Gengið var með Eldvörpum að nýfundnum “Tyrkjabyrgjum” (fundust 2006), skoðað í “útilegumannahelli” (fannst 2004), leitað að hlöðnu byrgi við Rauðhól skv. ábendingu Kristjáns Sæmundssonar, jarðfræðings, og gígurinn í Sandfellshæðardyngju skoðaður. Þá var skoðað í “útilegumannahelli” (fannst 1982) við Eldvörp. Eldvörp eru um 10 km löng gígaröð í stefnu suðvestur – norðaustur.
Jarðhiti er í Eldvörpum og voru þar stundum bökuð brauð. Þegar Hitaveita Suðurnesja lét bora við Eldvörp um sumarið brotnaði hraunið undan jarðýtu sem vann við frágang í kringum holuna. Í ljós kom hellir með greinilegum mannvistarleifum, beinum og hleðslum.
Fyrst var þó haldið um Sundvörðuhraunið (sem reyndar er eitt Eldvarpahraunanna) að áður þekktum “Tyrkjabyrgjunum” (fundust 1872). Ætlunin var m.a. að skoða alla þá staði er tengja má vangaveltum manna í meira en hundrað ár um tilgang og tengsl þeirra.
Byrgin, sem fundust 1872, eru í einum krika þess mót vestri og fundust fyrir tilvikjun þenna vetur, líkt og þær nýrri, sem einnig fundust í Eldvörpum fyrir tilviljun 134 árum síðar. Á fyrrnefnda staðnum eru 10 tóftir (sú 11. fannst reyndar í þessari ferð), en á þeim síðari eru þær tvær. Tóftirnar eru mjög svipaðar á báðum stöðum. Stærsta tóftin í hraunkrikanum er t.d. 4.0 m að lengd og stærri tóftin í Eldvörpum er 4.2 m á lengd. Sum byrgjanna eru mun minni og er eitt þeirra t.a.m. þrískipt.
Stígur liggur nú úr Eldvörpum suður yfir Sundhnúkahraunið, niður af því að sunnanverðu og áfram áleiðis að Húsatóftum. á leiðinni má berja augum fallið byrgi, sennilega refaskyttu, og hlaðinn leiðigarð.
“Tyrkjabyrgin” eru skammt norðaustan við stíginn eftir að komið er út úr apalúf Sundhnúkahrauns og niður á sléttari öldung Eldvarpahraunanna. Þetta eru 10 tóftir, en tvær þeirra eru uppi á hraunbrúninni. Þetta eru allmikil mannvirki, misstórar en sú stærsta þeirra er um það bil 4.0 x 1,5 m á stærð. Hæðin er um 1.3 m. Engar heimildir hafa fundist um þessar rústir og hafa því verið uppi getgátur um tilvist þeirra. Þær fundust fyrir tilviljun veturinn 1872 og elstu lýsingu á þeim er að finna í Ferðabók Þorvaldar Thoroddsen en hann skoðaði þær árið 1883.
Í Sögu Grindavíkur (1994) segir á bls. 118 (I) að “Það var vetur inn 1972, að rústir af mörgum smáum kofum, hlöðnum úr grjóti, fundust af tilviljun í hraunkvos skammt vestur af Sundvörðuhrauni… Sumarið 1902 kom Brynjúlfur Jónnson frá Minna-Núpi til Grindavíkur (bjó m.a. í Klöpp) og skoðaði þá rústirnar. Hann brirti lýsingu á þeim í skýrslu sinni í árbók Fornleifafélagsins árið 1903 og taldi tóttirnar vera alls sjö, en of litlar til að menn gætu hafa dvalið þar nema skamman tíma í einu. Löngu síðar rannsakaði Ólafur Briem rústirnar, og taldi hann alls tíu tóttir, auk þess sem hann fann í hraunviki skammt frá þeim manngert aðhald, augljóslega til að handama fé. Lýsing Ólafs af tóttunum er ýtarleg, en ekki kemst hann, fremur en Brynjúlfur og Þorvaldur, að ákveðinni niðurstöðu um það, til hvers kofarnir hafai verið notaðir. Þar virðast einkum tveir möguleikar koma til greina; að þarna hafi útilegumenn hafst við skamma hríð, eða að byggðamenn hafi útbúið þarna fylgsni, sem flýja mætti í ef ófrið eða ræningja bæri að höndum. Væri þá trúlegast að kofarnir hafi verið hlaðnir á 17. öld, eftir Tyrkjaránið.´”Útilegumannabælið” í Sundvörðuhrauni er á Fornleifaskrá, sem friðlýstar fornleifar.
