Færslur

Askur

Í bók Önnu Sigurðardóttir um “Vinnu kvenna á Íslandi í 1100 ár“, sem var gefin út árið 1985, fjallar hún m.a. um selstöður til forna og störf í seli á seinni öldum og mjaltir og búverkin heima.
Hér verður gripið niður í nokkur atriði í hinum merku lýsingum Önnu. Þótt hún segi lítið um selstöðurnar á Reykjanesskaganum segir hún allmikið um vinnuna í seljunum fyrrum:

Á stöðli og í seli til forna
Vinna kvenna í 1100 ár
Þær voru sumar sjálfar í seli, sennilega hefir þeim fallið það betur en að vinna heima á bænum. Þórhildur Skinna-Bjarnardóttir var ein þeirra. Maður hennar, Ásgeir rauðfeldur, hafði „selför það sumar uppi í Vatnsdal; hafði kona hans þar umsýslu bús og smalaferðar.“ Frá þessu er sagt vegna þess að „sá atburður var, að hún varð léttari í smalaferðinni og fæddi sveina tvo í Vatnsdalshólum.“
Þórdís Skeggjadóttir húsfreyja í Tungu var jafnan í seli fram í Hrútafjarðardal og voru þó yngri synir hennar mjög ungir. Önnur húsfreyja hafði tvær ungar dætur með sér í selinu. Ekki er nafns þeirrar konu getið en maður hennar hét Þorsteinn Gíslason og fór kona hans heim til að sækja hreinar skyrtur handa feðgunum.

Selsmatsselja

Selsmatsselja eftir mjaltir.

Ein af jarteiknasögum Jóns biskups helga segir frá konu, Arnfríði að nafni, sem var í seli ásamt nokkrum konum að heimta nyt af fé. Þetta orðalag að heimta nyt af fé kemur fyrir í kristinna laga þætti Grágásar þar sem talin eru upp þau verk sem vinna má á helgum degi og ekki eru helgidagsbrot: Menn skulu eiga að reka fé sitt heim og heiman, og eiga konur að heimta nyt af því, og bera heim hvert sem skal, að menn beri heim, eða ferja á skipi, eða á hrossi, ef vötn eru milli bæjar og stöðuls, og eiga konur að gera til nyt þá.
Að gera til nytina heitir líka að búverka. „Að mjalta, sía mjólkina og setja hana, að þrífa mjólkurílátin, að strokka rjómann, hnoða smjörið og hleypa skyr allt þetta hét að búverka. Fyrstu vikurnar eftir fráfærur varð oft einnig að sinna búverkum á kvöldin.“ Búverk hafa frá fyrstu tíð verið kvennastarf svo sem kristinna laga þáttur sýnir.

Fyrrum fóru búverkin aðallega fram í seli. Sel voru höfð þar sem góðir voru hagar, oft allfjarri bænum. Konur í seljum voru óánægðar ef „gerðist fé harla nytlétt“ eins og segir í Hænsna-Þóris sögu. Konurnar vildu að skipt væri um haga og töldu að myndi þá miklu betur mjólka. Ekki voru konur einar í selinu, smalar voru þar líka. Einn þeirra fer heim í Örnólfsdal með klyfjar úr selinu og biður heimasætuna, Jófríði Gunnarsdóttur, að taka ofan með sér. En gestur Jófríðar kemur til og tekur ofan klyfjar. Þess vegna er sagan sögð um heimflutning á hvítum mat úr selinu að gestur var hjá heimasætunni.

Stekkur

Smali og selsmatsselju við stekk.

