Tag Archive for: Selgjá

Urriðakot

Í Fornleifaskráningu fyrir Garðabæ árið 2009 má m.a. sá eftirfarandi um Urriðakot, sem var fyrrum í Garðabæ:

Ural shot

Urridakot –  Túnakort 1918.

„Bærinn stóð suðvestan í Urriðakotsholti norðaustan við Urriðakotsvatn. Bærinn stóð nálægt miðju túninu“, segir í örnefnaskrá SP. Á túnakorti 1918 sést Urriðakot í miðju túni og samanstendur úr sjö sambyggðum húsum. Þar af sýnast tvö þau suðvestustu vera úr torfi en tvö þau norðaustustu úr steini og gengur aftur af þeim minna torfhús. Tvö hús eru auk þess sýnd sem opnar tóftir. Stefnan er norðvestur-suðaustur. Skv. Fasteignabók var þarna komið timburhús með vatnsveitu árið 1932 (bls. 23). Í Örnefnaskrá 1964 segir: „Bærinn stóð austur og upp frá Urriðavatni, við það kennt (…) því sem næst í miðju túni.“ (Uk. A20/Bt. B443). Í örnefnalýsingu 1988 segir:

Ural shot

Urridakot.

„Urriðakot er jörð í Garðabæ. Bærinn stóð suðvestan í Urriðakotsholti, norðaustan við Urriðakotsvatn. Bærinn stóð nálægt miðju túninu.“
„Túnið lá í halla í holtinu.“ segir í Fornleifaskráningu RT og RKT.
Á bæjarhólnum í dag eru leifar af yngsta bænum frá miðri síðustu öld en Urriðakot fór í eyði 1958. Grunnarnir af húsunum eru allir mjög greinilegir. Það eru háir steyptir veggir sem enn standa og bárujárnsleifar inni í tóftunum. Það er sennilegast að bærinn hafi alltaf staðið á núverandi bæjarstæði.
Bæjarhóllinn er nokkuð hár og breiður og hægt er að sjá á vettvangi að hóllinn er manngerður. Það er því nokkuð öruggt að undir yngstu húsunum er að finna mannvistarleifar,“ segir í Fornleifaskráningu RT og RKT.

Ural shot

Urriðakot – kort 1908. Götur til norðurs og vesturs eru merktar.

Inn á túnakort frá 1918 er merkt ferningslaga útihús skammt (ca 6 m) suðvestan við bæjarhúsin. „Tóftin orðin mjög sokkin en sést þó enn á vettvangi“, segir í fornleifaskrá RT og RTK.

Inn á túnakort frá 1918 er merkt útihús skammt vestur af syðsta bæjarhúsinu. Útihúsið virðist vera um 4 m vestur af bæjarhúsunum og 2 m norður af útihúsi. „Þessar tóftir eru orðnar sokknar og sjá má móta fyrir grjóthlöðnum undirstöðum“, segir í Fornleifaskráningu RT og RTK.

Inn á túnakort frá 1918 er merkt útihús um 110 m suðvestur af bæjarhúsum Urriðakots. „Hún (tóftin) er aflöng úr torfi og hefur stefnuna norður-suður… Leifar af grjóthlöðnum undirstöðum af útihúsinu fundust á vettvangi, tóftin er 11 m á lengd og 2,5 m á breidd. Líklega hefur grjót út túninu verið sett í útihúsið eftir að það var rúst. Stór steinn er við suður endann,“ segir í Fornleifaskráningu RT og RTK.

Inn á túnakort frá 1918 er merkt útihús um 140 m SSV af bæjarhúsum Urriðakots og fast vestan við kálgarð.
„Ekki sáust nein merki um þessa tóft en leifar af kálgarðinum sáust óljóst á vettvangi, en mun betur á loftmyndinni“, segir í Fornleifaskrá RT og RTK

Urriðakot 1958

Urriðavatn og Urriðakot 1958 – loftmynd. Túngarður, bæjarhús og útihús sjást vel.

Inn á túnakort frá 1918 er merkt útihús um 90 m suður af bæjarhúsum Urriðakots og um 20 m suðvestur af útihúsi. „Á túnakorti 1918 er ferhyrningslaga torfhús neðan við ærhús …líklega lambhús sem nefnt er í Örnefnalýsingu 1988: „Túnið austan traðanna …var kallað Austurtún. Efst á Austurtúninu voru fjárhúsin, ærhúsið uppi við túngarð og lambhúsið neðar““, segir í Fornleifaskráningu RT og RTK.
„Tóftin af lambhúsinu snýr í N-S og er inngangur að norðan. Hefur hún verið grjót- og torfhlaðin, lengd um 11 m og breidd 9. Hleðsluhæð frá 20 cm til 50 cm. Rústin er töluvert sokkin í sinu“, segir í Fornleifaskráningu RT og RTK.

Urriðakot

Urriðakot og Camp Russel, neðst t.h, 1958 – loftmynd.

Inn á túnakort frá 1918 er merkt útihús rúma 60 m suður af bæjarhúsum Urriðakots og um 20 m norðaustur af lambhúsi. „Í Örnefnalýsingu 1988 segir: „Túnið austan traðanna …var kallað Austurtún. Efst á Austurtúninu voru fjárhúsin, ærhúsið uppi við túngarð og lambhúsið neðar.“…Fjárhúsin má líklega sjá á túnakorti 1918 en þar eru tvö hús í túninu austan traðar…annað, væntanlega ærhúsið, uppi við túngarð …en hitt nokkru neðar“, segir í Fornleifaskráningu RT og RTK.

„Á Túnakortinu er ærhúsið byggt úr torfi, tvískipt með stefnuna norður-suður. Fjárhúsin sem við skráðum á vettvangi eru sennilega byggð ofan á eldri útihúsum. Húsgrunnurinn sem stendur enn er steyptur og má sjá leifar af bárujárnsplötu í tóftinni, þó eru líka leifar af torf og grjóthleðslu í hluta rústinni, sem eru merki um eldra hús. Við suðurenda hefur verið hlaða og í sjálfu fjárhúsinu má sjá garð og steypt fjárbað“, segir í Fornleifaskráningu RT og RTK.

Urriðakot

Urriðakot.

„Suður frá bænum lágu traðir, hlaðnar úr torfi og grjóti. Traðirnar svo sléttaðar út 1918. Í eystri traðarveggnum var stór steinn, sem ekki var hreyfður, þegar traðirnar voru sléttaðar“, segir í örnefnaskrá SP. „Á Túnakorti 1918 má sjá traðir sem liggja frá bænum suðvestur um túnið. Þetta eru líklega Suðurtraðir sem svo eru nefndar í Örnefnaskrá 1964, „traðir með tveimur görðum“ sem lágu „frá bæ niður undir Dýjakrók“ Suðurtraðarhlið hét svo hliðið “ þar sem saman komu garðar traða og túns““, segir í Fornleifaskráningu RT og RTK.
„Það má sjá fyrir hvar traðirnar lágu en þær voru sléttaðar út og því horfnar að mestu leyti“, segir í Fornleifaskráningu RT og RTK. Ekki sást til traðanna við vettvangsskráningu.

Urriðakot

Urriðakot.

„Urriðakotsbærinn stóð í Urriðakotstúni, nær miðju. Umhverfis túnið var Urriðakotstúngarður, hlaðinn af torfi og grjóti. Suðurtúngarður sunnan að túninu. Austurtúngarður að ofan og Vesturtúngarður vestan“, segir í örnefnaskrá GS. „Túnið austan traðanna var kallað Austurtún. Efst á Austurtúninu voru fjárhúsin, ærhúsið uppi við túngarð, og lambhús neðar“, segir í örnefnaskrá SP. „Á Túnakorti 1918 má sjá að túngarður liggur kringum túnið að sunnan, austan og norðan. Í Fasteignabók 1932 kemur fram að algirt var í kringum Urriðakot með túngarði og girðingu…Örnefnaskrá 1964 ber hins vegar saman við Túnakortið: „Urriðakotstúngarður: garður af torfi og grjóti umhverfis túnið, að norðan, austan og ofan og sunnan, allt niður í Dýjamýri““, segir í Fornleifaskráningu RT og RTK.
„Túngarðurinn er ágætlega varðveittur og er auðvelt að rekja hann allan eins og hann er á túnakortinu frá 1918. Sést vel að garðurinn er hlaðinn úr torfi og grjóti. Hleðsluhæð er frá 30 cm og allt að 1 metra. Hann hefur þó á stöku stað sokkið töluvert en með góðu móti væri hægt að varðveita hann allan og lagfæra þar sem hann er lægstur. Það er ekki ólíklegt að garðurinn sé í grunninn frá elstu tíð“, segir í Fornleifaskráningu RT og RTK

Urriðakot

Urriðakot.

„Ofan (norðaustan) bæjarins var Uppitúnið. Þar alveg við túngarðinn, beint upp af bænum, var fjárrétt, sem síðast var notuð u.þ.b. 1934-35“, segir í örnefnaskrá SP. Aðhaldið er fast austan við túngarðinn, upp af bæjarrústum Urriðakots.
Umhverfis aðhaldið er grasigróið þýfi, en austar og ofar í holtinu er mest megnis lyng. Búið er að ryðja veg þvert yfir Urriðakotsholt frá norðri til suðurs að Elliðavatnsvegi og liggur vegur þessi rúmlega 50 m austur af aðhaldinu.
Aðhaldið er hlaðið úr grjóti, grónu skófum og nokkrum mosa og er vesturveggur þess hluti af túngarði Urriðakots. Utanmál er um 12×6 m og snýr aðhaldið N-S. Um 2 m breiður inngangur er að sunnan. Fremur stórt grjót er í hleðslunum og þær virðast vera nokkuð tilgengnar, nema að garðurinn hafi í upphafi ekki verið vandlega hlaðinn. Mest er hægt að greina 5 umför og hæstar eru hleðslurnar um 1 m og rúmlega 1 m breiðar.

Inn á túnakort frá 1918 er merkt gata sem liggur frá norðurmörkum túns, suður að bæjarhúsum. „Nyrst í túninu var slétta, sem kölluð var Kinn, en niður af henni úti undir garði var laut, sem kölluð var Snorralaut…Rétt fyrir neðan Snorralaut lá gata frá bænum norðvestur úr túninu“, segir í örnefnaskrá SP.
Gamalt tún, vaxið þykkri sinu og byrjað að þýfast.

Urriðakot

Urriðakot – uppdrátur.

„Neðan við traðirnar í mýrarjaðrinum rétt utan við túnið var brunnurinn, en leiðin frá brunninum til bæjar lá um traðirnar. Frá brunninum liggur Brunnrásin eftir mýrinni út í vatnið“, segir í örnefnaskrá SP.
„Niðurflöt var slétta kölluð ofan frá bæ niður að vatni sunnan við Hólmana. Neðst í Niðurflötinni var Brunnurinn, vel upphlaðinn brunnur“ segir í örnefnaskrá GS. Samkvæmt heimildamanni, Svani Pálssyni, hefur brunnurinn líklega verið við NA-verðan jaðar Dýjamýrar við enda Brunnrásarinnar, sem þaðan liggur í kræklóttum farvegi til NNV í Urriðavatn.
Brunnrásin er við gróna mýri og er þýft allt í kring. Í SSA-endanum er Brunnrásin breiðari en nær Urriðakotsvatni og myndar smá poll, um 2×1 m að stærð, sem er hinn gamli brunnur. Þar er að finna nokkuð af meðalstóru grjóti sem gæti verið ættað úr fallinni hleðslu. Grjótið er þó mjög tilgengið og yfirgróið.

Urriðakot

Urriðakot – brunnur.

„Mýrin sunnan við túnið heitir Dýjamýri. Ofan við veginn rétt fyrir sunnan túnið er Grjótréttin, rústir gamallar réttar, sem móðir mín veit ekki, hvenær hætt var að nota“, segir í örnefnaskrá SP. „Úr Suðurtraðarhliði lá Urriðakotsstígurinn. Ofanvert við hann mýrarblettur, nefndist Hlandpollur, og þar fyrir ofan Grjótrétt, rústir gamallar réttar. En suður af var Dýjakrókshóll“, segir í Örnefnaskrá GS. Heimildamaður, Svanur Pálsson man ekki eftir að hafa séð þessa rétt, en hún mun hafa verið sunnan túns og norðan Elliðavatnsvegar. Þar er nú grasi gróið þýfi.
Ekki sást til réttarinnar við vettvangsathugun, kann að vera að hún hafi verið rifin og grjótið nýtt í önnur mannvirki, t.d. er nokkuð um mannvirki úr seinni heimsstyrjöld í næsta nágrenni.

