Tag Archive for: Sagnfræði

Ingólfur Arnarsson

Helgi Þorláksson, prófesor emeritus í sagnfræði við HÍ, svaraði spurningunni „Var Ingólfur Arnarsson til í alvörunni?“ á Vísindavefnum:

Helgi Þorláksson

Helgi Þorláksson.

„Um 1940 voru dásamlegir tímar í íslenskri miðaldasagnfræði, fræðimenn trúðu flestum Íslendingasögunum eins og nýju neti um menn og málefni 10. aldar en þeirri dýrð lauk um 1950. Því olli líklega einkum að bókfestukenningin svonefnda hafði skotið rótum. Hún nefndist öðru nafni íslenski skólinn og samkvæmt henni voru Íslendingasögur að mestu skáldskapur, og ónothæfar sem heimildir um menn og atburði tímabilsins frá um 870 til um 1050. Gætti aukinnar gagnrýni í allri notkun miðaldaheimilda og er tímaritið Saga, sem hóf göngu um miðja síðustu öld, skýr vitnisburður um slíkar hræringar.
Landnámabók taldist þó halda velli. Stundum er ósamræmi milli gerða hennar og sú gerðin sem helsti sérfræðingur síns tíma um Landnámu, Jón Jóhannesson, taldi standa næst frumtexta segir að Ingólfur hafi verið Björnólfsson. Jón benti á að Björnólfur kunni að hafa haft viðurnefnið örn. Þannig gat Ingólfur verið bæði Arnarson og Björnólfsson.

Ingólfur Arnarsson

Stytta Ingólfs Arnarsonar á Arnarhóli. Styttan var afhjúpuð árið 1924 og er afsteypa. Frummyndin var gerð árið 1907.

Um 1970 var hins vegar almennt farið að draga í efa vitnisburð Landnámu og Íslendingabókar um sögu Íslands fyrir 1050. Sjálfstæðisbaráttan var að baki, lýðveldið að verða aldarfjórðungs gamalt og eðlilegt að endurskoða gömul viðhorf. Hið nýja viðhorf var að heimildir eins og Landnáma segðu jafnvel meira um þá sem sögðu frá, létu festa frásagnir á skinn, en hina sem sagt var frá. Hin rétta spurning var þá ekki: Var Ingólfur til? Heldur: Hvaða tilgangur vakti fyrir þeim sem sögðu frá Ingólfi? Efasemdir komu jafnvel fram um Íslendingabók Ara fróða og það sem hann segir um Ingólf. Til greina þótti koma að það hefði verið samkomulagsatriði ráðamanna um 1120 að telja að Ingólfur hefði verið fyrstur og merkastur landnámsmanna, slíkt hefði getað þjónað hagsmunum ráðamanna á tímum Ara.

Ölfus

Inghóll á Ingólfsfjalli.

Örnefni voru líka gengisfelld sem heimildir um 1970, með svonefndri náttúrunafnakenningu. Höfundur hennar er Þórhallur Vilmundarson sem flutti röð rómaðra fyrirlestra árið 1966 og á næstu árum um kenninguna. Hún snýst um að mannanöfn séu lesin út úr örnefnum en ekki öfugt; örnefnin séu ekki endilega tengd mannanöfnum eins og Landnáma og aðrar heimildir gefa í skyn. Þannig er ing- í Ingólfshöfði standur, fyrirbæri í náttúrunni sem rís upp yfir umhverfi sitt. Höfundur benti líka á Inghól sem er efst á Ingólfsfjalli.

Vestmannaeyjar

Í Landnámabók segir að írskir þrælar Hjörleifs Hróðmarssonar úr Dalsfirði í Noregi, fóstbróður Ingólfs Arnarssonar, hafi fyrstir sest að í Heimaey og Vestmannaeyjar kenndar við þá. Nafngreindir voru þeir: Dufþakur, Geirröður, Skjaldbjörn, Halldór, Drafdritur og fleiri, alls tíu og bjuggust þeir fyrir í eyjunni um hríð, eða þar til Ingólfur kom og hefndi Hjörleifs fóstbróður síns sem þeir höfðu drepið. Ýmis örnefni í eyjunni eru enn við þá kennd svo sem Dufþekja og Halldórssandur.

