Tag Archive for: Selskógur

Selskógur

Selskógur er afurð Skógræktarfélags Grindavíkur í norðurhlíðum Þorbjarnarfells (Þorbjarnar) ofan Grindavíkur.
Selskogur-61Stofnun Skógræktarfélags Grindavíkur má rekja aftur til ársins 1939. Þá varð Ingibjörg Jónsdóttir sextug og kvenfélagskonur stofnuðu sjóð henni til heiðurs. Ingibjörg ákvað að verja honum til þess að koma upp skógrækt í Grindavík. Fékk hún landið í norðurhlíðum Þorbjörns og þegar hún plantaði fyrstu hríslunum, vorið 1957, gaf hún svæðinu nafnið Selskógur. Skógræktarfélag Grindavíkur var síðan stofnað um haustið.
Ingibjörg Jónsdóttir var stofnandi Skógræktarfélags Grindavíkur og var annt um að gróðursetja í Grindavík á árum áður. Hún var ritari og síðar formaður kvenfélagsins og á árinu 1939 þegar hún varð sextug stofnuðu kvenfélagskonur sjóð henni til heiðurs. Ingibjörg ákvað eftir umhugsun að verja sjóðnum í að koma upp skógrækt í Grindavík. Ráðfærði hún sig við skógræktarstjóra ríkisins sem taldi landið við Þorbjörn vel til þess fallið að rækta upp skóg. Á árinu 1957 var svo gróðursett birki og gróðursetti Ingibjörg fyrstu plöntuna.
Selskogur-8Eftirfarandi er úr ávarpi formanns kvenfélagsins, Laufeyjar Guðjónsdóttur frá Ásgarði, á afmælisfundi félagsins árið 1963: „Þann 24. nóvember 1923 fyrir réttum 40 árum var Kvenfélag Grindavíkur stofnað. Aðal hvatakona að stofnun félagsins var fr. Guðrún Þorvarðardóttir í Ási. Stofnfund félagsins sátu 23 konur úr Járngerðarstaða- og Þórkötlustaðarhverfi í Grindavík.
Fyrstu stjórn félagsins skipuðu frú Guðrún Þorvarðardóttir i Ási, formaður, frú Ólafía Ásbjarnardóttir í Garðhúsum gjaldkeri og frú Ingibjörg Jónsdóttir, kennari, ritari. Stjórninni var á stofnfundinum falið að semja lög fyrir félagið og tilnefndi hún sér til aðstoðar frú Katrínu Gísladóttir frá Hrauni. Á öðrum fundi félagsins voru lög þess samþykkt. Á þeim sama fundi gengu þrjár konur í félagið. Í ársbyrjun 1925 voru 34 konur skráðar í félagið. Eða mikill meirihluti allra giftra kvenna í Grindavíkurhreppi.
Selskogur-223Þ
ess má geta að í dag eru um 140 konur skráðar meðlimir. Á þriðja fundi félagsins var kosin varastjórn, í henni áttu sæti frú Jóhanna Árnadóttir, varaformaður, frú Katrín Gísladóttir vararitari og frú Margrét Jónsdóttir varagjaldkeri. Á þeim sama fundi ber María Guðmundsdóttir á Hlíð upp tillögu þess efnis að eitthvað verði gert til að gera fundina skemmtilega til dæmis með því að lesa upp skemmtilegar og fróðlegar sögur eða syngja falleg kvæði. Þetta er viturleg tillaga, því að fátt er líklegra til að halda saman góðum félagsskap en skemmtilegir og líflegir fundir.
Ekki er ár liðið frá stofnun félagsins þegar Ingibjörg Jónsdóttir heldur framsöguræðu um garðrækt. Hvetur hún konur félagsins til að gera tilraun með að rækta nytjajurtir og blóm. Á sama fundi sem haldinn var 16. maí 1924 vakti Ingibjörg einnig máls á því hvort ekki væri möguleiki á því að félagið keypti spunavél sem það svo starfrækti. Báðar þessar uppástungur Ingibjargar sýna hve holl og skynsamleg áhugamál Kvenfélagsins voru þegar á byrjunarstigi.
María Geirmundsdóttir á Hliði bar á sama fundi upp tillögu um að Kvenfélagið gengist fyrir því að 19. júní yrði haldinn hátíðlegur og hvatti til þess að haldin yrði útiskemmtun á Baðsvöllum. Mun þarna vera að finna fyrsta vísinn að hinum rómuðu útiskemmtunum sem Kvenfélagið stóð fyrir og haldnar voru við Svartengisfell í Grindavík um margra ára skeið og frægar urðu um allar nærliggjandi sveitir.
