Færslur

Dýrafjörður

Í riti LbhÍ (Landbúnaðarháskóla Íslands) nr. 131 fjallar Bjarni Guðmundsson, prófessor emeritus, um sel við Dýrafjörð. Verulega fróðlegt er að bera skrif hans saman við fyrirliggjandi þekkingu FERLIRs á seljum og selstöðum á Reykjanesskaganum; hugtök, vinnubrögð, húsakostur og nýting virðist á báðum svæðum hafa verið með líkum hætti. Í ritgerðinni er samansafn gagnlegra heimilda almennt um sel fyrrum. Þrátt fyrir orðaskrúð fræðimannsins, sem skiptir í stóra samhenginu litlu máli, er, það sem skiptir öllu meira máli, að í ritgerðinni að finna upplýsingar manns er hafði a.m.k. fyrir því í framhaldinu að leita uppi minjarnar á vettvangi og bæði heimfæra þær upp á heimildirnar og lýsa þeim með hliðsjón af sögulegum og landfræðilegum aðstæðum. Þær eiga jafnt um fáu selstöðurnar við Dýrafjörð og þær u.þ.b. 400 er finna má á Reykjanesskaganum.

Dýrafjörður

Forsíða ritgerðarinnar um sel við Dýrafjörð eftir Bjarna Guðmumdsson.

“En frammi á fjöllum háum,
fjarri sævi bláum,
sefur gamalt sel.” – Guðmundur Böðvarsson

Hvað er sel?

Dýrafjörður

Það er viðeigandi að byrja með nokkur hugtök og skilgreiningar á þeim. Styðjast má við Íslenska orðabók. Samkvæmt henni er sel útihús í högum langt frá bæjum þar sem búpeningur er látinn ganga á sumrum. Selstaða er það að hafa búpening í seli og selför ferð í sel en einnig sögulegur réttur jarðarábúanda til að hafa búpening í seli. Selland er land þar sem haft er í seli og selhöfn beitarland sem seli tilheyrir. Þá má nefna þótt ekki komi það við sögu fyrr en síðar að búsgagnið selskrína er ílát sem mjólk var hleypt í skyr, hæfilega stórt til að flytja skyrið heim úr seli. Og hugtökin eru fleiri. Hér munu orðin seljaþorp og seljaþyrping verða notuð um það þegar sel frá fleiri bæjum hafa verið sett á sama stað eða í nábýli. Með sínum hætti áréttar hinn ríkulegi orðaforði tengdur seljum mikilvægi búháttarins á ýmsum tímum þjóðarsögunnar.

DýrafjörðurLengst af skráðum tíma Íslandsbyggðar lifði þjóðin öðru fremur á kvikfjárrækt. Afurðir búfjárins, mjólk, ull og kjöt, voru ásamt fiskmeti þau verðmæti sem daglegt amstur fólks snerist um.
Kvikfjárræktin fólst einkum í nýtingu beitilanda og árstíðabundinni framleiðslu afurða. Landið með gróðri sínum var sú auðlind sem afkoma fólksins í veigamiklum atriðum byggðist á. Fornar hefðir og margvíslegar aðstæður í umhverfi og landslagi mótuðu kvikfjáræktina og þá verkhætti sem við hana var beitt. Einn hátturinn var sá að hafa hluta kvikfjárins í seli fjarri heimabýli. Í norður-evrópsku ljósi er það eldforn aðferð eins og síðar verður sagt frá en er aðferð sem fyrir all löngu var lögð af hérlendis. Enn má þó víða í úthaga ganga fram á minjar þessa búháttar þar sem greinilegar eru rústir gamalla selmannvirkja, rétt eins og Guðmundur Böðvarsson skáld segir í ljóðlínunum sem þessi kafli hófst á. Urmull örnefna vitnar líka um sel og seljabúskap en í þessu tvennu lifir ekki síst minningin um þennan þátt í sögu íslenskrar kvikfjárræktar.
„Dalabotnarnir voru alsettir seljum“, fyrirlas Páll Zóphóníasson nemendum sínum á Hvanneyri veturinn 1919-1920, „og enn má sjá þess ljós merki af tóftunum sem nú standa sem menjar um horfna frægð, því frægð var það að hafa manndóm í sjer til að hafa fjenað í seljum.“
Seljahugtakið hefur með árunum fengið á sig eilítið rómantískan blæ, ef til vill vegna ýmissa þjóðsagna sem seljum eru tengdar, legu þeirra í víðernum og frjálsræði fjarri byggð en sjálfsagt einnig vegna erlendra áhrifa, einkum frá Noregi, þar sem þessi búskaparháttur tengist í hugum margra fögru landslagi og sællegum selstúlkum.
Ýmsir kannast t. d. við lag Ole Bull, Sunnudagur selstúlkunnar, leikrit Riis: Upp til selja, sem mjög var vinsælt hérlendis á fyrri hluta síðustu aldar, og fleira mætti nefna úr flokki rómantískra lýsinga.
Skáldið Snorri Hjartarson orti til dæmis kvæði sem er verðugur fulltrúi þeirra, kvæði sem hann nefndi Mig dreymir við hrunið heiðarsel:

Mig dreymir við hrunið heiðarsel:
heyri ég söng gegnum opnar dyr,
laufþyt á auðum lágum mel?
Líf manns streymir fram, tíminn er kyr.
Allt sem var lifað og allt sem hvarf
er, það sem verður dvelur fjær
ónuminn heimur, hulið starf;
hús þessa dags stóð reist í gær.
Við göngum í dimmu við litföl log
í ljósi sem geymir um eilífð hvað
sem er, og bíður. Fuglinn sem flaug
framhjá er enn á sama stað.

Veruleiki selfólksins hérlendis og sennilega einnig í nágrannalöndum okkar mun þó ekki aðeins hafa verið gleði og rómantík. Víða var seljabúskapurinn hluti þess að komast af við þröng kjör og óblíða náttúru fyrri alda; enginn leikur heldur bláköld og oft mjög erfið lífsbarátta.

Selin í sögu og lögum
DýrafjörðurSeljabúskapur er eitt af einkennum fornrar norrænnar kvikfjárræktar. Sel og selför voru hluti hins dreifbæra (extensive) búskapar sem einkenndi hana. Hann var og er einnig þekktur í Alpahéruðum Evrópu, í Skotlandi, Írlandi og raunar í fleiri hornum heimsins (summer farming). Seljabúskapur var leið til þess að nýta fjarlæg en oft kostamikil beitilönd, gjarnan ofan skógarmarka, til framleiðslu mjólkur á hásumri með sauðfé, kúm og geitum. Mjólkin var unnin í ýmsar afurðir til heimaneyslu um ársins hring en gat einnig verið liður í öflun nauðsynlegs gjaldmiðils t. d. smjörs upp í land- og gripaleigu.
Seljabúskapur á einu eða öðru formi á sér fornar rætur er rekja má langt aftur til járnaldar. Þrennt mótaði seljabúskapinn: búfé, fólk og landkostir, einkum beitarkjörin.
Margar rannsóknir hafa verið gerðar á seljum og seljabúskap. Það eru ekki síst Norðmenn sem þar hafa verið afkastamiklir enda búhátturinn mjög algengur þar í landi. Hér verða þeim rannsóknum ekki gerð sérstök skil heldur látið nægja að vísa til yfirlitsverka, svo sem þriggja binda verks Lars Reinton skrifaði um sel og selfarir; skipulag, verklag og lið í framfærslu, búhátt lagaðan að hinum ýmsu landsháttum og landkostum Noregs og á ýmsum tímum. Þá hefur Karoline Daugstad fjallað um sel og selfarir í margbreytilegum formum sem mótandi þátt menningarlandslags svo og vitundar fólks og viðhorfa frá starfrænum og ekki síst fagurfræðilegum sjónarmiðum í listum og menningu.
Reinton skilgreindi hinn norræna seljabúskap (sæterbruk) þannig: Sæterbruk er det når ein gard (ein fast vinterbustad) har krøtera sine i sumarbeite på ein stad eit stykke frå garden der det er husvære og fast personale, så ein kan nytta ut større vidder til beite, som regel òg til slått og onnor fórsanking, og så ein kan spara på heimemarkene og nå i betre beite, føde fleire krøter over vinteren og skaffe forråd til levemåten på den faste bustaden (garden).
Dýrafjörður
Með nokkurri einföldun má segja að tvær kenningar hafi einkum staðið um upphaf og þróun hins norræna seljabúskapar: Fyrst sú að seljabúskapurinn hafi þróast úr hjarðmennsku (nomadism) og eigi sér rætur í hinum indóevrópska frumbúskap og fyrstu búsetu jarðyrkjufólks. Reinton var einkum talsmaður þeirrar kenningar en verk hans var lengi vel miðlægt í norrænni seljaumræðu. Hin kenningin er sú að seljabúskapur hafi á löngum tíma einkum þróast sem svæðabundið svar við breytilegri þörf fyrir beitilönd og fóður. Svo virðist sem síðari kenningin njóti nú meira fylgis þótt í raun séu þær sprottnar af sömu rót – þörfinni fyrir hagkvæma nýtingu takmarkaðra beitilanda til öflunar lífsnauðsynlegs matarforða.
Þótt álitið sé að vestur-norskir landnámsmenn hafi fært seljabúháttinn með sér til Íslands og mótað hann í fyrstu með hliðsjón af eigin reynsluheimi og áþekkum umhverfisaðstæðum virðist hátturinn hafa þróast með ólíkum hætti í löndunum tveimur.
Cabouret segir Frostaþingslög geyma orðið sel í sömu merkingu og hin 200 árum yngri lög nota orðið setur/sætr. Upphaflega merkti sel aðeins lítið einsrýmis hús en setur dvalarstað. Það síðara taldi hann fela í sér hlutverkaskiptara mannvirki fyrir fólk og fé og til framleiðslu mjólkurafurða.
Ennfremur að það benti til þess að það hafi fyrst verið á hámiðöldum sem norski seljabúskapurinn var fullþróaður. Að baki því áleit Cabouret liggja byggðaþróun sem ýtti búfjárhaldi að sumarlagi það langt frá býlinu að hverfa varð frá mjaltastað svo nærri býli að í mesta lagi þurfti dálítið sel til næturhvíldar, ef fjarlægðin heim var þá ekki orðin það mikil að frágangssök var að fara heim á milli morgun- og kvöldmjalta. Cabouret benti á aðþað var aðeins heitið sel sem fluttist til Íslands, og að þess vegna megi reikna með því að þetta form seljabúskapar hafi verið hið algenga í Vestur-Noregi við landnám Íslands. Þegar støl/stöðull varð algengt heiti selja í Vestur Noregi bendir það til hins sama. Orðið táknar mjaltastað, upphaflega án búsetu. Á Íslandi er orðið aðeins þekkt í hinni upphaflegu merkingu, sem mjaltastaður. Það taldi Cabouret benda til þess að merkingar-breytingin hafi fyrst orðið í Noregi eftir fólksflutningana til Íslands.
„Hve afarmikla þýðingu selin hafa haft á fyrri öldum, sést af hinum óteljandi seljarústum, sem eru dreifðar um afdali og heiðar um alt Ísland“, skrifaði Þorvaldur Thoroddsen árið 1919 en hann er líklega sá, ásamt þjóðverjanum Hitzler, sem lengi vel átti rækilegasta yfirlitið um sel og selstöður á Íslandi.
Annars eru innlendar heimildir eru býsna ríkulegar. Þær byggjast bæði á sérstökum sagnfræði- og fornleifarannsóknum, sem gerðar hafa verið, sem og almennum frásögnum af seljum og seljabúskap í einstökum sveitum. Til viðbótar þeim heimildum, sem þegar hafa verið nefndar, má úr fyrri hópnum sérstaklega nefna rannsóknir þeirra Guðrúnar Ólafsdóttur og Guðrúnar Sveinbjarnardóttur. Þá ber úr þeim flokki að nefna afar athyglisverða heimasíðu með fróðleik um sel, selstöður og seljabúskap á Reykjanesskaganum. Þá birti Benedikt Eyþórsson samantekt um seljabúskap á Íslandi og í norrænu ljósi í tengslum við rækilega rannsókn sína á búskap og rekstri Reykholtsstaðar fyrr á öldum.
Beitarbúskapurinn, sem var grunnur að rekstri seljanna, gegndi miklu hlutverki í norrænum heimi, jafnvel svo að á vissum tíma sögunnar, svo sem á víkingaöld, hafa fræðimenn talið að [góðir] hagar hafi verið meginuppspretta auðs og valda, að: „The ultimate source of wealth and power was pasture, and the correlation between cattle, good grazing, and chieftainship is clear both in the historical and archaeological record.“ Ekkert minna.
DýrafjörðurFornar lýsingar selja hérlendis, svo sem í Laxdæla sögu, selin frá Sælingsdalstungu í Hvammssveit og Vatnshorni í Skorradal, bera með sér að þau hafi verið allmikil mannvirki þótt ekki lægju fjarri heimabæjum. Í Sælingsdalstunguseli var til dæmis sagt vera margt manna er einnig starfaði að heyskap: Selin voru „tvau, svefnsel og búr“, segir í sögunni. Höfundur sögunnar notar þannig heitið sel um hin einstöku hús svo sem talin er hafa verið hin upphaflega merking orðsins. Við stympingar í Vatnshornsseli rifu árásarmenn „ræfrit af selinu“ en „selit var gert um einn ás, ok lá hann á gaflhlöðum, og stóðu út af ásendarnir, og var einart þak á húsinu ok ekki gróit.“ Orðalagið einart þak má í þessu samhengi skilja sem þak einfaldrar gerðar.
