Tag Archive for: selstöður

Litla-Botnssel

FERLIR hefur löngum fjallað um seljabúskap á Reykjanesskaganum – m.a. lýst öllum 401 seljunum, sem þar er að finna, gerð þeirra og sérstöðu, aldri m.t.t. heimilda o.s.frv.

Knarrarnessel

Knarrarnessel – uppdráttur ÓSÁ.

Í riti Landbúnaðarháskóla Íslands nr. 131 skrifar Bjarni Guðmundsson um seljabúskap, bæði út frá staðbundinni athugun hans á seljum í Dýrafirði sem og almenn út frá sögum og sögnum. Þar segir m.a.:

„Dalabotnarnir voru alsettir seljum“, fyrirlas Páll Zóphóníasson nemendum sínum á Hvanneyri veturinn 1919-1920, „og enn má sjá þess ljós merki af tóftunum sem nú standa sem menjar um horfna frægð, því frægð var það að hafa manndóm í sjer til að hafa fjenað í seljum.“

Seljahugtakið hefur með árunum fengið á sig eilítið rómantískan blæ, ef til vill vegna ýmissa þjóðsagna sem seljum eru tengdar, legu þeirra í víðernum og frjálsræði fjarri byggð en sjálfsagt einnig vegna erlendra áhrifa, einkum frá Noregi, þar sem þessi búskaparháttur tengist í hugum margra fögru landslagi og sællegum selstúlkum. Ýmsir kannast t. d. við lag Ole Bull, Sunnudagur selstúlkunnar, leikrit Riis: Upp til selja, sem mjög var vinsælt hérlendis á fyrri hluta síðustu aldar, og fleira mætti nefna úr flokki rómantískra lýsinga. Skáldið Snorri Hjartarson orti til dæmis kvæði sem er verðugur fulltrúi þeirra, kvæði sem hann nefndi „Mig dreymir við hrunið heiðarsel“:

Nærsel

Nærsel – uppdráttur ÓSÁ.

Mig dreymir við hrunið heiðarsel: heyri ég söng gegnum opnar dyr, laufþyt á auðum lágum mel? Líf manns streymir fram, tíminn er kyr. Allt sem var lifað og allt sem hvarf er, það sem verður dvelur fjær ónuminn heimur, hulið starf; hús þessa dags stóð reist í gær.

Við göngum í dimmu við litföl log í ljósi sem geymir um eilífð hvað sem er, og bíður. Fuglinn sem flaug framhjá er enn á sama stað. Veruleiki selfólksins hérlendis og sennilega einnig í nágrannalöndum okkar mun þó ekki aðeins hafa verið gleði og rómantík. Víða var seljabúskapurinn hluti þess að komast af við þröng kjör og óblíða náttúru fyrri alda; enginn leikur heldur bláköld og oft mjög erfið lífsbarátta.

Selin í sögu og lögum
Seljabúskapur er eitt af einkennum fornrar norrænnar kvikfjárræktar. Sel og selför voru hluti hins dreifbæra (extensive) búskapar sem einkenndi hana. Hann var og er einnig þekktur í Alpahéruðum Evrópu, í Skotlandi, Írlandi og raunar í fleiri hornum heimsins (summer farming). Seljabúskapur var leið til þess að nýta fjarlæg en oft kostamikil beitilönd, gjarnan ofan skógarmarka, til framleiðslu mjólkur á hásumri með sauðfé, kúm og geitum. Mjólkin var unnin í ýmsar afurðir til heimaneyslu um ársins hring en gat einnig verið liður í öflun nauðsynlegs gjaldmiðils t. d. smjörs upp í land- og gripaleigu. Seljabúskapur á einu eða öðru formi á sér fornar rætur er rekja má langt aftur til járnaldar. Þrennt mótaði seljabúskapinn: búfé, fólk og landkostir, einkum beitarkjörin.

Hraunssel

Hraunssel – stekkur.

Margar rannsóknir hafa verið gerðar á seljum og seljabúskap. Það eru ekki síst Norðmenn sem þar hafa verið afkastamiklir enda búhátturinn mjög algengur þar í landi. Hér verða þeim rannsóknum ekki gerð sérstök skil heldur látið nægja að vísa til yfirlitsverka, svo sem þriggja binda verks Lars
Reinton um sel og selfarir; skipulag, verklag og lið í framfærslu. Þá hefur Karoline Daugstad fjallað um sel og selfarir í margbreytilegum formum sem mótandi þátt menningarlandslags svo og vitundar fólks og viðhorfa frá starfrænum og ekki síst fagurfræðilegum sjónarmiðum í listum og menningu.
Reinton skilgreindi hinn norræna seljabúskap (sæterbruk) þannig: „Sæterbruk er det når ein gard (ein fast vinterbustad) har krøtera sine i sumarbeite på ein stad eit stykke frå garden der det er husvære og fast personale, så ein kan nytta ut større vidder til beite, som regel òg til slått og onnor fórsanking, og så ein kan spara på heimemarkene og nå i betre beite, føde fleire krøter over vinteren og skaffe forråd til levemåten på den faste bustaden (garden)“.

Hraunssel

Hraunsselsstígur.

Með nokkurri einföldun má segja að tvær kenningar hafi einkum staðið um upphaf og þróun hins norræna seljabúskapar: Fyrst sú að seljabúskapurinn hafi þróast úr hjarðmennsku (nomadism) og eigi sér rætur í hinum indóevrópska frumbúskap og fyrstu búsetu jarðyrkjufólks. Reinton var einkum talsmaður þeirrar kenningar en verk hans var lengi vel miðlægt í norrænni seljaumræðu. Hin kenningin er sú að seljabúskapur hafi á löngum tíma einkum þróast sem svæðabundið svar við breytilegri þörf fyrir beitilönd og fóður. Svo virðist sem síðari kenningin njóti nú meira fylgis þótt í raun séu þær sprottnar af sömu rót – þörfinni fyrir hagkvæma nýtingu takmarkaðra beitilanda til öflunar lífsnauðsynlegs matarforða. Þótt álitið sé að vestur-norskir landnámsmenn hafi fært seljabúháttinn með sér til Íslands og mótað hann í fyrstu með hliðsjón af eigin reynsluheimi og áþekkum umhverfisaðstæðum virðist hátturinn hafa þróast með ólíkum hætti í löndunum tveimur.

Arahnúkasel

Arahnúkasel.

Cabouret segir Frostaþingslög geyma orðið sel í sömu merkingu og hin 200 árum yngri lög nota orðið setur/sætr. Upphaflega merkti sel aðeins lítið einsrýmis hús en setur dvalarstað. Það síðara taldi hann fela í sér hlutverkaskiptara mannvirki fyrir fólk og fé og til framleiðslu mjólkurafurða. Ennfremur að það benti til þess að það hafi fyrst verið á hámiðöldum sem norski seljabúskapurinn var fullþróaður. Að baki því áleit Cabouret liggja byggðaþróun sem ýtti búfjárhaldi að sumarlagi það langt frá býlinu að hverfa varð frá mjaltastað svo nærri býli að í mesta lagi þurfti dálítið sel til næturhvíldar, ef fjarlægðin heim var þá ekki orðin það mikil að frágangssök var að fara heim á milli morgun- og kvöldmjalta.

Vífilsstaðasel

Vífilsstaðasel – uppdráttur ÓSÁ.

Cabouret benti á að það var aðeins heitið sel sem fluttist til Íslands, og að þess vegna megi reikna með því að þetta form seljabúskapar hafi verið hið algenga í Vestur Noregi við landnám Íslands. Þegar støl/stöðull varð algengt heiti selja í Vestur Noregi bendir það til hins sama. Orðið táknar mjaltastað, upphaflega án búsetu. Á Íslandi er orðið aðeins þekkt í hinni upphaflegu merkingu, sem mjaltastaður. Það taldi Cabouret benda til þess að merkingar-breytingin hafi fyrst orðið í Noregi eftir fólksflutningana til Íslands.

„Hve afarmikla þýðingu selin hafa haft á fyrri öldum, sést af hinum óteljandi seljarústum, sem eru dreifðar um afdali og heiðar um alt Ísland“, skrifaði Þorvaldur Thoroddsen árið 191912 en hann er líklega sá, ásamt þjóðverjanum Hitzler, sem lengi vel átti rækilegasta yfirlitið um sel og selstöður á Íslandi.

Kolhólasel

Kolhólasel – uppdráttur ÓSÁ.

Annars eru innlendar heimildir eru býsna ríkulegar. Þær byggjast bæði á sérstökum sagnfræði- og fornleifarannsóknum, sem gerðar hafa verið, sem og almennum frásögnum af seljum og seljabúskap í einstökum sveitum. Til viðbótar þeim heimildum, sem þegar hafa verið nefndar, má úr fyrri hópnum sérstaklega nefna rannsóknir þeirra Guðrúnar Ólafsdóttur og Guðrúnar Sveinbjarnardóttur en úr þeim síðari til dæmis verk Eyfirðingsins Hólmgeirs Þorsteinssonar og Skaftfellingsins Einars H. Einarssonar. Þá ber úr þeim flokki að nefna afar athyglisverða heimasíðu með fróðleik um sel, selstöður og seljabúskap á Reykjanesskaganum. Þá birti Benedikt Eyþórsson samantekt um seljabúskap á Íslandi og í norrænu ljósi í tengslum við rækilega rannsókn sína á búskap og rekstri Reykholtsstaðar fyrr á öldum. Beitarbúskapurinn, sem var grunnur að rekstri seljanna, gegndi miklu hlutverki í norrænum heimi, jafnvel svo að á vissum tíma sögunnar, svo sem á víkingaöld, hafa fræðimenn talið að [góðir] hagar hafi verið meginuppspretta auðs og valda.

Njarðvíkursel

Njarðvíkursel.

Höfundur Laxdæla sögu notar heitið sel um hin einstöku hús svo sem talin er hafa verið hin upphaflega merking orðsins. Við stympingar í Vatnshornsseli rifu árásarmenn „ræfrit af selinu“ en „selit var gert um einn ás, ok lá hann á gaflhlöðum, og stóðu út af ásendarnir, og var einart þak á húsinu ok ekki gróit.“ Orðalagið einart þak má í þessu samhengi skilja sem þak einfaldrar gerðar. Frásögnin bendir til þess að yfir selhússveggina hafi verið reft með einföldum hætti, hugsanlega aðeins til sumars í senn. Ekki er fráleitt að takmörkuð árleg notkun selhúsanna, og það á hlýjasta tíma sumars, hafi ýtt undir það að húsagerðin væri höfð einföld og að efni til þeirra væri sparað, til dæmis hvað snerti burðarviði þaks og árefti.

Hlíðarsel

Hlíðarsel – uppdráttur ÓSÁ.

Í lögbókunum fornu, Grágás, lagasafni íslenska þjóðveldisins, og Jónsbók, sem samþykkt var á Alþingi árið 1281, er allvíða vikið að seljum og selförum. Er það mjög til marks um mikilvægi seljanna á gildistíma lögbókanna. Lögin geyma ýmis atriði varðandi umgengni um sel og selstöður svo og selfarir, atriði sem varpa gagnlegu ljósi á forsendur og framkvæmd þessa búháttar. Hér verður því nokkurra ákvæða lögbókanna getið með beinum tilvitnunum í texta þeirra:

Úr Grágás (tölur vísa til blaðsíðu)

20: Manni er rétt að fara, þótt drottinsdagur sé, til sels með byttur . . .

319: OF SELFÖR. Ef maður hefir lönd fleiri undir bú sitt en eitt, og vill hann fara þar í sel yfir annars manns land, og á hann þar að fara með fé sitt tysvar á sumri til sels, en því aðeins oftar ef þar verða misgöngur fjár, þá á hann að reka heim smala sinn. Hann á fornar götur að fara, ef þær eru til.

Nessel

Nessel – uppdráttur ÓSÁ.

Ef hann fer of engi manns, þá skal hann í togi hafa hið lausa hross. Ef þar eru keldur á götu hans, og á hann að gera brúar þar yfir og vinna þau áverk á annars manns landi. Ef maður fer yfir engi annars, og hlýtur hinn af því skaða, þá varðar honum það útlegð, enda skal hann bæta honum skaða, svo sem búar fimm virða við bók.

320: ENN OF SELFÖR. Ef maður fer annan veg til sels of annars manns land með smala sinn eða klyfjahross en áðan var tínt, og verður hann útlagur of það þrem mörkum, og bæta auvisla sem búar virða við bók.

Ef fimm aura skaði verður að eða meiri, þá varðar fjörbaugsgarð. . .

330: . . . Eigi skal sel gera í afrétt. Ef gert er, þá er sel óheilagt, og eigu þeir að brjóta sel er afrétt eigu, enda verður sá útlagur er sel gerði eða gera lét við þá alla er afrétt eigu, og sinni útlegð við hvern þeirra.

Úr Jónsbók (tölur vísa til blaðsíðu):

Bjarnastaðasel

Bjarnastaðaból – uppdráttur ÓSÁ.

146: . . . þá skal það boð hver bera en engi fella, og á það að fara með veturhúsum eftir boðburð réttum en eigi með sætrum. . .

147: Sá skal boð bera bæja í milli . . . En ef hjú eru öll af bæ gengin, þá skal ganga í seturhús bónda ef það er opið og setja niður í öndugi svo að eigi falli.

186: [Hvervetna þar sem sætur eru til bæja manna, þá skulu menn fara með búfé sitt yfir annars land til sætra, fornar götur ef til eru, og hafa í togi laus hross ef yfir eng er að fara. En ef keldur eru á leið hans, þá má hann gjöra þar brú yfir og vinna þann áverka á jörðu hins]. Menn skulu fara úr húshaga með fé sitt þá er tveir mánaðir eru af sumri, utan þeim þikki öllum annað hentara er brottfærslu eigu.

En ef einhver situr lengur niðri, þá skal sá er að telur fyrirbjóða honum þarsetu. Nú situr hann heima eigi að síður, þá skal hann stefna honum héraðsþing fyrir rán og þarsetu. Þá eiga þingmenn að dæma konungi hálfa mörk fyrir grasrán en grönnum hans hálfa mörk fyrir grasverð þeim er gras missa. Nú skal hann æsta svo marga bændur liðs sem hann þarf að færa fé hins úr haga sínum. Sekur er sá hver tveimur aurum við konung er eigi fer, ef hann er til krafður. Slíkt hið sama liggur við ef maður fer heim í húshaga fyrir tvímánuð.