Gunnar Hlífarson í Örnólfsdal „hafði selför, og var jafnan mannfátt heima.“ En ekki er þess getið hve margt manna var í selinu.
Í Búalögum eru ákvæði um hversu margar konur eigi að vera í seli með vissan fjölda ásauðar og kúa.
Um störf kvenna í selinu segir ekkert í Íslendingasögum nema hvað þær eru við mjaltir í kvíum. Hvernig farið er að vinna mjólkina í smjör, skyr og osta segir ekki. En Búalög geta um verð á ýmsum ílátum undir mjólkurmat en þau áttu að vera af löggiltri stærð, svo sem keröld, trog og búskjólur, og strokkur átti að vera „sígirtur af þriðjungurinn og eirseymd gjörð á botni.“ Í sögunum eru nefnd nokkur ílát, svo sem sýrukerald, skyrkerald og skyrkyllir. Skyrkyllar voru notaðir til að flytja skyrið heim úr selinu og sennilega geyma það í líka. Í Grettis sögu segir: Auðunn bar mat á tveim hestum og bar skyr á hesti, og var það í húðum og bundið fyrir ofan; það kölluðu menn skyrkylla. Auðunn tók af hestinum og bar inn skyr í fangi sér… .
Framhald sögunnar er m. a. um að yfirbandið gekk af og var síðan skyri slett enda þótt sekkbært væri.

Skyr

Skyr.

Verð á skyri var miðað við sekkbært skyr eða sekkbæra hvítu, þykkt skyr eða þykkva hvítu skv. mismunandi heitum í Búalögum. Þunna skyrið, sem stundum er talað um í sögunum, hefir ekki gilt sem söluvara. En venjulega er tekið fram að askarnir hafi verið stórir er menn drukku eða supu skyrið.
Verð var annað á sumarsmjöri en vetrarsmjöri („menn kalla Basalm“). Ostur hefir verið gerður á annan hátt en nú er gert eða var gert á seinni öldum. Verð á osti skv. Búalögum var miðað við að hann hafi haft þriggja daga þerri eða hann á að vera „þurr og gagnsær af þriggja daga þerri.“
Í sögunum er þess getið að menn höfðu „skyr og ost“ til kvöld- eða náttverðar og þótti það betri matur en grautur.

Í seli á seinni öldum og mjaltir og búverk heima

Færikvíar

Færikvíar.

Eftir því sem aldir líða virðist það hafa minnkað að hafa í seli og það svo mjög að það opinbera vildi snúa þróuninni við um miðja 18. öld. Þó getur Eggert Ólafsson um sei í Borgarfirði upp til fjalla. Venjulega eru það þrjú hús eða kofar. í einu er búið, í öðru er mjólkin geymd, en hið þriðja er eldhús. Selfólkið er smali, fullorðin stúlka og unglingsstúlka, en þær mjólka og vinna úr mjólkinni smjör, skyr, osta og sýru.
Þeir eru á ferðalagi um landið Eggert og Bjarni þegar gefin er út tilskipun sem átti að stuðla að því að bjarga landsmönnum frá hungri og annarri neyð sem þeir bjuggu við eða yfir þeim vofði. Af konunglegri náð átti t. d. að styrkja „innréttingar“ en jafnframt var mönnum gert skylt að koma á kornyrkju og garðrækt. Bændur áttu auk þess, að viðlagðri refsingu, að hafa búfé sitt í seli og geldfé á afrétti frá 9.—21. viku sumars, að undanteknum þeim hestum sem nota þurfti við búskapinn. Nánar er minnst á refsinguna ef ekki er farið eftir þessum ákvæðum um selstöðu og jarðrækt eða ef menn notuðu húsdýraáburð til eldsneytis.

Smali

Smali við færikvíar.

Klerkur einn, séra Guðlaugur Sveinsson (1731 — 1807), í Vatnsfirði skrifaði ritgerð í Rit hins íslenska lærdómslistafélags árið 1787: „Um selstöður og nytsemi þeirra.“ Þar bendir hann á nytsemi þess að hafa ær í seljum eða setrum að sumrinu svo sem títt hafi verið hér á landi til forna og enn sé mjög til siðs í Noregi. Nú sé „þessi gagnlega brúkun, ásamt fleiri nytsamlegum atburðum, mikinn part undir lok liðið.“ Telur séra Guðlaugur það illa farið, því að selstöður séu mjög nytsamar, einkum þar sem heimaland er hrjóstrugt og magurt. Hann
telur síðan upp aðalkostina við að hafa í seli og segir frá reynslu sinni af því. Guðrún Ólafsdóttir lektor rannsakaði selstöður í Grindavíkurhreppi. Sama ár og grein hennar birtist, 1979, kom út í Noregi á vegum stofnunar um samanburðarmenningarrannsóknir bók um sel eða rannsóknir til sögu selbúskapar á Íslandi frá landnámsöld. Fróðleg og áhugaverð bók fyrir margan Íslending en því miður ekki á íslensku.