Einfaldast væri að sniðganga Ingólf alveg. Þá er ritheimildum um hann hafnað og ekki fengist við spurninguna um það hvort hann var til. Sú saga gengur að fréttamaður hafi spurt fornleifafræðing einn um Ingólf Arnarson og hann svarað „Ingólfur hvaða?“ Þetta ætti einmitt að vera fyrsta spurning, hvaða Ingólfur er það sem við höfnum, höfnum við eingöngu vitnisburði ritheimilda um hann, ef til vill að vissu marki, eða höfnum við tilvist hans með öllu? Sagan í Landnámu um þá félaga, Ingólf og Hjörleif, ber skýr bókmenntaeinkenni, er vafalítið skáldskapur og miklar líkur til að Hjörleifur hafi ekki verið til, að minnsta kosti ekki í þeirri mynd sem birt er af honum í Landnámu.
Mér finnst einsýnt að hafna líka persónunni Ingólfi, eins og hann kemur fram í Landnámu. En merkir það að hinn ætlaði frumherji hafi ekki verið til, og verði jafnvel sniðgenginn með öllu? Ari fróði segir að landið hafi verið numið nærri 870 og vísar til þriggja heimildarmanna um þetta. Hann skrifar eins og Ingólfur hafi verið hinn mikli frumherji. Kannski vissi hann þetta ekki fyrir víst en vafalítið er að landnemar í Reykjavík komu snemma út. Fornleifarannsóknir sýna að menn voru á ferð í Reykjavík þegar fyrir 871 ± 2 ár. Hversu löngu fyrr er óljóst. Einhver var fyrstur og miðað við stöðu fornleifarannsókna er líklegt að það hafi verið landneminn í Reykjavík enda þekkjast ekki skýrar vísbendingar um að aðrir landnemar hafi verið fyrr á ferð annars staðar. Í öðru lagi er varla ástæða til að efast um að frumherjinn hafi verið af norskum uppruna og er það eins og Ari telur. Í þriðja lagi er líklegt að hann hafi numið allmikið land, fyrst hann kom snemma. Í fjórða lagi er líklegt að hann hafi getað látið til sín taka og verið áhrifamikill, eins og sagt er, hafi hann komið fyrstur eða manna fyrstur og fékk þetta forskot á aðra.

Skálafell

Skálafell austan Esju – tóft, sem aldrei hefur verið fornleifaskráð. Tóftarinnar er getið í Landnámu þegar Ingólfur er sagður hafa leitað Karla og fundið.

Það skiptir máli hér að Reykjavík var ekki höfðingjasetur, svo að séð verði, á 12. og 13. öld þegar sagðar voru sögur af Ingólfi, fyrirmynd annarra landnema, enda er Karli þræll látinn undrast í Landnámu að Ingólfur skyldi setjast að á útnesi. Þetta styður þá skoðun að það sé ekki tilbúningur frá 12. öld að frumherjinn hafi átt heima í Reykjavík, getur að minnsta kosti verið mun eldri sögn. Af Íslendingabók verður ráðið að sagnir um mikilvægi Ingólfs voru til áður en Ari samdi bókina.
Þótt efast sé um að tilgangurinn með Íslendingabók hafi verið algjörlega fræðilegur og því trúað að Ari kunni að þegja um sumt verður hann ekki auðveldlega sniðgenginn með öllu um Ingólf.

Ingólfshöfði

Ingólfshöfði – MWL.

En þótt þannig sé gerður munur á gildi frásagna um Ingólf og Hjörleif er heldur rýrt það sem eftir stendur um landnemann í Reykjavík. Hann hét kannski Ingólfur, var norskur, kom snemma, var ef til vill fyrstur og hann og afkomendur hans munu líklega hafa orðið nokkuð fyrirferðarmikil á elsta skeiði Íslandssögunnar. Eftir stendur það mat margra fræðimanna, lítt haggað, að ritheimildir séu ekki vænlegar til að færa okkur örugga vitneskju um persónur og atburði eða stjórnmálasögu fyrir 1050. Það má kannski segja að það sé samkomulagsatriði að telja, svo lengi sem annað afsannar það ekki, að hinn fyrsti landnemi hafi sest að í Reykjavík og heitið Ingólfur. Hvorugt vitum við þó fyrir víst, kannski voru einhverjir fyrr á ferð annars staðar og kannski er nafn Ingólfs lesið út úr örnefnum.“

Heimild:
-https://www.visindavefur.is/svar.php?id=7366
-Helgi Þorláksson prófessor emeritus í sagnfræði við HÍ.

Ölfusá

Ölfusá. Ingólfsfjall fjær.
Selfoss er landnámsjörð Þóris Hersis Ásasonar en einnig er getið um vetursetu Ingólfs Arnarsonar 873-74 „undir Ingólfsfelli fyrir vestan Ölfusá“.

Fornleifafræði

Virt breskt forlag gaf út rit Adolfs Friðrikssonar „Samspil fornleifa- og sagna“ árið 1994:

Adolf Friðriksson

Adolf Friðriksson.