Urriðakot

Urriðakot – ábúendur.

„Í austurhorni Dýjamýrar eru uppsprettur undan holtinu, og kallast það svæði Dýjakrókar. Ofan við Dýjakróka er lítill hóll, Dýjakrókarhóll. Í hólnum var talið búa huldufólk og sá afi minn, Guðmundur Jónsson bóndi í Urriðakoti, konu, sem hann þekkti ekki sækja vatn í fötum í Dýjakróka snemma á þessari öld“, segir í örnefnaskrá SP. Dýjakrókahóll er syðst í Urriðakotshlíð, skammt norðan Elliðvatnsvegar, sunnan túns og austan innkeyrslu að Urriðakoti. Umhverfis hólinn er gróið, en nokkuð mikið stórgrýti stingst gegnum gras, lyng og mosa á hólnum.

Urriðavatn

Urriðavatn – Dýjakrókahóll fyrir miðju.

„Frá Urriðakoti lá Gjáarréttargata upp Dýjakrókaflöt, norðan við Dýjakrókarhól og upp á Urriðakotsháls, venjulega stytt í Háls … Um Urriðakotsháls liggur nú bílvegur, sem venjulega er kallaður Flóttavegur eða Flóttamannavegur. Hann liggur milli Hafnafjarðar og Suðurlandsvegar og var lagður af bretum á Stríðsárunum. … Hið opinbera nafn hans á vegamerkjum er Elliðavatnsvegur, en einnig er hann nefndur Vatnsendavegur…Í neðri (norðvestur) enda Selgjár er Selgjárhellir. … Örskammt norðvestur af Selgjárhelli er Sauðahellir. Sauðhellirinn er norðan við vörðu við Gjáaréttargötu, en Gjáarréttargatan er vörðuð í gegnum hraunið alla leið austur með Sneiðingjum í Vífilsstaðalandi“, segir í örnefnaskrá Urriðakots SP. „Þá lá hér undir Hraunhólnum Gjáarréttarstígur og síðan norðan hraunbrúnarinnar, fyrst um Maríuflöt eða Maríuvelli undir Hlíðarhorninu og síðan inn eftir lægð milli Vífilsstaðahlíðar og hraunsins,“ segir í örnefnaskrá Vífilsstaða GS.

Urriðakot

Grásteinn við Grásteinsgötu.

Gjáarréttargata er undir Elliðavatnsvegi þar sem hann liggur úr landi Urriðkots austur í land Vífilsstaða að Maríuvöllum. Þar hefur Gjárréttargata sveigt til suðurs á svipuðum slóðum og Heiðmerkurvegur og marlarbornir gönguslóðar meðfram honum eru í dag. Gatan hefur legið yfir þröngt og gróið sléttlendi milli Flatahrauns og Vífilsstaðahlíðar, þar vex nú mosi, gras og trjágróður. Gatan sést enn greinilega þegar komið er ofan í Selgjár og liggur hún þar meðfram austur brún gjárinnar.
Gjárréttargata er að miklu leyti undir nýrri vegi, en hún er þó afar greinileg þegar komið er ofan í Selgjá og liggur þar meðfram eystri gjárbarminum. Gatan er sem nokkrar samhliða rásir í jörðinni og er vel gróin.

„Á holtinu beint upp af fjárhúsunum efst á Austurtúninu, sem áður voru nefnd, er Dagmálavarða, eyktarmark frá Urriðakoti, en norðar uppi á háholtinu er Stóravarða. Hana hlóð Jón Þorvaldsson, afi heimildarmanns, og var hún mjög vel hlaðin, en hefur nú verið spillt“, segir í örnefnaskrá SP. „Upp af Grjótrétt, þar sem holtið er hæst, er Stóravarða“, segir í örnefnaskrá AG.
„Stóravarða: Stór varða á Urriðakotsholti, þar sem það er hæst. Þar er staurasamstæða fyrir raflínu Suðurnesja,“ segir í Skrá yfir örnefni og fiskimið í Álftaneshreppi.
„Varðan stendur ennþá á klöppinni, neðst í henni er óvenju stórt grjót,“ segir í fornleifaskráningu RT og RTK

Urriðakot

Urriðakot – vegurinn um Vesturmýri.

„Í miðri Vesturmýri liggur Urriðakotsvegur yfir vatnslænu, sem nefnist Kelda. Við vegagerðina var hún brúuð og brúin nefnd Keldubrú. Áður var hún stikluð á steinum nokkru norðar“, segir í örnefnaskrá SP. Í skráningu RT og RTK var tekið hnit við Keldubrú en þar er ekki að finna frekari lýsingu á mannvirkinu né ástandi þess.

Urriðakot

Urriðakot – Stekkjatúnsrétt.

„Mýrin sunnan vegar, en norðaustan undir Hrauntanga, kallast Kriki. … Norðavestan við Krikann, norðan vegarins, sem áður var nefndur, skagar hraunnef út í mýrina. Það kallast Kvíanef. Norðan undir því er rétt, sem kallast Kvíar. Síðast var fært frá 1918, og var þá búinn til stekkur í öðrum enda Kvíanna. Það var í eina skiptið, sem heimildamaður man eftir því að fært var frá, því það hafði ekki verið gert í langan tíma fyrir 1918“, segir í örnefnaskrá SP. Kvíarnar eru hlaðnar við austanverða hraunbrúnina fast vestan við Vesturmýri, um 200 m suður af nýju BYKO búðinni að Kauptúni 6 í Garðabæ og um 500 m NV af bæ.
Kvíarnar eru fast austan í úfnu hrauni, sem er að stórum hluta gróið grasi, mosa og lyngi, en fast vestan við er þýfð og grasi gróin mýri. Kvíarnar nýta sér náttúrulega hraunbrún og skarð í hrauninu sem hlaðið er við með hraungrýti til að skapa lokað aðhald.

Urriðakot

Urriðakot – kvíar.

Kvíarnar eru aflangar N-S, allt að 30 m á lengd og 3 m breiðar (með hleðslu). Við suðurenda er skilrúm sem myndar lítið hólf, um 2×2 m að utanmáli og inn af hólfinu gengur lítill hellisskúti inn í hraunið. Hellismunninn er um 1 m hár og 0,5 m breiður, en skútinn er ekki nema rúmlega 2 m djúpur en þrengist svo mikið. Einnig er hlaðið afmarkað hólf við norðurenda Kvíanna, sem er um 3 x 1,5 m N-S að stærð.
Miðja Kvíanna er eitt stórt hólf, allt að 25 m langt og 2 m breitt að innanmáli. Langveggir norðurhluta Kvíanna eru náttúrulegir sprunguveggir, allt að yfir 2 m háir, en hlaðið er fyrir N-endann. Eystri langveggur suðurhlutans er hlaðinn úr hraungrýti, um 4 umför og hæstur rúmlega 1 m. Mest er um miðlungsstórt hraungrýti í hleðslunum. Um 1 m breiður inngangur er um miðbik hins hlaðna eystri langveggs.

Urriðavatn

Urriðavatn – rétt.

„Í Hrauntanga rétt norðvestan við Mjóatanga er stór klettur með sýlingu í. Hann kallast Sýlingarhella og er á mörkum Urriðakots og Setbergs“, segir í örnefnaskrá SP. „Mjóitangi er kallað þar sem hraunið gengur lengst út í vatnið að vestan…Vestur af Mjóatanga er klettur sem kallast Sýlingahella“, segir í örnefnaskrá AG. Sýlingarhella er um 40 m norður frá Urriðakotsvatni, ef landamerkjagirðingu milli Urriðakots og Setbergs er fylgt, en girðingin liggur þvert á helluna.
Sýlingarhella er náttúrulegt hraunbjarg á úfinni hrauntungu sem gengur út í Urriðakotsvatn. Ekki er hægt að sjá að hellan sé tilklöppuð, sýlingsnafnið á líklega við spísslaga skarð sem gengur niður í helluna að ofan.

Miðaftansvarða

Miðaftansvarða.

„Norðvestur af norðurenda Vesturmýrar er hraunið tiltölulega slétt og flatt og kallast þar Flatahraun. Þar liggur nú akvegur, sem nefndur er Reykjanesbraut. Norður af Flatahrauni er nokkuð áberandi hóll með vörðu, Miðaftanshóll. Hann er á mörkum Urriðakots, Hafnarfjarðar og Vífilsstaða“, segir í örnefnaskrá SP.
Miðaftanshóll er einn mest áberandi hóllinn í Hafnarfjarðarhrauni. Hann er um 300 m suður af Hagakotslæk, í beinni línu frá grænum reit milli Bakkaflatar og Sunnuflatar. Miðaftanshóll er í fremur úfnu hrauni og er að nokkru leyti gróinn lyngi og grasi.
Varðan sem nú stendur á Miðaftanshól er ekki gömul. Hún er hlaðin úr hraungrýti og er steypt á milli umfara. Í steypulagið undir efsta grjótinu er letrað ártalið „1960“. Flatamál vörðunnar er 1×1 m og er hún 1,5 m á hæð.

Vífilsstaðir

Urriðakot-Dyngjuhóll.

„Nokkru sunnan við Dyngjuhólsflöt gengur smáhorn suðvestur úr hrauninu, sem kallast Hraunhorn. … Nokkurn spöl suðaustur af hraunhorni er vik inn í hraunið, og liggur Grásteinsstígur þar inn í hraunið. Hann dregur nafn af stórum steini, Grásteini, við stíginn í hrauninu“, segir í örnefnaskrá SP.
„Grásteinsstígur lá fram hjá Grásteini frá Hraunhornsflöt að Kolanefsflöt,“ segir í Örnefni og leiðir í landi Garðabæjar. Stígurinn hlykkjast til suðausturs inn á kargann á vesturmörkum Flatahrauns, úr viki sem er 30m ASA af rétt. Þaðan liggur stígurinn að beitarhúsi.
Grásteinsstígur er í úfnu og mosavöxnu hrauni. Stígurinn er ruddur í gegnum hraunkargann frá golfvelli og austur að beitarhúsi. Á Flatahrauni austan kargans var ekki mögulegt að rekja stíginn lengra sökum snjóa og gróðurs, þó að samkvæmt örnefnalýsingu hafi hann legið alla leið austur yfir Flatahraun að Kolanefsflöt. Grásteinsstígur hefur að líkindum ekki verið reiðgata heldur gönguslóði, sökum erfiðrar yfirferðar um hraunið.

Urriðakot

Urriðakot – Stekkjatúnsrétt.

„Nokkru sunnan við Dyngjuhólsflöt gengur smá horn suðvestur úr hrauninu, sem kallast Hraunhorn. … Nokkurn spöl suðaustur af Hraunhorni er vik inn í hraunið, og liggur Grásteinsstígur þar inn í hraunið. Hann dregur nafn af stórum steini, Grásteini, við stíginn í hrauninu. Skammt sunnan við vikið, sem Grásteinsstígur liggur um, er gömul rétt, sem kölluð var Stekkjartúnsrétt, eða aðeins Stekkjartún“, segir í örnefnaskrá SP. „Í hrauninu suðaustur af Grásteini er hóll sem kallast Einbúi. Suðvestur af Einbúa er réttarbrot, þar er svokallað Stekkjartún“, segir í örnefnaskrá AG.
„Hér nokkru sunnar er komið í Stekkinn. Þar var Stekkatúnið, hvammur í hrauninu. Þarna var líka Stekkatúnsrétt eða Gamla réttin sem var í hraunbrúninni nokkru sunnar“, segir í örnefnaskrá GS. „Stekkatúnsréttin: Rétt þessi er nú (1964) horfin með öllu. Þarna hafa verið byggðir sumarbústaðir. Erfitt með vatn,“ segir í Skrá yfir örnefni og leiðir í landi Garðabæjar.
Stekkatúnsrétt er í litlu viki í karganum á vesturmörkum Flatahrauns, fast austan í golfvellinum. Rúst hennar er um 160 m SSV en rúst stekksins, um 220 m NV af rétt og hátt í 950 m SA af bæ. Samkvæmt heimildamanni, Svani Pálssyni, er réttarrústin sem hér er skráð líklegast Stekkatúnsrétt.
Fast austan við réttina er golfvöllur, sem hefur að líkindum farið yfir hluta mannvirkisins, en hún er annars í grónu viki inni í afar hrjóstrugri hraunbrún. Birki vex milli hólfs og garðlags, en einnig virðist jarðrask hafa átt sér stað sunnan við hólfið og norðan við garðinn.

Urriðakot

Urriðakot – nafnlausa réttin.