Ánægjulegt hefði verið að mega enn sjá hér meðal okkar í kvöld þá konu sem lengst, drýgst og óeigingjarnasta starf hefur unnið í okkar hopi — Ingibjörgu Jónsdóttir, en Ingibjörg heldur nú til á Dvalarheimili aldraðra sjómanna i Reykjavík. Henni óskum við allar langrar og bjartrar ævi.“
Nafnið Selskógur má rekja til gamalla seltófta sem enn má sjá á skógræktarsvæðinu. Margir Grindvíkingar kannast við að hafa gróðursett plöntur í hlíðum Þorbjarnar í skóginum hennar Ingibjargar en á sjöunda og áttunda áratugnum a.m.k fóru grunnskólabörn ár hvert og gróðursettu.
Félagið lagðist í dvala árið 1988 en það var svo vaskur hópur skógræktaráhugafólks sem tók sig til og endurvakti félagið 2006. Frá því 2006 hafa verið gróðursettar um 6000 plöntur.
Guðbjörg Ásgeirsdóttir, verðandi formaður Skógræktarfélags Grindavíkur og virkur meðlimur í Kvenfélagi Grindavíkur, tók eftirfarandi saman um Selskóg úr gömlum fundargerðum Kvenfélagsins.
„Í fundargerð Kvenfélags Grindavíkur 24. okt. 1956 má sjá að Ingibjörg Jónsdóttir hafi fengið orðið til að skýra frá sjóði er kallaður var „Ingibjargarsjóður“ og stofnaður hafði verið í tilefni af 60 ára afmæli hennar. Henni hafði dottið í hug að vekja athygli á að koma upp skógi í Grindavík. Hafði henni dottið í hug staður norðan ÞSelskogur-224orbjarnarfells. Fékk hún landið til afnota frá landeigendum. Ætlunin var að koma upp girðingu um haustið, en vírnet var þá ekki fáanlegt.
Þann 4. júní 1957 er getið um að búið væri að koma upp smágirðingu, sem að vísu var bara til bráðabrigða þar sem meira efni var ekki til að svo stöddu. Búið var að setja niður 1200 plöntur. Þá var nokkurn veginn búið að ganga frá undirbúningi að stofnun Skógræktarfélags Grindavíkur. Ætlunin var að starfrækja það á vegum Kvenfélagsins með stuðningi hreppsins og fyrirgreiðslu frá Skógrækt ríkisins. Hafði skógræktarsvæðið hlotið nafnið Selskógur, „sem væri viðeigandi þar sem í skógræktinni væru gamlar seltóftir“.“
Jóhannes Vilbergsson, núverandi formaður Skógræktarfélags Grindavíkur sagði að starfssemin hefði fallið niður um tíma en félagið verið endurstofnað árið 2006. Meðlimir væru í Selskogur-225kringum 40 manns.
„Það er búið að planta rúmlega 20 þúsund plöntum frá 2006 megnið á norður og suðurhlið Þorbjarnar.
Árið 2008 vann skógræktarfélagið í samvinnu við Landsvirkjun að átakinu „Margar hendur vinna létt verk“ og þar voru búnir til göngustígar, hreinsað frá ungum plöntum og áburður borin á. Einnig var plantað fleiri plöntum.
Árið 2009 sótti Skógræktarfélagið um þátttöku í atvinnuátaki Skógræktarfélags Íslands. Við komumst að í því átaki og fengu 10 manns vinnu við það um sumarið, við að setja niður plöntur og bera áburð á eldri plöntur ásamt því að stígar voru lagfærðir o.m.fl.
Árið 2010 endurnýjuðum við samninginn og 20 manns komu að starfinu það sumarið.
Selskogur-226Árið 2011 vildi Grindavíkurbær ekki taka þátt í atvinnuátakinu svo minna hefur gerst þetta árið.
Fyrsti hluti af grisjun skógarins hefur farið fram, og hefur það verið í höndum fagmanna frá Skógræktarfélagi Íslands.
Hefur Skógræktarfélag Grindavíkur sótt um þetta frá endurstofnun félagsins, og loksins fengum við grisjunina.
Grisjun skógarins bætir skóginn og sólarljósið kemst niður í skógarbotninn, og öll trén sem eftir verða fá að njóta sín betur.
Grunnskólinn hefur í mörg ár plantað græðlingum og Leikskólinn Krókur hefur einnig sett niður svolítið af plöntum.
Allir eru velkomnir að taka þátt í starfi Skógræktarfélags Grindavíkur því það er okkar allra hagur að Selskógur sé útivistarparadís Grindavíkur.“

