Tag Archive for: Selshellir

Hvaleyrarsel

Gönguleiðin um og í kringum Hvaleyrarvatn er tiltölulega greiðfær. Lagt er af stað frá bifreiðastæðinu syðst á Vatnshlíðinni, ofan brekkunnar norðan við Hvaleyrarvatn, gengið veginn niður að vatninu og inn á göngustíg til vinstri er liggur austan og sunnan þess. Þá er athafnasvæði Skógræktar Hafnarfjarðar og Húshöfði á vinstri hönd. Framundan er skáli Gildis-skáta, en sunnanvert við vatnið, hægra megin við stíginn, eru tóttir af seli, Hvaleyrarseli.

Hvaleyrarvatn

Hvaleyrarvatn – minjar (ÓSÁ).

Um Hvaleyrarsel segir eftirfarandi í samantekt Gísla Sigurðssonar um Líf og þjóðhætti í Hafnarfirði: “Selstöð átti Hvaleyri við Hvaleyrarvatn og þar höfðu bændurnir haft í seli frá fornu fari. Sér enn tættur seljanna við sunnanvert vatnið. Þau hjón Jón [Magnússon] og Þórunn [Sigurðardóttir (bjó á Hvaleyri 1866-1868 og í Gestshúsum1869-1973] héldu uppteknum hætti Hvaleyrarbænda og höfðu í seli á sumrum við Hvaleyrarvatn. Höfðu þau þar jafnan selsstúlku og smala.

Hvaleyrarvatn

Hvaleyrarvatn.

Annaðist selstúlkan mjaltir á málum og matargerð úr mjólkinni auk matargerðar fyrir þau og þjónustubrögð. En smalinn hélt fé í haga og annaðist heimflutning selsafurða. Nú bar svo til kvöld nokkurt, að er smalinn kemur á stöðul, lætur selstúlkan ekki sjá sig. Smalinn kvíar því ánum einn. Gengur síðan heim í sel að skyggnast eftir stúlkunni og finnur hana hvergi. Gengur því heiman frá seli og niður að vatni og vestur með því. Ekki hafði hann lengi gengið, er hann finnur stúlkuna rétt við vatnsbakkann heldur illa útlítandi. Var hún rifin á hol, eins og eftir óargadýr og traðk mikið þar í kring eftir hringmyndaða hófa stóra. Þóttist smalinn vita hvað valdið hafði dauða selstúlkunnar, því sögur hafði hann heyrt um að nykur væri í Hvaleyrarvatni og væri annað árið þar og hitt í Urriðakotsvatni. Smalinn varð flemtri sleginn og tók á rás heim til bæjar á Hvaleyri. Var brugðið við skjótt og lík selstúlkunnar sótt og það jarðsett að Görðum. Uppfrá þessu lögðust niður selfarir við Hvaleyrarvatn. En oft mátti sjá grábleikan hest á beit í Seljahrauninu eftir þetta. þau urðu endalok nykursins, að hann fraus í hel frostaveturinn mikla 1918”.

Hvaleyrarvatn

Stekkur á Selshöfða.

Auðvelt er að finna gömul sel á hraunsvæðum með því að svipast um eftir kennileitum. Þau voru oft við brunna, ár eða læki – og í nágrenninu er yfirleitt að finna kví, stekk, nátthaga og/eða náttskjól, auk graslendis umhverfis.

Hvaleyrarvatn

Hvaleyrarvatn um 1960 – Skátalundur nýbbyggður. Mynd ÓKG.

Við stærri sel smá sjá grjótgarða og jafnvel fjárhella. Selshúsin voru yfirleitt tvískipt, annars vegar vistarvera og geymsla og hins vegar eldhús. Allnokkur sel eru í nágrenni Hafnarfjarðar, s.s. Fornasel, Gjásel, Straumssel, Óttarstaðarsel, Lónakotssel og vestar Hvassahraunssel, Knarrarnessel og Brunnastaðasel, auk seljanna í Sogagýg og á Selsvöllum, en þar voru sel frá bæjum í Grindavík. Í Þrengslunum sunnan Selsvalla er Hraunssel frá Hrauni við Grindavík. Í nágrenninu eru auk þess nokkrar fallegar fjárborgir, s.s. Hólmsborg, Þorbjarnarstaðarfjárborg, Óttarstaðarfjárborg og Staðarborg í Vogum.

Hvaleyrarvatn

Stekkur í Seldal.

Þegar komið er við vesturenda Hvaleyrarvatns er beygt suður götuslóða, sem þar er, í átt að Seldal. Á hægri hönd er Selhraun. Þegar horft er til norðvesturs má sjá hraunhól í lægðarsvæði, en í hólnum er op til vesturs. Þar var tófugreni s.l. sumar.

Hvaleyrarvatn

Tjaldað við vesturenda Hvaleyrarvatns fyrrum. Mynd; EJ.