„Við hraunið, nokkru suðaustar er önnur rétt nafnlaus, sem byggð var í minni heimildarmanns“, segir í örnefnaskrá SP. „Í hvammi neðan við Kúadali er rétt þétt við hraunbrúnina. Innst í réttinni er lítill skúti,“ segir í Skrá yfir örnefni og fiskimið í Álftaneshreppi. Réttin er fast vestan við hraunkargann sem myndar vesturbrún Flatahrauns, við austanverðan golfvöllinn. Réttin gamla er rúmlega 220 m suðaustur af réttarbroti, um 130 m VNV af beitarhúsi og um 1,2 km SA af bæ.
Að austanverðu er réttin byggð fast í úfið hraun sem er að mestu gróið mosa og lyngi, en skammt vestan við er golfvöllur og hefur hluti garðs sem tengist að réttinni að vestanverðu verið rifinn þegar völlurinn var gerður.
Eftir af réttinni er eitt hólf og um 20 m langt garðlag sem gengur austur úr því. Hólfið er um 10×6 m að utanmáli, snýr N-S og er inngangur að norðan. Réttin er hlaðin úr meðalstóru hraungrýti sem er ekkert tilklappað. Hleðslurnar eru mest um 1,3 m á hæð, 7 umför og þykkt er víðast um 0,5 m. Lítill skúti er í hrauninu syðst á austurhlið hólfsins, 2 m breiður, rúmlega 1 m djúpur og 0,7 m hár, og er austurveggur hólfsins hlaðinn yfir náttúrulega hraunþekju skútans. Um 2 m norðan við innganginn í hólfið er vesturendi 430 m langs garðs sem sem liggur SV-NA yfir Flatahraun.

Selgjá

Selgjá.

„Úfna hraunið á móts við Svarthamra í Vífilsstaðahlíð kallast Kargi. Suður af Karganum er mikil hrauntröð, Selgjá. Hún er framhald Búrfellsgjáar, sem nær upp í Búrfell. Í Selgjá eru rústir af mörgum gömlum byrgjum, og eru sum þeirra í Urriðakotslandi, en flest í Garðakirkjulandi“, segir í örnefnaskrá SP.
„Austan við Sauðahelli er Selgjá sem er lægð í hraunið er nær upp að Búrfelli þótt hún heiti ekki því nafni alla leið“, segir í örnefnaskrá AG. „Vestast í Selgjánni er Selgjárhellir. Selgjárbyrgin og Selgjárselin eru 33 að tölu í 11 sambyggingum því hér höfðu Álftnesingar í seli lengi eða allt fram á 18. öld“, segir í örnefnaskrá GS.
Mikið af rústum eru í Selgjá og eru þær allar, sem og Norðurhellar, friðlýstar af Kristjáni Eldjárn með lögum frá 1964. „Slétt tún (hagi), um 100 m langt og 40-50 m breitt NV við hraun þar NV af melur, kjarr og grastorfur.“ Botn Selgjár er sléttur og gróinn grasi, mosa og lyngi og mynda gjárbarmarnir náttúruleg aðhald fyrir búfénað.
Selgjárhellir er náttúrulegur hellir í mosa og grasivöxnu hrauni. Hraunhellir þessi hefur áður verið lengri en hrunið saman að hluta í öndverðu svo labba þarf upp úr NV enda Selgjár og niður aftur í 7×3 m dæld sem er framan við hellismunnann.

Urriðakot

Urriðakot – Selgjárshellir.

Selgjárhellir er um 8-10 m djúpur SA-NV, 4 m breiður og lofthæð er 1,2-1,5 m. Í botni hans er mikið grjót. Tveir stuttir grjótgarðar hafa verið hlaðnir fyrir munnann og á milli þeirra er 1 m breiður inngangur. Í hvorum grjótgarði eru 7-9 umför og eru þeir 0,5-1,2 m háir og 1 m breiðir.

Þorsteinshellir

Fjárskjól við Selgjá. Sauðahellir, einnig nefndur Þorsteinshellir.

„Í neðri (norðvestur) enda Selgjár er Selgjárhellir. … Örskammt norðvestur af Selgjárhelli er Sauðahellir. Sauðhellirinn er norðan við vörðu við Gjáaréttargötu, en Gjáarréttargatan er vörðuð í gegnum hraunið alla leið austur með Sneiðingjum í Vífilsstaðalandi. … Þessi hellir mun hafa verið notaður á svipaðan hátt og fyrr nefndur Sauðahellir, en fyrir minni heimildarmanns“, segir í örnefnaskrá SP. „Við vesturenda Selgjár er Sauðahellir efri“, segir í örnefnaskrá AG.

Selgjá

B-steinninn í Selgjá.

„Við norðausturbarm Selgjár, niðri í gjánni, er svokallaður B-steinn, en svo er nefnd hraunhella, sem rís þar upp á rönd líkt og legsteinn og bókstafurinn B hefur verið höggvinn í“, segir í örnefnaskrá SP. Steinninn er ofan í gjánni, næstum fast við eystri gjáarbarminn, um 180 m SA frá Selhelli við norðurenda Selgjár. Steinninn er í grónu hrauni.
B-steinn er hraunhella, um 1 m há, hátt í 0,5 m breið og 0,2 m á þykkt. Lag B-steins minnir helst á legstein og snýr hann flatri framhliðinni til vesturs. Framan á steininn, við hægra horn hans að ofan, er klappað B, um 20 x 10 sm í þvermál. Stafurinn líkur ekki ýkja ellilega út og er líklega frá því snemma á 20. öld. Hugmyndir hafa verið uppi um að stafurinn standi fyrir „brunn“, en samkvæmt heimildamanni, Svani Pálssyni, eru engar líkur til þess þar sem enginn brunnur er á þessum slóðum.

Sel í Selgjá

Sel í Selgjá – uppdráttur ÓSÁ.

„Austan við Kúadali er Fjárhústóftin syðri. Það var upphaflega reist sem Sauðahús“, segir í örnefnaskrá GS. „Nokkru norðar en Skotbyrgið er rúst gamals fjárhúss við allstóran klett“, segir í Skrá yfir örnefni og fiskimið í Álftaneshreppi. Fjárhústóftin syðri er um 470 m NV af Selgjárhelli, skammt frá öðru háspennumastri frá Heiðmerkurvegi.
Fjárhústóftin er uppi á hárri mosa- og grasigróinni hæð í hrauninu. Tóftin er hlaðin uppvið náttúrulegt bjarg, sem myndar hluta suðurveggjar hennar. Innanmál tóftarinnar er 6×2,5 m A-V og dyr eru á vesturvegg. Veggirnir eru um 0,8 á hæð og um 1-2 m á breidd. Nokkuð hefur hrunið úr hraunhleðslum veggjanna, sem eru grónar mosa, grasi og lyngi. Gluggi er hlaðinn í suðurvegg tóftarinnar.

Urriðakot

Urriðakot – Selgjárhellir.

„Selstæðið þarna (Vestast í Selgjánni) var einnig nefnt Norðurhellar, Norðurhellnasel“, segir í örnefnaskrá GS. „Í landamerkjabréfi er Selgjá nefnd Norðurhellagjá. Er það nafn þá dregið af Selgjárhelli og fleiri hellum í norðurenda hrauntraðarinnar, sem hafa þá heitið Norðurhellar. Heimildarmaður kannast ekki við þessi nöfn úr mæltu máli,“ segir í örnefnaskrá SP. „Þetta nafn (Norðurhellar) á þessum stað er að finna í sóknarlýsingu síra Árna Helgasonar í Görðum frá 1842. Einnig segir frá þessu örnefni í lögfesti Þorkels prests Arngrímssonar frá 1661,“ segir í Skrá yfir örnefni og fiskimið í Álftaneshreppi. Norðurhellar eru skammt norðan við Selgjá, og ætti Selgjárhellir og Sauðahellir efri að flokkast með þeim, enda á sömu slóðum og hlutar af sama hellakerfi.
Hraunið er að mestu gróið mosa, lyngi og grösum. Við yfirferð um svæðið fundust 8 hellar til við bótar við Selgjárhelli [034] og Sauðahellinn efri, en snjór hamlaði nánari könnun þeirra. Hellarnir beint upp af (NV af) Selgjárhelli, virðast vera stærstir og í þeim mætti hugsanlega finna hleðslur. Þar af í helli A, sem er um 30 m NV af Selgjárhelli, virðist vera hlaðið þak úr meðalstórum hraunhellum sem er að hluta hrunið.

Hádegisholt

Hádegisvarðan á Hádegisholti.

„Flóðahjallavarða: Varða þessi átti að vera á Flóðahjalla, fyrirfinnst ekki,“ segir í Skrá yfir örnefni og fiskimið í Álftaneshreppi. Jafnframt segir í skrá þeirri að „Hálsinn“, „Urriðakotsháls“ og „Flóðahjallaháls“ séu allt örnefni á sama hálsinum og að „Flóðahjallatá“ sé „Vestur og upp frá Hálsinum“ og að þar hafi landamerkjavarðan átt að standa. „…Flóðahjallatá, en þar var Flóðahjallatávarða ,“ segir í örnefnaskrá GS. Varðan er á tá sem stendur út úr NV horni Flóðahjalla, fast sunnan við Urriðavatn og er þar vítt útsýni til allra átta. Flóðahjallavarða er rúmlega 300 m NV af herminjum. Varðan er á 30-40 m hárri hæð, á lúpínu-, mosa- og lyngigrónum mel, en gras grær næst vörðunni. Varðan er hrunin, en eftir er grjóthrúga, 3×2 m að flatarmáli N-S og 0,6 m há.

Vífilsstaðir

Flóttamannavegur við Camp Russel á Urriðaholti.

Ekki var saga hverrar rústar eða hver rúst skráð nákvæmlega, en herminjar eru ekki verndaðar í þjóðminjalögum. Þó hefur sú hefð skapast á síðustu árum að slíkar minjar eru skráðar en ekki mældar upp nákvæmlega eins og gert er þegar um fornleifar er að tefla. Eins og sést á kortinu er um er um allstórt svæði að ræða og fjöldi húsgrunna og annarra minja mikill“. segir í fornleifaskráningu RT og RKT. Herminjarnar eru á gróðurlitlu og grýttu svæði austast á Urriðaholti.
„Herminjar eru margar enn greinilegar í Urriðaholti, fæstar heillegar… Ber mest á steinsteyptri stjórnstöðinni, nokkrum steyptum grunnum, litlum turni og hliði inn á svæðið“. Á korti á bls. 67 í skýrslunni RT og RKT eru teiknuð upp um 40 mannvirki á svæðinu. Telja má nánast öruggt að hér sé komið braggahverfi er kallaðist Russell og var í Urriðakotsholti.

Urriðakot

Urriðakot – fornleifarannsóknarsvæðið.

Fornleifauppgröftur fór fram á Urriðakoti árið 2010. Í ljós komu fornar selstöður, væntanlega frá Hofstöðum. Urriðakot á sér ekki langa sögu í heimildum en bæjarins er fyrst getið á 16. öld. Átti því enginn von á því þarna myndu koma í ljós svo umfangsmiklar minjar sem raun ber vitni.

Urriðaholt

Urriðaholt- snældursnúður eftir uppgröft.

Við uppgröftinn hafa fundist skáli, fjós, geymsla, búr og soðhola frá landnámi fram á 11. öld. Nánari aldursgreining þarf að fara fram til að hægt sé að segja hvort minjarnar séu frá fyrstu tíð landnáms. Frá miðöldum – eða rétt eftir 1226 – hafa fundist leifar af búri, eldhúsi og skemmu, en ekki hefur komið í ljós neitt íveruhús frá þeim tíma. Það kann að hafa staðið ofan við uppgraftarsvæðið.

Merkilegir gripir fundust á svæðinu, fyrst og fremst snældusnúðar, annar skreyttur og hinn með áletruðum rúnum. Fátítt er að finna gripi með rúnaristum á Íslandi. Auk þess hafa fundist tvær perlur frá víkingaöld, bökunarhellur, brýni, innflutt frá Noregi, járnhnífar, naglar og ýmsar bronsþynnur.

Margt bendir til þess að þarna hafi verið seljabúskapur en ekki föst búseta. Er það mjög áhugavert þar sem ekkert sel hefur verið að fullu rannsakað á Íslandi.

Í Fornleifaskráning í Urriðaholti árið 2005 segir m.a. eftirfarandi um Urriðakot:

Urriðakot

Urriðakot 2005.

