Í Sjómannadagsblaði Grindavíkur 1992 fjallar Jón Þ. Þór um “Grindvíkinga anno 1703” í fróðlegri samantekt.
“Í Landnámabók segir frá að Molda-Gnúpur og synir hans námu land í Grindavík og mun sá atburður hafa orðið árið 935 eða 936. Þeir feðgar námu fyrst land austur í Álftaveri, en flýðu þaðan undan eldgosi. Eru flestir fræðimenn sammála um að það gos hafi orðið í Eldgjá, sem næst árinu 934.
Fátt er nú vitað um Molda-Gnúp og syni hans, umfram það sem í Landnámu segir. Við vitum t.a.m. ekki hve fjölmennar fjölskyldur þeirra og fylgdarlið voru, né heldur hvar í Grindavík þeir tóku sér bólfestu. Fornar heimildir hafa að sönnu að geyma ættartölur, þar sem raktar eru ættartölur frá Molda-Gnúpi, fram til þekktra manna á Sturlungaöld, en fátt af því fólki virðist hafa búið í Grindavík.
Íbúar Grindavíkur á næstu öldum eru fæstir þekktir. Af fornum máldögum og öðrum skjölum má sjá að flest lögbýlin í sveitinni: Staður, Húsatóftir, Járngerðarstaðir, Þórkötlustaðir, Hraun og Krýsuvík, voru öll komin í byggð um 1230 og í rekaskrá Skálholtsstaðar frá árinu 1270 er ennfremur getið Hofs.
Hvar sá bær stóð er ekki vitað, en vera má að þarna sé um að ræða nafn á Hópi eða Ísólfsskála og hugsanlegt að nafnið Hóp hafi misfarist í Hof í handriti.
En þótt jarðirnar væru byggðar er fátt viðað um ábúendur þeirra og aðra íbúa sveitarinnar, fyrr en kemur fram á 18. öld. Nöfn örfárra eldri Grindvíkinga hafa geymst í heimildahandraðanum og þá helst Staðarpresta og annarra heldri manna, eða þeirra sem komu við stórviðburði, t.d. Tyrkjaránið.
Eins og kunnugt er, var manntal tekið á Íslandi í fyrsta skipti árið 1703 og voru þá allir Grindvíkingar skráðir með nafni, hver á sínu heimili. Við skulum nú hyggja um stund að þessu fólki, fyrstu Grindvíkingunum, sem stíga holdi klæddir og nafngreindir fram úr grámösku aldanna. Í mörgum tilvikum takmarkast vitneskja okkar við nöfnin ein, en um örfáa hefur tekist að afla frekari heimilda.
Fyrsta almenna manntal á Íslandi var tekið í Grindavík nóttina fyrir páska árið 1703. Þá voru íbúar í Grindavíkurhreppi alls 248 og heimili 40. Meðalfjöldi fólks á heimili var þannig 6.2, en þau voru mjög misstór. Átta jarðir, eða lögbýli, voru byggðar í hreppnum og var tvíbýli á einni þeirra og á öllum jörðunum utan einni voru fleiri eða færri hjáleigur. Voru þær samtals 31. En hyggjum nú nánar að íbúum í Grindavík aðfararnót páskadagsins 1703.
Í manntalinu eru fyrst taldir heimilismenn á prestsetrinu Stað og fyrstur sóknarpresturinn, sr. Sigurður Eyjólfsson. Hann var orðinn 59 ára gamall, er hér var komið sögu, fæddur árið 1644, en var nýkominn á Stað. Sigurður var sonur sr. Eyjólfs Jónssonar á Bjarnastöðum.
Að lokinni vígslu gerðist hann fyrst aðstoðarperstur sr. Ámunda Ormssonar á Kálfatjörn, fékk brauðið eftir hans dag og gegndi því í rétt tuttugu ár. Þá hafði hann brauðaskipti við sr. Odd Árnason í Arnarbæli og sat þar til ársins 1698. Þá virtist holdsins brími hafa hlaupið með klerk í gönur því hann prestskap, “fyrir of fljóta samsængun með seinni konu sinni, Þórunni Bjarnadóttur”, svo notuð séu orð Sighvats Grímssonar Borgfirðings. Þórunn var 24 árum yngri en sr. Sigurður og er svo að sjá sem presti hafi orðið helst brátt til hennar og gengið í rekkju með henni áður en hjónavígslan hafði farið fram.