„Avebury-forlagið í Englandi hefur sent frá sér ritið Sagas and popular Antiquarianism in Icelandic Archaeology. Höfundur þess er Adolf Friðriksson fornleifafræðingur. Bókin er afrakstur rannsókna hans á árunum 1988-1991, er hann var við nám við Fomleifafræðistofnun Lundúnaháskóla. Adolf hefur hlotið viðurkenningar erlendis vegna þessa verkefnis, þ.á m. frá breska utanríkisráðuneytinu, nefnd háskólarektora í Bretlandi og minningasjóði Gordon Childe.
Jafnframt veitti Vísindasjóður aðstoð við lokafrágang verksins og handritið að bókinni hlaut verðlaun Gjafar Jóns Sigurðssonar. Árið 1993 hlaut Adolf námsstyrk franskra stjórnvalda og er nú búsettur í París við nám og rannsóknir við École des Hautes Etudes.
Sagas and popular Antiquarianism in Icelandic Archaelogy fjallar um samspil fornsagna og fornleifa í íslenskri rannsóknarhefð.

Adolf Friðriksson

Sagas and popular Antiquarianism in Icelandic Archaeology – Adolf Friðriksson.

Á bókarkápu kemur fram að umhverfi íslenskrar fornleifafræði er óvenjulegt því búseta á Íslandi hófst ekki fyrr en á víkingaöld, og jafnframt að til eru bókmenntir frá miðöldum er segja sögu Íslendinga frá fyrstu tíð.
Í bókinni er upphaf fornleifarannsókna á Íslandi rakið til áhuga og aðdáunar á fombókmenntunum. Í árdaga fornleifafræði voru sögurnar vegvísar fræðimanna á markverða minjastaði og voru þær lengi taldar geta aukið skilning á minjum víkingaaldar. Frumkvöðlar fornleifarannsókna og sporgöngumenn þeirra rannsökuðu greftrunarstaði fornmanna, hofminjar og þingstaði og fundu gjarnan augljósa samsvörun á milli minja og sagna er þeir töldu staðfesta gildi sagnanna.
Þegar samspil sagna og minja er skoðað kemur m.a. í ljós að alþýðuskýringar sem finna má um flesta minjastaði, hafa leikið stórt hlutverk.
Alþýðuskýringar um minjar sem taldar em frá fornöld eru fyrst og fremst heimildir um áhuga manna og forvitni, en ekki traustar vísbendingar um uppruna minja. Þessar skýringar hafa hins vegar verið færðar í búning vísindalegrar rannsóknasagna sem hafa haft afgerandi áhrif á ályktanir rannsakenda um aldur og eðli minjanna.

Sagnfræði

Sagnfræði – Möðruvallabók.

Á síðustu árum og áratugum hefur mjög dregið úr áhrifum örnefna, alþýðuskýringa og Íslendingasagna í fornleifafræði, enda hafa fræðimenn meiri efasemdir um heimildagildi þeirra. Nýjar kynslóðir fornleifafræðinga hafa kosið að yfirgefa fræðihefðina og stunda „sjálfstæða“ fornleifafræði. Komið hafa fram kenningar þar sem reynt hefur verið að kollvarpa fyrri hugmyndum um upphaf byggðar og fornleifafræðingar hafa leitast við að finna rannsóknastaði utan sögusviðs mennta. Þessi viðhorf byggja ekki á skýrum röksemdum um gang eða ógang Íslendingasagna við fornleifar og víða megi finna yfirlýsingar fornleifafræðinga um þessi efni. Rannsóknarhefðin hefur verið yfirgefin án athugunar á eðli hennar og takmörkum.

Fornleifauppgröftur

Fornleifauppgröftur í Arnarfirði. Um er að ræða sjálfstæðan fornleifauppgröft þrátt fyrir ritheimildir.

Þrátt fyrir yfírlýsingar um gagnsleysi Íslendingasagna við fornleifarannsóknir má finna sterk áhrif þeirra í verkum hörðustu gagnrýnenda rannsóknarhefðarinnar. Mótsagnir af því tagi spilla mjög trúverðugleika niðurstaðna þeirra. Í ljósi þessa er mikilvægt að horfa um öxl og skoða eðli rannsóknarhefðarinnar, sögu rannsókna, og leggja mat á hugtök og aðferðir.
Bókin skiptist í sex kafla. Helstu einkenni íslenskrar fornleifafræði eru kynnt í inngangi. Í næstu fjórum köflum er fjallað um minjar um upphaf byggðar, trúarbrögð, þinghald og búsetu. Í lokakafla er rakin þróun fræðigreinarinnar í samhengi við breyttan tíðaranda og litið til framtíðar. Sagas and popular Antiquarianism in Icelandic Archaeology er 240 bls. að stærð og prýdd flölda mynda, korta og teikninga.“

Heimild:
-Morgunblaðið, 259. tbl. 12.11.1994, Samspil fornleifa og sagna – Adolf Friðriksson, bls. 21.