Selskogur-227Jóhannes sagði að markmið Skógræktarfélags Grindavíkur væru mörg, m.a. að bæta aðkomuna að Selskógi sem er ekki góð eins og hún er í dag, gera göngustíga, grisja og gera skóginn að betra útivistarsvæði Grindvíkinga. Von félagsins er að fá að planta trjám í trefil utan um Þorbjörn og láta gera góða gönguleið þar í kring og til bæjarins.
Í aðalskipulagi Grindavíkur segir m.a.: „Selskógur í Þorbirni hefur verið ræktaður upp þó skógrækt ríkisins hafi mælt eindregið gegn skógrækt á flatlendi utan byggðar á Suðurnesjum. Þrjú skógræktarsvæði hafa talist hæf til skógræktar og er Selskógur eitt þeirra. Skógræktarfélag Grindavíkur sér um Selskóg og hefur unnið að ræktun þess myndarlega skógar sem nú er fyrir hendi. Félagið gerðist aðili að Skógræktarfélagi Suðurnesja til þess að tryggja plöntur á vægu verði frá Skógrækt ríkisins. Nú eru Selskogur-228hin myndarlegustu grenitré í nokkrum aðskyldum lundum og svo þéttur að þegar hefur myndast skógarbotn í þeim.“ Framangrein kemur fram í greinargerð með aðalskipulagi Grindavíkur fram til ársins 2020.
Að sögn Kristán Bjarnasonar, skógræktarmanns, er Selskógur ekki ræktaður á flatlendi, nema þá að mjög litlu leyti, þannig að það virðist vera mótsögn í textanum. Þá er það að Skógrækt ríkisins mæli eindregið gegn skógrækt á flatlendi utan byggðir. Síðan að „aðeins þrjú svæði á Suðurnesjum henti til skógræktar“ hefur ekki verið fjallað um fyrr af hálfu Skógræktarinnar.
Í Jarðabókinni 1703 segir að „selstöðu hefur jörðin og brúkar enn nú þar sem heita Baðsvellir, og kvarta menn um að þar sjeu hagar ofurlitlir og þröngvir. Item sje þar stórt mein að vatnsleysi, þá þeirrar eru, og fyrir þessa lesti selstöðunnar segja menn fulla nauðsyn til að kaupa selstöðu annarsstaðar. Þessa brúkar bóndinn aleinn.“

Selskogur-400

Sagt er að Baðsvellir dragi nafn sitt af því, að þar hafi ræningjar baðað sig. Alveg niður við hraun er hallandi graslendi. Þar er slétt laut, Kvíalág. Þar með hrauninu eru tvennar seltættur og hóll. „Þar austan við heitir Stekkjarhóll,“ segir í örnefnaskrá. Rústirnar eru undir Þorbirni norðanverðum, í hraunjaðri, vestan við skógarrjóður. Syðst er þyrping, 5 hólf og klettur í miðjunni, sem hólfin raðast utan um. Þar norðan af er önnur tóft, tvö hólf. Norðan við þessa tóft eru tvær tóftir til viðbótar. Trjám var plantað í eina megintóftina.
Við Stekkjarhól eru greinilegar og mjög grónar tóftir. Þær eru norðaustan í skógarjaðrinum. Norðaustan við aðra tóftina er 2 m djúp hola. Hún er nær hringlaga. Sunnan við vegarslóða þar við er önnur hola, 1 m djúp, e.t.v. brunnur. Í skógarjarðrinum, sunnan brunnsins, er önnur tóft. Norðar eru mannvistarleifar í lágum hraunhól.

