Tag Archive for: sagan

Krýsuvík

Árið 1999 skrifaði séra Ágúst Sigurðsson þrjár greinar í „Heima er bezt“ um „Suðurkjálkann„, þ.e. bæi og ábúendur í Krýsuvík og tengsl þeirra við Herdísarvík. Hér birtist fyrsta greinin af þremur:

Ágúst Sigurðsson

Ágúst Sigurðsson.

„Kirkja Vorrar frúar, sem bóndinn í Krýsuvík byggði, sennilega brátt eftir kristnilagatökuna, var nánast heimiliskapella.
Stóð svo lengur hér en víða annars staðar, af þeim landfræðilegu ástæðum, að nágrannabæir voru engir í hinu fjarskalega dreifbýli á hafnlausri strönd að útsænum, eyðimörk ógna og dýrðar milli Ölfusárósa og Reykjanestáar. Var þar austast landnám Þóris haustmyrkurs í Selvogi, en Krýsuvík óraleið utar. Óbrennishólmi, einn margra á Suðurkjálkanum, er upp frá Selatöngum í hrauninu, sem Jónas Hallgrímsson náttúrufræðingur giskaði á, að brunnið hafi 1340 og eytt bæinn. Eru þar nokkrar rústir og nefnd bæði Kirkjuflöt og Kirkjulág í Húshólma. Ekki er þar hraungrýti í hleðslu, en lábarðir fjörusteinar. Heimræði, samt hálftíma gangur sjávargatan, var við Selatanga. Ósennilegt annað, en að kotamenn hafi búið á hjáleigum umhverfis hinn fyrri Krýsuvíkurstað, eins og þann síðari, sem byggður var heilli lengdargráðu austar og miklu ofar frá sjó eins og dr. Bjarni Sæmundsson frá Járngerðarstöðum greinir í ritgerð um Krýsuvíkurbyggðina (Árb.F.Í. 1936). Og það er dr. Bjarni, sem ítrekað kallar ströndina utan frá sýslumörkum austan við Krýsuvíkurbjarg Suðurkjálkann.

Húshólmi

Húshólmi – forn skáli í Ögmundarhrauni.

Bændunum á hinum afskekkta bæ, fyrir og eftir eldgosið, hvort sem það varð 1340 eða fyrr, var ekki mögulegt að búa, síst við sjófang og fiskveiði nema gæti mannað a.m.k. einn sexæring. Þess vegna byggðust útkotin, hjáleigumar umhverfis aðalbólið staðarbóndans, lénsherrans.
Og heimiliskapellan varð sóknarkirkja hins háða hjáleigufólks. Öll útbýlin hafa staðið lægra en heimabærinn í fyrndinni, enda sér ekki urmul af þeim. Kotin sem falin undir hraunbreiðunni. Aðeins eru merki bæjarstæðis kirkjubóndans, jarðeigandans. Eru það ekki getgátur, en sýnileg mynd Krýsuvíkursóknar fram yfir síðustu aldamót.

Vigdísarvellir

Vigdísarvellir – Bali. (Uppdráttur ÓSÁ)

Eru alls nafnkenndar 8 hjáleigur, Vigdísarvellir og Bali þar í. Þannig mynduðust sóknir að hinum fornu og í dreifðu kirkjusetrum í landsins afskaplegasta strálbýli.
Sjávargatan á nýja Krýsuvíkurstaðnum er nær 5 km löng, en hvergi lending nema við Selatanga suður undan Gömlu Krýsuvík. Eftir flutninginn hlaut landbúskapur að verða meiri, en verbúðir útfrá.
Að kirkjunni var löngum prestur, sennilega æði oft vikuprestur með ýmist Strönd í Selvogi eða Stað í Grindavík, þótt gríðarlega langt og torsótt sé á landi að fara til beggja átta, en ekki gert ráð fyrir sjóleiðinni á opinni úthafsströnd.

Eggert Vigfússon

Séra Eggert Vigfússon (1840-1908).

Hélzt svo til 1641, en síðan varð kirkjan í Krýsuvík annexía með Strandarkirkju í Selvogsþingum, unz síðasti presturinn í brauðinu dó 1908. Síra Eggert Sigfússon var að koma úr messuferð í Krýsuvík, þegar hann hneig niður við túnfótinn á prestsetrinu í Vogshúsum í hinu fábyggða og hrjóstmga kalli hrauns og sanda.
Var þingabrauðið mjög fátækt, samt allt að 12 bæja byggð, þegar flest var í Selvogi, en hjáleigur og þurrabúðir margar, fólk á bilinu 100-160 manns eftir árferði og landshögum. Úti í Krýsuvík 30-40 manns, um 80 þegar alflest var 1860.
Strandarkirkja hefur þá sérstöðu, að hún stendur á margra alda skeiði ein og sér, nokkuð frá sóknarbyggðinni. Dr. Kristján Eldjárn lýsti því svo (Tíðindi 1984), að Strandarkirkja standi ekki á hinum einmanalega stað af því, að hún hafi verið hrakin úr mannheimi eins og sumar aðrar kirkjur, ekki einu sinni úr kirkjugarðinum, heldur hafi náttúruöflin, uppblásturinn í Selvoginum hrakið mannfólkið burt af staðnum. Kirkjan ein stóðst raunina og þraukaði á sínum fornhelga grunni.

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja fyrir 1810.

Kirkjuhúsið, sem eitt stendur á gömlum bæjarhóli hins nýrri landnámsstaðar í Krýsuvík, var reist 1857. Kirkjusmiðurinn var Beinteinn Stefánsson, frændi vor í Bergsætt. Krýsuvíkurbúendur voru þá Þórhalli Runólfsson, sem var fullmektugur við hina fýrstu kirkjuskoðun síra Páls Ólafssonar prófasts og Ísleifur Guðmundsson, sem flutst hafði austan úr Rangárþingi út í Krýsuvík. Fólk var fleira í Krýsuvík, þegar þetta var, en nokkru sinni fyrr eða síðar og guldust kirkjunni 12 ljóstollar. Á staðnum vom 19 manns í tvíbýli, en byggð á báðum kotunum, Suður- og Norður-, á Nýjabæ bæði Stóra- og Litla- (tvíbýli) Snorrakoti, Haus, Læk og Arnarfelli, á Vigdísarvöllum milli Núpshlíðar og Austurhálsa, og Bæli.

Krýsuvík

Krýsuvík 1900.

Kirkjan var byggð af altimbri eins og það var gjarna orðað, ef alls ekki var torfveggur að, ekki heldur að kórgafli neðanvert. Liðnir voru 2 vetur, frá því er kirkjan komst upp, þegar prófastur Kjalamesprófastsdæmis vísiteraði, en ytra byrði vantaði þó enn á þakið. Fékk kirkjuhaldarinn fyrirmæli um að leggja það strax og var það gert. Húsið er byggt á grjóthlöðnum grunni og yfir höfuð stæðilegt, segir síra Ólafur í kirkjuskoðunargerðinni.

Krýsuvíkurkirkja

Innansmíð Krýsurvíkurkirkju teiknað árið 1810 – Holland.

Að innanmáli er það 10 og 1/4 alin lengdar, 6 álna breitt, þ.e. nálega 25 m2. Undir bita 2 álnir 20 og 1/2 þumlungur, 1,75 m. Á kirkjugólfi eru 9 bekkir með bakslám, 27 sæti fullorðinna. Milli kórs og framkirkju skilrúm með pílárum. Þilset eru í kórnum að fyrri venju og hefur verið rúmt þar á húsbændum, sem eru 14 í sókninni, þegar kirkjan var byggð. Þórhalli staðarhaldari og síðan Jón sonur hans áttu sess og sæti við gaflþilið, sunnanvert við altarið, sem var hið sama og í fyrra kirkjuhúsi, predikunarstóllinn í milligerðinni hinn sami og fyrr, en gráður nýsmíði. Gamla hurðin með skrá og hjörum var „vond“, og hefur þurft um að bæta. 2 sexrúðugluggar á hvorri hlið, 4ra rúðu gluggi yfir dyrum.
Gripir og áhöld eru úr fyrri kirkju, silfurkaleikur með patínu, 2 altarisstjakar af tini, skírnarfatið leirskál, gömul sálmabók og Vajsenhúsbiblía. Klukka er ein og á rambhöldum og er hún hljómgóð.