Kringlumýri

Kringlumýri ofan Krýsuvíkur – með elstu mannvistarleifum á Íslandi – líklega selstaða frá „Húshólmabæjunum“, fyrrum Krýsuvík eftir landnám. Minjarnar eru hvergi skráðar í ritheimildum.

Krummi

Margrét Hermanns-Auðardóttir skrifaði grein í Morgunblaðið árið 2002 undir yfirskriftinni „Minjavernd á villigötum„:

Margrét-Hermanns-Auðardóttir

Margrét-Hermanns-Auðardóttir.

„Í helgablaði Morgunblaðsins 16. júní sl. birtist tvöfalt viðtal við forstöðumenn Þjóðminjasafns („Þjóðminjavarslan mun vaxa“) og nýstofnaðrar Fornleifaverndar ríkisisns („Vernd í sátt við þjóðina“), sem veitir leyfi til fornleifarannsókna og hefur eftirlit með þeim og öðru sem varðar vernd og varðveislu fornleifa þjóðarinnar. Tilefnið var viðtal í blaðinu við mig sem birtist viku áður. Fyrri grein mín, sem er að finna á netútgáfu Morgunblaðsins í fullri lengd takmarkast að mestu við leiðréttingu rangmæla í þessum „viðbrögðum“ forstöðumannanna, einkum forstöðumanns Þjóðminjasafns, sem nauðsynlegt er að gera, og í framhaldi viðtalanna í Kastljósþætti í ríkissjónvarpinu og annarri umfjöllun þessu tengdri sem fylgdi í kjölfarið og birtist hvað mest í Morgunblaðinu á þessu „mesta uppgraftasumri allra tíma“.

Fornleif

Fornleifauppgröftur.

Í þeirri grein er m.a. fjallað um þýlyndi við útlendinga sem hleypt er eftirlitslaust í 43 fornleifastaði þjóðarinnar, óráðsíu í málefnum Þjóðminjasafns, skil á gripum og einokunarhneigð í fornleifarannsóknum auk leyfisveitinga til stórtækra inngripa í eitt dýrmætasta fornleifasvæði landsins á Gásum í Eyjafirði. Leiðrétting rangmæla hefur dregist m.a. vegna tregðu í kerfinu við að veita umbeðnar upplýsingar, t.d. tók það Fornleifavernd ríkisins á 2. mánuð að verða við upplýsingum sem varða rannsóknaleyfi á liðnu sumri, og þá að takmörkuðu leyti, þegar þær bárust loks.
UppgröfturSíðari grein mín fjallar um „Nauðsyn á stefnu í fornleifavernd og vísindalega fornleifafræði„. Í henni er fjallað um stöðu fornleifaverndar frá sjónarhóli utan íslensku kerfismúranna, hina hlið málsins, ef svo mætti segja, sem ekki verður ráðin af ofangreindum viðtölum í Morgunblaðinu við forstöðumenn Þjóðminjasafns og Fornleifaverndar ríkisisns. Að draga fram þessa hlið málsins er viðleitni til að skýra nauðsyn þess að hafa vísindalega fornleifafræði að leiðarljósi við skilvirka varðveislu fornleifa þjóðarinnar, fylgja settum lögum og reglum hvað sem gengur á og hvaða þrýstingi sem beitt er, ekki síst þegar leyfi eru veitt til að raska fornleifum með uppgreftri.

Hrísbrú

Hrísbrú – fornleifauppgröftur.

Minjaverndin rekur augljóslega á reiðanum vegna holskeflu stóruppgrafta (m.a. þökk sé Kristnihátíðarsjóði), að verulegu leyti með „persónu- og sögudýrkandi“ forngripaleit að leiðarljósi, þar sem ófáum sem það stunda leyfist að vaða úr einum uppgreftrinum af öðrum án þess að hafa skilað af sér fyrri verkefnum sem skyldi. Í síðari greininni, verður þó ekki komist hjá því einnig að andmæla sumu af því sem fram kemur hjá forstöðumanni Fornleifaverndar ríkisins í viðtali hennar í Morgunblaðinu. Stefnumörkun í þágu fornleifaverndar og vísindaleg fornleifafræði er þó í fyrirrúmi í þeirri grein.

Fornleifar

Fornleifauppgröftur.