Fyrir þetta brot varð sr. Sigurður að sleppa Arnarbæli og virðist hafa verið án prestakalls til ársins 1703. Þá fékk hann uppreisn æru, var veittur Staður í Grindavík og var nýkominn að kallinu er manntalið var tekið. Þá voru hjá honum á Stað kona hans, Þórunn Bjarnadóttir, 35 ára, móðir hennar, Sigríður Bjarnadóttir, 75 ára, og í fylgd með þeim mæðgum var 52 ára gömul systir pretsfrúarinnar, samnefnd henni, og hafði með sér 10 ára gamla dóttur sína. Ennfremur voru á heimilinu sex vinnuhjú, þrír vinnumenn og þrjár vinnukonur. En sr. Sigurður átti ekki langa lífdaga fyrir höndum. Hann lést á Stað úr bólunni árið 1707.
Fjórar hjáleigur voru byggðar í Staðarlandi árið 1703. Þær voru ekki nafngreindar í manntalinu fremur en aðrar hjáleigur í hreppnum, en númeraðar, kallaðar 1., 2., 3. og 4. hjáleiga. Í fyrstu hjáleigu var húsbóndi sr. Stefán Hallkelsson, forveri sr. Sigurðar Eyjólfssonar í embætti. Engum sögum fer af samskiptum þeirra starfsbræðranna, en ekki er loku fyrir það skotið að þau hafi verið nokkuð einkenileg því sr. Stfeán var nýbúinn að missa embætti Staðarklerks, er hér var komið sögu. Stefán var sonur sr. Hallkells Stefánssonar á Hvalsnesi, fæddur árið 1664. Hann fékk Stað 1687 en þótti drykkfelldur og óreiðusamur og vék Jón biskup Vídalín honum frá embætti árið 1703. Var honum þá gefið að sök að hafa veðsett tveim mönnum sama bátinn.
Hann fékk uppreisn æru árið 1709 og lést 1732. Árið 1703 voru á heimili sr. Stefáns kona hans, Hólmfríður Þórðardóttir, 33. ára, fjögur ung börn þeirra og ein vinnukona.
Á hinum hjáleigunum voru heimilin fámennari. Á 2. hjáleigu bjuggu hjónin Vigfús Bjarnason og Guðrún Einarsdóttir, 48 og 33 ára, ásamt tveimur ungum börnum sínum, og á 3. hjáleigu þau Jón Teitsson og Sigríður Bjarnadóttir, 51 og 43 ára og höfðu hjá sér tvö börn sín. Á 4. og síðustu hjáleigunni voru hjónin Jón Þorsteinsson og Guðrún Eyvindsdóttir ásamt sex ára gömlum syni sínum.
Loks voru skráðir í Staðarlandi sex lausamenn, en ekki getið nánar um dvalarstað þeirra. Má geta sér þess til að þeir hafi búið í verbúð og sótt sjó á útvegi Staðarklerks.
Næst víkur sögunni að Húsatóftum. Þar bjó árið 1703 Ólafur Pálsson, 42 ára, ásamt konu sinni, Þorgerði Eyjólfsdóttur, 24 ára, og þrem ungum börnum þeirra. Ennfremur voru fimm vinnuhjú á heimilinu.
Ekki hefur tekist að grafa upp frekari heimildir um þau Húsatóftahjón, en þau virðast hafa búið góðu búi því átta lausamenn voru taldir á Húsatóftum og hafa vafalítið stundað sjóróðra, að einum undanteknum, sem var ekki nema átta ára. Lausamennirnir voru farandverkafólk þessa tíma og sýnir fjöldi þeirra á Stað og Húsatóftum, að þeir, sem ekki höfðu við bú að styðjast, hafa talið hags sínum sæmilega borgið við sjávarsíðuna.