Fáskrúðug kirkja og lítilfjörlegt altari
Þórarinn BöðvarssonSíra Ólafur Pálsson fór norður að Melstað 1871 og varð þá prófastur síra Þórarinn Böðvarsson í Görðum. Skiptir mjög um tón í úttektarlýsingum og var síra Þórarinn aðfinnslusamur í meira lagi. 1872 leggur hann fyrir Ingveldi Hannesdóttur, sem bjó
ekkjan það fardagaár á staðnum, að hún láti þegar í stað bika kirkjuna og 1874 þarf að bæta suðurhliðina hið bráðasta og leggja nýja ytri súð að sunnan. Þröskuld vantar, gráðurnar eru „lamaðar“, lausar, og altarið segir hann, að sé lítilfjörlegt. Þá verður að kaupa aðra klukku, svo að hægt sé að samhringja, en hún má þó vera lítil.
Ennfremur fullyrðir síra Þórarinn, að eigendur kirkjunnar hafi sýnt sig sljóa í að lagfæra og vill hann, að meðeigandi, sem búi á staðnum, taki til sín allar tekjur kirkjunnar og verji þeim til aðbóta.

Krýsuvík

Bæjardyrnar á gamla Krýsuvíkurbænum. Erlendur ferðamaður, Livingstone Leamonth, tók þessa mynd af sýslumannshjónunum, Ragnheiði dóttur þeirra og Pétri Fjeldsted Jónssyni, manni hennar og ungum syni.

– Á hásumri 4 árum síðar er prófastur enn á yfirreið og segir þá, að kirkjan sé að öllu fáskrúðug. Af þeim og fyrri um mælum síra Þórarins í Görðum mætti ólykta, að hann væri hinn mesti hákirkjumaður, skrúðafíkinn og skrautgjarn. Að vísu var embætti hans tekjuhátt og staðurinn í Görðum ríkur. Áður sat hann að auðlegðinni í Vatnsfirði, en fyrr aðstoðarprestur föður síns í velsældinni á Mel í Miðfirði. Og alþingismaður var hann í 25 ár. Andstæður ríkidæmis og þess, sem er óálitlegt eins og síra Þórarinn lýsir Krýsuvíkurkirkju, afhjúpa auðmýkingu mikillætis.
Er hér var komið, var Árni Gíslason sýslumaður á Kirkjubæjarklaustri, einn fjárríkasti bóndi á landinu og jafnvel tíundarhæstur á sinni tíð, orðinn eigandi meiri hlutans í Krýsuvík.

Kirkjubæjarklaustur

Árni sýslumaður bjó lengi stórbúi á Kirkjubæjarklaustri, áður en hnn fór búnaði sínum út í Krýsuvík.

Þykir nú prófasti bera vel í veiði og segir árið eftir að Árni lét af sýslumannsembætti og var kominn alfluttur út í Krýsuvík, að kirkjan hafi undanfarið verið miður vel um gengin og vanti nú, að hinn heiðraði kirkjueigandi sýni henni þann sóma, er þörf sé á. Háskuld kirkjunnar lækkaði um helming við jarðakaup sýslumanns 1. febrúar 1878 og varð þá 358 ríkisdalir. Þau hlýju orð setur hann aftan við í bréfabók prófasts, að kirkjusókn sé góð, og að ekki sé unnið á helgum dögum í sókninni. Sem raunar gat varla verið hætta á, þegar þjóðkunnugt yfirvald var setst að í hinni litlu sókn og var staðarhaldari og eigandi, en allir „kotamennirnir“ á hjáleigunum landsetar hans. Hitt er svo annað og er það Árna Gíslasyni að þakka að frumkvæði og framkvæmd, að 1882 er Krýsuvíkurkirkja gallalaust hús og þétt. Þar að auki hefur hafst upp á hinni týndu handbók kirkjunnar, útg. 1869.
KrýsuvíkÞetta var samt erfitt ár. Sumarið kom ekki 1882, hvergi á landinu, og mislingarnir fóru yfir, ógnleg fallsótt, því að þeir höfðu ekki gengið síðan 1846. Varð oft messufall og líkaði Árna Gíslasyni það illa, en hann var prestsonur og mjög trú- og kirkjurækinn. Fækkar sem vænta má í sókninni við þessi ókjör. Og það er ekkert fermingarbarn árið eftir. Eitt átti að ganga til spurninga og fermast 1885, en prófastur sagði, að barnið væri svo illa læst, að ekki gæti það fermst, fyrr en 18 ára.
KrýsuvíkSumarið 1886 gengur prófastur ríkt eftir, hver sé orsök messufalla, úr því að ekki sé nú helgidagavinnan: Það treystir sér enginn til að byrja sálmasönginn. Hinn siðferðisgóði þingaprestur, síra Eggert Sigfússon í Vogsósum hefur ef til vill verið ólagviss og ekki getað treyst því að finna rétta tóninn, en hann er þreyttur, þegar tekið er til eftir þriðja slátt klukkunnar einu. Útkirkjuvegurinn er firna langur og presturinn er uppgefinn og hás, jafnvel þótt færi úteftir á laugardaginn. Hann er kvíðinn og svo rámur, að hann verður að spara veika röddina til þess að geta flutt ræðuna. Dauðinn fór að honum, þegar hann var að koma úr einni messuferðinni utan úr Krýsuvík, kúgaþreyttur. Þriðja, þunga slag hjartans var endanlegt.

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja – legsteinn Árna Gíslasonar, sýslumanns.

Árna sýslumanni var hælt fyrir góða söngrödd í Bessastaðaskóla, en nú gerist hann gamall fyrir aldur fram. Hann er 65 ára. Vonbrigðin í búskapnum í Krýsuvík, er hann hafði misst fjölda fjár og sá, að landið var ofbeitt, en rányrkja stunduð í Krýsuvíkurbergi, olli þeim kvíða, að röddin bilaði. Hún brast við andlegt álagið.
Messusöngurinn átti eftir að breytast síðar, því að 18 ára stúlka frá Herdísarvík, sem varð húsfreyja á Stóra Nýjabæ 1895 og bjó þar í 38 ár, var mjög músíkölsk og hafði fallega rödd. Það var Kristín Bjarnadóttir og lét hún ekki undir höfuð leggjast að sækja kirkju sína. Börn hennar mörg erfðu sönggáfuna með tóneyra móður sinnar, og sungu í fyllingu tímans í kirkjukórum norðanvert á Reykjanesskaganum.

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja fyrrum – tilgáta.

1888 lætur Árni Gíslason vinna að hleðslu og aðbótum um kirkjugarðinn og þó nokkuð er aðhafst í viðhaldi kirkjuhússins flest árin, m.a. er þess getið 1890, að ákveðið hafi verið að stjóra allar trékirkjur niður með járnum, allajafna akkeriskeðjum, sem bundnar vom um stórgrýti í jörðu. Víða um land sér þessa dæmin og munu keðjurnar hafa forðað mörgu kirkjuhúsinu frá foki. Einna mest var aðhafst á síðasta sumri Árna, er hann lét járnklæða kirkjuþakið.

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja – keðjufestingar.