Hér á eftir fylgja valdir kaflar úr greinum mínum, sem er að finna í fullri lengd á netútgáfu Morgunblaðsins eins og áður segir. Áhersla er lögð á það enn á ný, hversu torskilið það ætlar að reynast hjá framkvæmdavaldinu, að vernd og varðveisla jarðfastra fornleifa kallar á annars konar sérhæfni og skyldur en safnastörf. Stjórnvöld hafa ekki skilið enn sem komið er mikilvægi þess, að aðeins á styrkum stoðum fornleifafræðinnar sem sjálfstæðs vísindasviðs á háskólastigi er unnt að byggja upp hjá okkur ábyrga skilvirka fornleifavernd og fornleifafræði.

Lagði Þjóðminjasafn grunninn að Fornleifavernd ríkisins?

Margrét Hallgrímsdóttir

Margrét Hallgrímsdóttir, þjóðminjastjóri.

Í viðtali Morgunblaðsins 16. júní sl. segir forstöðumaður Þjóðminjsafns: „Að Þjóðminjasafn hafi undanfarin sex ár lagt grunninn að Fornleifavernd ríkisins. Árangurinn af þessari vinnu má meðal annars sjá í nýju þjóðminjalögunum.“ Sannleikurinn er sá, að forstöðumaðurinn lagðist gegn aðskilnaði fornleifavörslunnar frá Þjóðminjasafni, enda var augljós fylgifiskur slíkrar breytingar skerðing á valdsköku hennar. Allt frá endurskoðun þjóðminjalaga 1988–89 hefur ítrekað verið lagt til að fornleifaverndin fengi sjálfstæða stöðu, og við síðustu endurskoðun þjóðminjalaga 2000–2001 voru nær allir fornleifafræðingar auk margra safnamanna fylgjandi slíkri breytingu.

Þjóðminjasafnið

Í Þjóðminjasafninu – fólk að horfa á það er skiptir nánast engu máli í stóra samhenginu…

En líkt og hjá öðrum þjóðum var mikilvægt að vernd fornleifa og eftirlit fornleifauppgrafta í landinu fengi sjálfstæða stöðu, óháð þeim skyldum og kvöðum sem hvíla á minjasöfnum. Meginhlutverk Þjóðminjasafnsins er að stuðla að sýningum og annarri kynningu „á minjum um menningarsögu þjóðarinnar“, sinna rannsóknum og varðveislu gripa og annarra menningarverðmæta þjóðarinnar sem varðveitt eru í safninu. Hjá öðrum í okkar heimshluta er það almennt viðurkennt að fornleifavernd kalli á annars konar sérhæfni og skyldur en safnastörf, enda útilokað að koma jarðföstum fornleifum fyrir í söfnum!

Krýsuvík

Krýsuvík neðan Baðstofu – fornleifar eyðilagðar á fyrsta degi framkvæmda.

Fornleifavernd hefur engan veginn verið sinnt sem skyldi hér á landi, þrátt fyrir að við búum við betri aðstæður miðað við flest önnur lönd, þar sem þéttbýli og tilheyrandi framkvæmdir ógna fornleifum í miklu meira mæli en hjá okkur. Þessa stundina rekur yfirleitt á reiðanum í stjórnsýslunni vegna hagsmuna „vinavæðingar“ hér heima (sbr. t.d. Mbl. 23. júlí: „Einkavinavæðing út yfir gröf og dauða“) og þýlyndis við útlendinga, utan við lög og reglur. Ef ekki, sem er sjaldnar, þá eru þeir ágallar sem nú koma í ljós, þrátt fyrir gildistöku nýrra þjóðminjalaga, fyrst og fremst vegna áberandi vanþekkingar á því hvernig hlutunum er forgangsraðað við vernd og varðveislu fornleifa. Sú forgangsröðun, ef slíka skyldi kalla, er hér önnur en í öðrum Evrópuríkjum, þar sem fornleifafræðin sem vísindasvið hefur löngum átt sér sterka stöðu við helstu háskóla.

Er HÍ hindrun fyrir fornleifafræði sem vísindasvið?

Urriðakot

Urriðakot – uppgröftur á selstöðu, sem hvergi var getið í rituðum heimildum.

Það virðist greinilega þörf á að skýra, að alþjóðleg fornleifafræði hefur einkum mótast sem sjálfstætt vísindasvið við rannsóknir á mannvistarleifum (fornleifum) frá forsögulegum tíma. Ritmálið kemur fyrst inn í myndina á síðustu árþúsundum á þeim óralanga tíma sem þróun mannkyns spannar. Þar af leiðandi hafa þær aðferðir og túlkunarhefðir sem fornleifafræðin hefur þróað, grundvallast umfram annað á því að mæla, flokka og ráða í þann margþætta og flókna vitnisburð sem jarðfastar fornleifar frá mismunandi tímum hafa að geyma, bæði fyrir og eftir tilkomu ritheimilda.