„Urriðakot er fyrst nefnt í jarðaskiptabréfi árið 1563, ein 19 jarða sem konungur fær ískiptum fyrir jafnmargar sem renna til Skálholtsstóls. Samkvæmt Jarðabók Árna og Páls var kotið árið 1703 hálfbýli í eigu konungs, ekki með „fyrirsvar nema tilhelmings á móts við lögbýlisjarðir“. Ábúendur voru þeir Þórður Magnússon og Ólafur Ingimundarson en í Manntali sama árs er í stað hins síðarnefnda tilgreindur Guðmundur Nikulásson. Hjá Þórði bjó ein þjónustustúlka en með hinum 27 ára gamla Guðmundi var móðir hans, Ása Ólafsdóttir, ekkja, yngri systur hans, Steinunn og Þóra, og Ásdís Ásbjarnardóttir, 6 ára „sveitarómagi“. Í Manntali árið 1801 bjuggu á jörðinni hjónin Hannes Jónsson og Þorgerður Þorsteinsdóttir með Sigríði, 15 ára dóttur, og þrjá litla syni 2-5 ára. 15 árum síðar var dóttirin flutt að heiman en fæðst hafði önnur, Kristín. Þegar Manntal var tekið árið 1845 var þetta fólk á brott og Eyjúlfur nokkur Gíslason, 22 ára, orðinn bóndi í Urriðakot og Guðrún Gísladóttir 24 ára, ráðskona hjá honum. Ef til vill hafa þau verið systkini en bæði voru úr Ölvesi og þaðan var líka 16 ára gömul vinnukona þeirra, Þuríður Þorgeirsdóttir. Samkvæmt Jarðatali var Urriðakot komið í bændaeign árið 1847 og ábúandi einn leigjandi. Jörðin er einnig nefnd í Jarðabók 1861. 1932 var hún samkvæmt Fasteignabók í einkaeigu og sjálfsábúð eða sjálfsnytjun. Hún lagðist í eyði um miðja 20. öldina en var áfram nytjuð frá næstu jörðinni Setbergi.

Urriðakot

Urriðakot – útihús 2005.

Jarðardýrleiki var óviss árið 1703 en landskuld alls 20 álnir. Hún skiptist til helminga milli ábúenda og gallst í fiski í kaupstað, áður heim til Bessastaða. Leigukúgildi var eitt, hálft hjá hvorum og greitt í smjöri til Bessastaða. Ábúendur uppyngdu það sjálfir. Þórður átti tvær kýr og eitt hross og Ólafur eina kýr að hálfu en jörðin fóðraði þrjár. Kvaðir voru mannslán um vertíð sem þeir guldu til skiptis, dagsláttur og lambsfóður af báðum og tveir hríshestar árlega. Þegar Páll Beyer varð umboðsmaður konungs tók hann þó aðeins einn á tveimur árum. Aðrar kvaðir, svo sem skipaferðir og heyhestur til fálka sem bændum bar að bera, voru sjaldan heimtar. Ábúendur lögðuuppbótarlaust við til húsabótar í fjórtán ár og Þórður kvartaði yfir að hafa tekið viðhúsunum í lélegu ásigkomulagi. Þeir höfðu hrístekju til kolagjörðar og eldiviðar í landi konungs, torfristu og stungu. Engjar voru votlendar. Nokkur silungsveiði var ílandareigninni en hún þó ekki stunduð. Dýrleiki jarðarinnar taldist 3 1/3 hundruð árið 1847 en 17,4 ný hundruð 1861. Þegar kom fram á 20. öld var matsverðið 111-115 hundruð kr., kúgildi fimm, sauðir 140-50 og hrossin eitt eða tvö. Urriðakotstún hafði mest allt verið sléttað þegar Túnakort var gert árið 1918, þá 3,3 ha og 14 árum síðar fengust 154 hestburðir í töðu en 115 í útheyi. Vestan túnsins voru engjar, mýrlendi og móarætur.

Urriðakot

Urriðakot – fjárhús 2005.

Í Landamerkjaskrá frá 1890 segir: „Urriðakot á hálfa Fjárhellra mót Vífilstöðum sem fyrrum hjetu Maríuhellrar frammí vörðuna sín megin á Norðurhellragjáarbarmi, og í stóra steininn á fremmsta Tjarnholtinu með grasþúfu uppá, þaðan heimleiðis í vörðuna á miðri Þverhlíðinni þaðan í vörðuna á Flóðahjallatánni úr henni í Álp[t]artanga, þaðan í hellu sem er í miðjum hrauntanganum, kölluð Sílingarhella úr henni í uppmjóan háan Klett með Klofavörðu uppá sín megin [við] Stóra Krók og í gamlar Fjárrjettargrjótgirðingar í moldarhrauni, og uppí áðurnefnda Urriðakots Fjárhellra.“Undir skjalið rita Nikulás Jónsson, eigandi Urriðakots, Jón Þorvarðsson, bóndi í Urriðakoti og Jón Guðmundsson í Setbergi en Þórarinn Böðvarsson gerir eftirfarandi athugasemd: „Landamerkjaskrá þessa samþykki jeg fyrir hönd Garðakirkju að öðruleyti en því, að Maríuhellrar (nú Vífilsstaðahellrar) eru samkvæmt máldögum eign Vífilstaða svo sem jeg hefi lýst yfir þar sem jeg hefi skráð það, sem Vífilstaðir eiga sjerstaklega.“ Urriðakot er innan hinna fornu merkja á landi Garðakirkju á Álftanesi.

Urriðakot var sums staðar skrifað Aurriðakot eða Örriðakot en eftir að það lagðist í eyði var nafninu breytt í Urriðavatn.“

Heimild:
-Fornleifaskráning í Garðabæ, Fornleifastofnun Íslands 2009.
–Fornleifaskráning í Urriðaholti, Ragnheiður Traustadóttir, 2005.

Maríhellar

Urriðakotshellir – fjárhellir.

Garðabær

Í „Fornleifaskráningu vegna deiliskipulags Lundahverfis“ 2019 í Garðabæ, „Fornleifaskráningu í Heiðmörk og Sandahlíð í sama bæ árið 2013 sem og „Fornleifaskráningu vegna deiliskipulags Urriðaholts“ má lesa eftirfarandi um bæi og nokkrar merkar minjar:

Land Garðabæjar er mjög víðfemt og teygir sig meðal annars út á Álftanes og langt inn í Heiðmörk. Fornleifar finnast á öllu þessu svæði og skipta hundruðum. Þær eru mjög fjölbreytilegar og margar afar merkilegar, þær elstu frá því um landnám. Flestar minjanna hafa eingöngu verið kannaðar á yfirborði við fornleifaskráningu en einnig hefur verið grafið á nokkrum stöðum. Stærstu uppgreftirnir hafa verið gerðir á Hofsstöðum við Kirkjulund og í Urriðakoti skammt frá IKEA. Ýmsir athyglisverðir forngripir hafa fundist við þessar rannsóknir, til dæmis fannst bronsnæla frá 10. öld á Hofsstöðum, og snældusnúður með rúnaletri frá 13. öld í Urriðakoti. Fornleifafundir staðfesta því að hið tiltölulega unga bæjarfélag stendur á gömlum merg.

Minjar í Garðahverfi og víðar í Garðabæ

Gjáarrétt

Gjáarrétt.

Minjar í Garðahverfi á Álftanesi eru einstakar, ekki síst fyrir þá heild sem þær mynda saman. Slíkt menningarlandslag er fáséð. Þar og í Gálgahrauni er að finna meira en 250 kunnar fornleifar. Skipulag byggðarinnar í Garðahverfi á rætur að rekja aftur á miðaldir hið minnsta. Þar er að finna merkilegar minjar, mismunandi vel varðveittar, um sjósókn, búskap, samgöngur, trúarlíf, skólahald, jafnvel réttarsögu. Þar var byggðin girt með hlöðnum görðum, varnargarður lá meðfram sjónum og norðaustanmegin teygði sig hinn mikli Garðatúngarður frá Balatjörn í suðaustri, um Dysjamýri og Garðaholt, til Skógtjarnar í norðvestri. Þarna eru, svo dæmi séu tekin, bæjarhólar, varir, brunnar, útihús, garðar, stekkir, fjárrétt, fjárborg, gerði, kirkjugarður, aftökustaður, steinar með áletrunum og fornar leiðir. Á Hausastöðum í Garðahverfi var Hausastaðaskóli reistur 1759, fyrsti heimavistarskólinn sérstaklega ætlaður almúgabörnum. Rústirnar eru augljósar.
Fornar leifar er víða annars staðar að finna í landi Garðabæjar. Hér má nefna gamlar leiðir, til dæmis Fógetastíginn í Gálgahrauni, selstíga og leiðir á milli bæja, alfaraleið um Heiðmörk og einnig yfir í Kópavog, en á þeirri leið voru dysjar sakamanna sem líflátnir voru á Kópavogsþingstað. Í Arnarnesi er Gvendarbrunnur. Í Heiðmörk er að finna rústir af seljum, fjárskjólum, kolagröfum, brunnum, vörðum og fjárborg svo fátt eitt sé nefnt.
Gjárétt (Gjáarrétt) var fjallskilarétt í vesturenda Búrfellsgjár, ekki langt frá misgengisbrúninni á mótum hennar og Selgjár. Hún var reist árið 1840 úr hraungrýti. Í Selgjá eru friðlýstar seljasamstæður sem telja má einstakar í sinni röð, byggðar upp við gjárbarmana með baðstofum, eldhúsi, kvíum og stekkjum. Þar er varla þverfótað fyrir margra alda gömlum tóftum. Á Vífilsstöðum eru sömuleiðis leifar af gömlu seli og fjöldi annarra búsetuminja.

Fornleifar á Hofsstöðum og í Urriðakoti

Urriðakot

Urriðakot – uppgröftur.

Einhver stærsti víkingaaldarskáli sem fundist hefur á Íslandi er á Hofsstöðum við Kirkjulund, rétt austan og ofan við miðbæjarkjarnann í Garðabæ. Þar hefur verið gerður minjagarður með margmiðlunarsýningu. Skálinn var hefðbundinn að gerð með langeldi. Við hann fundust einnig soðholur (seyðar), hringlaga gerði, smiðja og gripir á borð við forn verkfæri. Bronsnælan fannst í rústum gerðisins. Urmull dýrabeina fannst í soðholunum sem gefur til kynna ræktun svína, nautpenings og sauðfjár.
Í Urriðakoti við Urriðakotsvatn í hrauninu skammt frá IKEA hefur verið seljabúskapur til forna. Þar hafa verið grafnar upp byggingar frá landnámstímanum sem hafa verið túlkaðar sem kúasel, það er sumardvalastaður eða eins konar útibú frá bæ þar sem kýr voru hafðar yfir sumartímann. Fundist hafa leifar af skála, soðhola, fjós og hús til mjólkurvinnslu og ostagerðar. Auk þess eru þar nokkrar kynslóðir af yngri seljum með þrískiptum húsum, baðstofu og búri auk eldhúss, sem ná frá 13. til 15. aldar. Margt gripa hefur fundist við fornleifarannsóknir í Urriðakoti, þar á meðal perlur, innflutt brýni og bökunarhellur, silfurhringur, tveir snældusnúðar, annar skreyttur og hinn með rúnaletri.
Hér hefur aðeins verið tæpt á því helsta í því skyni að gefa einhverja mynd af þeim fjölda fornleifa sem til eru í Garðabæ. Ýmsar fleiri merkilegar minjar er að finna innan bæjarmarka í Garðabæ þótt ekki teljist þær endilega til fornleifa í strangasta skilningi þess orðs, en í Þjóðminjalögum er miðað við að minjar þurfi að vera 100 ára eða eldri til að teljast til fornleifa. Yngri minjar eru til dæmis leifar frá seinni heimsstyrjöld í Garðahverfi og Urriðakoti, landreksstöpull Alfreds Wegener á Arnarneshæð frá 1930 og hleðslur í hrauninu niður af Flötunum sem voru reistar í tengslum við járnbrautargerð snemma á 20. öld.

Hofsstaðir (býli)

Hofsstaðir

Hofsstaðir – skáli.