Frásögnin bendir til þess að yfir selhússveggina hafi verið reft með einföldum hætti, hugsanlega aðeins til sumars í senn. Ekki er fráleitt að takmörkuð árleg notkun selhúsanna, og það á hlýjasta tíma sumars, hafi ýtt undir það að húsagerðin væri höfð einföld og að efni til þeirra væri sparað, til dæmis hvað snerti burðarviði þaks og árefti.
Í lögbókunum fornu, Grágás, lagasafni íslenska þjóðveldisins, og Jónsbók, sem samþykkt var á Alþingi árið 1281, er allvíða vikið að seljum og selförum. Er það mjög til marks um mikilvægi seljanna á gildistíma lögbókanna. Lögin geyma ýmis atriði varðandi umgengni um sel og selstöður svo og selfarir, atriði sem varpa gagnlegu ljósi á forsendur og framkvæmd þessa búháttar. Hér verður því nokkurra ákvæða lögbókanna getið með beinum tilvitnunum í texta þeirra:
319: OF SELFÖR. Ef maður hefir lönd fleiri undir bú sitt en eitt, og vill hann fara þar í sel yfir annars manns land, og á hann þar að fara með fé sitt tysvar á sumri til sels, en því aðeins oftar ef þar verða misgöngur fjár, þá á hann að reka heim smala sinn. Hann á fornar götur að fara, ef þær eru til.
Ef hann fer of engi manns, þá skal hann í togi hafa hið lausa hross. Ef þar eru keldur á götu hans, og á hann að gera brúar þar yfir og vinna þau áverk á annars manns landi. Ef maður fer yfir engi annars, og hlýtur hinn af því skaða, þá varðar honum það útlegð, enda skal hann bæta honum skaða, svo sem búar fimm virða við bók.
320: ENN OF SELFÖR. Ef maður fer annan veg til sels of annars manns land með smala sinn eða klyfjahross en áðan var tínt, og verður hann útlagur of það þrem mörkum, og bæta auvisla sem búar virða við bók. Ef fimm aura skaði verður að eða meiri, þá varðar fjörbaugsgarð. . .
330: . . . Eigi skal sel gera í afrétt. Ef gert er, þá er sel óheilagt, og eigu þeir að brjóta sel er afrétt eigu, enda verður sá útlagur er sel gerði eða gera lét við þá alla er afrétt eigu, og sinni útlegð við hvern þeirra.
146: . . . þá skal það boð hver bera en engi fella, og á það að fara með veturhúsum eftir boðburð réttum en eigi með sætrum…
147: Sá skal boð bera bæja í milli . . . En ef hjú eru öll af bæ gengin, þá skal ganga í seturhús bónda ef það er opið og setja niður í öndugi svo að eigi falli.
177: Engi maður skal fyrir öðrum brenna með heiftugri hendi hús né heyhlaða, sætur, búð né skip. En ef hann brennir og verður að því kunnur og sannur, þá er [178] hann útlægur og óheilagur og heitir brennuvargur, og hefir fyrirgert hverjum peningi fjár síns í landi og lausum eyri…
186: [Hvervetna þar sem sætur eru til bæja manna, þá skulu menn fara með búfé sitt yfir annars land til sætra, fornar götur ef til eru, og hafa í togi laus hross ef yfir eng er að fara. En ef keldur eru á leið hans, þá má hann gjöra þar brú yfir og vinna þann áverka á jörðu hins]. Menn skulu fara úr húshaga með fé sitt þá er tveir mánaðir eru af sumri, utan þeim þikki öllum annað hentara er brottfærslu eigu.
En ef einhver situr lengur niðri, þá skal sá er að telur fyrirbjóða honum þarsetu. Nú situr hann heima eigi að síður, þá skal hann stefna honum héraðsþing fyrir rán og þarsetu. Þá eiga þingmenn að dæma konungi hálfa mörk fyrir grasrán en grönnum hans hálfa mörk fyrir grasverð þeim er gras missa. Nú skal hann æsta svo marga bændur liðs sem hann þarf að færa fé hins úr haga sínum. Sekur er sá hver tveimur aurum við konung er eigi fer, ef hann er til krafður. Slíkt hið sama liggur við ef maður fer heim í húshaga fyrir tvímánuð.
186: [Nú skal til sætra á fjöll upp vera merki sem að fornu fari hefir verið og færa sætur eigi úr stað utan hann færi öngum manni til skaða, og svo skulu þeir hið sama sætrum halda. Engi maður skal setja sætur sitt við annars land eður haga, þar sem eigi hefir að fornu verið. Þar skal mæta horn horni og hófur hófi.]
186: Þjóðgata og sæturgata og allir rekstrar skulu vera sem að fornu fari hafa legið . . . [187] … Ef maður rænir annan mann sæturgötu eður rekstri þeim sem að fornu fari hefir verið, bæti konungi hálfri mörk fyrir vegarán og hafi hinn þó götu sem áður.
Dýrafjörður198: . . . Sætur má hver maður gjöra er þann almenning á ef hann vill þar sitja í sumarsetri, ef það er úr búfjárgangi . . . Nú brennir maður sætur í almenningi, veiðibúð eður andvirki það sem þar er, þá sekist sá er það gerir þrimur mörkum við konung en tvígildi þeim er hann brenndi fyrir það sama aftur jafngott . . .
282: Ef maður brennir hús eður hey, sætur eður búð eður skip heiftugri hendi, þá er hann útlægur og óheilagur og heitir brennuvargur. . . .
284: Nú rænir maður mann sæturgötu eður rekstri, sekur hálfri mörk við konung fyrir vegarán.
284: Ef sætur eru ger í afrétt, þá sem eigi ná lög til, þá eru þau óheilög við broti og bæti skaða og landnám með hverj-[285]um er í þeim afrétt á.
Ákvæðin, sem eru áþekk í lögbókunum tveimur, bera með sér að réttur til selfarar hefur verið afar ríkur og sýnilega tengdur hefðum með fornar rætur.
Ekki mátti setja sel í afrétt eða almenning. Ákvæði Jónsbókar [186] fela í sér eiginlega skyldu til selfarar [. . . Menn skulu fara úr húshaga með fé sitt þá er tveir mánaðir eru af sumri. . . Slíkt hið sama liggur við ef maður fer heim í húshaga fyrir tvímánuð]. Sýnilega er gert ráð fyrir að heimahögum sé hlíft í allt að tíu vikur um aðalsprettu- og heyskapartímann; frá Jónsmessu og fram til Höfuðdags. Óneitanlega er Jónsbókarhugtakið grasrán og viðurlög við grasráni í þessu sambandi athyglisvert. Grasið var auðlind sem ekki varð bæði notuð til beitar og slægna. Í sömu átt benda ákvæðin um rán selgötu – ef mönnum var meinað að koma búpeningi sínum í sel/sætur.
Þá eru líka athyglisverð þau ströngu viðurlög sem lágu við spjöllum á selmannvirkjum.
Ákvæði lagabálkanna tveggja sýna með skýrum hætti að löggjafi þessara tíma hefur haft þroskaðan skilning á nýtingu landsins til framleiðslu nauðsynlegra afurða og þýðingu hennar fyrir afkomu þegnanna. Þetta eru ekki einustu dæmin um skilning hinna fornu löggjafa á samspili náttúrulegrar vistar, þarfa fjölskyldnanna og sjálfbæris búhátta þeirra. Athyglisvert er að í Grágás er jafnan talað um sel en Jónsbók um sætur eða setur þótt átt sé við sama fyrirbrigðið.
Aldursmunur er á lögbókunum og hefur þegar verið bent á að hann skýri hugtakamuninn sem að sínum hluta eigi rætur í þróun búháttarins á tímabilinu og þá sérstaklega þróunina er varð í Vestur-Noregi.