Þrjár hjáleigur voru í Húsatóftarland árið 1703. Á hinni fyrstu bjuggu hjónin Kálfur magnússon og Þóra Sveinsdóttir, 46 og 43 ára, og hjá þeim fjögur börn þeirra, hið yngsta, Bjarni Kálfsson, fimm vikna, og var hann yngstur Grindvíkinga.
Á 2. hjáleigu bjuggu synstkinin Ólafur og Margræet Magnúsarbörn, 35 og 43 ára, og má vel vera að þau hafi verið systkini Kálfs Magnússonar. Á 3. hjáleigu, sem einnig var kölluð Kóngshús, var húsbóndi Jón Jónsson, 52 ára gamall. Hann hafði þrjú vinnuhjú, auk þess sem ein hjón voru þarna í húsmennsku.
Næst á eftir Húsatóftum getur manntalið Járngerðarstaða, sem þegar á þessum tíma virðist hafa verið stærsta býlið í hreppnum. Þar bjuggu um páskana 1703 hjónin Þorsteinn Þorsteinsson og Valgerður Magnúsdóttir, 45 og 44 ára gömul, og auk þeirra voru á heimilinu fjögurra ára gömul dóttir þeirra og sjö vinnuhjú.
Þorsteinn Þorsteinsson var greinilega einna gildastur bóndi í Grindavík á þessum tíma og eru af honum nokkur saga. Hann fæddist í Krýsuvík árið 1658, sonur hjónanna Þorsteins Þorsteinssonar bónda þar og Guðrúnar Jónsdóttur, prests í Arnarbæli, Daðsonar. Þorsteinn í krýsuvík mun hafa talist til betri bænda á sinni tíð og kona hans var vel ættuð. Því þótti sjálfsagt að setja Þorstein yngri til mennta og var hann sendur í Skálholtsskóla, en óvíst hve lengi hann var þar eða hvort hann varð stúdent.
Hitt er víst, að hann tók aldrei prestsvígslu og stundaði ekki framhaldsnám, en sneri heim til átthaganna er hann hvarf úr skóla. Bjó hann fyrst í Krýsuvík, en síðan að Járngerðarstöðum, þar sem hann bjó til dauðadags, 1722. Hermir ein heimild að hann hafi látist af völdum drykkju. Valgerður kona hans var dóttir Magnúsar Kortssonar lögréttumanns í Árbæ og höfðu forfeður hennar komið við sögu Grindavíkur fyrr á öldum.
Af Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns, sem tekin var saman sumarið 1703, er auðsætt að Járngerðarstaðir haf þá verið taldir kostamest jarða í Grindavíkurhreppi. Þaðan var mest útræði, en fiskveiðar þó minni á þessum tíma en áður hafðu verið og stafaði það af aflabresti undanfarinna ára, sem síðar verður greint frá. Í Jarðarbókinni er kostum Járngerðarstaða lýst með þessum orðum:
“Skóg til kolgjörðar hefur þessi jörð í almenningum sem aðrar. Eldiviður er fjörufang. Fjörugrastekja til jarðarinnar þarfa. Rekavon í betra lagi… Sölvafjara til ábúenda brúkar. Heimræði er árið um kring og lending í betra lagi. Þar gánga skip heimabóndans og þau inntökuskip, er þángað til fiskiafla ráðast fyrir undirgift, sem heimabóndi tekur, og lætur þá verbúð og vergögn í tje fyrir skipshöfnina. Hafa hjer fyrrum mörg inntökuskip verið um vertíðirnar; mega og enn verra, ef menn vilja.