Elstu skráðu heimildirnar um “Hofstader” er að finna í íslenska fornbréfasafninu. Árið 1395 á Viðeyjarklaustur Hofsstaði, en þeir eru sagðir ein af þeim jörðum sem undir klaustrið komu síðan Páll ábóti kom til Viðeyjar.
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns 1704 segir um “Hofstader” að þeir séu hálflenda svokölluð, því að þar sé ekki fyrirsvar nema til helmings á móts við lögbýlisjarðir. Jarðardýrleiki sé óviss, eigandinn konungurinn og ábúandinn Vernharður Einarsson: Uppdráttur af Hofsstöðum í Garðahreppi er til á túnakorti frá árinu 1918. Þar kemur fram að sléttuð tún eru 2,9 teigar og kálgarður 700 m2. Á uppdrættinum sést afstaða bæjarins og útihúsa sem þá voru.
Hinn 2. maí 1827 var jörðin seld, sem verið hafði í konungseign um aldir, fyrir 121 rd. Kúgildislaus. Búskapur lagðist af á Hofsstöðum árið 1965.
Fornleifarannsóknir sýndu fram á miklu eldri búskapasögu en heimildir en landnámsskáli fannst við fornleifauppgröft skammt vestur af núverandi bæjarstæði Hofsstaða.
Hofsstaðabærinn stóð þar frá upphafi og fram á 13. öld, en var síðan fluttur, mögulega á þann stað sem núverandi bæjarhús stendur.

Hofsstaðir

Hofsstaðir – skáli.

Á túnakorti af Hofsstöðum frá árinu 1918 er dregin upp mynd af túngarðinum eins og hann var þá. Umhverfis hann var melholt með nokkrum gróðri, helst við túngarðinn. Traðir eru norðan og sunnan í honum. Í örnefnaskrá segir: ,,Garður hlaðinn af torfi og grjóti lá um túnið allt. Nú er aðeins lítið garðbrot eftir sunnan hússins.“
Og í annarri örnefnaskrá segir „Hofstaðatúngarður lá umhverfis túnið á alla vegu, hlaðinn að mestu af torfi og grjóti. Sér nú ekkert af honum nema garðbrot fram undan húsinu niðri í mýrinni, en þar nálægt var Hofstaðabrunnur, og frá honum heim til bæjar lá Brunngatan,“ segir í örnefnaskrá GS.4 Þessar lýsingar eiga við yngsta túngarðinn á Hofsstöðum sem var hlaðinn úr grjóti og torfi og er hann horfinn að mestu nema brot af honum er varðveitt inni á lóð Leikskólans á Kirkjubóli. Eldri túngarðinn frá landnámi er að finna á svæðinu austan við Tónlistarskóla Garðabæjar sem sveigir svo til vestur og stefnir á Dýraspítalann. Garðurinn er útflattur en er þó greinilegur á vettvangi, best varðveittur syðst og vestast. Rannsóknir á túngarðinum fóru fram árið 1985 á vegum Þjóðminjasafns Íslands.
Samkvæmt rannsóknum Guðmundar Ólafssonar er elsti hluti túngarðsins frá 10. öld en 2-3 m utan við hann við austurgafl leikskólans Kirkjubóls er annar miklu yngri garður, sem getur ekki verið eldri en frá 16. öld, en er líklega nokkuð yngri.
Þessi garður passar ágætlega við túnakortið frá 1918 og er því sennilega frá 19. öld.

Hofstaðir

Hofsstaðir – túnakort 1916.

Ári síðar kannaði Guðmundur garðinn frekar, um 60-70 m SSV af núverandi uppgraftarsvæði, þar sem garðurinn er hvað breiðastur og tóftir liggja að honum. Guðmundur segir í skýrslu sinni athyglisverðast að á um 3 m kafla hafi landnámslag legið óhreyft að mestu ofan á mannvistarlagi, sem fannst neðst við óhreyfða mold. Ofan á mannvistarlaginu, við endann á því, var torfveggur, strenghlaðinn úr landnámstorfum, um 1 m breiður og um 40 sm hár. Ofan á hann hafði síðar verið hlaðið, eða grafið niður fyrir grjóthleðslu, utan í túngarðinn. Önnur grjótundirstaða, eða hleðsla, var 2 m innar við túngarðinn. Þessar 2 hleðslur eru seinni tíma verk.6 Ekki er skilgreint hvað átt er við með “seinni tíma” verki né heldur hvers eðlis umræddar hleðslur eru.
Við lóðaframkvæmdir á vegum Álftáróss hf. í júlí 1994, skammt NNV af uppgraftarsvæðinu á Hofsstöðum, kom í ljós hluti af túngarðinum. Túngarðurinn var hlaðinn úr torfi og grjóti í stefnunni NNA-SSV. Yfir öllum garðinum lá Katla 1500, 5-13 sm að þykkt, og er því garðurinn reistur fyrir þann tíma. Ekki er unnt að aldursgreina garðinn nánar nema með kolefnisgreiningu á sýnum sem tekin voru. Garðurinn var 40-60 sm á hæð á þessum stað en aðeins 3 m breiður og eru allar líkur á að aðrir hlutar hans á þessum stað hafi horfið við framkvæmdir.
Niðurstaðan er því að þarna sé um ræða túngarða frá fleiri tímaskeiðum, elsti garðurinn hlaðinn úr torfi en síðar meir torf og grjót. Það er mikilvægt að elsti garðurinn sé kannaður enn frekar og tóft ef til stendur að nýta svæðið eitthvað.

Guðnýjarstapi (markavarða)
Í örnefnalýsingum segir frá Guðnýjarstapa: „Norðan í háholtinu var varða, Guðnýjarstapi […] Nú er allt Hofstaðaholtið komið undir byggingar.“
„Norðan í holtinu er Guðnýjarstapi, klapparhóll með grasþúfu. Guðnýjarstapi er nú inn á lóð Holtsbúðar 87.“ Í örnefnaskrá Álftaneshrepps er þarna um tvennt að ræða, klapparhól og vörðu: „Guðnýjarstapi: Klapparhóll allmikill upp í Hofstaðaholti. Þar um lá landamerkjalína úr Dýjakrók. Markavarðan: Hún mun hafa verið norðan og neðan við Guðnýjarstapa.“11 Sunnan, austan og vestan við Guðnýjarstapa eru Holtsbúð 87, 89 og 91. Guðnýjarstapi er grasi gróinn stapi eða smáhæð, um 8 x 6 m að ummáli með stefnu norðvestur – suðaustur og allt að 1,5 m á hæð. Hér og þar standa steinar upp úr stapanum og efst á honum er stór þúfa. Stapinn virðist vera manngerður og gæti þarna hugsanlega verið kuml. Ólíklegt er að þúfan sé yfirgróin varða eins og ein örnefnalýsingin virðist gera ráð fyrir en þó má ætla að varðan hafi verið hlaðin á stapanum frekar en til hliðar við hann. Engin merki sjást nú um vörðu en greina má hleðslur í hólnum.

Hallbera (varða)
Í örnefnalýsingum segir: „Markavarða á Hofstaðahæð mun hafa verið kölluð Hallbera. Talið er að nafnið sé komið frá vistmönnum á Vífilsstaðahæli. Líklega er þetta sama þúfa og nefnd er Norðurþúfa.“
„[…] Varða á holtinu hlaðin af sjúklingum og kallaðist hún Hallbera.“ „Hallbera varða austan í Hofsstaðaholti hvarf, þegar byggð reis á holtinu. Hún stóð, þar sem lóð Gígjulundar 6 er nú.“

Alfaraleið (leið)

Urriðakot

Urriðakot – örnefni.

Í örnefnalýsingu segir: „Frá bænum lágu Vífilsstaðatraðir upp í Traðarhlið á Norðurtúngarði. Úr hliðinu lá svo gata í Alfaraleiðina sem þarna lá um Vífilsstaðamela.“
Alfaraleiðin lá sem sé um melana ofan Vífilsstaðatúns og hefur vestari hluti hennar verið á sömu slóðum og malbikaður Vífilsstaðavegurinn var lagður síðar beint upp að Vífilsstöðum.
Á gamalli ljósmynd sem tekin er úr lofti má sjá hvernig vegurinn lá áður í gegnum húsahverfið á Vífilsstöðum en ekki fyrir norðan fjósið eins og í dag. Á spottanum frá núverandi eystri húsum Vífilsstaða og út að Flóttavegi var malarvegur eins og í dag. Mölin hefur verið borin í gömlu götuna á seinni tímum eins og malbikið en leiðin liggur þó enn á sömu slóðum á þessum kafla Alfaraleiðarinnar og hefur að því leyti ákveðið varðveislugildi.

Sérstakaþúfa (varða)
Samkvæmt örnefnaskrá lágu merki frá Guðnýjarstapa, ,,upp holtið í Markavörðu, sem er á háholtinu, niður í Sérstökuþúfu, sem er miðja vegu milli Markavörðu og Vífilsstaðavegar“.
Varðan er nú komin undir byggð eins og segir í Örnefni og leiðir í landi Garðabæjar en eftir lýsingum systranna Sigríðar og Halldóru Gísladóttur var Sérstakaþúfa þar sem nú er Espilundur 4, rétt sunnan við Hofsstaðabraut.

Vatnsgeymir (hernaðarmannvirki)

Vífilsstaðavatn

Vatnsgeymir við Vífilsstaðavatn.

Vatnsgeymir er um 190 m NA við Grímssetu (sjá að neðan), fast við göngustíg sem liggur upp að henni. Í örnefnaskrá Vífilsstaða segir: „Hann [vatnsgeymirinn] er upp í hlíðinni upp frá vatnsósnum, byggður 1910. Vatnið svo leitt heim í Vífilsstaðahælið.“
Vatnsgeymirinn er steinsteyptur tankur, hringlaga og grafinn í jörðu. Hann er ríflega 4 m í þvermál og stendur 1, 3 m upp úr jörðinni.

Grímsseta (varða)

Gunnhildur

Gunnhildur.

Myndarleg grjótvarða vestast á hlíðarbrún upp af suðvestanverðu Vífilsstaðavatni nefndist fyrst Grímsseta en nú Gunnhildur. Frá vörðunni er víðsýnt. Hún var áður vel hlaðin en fólk hefur lagt í vana sinna að kasta grjóti að henni líkt og hún væri dys.
Nafngiftin Gunnhildur er á reiki. Sumir segja að hún hafi verið nefnd í höfuð einhverrar valkyrju sem bjó á Vífilsstöðum fyrr á árum en aðrir segja þetta nafn afbökun úr Gun Hill.
Á hernámsárunum var öflugt byssuhreiður þarna fremst á hlíðarbrúninni sem enn sjást leifar af. Gunnhildur mun þó hafa verið þekkt nafn á vörðunni áður en landið var hernumið árið 1940.
Hvernig sem þetta nafn er til komið mun þessi varða hafa haft nokkurt gildi fyrir sjúklingana á Vífilsstaðahælinu skammt frá, handan Vífilsstaðalækjar, því að sagt er að þeir hafi haft það fyrir reglu, margir hverjir, að ganga upp að vörðunni til að mæla þrek og úthald þegar aðstæður leyfðu. Gunnhildi nefndu þeir Matthildi sem studdust við vísuna:
Gekk ég upp að Grímssetu.
Gettu hvað ég sá?
Mæta konu Matthildu
í möttlinum blá.

Skotbyrgi (hernaðarmannvirki)

Vífilsstaðahlíð

Skotbyrgið.

Steinsteypt skotbyrgi frá styrjaldarárunum, niðurgrafið í sand og möl, er ofan og 50 m vestan við vörðuna Grímssetu. Stóreflis grjót eru í kringum byrgið sem stendur um 0,5 til 1 m upp úr jörðinni. Það er 5 m á lengd og 4 m á breidd og snýr A-V. Innanmál þess er 6,25 m2 og lofthæð 1,8 m. Veggir eru um 0,3 m á þykkt.
Skotrauf er á norðvesturhorni byrgisins, niðurgrafinn inngangur á austurhlið.

Tóftir við Grunnuvötn (sel)

Grunnuvötn

Tóftir við Grunnuvötn.

Í skjólgóðum hvammi sunnan við Grunnavatn nyrðra virðast vera jarðlægar leifar af mannvirkjum, hugsanlegi seli. Staðurinn er einmitt ákjósanlegur fyrir sel. Erfitt að greina nokkra húsaskipan en gætu verið tvö eða þrjú mannvirki.

Stekkur og rétt (stekkur/rétt)

Urriðakot

Stekkurinn.