Selskogur-6

Í þjóðsögu frá þessu svæði segir: „Skammt fyrir ofan byggðina í Grindavík er fjall, sem heitir Þorbjarnarfell, – oftast nefnt Þorbjörn. Í toppi þess er hamragjá, sem heitir Þjófagjá. Er svo sagt, að þar hafi einu sinni hafst við fimmtán þjófar, sem lögðust á fé Grindvíkinga. Eigi sáu byggðarmenn færi á að vinna þá fyrr, en bóndason frá Hópi tókst á hendur að svíkja þá. Hann fór til þeirra, sór þeim trúnaðareið og var með þeim um hríð. Hann varð þess vís, að þeir fóru hvern laugardag í bað í laug þeirri, sem er á Baðsvöllum norðan undir fjallinu. Einn gætti klæða þeirra, meðan þeir voru í baðinu, og gerðu þeir það til skiptis. Svo kom, að þeir trúðu bóndasyni fyrir að geyma föt sín. Þá sneri hann um annarri skyrtuerminni og annarri brókarskálminni hjá þeim öllum og hljóp síðan, sem fætur toguðu, til bæja. Það fór eins og hann ætlaðist til; þjófunum varð tafsamt að komast í föt sín, og ekki fóru þeir nema í nærklæðin og eltu hann síðan, en náðu honum ekki. Urðu þeir mjög sárfættir í grjótinu. Nú þustu byggðarmenn að þeim, og gátu þeir ekki komist undan. Voru þeir allir teknir höndum og hengdir þar, sem síðan heita Gálgaklettar. Bóndasonurinn varð ólánsmaður, en eigi er getið, hvað fyrir hann kom.“
Enn má sjá bæði Þjófagjá í Þorbirni og baðstaðinn á Baðsvöllum, auk Gálgaketta í austri.

Selskogur-230

Þegar gengið var um Selskóg þessa kvöldstund voru mannvistarleifarnar, selstöðurnar, m.a. skoðaðar. Þegar betur var að gáð komu í ljós áður óþekktar minjar inni í skóginum norðvestan Stekkhóls, en svo heitir hóllinn neðst í núverandi skógarlundi. Um var að ræða heilstæð selstaða með þremur rýmum, auk stekkjarins, sem hóllinn hefur verið nefndur eftir.
Hugmyndir eru uppi um að byggja upp dæmigerða selstöðu á Baðsvöllum. Hún yrði fulltrúi 286 slíkra, sem enn má sjá í fyrrum landnámi Ingólfs.
Rétt er að nota tækifærið og vekja athygli á því, með fullri virðingu fyrir því sem þegar hefur verið gert í skógrækt, að Selskógur er dæmi um kapp án mikillar fyrirhyggju. Staðsetningin er að vísu ágæt, í nágrenni bæjarins, en að teknu tilli til hinna fornu mannvistarleifa á svæðinu hefði mátt huga betur að þeim áður en plantað var trjám á svæðið. En nú, þegar verið er að grisja skóginn, skapast ágætt tækifæri til að endurheimta minjar þær að einhverju leyti, sem þegar hefur verið plantað í trjám.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 1 mín.

Heimildir m.a.:
-Morgunblaðið, þriðjudaginn 17. október, 2006.
-grindavik.is
-Grindavíkurbær – GRINDAVÍK aðalskipulag 2000 – 2020.
-Morgunblaðið, 8. desember 1963, bls. 18.
-Fundargerðir Kvenfélags Grindavíkur.
Guðbjörg Ásgeirsdóttir.
-Jóhannes Vilbergsson, formaður Skógræktarfélags Grindavíkur

Baðsvellir

Baðsvellir – Selskógur.


.