Hefur bárujárn síðan verið ysta byrði súðarinnar utan og 1901 voru svo veggir og gaflar járnklæddir. Enda þótt járnklæðning gömlu trékirknanna þyki nú ljót og hafi víða verið rifin af, er hitt ómótmælanlegt, að mikil vörn var í, ekki sízt í byggðum, sem eru svo opnar fyrir allri sunnanátt og stórrigningum af hafi sem Suðurkjálkinn. Fá ár eru síðan bárujárnið var rifið af Krýsuvíkurkirkju og húsið standklætt af nýju eins og sér á meðfylgjandi mynd, sem tekin var á veturnóttum 1998, nema þakið sem skiljanlegt er.
Síra Jóhann Þorkelsson dómkirkjuprestur var prófastur í aldarlokin og kveður við mildari tón í skoðunargerðum hans í Krýsuvík. Einhver hin síðustu orð síra Þórarins í Görðum um kirkjuna eru, að hún sé óálitleg og skrautlaus, en síra Jóhann getur glaðst yfir bárujárnsþakinu og nýju lofti, sem lagt er á bitana í framkirkjunni alveg inn að kór, og hefur milliverkið þá verið tekið ofan og rifrildinu kastað á eldinn, þó að nægur væri nú rekinn á hinni afar löngu úthafsströnd staðarins. Hins er að gæta, að vegna þess hve lágt er undir lausholt og bita er loftið hin mesta skemmd á kirkjunni. Það gagn í, að fyrr og betur nýtur upphitunar um embætti, en hún var að sjálfsögðu aðeins frá fólkinu sjálfu, kirkjugestum, auk þess sem kirkjuloftin voru þurr og trygg geymsla staðarhaldarans.

Eldavél og íveruhús

Vogsósar

Vogsósar. Við þennan stein í túninu lagðist séra Eggert til hinsta svefns, aðfram kominn.

Þegar Selvogsþing voru lögð niður 1907, og komu lögin til framkvæmda við skyndilegan dauða síra Eggerts hinn 12. október árið eftir, voru alls 100 manns í prestkallinu, 18 í Krýsuvíkursókn. Þá var heimabóndi Jón Magnússon, kona hans Ingibjörg Sigurðardóttir og áttu 3 ung börn og héldu vinnufólk, en Guðmundur Jónsson og Kristín Bjarnadóttir á Stóra-Nýjabæ, og voru þá fædd 9 af 18 börnum þeirra, en andvana sveinn 1906.
Jón heimabóndi og Guðmundur kotamaður, eins og hjáleigubændurnir voru nefndir, voru leiguliðar Einars Benediktssonar fv. sýslumanns Rangæinga og H. Th. Amemanns, sem var auðmaður í Osló. Keyptu þeir Krýsuvík með hjáleigunum, og Herdísarvík 1908, og voru kaupin innsigluð hinn 17. nóvember (skv. upplýsingum sýsluskrifstofunnar á Selfossi 25/2 1999).

Staður

Staður við Grindavík.

Eftir þetta var Krýsuvík útkirkjusókn frá Stað í Grindavík og þjónuðu síra Brynjólfur Gunnarsson og síðan nafni hans Magnússon þú rúma 2 áratugi, sem sóknin hélzt við. 1929 var hún sameinuð Grindavíkursókn og kirkjan í Krýsuvík „afhelguð“ sem kallað er.
Varð þess raunar skammt að bíða, að úþreifanlegt yrði, en Marteinn Þorbjamarson frú Þúfu í Ölfusi, sem bjó og útti lögheimili um sinn í Krýsuvík, en var lengi viðloða og lagði mikla stund á egg og fugl í Krýsuvíkurbjargi, fékk heimild til að innrétta íbúð í kirkjuhúsinu. Altari og predikunarstóll fóru í vörzlu Þjóðminjasafns. Skilveggur var settur um þvert og loft lagt á bita yfir kórnum. Þar, á kórgólfi kirkjunnar, var aðal vistarveran og eldavél komið fyrir með tilheyrandi reykhúfi. í „bæjardyrunum“ var töluvert rými að sunnanverðu í framkirkju, en á bakborða afþiljað búr og geymsla.

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja 1953.

Í fyrstu ætlaði Marteinn íbúðina í kirkjunni aðeins til vor- og sumarnota, er hann stundaði bjargsigið, að því er frú Guðbjörg Flygenring í Hafnarfirði telur, en húsið var með öllu óeinangrað og gólfið lét brátt undan síga við þetta óvænta og annarlega álag. Svo fór þó, að Marteinn, sem m.a. var kunnur af bjargsigi, er hann sýndi á Alþingishátíðinni, lét Magnúsi Ólafssyni, svila sínum, kirkjuhúsíbúðina eftir og hafði Magnús þar að kalla ársvist fram til þess, er hann missti heilsuna og lamaðist af slagi 1945. Bar það að í kórkamersinu í kirkjunni. Svo vel vildi til, að kunnugir áttu erindi í Krýsuvík í þann dag. Var Magnús fluttur á kviktrjám út í Grindavík, en Krýsuvíkurvegurinn ekki fær eða til fulls á kominn. Um símasamband var ekki að ræða, er enginn átti lögheimili í Krýsuvík eftir 1933 og aðeins Magnús, sem hélzt þar við.

Ólafur Þorvaldsson

Ólafur Þorvaldsson.

Fornvinur hans, Ólafur Þorvaldsson þingvörður, og nágranni, þegar bjó í Herdísarvík, minntist Magnúsar í fallegri blaðagrein, þegar hann dó 1950 (Mbl. 21.okt.), og í bók Ólafs, Harðsporum, sem út kom 1951, er mikinn fróðleik að finna um lífið í Selvogi og á Suðurkjálkanum, einkum Herdísarvík og Krýsuvík. Og Árni Óla, blaðamaður og rithöfundur, skrifaði um bóndann í Krýsuvík og einbúann í vetur (Landið er fagurt og frítt, 1941). Ekki skal það endursagt, en vísað til eins og Harðsprora Ólafs í Herdísarvík.
Björn Jóhannesson Að hinu skal vikið, að kirkjan átti eftir að nú fyrri helgi einfaldleikans og vígslu 31. maí 1964. Átti Vestur-Húnvetningurinn Björn Jóhannesson f.v. forseti bæjarstjórnar í Hafnarfirði, framkvæði að endurreisn hins aldna guðshúss, sem fór mjög hnignandi, einkum frá 1908, 10 árum eftir daga Árna sýslumanns, er annar fv. sýslumaður, stórskáldið, og hinn erlendi gróðamaður vora orðnir eigendur Krýsuvíkursóknar og alls ekki var framar sinnt um staðarbætur.
Hver leigubóndinn á fætur öðrum kom að hinu forsárlausa höfuðbóli. Allar hjúleigurnar voru farnar í eyði litlu fyrr, nema Stóri

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja 1964.

Nýibær, þar sem samfelld búskapartíð Guðmundar Jónssonar varði fram yfir kreppuárið mikla 1932.
Greiddi Björn allan kostnað af verkinu og fékk hann Sigurbent G. Gíslason trésmið til smíðanna eins og frá er sagt í Sögu Hafnarfjarðar 1908-1981. Var Sigurbent dóttursonur kirkjusmiðsins 1857, Beinteins Stefánssonar bónda í Arnarfelli.
Húsfriðunarnefnd og Jöfnunarsjóður kirkna komu löngu síðar til og er því enn meir vert um forgöngu Björns að endurreisn Krýsuvíkurkirkju. Biskup Íslands vígði hið litla guðshús, sem þú varð ekki einu sinni heimiliskapella, en stendur eitt og yfirgefið á fornum staðarhólnum, þar sem Krýsuvík var upp byggð, eftir að Ögmundarhraunið brann.

Herdíarvíkurgata

Herdísarvíkurgata.

Heilli lengdargráðu austar en landneminn reisti bæ sinn, samt óravegu vestur frá Selvogi, en viðlíka langt að Herdísarvík og út í Ísólfsskúla við Hraunsvík, margra tíma ganga, liggja gömlu göturnar stundarleið frá ströndinni, þar sem óhindrað Atlantshafið lemst við Suðurkjúlkans grjót og harða auðn.
Einnig í brimveiðistöðinni að Selatöngum. Þaðan var farið í síðasta róðurinn sumarið 1917. Þú var skáldjöfurinn, eigandi landsins frá sjávarmáli fyrir Húshólma og undir Krýsuvíkurbergi norður að Kleifarvatni, búsettur í London, en lifði í dýrlegum fagnaði á sólmánuði í Osló, þar sem meðeigandi Krýsuvíkur átti heima, fésýslumaðurinn Arnemann.“

Sjá meira HÉR.