Hér verður ekki reynt að skera úr um tilgang þeirra, sem kofana hlóðu í öndverðu, en bent skal á, að árið 1982 fannst hellir við Eldvörp, skammt vestur af Þorbirni, og virðst svo sem þar hafi útilegumenn átt fylgsni. Frá þessum helli að rústunum í sundvörðuhrauni er aðeins um 1 km, og er ekki loku fyrir það skotið að sambadn hafi verið á milli þessara tveggja felustaða.”
Ekki er að sjá að Þorvaldur, Brynjúlfur eða Ólafur hafi skoðað hlaðna, mosagróna, refagildru, sem þarna er örskammt frá rústunum. Þá má sjá vörðu ofan við byrgin, skófvaxna líkt og veggir byrgjanna. Enn ofar í úfnu og óárennilegu hrauninu má sjá a.m.k. enn eitt byrgi, fallið saman, en með greinilegu hleðslulagi. Ekki er ólíklegt að ætla að fleiri slík kunni að leynast þar efra – ef grannt væri skoðað.
Ef rústirnar eru skoðaðar – hver af annarri – má sjá að fjórar þeirra eru með sama lagi (þrjár í krikanum og ein á hraunbrúninni). Þær eru og svipaðar að stærð þó ein sé sýnum stærst (4.0 m á lengd). Gluggaop eru á neðri byrgjunum, en ekki því efra. Inngangsopin snúa að hraunkantinum eða hrauninu. Hleðsluhæð veggja er svipuð á þeim öllum. Ekki hefur verið lögð áhersla á að þakið héldi vatni, a.m.k. benda sléttar þunnar hraunhellur í gólfum til þess að þær hafi einungis verið lagðar yfir og væntanlega mosi ofan á þær. Þó skal bent á að þrátt fyrir friðlýsingu og vangaveltur um notkun húsanna hefur engin vísindaleg rannsókn farið fram á þeim, ekki einu sinni á gólfum þeirra, sem mögulega gætu gefið vísbendingu um tilgang þeirra og jafnvel aldur.
Tvö lítil byrgi eru sunnar með vestanverðum hraunkantinum. Annað er þrískipt þar sem öll rýmin eru lítil, innan við 0.6 m, og hitt hefur annað lag en fyrrnefnd byrgi. Það er líkara húslagi, en miklu mun minna í sniðum.
Upp á hraunbrúninni er, auk byrgisins, sem fyrr er lýst, er hringlaga lítið skjól. Í fyrstu virðist þar vera um skjól fyrir mann að ræða er gæti hafa verið þar á “útkikki”, en ef betur er að gáð virðist þar fremur hafa verið einhvers konar geymsla. Norðar er fallna byrgið, sem fyrr er lýst, og varðan.
Önnur mannvirki þarna eru norðan og norðvestan við byrgin þrjú í krikanum. Eitt þeirra er gerðið fyrrnefnda og síðan má sjá hleðslur með kantinum, sem virðast hafa verið lítil gerði eða aðhald, t.d. fyrir fé.
Refagildran vestan við byrgin tvö í suðvestanverðum hraunkrikanum, er svo til alveg heil. Fallhellan er fyrir opinu. Stuðningssteinarnir eru enn á sínum stað. Gangurinn á gildrunni er heill og þakhellurnar á sínum stað. Hið eina, sem ekki fyllir heildarmyndina er að sá, sem síðastur fjarlægði dauðan ref úr gildrunni, setti hana ekki upp að nýju, þ.e. hann lét fallhelluna á sinn stað, en setti ekki farg á þakið. Steina, sem til þess hafa verið ætlaðir, eru í mosanum við hliðina á gildrunni. Gildran gæti hvort sem er verið jafngömul byrgjunum eða jafnvel yngri – allt eftir því til hvers þau hafa verið notuð. Ef þau hafa verið ómannaðar birgðastöðvar vegna yfirvofandi árásar ræningja er gildran væntanlega jafngömul byrgjunum. Ef um útilegumannaskjól hefur verið að ræða gæti gildran verið yngri – eða jafngömul.