Fornleifauppgröftur

Fornleifauppgröftur í Arnarfirði. Um er að ræða sjálfstæðan fornleifauppgröft, þrátt fyrir ritheimildir.

En fornleifafræðileg nálgun er ekki síður nauðsynleg við rannsóknir á fornleifum frá sögulegum tíma. Hún er því einnig mikilvæg við rannsóknir á fornleifum okkar, sem geyma dýrmætan vitnisburð um ótalmargt sem viðkemur afkomu og verkmenningu þjóðarinnar í heild, sambúð hennar við landið og óblíð náttúruöfl allt aftur á landnámstíma.

Það er hverjum hugsandi manni ljóst, að allt um þetta er ekki að finna í varðveittum ritheimildum, sem auk þess eru snöggtum yngri en elstu minjar um búsetu í landinu. Það er hins vegar alls ekki viðurkennd aðferðafræði innan fornleifafræðinnar (og á raunar við um vísindarannsóknir á hvaða sviði sem er) að gefa sér niðurstöðu fornleifauppgraftrar fyrst á sögulegum grunni, og leita svo allra ráða til staðfestingar á „trú“ sinni (þ.e. fyrirframgefinni niðurstöðu).

Hrísbrú

Fornleifauppgröftur að Hrísbrú.

Eða „ganga í skrokk“ á helstu minja- og sögustöðum með leit að tiltölulega vel þekktum atriðum í seinni tíma sögu okkar að leiðarljósi, svo sem skólahúsum eða prentsmiðjum biskupa eða öðru slíku. Slíkt er ekki ámælisvert í þágu sögudýrkunar eða ferðaþjónustu, en þetta er hvorki vísindaleg fornleifafræði né samræmist heldur skilvirkri fornleifavernd. Þar er verið að villa okkur sýn.

Það er mikilvægt, að þeir sem fá leyfi til að stjórna uppgröftum á íslenskum fornleifum, hafi heildstæða menntun og lokapróf að baki í fornleifafræði og hafi öðlast reynslu og þroska (þ.e. skilning) á ábyrgð sinni. Slík hæfnisskilyrði fyrir rannsóknaleyfum er skilvirk (þ.e. ábyrg) fornleifavernd. Sérþarfir okkar (þ.e. þjóðarinnar) til viðhalds og styrktar eigin fornleifavernd og fornleifafræði eiga að vera í fyrirrúmi við veitingu uppgraftrarleyfa, enda slík afstaða ríkjandi í öðrum Evrópuríkjum, þar sem fornleifafræðin hefur löngum átt sér sterka stöðu við helstu háskóla. Sönn fornleifafræðikennsla (ekki sem hliðargrein eða þjónustufag við önnur fræðasvið á háskólastigi), er forsenda þess, að fornleifafræðin geti þróast áfram sem sjálfstætt vísindasvið hjá okkur!

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja – kostaður uppgröftur á kirkjugólfi brunninnar timburkirkju frá 19. öld.

Hjá okkur hefur á hinn bóginn lítið sem ekkert faglegt aðhald verið fyrir hendi á sviði fornleifafræði. Nauðsynlegur bakhjarl fyrir þróun hennar sem vísindasviðs, hefur ekki verið fyrir hendi. Í Háskóla Íslands eru það „sagnfræðileg“ sjónarmið sem hafa ráðið því hvernig líta beri á hlutverk fornleifafræðinnar, án tillits til sjálfstæðis hennar sem háskólagreinar.

Í „opnu bréfi“ eins postulans í sagnfræðiskor (sem hefur setið á kennslustóli í aldarfjórðung) til „kollega“ sinna í heimspekideild á liðnu sumri, þegar hann gat ekki sætt sig við meirihlutaniðurstöðu samkennara sinna á fundi í sagnfræðiskor, þess efnis að vísa frá hlutdrægu dómnefndaráliti um umsækjendur um starf kennara í fornleifafræði við skorina og auglýsa starfið á ný.

Kristín Huld Sigurðardóttir

Kristín Huld Sigurðardóttir, forstöðumaður Minjastofnunar.

Þar segir hann orðrétt m.a.: „sagnfræðingar eru best allra fallnir til þess að meta hæfni fornleifafræðinga, því eitt meginhlutverk fornleifafræði er að framreiða rannsóknarniðurstöður til samanburðar og ögrunar við niðurstöður sagnfræðinga af ritheimildum“!