Hvað skyldi rannsakað?
Dýrafjörður
Til seljanna gekk ég einkum með búfræðileg sjónarmið í huga og reyndi að horfa samtímis til sem flestra þátta þeirrar framfærsluleiðar og landnýtingar með kvikfjárrækt er seljabúskapur á hinu afmarkaða rannsóknasvæði var.
Að öðru leyti fólst ásetningur minn í eftirtöldum áformum:
1. að kanna ritaðar og munnlegar heimildir um selin á rannsóknasvæðinu og notkun þeirra, 2. að kanna seljarústir á svæðinu og umhverfi þeirra, m. a. með hliðsjón af staðháttum og beitargildi landsins,
3. að athuga seljabúskapinn með hliðsjón af landkostum og landnýtingu á jörðunum. að athuga seljabúskapinn og þróun hans með hliðsjón af ástandi og breytingum á öðrum búnaðar- og samfélagsháttum á svæðinu.
Síðan skyldi leitast við setja niðurstöður rannsókninnar í samhengi við niðurstöður hliðstæðra rannsókna á öðrum stöðum, innlendum og erlendum, og þær almennu kenningar, sem til hafa orðið á grundvelli þeirra, um þennan þátt kvikfjárræktar hér á norðurslóðum.
Þegar gengið var á seljarústirnar voru þær kannaðar, einkum með hliðsjón af staðsetningu, skipulagi og stærð. Gerðar voru yfirborðsmælingar á þeim til uppdráttar og minjar hnitsettar þegar sú tækni varð mér tiltæk. Hins vegar var hvergi grafið í rústir eða minjum undir sverði hreyft enda er það viðfangsefni á hendi fólks með aðra sérþekkingu en ég ræð yfir. Tekinn skal vari fyrir því að yfirborðsathuganir sýni raunverulega gerð mannvirkis sem undir sverði er. Jarðrask, gróður og langvarandi traðk beitarpenings, en seljatóftir hafa sakir grósku löngum dregið hann að sér, getur hafa raskað yfirborðsmyndinni að einhverju marki. Næsta stig rannsóknarinnar gæti því orðið að athuga lögun og gerð áhugaverðustu rústanna nákvæmar, t.d. með jarðsjá eða uppgreftri.
Mjög var misjafnt hve glöggar tóftirnar á selstöðunum voru. Yfirborðsmælingarnar ættu samt að gefa viðunandi og samanburðarhæfar grunnmyndir af rústum flestra selmannvirkjanna. Fullnaðarvitneskja fæst þó aðeins með uppgreftri. Staðhættir voru kannaðir svo sem landslag, gróðurfar og umhverfi hinna einstöku selja. Þá voru teknar ljósmyndir af mælistöðum og svæðum.