Heimild:
-Heima er best, 3. tbl. 01.03.1999, í Krýsuvík á Suðurkjálka, Ágúst Sigurðsson, bls. 95-99.

Krýsuvík

Krýsuvík – herforingjaráðskort 1910.

Þingvellir

Í Mánudagsblaðinu árið 1967 er grein eftir Kakala undir fyrirsögninni „Í hreinskilni sagt – Þjóðgarðurinn á Þingvöllum„:

Mánudagsblaðið

Mánudagsblaðið 31.07.1967.

„Jœja, þá er Þingvöllur aftur kominn á dagskrá, og þykjast nú allir geta lagt orð í belg og skipað fyrir, hversu staðurinn skuli byggður upp og gerður að sómasamlegum þjóðgarði í stað þess, sem nú er. Sumir vilja helzt engu um róta, vilja staðinn nú, þ.e. rústir og minningar, eins og hann var á dögum þjóðveldisins. Aðrir telja að þarna eigi að efna til annars Skálholtsævintýris, enn aðrir, að koma þurfi upp alþjóðlegum gististað svo hægt verði, ekki aðeins að gera staðinn eftirsóttan um allan heim heldur og að þéna megi á rekstri hans stórfé.

Þingvellir

Þingvellir – Njálsbúð.

Allt er þetta, út af fyrir sig, athyglisverðar tillögur. En hvílík börn eru það nú, sem skrifa í blöð og telja Þingvöll í sama horfi og á þjóðveldistímanum, á niðurlægingartímabilinu eða á einræðisöldinni. Sennilega vita menn ekki með vissu um upprunaleg sæti nema tveggja til fjögurra búða. Um stærð tveggja er vitað með nokkurri vissu. Njálsbúð og biskupsbúð. Sennilega hafa búðir á Sturlungaöld verið miklu stærri og veigameiri, því ríki höfðingja á dögum Njáls og alveg til daga Sturlu föður Sturlunganna voru kotríki þegar þau eru borin saman við veldi höfðingjanna á næstu 150 árum. Á þeim tíma var almennt að höfðingjar riðu með 600 manna vopnað lið á þing, jafnvel yfir eitt þúsund þegar mest var við haft.

Þingvellir

Þingvellir – búðir.

Þingreiðarlýsingar Sturlungu eru stórkostlegar og langt fram úr öllu, sem gerðst á síðari öldum meðan þingið var haldið eystra,- enda var þingtíminn lækkaður í fjóra daga um nokkurt tímabil og síðan aftur upp í 10 daga, oft lengur vegna m.a. drykkjuskapar valdsmanna, en þingið var, aldrei nema svipur hjá sjón eftir að þjóðin missti sjálfstæði.

Nú er komin ógnarhelgi yfir rústir þær sem kúra í skjóli við Lögberg og aðrar sem kúra norðan megin við Lögberg. Allt eru þetta seinni rústir, margfalt minni en þær búðir sem þar stóðu með þjóðveldið var við lýði. Eins og hér í blaðinu hefur verið rætt sumar eftir sumar, væri það m.a. eitt fyrsta verkið, að koma upp búð, sem væri byggð eftir ströngustu fyrirmælum þjóðminjavarða, en þeir hafa játað að slík búð yrði h.u.b. 95% rétt byggð að ytra og innra búningi.

Þingvellir

Þingvellir – búð við Lögberg.

Eins og sakir standa þá þekkja ekki einu sinni flestir Íslendingar né hafa nokkra hugmynd um útlit búðanna svo ekki sé talað um útlendinga þegar þeir sjá þessa þúfnakolla, sem eru búðarrústirnar. Hér er ekki um gerviminjar að ræða heldur til þess eins að gefa gestum okkar hugmynd um útlit búðanna, en sjálft búðarstæðið yrði varðveitt þar til framkvæmdar yrðu þær fornmenjarannsóknir, sem að sögn Björns Þorsteinssonar, sagnfræðings, hafa ekki farið fram að ráði. (En beinagrind af upplýsingum hér á undan er tekin úr ritgerð eftir Björn, varðandi fornminjar og búðir, og birtist í nýjasta hefti Ferðahandbókarinnar). Hljóta allir réttsýnir menn að sjá, að hér er ekki eina vanhelgi á fornum stöðum heldur sjálfsögð hjálp við ferðafólk, íslenzkt sem útlent. Gera hið sama flestar þjóðir í þessum tilgangi og okkur ekki vandara um en öðrum.

Þingvellir

Þingvellir – búðir.

Næsti þátturinn er svo aðbúnaður fyrir gesti. Valhöll hefur verið endurbyggð og er miklu betra hótel en það var fyrir. Reksturinn sjálfur er til fyrirmyndar en betur verður að gera ef gott má teljast. Einhvern tíma verða Íslendingar að gera sér ljóst, að útlendingar koma ekki til Íslands til að finna sól. Eflaust fá flestir gnótt af sól heima hjá sér, ef sóst er eftir henni sérstaklega, þá kjósa menn sólarlöndin við Miðjarðarhaf. Það er því fyrir mestu, að allur viðurgjörningur við gesti, hvort heldur innlenda eða útlenda, sé sem beztur og í samræmi við kröfur þær sem menn gera almennt. Eins og stendur, á Valhöll óhægt með slíka fyrirgreiðslu og furðulegt að ekki skuli dugmiklum veitingamönnum, sem nú sitja staðinn, gert kleift að vinna, sem fullkomnast fyrir gesti. Af er sú sporttíð þegar drukknir unglingar og æskulýðsmótamenn gerðu innrás í Valhöll og tjaldstæðin þar og nú fréttist ekki neitt um ólifnað né slæma hegðan hjá gestum þar. Það er því fyrir öllu, að gerðar séu aðstæður til bezta veitingahalds og fyrirgreiðslu og miklu fjölbreyttar t.d. hestalán o.s.frv., vissir „túrar“ um staðinn ásamt leiðsögumanni, böð, tjaldlán og möguleikar til útilegu á fráteknum stöðum í Þingvallalandi, barnaferðir og annað í fullkomnara formi en nú er.

Þingvellir

Þingvellir – búð.

Í Bandaríkjunum, Evrópu og nálægari Austurlöndum hefur svo verið dyttað að fornum borgum, allskyns endurbætur verið gerðar á sögustöðum. Árlega eru haldnar sögusýningar, fólkið klæðist fornum búningum og sýnd eru atriði sem sönnust úr sögu hvers staðar. Þykir mikið til þessara hátíða koma og kemur þangað jafnan fjölmenni sér til skemmtunar og fróðleiks. Slíkar sýningar gefa miklar tekjur og væri ekki ónýtt fyrir þjóðgarðinn að geta nýtt slíkar tekjur til framkvæmda á staðnum, því rýr eru ríkisútlátin.

Sýnt er á skrifum blaða undanfarið og afstöðu einstaklinga, að við, ýmsir okkar, þjáumst af misskilningi og vissri tegund rembings þegar þingvöllur og málefnin þar eru rædd. Ýmsir telja það goðgá, að hreyfa við þúfnakollunum og vilja alls ekki láta sér skiljast, að ekki yrði um nokkurt rask á fornminjum um að ræða, heldur aðeins nokkurskonar leiðbeiningabyggingu, sem öllum, jafnvel postulum skinhelginnar kæmu að góðu.

Þingvellir

Þingvellir – búðir.

Fleiri þjóðir eiga fornminjar en Íslendingar og fáar ef nokkrar þjóðir hafa jafn hörmulega leikið þjóðminjar sínar og víð. Um aldaraðir hefur það verið tízka og máske nauðsyn á hörmungarárum, að rífa allt gamalt í rúst, og jafn sögurík þjóð og Íslendingar, sem, að að vísu eiga aðeins um 11 aldir sér að baki, er þjóða fátækust að minjum. En við getum ýmislegt af þessu bætt upp vegna greinargóðrar sögu þjóðarinnar, sem lifað hefur í bókmenntum og bætir margt upp, sem annars væri með öllu tapað. Það eru því alveg næg verkefni til þess, að koma upp þarna sómasamlegum þjóðgarði. Það er næstum orðið leiðinlegt, að heyra ár eftir ár, sama vælið í framámönnum um helgi Þingvallar, dásemdina um útsýnið, landslagið og hina ýmsu kosti stað arins, en aldrei minnst á að gera nokkum skapaðan hlut jákvæðan heldur sífellt hálfkák og nudd.

