Tag Archive for: sérkort

Reykjanes - göngukort

Árið 2005 gáfu Landmælingar Íslands út nýtt sérkort yfir Suðvesturland.
Í framhaldi af því skrifaði
Sesselja GudmundsdottirSesselja Guðmundsdóttir gagnrýni um kortaútgáfuna í Morgunblaðið. Gagnrýni Sesselju er upp tekin hér sem dæmi um mikilvægt viðmót þeirra er til þekkja þann fróðleik er um er höndlað, en fá jafnan ekki eðlilega aðkomu að undirbúningi slíkrar mikilvægrar vinnu.
Nýlega kom út sérkort af Suðvesturlandi frá Landmælingum Íslands í mælikvarðanum 1:75 000. Í kápukynningu segir m.a.: „Á kortinu er fjöldi örnefna, upplýsingar um vegi og vegalengdir, göngu- og reiðleiðir auk helstu upplýsinga sem útivistarfólk þarf á að halda.“ Hér koma nokkrar athugasemdir sem snerta Reykjanesskagann: Þorpið Hafnir í Reykjanesbæ var byggt út úr höfuðbólunum Kirkjuvogi og Kotvogi en þau örnefni sjást ekki. Í Höfnum stendur Kirkjuvogskirkja sem á sér merka og langa sögu en hún er ekki sett inn, aðeins kirkjugarðstáknið (þrír krossar). Þarna mætti ætla að kirkja væri aflögð sem er rangt.
sulur-101Suður undir Reykjanesi er örnefnið Tjaldstaðagjá sem vísar til bæjarnafns (-staðir) en á kortinu stendur Tjaldstæðagjá. Til eru skrif um byggð úti á Reykjanesi og örnefnið Tjaldstaðagjá styður þær sagnir, nafnið er rétt á eldri kortum. Súlnagjá er sett suðaustan við fjallið Súlur austan Hafna en gjáin er vestan (neðan) við fjallið og hefur verið rétt staðsett á eldri kortum. Gamli-Kirkjuvogur (nefndur Vogur í Landnámu, seinna kirkjustaður) stóð handan við Ósana norðan Hafna en var fluttur til Hafna líklega vegna landbrots og landeyðingar á 16. öld. Á kortinu er Gamla-Kirkjuvogs ekki getið en hann er á eldri kortum. Á Grímshól á Vogastapa er hringsjá en hún er ekki sýnd (var á korti frá 1989).Þorpið Vogar var byggt út úr höfuðbýlinu Stóru-Vogum en það nafn er ekki inni nú, aðeins Minni-Vogar. Örnefnin Stapaþúfa, Gjásel og Brunnastaðasel í Strandarheiði eru sett niður á röngum stöðum.

Brunnastadasel-101

Stapaþúfa er suðvestan við Gjásel og Gjásel norðan Brunnastaðasels. Enn og aftur er bæjarnafnið Auðnar á Vatnsleysuströnd rangt skráð á kort, sagt Auðnir, en í Jarðabókinni 1703 og í öðrum gömlum heimildum er alltaf sagt Auðnar. Höskuldarvallastígur er settur á núverandi göngustíg sem liggur frá Oddafelli að Keili en örnefnið á aðeins við gömlu götuna sem liggur yfir hraunið næst Oddafelli en sú lá yfir í selin austan við. Sandakravegur (gömul lestaleið að austan til Suðurnesja) hefur alla tíð verið rangt staðsettur á kortum og er enn. Yngstu reiðgötuna um Herdísarvíkurhraun vantar á kortið en sú elsta (?) er sýnd þó óljós sé. Yngsta reiðgatan er djúp og vörðuð og fær bæði hestum og fólki og ætti frekar heima á kortinu en sú eldri. Sláttudalur austan Geitahlíðar (fjall, 384 m) í Krýsuvíkurlandi er á röngum stað nú en var réttur á korti 1989.
Örnefnið Meltunnuklif-101Geitahlíð hefur aldrei fyrr teygt sig austur með hlíðinni frá fjallinu Geitahlíð. Samkvæmt örnefnaskrám heitir fjallið sjálft (hnjúkurinn) Geitahlíð og efst á því tróna Æsubúðir. Örnefnið Drumsdalavegur er sett á vellina sunnan við Vigdísarvallaeyðibýlið en á heima á fjallveginum yfir Sveifluhálsinn sunnarlega en þar er kletturinn Drumbur. Reykjavegur (stikuð gönguleið) er rangur að hluta á kortinu, villa sem hver apar eftir öðrum. Hann liggur EKKI um Méltunnuklif og svo austan við Höfða heldur niður Brattháls norðan klifsins og svo vestan Höfðans og gengur um skarðið milli hans og Sandfells. Þeir sem stofnuðu til Reykjavegarins ættu að koma upplýsingum um legu hans í rétt horf sem fyrst. Fyrrnefnd villa er ekki sú eina á þessari leið.