186: [Nú skal til sætra á fjöll upp vera merki sem að fornu fari hefir verið og færa sætur eigi úr stað utan hann færi öngum manni til skaða, og svo skulu þeir hið sama sætrum halda. Engi maður skal setja sætur sitt við annars land eður haga, þar sem eigi hefir að fornu verið. Þar skal mæta horn horni og hófur hófi.]

Arasel

Ara(hnúka)sel – uppdráttur ÓSÁ.

186: Þjóðgata og sæturgata og allir rekstrar skulu vera sem að fornu fari hafa legið . . . [187] . . . Ef maður rænir annan mann sæturgötu eður rekstri þeim sem að fornu fari hefir verið, bæti konungi hálfri mörk fyrir vegarán og hafi hinn þó götu sem áður.

198: . . . Sætur má hver maður gjöra er þann almenning á ef hann vill þar sitja í sumarsetri, ef það er.“

Á vef HÍ 2020 má lesa eftirfarandi frétt:
„Flest þekkjum við og höfum sungið þetta kvæði Sveinbjarnar Egilssonar, fyrrverandi rektors Menntaskólans í Reykjavík. Kvæðið vísar til horfins tíma á Íslandi, tíma þar sem kindur og kýr voru reknar á afskekkta staði fjarri bóndabæjum, í svokölluð sel, yfir sumartímann. Þar voru dýrin á beit og smalar eða vinnukonur höfðu það hlutverk að mjólka skepnurnar og hirða um þær.

Seljabúskapur tíðkaðist á Íslandi frá landnámi og fram á 19. öld líkt og víða í Evrópu. Þess konar búskapur er viðfangsefni Árna Daníels Júlíussonar, sérfræðings hjá Sagnfræðistofnun Háskóla Íslands, og erlendra samsstarfsfélaga hans í rannsóknarverkefninu PECUS sem hlotið hefur styrk frá Erasmus+ áætlun Evrópusambandsins.

Stakkavíkursel

Stakkavíkursel.

„Markmið PECUS-verkefnisins er tvíþætt: Annars vegar er viðfangsefni og hins vegar aðferð sem beitt verður til að fást við það. Viðfangsefnið er seljabúskapur í löndum Evrópu. Með í verkefninu eru sérfræðingar sem hafa rannsakað seljabúskap á Íslandi, Bretlandi, Alpafjöllum, á Spáni, Ítalíu og Grikklandi, og markmiðið er að kynna þessar rannsóknir og leggja þær fram þannig að þær nýtist sem viðfangsefni í verkefninu. Aðferðin sem unnið verður með heitir á ensku „Fuzzy Cognitive Mapping“ og felst í að nota tölvuforrit til að greina og bera saman seljabúskap í löndunum fimm. Unnið verður með ókeypis forrit að svokallaðri „huglægri líkanagerð“ (e. mental modelling) með hin ýmsu seljakerfi sem viðfangsefni,“ útskýrir Árni Daníel sem hefur sérhæft sig í sögu íslenska bændasamfélagsins í rannsóknum sínum.

Nemendur og kennarar starfa saman að verkefninu

Lónakotssel

Lónakotssel.

Árni Daníel segir að frumkvæðið að rannsóknarverkefninu hafi komið frá Ítalíu, frá stofnun sem hefur sinnt ýmsum samevrópskum verkefnum á sviði skipulagsmála, landfræði og sögulegrar landfræði og nefnist U-space. Fulltrúar hennar hafi haft samband við rannsóknasamfélög í Grikklandi, Spáni, Bretlandi og Íslandi og leitað samstarfs og byggður hafi verið upp verkefnishópur.

Verkefnið hófst síðastliðið haust og stendur í tvö ár. „Hugmyndin er að fá kennara og nemendur til samstarfs í verkefninu. Nokkur námskeið og ráðstefnur verða haldin, í Newcastle á Englandi og Valencia og Sevilla á Spáni, og þangað verður kennurum og nemendum úr viðkomandi háskólum boðið til að vinna með viðfangsefni verkefnisins,“ segir Árni Daníel.

Hamrasel

Hamrasel – uppdráttur ÓSÁ.

„Með í verkefninu eru sérfræðingar sem hafa rannsakað seljabúskap á Íslandi, Bretlandi, Alpafjöllum, á Spáni, Ítalíu og Grikklandi, og markmiðið er að kynna þessar rannsóknir og leggja þær fram þannig að þær nýtist sem viðfangsefni í verkefninu. Aðferðin sem unnið verður með heitir á ensku „Fuzzy Cognitive Mapping“.

Seljabúskap hnignaði eftir Stórubólu
Ritaðar heimildir um seljabúskap er að sögn Árna Daníels að finna í íslenska fornbréfasafninu og víða í fornritum, eins Íslendingasögum og öðrum sögum. Þá megi finna ýmislegt um síðari alda seljabúskap mjög víða í ritheimildum og bendir Árni Daníel sérstaklega á Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns sem gefi mjög nákvæmt yfirlit um ástandið í upphafi 18. aldar.

Viðeyjarsel

Viðeyjarsel.

Hins vegar segir hann að seljabúskapur á Íslandi sé lítt rannsakaður. „Þó hefur ýmislegt komið í ljós um seljabúskap fyrr á tímum við fornleifaskráningu á síðustu áratugum og til er þýskt doktorsrit um seljabúskap á Íslandi frá 1979. Fornleifaskráning leiðir í ljós að seljabúskapur var miklu mun útbreiddari fyrr á öldum en t.d. 1702-1714 þegar miklar heimildir um seljabúskap voru skráðar í Jarðabók Árna og Páls. Við Eyjafjörð hefur komið í ljós að sel var nánast við hvert lögbýli til forna en þegar Jarðabókin var tekin hafði seljunum fækkað mjög mikið. Aðeins voru fá sel eftir í sýslunni miðað við það sem verið hafði. Svo er ekki vitað á hvaða tíma þessi sel störfuðu, hvort það var um skamman tíma eftir landnám eða hvort það var allar miðaldir. Þetta er mjög spennandi viðfangsefni sem vonandi verður unnt að ræða innan ramma þessa verkefnis,“ segir hann enn fremur.

Mjóanessel

Mjóanessel – uppdráttur ÓSÁ.

Ekkert er vitað um hvort íslenskum seljabúskap hafi svipað eitthvað til sams konar búskapar við Miðjarðarhaf en sá íslenski á rætur sínar að rekja til Noregs. „Norskur seljabúskapur er ekkert sérlega gamall í samhengi landbúnaðarsögunnar. Hann hófst þegar farið var að nýta land betur, að líkindum vegna aukinnar fólksfjölgunar um 200–300 e.Kr. Það kerfi var síðan flutt nær óbreytt hingað til lands en það liggur s.s. nær ekkert fyrir um það hversu lengi því var haldið við. Egon Hitzler gerir í doktorsritgerð sinni frá 1979 ráð fyrir að seljabúskap hafi hnignað eftir plágur 15. aldar og greinilegt er að seljabúskap hnignaði mjög eftir Stórubólu 1707. Þar var frekar um að ræða aðlögun að aðstæðum en hnignun því gróðurlendi á hvern íbúa er það mikið hér á landi að í rauninni var ekki þörf á seljabúskap eins og hann var stundaður í Noregi þar sem gróðurlendi er minna á hvern íbúa og þörf á að þaulnýta allan gróður,“ bendir Árni á.

Verkefnið tengir íslenskt fræðasamfélag við Miðjarðarhafssvæðið
Aðspurður segist Árni Daníel vona að verkefnið skili þekkingu á og færni í nýrri aðferðafræði í félags- og hugvísindum, sem hægt er að nota á breiðu sviði, ekki einungis í tengslum við seljabúskap. „Mikilvægt er þó að fjalla um og búa til gagnagrunn um rannsóknir og þekkingu á seljabúskap hérlendis sem gæti nýst til rannsókna á því sviði.“

Selvogsheiði

Selvogsheiði – sel. Uppdráttur ÓSÁ.

Alþjóðlegt samstarf verður sífellst stærri þáttur í starfi fræðimanna Háskólans sem skilar í senn nýjum hugmyndum inn í íslenskt vísindasamfélag og nýrri þekkingu og vinnuaðferðum innan fræðigreina eða í tengslum við afmörkuð viðfangsefni. „Verkefnið tengir íslenskt fræðasamfélag við lönd sem eru ekki svo nálægt okkur og tilheyra öðru svæði Evrópu, Miðjarðarhafssvæðinu. Nýjar aðferðir í akademískri vinnu eru alltaf velkomnar og mikil nauðsyn er á að kanna betur seljabúskap hér á landi“, segir Árni Daníel að endingu.“
Ástæða er til að vekja athygli á að „hnignun seljabúskapar í kjölfar farsótta fyrr á öldum“ verður að teljast eðlileg í ljósi aðstæðna á hverjum tíma. Hins vegar munu breyttir búskaparhættir hafa haft mun meiri áhrif en hingað til hefur verið gert ráð fyrir.

Á vef Fornleifastofnunar Íslands 6. desember 2022 má lesa eftirfarandi:

Flekkuvíkursel

Flekkuvíkursel – uppdráttur ÓSÁ.

„Í ár styrkti Rannís verkefnið „Þróun seljabúskapar á Íslandi 800-1800“ til þriggja ára. Í rannsókninni verður leitast við að svara spurningum um upphaf og hnignum seljabúskapar hér á landi og kannað hvaða vísbendingar seljabúskapur fyrri alda getur gefið um vist-, félags-, hag- og landbúnaðarkerfi á Íslandi frá 800 til 1800. Til að svara þessum spurningum verða nýtt ýmis verkfæri fornvistfræði, fornleifafræði og sagnfræði og eru aðferðir landsháttafornleifafræði í forgrunni. Sel voru eins konar útstöðvar frá bæjum. Þau voru gjarnan nokkurn spöl frá bæjum, inn til dala eða upp til fjalla og þar voru mjólkandi skepnur voru hafðar yfir sumartíma.

Hvassahraunssel

Hvassahraunssel – tilgáta.

Á Íslandi voru vinna í seljum yfirleitt talin til kvennastarfa, a.m.k. á seinni öldum, en víða annars staðar í heiminum voru og eru það gjarnan karlar sem sjá um þessi verk, því þótt seljabúskapur hafi að mestu lagst af á Íslandi á 18.-19. öld er hann enn stundaður víðs vegar í heiminum. Margvíslegar athuganir hafa verið unnar á þessu fyrsta ári rannsókna.“
Framangreindar athuganir virðast ekki hafa skilað sér til áhugasamra um verkefnið.

Heimild:
-https://issuu.com/landbunadarhaskoli_islands/docs/rit_lbhi_nr_131_sel_og_selstodur_vid_dyrafjord_lok/s/17199734
-https://www.hi.is/frettir/sameinast_um_ad_rannsaka_seljabuskap_i_evropu
-https://www.facebook.com/people/%C3%9Er%C3%B3un-seljab%C3%BAskapar-%C3%A1-%C3%8Dslandi-Transice/100083391214649/

Litla-Botnssel

Litla-Botnssel – tilgáta.

Lónakotssel

Hér að framan hefur verið reynt að geta þeirra helstu upplýsinga, sem tiltækar eru um sel á Reykjanesi.

Straumssel

Straumssel – uppdráttur ÓSÁ.

Ekki verður sagt með fullkominni vissu hvenær selbúskapur hófst hér á landi, en líklegt má þó telja að hann hafi fylgt fyrstu norrænu ábúendunum hingað til lands í kringum árið 870, en slíkur fjár- og kúabúskapur mun hafa verið vel þekktur í Noregi og á Suðureyjum á þeim tíma. Þó svo að sum mannvirkin, einkum fjárborgirnar, hafi fyrirmynd af írskum eða jafnvel skoskum hringlaga mannvirkjum, sbr. fjárborgina í Óbrennishólma í Ögmundarhrauni, er erfitt um sannanir í þeim efnum. Aðalatriðið er þó að selbúskapur var hluti af atvinnusögu landsins frá öndverðu og fram að aldarmótunum 1900, en um það leyti lögðust slíkir búskaparhættir af á Reykjanesi. Selbúskapurinn er því hluti af þjóðlífi og atvinnusögu landsins í u.þ.b. eittþúsund ár. Ástæða er til að varðveita og halda á lofti þessum þætti búskaparháttanna þar sem allt snérist um að halda lífi í sauðkindinni svo sauðkindin gæti haldið lífi í landsmönnum. Hinar fjölmörgu minjar og selsmannvirki á Reykjanesi bera þess glöggt vitni.

Óttarsstaðasel

Óttarsstaðasel.

Guðrún Sveinbjarnardóttir ritaði grein í Acta Archaeologica 62 árið 1991, sérhefti um rannsóknir á Norður Atlantshafssvæðinu. Þar fjallar hún um einstök sel í Eyjafjallasveit, Skagafirði og Berufirði í tengslum við önnur verkefni. Hún kemst að þeirri niðurstöðu að sel á Íslandi hafi sérkenni sem eru ekki endilega þau sömu og sel frá heimalandi landnámsmanna, Noregi. Meginmunurinn er sennilega vegna ólíks landslags sem kröfðust ólíks skipulags. Af athugun hennar sé ljóst að meiri rannsóknar er þörf á seljum á Íslandi, bæði fornleifafræðilega og fornfræðilegra.

Orra Vésteinssyni, kennara, er sérstaklega þökkuð aðstoð við undirbúning samantektarinnar. – ÓSÁ

Selsvellir

Selsvellir – uppdráttur ÓSÁ.

Selsvellir

Sel á Reykjanesskaganum eru í sumu frábrugðin seljum annars staðar á landinu. Víða utan þess voru þau oft höfð upp til dala eða upp undir hlíðum fjarri bæjum. Flest seljanna á Reykjanesi eru u.þ.b. í einnar til tveggja klukkustunda göngufjarlægð frá bænum, sem þau voru frá. Það var talið til kosta að hafa fjarlægðina ekki of mikla eins og t.d. í Grindavíkurselin á Selsvöllum.

Baðsvellir

Sel á Baðsvöllum.