Skip stólsins gánga hér venjulega iii, og hafa þeir verbúðir fyrir sig, sem stóllinn uppbyggir. En soðningu kaupa skipverjar. Hafa þessi skip stólsins verið so lángar stundir, en alt þar til í tíð Mag. Brynjólfs (þ.e. Brynjólfs biskups Sveinssonar) var gefin til heimabóndans undirgift undir þau skip, sem fleiri en tvö af stólsins hendi. Og hýsti þá heimabóndi skipshöfn. En í tíð Mag. Brynjójólfs var uppbygð önnur staðarins verbúð, sem síðan hefur viðhaldist, og engin undirgift verið frá stólnum lögð til bóndans.
Selstöðu hefur jörðin og brúkar enn nú þar sem heita Baðsvellir, og kvarta menn um að þar sjeu hagar oflitlir og þröngvir. Item sje þar stórt mein af vatnsleysi, þá þerrar eru, og fyrir þessa lesti selstöðunnar segja menn fulla nauðsyn til að kaupa selstöðu annarsstaðar. Þessa brúkar bóndinn alleina.
Engjar eru öngvar.
Torfrista engin nema í sendnum grundum.
Hætt er mjög fyrir pening í vatnsgjám.
Líka brýtur sjór fyrir pening á land jarðarinnar.
Á Járngerðarstöðum heita Kónsggarðar. Þar hefur til forna gengið eitt kóngsskip og gefið undirgift.
Á Járngerðarstöðum eru fáeinna verbúða stæði, nú forfallinna, og hafa þar legið við skipshafnir inntökuskipa, sem undirgift gefið hafa.
Tæki stórt fiskerie til aftur, þá bygði ábúandi þessar búðir upp aftur… til að ná undirgiftinni, því þá kæmi sveitamenn með skip, eins og til forna var.”
Þannig var lýst kostum og göllum Járngerðarstaða og gæti lýsingin, að breyttu breytanda, átt við um felstar jarðir sveitarinnar. Helstu kostir þeirra allra voru verstaðan, stutt sjávargata og góð fiskimið skammt undan landi, auk fjöruhlunninda, en helstu ókostir lítið haglendi og vatnsskortur.
Tíu hjáleigur voru í landi Járngerðarstaða árið 1703. Á hinni fyrstu bjó Jón Eyvindsson, 34 ára, ásamt konu sinni Guðrúnu Ögmundsdóttur, 40 ára og 26 vikna gamalli dóttur þeirra. Á 2 hjáleigunni bjuggu hjónin Þorvaldur Bergsson og Þorbjörg Eyjólfsdóttir, 44 og 50 ára, og á hinni þriðju Þorsteinn Þorsteinsson, 39 ára, ásamt konu sinni, Guðnýju Bjarnadóttur, 45 ára, og héldu þau eina vinnustúlku.
Á fjórðu hjáleigu var húsráðandi Guðmundur Hávarðsson, 54 ára, og hafði hjá sér þrítuga vinnustúlku, og á hinni fimmtu voru hjónin Þorgrímur Einarsson og Ingunn Guttormsdóttir, 54 og 42 ára, ásamt tveim börnum sínum. Á sjötu hjáleigu bjó Jón Jónsson, sextugur að aldri, ásamt tveim vinnuhjúum og á hinu sjöundu Magnús Hjörtson, 53 ára, ásamt konu sinni, Guðrúnu Eyjólfsdóttur. Hún var ári eldri en hann og hjá þeim var fimmtán ára gamall sonur þeirra.
Á áttundu hjáleigunni bjuggu hjónin Árni Jónsson og þorbjörg Vilhjálmsdóttir. Hann var 29 ára en hún 39 og auk þeirra voru á heimilinu Runólfur Guðmundsson, þrítugur að aldri, sagður “þeirra þjenari”. Níunda hjáleigan var fjölmennust allra hjáleigna í landi Járngerðarstaða. þar bjó Runólfur Gíslason og hefur hann að öllum líkindum verið ekkjumaður því auk hans voru í heimilinu fjögur börn hans á aldrinum 4-9 ára og að auki ein vinnukona. Loks er að geta tíundu hjáleigunnar, en þar bjuggu hjónin Jón Jónsson, 54 ára, og Sigríður Þórðardóttir, 45 ára, ásamt þrem börnum sínum og var hið elsta 23 ára en hið yngsta níu ára.
