Tag Archive for: Sandhalavegur

Sandakravegur

Gengið var um Skógfellaveg, beygt út af veginum skammt ofan við Stóru-Aragjá (Brandsgjá) og haldið upp Mosadal vestan við Kálffellið, upp fyrir Mosadalsgjá og áfram um sandsléttur norðvestan Nauthóla. Síðan var slóðinni fylgt suður með Fagradalsfjalli allt að Drykkjarsteinsdal. Þaðan var götu fylgt til vesturs yfir hraunið og komið inn á Skógfellaveg skammt norðan við Stóra-Skógfell.

Sandakravegur

Sandakravegur.

Þegar farið var út af Skógfellaveginum ofan við Brandsgjá og haldið inn á tiltölulega slétt mosahraunið var erfitt að álykta hvar svonefndur Sandakravegur gæti hafa legið þar um.
Í hrauninu ofan við slóðann má sjá örla fyrir gömlum götum, en mosinn er víða búinn að færa þær í kaf. Þegar gengið var niður af brún Grindavíkurgjár var ekki auðvelt að sjá hvar gatan gæti hafa legið um, en þar er þó ekki erfitt að fara um, t.d. með hesta. Mosadalur ber nafn með réttu. Hann er nokkuð sléttur og greiðfær. Þegar komið var að Mosadalsgjá var leitað að hugsanlegri leið upp úr dalnum, en einnig þar var erfitt að greina hana við gjárbarminn. Ofar tekur við gróið hraun. Þar gæti vegurinn hafa legið svo til hvar sem er. Ekki var að sjá vörðubrot á þeirri leið. Enn ofar tekur við slétt sandslétta, alveg upp að Nauthólum. Þetta svæði ofanvert hefur verið vel gróið fyrrum, en mikil landeyðing hefur átt sér stað.

Dalssel

Dalssel.

Dalsselið kúrir þarna á grasbakka innst í Fagradal. Þegar dalnum sleppir er leiðjn nokkuð greiðfær milli Fagradalsfjalls og hraunsins vestan þess. Sums staðar í hrauninu, ofan við hraunbrúnina, mótar fyrir götum.
Vestan við Kastið sést gatan vel í hrauninu og einnig suðvestan við Einbúa. Þar sést hvar kastað hefur verið upp úr götunni á allnokkrum kafla.
Sumir segja, og hafa stutt það með seinni tíma kortum, að Sandakravegur hafi legið af Skógfellavegi rétt ofan við Brandsgjá, um Mosadali og Nauthólaflatir, með Sandholti innri, Sandhól, Kastið og Borgafjall og um Drykkjarsteinsdal. Aðrir segja að vegurinn liggi um Dalahraun, um Beinvörðuhraun norðan Hrafnahlíðar með stefnu í Drykkjarsteinsdal. Reyndar er gata þar yfir hraunið, mest áberandi vestan dalsins. Kemur hún inn á leið, sem sýnir Sandakraveg liggja til norðurs á kortunum.

Sandakravegur

Sandakravegur.

Á kortum og í örnefnaskrám er, sem fyrr sagði, getið um Sandakraveg eða Sandakradalsveg. Sú leið er sögð í seinni tíð kljúfa sig út úr Skógfellaleiðinni á brún Stóru-Aragjár (Brandsgjár), sveigja til suðausturs áfram suður úr upp að Fagradal og Fagradalsfjalli að vestanverðu yfir í Drykkjarsteinsdal.
Einnig liggur gata frá Drykkjarsteinsdal yfir hraunið að Stóra-Skógfelli og kemur inn á Skógfellaveg skammt norðan við fellið. Hún hefur einnig verið nefnd Sandakravegur. Þar er varða á hraunbrún, auk þess sem reistar hafa verið upp sléttar hellur með götunni á kafla. Í raun hefur greiðasta leiðin með hesta af Skógfellavegi inn að Drykkjarsteinsdal og þar með gömlu þjóðleiðina austur til Krýsuvíkur, verið um Mosadalina, upp úr þeim um sandsléttuna norðvestan Nauthóla og síðan með Fagradalsfjalli áleiðis að Drykkjarsteinsdal. Á þessari leið er kastað duglega upp úr götunni og þar er gerði fyrir hesta eða fé sunnan Einbúa. Ekki sést þó móta fyrir götu upp úr Mosadölum, en hún ætti að sjást enn á brúnunum. Hins vegar er hin leiðin, af Skógfellavegi norðan Stóra-Skógfells, mun styttri og greiðfærari, t.d. fyrir fótgangendur. Þar, sem og á þessum hluta Sandakaravegar, er gatan mörkuð djúpt í klöppina á löngum kafla.
Sandakravegur hefur einnig verið nefndur Sandhalavegur. Skýringin er sennilega sú að hólar voru stundum nefndir „halar“ sbr. Hrísahali (Hríshólar) ofan við Garð. Sandhólar eru við Sandakraveg og gætu þeir hafa verið nefndir „Sandhali“.
Hvað sem öllu líður er ljóst að báðar þessar leiðir hafa verið farnar fyrrum, en hver nöfnin á þeim hefur verið, verður væntanlega seint vitað með vissu.
Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 44 mín.

Sandakravegur

Sandakravegur.