Höfundur er dr. í fornleifafræði og sjálfstætt starfandi fræðimaður í Reykjavíkur Akademíunni með 30 ára feril í fornleifarannsóknum hér á landi sem erlendis.“

Síðan eru liðin 23 ár – að því er virðist án nokkurra áþreifanlegra breytinga til batnaðar í undirstöðum fræðigreinarinnar. T.d. tekur a.m.k. nokkra mánuði fyrir „venjulegt“ fólk að fá einhver svör sem skipta máli frá nefndum stofnunum, ef þau fást þá á annað borð…

Heimild:
-Morgunblaðið, 254. tbl. 10.11.2002, Minjavernd á villigötum! – Margrét Hermanns-Auðardóttir, bls. 34-35.

Fornleifafræði

Sagnfræði og fornleifafræði – þar sem fræðigreinarnar mætast…

Ari Þorgilsson

Helgi Þorláksson skrifaði grein í tímaritið Sögu árið 2013 undir yfirskriftinni „Deila um gildi fornleifa og ritheimilda?„. Greinin sem slík er lítt merkileg þrátt fyrir tilefnið, en þess merkilegri þrátt fyrir vangavelturnar um öll merkilegheitin þar sem léttvæg álitamál sagnfræðinnar og fornleifafræðinnar mætast á prentsvertunni. Sumir sagnfornfræðingar eru viðkvæmari en aðrir þegar að gagnrýni kemur:

Helgi Þorláksson

Helgi Þorláksson – prófessor emeritus .

„Ég tek undir með Steinunni Kristjánsdóttur þar sem hún segir í grein í síðasta hefti Sögu að fornleifar séu „engu ómerkari minningarbrot úr fortíðinni en þau sem varðveitt eru í texta“. Hún bætir við: „Annar heimildaflokkurinn er ekki áreiðanlegri en hinn, enda þarf að túlka þá báða, lesa sem texta og setja í samhengi við viðfangsefnið“. Undir þetta tek ég heilshugar. Steinunn fullyrðir hins vegar að um þetta standi deila milli fornleifafræðinga og sagnfræðinga og að hinir síðarnefndu hafi oft gengið svo langt að telja fornleifar „ómarktækar ef engar ritheimildir styðja það sem þær leiða í ljós“ (bls. 131). Um þessa skoðun vitnar hún til BA-ritgerðar í sagnfræði frá 2010 eftir Kristel Björk Þórisdóttur sem skrifar m.a.: „Skriðu klaustur var líklega frekar vistheimili en sjúkrahús með markvissa lækningastarfsemi.

Steinunn Kristjánsdóttir

Steinunn Kristjánsdóttir – Alltaf gaman þegar konur karpa um álitamál, sem í raun skipta engu máli.

Heimildir eru um fáa munka á klausturtímanum og er erfitt að styðjast eingöngu við fornleifar“. Út frá þessu ályktar Steinunn: „Niður stöður ritgerðarinnar eru því þær að ekki sé hægt að halda því fram að í klaustrinu hafi verið stundaðar lækningar að hætti miðaldafólks vegna skorts á rituðum heimildum um þær“. Þetta segir Kristel Björk ekki, hún telur að fornleifar sýni einmitt að lækningar hafi verið stundaðar í klaustrinu að einhverju marki. en hún þorir ekki að fullyrða að þarna hafi verið sjúkrahús í þeirri merkingu að sjúklingar hafi verið teknir inn til að fá markvissa meðhöndlun með lyf- og handlækningum.

Kristel Björk Þórisdóttir

Kristel Björk Þórisdóttir. Skrifaði loka BA-ritgerð í sagnfræði – Klaustur á Íslandi : sjúkrahús eða vistheimili á miðöldum? undir leiðsögn Helga.

Hún telur líklegt að fólk hafi leitað líknar og hjúkrunar í klaustrinu og jafnframt andlegs styrks og sáluhjálpar. Megi líklega líta á klaustrið sem líknarstofnun eða vistheimili þar sem áhersla hafi verið lögð á andlega umönnun og fyrirbænir en þó jafnframt veitt líkamleg umönnun og líkn.
Ekki skal ég fjölyrða frekar um rök Kristelar Bjarkar og skoðanir enda er hún best fær um að gera grein fyrir þeim sjálf. En út frá þessu dregur Steinunn almennar ályktanir um viðhorf sagnfræðinga til fornleifa; hún segir, eins og fram er komið, að það sé „oft“ litið svo á innan sagnfræði að fornleifar séu ekki marktækar nema þær hljóti staðfestingu af rituðum heimildum. Hverjir hafa sett þetta fram og hvar? Ég kannast ekki við það.
Undir lok greinar sinnar segir Steinunn að orðið sé tímabært að sagnfræðingar líti á fornleifafræði sem sjálfstæða á þann hátt sem þeir líti á sína eigin grein. Ekki veit ég hvert Steinunn sækir þá hugmynd að sagnfræðingar líti ekki á fornleifafræði sem sjálfstæða grein.