Þingvellir

Þingvellir – búðartóft.

Þingvellir eru fagur staður, en merkilegt nokk, þá munu forfeður okkar ekki hafa valið hann til þingstaðar vegna fegurðar, heldur vegna þess, að þangað var, að öllu athuguðu, bezt að sækja frá öllum landshlutum.

En hvort heldur hefur ráðið þægindi eða fegurðarskyn, þá tókst þó svo til, að landslagið er sérkennilegt og fagurt.“

Þingvellir

Þingvellir til forna.

Hvað svo sem fólki finnst um framangreind skrif má segja með nokkurri sanngirni að í þeim felist nokkur sannleikskorn. Aðstandendur Þingvallaþjóðgarðs mættu að meinalausu gera gestum hans meira undir höfði þegar kemur að sjálfbærum söguskýringum á vettvangi, t.d. með gerð tilgátumannvirkis er útskýrt gæti upphaflega tilgang þess á auðskiljanlegan hátt, sem og með uppsetningu viðburða í samvinnu við áhugafólk um uppruna „Íslendinga“ í nýju landi, viðbrögð þeirra við staðháttum og þróun þjóðveldisins frá upphafi til vorra daga…

Heimild:
-Mánudagsblaðið, 26. tbl. 31.07.1967, Í hreinskilni sagt – Þjóðgarðurinn á Þingvöllum, Kakali skrifar, bls. 3.

Þingvellir

Þingvellir – Almannagjá.

Grindavík

Í Sjómannadagsblaði Grindavíkur 1992 fjallar Jón Þ. Þór um „Grindvíkinga anno 1703“ í fróðlegri samantekt.

Jón Þ. Þór

Jón Þ. Þór.

„Í Landnámabók segir frá að Molda-Gnúpur og synir hans námu land í Grindavík og mun sá atburður hafa orðið árið 935 eða 936. Þeir feðgar námu fyrst land austur í Álftaveri, en flýðu þaðan undan eldgosi. Eru flestir fræðimenn sammála um að það gos hafi orðið í Eldgjá, sem næst árinu 934.
Fátt er nú vitað um Molda-Gnúp og syni hans, umfram það sem í Landnámu segir. Við vitum t.a.m. ekki hve fjölmennar fjölskyldur þeirra og fylgdarlið voru, né heldur hvar í Grindavík þeir tóku sér bólfestu. Fornar heimildir hafa að sönnu að geyma ættartölur, þar sem raktar eru ættartölur frá Molda-Gnúpi, fram til þekktra manna á Sturlungaöld, en fátt af því fólki virðist hafa búið í Grindavík.
Íbúar Grindavíkur á næstu öldum eru fæstir þekktir. Af fornum máldögum og öðrum skjölum má sjá að flest lögbýlin í sveitinni: Staður, Húsatóftir, Járngerðarstaðir, Þórkötlustaðir, Hraun og Krýsuvík, voru öll komin í byggð um 1230 og í rekaskrá Skálholtsstaðar frá árinu 1270 er ennfremur getið Hofs.

Hóp

Hóp og Hópsnes – uppdráttur ÓSÁ.

Hvar sá bær stóð er ekki vitað, en vera má að þarna sé um að ræða nafn á Hópi eða Ísólfsskála og hugsanlegt að nafnið Hóp hafi misfarist í Hof í handriti.
En þótt jarðirnar væru byggðar er fátt viðað um ábúendur þeirra og aðra íbúa sveitarinnar, fyrr en kemur fram á 18. öld. Nöfn örfárra eldri Grindvíkinga hafa geymst í heimildahandraðanum og þá helst Staðarpresta og annarra heldri manna, eða þeirra sem komu við stórviðburði, t.d. Tyrkjaránið.
Eins og kunnugt er, var manntal tekið á Íslandi í fyrsta skipti árið 1703 og voru þá allir Grindvíkingar skráðir með nafni, hver á sínu heimili. Við skulum nú hyggja um stund að þessu fólki, fyrstu Grindvíkingunum, sem stíga holdi klæddir og nafngreindir fram úr grámösku aldanna. Í mörgum tilvikum takmarkast vitneskja okkar við nöfnin ein, en um örfáa hefur tekist að afla frekari heimilda.
GrindavíkFyrsta almenna manntal á Íslandi var tekið í Grindavík nóttina fyrir páska árið 1703. Þá voru íbúar í Grindavíkurhreppi alls 248 og heimili 40. Meðalfjöldi fólks á heimili var þannig 6.2, en þau voru mjög misstór. Átta jarðir, eða lögbýli, voru byggðar í hreppnum og var tvíbýli á einni þeirra og á öllum jörðunum utan einni voru fleiri eða færri hjáleigur. Voru þær samtals 31. En hyggjum nú nánar að íbúum í Grindavík aðfararnót páskadagsins 1703.
Í manntalinu eru fyrst taldir heimilismenn á prestsetrinu Stað og fyrstur sóknarpresturinn, sr. Sigurður Eyjólfsson. Hann var orðinn 59 ára gamall, er hér var komið sögu, fæddur árið 1644, en var nýkominn á Stað. Sigurður var sonur sr. Eyjólfs Jónssonar á Bjarnastöðum.

Grindavík

Grindavík – Staður 1927.

Að lokinni vígslu gerðist hann fyrst aðstoðarperstur sr. Ámunda Ormssonar á Kálfatjörn, fékk brauðið eftir hans dag og gegndi því í rétt tuttugu ár. Þá hafði hann brauðaskipti við sr. Odd Árnason í Arnarbæli og sat þar til ársins 1698. Þá virtist holdsins brími hafa hlaupið með klerk í gönur því hann prestskap, „fyrir of fljóta samsængun með seinni konu sinni, Þórunni Bjarnadóttur“, svo notuð séu orð Sighvats Grímssonar Borgfirðings. Þórunn var 24 árum yngri en sr. Sigurður og er svo að sjá sem presti hafi orðið helst brátt til hennar og gengið í rekkju með henni áður en hjónavígslan hafði farið fram.

Grindavík - kort 1751

Grindavík – kort 1751.

Fyrir þetta brot varð sr. Sigurður að sleppa Arnarbæli og virðist hafa verið án prestakalls til ársins 1703. Þá fékk hann uppreisn æru, var veittur Staður í Grindavík og var nýkominn að kallinu er manntalið var tekið. Þá voru hjá honum á Stað kona hans, Þórunn Bjarnadóttir, 35 ára, móðir hennar, Sigríður Bjarnadóttir, 75 ára, og í fylgd með þeim mæðgum var 52 ára gömul systir pretsfrúarinnar, samnefnd henni, og hafði með sér 10 ára gamla dóttur sína. Ennfremur voru á heimilinu sex vinnuhjú, þrír vinnumenn og þrjár vinnukonur. En sr. Sigurður átti ekki langa lífdaga fyrir höndum. Hann lést á Stað úr bólunni árið 1707.
GrindavíkFjórar hjáleigur voru byggðar í Staðarlandi árið 1703. Þær voru ekki nafngreindar í manntalinu fremur en aðrar hjáleigur í hreppnum, en númeraðar, kallaðar 1., 2., 3. og 4. hjáleiga. Í fyrstu hjáleigu var húsbóndi sr. Stefán Hallkelsson, forveri sr. Sigurðar Eyjólfssonar í embætti. Engum sögum fer af samskiptum þeirra starfsbræðranna, en ekki er loku fyrir það skotið að þau hafi verið nokkuð einkenileg því sr. Stfeán var nýbúinn að missa embætti Staðarklerks, er hér var komið sögu. Stefán var sonur sr. Hallkells Stefánssonar á Hvalsnesi, fæddur árið 1664. Hann fékk Stað 1687 en þótti drykkfelldur og óreiðusamur og vék Jón biskup Vídalín honum frá embætti árið 1703. Var honum þá gefið að sök að hafa veðsett tveim mönnum sama bátinn.

