Færslur

Heiðarbæjarsel

Í Jarðabókinni 1703 segir að Heiðarbær eigi selstöðu góða í eigin landi.
HeiðarbæjarselLeitað var upplýsinga um selstöðuna hjá Sveinbirni bónda Jóhannessyni að Heiðarbæ I. Hann taldi nokkra staði koma til greina ef tækið væri mið af örnefnum í landi jarðarinnar, s.s. Stekkur, Sekkarflöt og Stöðull. Hið síðastnefnda er um 300 m frá bænum svo líklegra er að það hafi tengst kúnum á bænum. Sveinbjörn taldi í fyrstu líklegt að selstaðan hafi verið á Stekkjaflöt u.þ.b. 3 km frá bænum. Þar mótaði fyrir tóftum.
Í gögnum Örnefnastofnunar Íslands er skrá er nefnist “Mosfellsheiði og nágrenni Þingvalla”. Um er að ræða lýsingu á ökuferð á leið austur yfir Mosfellsheiði að Kárastöðum í Þingvallasveit, sem farin var í ágústmánuði 1974. Jóhannes Arason tók samtalið upp á snældu og vélritaði starfsmaður stofnunarinnar upp eftir henni í byrjun árs 1983. Í þessari ferð voru, auk Jóhannesar, Jón Sigurðsson, Elísabet Einarsdóttir og Guðný Helgadóttir. Ræddu þau m.a. um örnefni á þessari leið og nágrenni Þingvalla.
“Jón Sigurðsson (1895-1983) ólst upp á Heiðarbæ í Þingvallasveit að nokkru leyti. Hann var smali í mörg ár og þekkti heiðina mjög vel. Elísabet Einarsdóttir, f. 1922, er frá Kárastöðum, ólst þar upp. Hún er gift Jóhannesi Arasyni. Guðný Helgadóttir (1913-1983) var frá Fellsenda; hún ólst þar upp…”
Hér kemur hluti af samtalinu, þ.e. sá hluti er gæti varpað ljósi á staðsetningu Heiðarbæjarsels. Þau voru þá stödd á Þingvallaveginum ofan við Heiðarbæ og ræddu um leiðir til og frá bænum:
“JS: Ja, hann [Harðavöllur] er á móts við fyrstu götuna, sem liggur niður að Heiðarbæ, hérna, sem er til hægri, Hvammagötuna.
Selbrúnagata - Selhóll hil hægriJA: Það er ágætt.
JA: Hvað segirðu, þrjár götur?
JS: Já.
JA: Niður að Heiðarbæ?
JS: Ja, ofan af heiðinni, og vestasta gatan er Hvammagatan. Það eru hvammar hér fyrir neðan.
JA: Það er þessi?
JS: Já, það er þessi. Beint á móti Harðavelli.
JA: Og Harðivöllur er gegnt henni?
JS: Já.  Nú, og svo er – rétt austar hérna, þar er gata, sem liggur upp með Skálinni og heitir Skálargata, og svo – bara aftur þarna við Gíslhólinn, sem við sjáum hérna rétt austar, með þúfu á. Aðalgreinargerð fyrir þá, sem fóru heiðina að vetri til, það var alltaf hugsað sér að ná Gíslhólnum.
JA: Gíslhól?
JS: Já. Þá fundu þeir Heiðarbæ, sögðu þeir.  Það er vont að finna Heiðarbæ, allt svo líkt hvað öðru, þegar allt er komið á kaf í snjó, og þar er austasta gatan, og var vanalega kölluð Selbrúnagata.
EE: Selbrúnagata?
JS: Já, því Selbrúnir eru hérna – rétt austan við skálina. Þar var sel, sennilega frá Heiðarbæ, í gamla daga.
JA: Jón, við fórum fram hjá Gíslhól, sem er í vinklinum, þar sem Grafningsvegur kemur á Þingvallaveginn.
EE: Fyrir vestan?
JA: Að vestanverðu.
JS: Það er upphaflega kallað bara Heiðarbæjarafleggjari, en svo breyttist það í Grafningsveg, þegar hann var framlengdur austur með vatninu – vestur með vatninu, segi ég.
JA: Svo fórum við yfir Torfdalslæk. Það er sama og sem byrjar með keldunni?