Yfirleitt voru selin í útjaðri jarðanna eða í óskiptu landi þar sem annað hvort var sæmilegt vatnsstæði eða brunnur. Flest seljanna eru norðvestan til undir hæð eða brekku í skjóli fyrir ríkjandi rigningarátt, þ.e. suðaustanáttinni. Má í því sambandi nefna Oddafellselin, Hvassahraunsselið, Flekkuvíkurselið, Fornasel (Litlasel), Nýjasel, Brunnastaðasel, Gjásel og Arahnúkasel. Yfirleitt hafa selstóftirnar sömu einkenni og önnur sel á landinu, þ.e. samliggjandi baðstofu og búr, en eldhúsið sér. Í mörgum seljanna má sjá misgamlar tóftir, s.s. á Selsvöllum og í Hraunsseli vestan við Núpshlíðarhás. Hið síðarnefnda lagðist reyndar af síðast selja á Reykjanesi, eða árið 1914. Í lýsingu Þorvaldar Thorodsen um ferð hans um Suðurland árið 1883 virðist Hraunssel og Selsvallaselin þá þegar hafa verið aflögð. Þau gætu þó hafa verið endurreist síðar sbr. skrif Guðrúnar Ólafsdóttur um Grindavíkurselin.

Selsvellir

Selsvellir – Uppdráttur ÓSÁ.

Í Andvara, tímariti Hins ísl. þjóðvinafélags, 1884, er sagt frá ferðum á Suðurlandi sumarið 1883 eftir Þorvald Thoroddsen, bls. 48. Þar segir m.a.: “Komum við fyrst að Hraunsseli; það er nú í rústum… Selsvellir eru stórar grassléttur norður með hálsinum… Þar hefir áður verið sel frá Stað í Grindavík, en er nú af tekið; nú hafa menn þar nokkurs konar afrétt…”.

Vindássel

Vindássel í Selvogsheiði – Uppdráttur ÓSÁ.

Áður hefur verið minnst á skrif Geirs Bachmanns í Lýsingu Grindavíkursóknar 1840-41 þar sem hann segir bæi í Grindavík þá hafa selstöður á Selsvöllum. Í Lýsingu Árna Helgasonar á Garðaprestakalli 1842 kemur fram að Garðar hafi haft “pening í seli til 1832”. Önnur sel þar hafi verið aflögð fyrir meira en hálfri öld.

Í “Frásögur um Fornaldaleifar”, útg. af Stofnun Árna Magnússonar, 1983, eru birtar skýrslur presta o.fl. af íslenskum fornminjum til dönsku fornleifanefndarinnar á árunum 1817-1823 . Hvorki er minnst á sel í Gullbringu- og Kjósarsýslu né í Árnessýslu (Ölfusi) í skrifum til nefndarinnar. Bendir það til þess að selin hafi þá verið í “eðlilegri” notkun á þeim tíma, nýlega aflögð eða að þau sel, sem vitað var um, en lagst af, hafi ekki verið það gömul að þau hafi talist til fornminja. Hafi svo verið getur ein skýringin verið sú að búsetuminjar eða minjar tengdar atvinnuháttum hafi ekki verið taldar til fornleifa, enda var lítið skrifað um slíkt til nefndarinnar. Hafa ber í huga að sel geta hafa lagst af um tíma, en síðan verið endurreist um sinn.

Hraunssel

Hraunssel.

En af framangreindum gögnum að dæma virðist selbúskapur á Reykjanesi að mestu hafa lagst af um og eftir miðja 19. öld; fyrr í Garðasókn en t.d. í Grindavíkursókn þar sem hann tíðkaðist enn um 1840, en selin verið í rústum árið 1883 þegar Þorvald Thoroddsen var þar á ferð. Ef taka á mið af núverandi tóftum selja á Reykjanesi eru þau líka að sjá heillegastar á Selsvöllum og í Þrengslum (Hraunssel). Einnig í Vífilsstaðaseli og Herdísarvíkurseli, Knarrarnesseli, Brunnastaðaseli og Straumsseli. Hins vegar eru seltóftir í Selvogsheiði og í Hafnaheiði greinilega mun eldri. Þá má sjá enn eldri tóftir innan um nýrri sel, s.s. Fornasel við Brunntorfur, Lónakotssel, Fornasel (Litlasel), Hlöðunessel, Baðsvallasel og Selöldusel.

Vindássel

Vindássel í Kjós.

Tóftir seljanna eru greinilega misgamlar. Ekki er vitað til þess að þær hafi verið aldursgreindar, en þó hefur Bjarni Einarsson, fornleifafræðingur, grafið í Fornasel vestan við Brunntorfur og taldi hann af niðurstöðum kolefnamælinga að dæma að það sel væri frá 14. eða 15. öld.

Við þessi gömlu sel eru yfirleitt hlaðnir tvöfaldir stekkir og einfaldar kvíar. Vatnsstæðin eru í hraunskálum eða á klapparhólum. Nokkur dæmi eru um allnokkur sel þar sem frá varð að hverfa fyrr en ætlað var vegna vatnsskorts. Lækir eru fáir á landssvæðinu. Auk Selsvallalækjar er lækur í Króksmýri norðan Vigdísavallar, á Bleikingsvöllum suðaustan þeirra, í Sogunum sunnan Trölladyngju, Kaldá við Kaldársel og síðan Vestri- og Eystri-lækur í Krýsuvík. Sumstaðar er þó stutt í lítil vötn í gígum og skálum. Annars staðar var erfiðara um slíkt, s.s. í Lónakotsseli og í seljunum í Vatnsleysustrandarheiðinni. Aðstæður gætu þó hafa breyst frá því sem áður var.

Litla-Botnssel

Litla-Botnssel.

Þannig er t.d. sagt frá læk og jafnvel fossi fram af Stóru Aragjá ofan við hið sérstaka Gjásel. Það er sérstakt af því leyti að í því eru 7-8 samliggjandi raðhús í svo til beinni röð. Tveir stekkir eru við selið, en þeir gefa oft til kynna fjölda selja á hverjum stað. Þannig eru sel frá þremur bæjum í Brunnastaðaseli, fjögur í Knarrarnesseli, tvö í Flekkuvíkurseli. Selin á Selsvöllum hafa nokkra sérstöðu því þar munu hafa verið sel frá svo til öllum Grindavíkurbæjunum eftir að Baðsvallaselið norðan Þorbjarnarfells lagðist af vegna ofbeitar. Þar má sjá tóttir a.m.k. þriggja selja. Við mörg seljanna, einkum hraunsseljanna, eru fjárskjól með fyrirhleðslum, stundum fleiri en eitt, s.s. í Óttarstaðaseli og Straumsseli. Stundum eru skjólin nokkuð frá seljunum, s.s. fjárskjólið í Brunntorfum, en það hefur líklega upphaflega verið frá Fornaseli ofan við Gjásel.

Litla-BotnsselEnn eitt einkenni selja á Reykjanesi er nálægð fjárborga og/eða fjárskjóla. Eftir skoðun á yfir 70 fjárborgum á svæðinu er að sjá sem sumar þeirra séu beinlínis byggðar með afstöðu seljanna í huga, s.s. Djúpudalaborgin í Selvogi. Hún er í nálægð við Nesselið austan við Hellisþúfu, auk þess sem efst í Hnúkunum hafa fundist tóftir, sem líklegast hafa verið fornt sel. Þær hafa ekki verið rannsakaðar og hafa reyndar hvorki verið skráðar né er þeirra getið í örnefnalýsingum. Við þær tóftir er hol hraunbóla, hraunsskúti, sem notaður hefur verið til skjóls eða annarra þarfa. Þannig háttar einnig til við Litlalandssel ofan við Ölfus. Hellar hafa víða og verið nýttir til skjóls, en selin norðaustan við Vörðufell ofan við Strandarhæð, sem greinilega eru mjög gömul, t.d. Eimuból (sel Selvogsmanna voru gjarnan nefnd ból, sbr. Þorkelsgerðisból og Bjarnastaðaból nestan undir Hnúkum). Í því er hlaðinn stekkur inni í víðri hraunrás. Skammt vestar eru tóftir og miklar niðurgönguhleðslur við stóran hraunhelli. Innst í hellissalnum er aðeins eitt bein, en annars er ekkert annað á sléttu gólfinu.

Minjar í Selvogsheiði.

Merkilegur hellir, sem Guðmundur Brynjar Þorsteinsson frá Þorlákshöfn fann nýlega, hefur gengið undir nafninu “Bólið”. Alls óljóst er til hverra nota hann var eða ætlaður. Tóftirnar við hellinn eru heldur ekki til í örnefnalýsingum svo vitað sé. Sama á við tóft við gömlu Selvogsgötuna á milli Strandardals og Strandarhæðar. Þar er tóft og hlaðinn stekkur. Einnig suðaustan undir Svörtubjörgum. Þar er greinilegt sel með nokkrum rústum, löngum stekk, kví og fjárskjóli. Inni í því eru hleðslur. Reyndar hefur Selvogsheiðin lítt verið könnuð með tilliti til hugsanlegra fornleifa.

Staðarsel

Staðarsel.

Þórarinn bóndi Snorrason á Vogsósum taldi að selið undir Svörtubjörgum hafi heitið Staðarsel og verið fráfærusel þar sem lömbin voru færð frá og aðskilin frá ánum. Hann mundi þá ekki eftir því fyrr en farið var að spyrja hann um rústirnar, sem sumar eru mjög vel greinilegar. Líklegra er að þarna sé annað hvort komið sel frá Strönd, “Strandarsel”, því bæði hefur það verið í landi kirkjujarðarinnar Strandar og auk þess hefur það verið allveglegt á meðan var, eða frá landnámsbænum Hlíð við Hlíðarvatn, sem er þarna nokkru vestar. Vestan við selið eru a.m.k. þrjár fjárborgir; Hlíðarborg, Valgarðsborg og Borgarskarðsborg. Sunnan þeirra er Vogsósasel og vestan þess “Borgirnar þrjár”; þ.e. þrjár hlaðnar fjárborgir á hól skammt austan Hlíðarvatns. Við Eimuból má sjá tóftir Vindássels, en enn austar eru Þorkelsgerðisból og Bjarnastaðaból, hvorutveggja vegleg sel með mörgum tóftum. Þegar leitað var að síðastnefndu seljunum var farið eftir örnefnaskrám úr Ölfusi og ábendingum fróðra manna, s.s. Kristófers Bjarnasonar, kirkjuvarðar í Strandarkirkju, en samkæmt því átti Bjarnastaðasel að vera skammt frá klöppinni “Fótalaus”, þar sem klappað er LM (landamerki) Ness og Bjarnastaða. Selið er hins vegar mun ofar undir Hnúkabrekkunum og er Þorkelsgerðisból þar skammt (10 mín) vestsuðvestar.

Fornaselsstígur

Fornasels og Gjálselsstígur.

Við Kaldársel eru nokkrir fjárhellar og hlaðinn bálkur í einum þeirra. Í Setbergsseli er fjárhellir með mikilli hleðslu og skiptir önnur honum í tvennt. Að sunnanverðu var Hamarskotssel um tíma. Við Brunnastaðasel er hlaðin kví í gróinni gjá og er hún ennþá nokkuð heilleg. Séstæðastar eru hleðslur niðri í stóra hraunbólu vestan Hellishæðar, sem fyrr voru nefndar. Við munnan er tótt og aðrar skammt austar. Þar eru og hleðslur fyrir hraunrásir. Skammt norðar er Strandarsel [Staðarsel] undir Svörtubjörgum, en að sögn Þórarins Snorrasonar á Vogsósum mun það hafa verið fráfærusel (en annars mun hafa verið fært frá heima við bæ áður en ærnar voru reknar í sel), enda má sjá þess merki á aflöngum stekk sunnan selsins. Stakkavíkursel er ofan við Grænubrekkur. Við það er opin hraunbóla, líkt og í Hnúkum. Neðan við selið má, ef vel er að gáð, sjá merki enn eldra sels og torfstekkjar. Við nýrra selið er dæmigerður stekkur og hleðslur í fjárskjóli skammt ofan hans.

Selgjársel

Selgjá – Uppdráttur ÓSÁ.

Garðar höfðu í seli í Selgjá og Búrfellsgjá. Heimildir kveða á um að þar hafi verið 11 sel um tíma. Þau munu þó hafa verið aflögð alllöngu áður en Garðar hættu að hafa í seli. Margar minjar eru beggja vegna Selgjárinnar, en færri í Búrfellsgjá. Þar eru og nokkur fjárskjól með veglegum hleðslum. Mestar eru þær í svonefndum Sauðahelli syðri, skammt suðvestan við Selgjána og við Suðurhelli, sunnarlega í gjánni. Á Garðaflötum er getið um tóftir og garðveggi í gömlum heimildum og einnig þar má sjá, ef vel er að gáð, tóftir og veggi, greinilega mjög gamalt. Reyndar átti þar að hafa verið bær til forna, skv. sömu heimildum, en líklegra er þó að um selstöðu hafi verið að ræða. Þær tóftir hafa ekki verið kannaðar af fagfólki.

Selsstígur

Selsstígur.

Enn eitt einkenni seljanna eru hinir mörkuðu selsstígar. Víða má sjá þá klappaða í hart bergið eftir klaufir, hófa og fætur liðinna kynslóða. Dýpstar eru göturnar á stígunum vestan Selsvalla, enda hefur umgangur þar greinilega verið mikill um langan tíma. Straumsselsstígur er einnig vel markaður á kafla, en það er áður en hann greinist frá stíg að Gjáseli og Fornaseli, sem eru skammt norðan þess. Víða má rekja þessar götur enn þann dag í dag, en annars staðar eru þær orðnar grónar eða orðnar landeyðingu að bráð, s.s. efst í Vatnsleysstrandarheiðinni.

Hraunssel

Hraunssel – tilgáta.

Þótt sum seljanna hafi ekki verið mjög stór, s.s. Fornasel (Litlasel) ofan Vatnsleysustrandar og Hraunssel undir Löngubrekkum austan Raufarhólshellis, eru tóftirnar bæði lögulegar og vel læsilegar. Í því er flest það sem prýtt getur hefðbundið sel. Nýjasel austan Snorrastaðatjarna sem og Snorrastaðasel vestan þeirra hafa og verið lítil sel af ummerkjum að dæma. Svo hefur einnig verið um Hópsselið norðan við Selsháls, Möngusel í Hafnaheiðinni og Stafnessel austan Ósabotna. Kirkjuvogssel í Hafnaheiði hefur hins vegar verið mun stærra, líkt og Vogaselin efst í Vatnsleysustrandarheiði, fast undir Þráinsskyldi.

Merkinessel

Merkinessel.