Hvar stóðu selin?
Dýrafjörður
Þótt ekki hafi verið gerð nákvæm gróðurgreining á landinu virðist ekki vera um umtalsverðan mun á gróðurtegundum selhaga og heimalanda. Ég get mér þess til að munurinn sé fremur þroskamunur gróðurs tengdur hæð yfir sjó og snjóalögum, eins og þegar hefur verið nefnt: að seinna hafi sprottið frammi á sellöndunum og beitargróður því yngri og næringarríkari en gróður heimalanda þegar fram á selstöðutímann kom. Þar var einnig átt við landrýmið sem heima við var víða af skornum skammti.
DýrafjörðurSú fyrsta og helsta nytsemd af selverum málnytupenings á sumardag og sérlegasti tilgangur þeirra, sem þær brúka, er, að hafa því meiri mjólk og kost af honum sem selstöðurnar eru tíðast betri heimahögunum“, skrifaði sr. Guðlaugur prófastur Sveinsson í Vatnsfirði árið 1786. Hann var einn helsti talsmaður seljabúskapar á endurreisnarárum íslenskra atvinnuhátta á ofanverðri átjándu öld. Og presturinn rakti dæmi um það hvernig landgæðin gátu endurspeglast í nyt búpeningsins:
“Eg hefir sjálfr verit á þeirri jørd í 14 ár [hér mun átt við Kirkjuból í Langadal þar sem sr. Guðlaugur bjó árin 1766-1780], hvar búsmali giørdi þridiúngi minna gagn heima enn í selinu, hvar eg árliga lét mínum peníngi hallda, alloptazt frá Fardøgum til Høfuddags; en viza og heyrdi adra segia, sem þar áðr búit høfdu, at eigi hefdu þeir meir enn frekliga helmíngs gagn af peníngi sínum haft, þá honum gátu eigi í sel komit.”
– „á hvøriu landbúenda velgengni ecki sízt ríðr, sem hér má þarfnaz miólkur, smiørs, skyrs, sýru, feitara sláturs og fleira“ – svo aftur sé gripið til orða sr. Guðlaugs í Vatnsfirði.
Ekki er marktækur munur á meðalvegalengd frá bæ að seli á milli sveitanna, metinni í áætluðum gangtíma; í Þingeyrarhreppi er hún 40 mínútur að meðaltali en 8 mínútum lengri í Mýrahreppi; staðalfrávikin eru svipuð, um 20 mínútur. Skemmst hefur gangan verið 15 mín en lengst um 90 mín, bil hin sömu í báðum sveitum.