Götuslóðanum er fylgt upp vesturöxlina á Selhöfða (á vinstri hönd) og Seldalurinn á milli hans og Stórhöfða blasir við. Vel má sjá hversu landið hefur blásið burt, en Skógrækt Hafnarfjarðar hefur plantað talsverðu af trjám með vegslóðanum inn dalinn. Úr Stórhöfða kom Stórhöfðahraun vestan og sunnan við höfðann. Þegar komið er upp á Langholtsásinn er Miðhöfði í austur og Fremstihöfði í suðaustur. Gengið er beint áfram, út af veginum, niður ásinn að sunnanverðu og áfram með hraunkantinum framundan að Kaldárseli. Á leiðinni er fallegur hraunskúti undir klettavegg á vinstri hönd. Áður en komið er að Kaldárseli er gengið að farvegi Kaldár þar sem hún sést hverfa niður í hraunið, en áin er u.þ.b. 1100 metra löng í venjulegu árferði frá upptökum sínum í Kaldárbotnum, vatnsbóli Hafnfirðinga. Í þurrkatíð styttist hún til muna.

Hvaleyrarsel

Hvaleyrarsel – uppdráttur ÓSÁ.

Talið er að áin renni neðanjarðar þaðan sem hún hverfur niður í hraunið og komi undan Hvaleyrarhrauni í Hraunsvík austan Straumsvíkur. Hæðarmismunur á yfirborði Kaldárbotna og grunnvatnsins vestan við Kaldárhnúk er sem næst 20 m. Orsök þessa mismunar er misgengi er liggur eftir undirhlíðum og noðrur um Búrfell. Það hefur hindrað grunnvatnsstreymið, lokað leið þess vestur og þvingað vatnið upp á yfirborðið. Þegar langvarandi úrkoma hefur verið kemur vatnið líka upp á yfirborðið í Helgadal austan undir misgenginu, en eftir langvarandi þurrkatímabil hverfur Kaldá sjálf stundum alveg. Í Helgadal er talið að byggð hafi verið fyrrum.

Lambagjá

Vatnsleiðsluundirhleðsla yfir Lambagjá.

Þegar komið er að veginum er rétt að fylgja honum framhjá fjárréttinni og beygja þá til vinstri eftir gamla veginum að brekkunni. Áður en komið er að henni er beygt út af veginum til hægri, eftir Lambagjá. Gjáin er friðlýst. Í gjánni er komið að mikilli fyrirhleðslu þvert yfir hana. Þetta er hleðsla undir vatnsleiðslu, sem þarna lá áður fyrr. Fara þarf upp með hleðslunni, niður aftur hinum megin og fylgja gjánni. Á leiðinni er farið undir haft og upp hinum megin. Þegar komið er í enda þess hluta gjárinnar þarf að ganga upp úr henni, en enn ein sigdældin er handan hennar. Síðar verður fjallað um hella austar í hrauninu, en niðri í einum þeirra má auðveldlega sjá kristaltært bergvatnið við jaðar misgengisins, sem getið var um.

Hvaleyrarvatn

Sumarhús í Vatnshlíð um 1960.

Í austri má sjá Búrfell, Húsfell í suðaustri og Helgafell (338 m. yfir sjó) í suðri. Á milli fellanna eru Valahnjúkar.
Þegar þarna er komið er beygt til norðurs og gengið austur fyrir Klifsholtið með Smyrlabúðarhrauni. Þá er komið inn á gömlu Selvogsgötuna er var þjóðleiðin á milli Selvogs og Hafnarfjarðar. Hún er u.þ.b. 10 klst ganga frá upphafi til enda. Erfiðasti hluti leiðarinnar, en jafnframt sá fallegasti, er um Grindarskörðin (Kerlingaskarð). Um hana verður fjallað síðar.
Selvogsgötunni er fylgt til norðurs, með hraunkantinum, framhjá Smyrlabúð og niður að Hvatshelli og Ketshelli (Kershelli). Hlíðin framundan á hægri hönd heitir Setbergshlíð.

Hvatshellir

Hvatshellir – uppdráttur ÓSÁ.

Op Hvatshellis er í jarðfalli þegar halla fer undan og útsýni er yfir að hesthúsabyggðinni austan við Húshöfða. Fallega hlaðin varða stendur á barminum. Neðar má sjá graslendi er bendir til fjárhalds og þar í hraunhól er hellir (Ketshellir). Hann var notaður sem fjárból frá Setbergi meðan fjárbúskapur var rekinn þar og útbeit mest stundið. Ganga má í gegnum hellinn. Hleðslur er beggja vegna en auðveldlega er hægt að ganga þar í gegn ljóslaus. Hvatshellir er mun stærri. Á vetrum hanga bæði grýlukerti úr lofti og standa á gólfi hans. Í ljósadýrt getur verið mjög fallegt þar að líta.

(Sagnir eru um að Hvatshellir sé ofar, austar og norðar í hrauninu, og hafi tapast, en hann var áður samkomustaðar félagsskaparins Hvatar, en félagsmeðlimir eru sagðir hafa málað nafn hans gylltum stöfum á hvelfingu eða gólf hellisins, sbr. grein Ólafs Þorvaldssonar í Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1943-48).

Lokaáfanginn er skáhallt yfir hraunið til norðvesturs að Kaldárselsvegi. Sú leið er einnig tiltölulega greiðfær ef fylgt er grónum lægðum, sem þar liggja. Loks er hægt að ganga veginn að bifreiðastæðinu á Vatnshlíðinni.
Góða ferð.

Hvaleyrarvatn

Hvaleyrarvatn.