Ein kenning, sem ekki hefur verið skráð, er sú að þarna gætu hafa verið um mjög skamman tíma hugmynd í framkvæmd um varasjóð Húsatóftahreppstjóra í tengslum við þurfamannahjálp þess tíma. Fleiri hugmyndir og tillögur um tilvist byrgjanna haf og komið fram, en einungis sem vangaveltur.
Þá skal um stund horfið frá byrgjunum í “Sundvörðuhraunskrika” og velt vöngum yfir umhverfinu og svæðinu sem merkilegu jarðfræðifyrirbæri.
Reykjanes er framhald Reykjaneshryggjarins – ofanjarðar. Flest sjávargos á sögulegum tíma hafa verið undan Reykjanesi. Eldvörpin eru afraksturs stórbrotinnar jarðsögu um langan tíma. Þau eru í raun afleiðingar dæmigerða gosa á sprungurein Norður-Atlantshafshryggjarins þar sem hann gengur fyrst á land á sunnanverðu landinu. Sambærilegar gígaraðir eru Stampar (Hörsl) skammt vestar, gígaröð Ögmundarhrauns (Afstapahrauns og Nýjahrauns), gígaröð eldborga í Brennisteinsfjöllum, Bláfjöllum og Hengli, auk eldri systkina þar sem eru Fagradalsgígaröðin (Festisfjall, Vatnsfellin og Keilir), Núpshlíðarhálsin og Sveifluhálsin sem og Geitarhlíð, Sandfell, Vörðufell, Kistufell og Draugahlíðar er urðu til fyrir nútíma, þ.e. undir jökli).
Dyngjurnar Skálafell, Háleyjarbunga og Sandfellshæð mynda undirstöðu Reykjanesskagans að vestanverðu. Gos úr þeim urðu eftir að jökla leysti, eða fyrir og eftir 10.000 f.Kr.
Ævagamlar heimildir segja að árið 1000 hafi mest allt Reykjanes sokkið í sjó og Geirfuglasker komið upp. Þá átti landið að hafa legið langt út fyrir Eldey í norðvestur en Eldey og drangar við hana hafi áður verið fjöll á Reykjanesskaganum.
Annálar greina frá eldsumbrotum með stuttum hléum, á og úti fyrir Reykjanesi á 12. og 13. öld. Samkvæmt þeim hefur gosið á Reykjanesi árið 1118, og a.m.k. 13 sinnum á 13. öld. Sagt er að sumum eldgosum hafi fylgt miklir landskjálftar og þess getið að svartamyrkur hafi verið um annars hábjartan dag (1226) og að Reykjanesið hafi brunnið (1210 og 1211). Í hamförum á fyrri hluta 13. aldar er talið að byggð hafi eyðst á Reykjanesi en merki um hana sjást m.a. við Skjótastaði norðan Stóru-Sandvíkur. Í annál er þess getið að 18 manns hafi farist á Reykjanesi í landskjálfta og eldi árið 1118.
Næsta lítið er vitað um sögu Hafna á 14. og fram á síðari hluta 16. aldar eins og margra annarra staða á landinu, m.a. vegna þess að kirkjubækur, sem geymdar voru í Viðey, eyðilögðust í bruna. Þó munu vera til heimildir um mikinn landsskjálfta 1389 og að 1390 hafi hálft Reykjanesið brunnið. Til mun vera heimild um að eldur hafi komið upp í hafi fyrir Reykjannesi 1420 og að þá hafi skotið upp landi. Einnig er getið um eld fyrir Reykjanesi 1422 og aftur 1584. Í annál er greint frá eldi í ,,Grindavíkurfjöllum” árið 1661 og hafi sést oft, fyrir og eftir jól, á Norðurlandi. Til er heimild um að árið 1706 hafi komið upp eldur í sjó fyrir Reykjanesi og einnig 1783 fyrir sunnan Geirfuglasker: Kom þá upp land sem sökk aftur (Nýey). Síðasta gos sem minnst er á í annálum, á eða fyrir Reykjanesi, á að hafa verið árið 1830 en þá sigu Geirfuglasker í sjó. Síðustu eldsumbrot sem heyrst hefur um, fyrir Reykjanesi, eiga að hafa átt sér stað í kringum 1930. Á þá að hafa gosið á sjávarbotni nálægt Eldey.