Hraunssel

Hraunssel – tilgáta.

En frásagnir um sel á öldinni sem leið má trúlega víða finna. T.d. lýsir Ingibjörg Jónsdóttir frá Djúpadal selinu sem foreldrar hennar höfðu á árunum 1842-1862. En þau hjón giftust tvítug og dóu fertug. Þau eignuðust 12 börn, þeirra á meðal var Björn Jónsson ráðherra. Í æskuminningum sínum segir Ingibjörg m. a.: Að sumrinu var haft í seli fram á dal. – Ráðið, sem faðir minn hafði til að fjölga skepnunum, var það, að hann byggði beitarhús á selinu og ruddi nýjan veg upp snarbratta hlíð skammt frá selinu, svo að nota mætti slægjur, sem þar voru. Erfitt var það og svo bratt, að ef baggi datt af hesti efst í hlíðinni, þá staðnæmdist hann ekki fyrr en niðri í árgljúfri, og á hverju vori varð að ryðja þennan veg, og ég veit ekki til að það hafi verið gert nema í tíð föður míns, hvorki fyrr né síðar. Ég hugsa að hann hafi átt mjög erfitt fyrstu búskaparárin, en með framúrskarandi dugnaði yfirvann hann alla erfiðleika og átti síðustu árin gott bú. Fyrstu árin var móðir mín í selinu með börnin 3 og 4, en þegar þau fjölguðu meir, hætti hún, og Guðrún systir [föðursystir, en kölluð systir] var upp frá því selráðskona. — Skrýtnar voru færikvíarnar, þegar í selið kom, þær sem notaðar voru heima þóttu of fyrirferðarmiklar til að flytja þær, í þess stað voru hafðar hrískvíar, hrísið var bundið í smábagga og hlaðin úr því kví og færð til á þann hátt, að önnur hliðin og gaflinn var flutt til þegar þurfti, seinlegt var það, en ekki var um það fengist, þetta mátti nota og gerði sama gagn. Það var gott að mjólka í hrískvínni, ærnar voru rólegar við skógarilminn. Seltúnið spratt vel og gaf af sér töluverða töðu af þessum eina áburði.

Vífilsstaðasel

Vífilsstaðasel – tilgáta – ÓSÁ.

Það mun víða „ekki hafa þótt svara kostnaði að leggja fólk til“ að hafa í seli á öldinni sem leið. En fráfærur voru hins vegar víða. Guðbjörg Jónsdóttir frá Broddanesi (1871-1952) nefnir ekki selstöður, en hún getur um fráfærurnar, t. d. hversu mjög hún vorkenndi litlu lömbunum að verða að yfirgefa mæður sínar og einnig um mjaltirnar og búverkin: Ýmsir erfiðleikar fylgdu fráfærum, sem nútímafólk þekkir ekki. Þá þurfti að þvo upp og þétta öll mjólkurílát, einnig stóra skyrsái. Tunnur voru ekki notaðar undir skyr; í þeim var geymd súrmjólk og drukkur, sem hafður var á slátur. Annars var lítið um tunnur á þeim árum, nema tvíbytnur, sáir voru miklu meira notaðir og fleiri til. Líka þurfti að þvo upp mörg trog, sem mjólkin var sett í; sumir höfðu mjólkina í trébyttum. Þá var fjöldi af upphleypudöllum, sem hafa þurfti við skyrgerðina. Allt var þetta þvegið fyrir fráfærurnar. Mjaltir í kvíum voru ekki gott verk; þó voru unglingar látnir mjólka alveg eins og fullorðnir. Hér voru fullorðnu stúlkurnar við heyvinnu á engjunum, en við unglingarnir vorum við heyþurrkinn og mjaltirnar. Oft var ég syfjuð á morgnana, þegar ég varð að fara á fætur klukkan sjö… . Út yfir tók þó að verða að fara í kvíarnar á sunnudagskvöldin, verða þá að fara úr sunnudagsfötunum, fyrr en aðrir, og klæða sig í kvíakastið og úlpuna; það voru óskemmtileg umskipti… . Á kvöldin var ofurlítil uppbót á mjaltirnar, að við fórum með mjólkurföturnar í bæjarlækinn og þvoðum þær þar. Yfir lækinn var byggt hús — brunnhús— inni í því þvoðum við föturnar. En þegar það var búið, fórum við út og settumst á brunnhúsvegginn.