Raudholssel-101

Rauðhólssel – uppdráttur ÓSÁ.

Í kynningu kortsins er sagt að það hafi að geyma „helstu upplýsingar sem útivistarfólk þarf á að halda.“ Því miður er ekki svo. Á svæðinu eru margar rústir sem útivistarfólk hefur ánægju af að skoða en eru ekki settar inn, ekki einu sinni merktar með rústakrossi (x). Hér má nefna selrústir í Hafnaheiði, Merkinessel og Möngusel; selrústir við Seltjörn við Grindavíkurveg; Nýjasel við Skógfellaveg; Hvassahraunssel og Lónakotssel; selrústirnar við og í Núphlíðarhálsinum, þ.e. Rauðhólssel, Oddafellssel og Sogasel svo ekki sé talað um selrústirnar á Selsvöllum.

Flestar fyrrnefndar rústir liggja við merktar gönguleiðir á kortinu. Gvendarhellir í Krýsuvíkurhrauni er merkilegur vegna mannvistarleifa og sagna en hann er ekki á kortinu en er á eldri kortum. Elsta (?) þjóðleiðin með Suðurströndinni er sýnd um Herdísarvíkurhraun eins og fyrr segir en nálægt henni eru selrústir sem og gömul fjárrétt á Seljabótarnefi sem er við það að hverfa í hafið. Þessar rústir eru ekki settar inn.

Suðvesturland

Suðvesturland – kort.

Sumar gönguleiðirnar á kortinu enda að því er virðist í öngstræti og ekkert sem segir að við lok þeirra sé eitthvað áhugavert, t.d. er einn slíkur leggur í Geldingahrauni austan Afstapahrauns og annar ofan Draugahlíða í átt að Brennisteinsfjöllum. Sú leið hefði átt að liggja alla leið að námunum en þar eru merkar mannvistarleifar í og við hverasvæði. Flest þarf gagnrýni við. Ef enginn gagnrýnir birtast sömu villurnar aftur og aftur eins og illgresi í túni.
Landakortaútgáfa virðist varðveita villur af kerfislegri íhaldssemi og heimur versnandi fer þrátt fyrir sérfræðinga út og suður. Atlaskortin eru vönduð sem og kort frá 1989 og mættu kortagerðarmenn hafa þau meira til hliðsjónar við gerð nýrri korta. Sögufalsanir eru nógu slæmar þó ekki séu þær skjalfestar um aldur og ævi.“
Framangreint kort er langt í frá að vera gallalaust líkt og gerist með slík kort nú til dags. Sennilega kemst ekki skikk á ágreiningis- og deilumál um örnefni og minjar á Reykjanesskaganum fyrr en væntanleg „Reykjanesskinna“ kemur út seint á öðru áratug þessarar aldar.
Til upplýsinga og fróðleiks um framangreint Rauðhólssel, svo dæmi sé tekið, má t.d. geta heimildar í Jarðabók ÁM og PV 1703: Stóra-Vatnsleysa; „Selstöðu á jörðin þar sem heitir Rauðhólssel, eru þar hagar viðsæmandi, en stórt mein á vatnsskorti“.

Heimild:
-Morgunblaðið 16. júlí 2005, bls. 30.
-Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns, 3. b. 1923. S. 152.

Gvendarborg

Gvendarborg.