Þá víkur sögunni að Hópi. Þar var tvíbýlt og bjuggu hjónin Jón Sigmundsson og Sessekja Þorsteinsdóttir á öðrum helmingi jarðarinar. Hann var 41 árs en hún yngri en hann. Ennfremur voru á heimilinu sextán ára gömul dóttir þeirra og tvö vinnuhjú. Á hinum helmingi jarðarinnar bjó Stefán Stefánsson, 41. árs, og hafði hjá sér þrjú vinnuhjú.
Ein hjáleiga var byggð í Hópslandi. Á henni bjó Brynjólfur Daðason, 42 ára að aldri, ásamt 74 ára gamalli móður sinni, Höllu Torfadóttur. Hjá þeim voru í húsmennsku Einar Þorgautsson, 63 ára, og 23 á gömul dóttir hans, Guðný að nafni.
Næst getur manntalið Þórkötlustaða. Þar voru heimilismenn alls þrettán og var það fjölmennasta heimili sveitarinnar. Fyrir því réði Eyjólfur Jónsson. Hann var tekinn að reskjast nokkuð, er hér var komið sögu, orðinn sextugur, og kona hans, Ingveldur Ingimundardóttir, var 45 ára. Börn áttu þau sjö og var hið elsta 23 ára, en hið yngsta 39 vikna. Í barnahópnum voru sex drengir og eins túlka og virðist sem þau hjónin hafi snemma orðið uppinskroppa með nöfn því þrír elstu drengirnir hétu allir Jón. Auk fjölskyldunar voru fjögur vinnuhjú á heimilinu.
Fimm hjáleigur voru byggðar í landi Þórkötlustaða. Á hinni fyrstu bjuggu hjónin Jón Stígsson og Þuríður Magnúsdóttir, 37 og 36 ára, ásamt 20 vikna gömlum syni sínum. Á annarri hjáleigu voru Ormur Ólafsson og Randíður Ívarsdóttir, 37 og 33 ára, og ennfremur Jón Sigurðsson húsmaður, 36 ára.
Á þriðju hjáleigunni bjuggu hjónin Illugi Ívarsson og Guðrún Jónsdóttir, 39 og 26 ára, ásamt tveim kornungum börnunum sínum og á fjórðu hjáleigu voru hjónin Þorvarður Þorvaldsson og Ingveldur Höskuldsdóttir, 45 og 47 ára, ásamt ungri dóttur sinni. Á fimmtu og síðustu hjáleigunni í Þórkötlustaðalandi bjuggu hjónin Gunnlaugur Þórðarson og Solveig Þórðardóttir. Hann var 34 ára og hún 45. Hjá þeim var móðir Gunnlaugs, Þórdís Gunnlaugsdóttir. Hún var 82 ára gömul, elst alla íbúa í sveitinni og hinn eini þeirra, sem lifað hafði Tyrkjaránið. Einnig var á heimilinu 18 ára piltur, Þorsteinn Kolbeinsson. Hann var sagður “smaladrengur” og var eini Grindvíkingurinn er það starfsheiti bar árið 1703.
Á Hrauji bjuggu hjónin Þorsteinn Gunnarsson og Sesselja Gísladóttir, 29 og 33 ára, ásamt tveim kornungum börnum sínum. Þau héldu fjögur vinnuhjú og hafði ein vinnukonan hjá sér ungan son sinn.
Tvær hjáeigur voru byggðar í landi Hrauns. Á annarri bjuggu hjónin Þorsteinn Björnsson og Þórdís Bjarnadóttir, 46 og 47 ára, og á hinni síðari ekkjan Drysíana Eyjólfsdóttir ásamt fimm börnum sínum á aldrinum 9 til 16 ára.