Litla-Botnssel

Litla-Botnssel – tilgáta.

Stundum voru þá komnar fleiri stúlkur að læknum, svo að samtölin urðu oft fjörug og stundum nokkuð löng. Þarna var skrafað og skeggrætt um framtíðina og fleira. Hvað er eðlilegra, en að æskuna dreymi framtíðardraum, enda þótt þeir rætist aldrei. . . . Við byggðum vonahallir, sem hrundu áður en þær voru fullgerðar.
Steinunn Jósefsdóttir rifjar upp bernskuminningar um Miðhópssel enda þótt hún hefði sjálf ekki verið selstúlka en ánægjulegt þótti henni að vera send þangað til að sækja smjör og osta sem vanhagaði um heima. Selráðskonan var með dóttur sína og ein eldri kona var þar og smali. Miðhópssel var byggt úr torfi og grjóti. „Trog og önnur ílát sem notuð voru í selinu voru smíðuð úr viði. Mikil vinna var að hirða þau og halda þeim tandurhvítum. Eftir að þau höfðu verið þvegin úr vatni var þeim haldið að hlóðareldinum og þurrkuð. Pað hét að hlóðarbaka trogin. Selstúlkurnar höfðu mikið að starfa. Fyrst að mjalta allar ærnar, en síðan var málnytin sett í trog og geymd í útihúsum í einn og hálfan dag til tvo daga.“ Síðan lýsir Steinunn hvernig rennt var úr trogi, rjómi strokkaður og smjörið saltað, hnoðað og pressað í skinnbelgjum, hvernig undanrennan var flóuð og kæld fyrir skyrgerðina, mjólkurostur og mysuostur var gerður og seyddur ostur úr draflanum. Sýran var flutt heim í kvartelum og geymd heima í tunnum.

Litla-Botnssel

Litla-Botnssel.

Í handritum Sigurlínu Sigtryggsdóttur frá Æsustöðum, sem birtust á prenti 1953 í Göngum og réttum, eru líka mjög skilmerkilegar lýsingar á meðferð mjólkur og mjólkuríláta í Eyjafirði, bæði heima við og í seli. Þar er þess getið að húsin í Hvassafellsseli hafi verið baðstofa og eldhús, mjólkurbúr og skyrbúr.
Pétur Jónsson frá Stökkum segir að venjulega hafi einni mjaltakonu verið ætlaðar 30-40 ær að mjalta, stundum þó allt að 50 en sjaldan yfir það. Víðast hvar hafi verið „tekið eftir“ sem kallað var að allar ærnar voru mjólkaðar aftur og þurrtottaðar.
Hér er ekki minnst á hversu lengi konurnar voru að mjólka þennan fjölda, en Sigurður Sigurðsson ráðunautur hefir það eftir reyndum og vönum mjaltakonum, að meðalkvenmaður mjólki 40-50 ær á klukkutíma, ef það eigi að vera viðunandi af hendi leyst.
Guðríður Guttormsdóttir sagði að þegar fært var frá í Stöð, fyrir aldamót, hafi stúlkurnar sem áttu að mjólka farið dálítið fyrr heim úr heyskapnum en hitt fólkið. En þó var mjöltum og mjólkurhirðingu stundum ekki lokið fyrr en undir miðnætti.
Jósef á Svarfhóli man eftir því að fært var frá á æskuárum hans 60—70 ám en kýrnar voru 6-8: Þennan pening mjólkuðu tvær stúlkur, kvölds og morgna. Heldur voru til þess valdar þær, sem liðléttari þóttu. Var það talin hvíld frá heyvinnu að fara heim að mjólka. Kannski hafa þær sem kraftmeiri voru og kjarkbetri afþakkað hvíldina þá og mjaltirnar og búverkin á eftir. „Talið var… . til þess voru valdar“ segir höfundur, en ekki að stúlkurnar hafi óskað þess að fá að sinna mjöltum og búverkum.

