Gengið var um Selvog í sól og blíðu. Kristófer kirkjuvörður kom þar að akandi á sínum öndvegis jeppa með kerru við annan mann. Báðir bullsveitir. Vel lá á Fera og var hann að vonum glaður á sjá hópinn, sem að mestu var skipaður „orginal“ Hafnarbúum.
Kristófer var spurður almæltra tíðinda og við hvað hann hafi verið að dunda í Voginum. „Ég var að gera kirkjugarð“, svaraði hann. Kristófer sagði að hann teldi að steinninn sem FERLIR fann eftir leit (sjá sögnina af legsteinunum þremur og hvarfi eins þeirra) s.l. sumar væri ekki sá sem hann hefði fundið um árið þegar framkvæmdirnar voru við útihúsin. Þennan stein hefði hann ekki séð áður. Steininn sem hann fann á sínum tíma og týndi aftur hefði verið rúmlega lófastór og þess vegna hafi hann talið að sá hefði verið á leiði barns er hafi líklega dáið í „svartadauða“.
Farið var að bátsflakinu (Vörður) austan við Nessvita (Selvogsvita) og vitinn síðan skoðaður sem og og gamla vitastæðið á klöppunum.
Þegar komið var að Nesi sást að á sléttri flöt rétt vestan við rústirnar af hlöðunni hafði verið afgirt svæði með staurum og vírneti, nokkra metrar á hvorn veg. Garðurinn hafði verið borinn fínni möl og hlaðnir fjörusteinar í kring. Í suðvesturhorninu á garðinum lá á mölinni steinn með krossmarki. Þarna var kominn steininn sem FERLIR fann s.l. sumar (sjá mynd) og er hann eini legsteinninn sem þar er sýnilegur í dag. Enn vantar litla legsteininn, sem Kristófer fann um árið, en týndist aftur. Hinir tveir, er fundust, eru á minjasafninu á Selfossi.
Gengið var í 2 klst og 17 mín.