Lega seljanna – liður í skipulegri nýtingu landkosta?
Dýrafjörður
Þegar skoðuð er lega selstaðnanna í landi hverrar jarðar virðist koma fram regla um nýtingu gróðurlendis jarðarinnar.
Ekki er hægt að taka fyrir að einstakar tóftir séu frá mismunandi tíma. Á nokkrum seljanna mátti bæði sjá óljósar minjar eldri mannvirkja sem og sýnileg merki um að byggt hafði verið á grunni eldri mannvirkja. Má taka þetta sem merki um fleiri tímaskeið seljasögunnar þar sem menn nýttu augljóslega hleðsluefni úr eldri mannvirkjum á selstöðunum til þess að endurbyggja mannvirkin að þörfum hvers tíma. Það hefur líka verið bent á að búhátturinn hafi ekki verið samfelldur; að hann hafi legið niðri um lengri eða skemmri tíma en síðan tekinn upp að nýju.
Mörg selin liggja þannig að auðvelt hefur verið að sjá til beitilandsins sem væntanlega hefur auðveldað smalanum að líta eftir hjörð sinni, svo hann þyrfti ekki að hnappsetja ærnar „því þá datt úr þeim nytin.“
Við mörg seljanna eru landkostir þannig að ekki sýnist hafa verið auðvelt að stinga eða rista torf í veggi og á þök. Af stærð og fyrirferð tófta er þó ljóst að á mörgum seljanna hefur gríðarlega mikil vinna farið í aðdrætti efnis og veggjahleðslu. Það hefur verið leiguliðum ærin fyrirhöfn að halda mannvirkjunum við svo sem leiguliðum bar að gera – auk viðhalds annarra jarðarhúsa. Stærstu tóftirnar á seljunum gefa í engu eftir tóftum margra jarðarhúsa að stærð. Óneitanlega segir það einnig sína hljóðu sögu um mikilvægi selstaðnanna. Flestar voru seljatóftirnar orðnar það máðar að fátt var ráðið um húsagerð. Á að minnsta kosti tveimur seltóftum mátti þó enn sjá allglögg þakummerki. Ætla má að það sé á þeim sem hvað síðast voru í notkun. Fátt verður annars fullyrt um gerð selhúsanna. Vegna takmarkaðs notkunartíma á hverju ári og það hlýjasta tíma þess er freistandi að geta sér þess til að húsagerðin hafi verið einföld.