Í örnefnaskrá segir um „Stekkatúnið: Svo voru Máríuvellir einnig kallaðir“. „Stekkur frá V[ífilsstöðum],“segir í Skrá yfir örnefni og fiskimið í Álftaneshreppi. „Í hraunjaðrinum fast uppi við Vífilsstað[a]hlíð beint vestur af Grímssetri er lítil flöt og kallast sá hluti hennar, sem nær er hlíðinni, Maríuvellir, en hlutinn, sem er nær hrauninu, Stekkjartún. Í Stekkjartúni var rétt eða rústir af rétt. Þegar Flóttavegurinn [nú Elliðavatnsvegur], sem liggur um norðurjaðar flatarinnar, var lagður, var réttin rifin,“ segir í örnefnaskrá Svans Pálssonar. „Á flötum niður undan Svínahlíð norður með var Stekkurinn í svonefndu Stekkatúni og þar norðar voru Réttarflatir og þar Réttir rétt við brún Svínahrauns,“ segir í örnefnaskrá Gísla Sigurðssonar.
Rúst stekksins á Maríuvöllum er um 10 m vestur af rótum Svínahlíðar og hefur honum verið raskað því að aðeins er að finna neðstu steinaröðina. Virðist lengd hans hafa verið um 7 m og breidd 4 m. Réttin er komin undir veg.

Vífilsstaðasel (sel)

Vífilsstaðasel

Vífilsstaðasel.

Vífilsstaðasel er austan við línuveg í skjólgóðum og grasi grónum hvammi.
Í örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar fyrir Vífilsstaði segir m.a. um Vífilsstaðasel og nágrenni: „Dýjakrókar er mýrin Krókamýri. Þar er nú Vatnsból Garðakauptúns og Garðahverfis. Upp frá Hálshúskrika liggur leiðin upp á Vífilsstaðaháls. Hér í norður, bak við Smalaholt, er Rjúpnahlíð og þá Rjúpnadalur og svo Rjúpnahæð með Rjúpnahæðarvörðu sem héðan liggur landamerkjalínan í miðja Kjóavelli, en þar var Kjóavallavarða. Þaðan liggur línan um Básinn eða Vatnsendabás austan í Sandahlíð og svo í Arnarbæli syðst í hlíðinni. Það er nefnt í fornu bréfi frá upphafi 16. aldar Arnarstapi. Héðan af Arnarbæli, sem er hornmark, liggur línan niður um Vatnsásinn eða Grunnvatnsás og þaðan upp í Víkurholtsvörðu á Víkurholti eystra. Þá er Víkurholt nyrðra. Á Arnabæli er að finna vörðu og koparbolta í klöpp. Varðan hefur verið lagfærð einhvern tíma og þá ekki verið vel hlaðin.

Vífilsstaðasel

Vífilsstaðasel – uppdráttur ÓSÁ.

Hér norðar á holtinu er Vífilsstaðasel. Sunnan þess er Selholt, Selás suðaustan og Selhóll þar vestur af með Selkvíunum. Í mýrarkorni er svo Selbrunnurinn og hér vestur af liggur Selstígurinn. Milli Sandahlíðar að austan og Vífilsstaðahlíðar að vestan, norðan Vatnaássins, liggja Grunnuvötn, tjarnir og grónar grundir. Þar var slægnapláss fyrr meir og mótekja.“
Þarna eru leifar af nýrri og eldri selstöðum, þær nýrri trúlega frá tveimur byggingarskeiðum sem kunna að hafa verið í notkun samtímis.
Elstu selstöðurnar eru undir brekku austan við þær yngri og virðist sem þar sé finna leifar af tveimur skeiðum. Þær eru nú mjög óljósar og er erfitt að átta sig á húsaskipan. Virðast þær vera í samræmi við eldri gerð selja (klasa), þ.e. óreglulegri og með minni rýmum. Þegar bæjarskipan komst á, eins og við þekkjum hana best frá 18. og 19. öld, urðu selstöðurnar (rýmin) bæði stærri og reglulegri.
Selið elsta er klasi þriggja rýma sem hvert um sig er mest 4 x 3 m að stærð; veggir eru útflattir.
Fáeinum metrum suðvestan við klasann eru stekkjaleifar. Stekkurinn hefur verið 8 m á lengd og 1,8 m á breidd innanmáli. Grjót hefur verið rifið úr stekknum og notað í önnur mannvirki á svæðinu.
Kví er undir klettavegg sunnan í kvosinni. Hún er 2 x 3 m að innanmáli.
Vatnsstæði er í miðri kvosinni vestan selstöðunnar.
Selin nýrri eru aflöng og sambyggð, um 30 x 10 m og snúa í N-S. Fimm rými eru í þeim, öll í röð og inngangur í þau á vesturhlið; tvö þau austustu virðast elst og af fyrra byggingarskeiði, þau standa innar en hin rýmin þrjú. Veggir tóftanna eru um 2-3 m breiðir og um 0,5 -1,2 m háir.
Stekkur er uppi á brún skammt norðaustur af selinu og hefur verið hlaðinn oftar en einu sinni. Hann tilheyrir nær örugglega yngri selstöðunum. Rýmin eru þrjú, það sem næst er selinu er 1,80 m á breidd og 9 m á lengd, hið næsta, sem virðist jafngamalt, er 4 m á breidd og 3 m á lengd, en hið þriðja, sem virðist elst, hefur verið 3,5 m á breidd og hið minnsta 2 m á lengd, sennilega lengri; yngri stekkjarleifarnar eru vafalaust endurhlaðnar úr þessu elsta rými stekkjarins.

Selstígurinn (leið)

Urriðakot

Urriðakot – örnefni.

Í örnefnalýsingu um Vífilsstaði í örnefnum og leiðir í landi Garðabæjar segir: „Heiman frá Vífilsstöðum lá selstígurinn suður á Maríuflöt, suður með hraunjaðrinum, sneiddi sig upp Ljósukollulág upp á hálsinn og suður í lægðadragið þar sem Vífilsstaðasel stóð.“
Í annarri örnefnaskrá segir um sama stíg: „Hann mun hafa legið heiman frá bæ, undir Svínahlíð og með Vífilsstaðahlíð skáhalt upp eftir Ljóskollulág upp á hálsinn að Selinu austan Víkurholta.“
Stíginn má enn sjá á köflum frá Flóttamannavegi í norðri og meðfram malarstíg sem liggur til suðurs. Erfitt er að rekja hann, týnist í skóginum og mikil uppblástur hefur orðið á svæðinu þannig að hann er víða horfin. Í gegnum Ljóskollulág sést ennþá smá partar af honum en það gæti líka verið eftir nýjar leiðir. Uppi á hæðinni er varða sem hefur sennilega verið hlaðinn við Selstíginn.

Urriðakot (býli)

Urriðakot

Urriðakot.

Urriðakot er fyrst nefnt í jarðaskiptabréfi árið 1563, ein 19 jarða sem konungur fær í skiptum fyrir jafnmargar sem renna til Skálholtsstóls. Samkvæmt Jarðabók Árna og Páls var kotið árið 1703 hálfbýli í eigu konungs, ekki með „fyrirsvar nema til helmings á móts við lögbýlisjarðir“. Ábúendur voru þeir Þórður Magnússon og Ólafur Ingimundarson en í Manntali sama árs er í stað hins síðarnefnda tilgreindur Guðmundur Nikulásson. Hjá Þórði bjó ein þjónustustúlka en með hinum 27 ára gamla Guðmundi var móðir hans, Ása Ólafsdóttir, ekkja, yngri systur hans, Steinunn og Þóra, og Ásdís Ásbjarnardóttir, 6 ára „sveitarómagi“.
Í Manntali árið 1801 bjuggu á jörðinni hjónin Hannes Jónsson og Þorgerður Þorsteinsdóttir með Sigríði, 15 ára dóttur, og þrjá litla syni 2-5 ára. 15 árum síðar var dóttirin flutt að heiman en fæðst hafði önnur, Kristín. Þegar Manntal var tekið árið 1845 var þetta fólk á brott og Eyjúlfur nokkur Gíslason, 22 ára, orðinn bóndi í Urriðakot og Guðrún Gísladóttir 24 ára, ráðskona hjá honum. Ef til vill hafa þau verið systkini en bæði voru úr Ölvesi og þaðan var líka 16 ára gömul vinnukona þeirra, Þuríður Þorgeirsdóttir. Samkvæmt Jarðatali var Urriðakot komið í bændaeign árið 1847 og ábúandi einn leigjandi. Jörðin er einnig nefnd í Jarðabók 1861. 1932 var hún samkvæmt Fasteignabók í einkaeigu og sjálfsábúð eða sjálfsnytjun. Hún lagðist í eyði um miðja 20. öldina en var áfram nytjuð frá næstu jörðinni Setbergi.

Urriðakot

Urriðakot – kort 1908.

Jarðardýrleiki var óviss árið 1703 en landskuld alls 20 álnir. Hún skiptist til helminga milli ábúenda og gallst í fiski í kaupstað, áður heim til Bessastaða. Leigukúgildi var eitt, hálft hjá hvorum og greitt í smjöri til Bessastaða. Ábúendur uppyngdu það sjálfir. Þórður átti tvær kýr og eitt hross og Ólafur eina kýr að hálfu en jörðin fóðraði þrjár. Kvaðir voru mannslán um vertíð sem þeir guldu til skiptis, dagsláttur og lambsfóður af báðum og tveir hríshestar árlega. Þegar Páll Beyer varð umboðsmaður konungs tók hann þó aðeins einn á tveimur árum. Aðrar kvaðir, svo sem skipaferðir og heyhestur til fálka sem bændum bar að bera, voru sjaldan heimtar. Ábúendur lögðu uppbótarlaust við til húsabótar í fjórtán ár og Þórður kvartaði yfir að hafa tekið við húsunum í lélegu ásigkomulagi. Þeir höfðu hrístekju til kolagjörðar og eldiviðar í landi konungs, torfristu og stungu. Engjar voru votlendar. Nokkur silungsveiði var í landareigninni en hún þó ekki stunduð. Dýrleiki jarðarinnar taldist 3 1/3 hundruð árið 1847 en 17,4 ný hundruð 1861. Þegar kom fram á 20. öld var matsverðið 111-115 hundruð kr., kúgildi fimm, sauðir 140-50 og hrossin eitt eða tvö.
Urriðakotstún hafði mest allt verið sléttað þegar Túnakort var gert árið 1918, þá 3,3 ha og 14 árum síðar fengust 154 hestburðir í töðu en 115 í útheyi. Vestan túnsins voru engjar, mýrlendi og móarætur.

Urriðakot

Urriðakot – túnakort 1918.

Matjurtagarðar voru 780 m² og gáfu 13 tunnur. Urriðakot átti landamerki á móti Setbergi að vestan, Vífilstöðum að norðan og austan og Garðakirkju að sunnan þar sem mættist heimaland þess og afréttarlandið.
Á Túnakorti 1918 sést Urriðakot í miðju túni og samanstendur úr sjö sambyggðum húsum. Þar af sýnast tvö þau suðvestustu vera úr torfi en tvö þau norðaustustu úr steini og gengur aftur af þeim minna torfhús. Tvö hús eru auk þess sýnd sem opnar tóftir. Stefnan er norðvestur-suðaustur. Skv. Fasteignabók var þarna komið timburhús með vatnsveitu árið 1932. Í Örnefnaskrá 1964 segir: „Bærinn stóð austur og upp frá Urriðavatni, við það kennt […] því sem næst í miðju túni.“ Í Örnefnalýsingu 1988 segir: „Urriðakot er jörð í Garðabæ. Bærinn stóð suðvestan í Urriðakotsholti, norðaustan við Urriðakotsvatn. Bærinn stóð nálægt miðju túninu.“ Túnið lá í halla í holtinu.
Á bæjarhólnum í dag eru leifar af yngsta bænum frá miðri síðustu öld en Urriðakot fór í eyði 1958. Grunnarnir af húsunum erum allir mjög greinilegir. Það eru háir steyptir veggir sem en standa og bárujárnsleifar inni í tóftunum. Það er sennilegast að bærinn hafi alltaf staði á núverandi bæjarstæði. Bæjarhólinn er nokkuð hár og breiður og hægt er að sjá á vettvangi að hólinn er manngerður. Það er því nokkuð öruggt að undir yngstu húsunum er að finna mannvistarleifar.

Landamerki Urriðakots

Dyngjuhóll

Landamerkjavarða á Dyngjuhól.