Merkinesselin í Hafnaheiði voru tvö, hið nýrra og hið eldra, líkt og Vogaselin. Erfitt er að finna eldra selið, en það er mjög gróið, en sandauðn allt um kring. Nýrra selið er mun austar og fallega hlaðið undir gjávegg. Eitt húsanna er enn allheillegt sem og önnur mannvirki. Dæmi eru um að gömul sel hafi orðið framkvæmdum að bráð, s.s. Hraunsholtsselið undir Hádegishól í Garðahrauni, sem nú er í iðnaðarhverfi Garðbæinga á Hraunum.

Hraunssel

Hraunssel – uppdráttur ÓSÁ.

Í Jarðarbók Árna Magnússonar og Páls Vídalín koma frásagnir af selstöðum sumra bæja á Reykjanesi, en alls ekki allra. Sjá má selja getið í sóknarlýsingum, en þó virðist eins og almennt hafi ekki verið ástæða til að geta þeirra sérstaklega í eldri lýsingum af lands- og búskaparháttum. Reyndar er búskaparháttum yfirleitt lítið lýst í slíkum heimildum eða máldögum. Ein ástæðan gæti verið sú að þeir hafi þótt það sjálfsagðir og á allra vitorði að ekki hafi verið talin ástæða til að geta þeirra sérstaklega. Einungis væri vert að geta þess sem þótti merkilegt sögulega þá er þær voru skrifaðar. Heimildir og sagnir eru af mjög gömlum seljum, en flestar eru þær frá síðari öldum. Vitað er yfirleitt frá hvaða bæjum hvert sel tilheyrði og höfðu sumir saman í seli, s.s. í Knarrarnessi og Brunnastaðaseli, að ekki sé talað um Selsvellina. Margar gamlar beitarhúsatóftir eru og á Reykjanesi, s.s. í Húshöfða norðan Hvaleyrarvatns (Jófríðastaðir), við Ásfjallsrana (Ás) og vestan við Hlíðarvatn (Stakkavík), en ekki er vitað til þess að þau hafi orðið að seljum eða verið notuð sem sel eins og víða annars staðar á landinu. Sel voru frá Hvaleyri og Ási austan við Hvaleyrarvatn og sel frá Stakkavík ofan við Stakkavíkurfjall.

Hvaleyrarsel

Hvaleyrarsel.

Dæmi eru um sögur úr seljunum, s.s. frá Hvaleyrarseli þar sem nykur átti, skömmu fyrir aldarmótin 1900, að hafa ráðist á og drepið selráðskonuna í fjarveru smalans . Nykurinn átti að fara á milli Hvaleyrarvatns og Urriðavatns (önnur saga segir Lambústjarnar), en frosið þar í hel frostaveturinn mikla árið 1918. A.m.k. sást ekki til hans eftir það. Í Rauðhólsseli undir Rauðhól skammt norðan við Keili var fólki ekki vært eftir tíundu viku sumars vegna draugagangs, en það sel var frá Vatnsleysu .

Víkursel

Víkursel í Öskjuhlíð.

Tveggja selja er getið í Öskjuhlíð; Reykjavíkurselsins og Hlíðarhúsaselsins og nokkurra undir Selsfjalli við Lækjarbotna. Þar má enn sjá tóftir þessara selja nálægt skátaskálanum, en þær eru þó orðnar ógreinilegar.

Víða um land urðu sel að kotbýlum þegar fram liðu stundir. Á Reykjanesi eru líklega einungis þrjú dæmi um að sel hafi orðið að koti, þ.e. í Straumsseli, á Vigdísarvöllum og í Kaldárseli. Bærinn í Straumsseli brann fyrir aldarmótin 1900 og lagðist þá búseta þar niður, en bærinn á Vigdísarvöllum féll að mestu í jarðskjálfta skömmu eftir aldramótin 1900. Þar voru reyndar um tíma tveir bæir. Annar þeirra nefndist Bali og má vel sjá tóftir hans á vestanverðu túninu.

Þórkötlustaðasel

Þórkötlustaðasel á Vigdísarvöllum.

Vigdísarvellir var í fyrstu sel frá Krýsuvík, en bæir þar höfðu auk þess í seli undir Selöldu, sbr. sagnir af ræningjunum er komu upp Ræningjastíg og veittust að selráðskonum þar . Um tíma hafi Krýsuvík aðstöðu í Sogaseli, sem síðan fór undir Kálfatjörn. Auk þess er ekki loku fyrir það skotið að einhver Krýsuvíkurbæjanna hafi um tíma nytjað Húshólmann, en inn í hann er greiður og gróinn stígur og ummerki eftir selstöðu norðvestast í hólmanum. Í Kaldárseli var sel framan af og er síðast getið um búsetu Þorsteins Þorsteinssonar þar um aldarmótin 1900, en síðan nýtti Kristmundur Þorleifsson sér fjárskjólin þar um skamman tíma.

Fornasel

Fornasel í Strandarheiði.

Oftast bera selin nöfn þeirra bæja, sem gerðu þau út. Flekkuvíkursel var frá Flekkuvík, Hvassahraunssel var frá Hvassahrauni, Óttarstaðasel frá Óttarstöðum o.s.frv. Þó eru dæmi um að selin hafi dregið nöfn sín af staðháttum, s.s. Sogasel í Sogagíg, Selsvallasel af Selsvöllum og Gvendarsel undir Gvendarselshæð af Krýsuvíkur-Gvendi o.s.frv. Hin þrjú svonefndu Fornusel eru væntanlega nefnd svo vegna þess að ekki var ráðið í hvaðan þau höfðu verið gerð út. Þó er líklegt að Fornasel sunnan við Brunntorfur hafi verið frá Þorbjarnastöðum í Hraunum sem og Gjáselið þar skammt norðvestar. Einnig er getið þar um sel frá Lambhaga. Þorbjarnastaða-fjárborgin er skammt frá seljunum. Fornasel eða Fornusel (þau eru tvö) undir Sýrholti er hins vegar á huldu, enda virðist vera mjög komin við aldur. Svo virðist sem Þórusel hafi verið þar um tíma, en frásögn af því er óljós. Flestra seljanna er getið í gömlum heimildum og örnefnalýsingum. Nokkur þeirra, a.m.k. þeirra stærstu, má sjá á gömlu kortum, s.s. dönsku herforingjakortunum svonefndu, en annað það er gefur vísbendingu um að sel hafi verið að ræða á tilteknum stöðum eru nafngiftir tengdar þeim, s.s. Selháls, Selshæð, Selsvallafjall, Selsvellir, Selsfjall, Seljahlíð, Selalda, Selstígur og Selshóll.

Óttarsstaðaborg

Óttarsstaðaborg í Hraunum.

Óttarstaðaborgin, eða Kristrúnarborg, eins og hún hefur stundum verið nefnd, er við Óttarstaðaselsstíginn, Rauðamelsstíginn eða Skógargötuna, eins og hann hefur einnig verið nefndur. Straumsselsstígur liggur upp í Straumssel, Stakkavíkurselsstígur upp í Stakkavíkursel, Lónakotsselsstígur upp í Lónakotssel og svo mætti lengi telja. Til eru þó sel við alfaraleið, s.s. Hlíðarendaasel þar sem Ólafsskarðsvegur liggur svo til í gegnum selið sunnan Geitafells. Sum seljanna eru á fallegri stöðum en önnur. Má þar nefna Breiðbólstaðaselið í Krossfjöllum og selin í Sogagíg undir Trölladyngju. Hið fyrrnefnda státar af fögru útsýni niður í Dimmadal á meðan hið síðarnefnda nýtur skjóls í fallegum hraungíg undir öruggu og litskrúðugu faðmlagi Trölladyngju og Soganna. Ein tóftin er utan við gíginn.

Blikdalur

Tóft í Blikdal.

Hlaðin smalabyrgi eru við eða í nágrenni við sum selin eða nátthaga þeim tengdum. Má þar nefna byrgi við Efri-Straumsselshella ofan við Straumssel, neðan við Stakkavíkursel og við Óttarstaðasel.

Lítið hefur verið fjallað um sel og selbúskap hér á landi þrátt fyrir að hann hafi skipað veigamikinn þátt í atvinnusögu og þjóðlífinu í langan tíma. Egon Hitzler, þýskur fræðmaður, skrifaði bókina Sel – Untersuchungen zur geschichte des isländschen sennwesens seit der landnahmzeit, sem gefin var út í Noregi árið 1979. Hann hafði dvalið hér á landi sem styrkþegi við Háskóla Íslands veturinn 1968/69 og notaði það efni í magesterritgerð sína við háskólann í Erlangen-Nürnberg árið 1972. Árin 1974-77 starfaði hann sem sendikennari við Háskóla Íslands og notaði þá tíma til þess að endurskoða, endurbæta og auka við ritgerð sína. Árangurinn liggur fyrir í nefndri bók hans. Bókin, sem er efnismikil um viðfangsefnið, er skipt upp í 8 kafla: Í fyrsta kafla fjallar höfundur m.a. um alþjóðlegar rannsóknir á seljabúskap, heiti og hugtök og fyrri rannsóknir. Í öðrum kafla er fjallað um selin, selhúsin, sel í hellum, seljaþyrpingar, kvíar, sel á eyðibýlum og breyting selja í býli. Í þriðja kafla um skipulag seljabúskaparins, seltímann, selfólkið, búsmalann, selfarir og selgötur, selflutninga og eldivið og vatnsból.

Heiðarbæjarsel

Heiðarbæjarsel.

Í fjórða kafla fjallar höfundur um seljabúskap á Íslandi á miðöldum, eðli og þýðing miðaldaheimilda, heimildir frá þjóðveldisöld og heimildir frá 14. og fram á 16. öld.
Fimmti kafli fjallar um seljabúskap á Íslandi fram á byrjun 18. aldar, selstöður í Húnavatns-, Skagafjarðar- og Eyjafjarðarsýslum, útbreiðslu, tegundir og aldur selja og leigusel.

Í sjötta kafla er lýst núverandi aðstæðum í Sauðadal (Hv) og nýtingu hans til seljabúskapar fyrr á tímum, staðhættir og helstu menjar um nýtingu, skiptingu landsins og tilkall til selstaða, heimidlir frá miðöldum og jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns sem og tegundir selstaða og tímabundnar sveiflur í seljabúskapnum.

Litla-Botnssel

Litla-Botnssel – tilgáta.

Í sjöunda kafla er fjallað um upphaf, þróun og hvarf seljabúskapr á Íslandi, upphaf seljabúskapar á landnámsöld og einkenni hans á fyrstu öldum Íslandsbyggðar, seljabúskap og eignaraðild á síðmiðöldum, sveiflur og hnignun seljabúskapar á Íslandi, niðurlagningu seljabúskapar á Íslandi og tilraunir til þess að endurvekja hann og glæða nýju lífi.

Í áttunda og síðasta kaflanum er yfirlit og útsýn, umræður umhugtök, íslenski seljabúskapurinn sem sögulegt fyrirbæri og íslenski seljabúskapurinn og nútíminn.
Loks er viðauki um seljabúskapinn á íslandi um aldamótin 1900 og dagleg störf, íslenskt/þýskt orðasafn um seljabúskap og loks einstakar athugasemdir”.

Vífilsstaðasel

Vífilsstaðasel – tilgáta – ÓSÁ.

Hér er ekki ætlunin að skrifa magesterritgerð um sel á Reykjanesi, en reyna þó að nálgast viðfangsefnið þannig að það gefi nokkra góða sýn á fjölda selja og hversu ríkan þátt selbúskapurinn hefur átt í atvinnuháttum fólks á svæðinu, líkt og annars staðar á landinu. Því verður best lýst með eftirfarandi tilvitnunum í verk Hitzlers.

Sjá niðurlag um seljaumfjöllun HÉR.

Sjá meira um sel og selstöður á Reykjanesskaga HÉR.

Hópssel

Hópssel við Grindavíkurveg.

Óttarsstaðasel

Efitt er að finna ritaðar lýsingar á verklagi því er viðhaft var í seljum á Reykjanesi. Tiltækar lýsingar eru þó í flestu samhljóða. Þótt víst megi telja að verklagið hafi tekið einhverjum breytingum í gegnum aldirnar má því eins víst vera að það hafi þó lítið breyst í grundvallaratriðum.

Dyljáarsel

Í Dyljárseli í Eilífsdal.

Til að gefa einhverja innsýn í verklagið er vitnað hér í grein Ólafs Þ. Kristjánssonar, fyrrverandi skólastjóra Flensborgarskóla og kennara höfundar, sem hann ritaði árið 1978 í Ársrit Sögufélags Ísfirðinga um selsbúskap í Holtaseli í Önundarfirði, og í handriti Sigurlínu Sigtryggsdóttur, Æsustöðum í Eyjafirði, er nefnist “Upp til selja”.
Ólafur virðist hafa leitað eftir og safnað fróðleik um verklag í seljum, “en það er með Holtasel eins og fleiri sel á landinu að næsta lítið er vitað um hvernig vinnubrögðum þar var háttað og yfirleitt hvernig selið var hagnýtt”. Hann skrifaði þó eftirfarandi eftir Ágústi Guðmundssyni, bónda á Sæbóli á Ingjaldssandi, það sem hann hafði eftir móður sinni, Guðrúnu Sakaríasdóttur (hún var í Holti um 1870) um Holtasel: “2-3 stúlkur voru í selinu að jafnaði. Kýrnar voru mjólkaðar fyrst, og var það oftast búið þegar féð kom. Ein stúlkan fór að öllum jafnaði þegar búið var að mjólka kýrnar og ærnar fyrri mjölt til þess að setja mjólkina, en hinar mjólkuðu eftirmjölt. Smérið var flutt heim í krókum, en skyrið einu sinni í viku í strokkum. Drukkurinn var fluttur heim í tvíbytnum að vetrinum, dreginn á sleða”.

Gljúfursel

Gljúfursel.

Þorkell Guðmundsson, heimildamaður Ólafs lýsir selsbúskapnum svo: “Eftir fráfærur voru ærnar reknar fram í Holtasel. Yfirleitt var ekki setið hjá ánum nema kannski einn dag, heldur var þeim smalað allan fráfærutímann. Eftir mjaltir kvölds og morgna voru þær reknar fram á Heiðará á Mjóadal. Ekki er bema 7-8 mínútna gangur frá selinu fram að Heiðará eða tæplega það….”. Smalinn var vakinn kl. 3-4 á nóttunni til smalamennskunnar og einnig var farið að smala um svipað leyti, kl. 3-4, að degi til. Smalinn hélt alltaf til í selinu.

Litla-Botnssel

Litla-Botnssel – tilgáta.