Nessel

Nessel – uppdráttur. Dæmigert fyrir sel á Reykjanesskaga; eldhús, búr og baðstofa.

Sigríður Björnsdóttir frá Miklabæ segir m. a. svo frá í kafla um fráfærurnar í minningum sínum: Mjaltir á sauðfé þótti frekar vond vinna og var ekki eftirsótt meðal kvenþjóðarinnar, en auðvitað kom það eingöngu niður á henni. Þá tíðkaðist ekki að karlmenn önnuðust mjaltir. Það hefði þótt hneysa fyrir karlmenn að gera slíkt kvenmannsverk.
Það var víðar en í Skagafirði sem það þótti hneisa fyrir karlmenn að mjólka. Hreppstjóri einn á Suðurlandi var sárhryggur og grét þegar sonur hans — hreppstjórasonurinn — fór að mjólka kýrnar fyrir konu sína sem gekk með 12. barnið. Sonardóttir hreppstjórans sagði mér þetta en hún var í hópi eldri barnanna.
Það var liðið langt á 20. öldina þegar karlmenn töldu sér ekki lengur vansæmd að mjólka kýr en eftir það var fljótlega farið að mjólka með vélum.
Árið 1954 kom út ritgerðasafn sem ber heitið: Enginn matur er mjólk betri. Þar segir m. a. að það færist í vöxt að mjólka með mjaltavélum. Þar er talað um að „meðferð mjólkur sé í höndum bænda.“ (Karlmenn fóru líka að vefa þegar dönsku vefstólarnir komu).
Bergsteinn Kristjánsson skrifar um ýmsa þjóðhætti liðinna tíma í bókinni Fenntar slóðir. Í kafla sem heitir „Ull í fat og mjólk í mat“ segir hann frá mjöltum: Handmjaltir á kúm eru enn með svipuðu lagi og alltaf hefur tíðkast. Sá er einn munur að hinar svokölluðu togmjaltir eru lagðar niður, en nýtt og betra mjaltalag upptekið… .

Bjarnastaðasel

Stekkur í Bjarnastaðaseli (-bóli).

Ær voru alltaf mjólkaðar í opnum kvíum… . Þegar ærnar fóru að venjast mjöltunum og spekjast, röðuðu þær sér með veggjunum, og gat þá mjaltakonan gengið á röðina og mjólkað; hún stóð aftan við ána með fötu sína og mjólkaði annan spenann í einu… . Mjaltir í kvíum voru mjög óþrifalegt verk, einkum ef rigningar gengu og ærnar voru blautar og óhreinar, og geta má nærri, að erfitt hefur verið að halda mjólkinni hreinni. Við ærmjaltirnar fóru konur í hlífðarföt, sem geymd voru við kvíarnar (kvíaföt). Þetta batnaði nokkuð, þegar færigrindur voru uppteknar, því að þá voru þær settar upp á hreina jörð, og mátti altaf færa þær til, er völlurinn óhreinkaðist… .
Þegar mjólkin hafði verið sigtuð, var hún sett upp sem svo var kallað, það er að hún var látin í trog og byttur. Trogin voru grunn ílát með höllum hliðum og göflum, og þekkjast víða enn. Bytturnar voru einnig mjög grunnar og víðar, kringlóttar og gyrtar með vanalegu gyrði, en gat neðarlega á einum stafnum og tappi í. í þessum ílátum var mjólkin látin standa, minnst einn sólarhring, en stundum í þrjú dægur, en að þeim tíma liðnum átti rjóminn að vera sestur ofan á mjólkina. Þar, sem mikil var mjólk, þurfti mjög mikið af þessum ílátum, og hreinsun þeirra var mikið verk og krafðist mikillar vandvirkni og hreinlætis… .