Í Landamerkjaskrá frá 1890 segir: „Urriðakot á hálfa Fjárhellra mót Vífilstöðum sem fyrrum hjetu Maríuhellrar frammí vörðuna sín megin á Norðurhellragjáarbarmi, og í stóra steininn á fremmsta Tjarnholtinu með grasþúfu uppá, þaðan heimleiðis í vörðuna á miðri Þverhlíðinni þaðan í vörðuna á Flóðahjallatánni úr henni í Álp[t]artanga, þaðan í hellu sem er í miðjum hrauntanganum, kölluð Sílingarhella úr henni í uppmjóan háan Klett með Klofavörðu uppá sín megin [við] Stóra Krók og í gamlar Fjárrjettargrjótgirðingar í moldarhrauni, og uppí áðurnefnda Urriðakots Fjárhellra.“ Undir skjalið rita Nikulás Jónsson, eigandi Urriðakots, Jón Þorvarðsson, bóndi í Urriðakoti og Jón Guðmundsson í Setbergi en Þórarinn Böðvarsson gerir eftirfarandi athugasemd: „Landamerkjaskrá þessa samþykki jeg fyrir hönd Garðakirkju að öðru leyti en því, að Maríuhellrar (nú Vífilsstaðahellrar) eru samkvæmt máldögum eign Vífilstaða svo sem jeg hefi lýst yfir þar sem jeg hefi skráð það, sem Vífilstaðir eiga sjerstaklega.“ Urriðakot er innan hinna fornu merkja á landi Garðakirkju á Álftanesi.

Urriðakotstúngarður (garður)

Á Túnakorti 1918 má sjá að túngarður liggur kringum túnið að sunnan, austan og norðan. Í Fasteignabók 1932 kemur fram að algirt var kringum Urriðakot með túngarði og girðingu. Í Örnefnalýsingu 1958 segir: „

Urriðavatn

Urriðavatn.

Urriðakotsbærinn stóð í Urriðakotstúni nær miðju, umhverfis túnið var Urriðakotstúngarður hlaðinn af torfi og grjóti. Suðurgarður sunnan að túninu. Austurtúngarður að ofan og Vesturtúngarður vestan.“ Örnefnaskrá 1964 ber hins vegar saman við Túnakortið: „Urriðakotstúngarður: garður af torfi og grjóti umhverfis túnið, að norðan, austan og ofan og sunnan, allt niður í Dýjamýri.“

Urriðakot

Urriðakot – bærinn 1918.

Túngarðurinn er ágætlega varðveittur og er auðvelt að rekja hann allan eins og hann er á túnakortinu frá 1918. Sést vel að garðurinn er hlaðinn úr torfi og grjóti. Hleðsluhæð er frá 30 cm og allt að 1 metra. Hann hefur þó á stöku stað sokkið töluvert en með góðu móti væri hægt að varðveita hann allan og lagfæra þar sem hann lægstur. Það er ekki ólíklegt að garðurinn sé í grunninn frá elstu tíð.

Fitin (álagablettur)
Skv. Örnefnaskrá 1964 er Fitin „slétt flöt niður við Vatnið, alveg út við túngarð“. Í Örnefnalýsingu 1988 segir Svanur Pálsson: „Norðan við Ferginsflöt á vatnsbakkanum er Fitin. Hún er utan túngarðsins, en varð síðan innan túngirðingar. Hún er álagablettur, sem ekki má slá. Í minni móður minnar var hún einu sinni slegin, en veturinn eftir drapst besta kýrin.“

Brunnur (vatnsból)

Urriðakot

Urriðakot – brunnur.

Í Örnefnaskrá 1964 er nefndur Brunnurinn, „upphlaðinn af grjóti neðst í túninu sunnan til við Niðurflöt“ og „stendur enn“. Frá honum liggur Brunnstígurinn „heim til fjóss og bæjar“ og lækjarsitra eða Brunnrás: „norð-vestur í vatn neðan túns“. Í ódagsettri Örnefnalýsingu segir: „Neðst í Niðurflötinni var Brunnurinn vel upphlaðinn brunnur. Frá honum lá Brunngatan heim til bæjar. Frá Brunninum lá Brunnrásin niður úr Flötinni og eftir mýrinni út í Vatnið.“ Skv. Örnefnalýsingu 1988 er Brunnstígur eða Brunngata sama og Suðurtraðir: „Neðan við traðirnar, sem lágu frá Urriðakoti, í mýrarjaðrinum rétt utan við túnið var brunnur, en leiðin frá brunninum til bæjar lá um traðirnar. Frá brunninum liggur Brunnrásin eftir mýrinni út í vatnið. Í vatninu hér fyrir neðan er pyttur, sem aldrei leggur.“
Brunnurinn er sokkin mjög en þó má sjá leifar af hlöðnu grjóti ennþá.

Dýjakrókahóll (álfabyggð)

Urriðakot

Dýjakrókshóll (h.m. við miðja mynd).

Skv. Örnefnaskrá 1964 er Dýjakrókshóll „melhóll í holtinu ofanvert við Dýjakrók“. Í Örnefnalýsingu 1988 segir Svanur Pálsson: „Mýrin sunnan við túnið heitir Dýjamýri. […] Í austurhorni Dýjamýrar eru uppsprettur undan holtinu, og kallast það svæði Dýjakrókar. Ofan við Dýjakróka er lítill hóll, Dýjakrókahóll. Í hólnum var talið búa huldufólk og sá afi minn Guðmundur Jónsson bóndi í Urriðakoti, konu, sem hann þekkti ekki sækja vatn í fötum í Dýjakróka snemma á þessari öld.“

Dagmálavarða (eyktarmark)

Dagmálavarða

Dagmálavarða.

Í Örnefnaskrá 1964 er nefnd Dagmálavarða sem var eyktarmark „sunnan í Urriðakotsholti“ en í Örnefnalýsingu 1988 segir: „Á holtinu beint upp af fjárhúsunum efst á Austurtúninu, […] er Dagmálavarða, eyktamark frá Urriðakoti, en norðar uppi á háholtinu er Stóravarða.“ Í ódagsettri Örnefnaskrá er þessi varða einnig kölluð Litlavarða og staðsett sunnan Stóruvörðu.
Varðan stendur nokkuð vel ennþá og er um 80 cm á hæð.

Stóravarða (varða)

Stóravarða

Stóravarða.

Í Örnefnaskrá 1964 er nefnd „Stóravarða: Stór varða á Urriðakotsholti, þar sem það er hæst. Þar er nú staurasamstæða fyrir raflínu á Suðurnes.“ Í Örnefnalýsingu 1988 segir: „Á holtinu beint upp af fjárhúsunum efst á Austurtúninu, […] er Dagmálavarða […], en norðar uppi á háholtinu, er Stóravarða. Hana hlóð Jón Þorvarðarson, afi heimildarmanns, og var hún mjög vel hlaðin, en hefur nú verið spillt.“
Varðan stendur ennþá á klöppinni, neðst í henni er óvenjustórt grjót. Í Örnefnaskrá 1964 er nefndur Urriðakotsvegur sem „um eða eftir 1920 var […] lagður heiman frá Urriðakoti yfir Vetrarmýrina og hraunið yfir í Setbergsholt og áfram til Hafnarfjarðar“. Í ódagsettri Örnefnalýsingu segir: „Heiman frá túngarðshliði liggur Urriðakotsvegur norður holtið og beygir síðan niður á mýrina, sem nefnist Vetrarmýri. Eftir mýrinni rann lækjarsitra, nefndist þar Keldan og Keldubrú yfir hana og vegurinn svo áfram upp á hraunið.“ Í Örnefnalýsingu er vegurinn kallaður Urriðakotsvegur eldri og talinn „lagður um 1930 norðvestur úr túninu, yfir mýrina og Hrauntangann, gegnum túnið á Setbergi á Setbergsveg vestan vð bæinn á Setbergi. Hann var lagður sem bílvegur og var þá hætt að nota Urriðakotsveg eldri, […] en sá vegur var ekki bílfær.“

Stekkjartúnsrétt (rétt)

Urriðakot

Stekkjartúnsrétt.

Í Örnefnaskrá 1964 er Stekkatúnið sagt vera „gróinn hvammur kringum stekkinn“.
„Stekkatúnsrétt: Var þarna, en er nú horfin með öllu. Þarna hafa nú verið byggðir sumarbústaðir þrátt fyrir vatnsleysi.“ Skammt sunnan við vikið, sem Grásteinsstígur liggur um, er gömul rétt sem kölluð var Stekkjartúnsrétt, eða aðeins Stekkjartún. Í Ódagsettri örnefnalýsingu segir: „Hér nokkru sunnar er komið í Stekkinn. Þar var Stekkatúnið, hvammur í hrauniðu. Þarna var líka Stekkatúnsrétt eða Gamla réttin sem var í hraunbrúninni nokkru sunnar.“ Í Örnefnalýsingu 1988 segir svo: „Skammt sunnan við vikið, sem Grásteinsstígur liggur um, er Stekkjartún. Við hraunið nokkru suðaustar er önnur rétt nafnlaus […]“. Skv. Örnefnaskránni 1964 virðist sú rétt hins vegar hafa verið kölluð Réttin gamla.

Réttin gamla (rétt)

Urriðakot

Gamla réttin.

Í Örnefnaskrá 1964 er auk Stekkatúnsréttar nefnd Réttin gamla sem var „í hvammi neðan við Kúadali […] í hraunbrúninni. Innst í réttinni er lítill skúti.“ Í Ódagsettri örnefnalýsingu er hins vegar talið að um sömu rétt sé að ræða en eftir að Stekkatún hefur verið nefnt segir: „Þarna var líka Stekkatúnsrétt eða Gamla réttin sem var í hraunbrúninni nokkru sunnar.“ Loks segir Svanur Pálsson í Örnefnalýsingu 1988: „Við hraunið, nokkru suðaustar er önnur rétt nafnlaus, sem byggð var í minni heimildarmanns.
Nafnið Réttin gamla virðist gefa hugmynd um að hún sé eldri en Stekkatúnsrétt. Um aldur hinnar síðarnefndu er ekki getið en hin fyrrnefnda var ekki byggð fyrr en eftir 1906, fæðingarár heimildarmannsins, Guðbjargar Guðmundsdóttur. Af staðsetningunni „í hraunbrúninni“ að dæma er Réttin gamla þó líklega sú sem Guðbjörg mundi eftir „við hraunið“ og taldi nafnlausa.

Beitarhús (fjárskýli)

Urriðakotshraun

Fjárhústóft í Urriðakotshrauni.

Þegar Stekkjartúnsrétt og „önnur rétt nafnlaus“ hafa verið nefndar segir í Örnefnalýsingu 1988: „Norður af henni er áberandi hóll í hrauninu, sem heitir Einbúi. Suðaustur af einbúa eru rústir beitarhúss, sem byggt var fyrir minni heimildarmanns. Austur og suðaustur af beitarhúsarústunum er hraunið tiltölulega slétt og lægra en umhverfið og nefnist Flatahraun.“

Sauðahellirinn syðri (fjárskjól)

Þorsteinshellir

Sauðahellirinn syðri – fjárhellir.

Skv. Örnefnaskrá 1964 var Kargi „lítill partur hraunsins undir Svarthömrum“ en „í bungu þeirri syðst á Flatahrauni voru margir hellar, þar á meðal“ Sauðahellirinn syðri. „Hlaðinn upp munninn. Skiftist í tvennt er inn var komið. Allgóður.“ Í B-gerð segir: „Þar hefur verið hlaðið, svo þröngan gang er inn að ganga, sem skiftist í tvennt í syðri- og nyrðri hellir. Þarna eru fleiri hellar, sumir manngengir.“
Eftir að Fjárhústóftin nyrðri hefur verið talin til segir í ódagsettri örnefnalýsingu: „[…] nokkru innar er í hrauninu svo kallað Tjarnholtsgreni móts við Mið-Tjarnholt. Spölkorn hér fyrir innan, eða sunnan liggur Gjárréttarstígurinn upp á hraunið og skáhalt yfir það. Þar er komið að Sauðahellinum syðra. En Sauðahellisvarða er þar rétt hjá.“ Skv. Örnefnalýsingu 1988 er Selgjárhellir í neðri enda Selgjár og „örskammt norðvestur af Selgjárhelli er Sauðahellir.
Sauðahellirinn er norðan við vörðu við Gjáarréttargötu, en Gjáarréttargatan er vörðuð í gegnum hraunið alla leið austur með Sneiðingum í Vífilsstaðalandi. Þessi hellir mun hafa verið notaður á svipaðan hátt og fyrr nefndur Sauðahellir“, þ.e. sá nyrðri, „en fyrir minni heimildarmanns.“

Selgjá (selstöður)

Selgjá

Selgjá.