Venjulega voru 3 stúlkur í selinu, selráðskonan og 2 mjaltakonur. Selráðskonan annaðist matseld og mjólkina, renndi trogum og sá um smjörgerðina, en undanrennan var daglega flutt heim að Holti í tveimur 80 marka (40 lítra) kútum og þar var skyrið búið til. Dallur með dagssmjörinu var reiddur ofan á milli á hestunum.
Selkonurnar fóru oft heim að Holti á daginn til þess að þurrka og raka þegar svo stóð á, en voru alltaf í selinu yfir nóttina.

Í sláttarlok flutti svo fólkið úr selinu heim að Holti og tók ærnar með sér. Eftir þann tíma munu þær ekki hafa verið mjólkaðar nema einu sinni á dag. Kýr voru aldrei hafðar í selinu á æskuárum Þorkels”.

Esjubergssel

Esjubergssel / Móasel – uppdráttur ÓSÁ.

Sigurlína lýsir Hvassafellsseli og segir “mislangt í hinum ýmsu byggðarlögum síðan búsmali í seljum lagðist af. Hann hafi varað einna lengst í Eyjafirði. Fyrsta verk í selinu var að sópa og hreinsa hátt og lágt og þvo og sjóða öll ílát. Hvassafellssel var hlaðið að mestu úr grjóti. Var það baðstofa, búr og eldhús, mjólkurbúr og skyrbúr… Voru um 120-140 ær í kvíum. Í selinu voru líka 4-5 kýr. Lágu þær úti, en voru mjólkaðar á kvíabóli. Tvær stúlkur mjólkuðu kvíærnar og kýrnar og gerðu skyr og smjör úr mjólkinni. Var flutt heim úr selinu þrisvar í viku á þremur hestum í hvert sinn. Sóttu vinnumennirnir í Hvassafelli fram í selið og komu með þurrt sauðatað á hestunum til eldiviðar.

Hraunssel

Hraunssel.

Venjulega stóð seltíminn yfir í mánuð til fimm vikur. Var oft glatt á hjalla í seljunum, þó mikið væri að gera. Var oft um helgar, þegar gestkvæmt var, slegið í leiki úti á sléttum velli og jafnvel glímt af konum sem körlum, því að á þeim tímum voru sumar stúlkur svo leiknar í glímum, að piltarnir máttu vara sig. Þegar komið var heim með mjólkurföngin úr selinu, var skyrið látið í stór keröld eða sái, en smjörinu drepið í hálftunnur og hvort tveggja geymt til vetrar, það sem gekk af daglegri notkun.

Arasel

Ara(hnúka)sel – tilgáta.

Mjög þótti það áríðandi að hafa trúa og ötula selsmala. Ærnar máttu helst ekki missa máls, en svo var það kallað, er vantaði af ánum til að mjalta. En nú eru kvíarnar og selin hrunin og fólkið horfið þaðan. Flest ungt fólk elst nú upp við léttari og betri lífsskilyrði, sem betur fer, en áður þekktist”.

Knarrarnessel

Knarrarnessel – uppdráttur ÓSÁ.

Hópssel

Árið 2007 ritaði einn FERLIRsfélaga BA-ritgerð í fornleifafræði við HÍ; „Sel vestan Esju„… Í inngangi ritgerðarinnar segir: „Viðfangsefni ritgerðarinnar er að safna heimildum um sel og selstöður á landssvæðinu frá vesturhlíðum Esju út að Reykjanestá, vestast á Reykjanesskaganum, bera þær saman, kanna fjölda þeirra, leita þær uppi og merkja inn á uppdrátt, lýsa gerð mannvirkja í seljum á svæðinu og jafnframt að reyna að ákvarða aldur þeirra út frá heimildunum, einkum Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá árinu 1703  svo og helstu útlitseinkennum.

Selin og selminjar á svæðinu eru fornleifar – ein tegund  búskaparminja á afmörkuðu svæði. Ritheimildirnar eru notaðar til að fá vísbendingar um aldur og staðsetningu seljanna. Minjarnar voru leitaðar uppi eftir heimildunum og reynt að meta hugsanlegar breytingar í gerð þeirra eftir aldri. Við leitina, sem stóð samfellt í 6 ár, voru uppgötvuð sel og líklegar selminjar, sem ekki er getið um í heimildum. [Hafa ber í huga að engir launaðir fornleifafræðingar hafa reynt að afla allra þessara upplýsinga og það þrátt fyrir lögbundið hlutverk Fornleifaverndar ríkisins.] Upplýsingar fengnar á vettvangi hafa hjálpað til við að skýra skráðar heimildir og bæta við þær sem fyrir voru. Auk þess hefur með  vinnunni fengist nokkuð heildstæð mynd af þessari tegund búskaparminja á landssvæðinu. Upplýsingarnar voru færðar inn á skrá með gps-staðsetningarhnitum og kort. Hvorutveggja fylgir ritgerðinni.“

Blikdalur

Sel í Blikdal.

Að hans sögn er nú (2008) vitað um 400 selstöður í öllu fyrrum landnámi Ingólfs (þ.m.t. austan Esju). Einungis þremur selstöðum hefur verið spillt með framkvæmdum. Þrátt fyrir yfirferðina hefur reynst erfitt að ákvarða aldur einstakra selminja, enda verðu það ekki gert nema með nákvæmari rannsókn á vettvangi, t.d. með uppgreftri. Með fullri virðingu fyrir öðrum má segja að hvergi hefur verið safnað á einn stað jafn miklum upplýsingum um viðfangsefnið á einn stað, sem hér má sjá. Efnisinnihaldið er eftirfarandi:
Efnisyfirlit

I.     Inngangur  
       1.1.    Þakkir fyrir veitta aðstoð
1.2.    Aðdragandi
       1.3.    Upplýsingaöflun, vangaveltur og vettvangsskoðun
       1.4.    Heimildir
       1.4.1. Ritaðar heimildir
       1.4.2. Munnlegar heimildir
       1.4.3. Vettvangsheimildir
1.5.    Kort
       1.6.    Fjöldi selja
       1.7.    Horfin sel
       1.8.    Leitir
       1.9.    Annað

II.   Ákvæði                                                                                          
       2.1.    Friðslýsingaskrá
       2.2.    Sel og beitarhús
III.   Mannvirkin                                                                                  
3.1.    Hús – megingerð
3.2.    Réttir
3.3.    Fjárskjól
       3.4.    Fjárborg – fjárbyrgi
       3.5.    Nátthagi
       3.6.    Stekkur – kví
       3.7.    Brunnur – vatnsstæði
       3.8.    Gerði – garður
       3.9.    Selsstígur – selsgata
       3.10.  Smalabyrgi
       3.11.  Selsvarða
IV.  Svæðið                                                                                         
       4.1.    Staðhættir
V.    Selin og selstöðurnar – staðsetningar                                    
5.1. Grindavíkur hreppur.
1.                        Krýsuvíkursel I (Selöldu).
Krýsuvíkursel II (Sogasel).                                                                 
2.                        Krýsuvíkursel III  (Seltúni).
3.                        Krýsuvíkursel IV? (Húshólma).
Krýsuvíkursel V (Vigdísarv./Þorkötlust).                                            
4.                        Krýsuvíkursel VI (Kaldranasel).
5.                        Krýsuvíkursel VII?(Litlahraun/Gvendarhellir).
6, 7 og 8.              Krýsuvíkursel VIII, IX og X? (Staðarsel I,II og III).
9.                        Ísólfsskálasel?
10 og 11.              Hraunssel (eldra og yngra).
12.                       Krýsuvíkursel V (Vigdísarvellir/Þorkötlustaðasel).
13.                       Hópssel
14.                       Baðsvallasel.
15.                       Dalssel.
16.                       Selsvallasel – vestari
17.                       Selsvallasel – austari.
5.2. Hafnahreppur.                                                                              
18.                       Sel við Stampa (Gálmatjörn).
19.                       Merkines eldra (Miðsel).
20.                       Merkinessel yngra.
21.                       Möngusel.
22.                       Kirkjuvogur.
5.3. Rosmhvalaneshreppur.                                                              
23.                       Stafnessel.
24 og 25               Hvalsnessel.
26.                       Fuglavíkursel.
27.                       Ró[sa]sel.
5.4.  Vatnsleysustrandarhreppur.                                                       
28.                       Narfakotssel.
29.                       Innra-Njarðvíkursel.
30 og 31.              Vogasel I (Vogasel eldri og Vogaselin yngri).
32.                       Vogasel III (Nýjasel).
33.                       Vogasel IV (Þórusel ).
34.                       Vogasel V (Snorrastaðasel).
35.                       Vogasel VI (Arasel /Arahnúksel).
36.                       Vogasel VII (Gjásel).
37.                       Hólssel (Hólasel).
19.                       Minni-Vogar.
38.                       Brunnastaðasel.
39.                       Hlöðunessel.
40.                       Ásláksstaðasel.
41 og 42.              Knarrarnessel.
43.                       Auðnasel.
44.                       Höfðasel.
45.                       Breiðagerðissel.
46.                       Fornasel (Litlasel).
47.                       Þórustaðasel?
48 og 49.              Fornusel (nyrðri og syðri).
50, 51 og 52.         Sogasel (Krýsuv.sel II), Sogasel ytra og Bakkasel.
53.                       Flekkuvíkursel.
54 og 55.              Oddafellssel (nyrðra og syðra)
56.                       Rauðhólssel.
57.                       Kolhólasel (Vatnsleysusel).
58.                       Hvassahraunssel.
5.5. Álftaneshreppur.                                                                      
59.                       Lónakotssel.
60 og 61.              Eiðiskotssel og Kolbeinskotssel.
62.                       Óttarsstaðasel.
63 og 64.              Brennisel og Kolasel.
65.                       Straumssel.
66.                       Fornasel (Jónssel).
67.                       Gjásel (Lambhagasel).
68.                       Hvaleyrarsel.
69 og 70.              Ássel og Ófriðarstaðasel.
71.                       Hamarskotssel.
72.                       Setbergssel.
73.                       Kaldársel.
74.                       Rauðshellissel?
75.                       Helgadalssel?
76.                       Garðaflatir?
77.                       Gvendarsel.
78                       Sandhússel.
79.                       Hliðssel.
80.                       Selskarðssel.
81.                       Mölshússel.
82.                       Brekkusel.
83.                       Svalbarðssel.
84.                       Sviðholtssel.
85.                       Deild.
86.                       Breiðabólstaðarsel.
87.                       Vífilstaðir.
88.                       Hraunsholtssel.
89.                       Urriðakotssel.
5.6. Seltjarnarnesshreppur.                                                         
90.                       Lambastaðasel.
91.                       Nessel.
92.                       Nærsel.
93 og 94.              Seljadalssel II? og Seljadalssel III?
95.                       Örfiriseyjarsel.
96.                       Víkursel.
97 og 98.              Stórasel  og Litlasel.
99.                       Öskjuhlíðarsel (Hlíðarhúsasel /Víkursel).
100.                     Fífuhvammurssel.
101.                     Breiðholtssel.
5.7. Mosfellssveit.                                                                         
102.                     Grafarsel.
103.                     Keldnasel.
104.                     Gufunessel.
105.                     Viðeyjarsel (Bessastaðasel?).
106.                     Korpúlfsstaðasel.
107.                     Blikastaðasel.
108.                     Suðurreykjasel.
109.                     Úlfarsfellssel?
110.                     Lágafellssel.
111.                     Varmársel.
112.                     Helgafellssel.
113.                     Hraðastaðasel.
114.                     Æsustaðasel?
115.                     Helgadalssel.
116.                     Minna-Mosfellssel (Markúsarsel/Leirtjarnarsel).
117.                     Mosfellssel I (Helgusel).
118.                     Mosfellssel II (Illaklifssel).
119.                     Mosfellssel III.
120.                     Jónssel.
121.                     Hrísbrúarsel.
5.8. Kjalarneshreppur.                                                                  
122.                     Þerneyjarsel.                                                    
123.                     Sámsstaðir (sel?).
124.                     Lambhagasel.
125.                     Grafarsel.
126.                     Mógilsáarsel.
127.                     Esjubergssel.
128.                     Móasel.
129.                     Skrauthólasel.
  5.9. Selvogur.
130.                     Hnúkasel?
131.                     Snjóthússel.
132.                     Nessel.
133.                     Bjarnastaðaból.
134.                     Götusel.
135.                     Þorkelsgerðisból.
136.                     Eimuból.
137.                     Ólafarsel.
138.                     Vindássel.
139.                     Strandarsel.
140.                     Vogsósasel.
141. og 142.          Stakkavíkursel (eldra og yngra).
143. og 144.          Herdísarvíkursel og Bótarsel.
145.                     Hlíðarsel.
5.10. Ölfus 
146.                     Hraunsel.
147.                     Hlíðarendasel.
148.                     Litlalandssel.
149.                     Breiðabólstaður
150.                     Hjallasel.
151.                     Núpasel.
152.                     Þorlákshafnarsel (Hafnarsel).
5.11.         Tölfræðileg samantekt
VI.      Yfirlit um sel og selstöður á Reykjanesskaga – vestan
          Esju.                                                                               
6.1. Yfirlitið

VII. Selin og selstöðurnar – fjöldi                                         
       7.1. Landakort
       7.2. Skrif Egons Hitzlers o.fl. um sel
       7.3. Tegundir selja
VIII. Selin og selstöðurnar – gerð og einkenni                       

IX.  Selin og selstöðurnar – aldur                                            

       9.1. Gullbringu og Kjósarsýsla – fjallskil

X.    Selin og selstöðurnar – endalok                                       


XI.  
Niðurlag                                                                      

Heimildir
Nafnaskrá
Viðauki

I. Inngangur

Viðfangsefni ritgerðarinnar er að safna heimildum um sel og selstöður á landssvæðinu frá vesturhlíðum Esju út að Reykjanestá, vestast á Reykjanesskaganum, bera þær saman,  kanna fjölda þeirra, leita þær uppi og merkja inn á uppdrátt, lýsa gerð mannvirkja í seljum á svæðinu og jafnframt að reyna að ákvarða aldur þeirra út frá heimildunum, einkum Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá árinu 1703 svo og helstu útlitseinkennum.

Uppdráttur af Hraunsseli

Hraunssel.