Trog

Trog.

Þegar mjólkin hafði staðið áðurnefndan tíma, var rennt undan, sem svo var kallað, það er að undanrennan var látin renna úr ílátinu, en rjóminn var eftir. Úr byttunum var þetta auðvelt, því að þar var tappinn tekinn úr gatinu á stafnum og undanrennan látin renna þar úr. Úr trogunum var þetta dálítið erfiðara, en þá var undanrennan látin renna úr einu horni trogsins og þess varnað með hendinni að rjóminn rynni með.
Þá fer höfundur nokkrum orðum um það hvernig rjóminn var strokkaður: Þá sem nú þurfti rjóminn að vera í vissu hitastigi, ef smjörgerðin átti að ganga eðlilega fljótt og vera í fullu lagi, en þá var ekki hægt að grípa til hitamælis, svo að matseljan varð að finna það með fingri sínum, hvort strokkurinn var mátulega heitur; sömuleiðis heyrði hún á hljóðinu í strokknum, hvað langt var komið smjörgerðinni. Af því er komið hið alkunna máltæki um hljóð í strokknum, . . .

Rjómatrog

Rjómatrog.

Það er líka fróðlegt að heyra með hverju mjólkurílátin voru hreinsuð á þeim slóðum sem Bergsteinn var kunnugur: Til að þvo mjólkurílát voru notaðar þvögur, en þær voru ýmist úr fíngerðum rótum undan melgrasi eða úr hrosshári. Pottar voru fægðir með vikri eða sandi. Vikurs og melgrasróta var oft aflað í fjall- eða skógarferðum, því að óvíða var það að fá nærri bæjum.
Nýja mjaltalagið sem Bergsteinn segir að hafi verið tekið upp var kallað Hegelundsmjaltalag. Sigurður Pórólfsson kenndi það veturinn 1902—1903 í Reykjavík á allmörgum námskeiðum sem þar voru haldin á vegum Búnaðarfélags Íslands. Guðjón Guðmundsson búnaðarráðunautur kenndi ýmislegt um kýrnar og meðferð mjólkur. Mjaltaæfingarnar fóru fram í þrem bestu fjósum bæjarins. 8—10 stúlkur voru á hverju námskeiði sem stóð í tvær vikur. Margar þeirra voru í hússtjórnarskólanum og kvennaskólanum og var meirihluti þeirra úr sveit.

Mjólkurtrog

Mjólurtrog.

Trúlegt er að G.A., kona sem Halldóra Bjarnadóttir leitar til um upplýsingar um ostagerð í Austur-Skaftafellssýslu, hafi þekkt þvögur úr melgrasrótunum. En hún segir frá því hvernig móðir hennar hafði kennt henni að búa til osta:… . Það var notaður heimatilbúinn hleypir af kálfsvinstur, sem fyrst var blásin upp, hert, bleytt síðan upp í saltvatni. — Fyrst var mjólkin hituð, en ekki meira en svo, að maður þoldi vel niðri í henni með hendinni, þá var hleypirinn látinn út í og hrært vel í um leið. Þegar vel var hlaupið, var þetta vandlega hrært sundur með hendinni, síðan var hlaupið látið setjast á botninn, en því mesta af mysunni ausið ofan af, og osturinn tekinn saman með höndunum og látinn í mátulega stórt ílát og það mesta kreist úr honum af mysunni, og osturinn síðan pressaður t. d. eina nótt. Svo er hann tekinn úr pressunni og látinn í saltpækil (það má líka strá salti á hann, snúa honum, þegar saltið er runnið á efra borðinu, og salta þá hitt). Síðast er osturinn þurrkaður í hjalli í nokkra mánuði. Þess verður að gæta að láta ekki sól skína á ostana, snúa þeim oft við og færa þá til, og þvo þá úr saltvatni, ef skán sest á þá, sem helst vill verða í óþurrkatíð. — Ostarnir urðu góðir og jafnir í gegn með þessari aðferð.

