Tag Archive for: Sauðabæli

Tyrkjabyrgi

Gengið var upp eftir Prestastíg frá Hjálmagjá ofan við Húsatóptir og upp að Rauðhól ofan við Eldvörp. Tilgangurinn var að reyna að staðsetja svonefndan „Hamrabóndahelli“, sem enn er ófundinn.

Prestastígur

Prestastígur – brú yfir Hrafnagjá.

Nefndur hellir er sagður verða sauðahellir, sem Þorsteinn, bóndi frá hjáleigunni Hamri, hlóð einhvers staðar uppi í hrauninu eftir að honum sinnaðist við hreppsstjórann á Húsatóptum. Þeim hafði samist um að Þorsteinn gætti fjár hreppsstjóra, en héldi sínu fé einnig til haga. Þegar hreppsstjóri sá að Þorsteinn beitti sínu fé í fjöruna gerði hann athugasemd við það. Þorsteinn, sem var stór upp á sig, rauk þá með sauði sína upp í efri hluta Húsatóptarlands, hlóð þar fyrir skúta og hélt sauði sína þar um veturinn. Sauðagangur Þorsteins hefur verið bæði reglulegur og takmarkaður. Nefndur Þorsteinn er sá hinn sami og hafði járnsmiðju í hellinum undir Hellunni í Sveifluhálsi, við Kleifarvatn.
Helgi Gamalílesson, fæddur á Stað, hafði farið um fermingu með föður sínum og bræðrum upp í Þórðarfell til að sækja þangað eftirsótta málma þess daga. Á leiðinni var stoppað, drengirnir hlupu til og leituðu skothylkja eftir Kanann, og sáu þá allt í einu í fallega hlaðið op fjárskjólsins. Síðan eru liðin mörg ár.

Prestastígur

Prestastígur – varða.

Helgi hefur fylgt FERLIR á hugsanlegt svæði, en minningin er orðin þokukennd. Helgi taldi að opið væri í litlu jarðfalli í sléttu hrauni er vísaði mót suðri. Það hafi verið nálægt hraunkanti.
Í örnefnaskrá fyrir Húsatóptir og hjáleigur þess segir m.a. að „vestur af Grýtugjá, upp undir jarðri apalhraunsins (Eldborgarhrauns), er Hrafnagjá.
Frá Hrafnagjá er einstigi um hraunið frá Sauðabæli út í Óbrennishóla. Troðningur þessi eða einstigi er fær öllum, þótt slæmur sé.“ Það segir að „gatan liggur í norðvestur upp frá vestanverðu túninu á Húsatóptum í Hafnir. Frá túninu á Húsatóptum að Eldvörpum liggur gatan um mosagróið hraun, mjög úfið á köflum. Norðan Eldvarpa er landið sléttara, grónara og auðveldara yfirferðar.“

Prestastígur

Gengið um Prestastíg.

Nú var Prestastígnum fylgt frá Hjálmagjá upp að Rauðhól ofan við Eldvörp. Á leiðinni vakti þrennt sérstaka athygli; nef út úr tveimur vörðunum bentu til norðurs, frá stígnum, litlar vörður voru á nokkrum stöðum á hraunkanti Sundvörðuhrauns, en Prestastígur liggur til norðvesturs sunnan hans, og loks mátti sjá litlar vörður liggja frá Hamri upp hraunranann vestan Húsatópta, upp heiðina og áleiðis upp í norðnorðvestanvert Sundvörðuhraun.

Prestastígurinn sjálfur liggur um móa ofan við Húsatóptir og er vel varðaður svo til alla leiðina. Víða hafa vörður verið endurreistar, en einnig má sjá fallnar vörður milli þeirra.
Gatan er sumsstaðar grópuð í klöppina eftir hófa, klaufir og fætur liðinna alda. Þegar komið er upp fyrir Skothól og hlaðna brú á Hrafnagjá tekur Sauðabælið við. Norðan þess er gróin sprunga í hraunkantinum; tilvalið sauðabæli. Hins vegar var ekki að sjá neinar hleðslur þar við. Lægð liggur inn í hraunið í gróna kvos, en síðan tekur ekkert við.

Prestastígur

Prestastígur.

Ofar er einnig slétt mosahraun með mörgum smáskútum. Þegar komið var upp fyrir Eldvörp tók einnig við nokkuð slétt mosahraun með mörgum smáskútum. Víða voru smávörður á hraunhólum, en að því er virtist án tilgangs.
Þegar leiðin var fetuð til baka var reynt að rýna í hraunkantinn. Hann gaf ekki tilefni til lausnar spurningunni um „Hamrabóndahelli“.
Fjórar gjár eru milli Hjálmagjár og Hrafnagjár. Grýtugjá er næst þeirri síðarnefndu. Í einni gjánni munu vera mannvistarleifar.
Þegar komið var niður að tóftum Hamars mátti sjá litlar vörður liggja þar upp heiðina vestan við Nónvörður. Við þar mátti sjá vörðurnar liggja áfram upp heiðina, með stefnu á norðnorðvestanvert Sundvörðuhraunið. Víða í heiðinni mátti einnig sjá hinar formfegurstu fuglaþúfur.
Það mun verða næsta verkefni FERLIRs að fylgja litlu vörðunum frá Hamri upp heiðina og jafnvel áleiðis í gegnum hraunið. Til þess mun þurfa flokk manna og kvenna.
Þess má geta að í Sundvörðuhrauni eru hin svonefndu Tyrkjabyrgi (útilegumannabyrgi), sem eru í raun gömul fiskibyrgi: sjá m.a. HÉR og HÉR.

Í Eldvörpum

Eldvörp.