Gengið var norður gamla Svínadalsveginn upp frá Vindáshlíð að Sandfelli og þaðan beygt til austurs að Blautaflóða. Ofan hans átti Hækingsdalsselið að vera í gróinni skriðu. Síðan var gengið niður með Uxagili og skoðað heimasel undir gilinu áður en gengið var að tóftum Sauðhúss, sem ku hafa verið kot byggt upp úr seli frá Hækingsdal.
Hækingsdalssel (sel)
„Upp af Blautaflóa var gamalt sel og má rétt marka það í brekkunni,“ segir í athugasemdum og viðbótum við örnefnaskrá.
Norðaustan og upp af Blautflóa við rætur Hornafells er þúfnaþyrping um 2,3 km NNV við bæ og um 2 km norðaustan við Vindáshlíð. Á þessu svæði er grasigróin mýri og þurrlendi á gróinni aurkeilu lækjar sem rennur í suðvestur ofan úr Hornafelli, nokkuð sléttlent en þúfur hér og þar. Brekkunni hallar 5-10° til vesturs. Engar greinilegar tóftir eru á svæðinu. Þar er hins vegar um 0,2-0,4 m há þúfnaþyrping á svæði sem er um 16 x 14 m stórt og snýr gróflega norðvestursuðaustur. Engin greinileg hólf er hægt að sjá út úr þúfunum en þó glittir þar víða í
grjót.
Saudhus (sel/kot)
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá árinu 1705 segir: „Saudhus hefur til forna í Hækingsdalslandi kallað verið þar sem stundum hefur í manna minni selstaða brúkast, og halda menn bygt ból hafi í gamalli tíð verið, og hafa til líkinda þar um girðinga og fóta leifar, ekkert vita menn til þess annað og kann ei aftur að byggjast, því túnstæði alt er komið í mosa, mó og mýri, og mjög brotið af á þeirri, sem þar rennur, kölluð Selá,“ „Utan við Lágamýri er Selármói. Þar fyrir utan Selárflatir. Í Selármóa voru dældir. Sú þeirra, sem var einna mest áberandi, hét Grænadæld. Og svo kemur Selá.
Fyrir utan Selá er fyrst Borgarmýri. Á henni efst er mikil móaþyrping, er heitir Fjárborgir,“ segir í örnefnaskrá. Í svörum við spurningaskrá Þjóðháttadeildar segir svo: „Sauðabyrgi var til frá því gamla daga á svæði þar sem heitir Sauðaborg og Borgarmýri.“ Hóllinn Fjárborgir er um 155 m suðvestan við stekk og um 1,7 km VNV við bæ. Á þessu svæði er mikill grasigróinn hóll í brekku sem hallar 5-20° í suður. Hóllinn er 10-20 m ofan og NNA við sléttað tún á vesturbakka Selár. „Það hafði verið hlaðið en var mjög innfallið þegar Hannes sá það fyrst og á geysistóru svæði. Þar er nú stór gróinn hóll núna, það sést aðeins hvað það hefur verið víðáttumikið. Þessi byrgi voru hlaðin úr sniddum þannig að veggirnir voru látnir hallast inn og mætast í toppinn. Það var ekki nokkur spýta notuð í það. Þetta var notað yfir fé, aðallega sauði, yfir veturinn svo ekki þyrfti að smala þeim því þeir fóru þarna inn sjálfir.“
Umræddur hóll er í nú (2011) mjög hlaupinn í þúfur og vel grasigróinn. Hóllinn er gróflega hringlaga, um 45×45 m að flatarmáli og um 0,5-3 m á hæð. Aðeins ein greinileg hringlaga tóft er norðarlega og efst á hólnum en frekari mannvistarleifar leynast örugglega undir sverði. Tóftin er einföld, hringlaga og snýr NNA-SSV. Hún er <0,5 m á hæð, um 10 m í þvermál en innanmál er ferkantað og um 4×1 m. Líklegast hefur verið gengið inn að sunnan. Þúfnaþyrpingar eru bæði norðan og austan við tóftina en ekkert greinilegt er hægt að lesa út úr þeim. Um 70 m ASA við tóft A í Fjárborgum, nær Selánni, er önnur þúst B sem hugsanlega gæti einnig leynt fornleifum. Þústin er óregluleg, um 12×10 m að flatarmáli, <0,5 m á hæð og snýr gróflega norðaustur-suðvestur. Engin greinileg dæld er í miðju þústar.
Frábært veður.