Staður

Staður 1925.

Hann fékk uppreisn æru árið 1709 og lést 1732. Árið 1703 voru á heimili sr. Stefáns kona hans, Hólmfríður Þórðardóttir, 33. ára, fjögur ung börn þeirra og ein vinnukona.
Á hinum hjáleigunum voru heimilin fámennari. Á 2. hjáleigu bjuggu hjónin Vigfús Bjarnason og Guðrún Einarsdóttir, 48 og 33 ára, ásamt tveimur ungum börnum sínum, og á 3. hjáleigu þau Jón Teitsson og Sigríður Bjarnadóttir, 51 og 43 ára og höfðu hjá sér tvö börn sín. Á 4. og síðustu hjáleigunni voru hjónin Jón Þorsteinsson og Guðrún Eyvindsdóttir ásamt sex ára gömlum syni sínum.

Húsatóftir

Staðarhverfi – örnefni og minjar; uppdráttur ÓSÁ.

Loks voru skráðir í Staðarlandi sex lausamenn, en ekki getið nánar um dvalarstað þeirra. Má geta sér þess til að þeir hafi búið í verbúð og sótt sjó á útvegi Staðarklerks.
Næst víkur sögunni að Húsatóftum. Þar bjó árið 1703 Ólafur Pálsson, 42 ára, ásamt konu sinni, Þorgerði Eyjólfsdóttur, 24 ára, og þrem ungum börnum þeirra. Ennfremur voru fimm vinnuhjú á heimilinu.
Ekki hefur tekist að grafa upp frekari heimildir um þau Húsatóftahjón, en þau virðast hafa búið góðu búi því átta lausamenn voru taldir á Húsatóftum og hafa vafalítið stundað sjóróðra, að einum undanteknum, sem var ekki nema átta ára. Lausamennirnir voru farandverkafólk þessa tíma og sýnir fjöldi þeirra á Stað og Húsatóftum, að þeir, sem ekki höfðu við bú að styðjast, hafa talið hags sínum sæmilega borgið við sjávarsíðuna.
Þrjár hjáleigur voru í Húsatóftarland árið 1703. Á hinni fyrstu bjuggu hjónin Kálfur magnússon og Þóra Sveinsdóttir, 46 og 43 ára, og hjá þeim fjögur börn þeirra, hið yngsta, Bjarni Kálfsson, fimm vikna, og var hann yngstur Grindvíkinga.

Húsatóftir

Húsatóftir – minjar og örnefni – ÓSÁ.

Á 2. hjáleigu bjuggu synstkinin Ólafur og Margræet Magnúsarbörn, 35 og 43 ára, og má vel vera að þau hafi verið systkini Kálfs Magnússonar. Á 3. hjáleigu, sem einnig var kölluð Kóngshús, var húsbóndi Jón Jónsson, 52 ára gamall. Hann hafði þrjú vinnuhjú, auk þess sem ein hjón voru þarna í húsmennsku.
Næst á eftir Húsatóftum getur manntalið Járngerðarstaða, sem þegar á þessum tíma virðist hafa verið stærsta býlið í hreppnum. Þar bjuggu um páskana 1703 hjónin Þorsteinn Þorsteinsson og Valgerður Magnúsdóttir, 45 og 44 ára gömul, og auk þeirra voru á heimilinu fjögurra ára gömul dóttir þeirra og sjö vinnuhjú.
Þorsteinn Þorsteinsson var greinilega einna gildastur bóndi í Grindavík á þessum tíma og eru af honum nokkur saga. Hann fæddist í Krýsuvík árið 1658, sonur hjónanna Þorsteins Þorsteinssonar bónda þar og Guðrúnar Jónsdóttur, prests í Arnarbæli, Daðsonar. Þorsteinn í krýsuvík mun hafa talist til betri bænda á sinni tíð og kona hans var vel ættuð. Því þótti sjálfsagt að setja Þorstein yngri til mennta og var hann sendur í Skálholtsskóla, en óvíst hve lengi hann var þar eða hvort hann varð stúdent.

Járngerðarstaðir

Járngerðarstaðir – uppdráttur ÓSÁ.

Hitt er víst, að hann tók aldrei prestsvígslu og stundaði ekki framhaldsnám, en sneri heim til átthaganna er hann hvarf úr skóla. Bjó hann fyrst í Krýsuvík, en síðan að Járngerðarstöðum, þar sem hann bjó til dauðadags, 1722. Hermir ein heimild að hann hafi látist af völdum drykkju. Valgerður kona hans var dóttir Magnúsar Kortssonar lögréttumanns í Árbæ og höfðu forfeður hennar komið við sögu Grindavíkur fyrr á öldum.
Af Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns, sem tekin var saman sumarið 1703, er auðsætt að Járngerðarstaðir haf þá verið taldir kostamest jarða í Grindavíkurhreppi. Þaðan var mest útræði, en fiskveiðar þó minni á þessum tíma en áður hafðu verið og stafaði það af aflabresti undanfarinna ára, sem síðar verður greint frá. Í Jarðarbókinni er kostum Járngerðarstaða lýst með þessum orðum:

Járngerðarstaðir

Járngerðarstaðir 1890.

„Skóg til kolgjörðar hefur þessi jörð í almenningum sem aðrar. Eldiviður er fjörufang. Fjörugrastekja til jarðarinnar þarfa. Rekavon í betra lagi… Sölvafjara til ábúenda brúkar. Heimræði er árið um kring og lending í betra lagi. Þar gánga skip heimabóndans og þau inntökuskip, er þángað til fiskiafla ráðast fyrir undirgift, sem heimabóndi tekur, og lætur þá verbúð og vergögn í tje fyrir skipshöfnina. Hafa hjer fyrrum mörg inntökuskip verið um vertíðirnar; mega og enn verra, ef menn vilja.

Baðsvellir

Baðsvellir – uppdráttur ÓSÁ.

Skip stólsins gánga hér venjulega iii, og hafa þeir verbúðir fyrir sig, sem stóllinn uppbyggir. En soðningu kaupa skipverjar. Hafa þessi skip stólsins verið so lángar stundir, en alt þar til í tíð Mag. Brynjólfs (þ.e. Brynjólfs biskups Sveinssonar) var gefin til heimabóndans undirgift undir þau skip, sem fleiri en tvö af stólsins hendi. Og hýsti þá heimabóndi skipshöfn. En í tíð Mag. Brynjójólfs var uppbygð önnur staðarins verbúð, sem síðan hefur viðhaldist, og engin undirgift verið frá stólnum lögð til bóndans.
Selstöðu hefur jörðin og brúkar enn nú þar sem heita Baðsvellir, og kvarta menn um að þar sjeu hagar oflitlir og þröngvir. Item sje þar stórt mein af vatnsleysi, þá þerrar eru, og fyrir þessa lesti selstöðunnar segja menn fulla nauðsyn til að kaupa selstöðu annarsstaðar. Þessa brúkar bóndinn alleina.
Engjar eru öngvar.
Torfrista engin nema í sendnum grundum.
Hætt er mjög fyrir pening í vatnsgjám.
Líka brýtur sjór fyrir pening á land jarðarinnar.

Járngerðarstaðir

Járngerðarstaðir – bæir og sögusvið „Tyrkjaránsins“ – uppdráttur ÓSÁ.

Á Járngerðarstöðum heita Kónsggarðar. Þar hefur til forna gengið eitt kóngsskip og gefið undirgift.
Á Járngerðarstöðum eru fáeinna verbúða stæði, nú forfallinna, og hafa þar legið við skipshafnir inntökuskipa, sem undirgift gefið hafa.

Sjómenn

Sjómenn í Grindavík.

