Tag Archive for: Sagnfræði

Ari Þorgilsson

Helgi Þorláksson skrifaði grein í tímaritið Sögu árið 2013 undir yfirskriftinni „Deila um gildi fornleifa og ritheimilda?„. Greinin sem slík er lítt merkileg þrátt fyrir tilefnið, en þess merkilegri þrátt fyrir vangavelturnar um öll merkilegheitin þar sem léttvæg álitamál sagnfræðinnar og fornleifafræðinnar mætast á prentsvertunni. Sumir sagnfornfræðingar eru viðkvæmari en aðrir þegar að gagnrýni kemur:

Helgi Þorláksson

Helgi Þorláksson – prófessor emeritus .

„Ég tek undir með Steinunni Kristjánsdóttur þar sem hún segir í grein í síðasta hefti Sögu að fornleifar séu „engu ómerkari minningarbrot úr fortíðinni en þau sem varðveitt eru í texta“. Hún bætir við: „Annar heimildaflokkurinn er ekki áreiðanlegri en hinn, enda þarf að túlka þá báða, lesa sem texta og setja í samhengi við viðfangsefnið“. Undir þetta tek ég heilshugar. Steinunn fullyrðir hins vegar að um þetta standi deila milli fornleifafræðinga og sagnfræðinga og að hinir síðarnefndu hafi oft gengið svo langt að telja fornleifar „ómarktækar ef engar ritheimildir styðja það sem þær leiða í ljós“ (bls. 131). Um þessa skoðun vitnar hún til BA-ritgerðar í sagnfræði frá 2010 eftir Kristel Björk Þórisdóttur sem skrifar m.a.: „Skriðu klaustur var líklega frekar vistheimili en sjúkrahús með markvissa lækningastarfsemi.

Steinunn Kristjánsdóttir

Steinunn Kristjánsdóttir – Alltaf gaman þegar konur karpa um álitamál, sem í raun skipta engu máli.

Heimildir eru um fáa munka á klausturtímanum og er erfitt að styðjast eingöngu við fornleifar“. Út frá þessu ályktar Steinunn: „Niður stöður ritgerðarinnar eru því þær að ekki sé hægt að halda því fram að í klaustrinu hafi verið stundaðar lækningar að hætti miðaldafólks vegna skorts á rituðum heimildum um þær“. Þetta segir Kristel Björk ekki, hún telur að fornleifar sýni einmitt að lækningar hafi verið stundaðar í klaustrinu að einhverju marki. en hún þorir ekki að fullyrða að þarna hafi verið sjúkrahús í þeirri merkingu að sjúklingar hafi verið teknir inn til að fá markvissa meðhöndlun með lyf- og handlækningum.

Kristel Björk Þórisdóttir

Kristel Björk Þórisdóttir. Skrifaði loka BA-ritgerð í sagnfræði – Klaustur á Íslandi : sjúkrahús eða vistheimili á miðöldum? undir leiðsögn Helga.

Hún telur líklegt að fólk hafi leitað líknar og hjúkrunar í klaustrinu og jafnframt andlegs styrks og sáluhjálpar. Megi líklega líta á klaustrið sem líknarstofnun eða vistheimili þar sem áhersla hafi verið lögð á andlega umönnun og fyrirbænir en þó jafnframt veitt líkamleg umönnun og líkn.
Ekki skal ég fjölyrða frekar um rök Kristelar Bjarkar og skoðanir enda er hún best fær um að gera grein fyrir þeim sjálf. En út frá þessu dregur Steinunn almennar ályktanir um viðhorf sagnfræðinga til fornleifa; hún segir, eins og fram er komið, að það sé „oft“ litið svo á innan sagnfræði að fornleifar séu ekki marktækar nema þær hljóti staðfestingu af rituðum heimildum. Hverjir hafa sett þetta fram og hvar? Ég kannast ekki við það.
Undir lok greinar sinnar segir Steinunn að orðið sé tímabært að sagnfræðingar líti á fornleifafræði sem sjálfstæða á þann hátt sem þeir líti á sína eigin grein. Ekki veit ég hvert Steinunn sækir þá hugmynd að sagnfræðingar líti ekki á fornleifafræði sem sjálfstæða grein.

Eitt sinn var ekki ótítt að sagnfræðingar nefndu fornleifafræði hjálpargrein sagnfræðinnar. Þetta má ekki skilja svo að þar með hafi þeir talið fornleifafræði undir skipaða og óæðri.