Skoðaðir voru nokkrir gígar Eldvarpanna. Einn þeirra er dýpri en aðrir, sem jafnan standa hátt sem “hörsl” (ójöfnur). Stiga þarf til að komast niður í hann, en dýptin niður á botn virðist verða ca. 8.0 m. Þegar staðið er upp á einhverjum gíganna má vel sjá hvernig gígarnir hafa raðað sér á sprungureinina. Þeir eru áþreifanlegur vottur um uppstreymisop hraunkvikunnar er myndað hafa hraunin umhverfis, sem ýmist hafa storknað þunnfljótandi (helluhraun) eða seigfljótandi (apalhraun). Af ummerkjum er ljóst að hraunflæðin hafa orðið með einhverju millibili og gosið varað í nokkurn tíma, jafnvel nokkur ár. Grindavíkureldarnir eru t.a.m. taldir hafa orðið á árabilinu 1220-1240, þótt mesta virknin muni hafi verið á árinu 1226.
Út frá gjall- og klepragígum Eldvarpa eru víða miklar og fallegar hrauntraðir, auk hraunæða.
“Tyrkjabyrgin” í vestanverðum Eldvörpum eru mjög svipuð hinum fyrrnefndu. Um km er á milli byrgjasvæðanna. Um tvö byrgi virðist vera að ræða, en þó gætu fleiri reynst þarna í þykku gamburmosahrauninu. Efra byrgið er stærra, eða 1.2 m x 4.2 m. Hitt er 3.0 m x 1.2 m. Hæð á veggjum niður á núverandi gólf er 1.3 m Gólfin eru gróin, en undir eru sléttar hellur, sem notaðar hafa verið fyrir þak. Sumar liggja upp með veggjum.
Umhverfi byrgjanna er sérstakt. Byrgin, sem eru þarna í mjög góðu skjóli, eru þakin þykkum mosa að utanverðu svo mjög erfitt er að koma auga á þau. Þegar betur er að gáð má vel sjá hversu heilleg þau eru; veggir standa heilir og þakhellur liggja við veggi eða eru undir mosa í gólfum. Ekki voru ummerki um að maður hafi stigið þarna niður fæti um langan tíma.
Opið á efra byrginu snýr í norður (á langvegg). Opið á því neðra snýr hins vegar í vestur (á endavegg).
Þar sem byrgin hafa að öllum líkindum verið ósnert í langan tíma má ætla að mögulegt væri að áætla aldur þeirra með vísindalegri rannsókn. t.a.m. með því að athuga gólfin. Í þeim gætu falist upplýsingar um notkun byrgjanna og jafnvel áætlaður aldur. Sú niðurstaða gæti einnig varpað ljósi á tilgang og aldur byrgjanna í hraunkrika Sundvörðuhraunsins.
Og þá var komið að “útilegumannahellinum” við Eldvörp. Sá er einungis nokkra tugi metra frá síðastnefndum byrgjum. Þótt FERLIR hafi komið þar að og skoðað hellinn nokkrum sinnum virðist alltaf jafnerfitt að finna opið. Það tókst þó að þessu sinni, líkt og áður, eftir nokkra leit.
Opið er lítið. Það er beint niður í hraunhelluna í hraunbrekku traðar. Æðar eru allt um kring. Í miðju opinu er þverhleðsla, mosavaxin, um 0.6 m há og um 0.8 m breið. Ef farið er niður á við (í vestur) er komið inn í rýmilega hraunrás. Í henni er hlaðið hringlaga bæli. Megintilgangur hennar virðist hafa verið tvíþættur; annars vegar að veita skjól umhverfis bæli og hins vegar að fela “innra rýmið”, þ.e. skúta er skýlt gæti hafa einum eða tveimur mönnum. Sá, sem af einhverri einskærri heppni eða tilviljun, liti inni í rásina gæti því ekki (ljóslaus) hafa séð þann eða þá, sem þar leyndust.