Var hún eina konan, sem stóð fyrir heimili í Grindavíkurhreppi árið 1703. Hjáleigan, sem Frysíana bjó á nefndist Vatnagarðar, og var bú hennar 3 kýr, 11 ær, 3 sauðir tvævetrir, 2 veturgamlir og 1 hestur. Ekki er getið um sjávarútveg á heimilinu og líkast til hefur hann enginn verið því í Jarðarbókinni, sem tekin var saman nokkrum mánuðum seinna, segir að Drysíanna geti ekki uppfyllt kvaðir um mannslán til dagsláttar, þar erð enginn sé á heimilinu til að vinna það verk nema ungmenni. Var hún því laus undan þeirri kvöð.
Næst víkur sögunni austur að Ísólfsskála, sem reyndar er kallaður “Ísuskáli” í manntalinu. Þar bjuggu hjónin Hallur Sigmundsson og Guðrún Markúsdóttir, 39 og 41 árs, ásamt tveim ungum börnum sínum. Þau héldu fimm vinnuhjú, en engin hjáleiga var byggð í landi jarðarinnar.
Loks er að geta Krýsuvíkur. Þar bjuggu á heimajörðinni hjónin Sigvaldi Bjarnason og Þorbjörg Hallkelsdóttir og var hann 52 ára, en hún 32. Hjá þeim voru þrjú börn þeirra á aldrinum 4-10 ára og ennfremur voru fjögur vinnuhjú á heimilinu og hafði eitt þeirra með sér barn.
Hjáleigur voru jafnan nokkrar í Krýsuvíkurlandi og árið 1703 voru sex þeirra byggðar. Á hinni fyrstu voru hjónin Jón Þorvarðarson og Guðrún Þorvarðsdóttir og stóð hún á fertugu, en hann var tveimur árum eldri. Á annarri hjáleigu bjuggu Magnús Þórðarson og Solevg Bjarnadóttir, 32 og 35 ára, og voru hjá þeim ungur sonur þeirra og roskin móðir Magnúsar. Á þriðju hjáleigu bjuggu hjónin Jón Jónsson og Guðrún Þórðardóttir, 34 og 31 árs, ásamt ungum syni sínum og á fjórðu hjáleigu hjónin Ólafur Þorvarðsson og Katrín Jónsdóttir. hann var 4 ára, en hún 46 og hjá þeim voru tveir synir þeirra, 10 ára og eins árs. Á fimmtu hjáleigu í Krýsuvík bjuggu þau Ófeigur Ólafsson og kona hans, Guðrún Þorsteinsdóttir. Hann var þrítugur en hún 27 ára og áttu þau tvö kornung börn.
Á sjöttu og síðustu hjáleigunni bjuggu þaun Jón Eyjólfsson og Hólmfríður Jónsdóttir, 55 og 47 ára. Fimm börn þeirra voru á heimilinu, einn piltur og fjórar stúlkur. Af stúlkunum báru tvær sama nafn, hétu báðar Ingveldur.
Auk þess fólks, sem hér hefur verið getið, voru 29 niðursetningar og þurfalingar taldir í hreppnum árið 1703 og sex utansveitarmenn voru staddir þar er manntalið var tekið. Af þeim áttu fjórir sveit í Árnessýslu en tveir í Rangárvallasýslu.
Þar með er lokið þessari stuttu yfirferð okkar yfir Grindavíkursveit á því herrans ári 1703. Við höfum kynnst íbúunum lítillega en verðum þó að viðurkanna, að um fæsta þeirra vitum við meira en nöfn og aldur.
Aðeins þrír hafa komist í bækur, prestarnir á Stað og Þorsteinn á Járngerðarstöðum. Margan kann að undra að ekki skuli fleiri Grindvíkinga frá þessum tíma verið getið ýtarlegar í rituðum heimildum, en ástæðan er í raun einföld.
Hjáleigubændur komust sjaldan á bækur, vinnuhjú enn sjaldnar og þótt þeir, sem sátu lögbýlin væru að sönnu mikils metnir menn heima í héraði, ber þess að gæta að þeir voru ekki sjálfseignabændur. Hústóftir voru konungseign, hinar jarðirnar allar eign dómkirkjunnar í Skálholti. Bændurnir voru þannig landsetar Skálholtsstóls og Danakonungs og þótt þess séu vissulega dæmi að bændur í grindavík á fyrri öldum hafi hafist til mannvirðinga, safnað auði og jafnvel átt miklar eignir í öðrum sveitum, er ólíklegt að svo hafi verið um marga þeirra, sem hér hafa verið taldir.