Selin og selminjar, sem fjallað er um í ritgerðinni, eru ein tegund búskaparminja á afmörkuðu svæði. Ritheimildirnar eru notaðar til að fá vísbendingar um aldur og staðsetningu seljanna. Minjarnar voru leitað-ar uppi eftir heimildunum og reynt að meta hugsanlegar breytingar í gerð þeirra eftir aldri. Við leitina, sem stóð í u.þ.b. 6 ár, voru uppgötvuð sel og líklegar selminjar, sem ekki er getið um í heimildum. Upplýsingar fengnar á vettvangi hafa hjálpað til við að skýra skráðar heimildir og bæta við þær sem fyrir voru. Auk þess hefur með  vinnunni fengist nokkuð heildstæð mynd af þessari tegund búskaparminja á landssvæðinu. Upplýsingarnar voru færðar inn á skrá gps-staðsetningarhnitum. Skráin  fylgir ritgerðinni.
Byrjað verður á því að lýsa seljum á Reykjanesskaganum og tilheyrandi mannvirkjum, staðsetningu, gerð og ástandi eins og það var í byrjun 21. aldar. Bornar eru saman upplýsingar úr Jarðabók Páls Vídalíns og Árna Magnússonar árið 1703 um þekkt sel og reynt verður að ráða í aldur þeirra með hliðsjón af ummerkjum á vettvangi og skráðum heimildum. Einnig verður reynt að áætla hvenær seljabúskapur lagðist af á svæðinu og af hvaða ástæðum.
Höfundur telur líklegt að í öllu landnámi Ingólfs megi finna leifar eftir tæplega 400 sel og/eða selstöður – á svæðinu í vestur frá Botnsá,  Ölfusvatni og Ölfusárósum að Reykjanestá. Á þessu svæði, vestan Esjuhlíða, fundust heimildir, vísbendingar og ummerki á 152 stöðum er geymt geta selminjar. Í Jarðabókinni 1703 er þetta svæðið sem skilgreint er sem Grindavíkurhreppur, Hafnahreppur, Rosmhvalaneshreppur, Vatnsleysu-strandarhreppur, Álftaneshreppur, Seltjarnarneshreppur, Mosfellssveit og Kjalarneshreppur í Gullbringu- og Kjósarsýslu, auk Ölves (Ölfuss) og Selvogs í Árnessýslu. Selin geta hafa verið í notkun frá fyrstu tíð landnáms hér á landi fram til aldamótanna 1900. Þau spanna því u.þ.b. 1000 ára tímabil í búskaparsögu svæðisins. Einungis eitt sel hefur verið rannsakað og aldursgreint.
Skoðuð verða lítillega skrif Hitzlers um sel hér á landi, einkum þau sem hægt er að heimfæra upp á seljabúskap á Reykjanesskaganum, en hafa ber í huga að Hitzler skoðaði þau sel ekki sérstaklega. Einnig verður tekið mið af skrifum Guðrúnar Sveinbjarnardóttur um sel, umfjöllun Guðrúnar Ólafsdóttur um Grindavíkurselin og Sesselju Guðmundsdóttur um Vatnsleysustrandarselin.

Selsstígur

Straumsselsstígur.

Ekki verður komist hjá því að fjalla lítillega um skilgreiningar á selminjunum sem fornleifar með hliðsjón af gildandi lögum og reglugerðum. Selminjar hafa bæði sögulegt gildi og eru áþreifanlegur vitnisburður um lífshætti og atvinnu fólks á svæðinu um aldir.
Uppdrættir af minjum og minjasvæðum og ljósmyndir eru eftir höfundinn. Tilgangurinn með hvorutveggja er fyrst og fremst sá að reyna að fá yfirsýn um selminjarnar á hverjum stað, útlit þeirra og ástand. Teknar hafa verið 17.000 ljósmyndir og gerðir 100 uppdrættir af einstökum minjum eða minjasvæðum á Reykjanesskaganum.
Í ritgerðinni er ýmist fjallað um sel eða selstöður. Skilgreiningin er sú að með seli er átt við staðinn þar sem selstaðan var. Á einum stað getur hafa verið selstaða frá fleiri en einum bæ, s.s. í Knarrarnesseli (3 selstöður), Gjáseli (3 selstöður), á Selsvöllum (6 selstöður), í Selgjá (11 selstöður), og Auðnaseli (3 selstöður). Í yfirliti um sel og selstöður í VI. kafla er listi yfir selin í númeraröð og í viðauka aftast fylgir heildarlisti yfir selin í stafrófsröð. Í þeim lista koma fram staðsetningar m.v. Jarðabókina 1703, hvort þau hafi fundist, hnit einstakra selja og hvaða bæ það tilheyrði skv. heimildum. Listinn, líkt og yfirlitið, gefur jafnframt upplýsingar um hvort tiltekið sel hafi verið þekkt, að önnur selstaða hafi verið á sama stað, selið hafi eyðst af völdum náttúrunnar eða verið eytt af mannavöldum eða vafi geti leikið á að um sel hafi verið að ræða. Jafnframt er tiltekið ef sel gæti hafa verið kolasel og hvaða sel urðu að bæjum. Framangreint er bæði skýrt með litum og táknum.
Seljaorðalisti fylgir aftan við heimildarskrána, en í honum er hægt að sjá hvar fjallað er um einstök sel í ritgerðinni. Í viðauka fylgir ritgerðinni kort af svæðinu þar sem öll selin eru merkt inn á með viðkomandi númeri, auk hnitsetninga.

Sel vestan Esju

(Ritgerðina er hægt að panta, en hafa ber í huga að hún er alls 98 MB að stærð sbr. hlutfallslegan prentunarkostnað (sem reyndar er lítill miðað við alla vinnuna).

Hraunssel

Á vefsíðunni „Wikipedia.org“ er fjallað um sel hér á landi. Vitnað er í bók Birnu Lárusdóttur, „Mannvist“ (2011).

Sel

Sel á Reykjanesskaga – yfirlit 2022.

FERLIRSfélagar hafa löngum leitað uppi sel á Reykjanesskaganum, í fyrrum landnámi Ingólfs. Samantekt á fjölda seljanna telur nú 407 slík. Selin hafa jöfnum höndum fundist með vísan í skriflegar heimildir, við leitir á þekktum örnefnastöðum, eftir fróðra manna/kvenna lýsingum og á göngum um líklegar selstöðuslóðir. Í flestum seljum á svæðinu eru þrjú hús; baðstofa, búr og eldhús, stekkur, vatnsból eða lækur, varða, nátthagi, smalabyrgi, fjárskjól og að sjálfsögðu stígur að og frá aðstöðunni. Sumsstaðar er um þyrpingu selja að ræða. Heimasel, sem voru nálægt bæjum, höfðu önnur einkenni, þ.e. einungis stekk við vatnsból sem og skjól. Selshúsin voru yfirleit í skjóli vestan undir hlíð, hól, hamravegg eða hæð til að losna við álag fyrir vindum og regni austanáttarinnar.
Fleiri en ein selstaða gat verið frá sama bæ, allt upp í fjórar, á mismunandi stöðum. Jafnan voru selin á ystu mörkum bæjanna líkt og jarðeigandinn vildi með því undirstrika eingnarhald sitt á landssvæðinu. Þá voru selstöður hafðar í skiptum, þ.e. bóndi fékk útræði eða önnur hlunnindi frá öðrum í staðinn fyrir selstöðu i eigin landi.
Þótt selin á Reykjanesskaganum virðast lík að uppbyggingu og gerð má bæði sjá mun á þeim m.t.t. mismunandi aldurs og landshluta. Þannig eru selin í nyrðri fjalla- og heiðarhlutanum ólík þeim í suðurhlutanum þar sem hraunin réðu mestu um gerð og staðsetningu. Hraunin nýttust t.d. betur til nýtingar fjárskjóla og nátthaga, auk þess erfiða var þar um vatnsöflun.
Sel voru einning nýtt til annarra hluta, s.s. til kolagerðar, fugla- og eggjatekju, heyöflunar og og móskurðar. Þó eru þó tiltölulega fá á Skaganum.

„Sel voru hús sem voru nýtt til seljabúskapar á Íslandi og víðar um Evrópu, einkum í fjallendi. Á Íslandi var seljabúskapur stundaður frá landnámi fram á 19. öld en var á undanhaldi snemma á 18. öld eða jafnvel fyrr. Í seljabúskap fólst það að mjólkandi skepnur, aðallega ær en í einhverjum tilvikum kýr, voru reknar í sel snemma sumars og hafðar á beit þar yfir sumarmánuðina.

Fólk af bænum, gjarnan vinnukonur ásamt smala, höfðust við í selinu á meðan og hirtu um skepnurnar. Sel voru gjarnan fjarri bæjunum, t.d. í afskekktum fjalladölum, og nýttu þannig beitiland sem annars hefði verið óaðgengilegt; þannig voru selin eins konar árstíðabundin útibú bæjanna.

Einkenni selja
Samkvæmt ritheimildum var dæmigert að sel skiptust í þrjá hluta: íveruhús, búr og mjólkurhús. Utandyra voru yfirleitt kvíar skammt frá, afgirt svæði þar sem hægt var að mjólka skepnurnar. Seljarústir sem rannsakaðar hafa verið af fornleifafræðingum staðfesta þetta að nokkru leyti, því algengt er að rústirnar skiptist í þrjú hólf. Í tíunda hluta rústanna er þó aðeins eitt hólf en í sumum geta verið fleiri en tíu. Sel hafa því verið nokkuð breytileg að stærð, væntanlega eftir efnum bæjanna, fjölda vinnufólks eða annarra staðbundinna þátta.

Uppgreftir
Aðeins einn uppgröftur hefur farið fram á rústum sem teljast hafa verið sel: Pálstóftir við Kárahnjúka, en uppgröfturinn fór fram áður en svæðinu var sökkt í Hálslón vegna virkjunarframkvæmda við Kárahnjúka. Selið hafði verið í notkun á tímabilinu 950-1070 og samanstóð af einni þrískiptri rúst og annari stakri, auk einhvers konar fjárrétta fyrir utan. Regluleg áfokslög milli gólflaga bentu til að selið hafi (eðlilega) aðeins verið í notkun árstíðabundið. Einnig fundust merki þess að íbúar selsins hafi stundað veiðar á fuglum, jafnvel til að safna vetrarbirgðum. Þó er ólíklegt að selið hafi í raun aðeins verið veiðikofi því þar fundust einnig ýmis konar áhöld, myntir og skartgripir sem höfðu verið smíðaðir á staðnum, en þetta bendir til langtímadvalar á staðnum.

Fleiri líklegar selrústir hafa verið rannsakaðar að einhverju marki, t.d. Hólasel í Eyjafirði og fjórar selrústir í Mývatnssveit: Arnarvatnssel, Gautlandasel, Sellandasel og Sandvatnssel, auk tveggja selja í Kjarardal, Borgarfirði, sem heyrðu undir Reykholt. Aldursgreining á þessum rústum bendir til að selin hafi verið byggð fyrir 1300.

Dreifing
Ritheimildir, t.d. Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns, benda til að sel hafi verið mjög misalgeng eftir landshlutum, t.d. hafi meira en helmingur bæja í Dalasýslu haft sel en aðeins 8% í Rangárvallasýslu. Þessi munur kemur hins vegar ekki heim og saman við könnun fornleifa og örnefni, en örnefni tengd seljum eru algeng um allt land. Rétt eins og sel virðast hafa verið breytileg að gerð og stærð, er einnig mjög misjafnt hversu langt þau eru staðsett frá þeim bæjum sem þau heyrðu undir. T.d. er sel við Laxamýri í S-Þingeyjarsýslu aðeins 1 km frá bænum en Garðar og Innri Hólmur á Akranesi áttu sel í allt að 30 km fjarlægð.

Hnignun

Selsmatsselja

Selsmatsselja.

Fornleifafræðingum er ekki að fullu ljóst hvers vegna seljabúskapur lagðist af á Íslandi á 18.-19. öld. Mögulegir þættir sem bent hefur verið á er t.d. fólksfækkun vegna stórubólu, sem gekk yfir landið 1707-1709; eða það að fráfærur lögðust af á sama tíma, samfara aukinni kjötframleiðslu. Undir lok 18. aldar þótti ýmsum sýnilega miður að seljabúskapurinn væri að leggjast af og reyndu að halda á lofti kostum hans í riti.“

Af 407 seljum á Reykjanesskaganum hafa einungis 5 verið eyðilögð; öll vegna misskilnings eða vanþekkingar. Mikilvægt er að gæta vel að varðveislu þessara minja, sem hafa verið fylgifiskar búsetu allt frá því að land byggðist. Þótt margir hafi komið að rannsóknum á seljabúskap hér á landi eru mörgu enn ólokið í þeim efnum.

Heimildir:
-https://is.wikipedia.org/wiki/Sel

Litla-Botnssel

Litla-Botnssel.

Rauðhólssel

Hér veður fjallað um „Seljabúskap á Suðurnesjum„. Upplýsingarnar eru fengnar úr skýrslu Óbyggðanefndar frá árin 2004 um úrskurði Grindavíkur- og Vatnsleysustrandarlands.

Selsvellir

Selsvellir – tóftir.

Í lýsingu Skúla Magnússonar á Gullbringu- og Kjósarsýslu árið 1781 er í XI. kafla fjallað um hverja kirkjusókn fyrir sig og m.a. fjallað um tölu og ásigkomulag bújarða. Um Krýsuvík segir m.a.: „Bær þessi er tvær mílur frá lendingarstað sínum og telst því fremur sveitajörð en sjávar. Landrými er mikið; … Jörðin er vel fallin til sauðfjárræktar og til mikils sauðfjárbótabús með yfir 1000 sauðfjár.
Um Staðarsókn í Grindavík segir Skúli Magnússon árið 1781: „Þarna eru býlin fast með ströndinni, og liggur ekkert engi eða slægjuland undir þau nema túnin ein, sem er eigi unnt að auka, … En 2 mílur í norðaustur frá byggðarlaginu, inni á milli fjallanna, eru góðir hagar. Hafa menn þar selstöður. En eigi eru þar skilyrði fyrir nýbýli“.

Kirkjuvogssel

Kirkjuvogssel.

Skúli Magnússon tekur fram um Kirkjuvogssókn árið 1781 að selstöður séu 1 1/2 mílu norðaustur frá bæjunum, en engar selstöður séu í Hvalsness- og Útskálasóknum. Hins vegar eru taldar selstöður í Njarðvíkursókn. Um Kálfatjarnarsókn segir Skúli: „Frá flestum bæjum eru selstöður uppi til fjalla. Í sókninni er hvergi hagfelldur staður til nýbýla, en eitthvert hið bezta land til sauðfjárræktar, það er ég hefi séð á Íslandi, á fjögra mílna svæði samhliða bæjunum. Á breiddina nær það svæði 2 mílur frá sjónum upp að háfjöllunum, sem greina Gullbringusýslu frá Árnesssýslu. Þannig tekur svæði þetta yfir 8. fermílur“.
Geir Bachmann, prestur á Stað í Grindavík, samdi sóknalýsingu Staðarsóknar í Grindavík árin 1840-1841. Þar segir hann eftirfarandi um selstöðu Staðar: „Eftir jarðabókinni 1760 á Staður selstöðu á Selsvöllum, þó það nú sýnist orðið almennings selstaða úr allri Grindavík“.