Í efri hluta rásarinnar er fyrirhleðsla og síðan hlaðið undir bæli. Sama fyrirkomulag er þar og í neðri hlutanum; ef einhver leit þar upp að tilviljun gat hann ekki séð ef einhver leyndist þar efra.
Óneitanlega er hægt að setja fyrrnefnd byrgi og þetta skjól í ákveðið samhengi. Og þegar við bætast mannvistarleifar (svipaðar hleðslur) í helli nokkur norðar aukast líkur á ákveðinni niðurstöðu (sem þarf alls ekki að vera rétt).
Frá “Tyrkjabyrgjunum” vestan Eldvarpa var haldið eftir Reykjavegi að Prestastíg. Prestastígur (Hafnaleið) er gömul þjóðleið á milli Húsatótta í Grindavík og Kalmanstjarnar. Þessi leið er greinileg og vel vörðuð. Henni var fylgt um hraunið norðan Rauðhóls þar sem víða má sjá hana djúpt markaða í slétta hraunhelluna.
Frá Rauðhól hefur runnið hraun til suðurs og suðvesturs og er Prestastígur milli hrauns og hlíðar, þ.e. liggur um slakkann þar sem Rauðhólshraunið rennur upp að Sandfellshæð. Rauðhólshraun er 2000-3000 ára.
Gengið er framhjá Rauðhól. Norðan við hann eru mosagróin og nokkuð slétt apalhraun. Það er yngsta hraunið á svæðinu og rann um 1226. Þá opnaðist fyrrnefnd 10 km löng gossprunga. Meðal jarðfræðinga er hraunið nefnt einu nafni Eldvarpahraun en í tali heimamanna hétu einstök svæði þess ýmsum nöfnum, m.a. Sundvörðuhraun. Gígarnir í Eldvörpum eru fjölmargir og margir þeirra fallegir. Flestir eru gjall- eða klepragígar og eru nær allir óskertir og er gígaröðin ein af fáum á Reykjanesskaganum sem hefur verið hlíft við efnistöku.
Stefnt var á Sandfellshæð. Á toppi Sandfellshæðar (sem er dyngja) er gríðarlega stór gígur sem er um 450 m í þvermál og að minnsta kosti 20 m djúpur og vel þess virði að ganga upp á hæðina. Talið er að hæðin sé um 12500 ára gömul. Hraun hennar þekja um 120 km2. Til samanburðar má geta þess að Þráinsskjöldur er talinn vera 13000 ára og þekur um 130 km2 svæði. Þótt Sandfellshæð sé ekki nema um 90 m y.s. er gríðarlega víðsýnt af henni. Í norðri blasa við fellin Sandfell, Lágafell, Þórðarfell, Súlur og Stapafell sem reyndar er að mestu horfið vegna efnistöku. Í austri blasa Eldvörpin við og lengra Þorbjarnarfell.
Þá var stefnan tekin til austurs, áleiðis að Eldvörpum. Gengið var yfir tiltöluelag slétt apalhraun. Sums saðar var fyrrum skriðdrekaslóða fylgt, enda svæðið verið æfingarsvæði fyrir varnarlið um áratuga skeið. Víða má sjá rafmagnsþræði og lágreist skyttuskjól.
Komið var að Eldvörpum rétt vestan við borholuna. Þar undir er “útilegumannahellir”. Þegar Hitaveita Suðurnesja lét bora eftir gufu þarna sumarið 1982 brotnaði hraunið undan jarðýtu sem vann við frágang í kringum holuna. Í ljós kom hellir með geinilegum mannvistarleifum, beinum og hleðslum. Ekki er vitað hver eða hverjir höfðust þarna við. Hellirinn er alllangur eða 25-30 m en hvergi hærri en 1,5 m og víðast hvar mun lægri eða 40-50 sentímetrar.