Í Örnefnaskrá 1964 segir um Selgjá: „Grunn en allbreið gjá syðst í Urriðakotshrauni. Nær allt suður í Hrafnagjá, við Gjáarrétt. Í þessari gjá mun vera að finna Norðurhellnasel Álftnesinga 1703.“ Einnig er þar: „Nær hún allt frá Sauðahelli suður á Norðurhellagjárbarm.“ Selgjárbarmar eru tveir, „annar að sunnan, hinn að vestan“, Norðurhellnagjárbarmur syðri er „nær Vífilsstaðahlíð“ en Norðurhellnagjárbarmur vestri „nær Tjarnholtinu“. Í Ódagsettri Örnefnalýsingu segir: „Þegar komið er framhjá Sauðahellisvörðu hallar niður í Selgjána og nefnist þá stígurinn Selgjárstígur. Vestast í Selgjánni er Selgjárhellir Selgjárbyrgin og Selgjárselin eru 33 að tölu, í 11 sambyggingum, því hér höfðu Álftnesingar í seli lengi eða allt fram á 18.öld. Við Selgjárbarminn nyrðri er svokallaður B-steinn steinn með bókstafnum B. Á suðurhlið er svo Selgjárbarmurinn syðri. Við syðsta selið liggur stígurinn upp á barminn og er þar Selgjárvarðan. Þegar kemur hér spölkorn suður er komið að úfnu hrauni fram undan svarthömrum, nefnist Kargi. Selstæðið þarna var einnig nefnt: Norðurhellar, Norðurhellnasel og barmarnir því kallaðir Norðurhellnaselsbarmur nyrðri og Norðurhellnabarmur syðri.“

Selgjá

Seltóftir í Selgjá.

Í Örnefnalýsingu 1988 segir: „Úfna hraunið á móts við Svarthamra í Vífilsstaðahlíð kallast Kargi. Suður af Karganum er mikil hrauntröð, Selgjá. Hún er framhald Búrfellsgjár, sem nær upp í Búrfell. Í Selgjá eru rústir af mörgum gömlum byrgjum, og eru sum þeirra í Urriðakotslandi, en flest í Garðakirkjulandi. […] Í landamerkjabréfi er Selgjá nefnd Norðurhellagjá. Er það nafn þá dregið af Selgjárhelli og fleiri hellum í norðurenda hrauntraðarinnar, sem hafa þá heitið Norðurhellar.“ Í lýsingu á gjánni frá 1983 segir: „Á vinstri hönd, eða til suðurs, sjáum við af brúninni grunna, en nokkuð breiða gjá í hrauninu, sem er framhald af Búrfellsgjá. Þetta er Selgjá (Norðurhellragjá). Í Selgjá eru margar vallgrónar seljarústir, sem flestar eru fremur smáar í sniðum og minni en t.d. Vífilsstaðasel. Rústirnar standa flestar þétt við barma gjárinnar beggja vegna, en aðrar eru dálítið fjær. Selstaða þessi er nefnd í Jarðabók 1703 og virðast samkvæmt henni átta kóngsjarðir á Álftanesi hafa haft þar í seli. Athyglisvert er, að ávallt er rætt um selstöðu þarna í þátíð og jafnvel þannig, að hún virðist að því komin að falla í gleymsku.“ (Þ.J. og Ó.K.: 27). Minjarnar í Selgjá eru friðlýstar: „Urriðavatn: Seltóftir margar, hellar og önnur mannvirki í og við norðurenda Selgjár. Skjal undirritað af KE 30.04.1964. Þinglýst 05.05.1964 .“
Sá Selgjárbarmur sem er nær Vífilsstaðahlíð og í Örnefnaskrá 1964 kallaður „syðri“ er skv. korti Örnefnastofnunar og öðrum kortum í raun norðaustari barmurinn en sá sem er nær Tjarnholti og kallaður „vestri“ er sá suðvestari og getur þetta valdið ruglingi. Norðurhellnagjárbarmur syðri í Örnefnaskrá er eftir því sem næst verður komist sami og Ódagsett örnefnalýsing nefnir Selgjárbarm nyrðri, og Norðurhellnagjárbarmur vestri í Örnefnaskrá sami og Ódagsett örnefnalýsing nefnir Selgjárbarm syðri.

Selgjársel (sel)

Selgjá

Seltóft í Selgjá.

Í Örnefnaskrá 1964 segir um Selgjá: „Þarna eru Norðurhellasel. Selstöð frá Álftanesbæjunum.“ Eða: „Í þessari gjá mun vera að finna Norðurhellnasel Álftnesinga 1703.“ Selin í gjánni voru kölluð Norðurhellasel eða Selgjársel.
Í A-gerð er nánari umfjöllun um Selgjársel: „Selatættur eru þarna margar hlaðnar upp við Barmana bæði sunnan og vestan. Mun þarna um 11 samstæður, með nær 30 byggingum bæði húsarústum og kvíarústum.“ Í B-gerð eru þessar upplýsingar um Selgjársel: „Það mun hafa verið suður nálægt miðri gjá við austurbarm. Eru þar allmiklar tættur, bæði húsa og byrgja. Er hægt að telja þar alls níu hús og byrgi. Svo að í allri Selgjánni eru nær 20 húsarústir og byrgisrústir.“
Öll selin í gjánni voru kölluð Norðurhellnasel. Ódagsett örnefnalýsing hefur þetta: „Vestast í Selgjánni er Selgjárhellir Selgjárbyrgin og Selgjárselin eru 33 að tölu, í 11 sambyggingum, því hér höfðu Álftnesingar í seli lengi eða allt fram á 18. öld. […] Selstæðið þarna var einnig nefnt Norðurhellar, Norðurhellnasel og barmarnir því kallaðir Norðurhellnaselsbarmur nyrðri og Norðurhellnabarmur syðri.“ Í grein frá 1983 segja Þorkell Jóhannesson og Óttar Kjartansson: „Í Selgjá eru margar vallgrónar seljarústir, sem flestar eru fremur smáar í sniðum og minni en t.d. Vífilstaðasel. Rústirnar standa flestar þétt við barma gjárinnar beggja vegna en aðrar eru dálítið fjær. Selstaða þessi er nefnd í Jarðabók 1703 og virðast samkvæmt henni átta kóngsjarðir á Álftanesi hafa haft þar í seli. Athyglisvert er, að ávallt er rætt um selstöðu þarna í þátíð og jafnvel þannig, að hún virðist að því komin að falla í gleymsku.“

Selgjárhellir (fjárskjól)

Selgjárhellir

Selgjárhellir.

Í Örnefnaskrá 1964 segir um Selgjárhelli: „Skarð er í norður brún gjárinnar, leynir á sér. Þar inn af er allmikill hellir, gott fjárskjól.“ Muninn veit við suðri. Í Ódagsettri örnefnalýsingu segir: „Vestast í Selgjánni er Selgjárhellir Selgjárbyrgin og Selgjárselin […]“. Í Örnefnalýsingu 1988 segir: „Í neðri (norðvestur) enda Selgjár er Selgjárhellir. Í landamerkjabréfi er Selgjá nefnd Norðurhellagjá. Er það nafn þá dregið af Selgjárhelli og fleiri hellum í norðurenda hrauntraðarinnar, sem hafa þá heitið Norðurhellar. Heimildarmaður kannast ekki við þessi nöfn úr mæltu máli.“

Norðurhellar (fjárskjól)

Selgjárhellir

Norðurhellar.

Minnst er á Norðurhella í Jarðabók Árna og Páls 1703 og síðan í Sóknarlýsingu séra Árna Helgasonar 1842: „Hér og hvar eru líka hellar, sem brúkast fénaði til skjóls á vetrum. Svokallaðir Norðurhellar eru hjá Vífilstaðahlíð […]“. Í Örnefnaskrá 1964 segir: „Norðurhellar: Þeir eru í Selgjánni. Svo segir í Sóknarlýsingu síra Árna Helgasonar í Görðum 1842. Einnig segir frá þessu í lögfesti Þorkels prests Arngrímssonar 1661.“ Í Örnefnalýsingu 1988 segir svo: „Í neðri (norðvestur) enda Selgjár er Selgjárhellir. Í landamerkjabréfi er Selgjá nefnd Norðurhellagjá. Er það nafn þá dregið af Selgjárhelli og fleiri hellum í norðurenda hrauntraðarinnar, sem hafa þá heitið Norðurhellar. Heimildarmaður kannast ekki við þessi nöfn úr mæltu máli.“ E.t.v. er Norðurhellir og Selgjárhellir einn og sá sami.

Sauðahellirinn nyrðri (fjárskjól)

Urriðakot

Sauðahellirinn nyrðri undir Vífilsstaðahlíð.

Í Örnefnaskrá 1964 er nefndur Sauðahellir, „allgóður fjárhellir í hraunbrúninni neðan til við Kolanef“ í Vífilsstaðahlíð. „Þar hafðir sauðir frá Urriðakoti.“ Í Ódagsettri örnefnalýsingu segir að landamerki Urriðakots liggi frá Maríuhellum „suður eftir hraunbrúninni, og var þar ekki örnefni utan Sauðahellirinn nyrðri í brúninni móti Kolanefi.“ Skv. Landamerkjaskrá lá línan frá Maríuhellum „frammí vörðuna sín megin á Norðurhellragjáarbarm […]“. Í Örnefnalýsingu Urriðakots 1988 segir Svanur Pálsson að þetta sé í norðaustur frá rústum beitarhúss: „í norðausturbrún hraunsins gegnt Kolanefi í Vífilsstaðahlíð við Kolanefsflöt […] er lítill hellir, sem nefnist Sauðahellir. Veit op hans að hlíðinni, og eru hlaðnir kampar báðum megin við innganginn. Við hann var sauðum frá Urriðakoti gefið á gadd (á jörðina) allt frá því, að heimildarmaður man fyrst eftir sér til 1933. Heyið var borið heiman frá Urriðakoti í poka á bakinu.“

Urriðaholt – Stríðsminjar

Urriðaholt

Uppdráttur af Camp Russel á Urriðaholti.

Minjar um veru breska og bandaríska hersins í Urriðaholti eru mikilsverð heimild um þátt Íslands í seinni heimsstyrjöld. Leifar mannvirkjanna, sem reist voru í stríðinu, eru minnisvarði um vígbúnað bandamanna gegn ógnum Þriðja ríkisins. Þær hafa jafnvel alþjóðlegt minjagildi. Ekki var saga hverrar rústar eða hver rúst skráð nákvæmlega, en herminjar eru ekki verndaðar í þjóðminjalögunum. Þó hefur sú hefð skapast á síðustu árum að slíka minjar eru skráðar en ekki mældar upp nákvæmlega eins og gert er þegar um fornleifar er að tefla. Eins og sést á kortinu er um allstórt svæði að ræða og fjöldi húsgrunna og annarra minja mikill. Það er Fornleifaverndar ríkisins að ákvarða nánar um þetta svæði, hvort þurfi að skrá minjarnar enn frekar eða friða, en auðvitað væri mjög áhugavert að skoða sögu þessara minja með því að ráðast í heimildavinnu um hvað fór fram á staðnum.

Urriðaholt

Urriðaholt – Camp Russel.

Ekki er að sjá að hermannvirkin hafi raskað minjum á svæðinu, en umsvifin hafa verið töluverð. Byggðin var austast í Urriðaholti, en holtið er gróðurlítið og grýtt á því svæði. Gefur þó augaleið að ábúendur í Urriðakoti hafi orðið hennar vör með áþreifanlegum hætti.
Við lok heimsstyrjaldarinnar glötuðu hernaðarmannvirkin upphaflegu hlutverki sínu og voru nýtt til annarra þarfa eða fjarlægð og eyðilögð. Pólitískt andrúmsloft á kaldastríðsárunum olli því að víða var hart gengið fram í að eyða ummerkjum um veru hersins á Íslandi. Þeim mun athyglisverðari verða þá þær stríðssögulegu minjar, sem orðið hafa eftir, og hefur áhugi almennings og ferðamanna vissulega aukist á þeim. Stofnað hefur verið stríðsminjasafn á Austfjörðum sem verður án efa öðrum hvatning til varðveislu heimilda um þetta tímabil í Íslandssögunni.
Herminjar eru margar enn greinilegar í Urriðaholti, fæstar heillegar, en allt um það áþreifanlegur vottur um hlutdeild Íslands í orrustunni um Atlantshaf. Ber mest á steinsteyptri stjórnstöðinni, nokkrum steyptum grunnum, litlum turni og hliði inn á svæðið.

Heimildir:
-Heiðmörk og Sandahlíð í Garðabæ, Fornleifaskráning vegna deiluskipulags – Rannsóknarskýrsla 2013.
-Fornleifaskráning vegna deiliskipulags á Urriðaholti í Garðabæ, febrúar 2005.
-https://www.visindavefur.is/svar.php?id=28813

Sel í Selgjá

Sel í Selgjá – uppdráttur ÓSÁ.

Tag Archive for: Selgjá