Tæki stórt fiskerie til aftur, þá bygði ábúandi þessar búðir upp aftur… til að ná undirgiftinni, því þá kæmi sveitamenn með skip, eins og til forna var.“
Þannig var lýst kostum og göllum Járngerðarstaða og gæti lýsingin, að breyttu breytanda, átt við um felstar jarðir sveitarinnar. Helstu kostir þeirra allra voru verstaðan, stutt sjávargata og góð fiskimið skammt undan landi, auk fjöruhlunninda, en helstu ókostir lítið haglendi og vatnsskortur.
Tíu hjáleigur voru í landi Járngerðarstaða árið 1703. Á hinni fyrstu bjó Jón Eyvindsson, 34 ára, ásamt konu sinni Guðrúnu Ögmundsdóttur, 40 ára og 26 vikna gamalli dóttur þeirra. Á 2 hjáleigunni bjuggu hjónin Þorvaldur Bergsson og Þorbjörg Eyjólfsdóttir, 44 og 50 ára, og á hinni þriðju Þorsteinn Þorsteinsson, 39 ára, ásamt konu sinni, Guðnýju Bjarnadóttur, 45 ára, og héldu þau eina vinnustúlku.

Staðarhverfi

Litla-Gerði við Stað.

Á fjórðu hjáleigu var húsráðandi Guðmundur Hávarðsson, 54 ára, og hafði hjá sér þrítuga vinnustúlku, og á hinni fimmtu voru hjónin Þorgrímur Einarsson og Ingunn Guttormsdóttir, 54 og 42 ára, ásamt tveim börnum sínum. Á sjötu hjáleigu bjó Jón Jónsson, sextugur að aldri, ásamt tveim vinnuhjúum og á hinu sjöundu Magnús Hjörtson, 53 ára, ásamt konu sinni, Guðrúnu Eyjólfsdóttur. Hún var ári eldri en hann og hjá þeim var fimmtán ára gamall sonur þeirra.

Staðarhverfi

Stóra-Gerði við Stað.

Á áttundu hjáleigunni bjuggu hjónin Árni Jónsson og þorbjörg Vilhjálmsdóttir. Hann var 29 ára en hún 39 og auk þeirra voru á heimilinu Runólfur Guðmundsson, þrítugur að aldri, sagður „þeirra þjenari“. Níunda hjáleigan var fjölmennust allra hjáleigna í landi Járngerðarstaða. þar bjó Runólfur Gíslason og hefur hann að öllum líkindum verið ekkjumaður því auk hans voru í heimilinu fjögur börn hans á aldrinum 4-9 ára og að auki ein vinnukona. Loks er að geta tíundu hjáleigunnar, en þar bjuggu hjónin Jón Jónsson, 54 ára, og Sigríður Þórðardóttir, 45 ára, ásamt þrem börnum sínum og var hið elsta 23 ára en hið yngsta níu ára.

Hóp

Hóp – uppdráttur ÓSÁ.

Þá víkur sögunni að Hópi. Þar var tvíbýlt og bjuggu hjónin Jón Sigmundsson og Sessekja Þorsteinsdóttir á öðrum helmingi jarðarinar. Hann var 41 árs en hún yngri en hann. Ennfremur voru á heimilinu sextán ára gömul dóttir þeirra og tvö vinnuhjú. Á hinum helmingi jarðarinnar bjó Stefán Stefánsson, 41. árs, og hafði hjá sér þrjú vinnuhjú.

Hóp

Hópskot.

Ein hjáleiga var byggð í Hópslandi. Á henni bjó Brynjólfur Daðason, 42 ára að aldri, ásamt 74 ára gamalli móður sinni, Höllu Torfadóttur. Hjá þeim voru í húsmennsku Einar Þorgautsson, 63 ára, og 23 á gömul dóttir hans, Guðný að nafni.
Næst getur manntalið Þórkötlustaða. Þar voru heimilismenn alls þrettán og var það fjölmennasta heimili sveitarinnar. Fyrir því réði Eyjólfur Jónsson. Hann var tekinn að reskjast nokkuð, er hér var komið sögu, orðinn sextugur, og kona hans, Ingveldur Ingimundardóttir, var 45 ára. Börn áttu þau sjö og var hið elsta 23 ára, en hið yngsta 39 vikna. Í barnahópnum voru sex drengir og eins túlka og virðist sem þau hjónin hafi snemma orðið uppinskroppa með nöfn því þrír elstu drengirnir hétu allir Jón. Auk fjölskyldunar voru fjögur vinnuhjú á heimilinu.

Þórkötlustaðahverfi

Þórkötlustaðahverfi – uppdráttur ÓSÁ.

Fimm hjáleigur voru byggðar í landi Þórkötlustaða. Á hinni fyrstu bjuggu hjónin Jón Stígsson og Þuríður Magnúsdóttir, 37 og 36 ára, ásamt 20 vikna gömlum syni sínum. Á annarri hjáleigu voru Ormur Ólafsson og Randíður Ívarsdóttir, 37 og 33 ára, og ennfremur Jón Sigurðsson húsmaður, 36 ára.

Klöpp

Gamla-Klöpp við Þórkötlustaði.

Á þriðju hjáleigunni bjuggu hjónin Illugi Ívarsson og Guðrún Jónsdóttir, 39 og 26 ára, ásamt tveim kornungum börnunum sínum og á fjórðu hjáleigu voru hjónin Þorvarður Þorvaldsson og Ingveldur Höskuldsdóttir, 45 og 47 ára, ásamt ungri dóttur sinni. Á fimmtu og síðustu hjáleigunni í Þórkötlustaðalandi bjuggu hjónin Gunnlaugur Þórðarson og Solveig Þórðardóttir. Hann var 34 ára og hún 45. Hjá þeim var móðir Gunnlaugs, Þórdís Gunnlaugsdóttir. Hún var 82 ára gömul, elst alla íbúa í sveitinni og hinn eini þeirra, sem lifað hafði Tyrkjaránið. Einnig var á heimilinu 18 ára piltur, Þorsteinn Kolbeinsson. Hann var sagður „smaladrengur“ og var eini Grindvíkingurinn er það starfsheiti bar árið 1703.
Á Hrauji bjuggu hjónin Þorsteinn Gunnarsson og Sesselja Gísladóttir, 29 og 33 ára, ásamt tveim kornungum börnum sínum. Þau héldu fjögur vinnuhjú og hafði ein vinnukonan hjá sér ungan son sinn.

Hraun

Hraun – uppdráttur ÓSÁ.

Tvær hjáeigur voru byggðar í landi Hrauns. Á annarri bjuggu hjónin Þorsteinn Björnsson og Þórdís Bjarnadóttir, 46 og 47 ára, og á hinni síðari ekkjan Drysíana Eyjólfsdóttir ásamt fimm börnum sínum á aldrinum 9 til 16 ára.

Hraun

Hraun – tóftir Vatnagarða.

Var hún eina konan, sem stóð fyrir heimili í Grindavíkurhreppi árið 1703. Hjáleigan, sem Frysíana bjó á nefndist Vatnagarðar, og var bú hennar 3 kýr, 11 ær, 3 sauðir tvævetrir, 2 veturgamlir og 1 hestur. Ekki er getið um sjávarútveg á heimilinu og líkast til hefur hann enginn verið því í Jarðarbókinni, sem tekin var saman nokkrum mánuðum seinna, segir að Drysíanna geti ekki uppfyllt kvaðir um mannslán til dagsláttar, þar erð enginn sé á heimilinu til að vinna það verk nema ungmenni. Var hún því laus undan þeirri kvöð.

Ísólfsskáli

Ísólfsskáli – uppdráttur ÓSÁ.

Næst víkur sögunni austur að Ísólfsskála, sem reyndar er kallaður „Ísuskáli“ í manntalinu. Þar bjuggu hjónin Hallur Sigmundsson og Guðrún Markúsdóttir, 39 og 41 árs, ásamt tveim ungum börnum sínum. Þau héldu fimm vinnuhjú, en engin hjáleiga var byggð í landi jarðarinnar.