Í hellinum er hlaðið lítið skjól, eða (að sumra áliti) umgjörð brauofns. Þarna var til skamms tíma allnokkur hiti, en það breyttist þegar borðar var á svæðinu. Líklegt má telja, vegna nálægðar við fyrrum mannvistarleifar, að þar hefðu einhver tengsl verið á millum, einkum minjanna sunnar með vestanverðum Eldvörpum. Um 1.0 km er á milli minjasvæðanna. Ekki er loku fyrir það skotið að fleiri minjar kunni að leynast þarna á millum.
Eldvörp eru um 10 km löng gígaröð í stefnu suðvestur – norðaustur. Talið er að síðast hafi gosið þar fyrir meira en 2000 árum. Jarðhiti er í Eldvörpum og voru þar fyrrum stundum bökuð brauð sem vafalítið hefur komið sér vel í eldiviðarskorti. Örstutt vestan við borholuna er hellir í hrauninu. Þegar Hitaveita Suðurnesja lét bora eftir gufu þarna sumarið 1982 brotnaði hraunið undan jarðýtu sem vann við frágang í kringum holuna. Í ljós kom hellir með geinilegum mannvistarleifum, beinum og hleðslum. Ekki er vitað hver eða hverjir höfðust þarna við. Hellirinn er alllangur eða 25-30 m en hvergi hærri en 1,5 m og víðast hvar mun lægri eða 40-50 sentímetrar.
Eldvörðin eru í raun einstakt jarfræðifyrirbæri. Á Íslandi eru einstök skilyrði til að sjá og rannsaka flest sem varðar jarðfræði, eldvirkni og jarðhita því landi er ungt og enn í mótun. Hér á Íslandi eru stærstu jöklar og þar með jökulár Evrópu, mestu há – og lághitasvæðin, óvenjumikið eld- og jarðskjálftavirkni auk stórbrotinnar náttúru. Talið er að Ísland hafi myndast eins og Surtsey sem er suðvesturundan Vestmannaeyjum. Gosið uppgötvaðist 14. nóvember 1963 þegar gosmökkur myndaðist og reis í 3.500 m hæð. Slíkur gosmökkur er að mestum hluta vatnsgufa og mismunandi stór gjóskukorn sem þeytast upp í loftið. Mestur hluti gjóskunnar fellur niður við gosopið og þar myndast stórt hrúgald sem smám saman nær upp fyrir sjávarmál. Strax á öðrum degi gossins náði gjóskuhrúgan 10 m upp fyrir sjávarflötinn og Surtsey var fædd. Það var þó ekki fyrr en 4. apríl 1964, sem gosopið var orðið nægilega vel lokað fyrir innrennsli sjávar.
Virkt gosbelti Íslands liggur eftir flekaskilunum endilöngum. Landið vestan megin við flekaskilin tilheyrir Ameríkuflekanum en landið austan megin tilheyrir Evrópuflekanum.
Flekana rekur í sundur frá flekaskilunum um það bil 1 cm á ári þannig að bergið sem einu sinni myndaðist þar hefur flust austur og vestur á firði.
Á Íslandi gýs að meðatali á 5 ára fresti og verða eldgos eingöngu á virka gosbeltinu.
Smám saman dragast Eldstöðvarnar út af gosbeltinu þannig að það gýs æ sjaldnar úr þeim þar til þær deyja að lokum.
Síðasta stóra umbrotahrinan undan var á árunum 1724-1729.
Á síðustu árþúsundum hafa gengið yfir gostímabill með rúmlega 1000 ára millibili. Síðast gekk goshryna yfir Reykjanesskagann fyrir 800-1000 árum. Orkuverið í Svartsengi stendur á einu af yngstu hraununum.
Þegar Reykjanesskaginn er athugaður má lesa þar ákveðna jarðsögu. Greinilega má sjá hvar Reykjaneshryggurinn kemur í land hjá Reykjanestá en þar er stór sigdalur sem sýnir hvar flekaskilin eru.
Ennfremur gefa stórar sprungur til kynna hvernig landið rifnar í sundur. Flest gos á Reykjanesskaga, og raun á Íslandi öllu, verða þannig að fyrst opnast sprunga og gýs hún öll í byrjun. Síðan takmarkast eldvirknin við einstaka staði þar sem gígbarmar hlaðast smám saman upp. Gos getur varað allt frá nokkrum klukkustundum upp í nokkrar vikur.