Stærð og gerð selhúsanna
Dýrafjörður
Þorvaldur Thoroddsen lýsti algengri húsaskipan íslensku seljanna þannig: Voru selhúsin vanalega þrjú, íveruhús eða svefnsel, eldhús og búr, og mun sá húsafjöldi hafa haldist síðan í fornöld, þó sum selin bæði fyrr og síðar hafi verið fátæklegri.
Einföldust voru selin þegar þau voru hólfuð í tvent. Voru herbergin kölluð útsel og innsel. Í útselinu sem var framar, og maður kom fyrst inn í, var öll eldamennska, en í innselinu svaf fólkið og þar var maturinn geymdur. Í innselið var gengið úr útselinu, en aldrei utan frá. Hjá þeim sem betur máttu sín voru selin í þrem herbergjum. Þá var eldað í miðherberginu, en fólkið svaf í öðru hinna. Vanalega voru tvær stúlkur í selinu og smali. Oft var húsmóðirin sjálf í selinu. Öll sel voru bygð úr torfi og grjóti og óþiljuð.
Sé litið yfir uppdrætti seljanna, er vandséð að eitt form öðrum fremur móti skipulag selhúsanna. Frekast er það kvíin sem tengir selstöðurnar saman.
Frásögn Þorvaldar Thoroddsen um gerð selhúsa má skilja svo að um aðskilin mannvirki hafi verið að ræða. Hagkvæmara gat verið að hafa húsin öll samveggja og jafnvel undir sömu þekju til þess að spara efni og vinnu. Nokkrar seljagrunnmyndanna úr Dýrafirði sýna eimitt slíkt form: Tvær til þrjár tóftir hlaðnar í samstæðu. Telja má víst að þar hafi vist vinnufólks verið samfelld um seljatímann og þá við vinnslu mjólkurinnar og eftir aðstæðum önnur verk, svo sem heyskap. Stærð mannvirkjanna ætti að endurspegla umfang starfseminnar á selinu, bæði í gripafjölda og nauðsynlegum mannafla.
Mjaltakvíar voru sýnilegar á þorra selstaðnanna: “Allar höfðu þær mjög svipað form; aflangar og mjög áþekkar að breidd – um það bil 1,9-2,0 m (sem er nálægt 3 álnum). Hin fasta breidd gerði það að verkum að ærnar röðuðu sér jafnan upp þannig að auðvelt var að mjólka þær. Lengd kvíanna var hins vegar mismunandi en af henni má áætla þann fjölda áa sem rúmast gat í hverri þeirra. Þétt saman má gera ráð fyrir að þrjár afteknar (rúnar) mjólkurær komist á lengdarmetrann og örugglega fimm ær á hverja tvo metra.”

Hvað segja örnefni um selin og selstöðurnar?
Dýrafjörður
„Örnefnin eru minjar um mannlega starfsemi á liðnum tímum. Þau verða aðeins til þar, sem menn hafast eitthvað að“, skrifaði Magnus Olsen.
Fjöldi seljaörnefna, sem tengd eru stöðum og svæðum í nágrenni seljanna, má ætla að geti verið nokkur mælikvarði á það hversu gróinn og umfangsmikill búhátturinn hefur verið á hverri jörð. Þar sem langt er síðan hátturinn var lagður af eða lítið fór fyrir honum má ætla að seljaörnefnin hafi horfið úr munni fólks og/eða að forsenda hafi ekki verið fyrir myndun þeirra. Vissulega getur samfella ábúðar á einstökum jörðum hafa haft áhrif á það hversu vel örnefni bárust á milli ábúenda og kynslóða. Nábýli og mikil umferð fólks um landið vegna nýtingar þess ætti þó að hafa ýtt undir góða varðveislu örnefnanna.
Byggt á örnefnaskrám jarðanna reyndust 2,4% allra örnefna á jörðunum tengjast seli.