Krýsuvík

Krýsuvík – uppdráttur ÓSÁ.

Loks er að geta Krýsuvíkur. Þar bjuggu á heimajörðinni hjónin Sigvaldi Bjarnason og Þorbjörg Hallkelsdóttir og var hann 52 ára, en hún 32. Hjá þeim voru þrjú börn þeirra á aldrinum 4-10 ára og ennfremur voru fjögur vinnuhjú á heimilinu og hafði eitt þeirra með sér barn.

Krýsuvík

Krýsuvík – Norðurkot.

Hjáleigur voru jafnan nokkrar í Krýsuvíkurlandi og árið 1703 voru sex þeirra byggðar. Á hinni fyrstu voru hjónin Jón Þorvarðarson og Guðrún Þorvarðsdóttir og stóð hún á fertugu, en hann var tveimur árum eldri. Á annarri hjáleigu bjuggu Magnús Þórðarson og Solevg Bjarnadóttir, 32 og 35 ára, og voru hjá þeim ungur sonur þeirra og roskin móðir Magnúsar. Á þriðju hjáleigu bjuggu hjónin Jón Jónsson og Guðrún Þórðardóttir, 34 og 31 árs, ásamt ungum syni sínum og á fjórðu hjáleigu hjónin Ólafur Þorvarðsson og Katrín Jónsdóttir. hann var 4 ára, en hún 46 og hjá þeim voru tveir synir þeirra, 10 ára og eins árs. Á fimmtu hjáleigu í Krýsuvík bjuggu þau Ófeigur Ólafsson og kona hans, Guðrún Þorsteinsdóttir. Hann var þrítugur en hún 27 ára og áttu þau tvö kornung börn.

Krýsuvík

Krýsuvík – Lækur.

Á sjöttu og síðustu hjáleigunni bjuggu þaun Jón Eyjólfsson og Hólmfríður Jónsdóttir, 55 og 47 ára. Fimm börn þeirra voru á heimilinu, einn piltur og fjórar stúlkur. Af stúlkunum báru tvær sama nafn, hétu báðar Ingveldur.
Auk þess fólks, sem hér hefur verið getið, voru 29 niðursetningar og þurfalingar taldir í hreppnum árið 1703 og sex utansveitarmenn voru staddir þar er manntalið var tekið. Af þeim áttu fjórir sveit í Árnessýslu en tveir í Rangárvallasýslu.

Krýsuvík

Krýsuvík – Snorrakot.

Þar með er lokið þessari stuttu yfirferð okkar yfir Grindavíkursveit á því herrans ári 1703. Við höfum kynnst íbúunum lítillega en verðum þó að viðurkanna, að um fæsta þeirra vitum við meira en nöfn og aldur.
Aðeins þrír hafa komist í bækur, prestarnir á Stað og Þorsteinn á Járngerðarstöðum. Margan kann að undra að ekki skuli fleiri Grindvíkinga frá þessum tíma verið getið ýtarlegar í rituðum heimildum, en ástæðan er í raun einföld.

Arnarfell

Arnarfell – uppdráttur ÓSÁ.

Hjáleigubændur komust sjaldan á bækur, vinnuhjú enn sjaldnar og þótt þeir, sem sátu lögbýlin væru að sönnu mikils metnir menn heima í héraði, ber þess að gæta að þeir voru ekki sjálfseignabændur. Hústóftir voru konungseign, hinar jarðirnar allar eign dómkirkjunnar í Skálholti. Bændurnir voru þannig landsetar Skálholtsstóls og Danakonungs og þótt þess séu vissulega dæmi að bændur í grindavík á fyrri öldum hafi hafist til mannvirðinga, safnað auði og jafnvel átt miklar eignir í öðrum sveitum, er ólíklegt að svo hafi verið um marga þeirra, sem hér hafa verið taldir.

Eldvörp

Eldvörp – „Tyrkja“byrgin svonefndu; undanskot Grindavíkurbænda!?

Þegar manntalið var tekið árið 1703 var loksins að ljúka einhverju versta harðindaskeiði, er heimildir kunna frá að greina á síðari öldum, litlu ísöldinni, svonefndu. Þá voru kuldar miklir, eins og nafnið bendir til, sum árin hafís á fiskislóðum Sunnlendinga og aflabrestur mikill. Má sem dæmi nefna, að á 18 ára tímabili, 186-1704, telja heimildir aðeins eitt gott aflaár í Sunnlendingafjórungi, tvö voru í meðallagi, en hin öll léleg. Liggur í augum uppi, hve hart svo langætt fáfiski hefur bitnað á verstöð á borð við Grindavík. Og ekki tók betra við er afli tók loksins að glæðast og veðurfar hlýnaði. Þá dundi bólan yfir árið 1707 og féll þá margt af því fólki, sem hér hefur verið frá sagt.

Selatangar

Selatangar – uppdráttur ÓSÁ.

En þótt upplýsingarnar í manntalinu séu fáorðar, veita þær okkur engu að síður mikilsverðar vitneskju. Skipting byggðarinnar í hverfi var þegar orðin augljós og byggð þegar langmest í Járngerðarstaðahverfi. Þar voru þrjú af átta lögbýlum sveitarinnar, átján af fjörutíu heimilum og þar áttu samtals 89 manns heima, auk lausamann, og vafalaust hafa einhverjir af niðursetningunum 29 verið vistaðir þar.

Járngerðarstaðahverfi

Járngerðarstaðahverfi – uppdráttur ÓSÁ.

Má því hiklaust álykta að um og yfir hundrað manns hafi átt sér bólfestu í Járngerðarstaðahverfi árið 1703. Þar var þá risinn kjarni, sem hiklaust verður að telja vísi að þéttbýli, a.m.k. ef miðað er við byggð eins og hún var víðast hvar á Íslandi á þessum tíma.
Hinn mikli fjöldi hjáleigna segir athyglisverða sögu um atvinnuhætti og atvinnuskiptingu. Sjávarútvegur var sem endranær höfuðatvinnuvegur Grindvíkinga, landbúskap höfðu bændur aðeins til styrktar og heimaneyslu. Graslendi hjáleignanna voru lítil og rýr og útilokað að hjáleigubændurnir gæti framfeytt sér og sínum af landbúskap. Þeir voru því nær undantekningarlaust sjónenn og sóttu sjó á útvegi landsdrotnna sinna. Kemur það vel heim og saman við þá steðreynd að felstir hjáleigubændanna voru menn á góðum vinnualdri. Eldri menn, sem ekki dugðu lengur til sjósóknar, voru fáir sem engir í þeirra hópi.

Skreiðarlest

Skreiðarlest í Ögmundarhrauni, frá Grindavík til Skálholtsstaðar.

Eignarhald Skálholtsstóls og konungs á jörðunum í Grindavík segi einnig mikla sögu og sýnir betur en felst annað mikilvægi verstöðvarinnar. Skálholtsstóll var voldugasta og auðugusta stofnun á Íslandi á þessum tíma og byggðist veldi hans og auður ekki síst á útgerð og fiskútflutningi. Grindavík var ein mesta og mikilvægasta verstöðin og fiskihöfnin í gervöllu biskupsdæminu og því ein af undirstöðunum undir efnahag biskupsstólsins og afkomu. Sést það ef til vill hvað best að því að á aflaleysisárunum á síðasta hluta 17. aldar og í upphafi þeirra 18. varð oftar en einu sinni skortur á matfiski í Skálholti og fyrir kom að skólahald féll þar niður hluta úr vetri eða jafnan heilan vetur, þar sem ekki var til fiskur til að fæða skólapilta. Sýnir það betur en flest annað þýðingu Grindavíkur og fólksins, sem þar bjó, fyrir Skálholtsstað og þá um leið íslenska menningu.“

Heimild:
-Sjómannadagsblað Grindavíkur 1992, Grindvíkingar anno 1703, Jón Þ. Þór, bls. 27-31.

Staðarhverfi

Staðarhverfi – uppdráttur ÓSÁ.