Hrísbrú

Fornleifauppgröftur í Mosfellsdal.

Það væri í sjálfu sér jafneðlilegt að fornleifafræðingar nefndu sagnfræði hjálpargrein fornleifafræðinnar og myndi sennilega ekki valda óróa meðal sagnfræðinga.
Eftir því sem ég veit best munu flestir eða allir íslenskir sagnfræðingar sem fást við hina elstu sögu taka algjört mark á meginniðurstöðum í fornleifafræði. Miðaldasagnfræðingar hafa almennt, og fyrir löngu, hafnað Landnámu og Íslendingasögum sem grunnheimildum um þessa elstu sögu og eiga því mikið undir niðurstöðum fornleifafræðinga. Steinunn skilur þetta hins vegar svo að sagnfræðingar séu sífellt að reyna að sanna eða afsanna hinar rituðu heimildir út frá fornleifum, t.d. hvort landið hafi verið numið 874 eða ekki.

Ari Þorgilsson

Ari Þorgilsson (1068-1148).

Rétt er að sumir sagnfræðingar benda á að vitnisburður Ara fróða í Íslendingabók um upphaf landnáms, norræna forystumenn um landnámið og hvenær þeir námu land, komi merkilega vel heim við megin niðurstöður fornleifafræðinga. Og fyrst Ari nefnir Ingólf er varla hægt að finna að því að sagnfræðingar skuli reyna að svara því hvort norrænn maður með þessu nafni hafi verið til og verið í einhvers konar forystu um landnám hérlendis eða hvort hann sé uppspuni. Fari hins vegar svo að þorri fornleifafræðinga telji að almenn og varanleg búseta í landinu hafi hafist mun fyrr en Ari telur (hann segir að það hafi verið um 870) munu sagnfræðingar hafna Ara. Ástæðan er einföld: hann ritaði ekki heimild sína fyrr en nærri 1130, hún stenst því ekki kröfur sem gerðar eru til góðra ritheimilda, að þær hafi orðið til sem næst atburðatíma. ekki er heldur að hafa neina sjálfstæða innlenda ritheimild til samanburðar, Ari mun hafa átt einhverja aðild að landnámsskrifum og að samantekt Frumlandnámu og því er hún og Íslendingabók háðar heimildir.

Skriðuklaustur

Skriðuklaustur – fornleifauppgröftur.

Af þessu má ráða að sagnfræðingar líta á fornleifafræði sem sjálfstæða grein. Hitt er annað mál að um niðurstöður einstakra fornleifarannsókna getur ríkt efi, fornleifar má oft túlka á ýmsa vegu. Á þetta fellst Steinunn, eins og tilvitnuð orð hennar hér í upphafi pistilsins sýna. Í BA-ritgerð sinni treystir Kristel Björk sér ekki til að taka undir þá ályktun Steinunnar að á Skriðuklaustri hafi verið „hospital í þeirri merkingu að þar hafi verið stund aðar lyf- og handlækningar“. Ég leiðbeindi að vísu Kristel við ritgerðarsmíðina, en ólíkt henni hef ég ekki myndað mér neina skoðun á efninu. en Steinunn segir að hérlendir fræðimenn telji að starfsemi íslenskra klaustra hafi verið frábrugðin því sem tíðkaðist erlendis; þeir hafi ekki áttað sig á að þau skyldu stuðla „að bættu líferni manna á jörðu“ og á Skriðuklaustri hafi það snúist „fyrst og fremst um að sinna sjúkum“. Þetta hafi „margir“ fræði menn átt erfitt með að viðurkenna, segir hún, og vísar aftur til Kristelar Bjarkar en aðeins hennar. Hvar eru hinir mörgu? Það væri fróðlegt og sjálfsagt skemmtilegt að fá að sjá rökræður Steinunnar við þá. BA-ritgerð Kristelar Bjarkar er prýðileg en getur ekki talist almenn viðmiðun eða samnefnari fyrir skoðanir íslenskra fræðimanna á klaustrum.“

Heimild:
-Saga, 2. tbl. 2013, Deila um gildi fornleifa og ritheimilda? – Helgi Þorláksson, bls. 183-185.

Íslendingabók

Íslendingabók – formáli endurritunar.