Mjólurfata

Mjólkurfata.

Önnur orð eru til fyrir hleypi, lyf og kæsir. Viktoría Bjarnadóttir kemst svo að orði: Til skyrgerðar var notaður kæsir, en hann var búinn til úr innihaldi magans úr nýslátruðum kálfi. Var tekið úr kálfsmaganum strax og kálfinum hafði verið slátrað, og blandað saman við þetta volgri mjólk í nokkra daga og hrært saman og bundið yfir krukkurnar með þessu í. Síðan var þetta notað eftir tilsettan tíma. Reyndist þetta furðu gott efni til skyrgerðarinnar. Trúlega hefir hann verið þessu líkur kæsirinn sem verðlagður er í Búalögum hálfum eyri.
Viktoría talar um þá miklu vinnu sem er við mjólkina, hvernig trogin voru þvegin, sem notuð voru áður en skilvindur komu á bæina, og um búrin þar sem mjólkurtrogin stóðu. Smjör- og skyrgerð hafi verið mikil á þeim bæjum sem mörgu fé var fært frá því ólíkt meira fengist af smjöri og skyri úr sauðamjólk en kúamjólk. Og hún bætir við: „Hefi ég aldrei farið með búdrýgri mat en sauðamjólkina.“

Strokkur

Strokkur.

Hér á árum áður var landfrægt skyr sem kallað var Hvanneyrarskyr. Kristjana Jónatansdóttir ráðskona á Hvanneyri, sem átti heiðurinn að því skyri, segir frá skyrgerð sinni í Hlín árið 1934. Hún segist reyndar hafa lært hana sem unglingur heima og síðan af 30 ára reynslu.
Sem myndarleg húsfreyja hleypti Herdís Andrésdóttir í skyr og helti á grind, eins og hún orðar það í kvæði sínu, og strokkaði rjóma og breytti smjöri í sköku.
Mesta og besta vitneskju um skyrgerð veitir 5 blaðsíðna grein eftir Hólmfríði Pétursdóttur frá Arnarvatni í 19. júní árið 1960. Greinin er skrifuð af slíkri nákvæmni að vart verður betur gert. Hólmfríður segir ekki aðeins frá því hvernig best tekst að gera skyr heldur einnig frá ýmsu sem veldur því að skyrgerðin mistekst og hvernig þá er reynt að bæta úr. Mörg orð og orðatiltæki, sem fjöldi fólks hefir nú ekki hugmynd um hvað þýðir, koma að sjálfsögðu fyrir í greininni. Hólmfríður lýkur grein sinni með þessum orðum: Íslenska skyrgerðin er arfur frá liðnum kynslóðum íslenskra kvenna, kvenna, sem með hugkvæmni, skynsamlegri athugun og kostgæfni gerðu skyrið að þeirri kostafæðu, sem raun hefur á orðið, og lögðu um leið mikilvægan skerf til varðveislu hreysti og viðnámsþróttar íslenska kynstofnsins á liðnum öldum. Nú hafa íslenskar konur skilað þessum arfi af höndum sér.
Réttara væri þó að segja, að breyttir atvinnu- og þjóðlífshættir hefðu hrifið hann úr höndum þeirra. Vonandi ber þó þjóðin gæfu til að varðveita hann enn um aldir fram.”

Heimild:
-Vinna kvenna á Íslandi í 1100 ár, Anna Sigurðardóttir 1908 – 1996, útg. 1985, bls. 236-240 og 243-252.

Mjólkurfata

Mjólkurfata.