritað upp úr ritinu Faxa 1967 (janúar hefti ?) af Skúla Þór Magnússyni], eftir Ragnar Guðleifsson kennara í Keflavík – Örnefnastofnun Íslands.

Rósel

Rósel I og 2 – uppdráttur ÓSÁ.