Heiðarbæjarsel

Heiðarbæjarsel.

JS: Já.
JA: …sem vatnið er, ef nokkuð vatn væri. Hann er algjörlega þurr.
JS: Já, það er alveg rétt.
JA: Ekki dropi í honum eins og er. Svo varstu að benda mér á – hvað, Þrísteina?
JS: Þrísteinaholt.
JA: Þrísteinaholt. Það er hérna vinstra megin.
JS: Já, og það er með þremur steinum.
JA: …hundrað metrum austar. Það eru þar þrír steinar. Þá ber þarna í Búrfell.”
Að framan má sjá að austasta gatan að Heiðarbæ að norðan heitir Selbrúnagata og Selbrúnir “rétt austan við skálina”. Þar er og sel. Framangreint er ágætt dæmi um stutta skráða samferð fróðra manna og kvenna því upplýsingarnar áttu eftir að spara allnokkra fyrirhöfn við leit að hugsanlegum seltóftum Heiðarsels.
Í örnefnalýsingu fyrir Heiðarbæ segir m.a.: “Selbrúnir heita brúnirnar, sem blasa við norðvestan Þingvallavegar af Þrísteinaholti. Sunnan eða austan við þær er áberandi hóll, sem heitir Selhóll. Fram hjá honum að vestanverðu upp Selbrúnir lá gamall vegur [Skálargata].” Heimildarmenn voru Jóhannes Sveinbjörnsson, faðir Sveinbjarnar, og nefndur Jón Sigurðsson (f:1895).
StekkurinnÞegar rætt var við Sveinbjörn sagðist hann vel kannast við Selhól. Hann væri beint upp af (um 150 m) og norðan við gatnamót Grafningsvegar (áður Heiðarbæjarvegar). Hóllinn væri aflíðandi, en greindist vel. Selbrúnagatan lægi upp með austanverðum hólnum. Ofan við hann væri skál og efst í henni lítið gil, sem vel gæti heitið Selgil líkt og samnefnt gil allnokkru austar, í landi Skálabrekku. Sveinbjörn kvaðst ekki vita til þess að tættur væru við Selhól.
Þegar komið var á vettvang blasti Selhóllinn við ofan Þingvallavegar gegnt gatnamótum Grafningsvegar, aflíðandi og rúnlaga. Svo til beint upp frá gatnamótunum lá gömul gata til norðurs. Þegar henni var fylgt upp eftir hólnum austanverðum var komið inn í lítið dalverpi. Um það rann lítill lækur. Lækurinn kom úr litlu gili skammt norðar. Þegar skimað var yfir svæðið kom einungis enn staður til greina sem mögulegt selstæði. Stefnan var tekin þangað – og viti menn. Þarna undir og framan við austanvert gróið gilið kúrði hið fallegasta sel, reyndar vel gróið og jarðlægt, engar hleðslur sjáanlegar, en vel greinilegt. Um er að ræða tvö hús; það suðeystra tveggja rýma og það norðvestra einrýma. Skammt norðar, undir gróinni brún, er stekkurinn.
Segja má að Jarðabókahöfundar geti rétt til um selstöðuna því hún hefur verið góð, bæði í góðu skjóli og á góðum stað; tiltölulega stutt frá bæ, við læk og ágætt aðhald allt um kring. Skógur og síðar hrís hafa verið gnægð af lengi vel. Selið er í rauninni dæmigert fyrir önnur slík á Reykjanesskaganum. Ekki er minnst á sel þetta í örnefnalýsingunni fyrrnefndu, einungis í frásögninni af ferðalagi fjórmenninganna um Þingvallaveginn árið 1974, þjóðhátíðarárið.
Gíslhóllinn fyrrnefndi sést mjög vel frá gatnamótunum, í suðaustur – með hundaþúfu á toppnum. Gamli Þingvallavegurinn liggur um norðuröxl hólsins.
Frábært veður. Gangan tók 20 mín.

Heiðarbær

Rétt við Heiðarbæ.