Reykjanes er á plötuskilum. Sjálf skilin eru á yfirborði mörkuðu eldvirkni og háhita. Háhitasvæðin verða til þar sem mest er um innskot ofarlega í jarðskorpunni.
Á síðustu árþúsundum hafa gengið yfir gostímabil með rúmlega 1000 ára millibili. Svæðin eru jafnan virk í um 300 ár, en síðan hjaðnar virknin næstu 700 árin. Segja má því, út frá tölfræðinni, að kominn sé tími á nýja goshrinu á virka gosbeltinu í gegnum landið.
Á Reykjanesskaga eru umfangsmikil jarðhitasvæði. Þau öflugustu liggja eftir skaganum frá Reykjanestá um Eldvörp, Svartsengi, Trölljadyngju og Krýsuvík og síðan má segja að í beinu framhaldi þvert yfir landið til norðaustuhornsins, séu hitasvæði, þar á meðal Nesjavellir við Þingvallavatn þar sem Hitaveita Reykjavíkur hefur virkjað.
Ef velta ætti fleiri vöngum yfir áætluðum aldri byrgjanna í Sundhnúkahrauni og við Eldvörp má telja víst að þau séu eldri en frá 13. öld því eldvirknin á svæðinu þar á undan hefði annað hvort komið í veg fyrir byggingu þeirra eða fært þau að hluta til í kaf í ösku. Og ef einhver byrgi hafa verið á þessu svæði fyrr væru þau nú komin undir hraun og öllum ósýnileg. Þessi byrgi eru hins vegar vel sýnileg – og heilleg. Það bendir til þess að þau séu ekki mjög gömul, varla eldri en frá 17. öld. Mosi er á hleðslunum og í gólfi og skófir á veggjum. Það gefur til kynna að byrgin séu a.m.k. aldar gömul.
Um meintan tilgang “tyrkjabyrgja” og “útilegumannaskjóla” er erfitt að fjölyrða. Þegar hafa komið fram kenningar um tilgang þeirra, þ.e. annað hvort hafi þau verið hlaðin af útilegumönnum eða sem skýli fyrir fólk er þyrfti að forða sér undan endurkomu Tyrkjanna og þá væntanlega til skemmri dvalar.
Báðar framangreindar tilgátur gætu komið til greina. Mikil hræðsla var á meðal fólks í Grindavík og víðar við aðsteðjandi árás Tyrkja (sjóræningja) og því ekki óraunhæft að ætla að það hafi viljað getað flúið með engum fyrirvara ef sú yrði raunin. Þá var gott að geta átt sér skjól á stað, sem erfitt var að finna. Þá kemur vel til greina að ætla að í byrgjunum hafi verið einhverjar nauðsynjar, s.s. vatn, geymslumatur og skjólflíkur. Ef byrgin hafa verið ætluð til þessara nota er ólíklegt að þau hafi nokkrun tímann verið notuð því Tyrkirnir sneru ekki aftur til Grindavíkur. Þó gæti fólk hafa hræðst aðkomuskip fyrst á eftir og talið sig öruggt þarna upp frá uns upplýstist um erindi þeirra.
Og þá eru það útilegumannatilgátan. Fjögur húsanna í Sundvörðuhrauni gæti hafa hýst einn mann hvert, jafnvel tvo það stærsta (með gluggunum). Sama á við um byrgin við Eldvörp. En ef svo hafi verið þá hefur það verið í skamman tíma. Við Eldvörp eru mannvistarleifar í a.m.k. tveimur hellum. Reyndar fundust hleðslur í þeim þriðja í þessari ferð.
Í helli vestan við byrgin við Eldvörp er hlaðið hringlaga skjól og einnig veggur ofan við opið. Þar mótar og fyrir bæli. Í helli austan við byrgin eru hleðslur í helli, líkar byrgjunum en miklu mun minni. Hafa ber í huga að þarna var mikill jarðhiti fyrrum svo um getur verið að ræða aðhald utan um brauðbakstur enda herma gamar sagnir að fólk frá Húsatóftum hafi bakað þarna brauð.