Þegar manntalið var tekið árið 1703 var loksins að ljúka einhverju versta harðindaskeiði, er heimildir kunna frá að greina á síðari öldum, litlu ísöldinni, svonefndu. Þá voru kuldar miklir, eins og nafnið bendir til, sum árin hafís á fiskislóðum Sunnlendinga og aflabrestur mikill. Má sem dæmi nefna, að á 18 ára tímabili, 186-1704, telja heimildir aðeins eitt gott aflaár í Sunnlendingafjórungi, tvö voru í meðallagi, en hin öll léleg. Liggur í augum uppi, hve hart svo langætt fáfiski hefur bitnað á verstöð á borð við Grindavík. Og ekki tók betra við er afli tók loksins að glæðast og veðurfar hlýnaði. Þá dundi bólan yfir árið 1707 og féll þá margt af því fólki, sem hér hefur verið frá sagt.
En þótt upplýsingarnar í manntalinu séu fáorðar, veita þær okkur engu að síður mikilsverðar vitneskju. Skipting byggðarinnar í hverfi var þegar orðin augljós og byggð þegar langmest í Járngerðarstaðahverfi. Þar voru þrjú af átta lögbýlum sveitarinnar, átján af fjörutíu heimilum og þar áttu samtals 89 manns heima, auk lausamann, og vafalaust hafa einhverjir af niðursetningunum 29 verið vistaðir þar.
Má því hiklaust álykta að um og yfir hundrað manns hafi átt sér bólfestu í Járngerðarstaðahverfi árið 1703. Þar var þá risinn kjarni, sem hiklaust verður að telja vísi að þéttbýli, a.m.k. ef miðað er við byggð eins og hún var víðast hvar á Íslandi á þessum tíma.
Hinn mikli fjöldi hjáleigna segir athyglisverða sögu um atvinnuhætti og atvinnuskiptingu. Sjávarútvegur var sem endranær höfuðatvinnuvegur Grindvíkinga, landbúskap höfðu bændur aðeins til styrktar og heimaneyslu. Graslendi hjáleignanna voru lítil og rýr og útilokað að hjáleigubændurnir gæti framfeytt sér og sínum af landbúskap. Þeir voru því nær undantekningarlaust sjónenn og sóttu sjó á útvegi landsdrotnna sinna. Kemur það vel heim og saman við þá steðreynd að felstir hjáleigubændanna voru menn á góðum vinnualdri. Eldri menn, sem ekki dugðu lengur til sjósóknar, voru fáir sem engir í þeirra hópi.
Eignarhald Skálholtsstóls og konungs á jörðunum í Grindavík segi einnig mikla sögu og sýnir betur en felst annað mikilvægi verstöðvarinnar. Skálholtsstóll var voldugasta og auðugusta stofnun á Íslandi á þessum tíma og byggðist veldi hans og auður ekki síst á útgerð og fiskútflutningi. Grindavík var ein mesta og mikilvægasta verstöðin og fiskihöfnin í gervöllu biskupsdæminu og því ein af undirstöðunum undir efnahag biskupsstólsins og afkomu. Sést það ef til vill hvað best að því að á aflaleysisárunum á síðasta hluta 17. aldar og í upphafi þeirra 18. varð oftar en einu sinni skortur á matfiski í Skálholti og fyrir kom að skólahald féll þar niður hluta úr vetri eða jafnan heilan vetur, þar sem ekki var til fiskur til að fæða skólapilta. Sýnir það betur en flest annað þýðingu Grindavíkur og fólksins, sem þar bjó, fyrir Skálholtsstað og þá um leið íslenska menningu.”
Heimild:
-Sjómannadagsblað Grindavíkur 1992, Grindvíkingar anno 1703, Jón Þ. Þór, bls. 27-31.