Selsvellir

Selsvellir – tóftir.

Geir fjallar síðar nánar um selstöður í Staðarsókn í svari við 31. spurningu sóknarlýsinganna (selstöðum): „Þess er áður getið, að Staður eigi selstöðu á Selsvöllum. Selsvellir eru héðan í landnorður upp í fellum, og er Keilir, þegar í sel þetta er komið, rétt í útnorður. Stendur selið í Strandarmannalandi eður fyrir norðan Grindavíkur landamerki. Þar er all-grösugt, en bízt fljótt upp, því allir bæir í sókninni nema Hraun hafa þar í seli, og þó að engu goldið Staðarprestinum. Vilja menn hér gjöra þessa selstöðu almenning, og þyrfti þó ei að vera. Litlu vestar en Selsvellir er selstaða frá Hrauni; hér er árlega haft í seli frá bæ þessum, og eru landamerkin milli seljanna í svo kölluðum Þrengslum. Flestir bæir í Grindavík hafa haft í seli einhver staðar til fjalla; er mér sagt, að vatnsleysi olli því, að allar þær eru afræktar og getur vel verið sannleiki. Sú mun og orsök, að allir hafa þyrpzt á Selsvelli, því þar er dálítill rennandi lækur rétt við selið. … 32. Ekkert er hér afréttarland; allt fé ungt og og gamalt, lömb og sauðir er rekið í selið og þar smalað á hverju máli; lömbin eru kefluð. Þó eru réttir í Stóru-Vogum, sóttar af Ströndinni, Rosmhvalaness-, Hafna- og Grindavíkurhreppum“.

Baðsvallasel

Baðsvallasel.

Síðar átti Geir eftir að kvarta undan ágengni nágranna sinna í sellandi eins og kemur fram í grein Guðrúnar Ólafsdóttur Sel og selstöður í Grindavíkurhreppi sem birtist í afmælisrit Ólafs Hanssonar Söguslóðir árið 1979. Þar segir: „Til enn frekari áréttingar um mikilvægi þessara hlunninda [þ.e. selstöðu Grindvíkinga] má tilfæra bréf frá árinu 1844 frá sr. Geir Bachmann til biskups, þar sem hann kvartar yfir því, að allir nágrannar sínir noti selstöðuna á Selsvöllum án þess að greiða honum leigu fyrir, þótt hún sé sannanlega eign prestssetursins samkvæmt jarðabókinni 1760“. Telur hann, að bændurnir hafi komist upp á að nota selstöðuna, þegar fyrirrennarar hans í prestsembættinu hafi verið svo fénaðarfáir, að þeim hafi ekki þótt svara kostnaði og fyrirhöfn, að viðhalda selhúsum og hafa fólk yfir litlum fénaði og þess vegna leyft öðrum afnot af henni gegn leigu, sem síðan hafi fallið niður vegna hirðuleysis. Nú sé svo komið, að fyrir utan hann, sem hafi byrjað að nota selið 1837, þ. e. tveimur árum eftir að hann fékk brauðið, eigi sex búendur þar selhús og hafi þar allan sinn fénað og taki auk þess sumir fénað af öðrum til göngu og hirðingar. Telur hann, að sumarið áður hafi að minnsta kosti 500 fjár, ungt og gamalt, og 30 nautgripir auk inntökupenings gengið á völlunum og geti menn getið sér þess nærri, að þvílíkur urmull af kúm og kindum geri „ærið usla og jarðnag í beitilands þrengslum”. Vegna hagleysis verði að reka allan fénað, sem tíðum sé kominn í selhagana löngu fyrir fráfærur í 7. viku sumars, heim á miðjum selvinnutímanum, …

Njarðvíkursel

Njarðvíkursel.

Pétur Jónsson, prestur á Kálfatjörn, fjallar lítið um selstöður í lýsingu Njarðvíkur- og Kálfatjarnarsóknar árið 1840. Hann nefnir selstöðu frá Innri-Njarðvík, sem verið hafi við veginn frá Vogum að Grindavík, en síðar segir Pétur um Hvassahraun: „Hér hefir verið selstaða fyrrum eins og á öllum Strandarhrepps lögbýlum, en öll af lögð á seinni tímum; þau hafa öll eður flest vatnslaus verið og staðið hér um í miðri heiði, milli fjalls og fjöru“.
Árni Óla blaðamaður samdi bók sem fjallar um Vatnsleysuströnd og Voga, Strönd og Vogar, og kom út árið 1961. Árni víkur þar á tveimur stöðum að seljum á svæðinu en getur ekki heimilda nema hann vitnar í seinna skiptið til frásagnar Benjamíns Halldórssonar: „Um alla heiðina eru rústir af gömlum seljum, … Flekkuvíkursel lagðist ekki niður fyrr en um 1870, en þá höfðu öll hin selin verið lögð niður fyrir löngu“. …
Hér verða nú taldar seljarústirnar í Vogaheiði og Strandarheiði, og er aðallega stuðzt við frásögn Benjamíns Halldórssonar og lýsingar hans á staðháttum.
1. Selhólar heita skammt fyrir ofan. Voga. …
2. Nýjasel er við Snorrastaðatjarnir ofanverðar. …
3. Þórusel er skammt austur af Vogum. …

Arahnúkasel

Arahnúkasel.

4. Arahnúkssel er hjá Stóru-Aragjá … og er þangað röskur hálfrar stundar gangur frá Vogum. Í Arahnúksseli eru glöggar seltóftir og allstórt seltún þar umhverfis, … Túnið var seinast slegið 1917.
5. Gamla-Vogasel er austast í svonefndu Vogaholti. Þar eru greinilegar seltóftir og nokkuð stórt seltún…
6. Dalsel er í Fagradal við samnefnt fjall. Þar hafa sézt seltóftir til skamms tíma, en Fagridalur er nú uppblásinn fyrir löngu. Dalselið mun hafa verið notað frá Grindavík (Járngerðarstöðum). …
7. Gjásel er um 3/4 klukkustundargang frá Brunnastöðum. Þar eru glöggar seltóftir, en lítið seltún. …
8. Brunnastaðasel er austur af Gamla-Vogaseli. Mitt á milli þessara selja er Markhóll, sem skiptir löndum milli Voga og Brunnastaða. Þarna eru margar og allglöggar seltóftir og allstórt seltún, en ekkert vatn. Þangað mun vera um klukkustundar gangur frá Brunnastöðum. …

Hlöðunessel

Hlöðunessel.

9. Hlöðunessel er austur af Brunnastaðaseli. Þar eru litlar og ógreinilegar seltóftir og lítið seltún. …
10. Knarranessel er norðaustur af Hlöðunesseli, um stundar gang frá Knarrarnesi. … Þarna er stórt seltún og allmikið vatn í nokkuð stóru leirflagi. Í miklum þurrkum hefir vatn þetta þornað, og svo var fyrir 1920, en þá var grafin niður í leirflagið nokkuð djúp hola. Komu menn þar niður á mó, er reyndist góður eldiviður, en mósvæðið takmarkast á alla vegu af hraunklöppum og var mórinn því fljótt upp urinn. …
11. Auðnasel er austur af Knarrarnesseli. Þar eru margar greinilegar seltóftir og allstórt seltún. …
12. Kolgrafaholt heitir um hálfrar stundar gang frá Þórustöðum. … [Árni Óla segir engar seltóftir sjást þarna en virðist giska á að þarna sé selstaða Þórustaða, Fornuselshæðir, sem Jarðabók Árna og Páls nefnir].

Flekkavíkursel

Flekkavíkursel.

13. Flekkuvíkursel eru um 1/2 stundar gang frá Flekkuvík. Þar eru glöggar seltóftir, en ekki margar. Eru þær við berghamar hjá Hrafnagjá, … Í Flekkuvíkurseli er lítið seltún, en nokkrar grasi grónar flatir austur og vestur frá selinu, …
14. Rauðhólssel átti Stóra-Vatnsleysa. Það er við hraunjaðarinn, sem liggur frá Kúagerði, en vestur af Snókafelli, sem er úti í hrauninu. Í Rauðhólsseli eru glöggar seltóftir og allstórt seltún, …
15. Oddafell heitir milli Keilis og Trölladyngju. Þar átti Minni-Vatnsleysa selstöðu. …
16. Sogasel. Það er uppi í Vesturhálsi og í landi Stóru Vatnsleysu, en þar höfðu Kálfatjörn og Bakki selstöðu. Er þangað um 2 1/2 klukkustundar gangur frá Kálfatjörn. …

Sogasel

Sogasel.

17. Hvassahraunssel var vestast í Almenningum. …
Í áðurnefndri grein Guðrúnar Ólafsdóttur frá 1979 er gert ráð fyrir að selstöður, sem Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns nefnir og jarðir í Grindavíkurhreppi nýttu, hafi verið innan marka hreppsins. Miðar Guðrún við kort Landmælinga Íslands, blað 27, Reykjavík, útgefið 1977, og blað 29, Krýsuvík, gefið út 1969. Stangast það á við umsögn Geirs Bachmanns í sóknalýsingunni 1840-1841, sem segir Selsvelli í Strandamannalandi, og greinargerð Sesselju Guðmundsdóttur, sem oft hefur verið vitnað til hér að framan.
Guðrún telur hugsanlegt að ásókn Grindvíkinga í selstöðuna á Selsvöllum megi að einhverju leyti skýra með því að þeir höfðu ekki lengur haft innhlaup í selstöðurnar í Krýsuvíkurlandi eins og var á 18. öld. Þrjú nýbýli hafi risið í Krýsuvíkurlandi á 19. öld, öll í fyrri seljalöndum. Vigdísarvellir og Bali á Vigdísarvöllum og Fitjar í svonefndri Selöldu [sem er utan kröfusvæðis]. Telur hún ólíklegt að Krýsuvíkurbændur hafi leigt út selstöður eftir að þessi býli byggðust.

Þórkötlustaðasel

Þórkötlustaðasel við Vigdísarvelli – uppdráttur ÓSÁ.

Guðrún Ólafsdóttir reynir að tímasetja hvenær selfarir í Grindavíkurhreppi hafi hætt og vitnar til bókar Gísla Brynjólfssonar, „Mannfólk mikilla sæva – Staðhverfingabók” (útgefinni 1973) og Ferðabókar Þorvalds Thoroddsens (útgefinni 1913), en Þorvaldur kom að Hraunseli, Selsvöllum, Baðsvöllum og Vigdísarvöllum árið 1883. Samkvæmt því hefðu selfarir hætt milli 1850 og 1883. En í þjóðháttasöfnun árið 1976, hefði Magnús Hafliðason frá Hrauni (fæddur 1891) sagt foreldra sína haft í seli í Hraunseli og talið að því hefði verið hætt um 1890.
Svo virðist sem Grindvíkingar hafi enn haft í seli um 1870 ef dæma má af bréfum hreppstjóra Vatnsleysustrandarhrepps 15. og 21. janúar 1870, sem telur mann, sem sýslumaður segir búsettan á Vigdísarvöllum, heimilisfastan á Vatnsleysuströnd, þó að hann flytji sig og fé sitt um sumartímann á Vigdísarvelli, líkt og þegar Grindavíkurmenn hafi í seli á Selsvöllum.

Heimild:
Úrskurður Óbyggðanefndar 2004 – Grindavík og Vatnsleysuströnd.

Knarrarnessel

Knarrarnessel – stekkur.

Selsvellir

Á Selsvöllum undir Núpshlíðarhálsi eru fjölmargar selsminjar Grindvíkinga í gegnum tíðina. Þarlendir og Vogamenn greindi á um eignarhaldið, en klerkar Grindvíkinga virðast haft betur á meðan var.

Sel á vestanverðum Selsvöllum.

Selstöður Grindvíkinga voru á seinni öldum undir Selsvallafjalli. Enn í dag má sjá þar leifar húsa og stekkja. Selsvallalækurinn, sem skapaði vellina í gegnum aldirnar, líður enn sprækur niður með tóftunum.
Svo virðist sem Grindavíkurbændur hafi horfið frá Selsvöllunum um tíma og komið sér upp öðrum selstöðum víðs vegar annars staðar. Þannig hafa Þórkötlustaðabændur t.d. fengið selstöðu í Krýsuvíkurlandi sunnan Bæjarfells í skiptum fyrir útræði. Þarna varð heimafell Vigdísarvalla, síðar hjáleiga frá Krýsuvík.

Baðsvellir

Selstaða á Baðsvöllum.

Járngerðarstaðabændur unnu sér nýja selstöðu á Baðsvöllum norðan Þorbjarnarfells og Hóp kom sér upp selstöðu á ystu mörkum heimalandsins undir Selhálsi. Ísólfsskáli hafði heimasel í Borgarhrauni sunnan Einbúa og Hraun kom sér síðar upp selstöðu undir Núpshlíðarhálsi, sunnan Selsvalla. Líklegt má telja að það hafi verið um sama leiti og Grindavíkurbændur sóttu á ný inn á Vellina með selsbúskapinn, en að þessu sinni við hraunkantinn vestan við hina gömlu selstöðu.

Selsvellir

Selsvellir – sel Grindvíkinga; uppdráttur ÓSÁ.

Virðast þeir hafa leitt Selsvallalækinn inn að hinum nýju selstöðum. Bendir það til að þá hafi kýr verið hafðar í seljunum þeim. Selin þarna eru miklu mun stærri og verklegri en þau eldri austar. Ekki er óraunhæft að ætla að bændur hinna þriggja hverfa, er Grindvíkingar byggðu upp á þeim tíma, hafi komið sér saman um selsöðurnar á vestanverðum Selsvöllunum á þeim tíma.
Selstígurinn frá og að Selsvöllum liggur frá Sandfelli inn á Vellina.
Hraunselið hefur jafnan verið orðað við landaeign Ísólfsskála, en virðist hafa verið látið í frið í góðri sátt með þeim nágrönnum.
Í dag eru selsminjarnar á Selsvöllum einar þær merkustu hér á landi. Sjá MYNDIR.