En hvað má svo lesa úr örnefnum sjálfum?
Dýrafjörður
Seljaörnefnin í Dýrafirði virðast, rétt eins og í flestum öðrum héruðum, einkum vera tvenns konar: Annars vegar eru það sérstök heiti seljanna sjálfra, sem oftast hafa viðkomandi bæjarnafn að forlið, t. d. Hólasel, Sandasel, Botnssel og Mýrasel. Það geta einnig verið nöfn til aðgreiningar fleiri selja frá sama bæ, sbr. Fornasel, Nýjasel, Gamlasel, Heimrasel, Fremrasel. Hins vegar eru það örnefni staða og svæða í nágrenni selstaðnanna sem einkum hafa verið notuð til staðsetningar í samræðum fólks um land og umhverfi, til dæmis Seljalækur, Seljalágar, Selbali og Seljahvilft.
Úr flokki seljaheitanna virðist einkum mega lesa tvennt: hugsanlegan aldursmun seljanna og staðarmun.
Sel nágrannajarða voru gjarnan sett þannig að stutt væri á milli þeirra.
Það virðist vera einkenni hinna „gömlu“ selja að þau liggja stök í landi viðkomandi jarða og virðast því ekki vitna um seljaþyrpingar. Einhverjar breytingar búhátta eða félagsgerðar virðast hafa orðið sem leiddu til þess að „nýju“ seljunum var valinn annar staður en hinn „forni“. Sérkenni sýnilegra minja fornuseljanna (stærð og lega) gætu bent til þess að þau séu frá tíma stærri og fjölmennari heimila – hugsanlega með rætur allt til landnáms – en að með fjölgandi heimiliseiningum og lækkandi tölu heimilismanna hafi selmannvirkjum nágrannajarða verið þjappað meira saman til samvinnu og selskapar. Vel þekkt er að örnefni benda til sérstakra gæða eða eiginleika landsins.

Niðurlag
Dýrafjörður
Niðurstöður seljaathugann falla hvað snertir nýtingu landsins saman við niðurstöður rannsókna á norrænum seljabúskap og ríma við eldri heimildir um hann. Þótt talið sé að íslenski seljabúskapurinn eigi sér norrænar rætur er ljóst að hann hefur verið lagaður að staðbundnum aðstæðum, svo sem landslagi, eins og fyrri rannsakendur íslenskra selja hafa raunar bent á.
Meðal síðustu selja á Íslandi var selið að Hrauni í Skálavík sem nýtt var sumurin 1952-1954. [Á Reykjanesskaganum lagðist selsbúkapurinn af um 1870.] Það var vinnan sem á hverjum tíma var sá þátturinn er helst takmarkaði rekstur seljanna: Hún var mikil og ekki eftirsóknarverð, sennilega sakir aðstöðu, aðbúnaðar og fásinnis.
Á vertíðum annarra tíma ársins, einkum vor og haust, fóru menn með hliðstæðum hætti til fiskivera sinna. Markmið beggja ferðanna voru hin sömu: Að afla próteins og feitmetis til eigin viðurværis en einnig sem gjaldmiðla til leigugreiðslna og þeirra takmörkuðu viðskipta er stunduð voru. Í seljunum stóð ríki kvenna. Var það ef til vill eitt form þeirrar tíðar er markaði (annabundið) frelsi og jafnrétti kynjanna? Og þá má líka spyrja hvort aflögn seljabúskaparins hafi haft sambærileg áhrif á afkomugrundvöll heimilanna og hvarf þeirra frá notkun verstöðva til einhliða heimræðis hefði haft? Að þeirri spurningu kom þó ekki því þörfin fyrir selför og sauðamjaltir þvarr með gerbreyttum þjóðfélagsháttum.

Heimild:
-Rit LbhÍ r. 131, Sel og selstöður við Dýrafjörð, Bjarni Guðmundsson, prófessor emeritus, 2020, 73 bls.
-http://www.lbhi.is/sites/lbhi.is/files/gogn/vidhengi/rannsoknur/rit_lbhi_nr_131_sel_og_selstodur_vid_dyrafjord_loka_sm.pdf
Dýrafjörður