Eitt sinn var ekki ótítt að sagnfræðingar nefndu fornleifafræði hjálpargrein sagnfræðinnar. Þetta má ekki skilja svo að þar með hafi þeir talið fornleifafræði undir skipaða og óæðri.

Hrísbrú

Fornleifauppgröftur í Mosfellsdal.

Það væri í sjálfu sér jafneðlilegt að fornleifafræðingar nefndu sagnfræði hjálpargrein fornleifafræðinnar og myndi sennilega ekki valda óróa meðal sagnfræðinga.
Eftir því sem ég veit best munu flestir eða allir íslenskir sagnfræðingar sem fást við hina elstu sögu taka algjört mark á meginniðurstöðum í fornleifafræði. Miðaldasagnfræðingar hafa almennt, og fyrir löngu, hafnað Landnámu og Íslendingasögum sem grunnheimildum um þessa elstu sögu og eiga því mikið undir niðurstöðum fornleifafræðinga. Steinunn skilur þetta hins vegar svo að sagnfræðingar séu sífellt að reyna að sanna eða afsanna hinar rituðu heimildir út frá fornleifum, t.d. hvort landið hafi verið numið 874 eða ekki.

Ari Þorgilsson

Ari Þorgilsson (1068-1148).

Rétt er að sumir sagnfræðingar benda á að vitnisburður Ara fróða í Íslendingabók um upphaf landnáms, norræna forystumenn um landnámið og hvenær þeir námu land, komi merkilega vel heim við megin niðurstöður fornleifafræðinga. Og fyrst Ari nefnir Ingólf er varla hægt að finna að því að sagnfræðingar skuli reyna að svara því hvort norrænn maður með þessu nafni hafi verið til og verið í einhvers konar forystu um landnám hérlendis eða hvort hann sé uppspuni. Fari hins vegar svo að þorri fornleifafræðinga telji að almenn og varanleg búseta í landinu hafi hafist mun fyrr en Ari telur (hann segir að það hafi verið um 870) munu sagnfræðingar hafna Ara. Ástæðan er einföld: hann ritaði ekki heimild sína fyrr en nærri 1130, hún stenst því ekki kröfur sem gerðar eru til góðra ritheimilda, að þær hafi orðið til sem næst atburðatíma. ekki er heldur að hafa neina sjálfstæða innlenda ritheimild til samanburðar, Ari mun hafa átt einhverja aðild að landnámsskrifum og að samantekt Frumlandnámu og því er hún og Íslendingabók háðar heimildir.

Skriðuklaustur

Skriðuklaustur – fornleifauppgröftur.

Af þessu má ráða að sagnfræðingar líta á fornleifafræði sem sjálfstæða grein. Hitt er annað mál að um niðurstöður einstakra fornleifarannsókna getur ríkt efi, fornleifar má oft túlka á ýmsa vegu. Á þetta fellst Steinunn, eins og tilvitnuð orð hennar hér í upphafi pistilsins sýna. Í BA-ritgerð sinni treystir Kristel Björk sér ekki til að taka undir þá ályktun Steinunnar að á Skriðuklaustri hafi verið „hospital í þeirri merkingu að þar hafi verið stund aðar lyf- og handlækningar“. Ég leiðbeindi að vísu Kristel við ritgerðarsmíðina, en ólíkt henni hef ég ekki myndað mér neina skoðun á efninu. en Steinunn segir að hérlendir fræðimenn telji að starfsemi íslenskra klaustra hafi verið frábrugðin því sem tíðkaðist erlendis; þeir hafi ekki áttað sig á að þau skyldu stuðla „að bættu líferni manna á jörðu“ og á Skriðuklaustri hafi það snúist „fyrst og fremst um að sinna sjúkum“. Þetta hafi „margir“ fræði menn átt erfitt með að viðurkenna, segir hún, og vísar aftur til Kristelar Bjarkar en aðeins hennar. Hvar eru hinir mörgu? Það væri fróðlegt og sjálfsagt skemmtilegt að fá að sjá rökræður Steinunnar við þá. BA-ritgerð Kristelar Bjarkar er prýðileg en getur ekki talist almenn viðmiðun eða samnefnari fyrir skoðanir íslenskra fræðimanna á klaustrum.“

Heimild:
-Saga, 2. tbl. 2013, Deila um gildi fornleifa og ritheimilda? – Helgi Þorláksson, bls. 183-185.

Íslendingabók

Íslendingabók – formáli endurritunar.