Selsvellir

Selstaða á Selsvöllum.

Sel

Margrét Björk Magnúsdóttir skrifaði skýrslu um „Rannsókn á seljum í Reykjavík“ árið 2011:

Elstu ritheimildir sem varða sel á Íslandi eru trúlega Grágás, lagasafn íslenska þjóðveldisins sem talið er ritað á þjóðveldisöld og varðveist hefur í handritum frá 13. öld, og Íslendingasögur sem flestar eru taldar ritaðar á 13. öld. Talið er að ákvæði um sel í Grágás séu aðlöguð frá Norskum lögum. Þar segir meðal annars að sel skuli vera inna landamerkja og þau megi ekki staðsetja á afrétti. Í Jónsbók lagabók Magnúsar lagabætis sem tók gildi árið 1281 og var í notkun framá 18. öld, í skinnhandriti frá því um 1363, eru ákvæði sem varða sel.24 Þar er mönnum sagt hvernig þeir skuli haga ferðum sínum til sels (sætr), að fara skuli fornar götur yfir landareignir annarra, og hvar selin skuli vera.25 Þetta ákvæði er vísbending um að sel hafi getað verið langt frá bæ. Í Jónsbók er einnig kveðið á um á hvaða tíma eigi að hafa í seli en þar kemur fram að halda skuli kýr og fé sem skilið hefur verið frá lömbum sínum í seli yfir sumarið frá miðjum júní fram í miðjan ágúst. Þá eru sel einnig oft nefnd í lýsingu stærri býla og kirkjustaða. Af umfjöllun þessara miðaldaritheimilda má sjá að sel hafa verið mikilvæg og verðmæt. Sel koma nokkuð oft fyrir í Íslendingasögum sem bendir til þess að seljabúskapur hafi verið útbreiddur og vel þekktur á Íslandi á þeim tíma sem ritun sagnanna hófst á 13. öld. Í Laxdælu er seli og staðsetningu þess lýst. Selið er sagt samanstanda af tveimur húsum íveruhúsi og búri, nálægt á. Í síðari heimildum er talin venja að þrjú rými séu í seli, búr, eldhús og svefnstaður.
Rannsóknir á seljum á Íslandi eru nokkrar en fram til þessa hefur aðeins farið fram einn fornleifauppgröftur á rústum sem taldar eru hafa verið sel út frá staðsetningu og árstíðabundini notkun. Sú rannsókn fór fram árið 2005 vegna fyrirhugaðra virkjanaframkvæmda á Kárahnjúkum sem eru á austanverðu hálendinu. Þar fór fram heildaruppgröftur á stað sem heitir Pálstóftir en hann er í 600 m hæð yfir sjávarmáli, um 90 km frá næstu strönd og í minnst 15 km fjarlægð frá næsta bæ. Rannsóknin á Pálstóftum leiddi í ljós að þar hefði verið árstíðabundin búseta og bentu gjóskulög á staðnum til notkunar á tímabilinu 940 til 1070. Þar komu einnig fram vísbendingar um fjölbreyttar athafnir t.d. handverk, veiðar og trúariðkun.29 Fjórar rústir voru grafnar upp á svæðinu, rústir I-IV. Aðalhúsið rúst I var stærst um 15m², þar var eldstæði í miðju og hefur trúlega verið svefnstaður. Rúst II var um 3m² og var túlkuð sem geymsla. Rúst III lá í halla frá hinum og sneri öðruvísi en hin húsin. Hún var um 9m² að stærð og allt benti til að þar hefði verið opið aðhald kannski notað til mjalta. Rúst IV var óvenjulegust, var seinni viðbót við suðurhlið byggingar I minna en 9m² með eldstæði í miðju og steini lagðri stétt frá eldstæðinu og út. Talið var að það gæti hafa verið svefnstaður fyrir eina til tvær manneskjur. Fram að uppgreftrinum á Pálstóftum höfðu rannsóknir á seljum aðallega byggt á ritheimildum.
Daniel Bruun var danskur kafteinn sem tók sér fyrir hendur að rannsaka íslenskar fornleifar og ferðaðist í þeim tilgangi um landið í 14 sumur í kringum aldamótin 1900 síðar.
Niðurstöður hans birtust árið 1928 í bókinni Fortidsminder og Nutidshjem paa Island. Þar segir hann að fjarlægari beitilönd hafi verið hagnýtt til selstöðu og sellönd séu eign jarðanna sem liggi langt frá bæjum. Bruun segir að sel hafi til forna ýmist verið kölluð sumarsetur eða sumarhús og þangað hafi flestir flutt af bæjunum með allar kvíær, kýr og margt af hestum flutt til að hlífa heimahögum. Hann telur að selstöðum hafi fækkað vegna þess að kúm fækkaði. Bruun segist hafa séð gamlar seltóftir á nokkrum stöðum sem voru venjulegast þrjú sambyggð hús, eldhús, selbaðstofa og mjólkurbúr og kvíar í grennd við húsin.
Í bók norska sagnfræðingsins Lars Reinton Til seters. Norsk seterbruk og seterstell frá árinu 1969 kemur fram að í Noregi þekkist þrjár megin gerðir selja sem notaðar voru á mismunandi tíma yfir sumarið. Heimasel (n.heimsetrane) voru nálægt bæjarhúsum og þangað var flutt strax á vorin. Millisel (n. mellomsetrar) voru lengra frá bæ en lengst frá bæ voru sumarselin (n. sommarsetra) sem voru aðalselin og voru inní skógi eða upp til fjalla.
Reinton telur að svipað seljakerfi hafi verið notað á Íslandi á söguöld. Hann greindi selin í Noregi einnig eftir eðli þeirra og skilgreindi þrennskonar sel; fullsel, mjólkursel, heysel eftir þeim störfum sem þar fóru fram. Fullsel voru yfirleitt reisulegust þar sem aðstaða til mjólkurvinnslu þurfti að vera góð. Þar þekktust einnig vetrarsel þar sem haft var geldfé til að klára heyforða. Þessa þrískiptingu selja telur Guðrún Sveinbjarnardóttir að ekki eigi við á Íslandi.
Dr. Egon Hitzler gaf út árið 1979 doktorsritgerð sína um sel og selfarir á Íslandi bókina SelUntersuchungen zur Geschicte des isländischen sennwesens sit der landnahmezeit. Rannsókn hans byggðist að mestu leiti á ritheimildum og er grundvallarrit um sel og selstöður á Íslandi. Niðurstaða hans varðandi skipulag húsa í seljum var að venjulegast hafi verið 3 byggingar aðskildar eða í þyrpingu, raðað á mismunandi vegu.
Árið 1991 skrifaði Guðrún Sveinbjarnardóttir fornleifafræðingur grein um rannsókn sem hún gerði á seljum á þrem landsvæðum á Íslandi, Eyjafjallasveit, Berufirði og Ausur og Vesturdal í Skagafirði. Guðrún rannsakaði ritheimildir um landnám á svæðinu, kortlagði minjar og tímasetti útfrá gjóskulögum. Þá var einnig gerð fornvistfræðileg rannsókn á staðnum Engihlíð í Fossárdal til þess að reyna að greina hvort þar hefði verið sel eða býli. Niðurstaða Guðrúnar var að fjarlægð frá býli að seli var yfirleitt stutt. Fjöldi bygginga í seljunum var yfirleitt 1-2 sem skiptust í 3-4 rými. Á tveimur stöðum fundust aðeins ein bygging og einum stað voru tíu byggingar. Uppröðun bygginga var mjög breytilegt á milli staða og einnig hæð yfir sjávarmáli. Mest af selstöðunum sem voru staðsettar lægra virtust vara elstar. Bæði Eyjafjallasveit og Berufirði og benda sel nöfn bæja til að þeir hafi í fyrstu verið sel á láglendi. Í Skagafirði eru dæmi um sel frá fyrstu tíð staðsett innarlega í landi langt frá bæ sem breyttust í býli og aftur í sel eða beitarhús. Í Aðaldal voru sel nýtt sem beitarhús á vetrum og sýnir sú mikla notkun beitarlands mikilvægi þess fyrir efnahag bæja áður fyrr. Allar minjarnar eru taldar vera frá miðöldum og til 1800 og líkjast ekki bæjum frá þeim tíma. Greinilegt var af gögnum að mörkin milli býlis og sels var stundum stutt. Á þeim stöðum í Aðaldal þar sem notkun var breytileg telur Guðrún að notkunin hafi væntanlega stjórnast af veðurfari og hagsæld. Margir staðir í Vesturdal sem túlkaðir hafa verið sem smábýli höfðu meiri einkenni sels en býlis og Engihlíð í Fossárdal er kannski dæmi um slíkan stað. Niðurstöður greininga frá Engihlíð voru að á síðasta notkunarskeiði staðarins hefði það verið nýtt sem sel með hugsanlega einhverri heyvinnslu en ekki var hægt að greina hvort staðurinn hefði í fyrstu verið býli. Til að fá úr þessu skorið var lagt til að gerð yrði nánari sýnataka í tengslum við uppgröft á staðnum.
Árið 2002 skoðaði Sædís Gunnarsdóttir fornleifafræðingur í mastersritgerð sinni sel sem hluta af búsetu landslagi jaðarbyggða og tók fyrir Saurbæjarhreppi í Eyjafjarðarsýslu.
Sædís notaði GIS til þess að skilja dreifingu tengsla á milli selja og sjálfstæðra og ósjálfstæðra býla. Þar kom fram að fjarlægð milli bæjar og sels sýndi tvíþætt mynstur. Stærri hópurinn var um það bil 1,5 km frá bæ en minni hópurinn í 3 km fjarlægð. Þetta mynstur virtist tengt efnahag bæjanna þar sem efnaðri býli áttu fjarlægari sel, kannski vegna þess að þeir áttu einnig stærra landsvæði. Sædís telur að nota megi hæð yfir sjávarmáli til að greina á milli smærri býla og selja. Sel voru að meðaltali í 300 m h.y.s. en býli í 150 m h.y.s. Halli á landi var líka meiri í seljum eða um 12° en á býlum um 6° halli.
Albína Hulda Pálsdóttir fornleifafræðingur skrifaði árið 2005 BA ritgerð þar sem hún gerði fræðilega úttekt á seljum. Í rannsókn sinni notaði hún gögn úr fornleifaskráningum frá Fornleifastofnun Íslands og vann úr þeim tölfræðilegar upplýsingar um sel. Hún skoðaði fjölda rústa á hverjum selstað og var meðalfjöldi á hverju selstæði 2,30 en algengast var að aðeins sé ein rúst sé á hverjum stað en á flestum selstæðum er ein til þrjár rústir. Albína skoðaði einnig tengsl á milli dýrleika jarða árið 1686 og fjölda rústa á selstæði, hólfafjölda og flatarmáls. Niðurstaðan var, að eftir því sem dýrleiki jarða var hærri þá jókst fjöldi rústa, hólfa og flatarmáls. Einnig skoðaði hún meðalfjarlægð frá bæ í sel í beinni loftlínu og var niðurstaðan að rúmir 2 km eru á milli í beinni loftlínu og sjaldnast hafi verið nema 1-4 klukkustunda gangur frá bæ í sel.
Árið 2007 skrifaði Ómar Smári Ármannsson viðamikla BA ritgerð um sel og selstöður. Hann hefur lengi leitað uppi sel og selstöður og var ritgerðin afrakstur 6 ára vinnu og í henni er að finna upplýsingar um mikinn fjölda selja. Hann segir megingerð selja á Reykjanesskaganum sé þrískipt rými þar sem eldhús sé fráskilið og stekkir séu skammt frá eða áfast húsumum. Seljastígar sem lágu frá bæ að seli sem enn eru sjáanlegir séu oftast um 7 km eða um 1½–2 klukkustunda gangur. Einnig telur hann að staðsetning selja í útlendum jarða hafi verið skilaboð um eignarhald.

Í þessari rannsókn hafa verið teknar saman heimildir um sel og selstöður allra jarða sem eru innan borgarmarka Reykjavíkur eða tilheyra þeim árið 2010. Með samantektinni er komið yfirlit yfir fjölda og staðsetningu selja sem nota má til samanburðar og frekari rannsókna. Þegar sel í Reykjavík eru skoðuð með hliðsjón af fyrri rannsóknum á seljum annars staðar á landinu, kemur í ljós að fjölbreytileiki þeirra er álíka og annarstaðar á landinu.
Í fyrri rannsóknum hefur athyglin beinst að nokkrum þáttum eins og fjölda húsa og rýma innan þeirra á hverjum stað, fjarlægð frá býli að seli, hæð yfir sjávarmáli og halla lands, en auk þess hafa sel verið skoðuð sem hluti af búsetulandslagi. Þegar fjöldi húsa og rýma var skoðaður kom í ljós að fjöldi húsa á hverri selstöðu var 1-2 hús en meðaltal þeirra var 1,42. Í flestum húsum eru 3-4 rými og að meðaltali eru 3 rými í hverju húsi. Þessar tölur eru líkar og fram hafa komið í öðrum rannsóknum og heimildum.
Fjarlægð frá býli að seli var einnig skoðuð. Algengasta fjarlægð var annarsvegar um 12 km, hinsvegar 7 km og síðan um 2 km. Meðalvegalengd var 8,6 km en meðalgildi var 7,3 km. Þegar dýrleiki jarða og fjarlægð sels frá býli var skoðað var ekki hægt að greina fylgni þar á milli.
Af þessari samantekt má sjá að töluverður efniviður er til staðar til frekari rannsókna á seljum og selstöðum. Tóftir seljanna eru mikilvægar menningarminjar og vitnisburður um þátt í atvinnusögu okkar allt frá landnámi framá 20. öld. Það er því mikilvægt að gerðar verði nákvæmar athuganir á þeim, en frekari rannsóknir geta gefið svör við ýmsum spurningum. Náttúrufegurð er mikil á öllum selstöðusvæðunum innan borgarmarkanna og eru þau kjörin til útivistar. Þar sem tóftir selja eru enn vel greinanlegar auka þær á upplifun landsins þar sem þær kúra að því er virðist samvaxnar landinu.“

Sjá Skýrsluna.
Sjá úrdrátt úr BA-ritgerð ÓSÁ um „Sel vestan Esju“ frá árinu 2007.

Heimild:
-Margrét Björk Magnúsdóttir, Rannsókn á seljum í Reykjavík – Reykjavík 2011, Minjasafn Reykjavíkur; Skýrsla nr. 159.

Tag Archive for: selstöður