Ljóst er að fólk hefur séð ástæðu til að hlaða þarna mannvirki. Það þurfa þó ekki að hafa verið útilegumenn heldur gætu þessar hleðslur átt að þjóna sama tilgangi og byrgin, þ.e. skýla fólki í skamman tíma. Mjög erfitt hefur verið að finna opin. Til marks um það þá fannst austari hellirinn ekki fyrr en jarðýta braut niður hluta af þakinu. Opið á vestari hellinum er alltaf jafnerfitt að finna, hversu oft sem farið er á svæðið.
Enn ein tilgáta um byrgin í Sundvörðuhrauni og vestan við Eldvörp hefur og komið fram. Hún er sú að byrgin hafi verið hlaðin af “njósnurum”. Hvaða?, kann einhver að spyrja. Jú, árin fyrir hinn afdrifaríka atburð er varð ofan við Stóru bót í Grindavík aðfararnótt 11. júní 1532 er 15 fullir Englendingar voru drepnir þar á nokkrum mínútum fylgdust Þjóðverjar og Bessastaðavaldið vel með ástandi mála í Grindavík vegna sífelldra kvartana íbúanna um yfirgang enskra.
Foringi þeirra, Jóhann breiði, hafi tekið konur traustataki til eigin nota, flutt þær í skip sitt, misboðið eiginmönnum þeirra, tekið hross heimamanna til eigin brúks og sýnt af sér alls kyns hroka og mikilmennsku. Fyrrgreindir, stoltir menn, reyndu því eðlilega að sæta lagi til að færa hlutina til betra horfs. Færið gafst loks 10. júní er Englendingar ætluðu að gera sér glaðan dag í Virkinu ofan við Bótina. Um nóttina réðust Hafnfirðingar, Njarðvíkingar, menn frá Básendum og Bessastöðum auk fleiri að þeim með fyrrgreindum afleiðingum. Fimmtán lágu dauðir, þ.á.m. Jóhann breiði. Ekki var einu sinni talin ástæða til að skifa skýrslu um málið – svo sjálfsögð þótti afgreiðslan og er það til marks um undangengnar þrengingar Grindvíkinga. Afleiðingarnar snérust því ekki um atvikið heldur um það hver skyldi hreppa hvaða herfang. En meira um aðdragandann.
Áður en hinn mikli liðsafnaður, er kom saman við Þórðarfell skv. sögunni, hélt til Grindavíkur hafa forkólfarnir vafalaust viljað hafa öruggar spurnir af ferðum Englendinga því að öllu óbreyttu gátu þeir búist við mikilli mótspyrnu og þar með mannfalli. Ekki er því ólíklegt að svo stór atlaga hafi verið vandlega undirbúin. Einn þáttur hennar gæti hafa verið að hafa menn til að fylgjast með ferðum Englendinga. Þeir gætu hafa haft dvalarstaði á fyrrnefndum stöðum, þ.e. í Sundvörðuhrauni og við Eldvörp, þaðan sem mannaferða var síst að vænta. Þegar staðið er í gíg Eldvarpa ofan við byrgin má vel sjá niður að Stóru bót og reyndar um svo til allt Grindarvíkursvæði Járngerðarstaða. Gígskálin er sú eina í gígaröðinni, sem nú er gróin.
Ef þessi tilgáta er rétt eru byrgin margnefndu a.m.k. frá því um 1532.
Um fleiri möguleika kanna að vera að ræða varðandi tilurð og tilgang byrgjanna sem og annarra mannvistarleifa við Eldvörp.
Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 4 mín.
Heimildir m.a.:
-Ólafur Briem (1883); Útilegumenn og auðar tóttir, 161.
-Saga Grindavíkur I (1994), 119.
-Brynjúlfur Jónsson (1903), 45-46.
-Þorvaldur Thoroddsen (1913), ferðabók I, 174.
-Um rústirnar og kenningar um tilgang þeirra og notkun, Ólafur Briem (1983), 163-169.
-Markviss leit – FERLIR.
-Árni Hjartarson – vorráðstefna JÍ 2003,